Laugardagur 14. september 2024
Síða 168

Vísindaportið: Dr.Christine Palmer með erindi um svepparætur

Í erindinu verður farið yfir hvaða hlutverki svepparætur gegna í íslenskum jarðvegi og áframhaldandi viðleitni fræðimanna til að skilja mikilvægi þeirra fyrir trjárækt, kolefnisgeymslu og líffræðilegan fjölbreytileika vistkerfa. Erindið verður á ensku.

Dr. Palmer er líffræðingur frá Vermont í Bandaríkjunum. Hún er með masterspróf í sameindalíffræði og doktorsgráðu í plöntulíffræði. Dr.Palmer hefur undanfarin tíu ár starfað sem háskólakennari og fræðimaður. Frá árinu 2020 til 2021 dvaldi hún á Íslandi sem Fulbright styrkþegi og vann hjá Skógræktinni þar sem hún rannsakaði hvaða áhrif svepparætur geta haft á jarðveg víðsvegar um landið. Dr.Palmer er nýráðin forstöðumaður School of International Training (SIT) og er með aðsetur í Háskólasetri Vestfjarða.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða á morgun, föstudag frá kl. 12.10 til 13.00

Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna slóðina hér:

https://eu01web.zoom.us/j/6994747

400 þúsund með skráð lögheimili á Íslandi

Samkvæmt skráningu í þjóðskrá eru einstaklingar með skráð lögheimili á Íslandi orðnir 400 þúsund talsins. Þetta kemur fram í frétt frá Þjóðaskrá Íslands. Þar af eru 7.510 manns með lögheimili á Vestfjörðum. Fámennasta landssavæðið er Norðurland vestra með 7.478 manns. Á höfuðborgarsvæðinu eru 254.831 manns, sem er fjölmennasta landssvæðið. Næst því kemur Suðurland með 35.576 manns. Suðurnes er í þriðja sæti með 32. 648 íbúa og á Norðurlandi eystra eru 32.371 íbúi með lögheimili.

Samkvæmt skráningu í þjóðskrá eru íslenskir ríkisborgarar orðnir 374 þúsund talsins og þar af eru um 13% með skráð lögheimili erlendis. Íslenskir ríkisborgarar með skráða búsetu á Íslandi eru því um 324 þúsund talsins. Alls voru 75.412 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. febrúar sl.

Ísafjörður: breytingum á Seljalandsvegi 73 andmælt

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar ákvað í desember að kynna breytingar á Seljalandsvegi 73 fyrir nágrönnum. Náði grenndarkynningin til  eigenda að Seljalandsvegi 71 og 75 og til eigenda að Miðtúni 23, 25 og 27.

Sótt er um að rífa núverandi svalir og gera nýjar með tröppum niður í garð. Um er að ræða stálgrind með harðviðardekki og glerhandriði. Núverandi svalir eru 38 m2 og fyrirhugaðar svalir verða 66 m2.

Athugasemdir komu frá eigendum Miðtúns 23 og 25 ásamt eigendum Seljalandsvegar 75 sem segjast ekki samþykkja umbeðnar breytingar. Gera þau athugasemdir við nýtingu byggingarreitsins, sem verði mun meiri en nærleiggjandi húsa. Þá hafi eignin verið stækkuð fyrir nokkrum árum og sé eftir það um tveimur metrum úr umræddri byggingarlínu. Það hafi riðlað götulínu og hún þrengd. Er varað við því að heimilað verði einum að bæta útsýni sitt með því að þrengja að öðrum og að það kunni að leiða til þess að aðrir fylgi í kjölfarið. Gera þurfi deiliskipulag fyrir svæðið sem setji þá reglurnar fyrir íbúana.

Skipulags- og mannvirkjanefndin fjallaði ummálið í síðustu viku og bókaði að nefndin tekur undir þau sjónarmið að framkvæmdin raski götumynd enn frekar en orðið hefur og fól byggingarfulltrúa að ræða við umsækjanda sem og nágranna. Málið verður lagt fyrir að nýju.

Þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag í efri byggð Ísafjarðar beinir nefndin því til bæjarstjórnar að hefja þá vinnu sem fyrst til að móta skilmála hverfisins.

Unglingar í Vesturbyggð fjalla um jafnrétti á Valda í Skjalda

Á þriðjudaginn var mikil gleði í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði en þar fór fram stuttmyndahátíðin Valda í Skjalda. Hátíðin er í anda Skjaldborgar, hátíðar íslenskra heimildamynda, sem fram fer í hinum gamalgróna og fallega kvikmyndasal ár hvert um hvítasunnuhelgina. Að baki Valda í Skjalda stendur unglingastig grunnskólanna í Vesturbyggð. Þetta er í annað sinn sem hátíðin er haldin og er þema hennar jafnrétti.

Nafnið Valda í Skjalda kemur frá krökkunum og vísar Skjalda í Skjaldborg en Valda vísar í valdatafl sem er heiti á lotu í skólunum. Í lotunni er skoðað hvaða hópar verða undir í samfélaginu, hvaða hópum þau tilheyra, hverjir hafa valdið utan þeirra sem hafa það skipað t.d. í krafti embætta og hvað hægt er að gera til að gera öllum jafn hátt undir höfði. Fyrir valdatafl fara fram lotur sem taka á mannréttindum og lýðræði, svo þau hafa öðlast enn frekari innsýn í hvað kann að vera fólgið í valdi.

Unglingarnir fá frjálsar hendur varðandi útfærslu á myndunum, þær mega vera leiknar, teiknaðar eða jafnvel stop-motion hreyfimyndir. Þeir sjá jafnframt um handritagerð, myndatöku, leikmynd, klippivinnu og svo auglýsingagerð.

Sem áður segja er þema hátíðarinnar jafnrétti og hafa krakkarnir þá skoðað fyrir hverju það stendur í augum hvers og eins. Jafnframt hafa þeir skoðað hvað gera má til að standa upp fyrir minnihlutahópum eða þeim sem auðvelt er að fordæma og kúga. Þetta mátti vel sjá í þeim sjö myndum sem sýndar voru á Valda í Skjalda, en þær tóku meðal annars á fordómum gagnvart hinsegin fólki, mismunun kynjanna á vinnustöðum, valdaójafnvægi í samböndum og þriðju vaktinni.

Valda í Skjalda hefur vakið verðskuldaða athygli og verður verkefnið meðal annars kynnt á menntaráðstefnu í Hofi í apríl.

Myndir: aðsendar.

HVEST: ekki hægt að fá pantaðan tíma hjá lækni

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafirði.

Í síðustu viku, nánar til tekið þann 6. febrúar, fengust þau svör hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði að ekki væri hægt að fá bókaðan tíma hjá lækni, þar sem allir tímar væru upppantaðir og var viðkomandi bent á að hringja eftir 16. febrúar og athuga þá möguleika að fá tíma.

Athugað var þá að fá tíma hjá sérfræðingi á höfuðborgarsvæðinu, en til þess þarf tilvísun frá heimilislækni. Spurt var fyrir um möguleika á tíma hjá lækni á Ísafirði til þess að gefa tilvísun. Eftir athugun var í boði að fá tíma 19. febrúar.

Bæjarins besta hafði samband við Hildi Pétursdóttur, settan forstjóra stofnunarinnar og innti eftir skýringum á þessum svörum.

Hildur segir svona tímatakmarkanir á bókunum í læknatíma vera þekkt um allt land, og vera allt frá einni viku upp í fjórar vikur.

„Þetta er gert til að minnka tímasóun í kerfinu sem og vegna skipulags í læknamönnun. Við höfum verið að þróa þetta áfram hjá okkur hvernig skipulag er best að hafa á þessu þannig að að allir tímar nýtist sem best.“

Vesturbyggð: vill menntasetur á sunnanverðum Vestfjörðum

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Þórdís Sif Sigurðardóttur, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að á sunnanverðum Vestfjörðum sé þegar starfandi framhaldsdeild frá FSN (Fjölbreytaskóla Snæfellsness). Sveitarfélögin [Vesturbyggð og Tálknafjörður] hafi óskað eftir samtali við mennta- og barnamálaráðuneytið um það hvernig auka megi aðgengi að fjölbreyttara námi á svæðinu og er ein hugmyndin að framhaldsdeildin verði útvíkkuð í menntasetur þar sem fleiri framhalds- og menntaskólum yrði boðið að vera hluti af einingunni. Ef það yrði að veruleika þyrfti að skipuleggja námið þannig að hluti væri í staðnámi og hluti í fjarnámi og staðnám færi þá fram á þeim tímabilum sem samgöngur eru einfaldari.

nota ekki verknámshúsið

„Varðandi þróun fjölda nemenda frá suðurfjörðunum við Menntaskólann á Ísafirði þá er það bara mjög ánægjulegt, enda viljum við að sem flest þeirra sem útskrifast úr grunnskólum Vesturbyggðar haldi áfram í námi.“ segir Þórdís. En hún segir að flestir þeirra sem eru í verknámi eða 12 af 16 séu á sjúkraliðabraut sem nýti ekki verknámshúsið.

„Í gögnum sem við höfum fengið frá MÍ eru 19 nemendur með póstnúmer í Vesturbyggð og Tálknfjarðarhrepp. Þar af 16 í verknámi. Af þessum 16 eru 12 á sjúkraliðabraut í dreifnámi, en samkvæmt upplýsingum frá MÍ er námið þannig sett upp að nemendur fara í verklegar staðlotur, eina á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Patreksfirði, eina í Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði og eina önn til Reykjavíkur. Taldi bara mikilvægt að það kæmi fram, þar sem að það hljómar eins og það séu 16 nemendur frá sunnanverðum Vestfjörðum sem myndu nýta sér verknámshúsið, en það er ekki ætlað fyrir sjúkraliðabrautina, samkvæmt mínum upplýsingum a.m.k.“

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði segir að frá Vesturbyggð og Tálknafirði séu núna 16 í verknámi, af þeim eru 8 í sjúkraliðanámi.  „Þeir nemendur koma hingað í lotu og sumir í verknám á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og hafa þá getað fengið gistingu á heimavistinni.

Hinir verknámsnemendurnir eru í grunnnámi rafiðngreina, húsasmíði, matartækni og vélstjórn A. Helmingurinn af þeim eru í dagskóla, aðrir í dreifnámi og koma hingað í lotur og fá þá gistingu á heimavistinni.“

Hvernig nýtast vindpokar?

Vindpoki á Reykjavíkurflugvelli sýnir vindátt og -styrk. Fullstrekktur pokinn gefur til kynna að vindur sé 15 hnútar (7,5 m/s) eða meiri. Samkvæmt upplýsingum frá flugturni var vindurinn norðvest- lægur og 20 hnútar (10 m/s) þegar myndin var tekin 11.09.2012. Ljósmynd: Birta Líf Kristinsdóttir.

Vindpokar eða vindsokkar eru notaðir á flugvöllum til að gefa flugmönnum sjónræna vísbendingu um stefnu og styrk vinds í flugtaki og lendingu.

Þessir pokar geta þó gagnast öðrum en flugmönnum en ökumenn við þjóðveg 1 geta t.d. nýtt sér einn slíkan poka við suðaustanvert Ingólfsfjall.

Allir pokar á Íslandi eru af þeirri gerð að fullstrekktir tákna þeir 15 hnúta vindstyrk (~7,5 m/s) eða meira.

Vindpokar geta verið í mörgum litum en hér á landi er heillitaður appelsínugulur poki í notkun eða röndóttur, hvítur og appelsínugulur.

Í reglum Aþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO – Annex 14, 5.1.1.3) er mælst til að hafa fimm rendur þegar poki er röndóttur þar sem fyrsta og síðasta rönd skulu vera í dekkri litnum. Á slíkum pokum er auðvelt að meta vindstyrkinn en strekktur poki við fyrstu rönd sýnir 5 hnúta (u.þ.b. 2,5 m/s) og við aðra rönd eru það 10 hnútar (u.þ.b. 5 m/s). Hér á landi eru hins vegar notaðir pokar með eina hvíta rönd og táknar poki strekktur í hana þá 7 til 8 hnúta vind (3,5 – 4,0 m/s).

Samkvæmt reglum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar eiga pokarnir að vera 3,6 m á lengd og 0,9 m í þvermál við breiðari endann. Pokarnir skulu hanga í 6 m hæð.

Af vefsíðunni vedur.is

Þrjú umferðaróhöpp í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum.

Þrjú umferðaróhöpp urðu í síðustu viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum.

Um var að ræða árekstur tveggja bifreiða í göngunum undir Breiðadals- og Botnsheiði. Engin slys urðu á ökumönnum eða farþegum.

Þá missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Flateyrarvegi. Ökumaður og farþegar voru fluttir á sjúkrahús til skoðunar en ekki reyndist um alvarleg meiðsl að ræða.

Daginn eftir missti annar ökumaður stjórn á bifreið sinni á sama vegi. Hann sakaði ekki.

Mikilvægt er að ökumenn hafi í huga að akstursskilyrði eru ekki með besta móti þessa dagana, hálka og snjóþekja á flestum vegum.

Þá vill lögreglan minna vegfarendur sem aka á milli landshluta að reyna að haga ferðum sínum með þeim hætti að þær eigi sér stað á þjónustutíma Vegagerðarinnar.

Salmonella í sælgæti

Matvælastofnun varar við neyslu á nokkrum framleiðslulotum af  Chalva sezamowa sælgæti sem Mini Market flytur inn vegna salmonellu. Fyrirtækið hefur í samráði við heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur innkallað vöruna.

  • Vörumerki: Sultan
  • Vöruheiti: Chalwa Sezamowa
  • Geymsluþol: Best fyrir Dagsetning: 09.07.2025 og allar eldri dagsetningar
  • Nettómagn: 100 g
  • Strikamerki: 5907180567512, 5906660133780, 5906660133254, 5906660133247, 5906660133230.
  • Framleiðandi (pökkunaraðili): Elis Ali Eski, Póllandi
  • Innflytjandi: Mini Market, Drafnarfelli 14, 111 Reykjavík.
  • Dreifing: Mini Market

Tilkynningin um innköllunina kom í gegnum evrópska hraðviðvörunarkerfið RASFF um hættuleg matvæli og fóður á markaði.

Salmonella er hópur þarmasýkla og er hún sjálfstæð ættkvísl. Salmonella er í raun bara ein tegund sem kallast Salmonella enterica, en í dag er litið svo á að tegundinni tilheyri 7 undirtegundir og 2200 sermigerðir. Allar sermigerðirnar geta valdið sjúkdómum hjá mönnum en algengustu afbrigðin sem valda sýkingum eru S. Typhimurium og S. Enteritidis.

Neytendum sem keypt hafa vöruna er bent á að neyta hennar ekki, farga eða fara með hana í verslunina til að fá endurgreiðslu.

Vinna við samein­ingu Vesturbyggðar og Tálknafjarðar í fullum gangi

Birkimelur á Barðaströnd.

Undan­farna vikur og mánuði hefur ýmiss vinna verið í gangi sem miða að því að sameining Vest­ur­byggðar og Tálkna­fjarð­ar­hrepps muni ganga sem best.

Kosið var um samein­ingu 28. október sl. þar sem afger­andi meiri­hluti íbúa kaus með samein­ing­unni.

Undirbúningsstjórn um sameininguna er skipuð þremur fulltrúum Vesturbyggðar og þremur fulltrúum Tálknafjarðarhrepps. 

Helstu verkefni undirbúningsstjórnar eru m.a.

  • Vinna nýja samþykkt um stjórn og fundarsköp
  • Ákveða kjördag og gildistöku sameiningar
  • Hefja vinnu við val á nýju nafn, bæjarmerki
  • Fá staðfestingu ráðuneytis svo sameiningin geti átt sér stað

Kosið verður til sameiginlegrar sveitarstjórnar 4. maí næstkomandi og mun sameiningin taka gildi 15 dögum síðar eða 19. maí. Ný sveitarstjórn mun hafa tvær vikur frá sameiningardegi til að koma saman til fyrsta fundar.

Kosið verður í heimastjórnir sama dag og kosið verður til sveitarstjórnar og eru tveir fulltrúar kosnir á hverjum stað en það verða fjórar heimastjórnir. Á Patreksfirði, Bíldudal, Tálknafirði og Barðaströnd og gamla Rauðasandshreppi.

Á fundi undirbúningsstjórnar sem haldinn var 7. febrúar sl. var ákveðið að hefja ferli við val á nafn á sameinað sveitarfélag. Byrjað verður á því að kalla eftir tillögum frá íbúum um nafn á sameinað sveitarfélag og í framhaldi af því verða tillögur sendar til örnefnanefndar til umsagnar.

Á þriðja fundi undirbúningsstjórnar var samþykkt að nýtt sveitarfélag muni bera núverandi kennitölu Vesturbyggðar.

Þessa dagana er vinna að hefjast við ýmis praktísk mál eins og fjárhagskerfi sveitarfélaganna, launakerfi, skjalakerfi ofl.

Vinna er hafin við yfirferð á heimasíðum sveitarfélaganna en byggt verður á heimasíðu Vesturbyggðar, gera má ráð fyrir einhverjum breytingum á síðunni.

Verið er að fara yfir samninga sem í gildi eru og samræma og segja upp því sem segja þarf upp tímanlega til að komast hjá óþarfa kostnaði.

Nýjustu fréttir