Laugardagur 14. september 2024
Síða 169

Eyjarnar Grímsey og Borgarey eignarlönd

Grímsey á Steingrímsfirði er skammt undan Drangsnesi.

Eyjan Borgarey tilheyrir jörðinni Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi samkvæmt heimildum Bæjarins besta. Fjármálaráðherra hefur lagt fram kröfu fyrir Óbyggðanefnd um að eyjan verði viðurkennd sem þjóðlenda. Vatnsfjörður er í eigu prestsetrasjóðs Þjóðkirkjunnar. Pétur Markan, biskupsritari, segist vera fullviss um að Vatnsfjörðurinn og lendur séu í eigu þjóðkirkjunnar, en ætlar að athuga málið nánar.

Þá hefur fjármálaráðherra einnig gert kröfu um Grímsey á Steingrímsfirði sem þjóðlendu. Eftir því sem Bæjarins besta kemst næst hefur eyjan tilheyrt jörðunum Bæ I og Bæ II sem eru utan við Drangsnes. Hefur eignarhald gengið kaupum og sölum. Þannig seldi Ingólfur Andrésson, bóndi á Bæ 50% eignarhlut sinn í Grímsey til Jóns Magnússonar á Drangsnesi og hann síðar til bróður síns Ásbjörns Magnússonar, einnig á Drangsnesi.

Magnús Ásbjörnsson, sonur Ásbjörns, sagði í samtali við Bæjarins besta að hin 50% í eyjunni væru í eigu fjölmargra afkomenda Bæjarættarinnar. Á eyjunni væri æðarrækt og kæmu um 10 kg af æðardún árlega úr varpinu og tekjur væru af lundaveiði og siglingum með ferðamenn í eyjuna. Magnús sagði að til væri þinglýst bréf um eignarhaldið.

Fyrir nokkrum árum, 6 – 8 árum hélt Magnús, hefði farið fram uppboð á 0,5% eignarhlut í eyjunni og hefði fengist 1,2 – 1,3 m.kr. fyrir hlutinn. Sé það verð til marks um verðmæti eyjunnar er það um 250 m.kr.

Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna við kröfur ríkisins að gæta. Kröfum skal lýst skriflega í síðasta lagi 15. maí 2024. Að lokinni gagnaöflun og rannsókn á eignarréttarlegri stöðu svæðanna úrskurðar óbyggðanefnd um framkomnar kröfur. Úrskurði nefndarinnar er hægt að bera undir dómstóla.

Patreksfjörður: Ný viðbygging við leik­skólann Araklett

Bergdís Þrastardóttir leikskólastjóri tekur við styrk frá Lionsklúbbnum á Patreksfirði.

Í síðustu viku á Degi leik­skólans, var ný viðbygging við leikskólann Araklett á Patreksfirði form­lega opnuð og er nú pláss fyrir 60 börn á leik­skól­anum. 

Viðbyggingin markar tímamót hvað varðar starfsemi leikskólans þar sem samhliða því að viðbyggingin var tekin í notkun voru gerðar miklar breytingar á starfsemi leikskólans. Allt skipulag starfseminnar var endurskoðað, breytingar hafa orðið á deildarskipan, aukið hefur á fjölbreytileika rýmanna, gert er ráð fyrir sérkennslurými, starfsmannaaðstaða hefur verið bætt og fleira sem gerir það að verkum að rýmin á Arakletti uppfylla nú gæðaviðmið um húsakost leikskóla. Á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins Vesturbyggðar þetta árið er einnig gert ráð fyrir að halda áfram viðhaldi á eldra húsnæði og nauðsynlegum endurbótum á lóðinni eftir framkvæmdirnar. 

Rausnarlegar gjafir frá Lions, Odda hf og einstaklingum í nærsamfélaginu bárust, sem Bergdís Þrastardóttir, leikskólastjóri þakkar fyrir og segir hún að ekki muni líða á löngu áður en leikskólinn mun einnig uppfylla gæðaviðmið um námskost.

Vegleg gjöf frá Odda hf sem Skjöldur Pálmason afhenti.

Myndir: Vesturbyggð.

Verknámshús M.Í.: Tálknafjörður ekki með

Lilja Magnúsdóttir, oddviti Tálknafjarðarhrepps.

Sveitarstjórn Tálknafjarðar tók fyrir á fundi sínum í gær erindi frá Vestfjarðastofu um þátttöku í nýju verkmenntahúsi Menntaskólans á Ísafirði. Að sögn Lilju Magnúsdóttur odvita hafnaði sveitarstjórnin samhljóða að taka þátt í verkefninu.

Í bókun segir: „Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tekur undir með bæjarráði Vesturbyggðar að hagsmunir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum af þátttöku í byggingu verknámshús þurfi að vera skýrir svo að sveitarstjórn geti rökstutt þátttöku í verkefninu. Huga þurfi að aðgengi nemenda á öllum Vestfjörðum og hvernig skuli að því staðið. Þá telur sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps sig þurfa að taka mið af afstöðu Vesturbyggðar í málinu í ljósi sameiningar sveitarfélaganna nú á vormánuðum. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps sér sér því ekki fært að taka þátt í byggingu verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði eins og það er sett upp.“

Lilja segir að af þessu leiði að  Tálknafjarðarhreppur muni ekki taka þátt í sameiginlegri umsókn í Fiskeldissjóð.

OV: næst að rannsaka Vatnsdalsvirkjun og bera saman við aðra virkjunarkosti í rammaáætlun

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Í fréttatilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða kemur fram að samandregin niðurstaða umsagna um Vatnsdalsvirkjun sé að sú virkjun komi til með að raska náttúrufars- og menningarþáttum sem hafa hátt verndargildi samkvæmt lögum og skilmálum friðlýsingar, en að áhrifin eru staðbundin og varða í einhverjum tilfellum þætti sem eru útbreiddir á svæðinu. Í ljósi þeirrar niðurstöðu, og með hliðsjón af brýnum almannahagsmunum sem felast í að mæta orkuþörf Vestfjarða er það mat Orkubús Vestfjarða að það sé mikilvægt næsta skref að rannsaka ítarlega forsendur Vatnsdalsvirkjunar og bera saman við aðra virkjunarkosti í rammaáætlun.

Alls gáfu tólf umsagnaraðilar umsögn um erindið og greinargerðina. Megin viðfangsefni í umsögnum snúa að birkiskógum, óbyggðum víðernum, vatnamálum, samfélagsþáttum og valkostum auk óvissu um umhverfisáhrif. Þá kalla umsagnaraðilar eftir ítarlegri rökstuðningi um brýna samfélagslega nauðsyn þess að skoða virkjun innan friðlandsins í Vatnsfirði.

Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða:


Nú liggja fyrir umsagnir frá fjölbreyttum hópi umsagnaraðila. Ég hef sent orku- og loftslagsráðherra minnisblað sem unnið var af VSÓ ráðgjöf og Orkubúi Vestfjarða þar sem innihald umsagna er dregið saman eftir mismunandi flokkum. Orkubúið hefur í kjölfar umsagnar Vesturbyggðar bætt við samanburði Vatnsdalsvirkjunar við Tröllárvirkjun, sem er hluti af Rammaáætlun 4. Báðar virkjanir eru á ábyrgð Orkubúsins. Tröllárvirkjun er að mati Orkubús Vestfjarða ekki hagkvæm og óvissa er um aðra nýtingu á vatnasviði virkjunarinnar. Samkvæmt forathugun telur Orkubú Vestfjarða möguleika á að umhverfisáhrif Vatnsdalsvirkjunar séu minni. Uppistöðulón Vatnsdalsvirkjunar yrðu á þegar röskuðu svæði, en flutningslína Landsnets, Mjólkárlína liggur um svæðið.  Fallpípa virkjunarinnar yrði niðurgrafin og boruð 220m niður í stöðvarhúshvelfingu, en 500m aðkomugöng og önnur 500m frárennslisgöng myndu liggja úr Vatnsdal inn í hvelfinguna. Með því yrðu sjónræn áhrif í Vatnsdal lágmörkuð eftir að framkvæmdum lýkur.  

Á Vestfjörðum er til staðar viðvarandi slæmt ástand í orkumálum. Á þessu ári og síðustu árum einnig hefur Orkubúið þurft að framleiða mikið magn orku með jarðefnaeldsneyti og það er óásættanleg staða fyrir okkar landshluta. Orkubúið telur það samfélagslega ábyrgt að bera Vatnadalsvirkjun saman við aðra kosti sem eru í rammaáætlun til þess að taka upplýsta ákvörðun sem hentar hagsmunum Vestfjarða sem best. Þá er mikilvægt að hafa í huga að ákvörðun um að bera saman áform um Vatnsdalsvirkjun við aðra virkjunarkosti felur ekki í sér ákvörðun um virkjun“.

Orkubúið telur að í umsögnum aðila um greinargerðina hafi komið nytsamar ábendingar um rannsóknir sem þarf að ráðast í og gögn sem þarf að afla til að fá heildstæðari mynd af áhrifum virkjunar í Vatnsfirði. Þessar ábendingar muni nýtast í áframhaldandi vinnu verði tekin ákvörðun um að skoða Vatnsdalsvirkjun sem valkost þegar horft er til raforkumála á Vestfjörðum.

Mynd af svæðinu í skýrslu VSÓ.

Þingeyri: viðgerðarkostnaður á sundlaug hækkar í 33 m.kr.

Sundlaugin á Þingeyri.

Kostnaður við viðgerð á sundlaugardúk í íþróttamiðstöðinni á Þingeyri er talinn verð 12,5 – 13 mkr. eftir því sem fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar. Í nóvember síðastliðinn kom í ljós að dúkurinn væri ónýtur. Við frekari athugun kom í ljós að lagnir undir sundlaugarkerinu leka. Orsakir lekans má rekja til þess að baulur við samsetningar, lagna og
innstreymisstúta eru ýmist að brotna, eða við það að detta í sundur vegna ryðgaðra bolta.

Starfsmenn Á Óskarsson hefja vinnu við viðgerðir í þessari viku og heildarkostnaður við verkið er talinn geta endað í 12,5-13 m.kr.

Í viðhaldsáætlun ársins var lagt upp með að endurnýja glugga í íþróttamiðstöðinni og var gert ráð fyrir 22
m.kr.- í íþróttamiðstöð Þingeyrar á árinu 2024 þar af 20 m.kr. í glugga. Viðgerðin á sundlaugardúknum bætist við og hækkar þá kostnaðurinn í um 33 m.kr.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar taldi heppilegast í þessari stöðu að áfangaskipta gluggaskiptum sundlaugarinnar til að koma til móts við þennan kostnaðarauka, þannig að hluti viðhalds glugga verði árið 2024 og að gert verði ráð fyrir fjármunum í fjárhagsáætlun 2025 vegna síðari hluta gluggaskipta.

Skák: Guðmundur Gíslason Íslandsmeistari 50 ára og eldri

Mynd: skak.is

Ísfirski FIDE-meistarinn Guðmundur Gíslason kom sá og sigraði á Íslandsmóti 50 ára og eldri sem fram fór 8. og 9. febrúar. Guðmundur varði titilinn, sem hann vann fyrir 10 árum, sem var í fyrsta og eina skipti sem mótið hefur verið haldið þar til nú.

Guðmundur hlaut átta vinninga í umferðunum níu. Gerði aðeins tvö jafntefli á móti Magnús Pálma Örnólfssyni og gegn Rúnari Sigurpálssyni í lokaumferðinni.

Bolvíkingurinn, Magnús Pálmi , tók einmitt annað sætið og Akureyringurinn Rúnar það þriðja eftir oddastigaútreikning. Landsbyggðarmenn tóku því öll verðlaunasætin!

Jafnir Rúnari í þriðja sæti en með lægri oddastig voru Róbert Lagerman, Ægir Páll Friðbertsson (enn einn Vestfirðingurinn) og Baldur A. Kristinsson.

Þórir SK 16

Þórir SK 16 ex Þórir Dan NS 16. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 1986

Þórir SK 16 sést á þessari mynd koma til hafnar á Sauðárkróki sumarið 1986.

Báturinn var smíðaður á Seyðisfirði árið 1973 fyrir Bjarg h/f þar í bæ. Hann var 12 brl. að stærð.

Seldur Gunnari Egilssyni í Bolungarvík árið 1974 og hélt hann nafninu en varð ÍS 166.

Útgerðarfélagið Dúfan á Sauðárkróki keypti bátinn árið 1979 og varð hann við það Þórir SK 16.

Hann var síðar í eigu Þóris s/f á Sauðárkróki en var seldur 1996 til Vestmannaeyja þar sem hann fékk nafnið Leó VE 1 og síðar VE 400. Eigandi Steingrímur Sigurðsson.

Árið 2000 er hann kominn í eigu Þrídranga ehf. og fær nafnið Svanborg VE 52.

Það nafn bar báturinn þar til yfir lauk en Svanborg VE 52 sökk eftir að leki kom að henni 24. maí árið 2004, 3 sjm. austur af Bjarnarey. Mannbjörg varð.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Háskólasetur fær Jules Verne styrk og heimsókn frá franska sendiherranum

Frá vinstri Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða og Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands á Íslandi

Háskólasetur Vestfjarða hlaut á dögunum Jules Verne styrkinn, en það er styrkur til vísinda- og tæknisamstarfs milli íslenskra og franskra aðila á grundvelli Jules Verne samstarfs samningsins.

Styrknum er stýrt af rannsóknastjóra Háskólaseturs Vestfjarða, Dr. Catherine Chambers og Dr. Denis Laborde, þjóðfræðingi hjá frönsku rannsóknarstofnuninni fyrir vísindi.

Verkefnið gengur út á að kanna sameiginlegan menningararf og sjávarminjar Íslands og Baskalands sem getur gegnt hlutverki í sjálfbærri samfélagsþróun.

Baskasetrið í Djúpavík

Á föstudaginn 9. Febrúar kom Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands á Íslandi til Vestfjarða og heimsótti Háskólasetrið. Hann fékk kynningu á starfsemi Háskólaseturs og þeim fjölmörgu tengingum sem eru á milli Háskólaseturs og Frakklands. Til að mynda koma nemendur frá Frakklandi í meistaranám hjá Háskólasetri Vestfjarða á hverju ári og einnig er vísindalegt samstarf milli Háskólaseturs Vestfjarða og Brest í Frakklandi.

Sáralítið mælist af loðnu

Önnur yfirferð loðnumælinga á árinu er nú langt komin með þátttöku þriggja uppsjávarveiðiskipa.

Eftir stendur að fara yfir Vestfjarðamið en Heimaey og Polar Ammassak þurftu frá að hverfa þaðan um helgin vegna veðurs. Áætlað er að yfirferðinni ljúki á miðvikudaginn.

Ásgrímur Halldórsson lauk við sína yfirferð úti fyrir Norðaustur- og Austurlandi um helgina.

Þótt yfirferðinni sé ekki lokið vill Hafrannsóknastofnun upplýsa strax að mjög lítið hefur mælst af loðnu það sem af er þessari febrúar mælingu.

Gert er ráð fyrir frekari vöktun og yfirferð að þessum mælingum loknum en fyrirkomulag þeirra skýrist seinna í vikunni. Svæðin sem þá verður líklegast lögð áhersla á eru norðvestur af landinu og undan Vestfjörðum ásamt Suðausturmiðum.

Hafís um 60 sjómílur frá landi og getur færst nær.

 Á gervitunglamyndum sést að mikill hafís er á svæðinu milli Grænlands og Íslands, að hluta innan miðlínu. Einng má gera ráð fyrir borgarís á víð og dreif.

Í vestan- og suðvestanáttum sem spáð er næstu daga má búast við því að ísinn muni færast nær landi.

Borgarísjakar geta verið varasamir fyrir skip á siglingu.

Nýjustu fréttir