Laugardagur 14. september 2024
Síða 166

Ísafjörður: samþykkt að stofna byggingarlóð að Hlíðarvegi 50

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í síðustu viku að stofna byggingalóð að Híðarvegi 50 í samræmi við mæliblað tæknideildar.

Við grenndarkynningu bárust ábendingar frá eigendum að Hlíðarvegi 48. Þar er bent á að fyrir tuttugu árum hafi íbúðarhús að Hlíðarvegi 51 verið keypt til niðurrifs og til þess að draga úr kostnaði við snjómokstur með því að gera snjósöfnunarsvæði yst í botnlanganum. Með húsbyggingu á lóðinni myndi kostnaður við snjómokstur sækja í fyrra horfs. Þá myndi bílastæðum fækka um helming og af því myndu skapast vandræði. benda bréfritarar á nærliggjandi svæði þar sem megi koma fyrir byggingum og snjósöfnunarsvæði.

Guðmundur M. Kristjánsson, fyrrv. hafnarstjóri hefur sótt um lóðina og hyggst byggja þar einbýlishús og áætlar að geta flutt í fyrirhugað hús á haustmánuðum 2024.

Íslenskur háskólastúdent gefur íslensku séns

Frá því að ég var lítill hef ég alltaf haft áhuga á landafræði, þá fyrst og fremst fjölbreytileika þjóðanna. Einn mikilvægasti þáttur fjölbreytileikans er tungumál hverrar þjóðar. Íslensk tunga er eitthvað sem við getum verið stolt af vegna þess að hún er gömul, falleg og stundum erfið og þar með skemmtilegri. Ef allir í heiminum töluðu sama tungumálið og önnur svæðisbundin mál myndu deyja út væri minna gaman. Enginn fjölbreytileiki og margt minna til umræðu. Sjálfur hef ég ferðast mikið utanlands og kynnst á þeim ferðum mörgum sem tala mismunandi mál. Fátt finnst mér skemmtilegra en að bera saman mál mitt og annarra og kenna mitt eigið mál. Sjálfur hef ég lagt stund á nám í þýsku og rússnesku og eykur það áhuga og kunnáttu á eigin máli.

Á Íslandi eru margir ferðamenn sem skilja íslensku að engu leyti en til þess að þeir geti fengið nauðsynlegar leiðbeiningar þarf að hafa leiðbeiningar, skilti, matseðla o.s.frv. á ensku eða öðrum málum. Þessi hefð hefur aukist og hafa of margir alfarið hætt að hafa leiðbeiningar á íslensku og sumir haft hana með en þá sem annað mál og í minna letri. Það hlýtur að teljast til almennra mannréttinda að hafa aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum á opinbera tungumálinu í sínu í eigin landi.

Sjálfum finnst mér ekki gaman að koma á staði sem eru eingöngu ætlaðir ferðamönnum og allt á ensku, sama hvort það sé hér eða erlendis. Það gerir staðinn að einhverju sem er eins hannað fyrir ferðamenn og er þá ekkert menningarlegt gildi í staðnum lengur. Ferðamennirnir gætu allt eins verið staddir í heimalandi sínu. Þetta finnst mér ekki gaman og vil gera allt sem í mínu valdi stendur til að auka veg íslenskunnar og gefa henni séns.

Til allrar hamingju er verkefnið Gefum íslensku séns búið að taka málin í eigin hendur og hefur staðið fyrir fjölda viðburða sem gefa Íslendingum og útlendingum tækifæri á að læra betur á málið. Þar má nefna hraðíslensku þar sem móðurmálshafi talar við nemanda eða áhugamann á íslensku og kynnist honum þannig á íslensku. Fyrir utan það að kynnast fólki gefur Gefum íslensku séns manni mikið þar sem maður eykur eigin kunnáttu með því að kenna hana. Það hjálpar til við að auka íslenskunotkun þar sem hún lýtur í lægra haldi og af fenginni reynslu eru allir jákvæðir fyrir því.

Ég veit um marga sem hafa áhuga á að læra íslensku en hafa ekki tök á að sækja námskeið en Gefum íslensku séns hefur einmitt staðið fyrir ókeypis íslenskunámskeiðum og með örfáum námskeiðum bætist kunnáttan mikið. Sjálfur hef ég reynslu af tungumálanámskeiðum sem gefa manni mikið á stuttum tíma. Gefum íslensku séns hefur því stórbætt samfélagið með því að auka notkun og kunnáttu á máli okkar auk þess að koma fólki með ólíkan bakgrunni saman.

2024©Einar Geir Jónasson, háskólanemi

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

Handbolti: Hörður fær Þór í heimsókn í dag

Í dag fær Hörður lið Þórs frá Akureyri í heimsókn í Grill66 deildinni í handknattleik.

Leikurinn hefst kl 16 í íþróttahúsinu á Torfnesi á Ísafirði.

Þór er í 2. sæti í deildinni með 18 stig eftir 13 leiki og stefnir upp í Olísdeildina ef fram fer sem horfir. Hörður hefur leikið 12 leiki og hefur 12 stig og er í 6. sæti í deildinni.

Lið Ísfirðinganna þyrfti að helst að vinna leikinn til þess að koma sér í kapphlaupið umsæti í Olísdeildinni.

Á síðasta leik Harðar fyrr réttri viku mættu nærri 300 manns til þess að hvetja strákana og veittu þeim góðan stuðning.

Frítt inn að venju.

Skoskur eldislax mesti selda matvara Bretlands til útflutnings á síðasta ári

Fréttin í Fish Farmer.

Eldislax úr sjókvíum í Skotlandi reyndist vera verðmætasta matvara til útflutnings frá Bretlandseyjum á síðasta ári.

Þetta kemur fram á vefmiðlinum fishfarmermagazine.com.

Alls voru fluttar út 64.000 tonn af eldislaxi fyrir 581 milljón sterlingspund, sem er aukning um 5% frá 2022. Það jafngildir um 101 milljarði íslenskra króna reiknað á núverandi gengi. Árið áður voru futt út 72.300 tonn af laxi. Dróst útflutningurinn saman að magni til um 11%.

Mest er selt til Frakklands bæði til neyslu þar og til áframvinnslu á neytendamarkað. Til Bandaríkjanna var selt fyrir 140 milljónir sterlingspunda og jókst salan um 7%. Þá varð mikil aukning á sölu til Kína, en þangað var seldur eldislax fyrir 47,5 milljónir punda og varð aukningin 275 frá fyrra ári.

Lax er langvinsælasti fiskur á Bretlandseyjum og nam salan til neytenda á síðasta ári um 1,25 milljarði sterlingspunda. Það jafngildir um 218 milljörðum íslenskra króna.

Næst á eftir skoska eldislaxinum í útflutningsverðmætum varð Cheddar ostur. Flutt var út fyrir 445 milljón sterlinsgpund.

Haft er eftir Travis Scott, framkvæmdastjóra samtakanna Salmon Scotland að það sé mikil eftirspurn eftir næringarríkri matvöru sem sé framleidd með lágt kolefnisspor bæði á innlendum og erlendum markaði. það sé viðurkenning fyrir eldisfyrirtæki í dreifbýlinu í Skotlandi og starfsfólk þeirra að atvinnugreinin hafi náð þessum árangri , að verða stærsta útflutningsgreinin í matvælaframleiðslunni.

Hann segir að við eldið starfi 12.500 manns m.a. í dreifðum byggðum Skotlands og styrki þær á tímum þar sem er samdráttur í hagkerfi Bretlands.

Eldislax er einnig langtærsta útflutningsvara mælt í verðmætum bæði í Noregi og Færeyjum.

Útaf akstur en engin slys

Bíllinn er utan vegar en á réttum kili. Mynd Kristinn H. Gunnarsson.

Ökumaður fólksbíls missti stjórn á honum á fimmtudaginn og rann bíllinn út af veginum. Slysið varð í Önundarfirði á Hvilftarströndinni skammt innan til við Flateyri.

Ökumaður var einn í bílum og varð ekki meint af. Hann hélt að bíllinn væri óskemmdur þegar Bæjarins besta hafði tal af honum í gær en sagði að það væri nokkurt verk að ná bílunum upp á veginn aftur.

HG kaupir nýjan Júlíus Geirmundsson ÍS

Hraðfrystihúsið Gunnvör hf hefur undirritað samning um smíði á nýju frystiskipi við skipasmíðastöðina Astilleros Ria del Vigo í Vigo á Spáni. Skipið kemur í stað Júiusar Geirmundssonar ÍS 270 sem verður 35 ára á þessu ári.

Skipið er hannað af verkfræðistofunni Skipasýn ehf í samvinnu við útgerðina og verður 67,1 metri að lengd og 16 metra breitt með 3600 kW Man aðalvél. Áætlaður afhendingartími skipsins er síðari hluta árs 2026.

Nýja skipið verður hagkvæmt í rekstri og búið öllum nýjasta tækjabúnaði sem völ er á. Orkunýtni verður mjög góð og byggir á stórri hæggengri skrúfu svipað og er á öðrum togara fyrirtækisins Páli Pálssyni ÍS 102 og reynst hefur afar vel undanfarin sex ár.

Við hönnun skipsins hefur verið lögð áhersla á góðan aðbúnað og vinnuaðstöðu áhafnar skipsins. Þannig verða öll svefnrými skipverja fyrir einn mann með tilheyrandi aðstöðu.  Til að létta störf áhafnarinnar og auka afköst byggir vinnslukerfi skipsins að miklu leyti á sjálfvirkni og verður það m.a. búið flokkurum, sjálfvirkum frystum, afurðahóteli sem flokkar afurðir eftir tegundum  og stærðum og búnaði sem pakkar afurðum á bretti og flytur niður í lestar.  Einnig verður búnaður til að vinna lýsi úr aukaafurðum um borð í skipinu.

Hraðfrystihúsið–Gunnvör hf. gerir út 2 togara, er með fiskvinnslu í Hnífsdal og niðursuðuverksmiðju í Súðavík.  Auk þess stundar dótturfyrirtæki félagsins, Háafell ehf. laxeldi í Ísafjarðardjúpi og vinnur núna að stækkun seiðaeldisstöðvar sinnar á Nauteyri við Ísafjarðardjúp.

Sveini EA 173 ex Lúkas ÍS 71

Sveini EA 173 hét upphaflega Lúkas ÍS 71 og var smíðaður hjá Bátasmiðju Guðmundar árið 1997.

Lúkas var með heimahöfn í Hnífsdal en árið 2005 var hann seldur norður í Eyjafjörð og fékk nafnið Sveini EA 173.

Heimahöfnin Dalvík til ársins 2017 en upp frá því er hann var skráður með heimahöfn á Hauganesi.

Af skipamyndir.com

Stuðningur við vetraríþróttir

Halla Björk Reynisdóttir, formaður Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirrita samning á Akureyri

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur gert samning við Vetraríþróttamiðstöð Íslands um stuðning við miðstöðina í þágu heilsueflingar og mótun tillagna um störf hennar og framtíðarsýn.

Markmið samningsins og hlutverk miðstöðvarinnar er að efla vetraríþróttir, íþróttafræðslu og útivist og stuðla þannig að heilbrigðu lífi og heilsurækt meðal almennings, svo sem skólafólks, fatlaðra og keppnis- og afreksfólks í íþróttum með hefðbundnar vetraríþróttir, íþróttafræðslu og útivist að leiðarljósi.

Vetraríþróttamiðstöð Íslands var stofnuð á Akureyri árið 1995. Miðstöðin er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins, Akureyrarbæjar, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Íþróttabandalags Akureyrar

Rauði krossinn sér um þjálfun

Umhverfisstofnun og Rauði krossinn á Íslandi hafa skrifað undir samning sem felur Rauða krossinum að sjá um þjálfun, námskeið og hæfnispróf fyrir laugarverði og þau sem starfa í vatni.

Í síðustu viku undirrituðu Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, og Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, samninginn sem markar tímamót varðandi öryggi í vatni. 

Rauði krossinn mun héðan í frá sjá alfarið um þjálfun, námskeið og hæfnispróf í öryggi, skyndihjálp og björgun fyrir öll þau sem starfa í vatni. 

Um er að ræða fyrsta skiptið í sögu öryggismála í vatni á Íslandi þar sem Umhverfisstofnun hefur heimild samkvæmt lögum til að veita aðila eða stofnun umsjón og faglega ábyrgð í þessum mikilvæga málaflokki. Rauða krossinum var falið þetta verkefni eftir að Umhverfisstofnun mat félagið hæft til þess á grundvelli þekkingar og reynslu.

Atvinnuuppbygging í Reykhólahreppi

Þriðjudaginn 20. febrúar verður haldinn undirbúningsfundur að stofnun atvinnu- og uppbyggingarklasa í Reykhólahreppi. 

Markmiðið er að skapa umræðu- og samstarfsvettvang fyrir alla sem áhuga hafa á atvinnuþróun, nýsköpun og annari uppbyggingu í Reykhólahreppi.

Fundurinn fer fram í Reykhólabúðinni og hefst kl. 17:00

Á fundinum verður rætt hvort ekki sé þörf á að skapa vettvang hér í sveit sem gæti meðal annars haft það hlutverk að:

  • Verða samstarfsvettvangur fyrir atvinnuþróun, nýsköpun og aðra uppbyggingu í Reykhólahreppi
  • Koma að og hvetja til stefnumótunar í atvinnu- og ferðamálum í Reykhólahreppi
  • Styðja unga bændur til meiri verðmætasköpunar á búum sínum
  • Verða lykilaðili í hagsmunagæslu fyrirtæka/rekstraraðila á svæðinu og málsvari þeirra útá við

Hugmyndin er enn mjög opin en tilgangur fundarins er að fá fleiri hugmyndir og umræður um þörf og væntanlegt hlutverk klasans ásamt því að skipuleggja næstu skref.

Nýjustu fréttir