Laugardagur 14. september 2024
Síða 167

Arctic Fish: byggingarleyfi fyrir sjókvíar á Sandeyri í höfn

Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Á þriðjudaginn tilkynnti Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um breytta stjórnsýsluframkvæmd vegna veitingar byggingarleyfa fyrir sjókvíar sem teljast mannvirki í skilningu laga um mannvirki nr. 160/2010, og eru utan netlaga. Frá og með gærdeginum, 15. febrúar 2024 var gerð krafa um byggingarleyfi vegna nýrra byggingarleyfisskyldra sjókvía sem rekstraraðilar hyggjast setja niður utan netlaga.

Litið er svo á að sjókvíar sem festar eru við botn séu mannvirki. Á þetta einnig við um fóðurpramma og/eða aðstöðuhús á flotkví  sem hafa fasta staðsetningu.

Byggir þessi breyting á úrskurðum umhverfis- og auðlindanefndar sem kveðnir voru upp í lok árs 2022 þar sem fjallað var um hvort sjókvíar gæti talist til mannvirkja.

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish sagði í samtali við Bæjarins besta að þetta mál ætti sér aðdraganda. Arctic Fish hefði ákveðið fyrir allnokkru að sækja um byggingarleyfi fyrir sjókvíar á eldissvæði við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi og komin væri tilkynning frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um að leyfið væri tilbúið. Umsóknarferlið hafi tekið langan tíma þar sem stjórnvöld voru í raun ekki tilbúin til þess að fá umsóknir.

Daníel taldi að þessi nýja krafa myndi ekki hafa áhrif á afgreiðslu umsóknar félagsins um laxeldi í Ísafjarðardjúpi þar sem leyfið væri í höfn. Þá hefði þetta ekki áhrif á afgreiðslu Matvælastofnunar eða Umhverfisstofnunar á rekstrarleyfi og starfsleyfi fyrir fiskeldið. Í þeim tilvikum þar sem byggingarleyfi fyrir eldiskvíarnar lægi ekki fyrir yrði þá væntanlega sett í leyfin skilyrði um að afla byggingarleyfis frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Auglýst eftir nafni á nýtt sveit­ar­félag

Frá Patreksfirði.

Óskað er eftir tillögum frá íbúum Vesturbyggðar og Tálknafjarðar um nafn á nýtt sameinað sveit­ar­félag Vest­ur­byggðar og Tálkna­fjarð­ar­hrepps. Frestur til innsend­ingar er til kl. 13 fimmtu­daginn 29. febrúar.  

Undirbúningsstjórn um sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps hefur ákveðið að hefja ferli við val á nafni á sameinað sveitarfélag. Kosið verður til sameiginlegrar sveitarstjórnar 4. maí næstkomandi og mun sameiningin taka gildi 15 dögum síðar eða 19. maí.

Óskað er nú eftir tillögum að nafni frá íbúum og í framhaldi mun undirbúningsstjórn senda tillögur til Örnefnanefndar til umsagnar. Tillögur íbúa verða leiðbeinandi, en ákvörðun um nafn hins sameinaða sveitarfélags er í höndum nýrrar bæjarstjórnar að fenginni umsögn Örnefnanefndar í samræmi við sveitarstjórnarlög.

Samkvæmt lögum skal nafnið samræmast íslenskri málfræði og málvenju og tengjast viðkomandi svæði sérstaklega. Æskilegt er að nafn sveitarfélagsins beri með sér að um stjórnsýslueininguna sveitarfélag sé að ræða, það er að heiti sveitarfélagsins endi til dæmis á -hreppur, -bær, –kaupstaður, -byggð, -þing eða að skeytt sé Sveitarfélagið framan við nafnið. Á vef Örnefnanefndar má finna upplýsingar um nefndina og meginsjónarmið um nöfn sveitarfélaga.

Innsendingar tillagna

Skilafrestur tillagna að nafni á nýtt sameinað sveitarfélag Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps er til kl. 13:00 fimmtudaginn 29. febrúar 2024. Tillögur berist í tölvupósti til menningar- og ferðamálafulltrúa á netfangið muggsstofa@vesturbyggd.is. Einnig er hægt að koma tillögum á framfæri í ráðhúsi Vesturbyggðar og á skrifstofu Tálknafjarðarhrepps á opnunartímum. Æskilegt er að tillögum fylgi rökstuðningur, þar sem því er lýst hvernig nafnið tengist svæðinu og samræmist íslenskri málfræði og málvenju.

Ísafjörður: skrifstofur slökkviliðsins fluttar

Skristofur slökkviliðsins hafa veriðfluttar í Landsbankahúsið.

Skrifstofur og slökkvitækjaþjónusta er flutt af slökkvistöðinni á Ísafirði.

Skrifstofur slökkviliðs eru nú í gamla Landsbankanum, Regus skrifstofur og slökkvitækjþjónusta er í Hafnarhúsinu, sama hús og Vínbúðin, hinn endinn. Opið er þar alla virka daga á milli 10-12.

Viðskiptavinir eru beðni að skilja ekki eftir slökkvitæki á slökkvistöðinni.

Mygla greindist í húsnæði slökkviliðsins við Fjarðarstræti  á nokkrum stöðum í húsnæðinu. Margra ára leki og raki er að skila sér í myglu í veggjum og þaki og er víða um stöðina.

Ísafjarðarbær: semur við ÍS 47 og greiðir 1 m.kr. í málskostnað

Aldan ÍS 47 við bryggju á Flateyri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur fallist á að semja við ÍS 47 ehf á Ísafirði í ágreiningsmáli milli fyrirtækisins og Ísafjarðarbæjar um lóðamörk við Hafnarbakka 5, á Flateyri. Felst samkomulagið í því að afmáð verður tiltekið skjal úr þinglýsingarbókum, skráning fasteignar leiðrétt, lóðarréttindi lóðarinnar við Oddaveg 3 verði tryggð og gerður verður samningur um leigu lóðarinnar Hafnarbakka 5, L141100, við Arctic Odda ehf. sem leigutaka.

Leggur bæjarráðið til við bæjarstjórn að að heimila niðurfellingu dómsmáls og greiða ÍS-47, 1 m.kr.- vegna
málskostnaðar sem var hluti af samkomulaginu.

Bæjarstjórnin tók svo málið fyrir á fundi sínum á þriðjudaginn og samþykkti einróma efnisatriði samkomulagsins.

Ísafjarðardjúp: styttist í ný leyfi

Háafell er eina fyrirtækið sem fengið hefur leyfi til eldis á frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Eldiskvíar Háafells utan Skötufjarðar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælastofnun hefur í tæp fimm ár haft til meðferðar og afgreiðslu þrjár umsóknir um leyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Arctic Fish er með umsókn um 8.000 tonn á leyfi fyrir eldi á frjóum laxi sem kæmi í stað leyfis fyrir 5.300 tonna eldi á regnbogasilungi, Arnarlax er með 10.000 tonna umsókn um laxeldi og Hábrún sækir um 11.500 tonna leyfi fyrir regnbogasilungseldi. Allar eru umsóknirnar sendar inn í maí 2019. Það eru Matvælastofnun og Umhverfisstofnun sem gefa út leyfin, sú fyrri rekstrarleyfi og sú síðari starfsleyfi.

Stein Ove Tveiten, forstjóri Arctic Fish segist telja að málið sé á lokastigi í Matvælastofnun og gerir sér vonir um að rekstrarleyfið verði gefið út innan skamms. Fyrirtækið hafi leyst úr öllum atriðum sem að því snýr og svör Matvælastofnunar séu á þann veg að ætla megi að málinu sé að ljúka með útgáfu leyfis. Umhverfisstofnun hefur þegar fyrir liðlega hálfu ári auglýst starfsleyfið.

Björn Hembre, forstjóri Arnarlax segir að unnið sé að leyfunum bæði hjá Matvælastofnun og hjá Umhverfisstofnun og hann vonast til þess að leyfin verði auglýst fljótlega.

Davíð Kjartansson hjá Hábrún ehf segir að umsóknin og matsáætlun sé hjá Matvælastofnun og beðið sé svara.

Menntaskólinn á Ísafirði í 2. sæti sem stofnun ársins

Menntaskólinn fékk góða einkunn í könnun sem stofnun ársins 2023. Alls tóku um 17.000 manns sem starfa hjá ríki og Reykjavíkurborg þátt í könnuninni sem fram fór í nóvember og desember á síðasta ári.

Í fréttabréfi Sameykis, stéttarfélags í almannaþjónustu segir að niðurstöður könnunarinnar veiti bæði afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

Tilgangur með vali á Stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri við stjórnun mannauðs. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og
starfsumhverfi. Að lokum veitir könnunin aðhald til hagsbóta fyrir starfsfólk, skjólstæðinga, viðskiptavini
og aðra hagsmunaaðila segir í fréttabréfinu.

Í flokki meðalstórra stofnana, sem hafa 50 – 89 starfsmenn, voru 45 stofnanir og fengust 1.804 svör. Þar varð Menntaskólinn á Ísafirði í 2. sæti með 4,481 stig í heildareinkunn og staðfesti góða einkunn sína frá árinu áður. Það er Þjóðskrá íslands sem varð efst íþessum flokki.

Varð M.Í. vel fyrir ofan bæði Matvælaráðuneytið og Forsætisráðuneytið svo dæmi séu nefnd.

„Við erum mjög stolt af þessum árangri. Hér er ákaflega góður starfsmannahópur og starfsandinn góður. Það er gott að fá samanburðinn við aðrar ríkisstofnanir og sjá að við stöndum okkur vel í þeim samanburði. Við tókum stórt stökk í fyrra og ánægjulegt að við höldum áfram að bæta okkur. Á sama tíma er þessi góði árangur hvatning til að gera enn betur því mannauðurinn er okkar stærsta auðlind“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

Nýtt fagfélag um mengun á Íslandi

Formlegt fagfélag um mengun á Íslandi (FUMÍS) hefur verið sett á stofn. 

Markmið félagsins er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu vönduðum vinnubrögðum í málefnum mengunar í jarðvegi, yfirborðs- og jarðvatni. Félaginu er einnig ætlað að stuðla að auknu samráði og samstarf ólíkra aðila í málefnum er varða mengun. 

Hægt er að sækja um aðild að félaginu á heimasíðu félagsins fumis.is eða með því að senda beiðni um aðild á fumis@fumis.is. Aðild að félaginu er kostnaðarlaus.

FARÞEGAR UM KEFLAVÍKURFLUGVÖLL 2014-2024

Ferðaþjónustan er sú atvinnugrein sem hefur vaxið hvað hraðast hér á landi undanfarin ár.

Góður mælikvarði á þróun undanfarinna ára er fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll.

Myndin sem fylgir hér með sýnir fjölda farþega í janúar síðustu tíu árin.

Erlendir farþegar voru flestir í janúar árið 2018 eða 147.569 talsins. Einnig má sjá greinileg áhrif kórónuveirufaraldursins á ferðaþjónustuna árin 2021 og 2022.

Kuklið fær styrk

Innviðaráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 130 milljónum króna til tíu verkefna á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga.

Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036.

Alls bárust 18 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 371 m.kr. fyrir árið 2024.

 Fjórðungssamband Vesfirðinga hlýtur styrk að upphæð kr. 15.000.000 vegna verkefnisins Kuklið – frumkvöðlasetur matvæla. 

Breyta á og standsetja hluta gamals fiskvinnsluhúss sem Galdur Brugghús nýtir einnig.

Með Kuklinu verður boðið upp á matvælaframleiðslu með aðgengi að framleiðslurými og klasamyndun. Atvinnuástand á Hólmavík er afar slæmt m.a. eftir lokun rækjuvinnslunnar Hólmadrangs. Kuklið er í eigu einkaaðila.

Háafell vill auka sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. 

Eldiskvíar Háafells í Ísafjarðardjúpi.

Háafell ehf. hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir 4.500 tonna aukningu á hámarkslífmassa af laxi og regnbogasilungi í sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi. 

Þær meginbreytingar sem eru fyrirhugaðar á nýju umhverfismati frá því sem lauk á árinu 2020 eru eftirfarandi:

  • Auka umfang eldisins úr 6.800 tonna hámarks lífmassa upp í 11.300 tonn.
  • Fækka og breyta eldissvæðum.
  • Fjallað er um lokaðar sjókvíar sem valkost til að draga úr álagi vegna laxalúsar og við
    framleiðslu stórseiða.
    Við gerð umhverfisskýrslu verður byggt ofan á matsskýrslu Háafells frá árinu 2020, hún uppfærð m.t.t. nýrra gagna og krafna og fyrirhugaðra breytinga.

Markmið framkvæmdanna er að styrkja rekstur Háafells ehf., móðurfélagsins. Hraðfrystihússins Gunnvarar hf. og samfélagsins við Ísafjarðardjúp. Háafell hefur leyfi fyrir mörgum eldissvæðum í Ísafjarðardjúpi en samanlagt burðarþol þeirra er töluvert umfram þau 6.800 tonn sem félagið hefur leyfi fyrir í dag. Sömuleiðis eru skoðaðar nýjar leiðir, svo sem eldi í lokuðum kvíum sem valkostur. Heildar lífmassi sjókvíaeldis Háafells af laxi og/eða regnbogasilungi mun verða að hámarki 11.300 tonni.

Seiðin eru framleidd í seiðaeldisstöð félagsins á Nauteyri við Ísafjarðardjúp.
Gert er ráð fyrir að slátrun á árunum 2023 til 2025 fari fram í nýju sláturhúsi í Bolungarvík og verði síðan áfram þar eða í nýju sláturhúsi HG/Háafells á Ísafirði.

 

Nýjustu fréttir