Laugardagur 14. september 2024
Síða 165

Verknámshús M.Í. : Reykhólahreppur vill vera með

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps tók fyrir í síðustu viku erindi vegna byggingar á nýju verknámshúsi við Menntaskólann á Ísafirði.

Bókað var að sveitarstjórn Reykhólahrepps telur verkefnið afar mikilvægt og lýsir hún yfir áhuga á því að taka þátt, en óskaði eftir annarri skiptingu á fjármagni þar sem skólinn þjónustar nærsamfélagið betur en samfélög sem eru lengra í burtu t.d. nemendafjölda.

Var það niðurstaða sveitarstjórnar að óska eftir samtali við Menntaskólann á Ísafirði um þjónustuáætlun skólans við samfélagið og sveitarstjóra var veitt umboð til að semja um málefnið fyrir hönd sveitarfélagsins.

Strandabyggð hafnaði

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók einnig fyrir á fundi sínum í síðustu viku sama erindi. Þorgeir Pálsson oddviti sagði að samgöngutakmarkanir hamli verulega aðgengi nemenda að Menntaskólanum á Ísafirði og lagði til að erindinu yrði hafnað sem sveitarstjórn samþykkti samhljóða.

Ríkið: keypti land sem það krefst nú að verði þjóðlenda

Hrútey í Mjóafirði

Fjármálaráðherra hefur krafist þess fyrir Óbyggðanefnd að eyjan Hrútey í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi verði þjóðlenda og mun nefndin kveða upp sinn úrskurð í fyllingu tímans.

Hrútey hefur tilheyrt jörðinni Skálavík innri og Vegagerðin keypti árið 2007 hluta af eyjunni af landeigandanum. Var það til þess að leggja veg yfir Mjóafjörð meðal annars með brúargerð yfir sundið milli Hrúteyjar og lands.

Deilur við landeiganda urðu til þess að tefja framgang vegagerðarinnar og fór málið fyrir Matsnefnd eignarnámsbóta. Í svari frá Vegagerðinni við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að sátt var gerð fyrir milligöngu nefndarinnar sem hljóðaði upp á 17,5 m.kr. Bótafjárhæð var ósundurliðuð en innifalið í henni voru 75.000 m3 af jarðefni, 20 ha. lands undir veg í landi Skálavíkur Innri, þ.m.t. veg- og brúarstæði um Hrútey. Innifalið í fjárhæðinni voru skaðabætur og allar greiðslur til landeiganda og 2,5 m.kr. í málskostnað vegna þriggja dómsmála.

Ekki kemur fram hve stór hluti af Hrútey er keyptur, en samtals var landið ca 20 hektarar og 60 metra breitt vegna vegstæðisins. Í afsali segir hins vegar að afsalað sé 14,4 ha lands úr jörðinni.

Mynd úr skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða frá 2003 sem unnin var fyrir Vegagerðina.

Fæðunám hlýra varpar ljósi á æxlun dílamjóra

Veiðistaðir hlýra (grænu hringirnir), dílamjóra (rauðir hringir) og þar sem þessar tegundir veiddust saman (dökkrauðir hringir), í vorralli Hafrannsóknarstofnunar 2023; svörtu krossarnir sýna stöðar þar sem hvorug þessara tegunda veiddist og guli hringurinn stöðina þar sem hlýrinn með dílamjóralirfunum í maganum veiddist.

Í frétt frá Hafrannsóknastofnun er sagt frá grein sem nýlega birtist í tímaritinu Fish Biology en þar er greint frá því að 700 fisklirfur fundust í maga hlýra (Anarhichas minor) og voru þær greindar sem dílamjóri (Lycodes esmarkii).

Lirfurnar voru allar álíka mikið meltar þannig að hlýrinn hefur étið þær allar á sama tíma. Samkvæmt þessu þá hrygnir dílamjóri eggjum sínum í hreiður og eftir klak eru lirfurnar í því í einhvern tíma.

Rannsóknin sýndi líka fram á afrán hlýra á eggjum og lifrum fiska. Lítið er vitað um fæðunám hlýra og hve mikið afrán hans er á eggjum og lifrum annara fiska.

Mjórar eru algengir í Norður Atlantshafi og þáttur þeirra í vistkerfi þess vanmetinn, en rannsóknir á þeim eru fáar. Hreiður mjóra eru afrænd af hlýra og væntanlega öðrum fiskum líka, þannig að upplýsingar um hrygningarsvæði þeirra myndi hjálpa til við að rannsaka dreifingu og fæðunám afræningja þeirra.

Skíðavikan um páskana

Gleðin er ávallt við völd á Skíðavikunni. Mynd: Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Skíðavikan verður sett á Silfurtorgi á Ísafirði kl. 17 miðvikudaginn 27. mars.

Lúðrasveitin verður mætt á staðinn, skemmtiatriði, kakó og kökur og svo verður auðvitað sprettgangan.

Þann sama dag, miðvikudaginn 27. mars munu Halldór Smárason og Sæunn Þorsteinsdóttir halda tónleika í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar, undir yfirskriftinni Hvað nú?

Þau Halldór og Sæunn hafa unnið náið saman undanfarin ár, þar sem Sæunn hefur frumflutt fjölda verka eftir Halldór.

Á þessum tónleikum skarast hlutverkin þar sem um er að ræða flæðandi spunatónleika hvar staður og stund hafa áhrif á sköpun og túlkun. Að öllum líkindum munu þó inn á milli heyrast verk og lög sem eru áheyrendum að góðu kunn.

Atvinnuleysi var 3,4% á árinu 2023 – Meira hjá körlum en konum – Minna á landsbyggðinni

Árið 2023 voru að jafnaði um 226.900 manns á vinnumarkaði samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn.

Af þeim voru rúmlega 219.300 starfandi og um 7.600 án vinnu og í atvinnuleit. Atvinnuþátttaka mældist 80,5%, hlutfall starfandi af mannfjölda 77,8% og atvinnuleysi var 3,4%.

Atvinnulausum fækkaði um rúmlega 500 manns frá árinu 2022 og atvinnuleysið dróst saman um 0,4 prósentustig á milli ára.

Atvinnuleysi á meðal kvenna var 2,9% að jafnaði og á meðal karla var það 3,8%.

Árið 2023 var atvinnuleysi að jafnaði 4,6% í Reykjavík, 3,0% í nágrenni Reykjavíkur og 2,3% utan höfuðborgarsvæðisins.

Nefnd forsætisráðherra um Árneshrepp, Kaldrananeshrepp og Strandabyggð

Forsætisráðherra hefur stofnað nefnd um málefni Stranda sem tekið hefur til starfa.

Markmið með skipan nefndarinnar er að skapa vaxtarskilyrði fyrir samfélag og atvinnulíf með sjálfbærni að leiðarljósi.

Nefndin skal gera tillögur um hvernig megi efla byggðaþróun á svæðinu, m.a. með tilliti til fjárfestinga, atvinnuframboðs og atvinnutækifæra í Árneshreppi, Kaldrananeshreppi og Strandabyggð. Skila á forsætisráðherra tillögum eigi síðar en 1. júlí nk.

Nefndin telur samráð við íbúa og aðila svæðisins afar mikilvægt og leitar því til þeirra sem vilja koma hugmyndum sínum og ábendingum á framfæri. Í fyrstu er óskað eftir því að þau sem vilja koma ábendingum eða hugmyndum til nefndarinnar sendi þær í tölvupósti á netfangið for@for.is.

Þá er stefnt að frekara samtali og samráði við íbúa þegar fyrstu drög að tillögum nefndarinnar liggja fyrir og verður það auglýst nánar síðar.

Nefnd um málefni Stranda er skipuð fulltrúum forsætisráðuneytis, innviðaráðuneytis, fulltrúum sveitarfélaganna þriggja, Byggðastofnunar og Fjórðungssambandi Vestfjarða.

Grímsey : uppboð var 2014

Sýslumaðurinn á Hólmavík bauð upp 0,3611% eignarhlut í eyjunni Grímsey á Steingrímsfirði fastanúmer 141757 þann 4. apríl 2014. Kaupandi var Guðmundur R. Guðmundsson Drangsnesi og greiddi hann 950.000 kr. fyrir eignina. Tilboðinu var tekið þann 16. apríl sama ár og segir í nauðungarsöluafsali, sem dags. er 28. júlí 2014, að Guðmundur sé „hér með réttur og löglegur eigandi framangreindrar eignar.“

Þetta kemur fram í svari sýslumannsins á Vestfjörðum við fyrirspurn Bæjarins besta.

Verðmæti eyjunna væri 263 m.kr. á verðlagi ársins 2014 ef öll eyjan færi á sama verði.

Fjármálaráðherra, sem jafnframt er alþingismaður kjördæmisins, hefur fyrir hönd ríkisins krafist þess fyrir Óbyggðanefnd að eyjan Grímsey verði lýst þjóðlenda þar sem eyjan sé ekki eignarland.

Patreksfjörður: hugmyndir um landfyllingu

Hugmyndir eru uppi um landfyllingu við Vatneyrina á Patreksfirði. Fyrir skipulags- og umhverfisráð hafa verið lagðar frumhugmyndir um ca 2 ha landfyllingu þar sem gert er ráð fyrir íbúðarbyggð, verslun og þjónustu og möguleika á stækkun leikskólalóðar. Innan svæðisins væri mögulegt að koma fyrir allt að 3500 m2 af íbúðarhúsnæði, 1500 m2 af þjónustuhúsnæði og gert er ráð fyrir að reitur fyrir leikskólalóð geti orðið allt að 8300 m2.

Skipulags- og umhverfisráð ákvað að leggja til við bæjarstjórn að farið verði í breytingar á aðalskipulagi samhliða gerð deiliskipulags. Skoða þarf nánar útfærslu landfyllingarinnar og mögulegrar byggðar m.t.t. útivistargildis, ásýndar og byggingarmagns.

Málið er á dagskrá bæjarstjórnarfundar Vesturbyggðar á miðvikudaginn.

OV: stækkar Mjólká og byggir bryggju

Mjólká í Borgarfirði innaf Arnarfirði. Mynd: OV.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að auglýsa breytingar á bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi við Mjólká í Arnarfirði.

Orkubú Vestfjarða hyggst hækka stíflu við Tangavatn um 3 metra og virkja fall vatnsins þaðan að Hólmavatni og fá við það 0,5 MW afl. Gert er ráð fyrir 700 metra langri þrýstipípu sem verði 0,7 metra víð. Virkjunin í dag gefur 11,2 MW afl og 64-75 GWh á ári en gildandi skipulag heimilar 12,05 MW virkjun og er ekki gert ráð fyrir að auka það.

Þá verða settar upp hleðslustöðvar fyrir rafmagnsbíla til að mæta aukinni umferð um Borgarfjörðinn.

Loks verður gerð ný bryggja við núverandi ferjubryggju ísunnanverðum Borgarfirði. Bryggjunni er einkum ætlað að þjóna útgerðar- og þjónustubátum fiskeldisfyrirtækja en fiskeldi í Arnarfirði er nú umtalsvert og er útlit fyrir að það aukist á næstu árum. Gert ráð fyrir allt að 500 fermetra þjónustubyggingu við bryggjuna. Bryggjan verður talsvert stærri en núvarandi ferjubryggja og með tveimur grjótgörðum, 75 m og 200 m löngum. Gert er ráð fyrir 50 m langri trébryggju og 20 m langri flotbryggju.

Lengjubikarinn: naumt tap fyrir FH

Frá leik Vestra gegn ÍA síðastliðið sumar á Akranesi. Bæði liðin unnu sér sæti í Bestu deildinni. Benedikt Warén skorar mark Vestra í leiknum.

Keppni í Lengjubikarnum í knattspyrnu er hafin og leikur karlalið Vestra í A riðli ásamt fimm öðrum liðum. Mótið kemur sér vel sem undirbúningur fyrir Íslandsmótið sjálft.

Vestri hefur þegar leikið tvo leiki. Fyrst voru Keflvíkingar sóttir heim og lauk leiknum með 2:2 jafntefli. Á laugardaginn átti leikur að vera á Ísafirði við FH en vallaraðstæður voru þannig að ekki var hægt að spila og og var leikurinn færður til Akraness og leikið í Akraneshöllinni.

Leikurinn var nokkuð jafn og spennandi en Hafnfirðingarnir fóru með nauman sigur af hólmi 0:1.

Um næstu helgi er leikur við Grindvíkinga og verður vegna aðstæðna í Grindavík leikið á Akranesi. Viku seinna verður leikið við Breiðablik í Kópavoginum og síðasti leikurinn verður 9. mars við Gróttu frá Seltjarnarnesi og á leikurinn að vera á Ísafirði.

Samuel Samúelsson, formaður meistarflokksráðs knattspyrnudeildar Vestra sagðist vonast til þess að hægt verði að spila þann leik á Ísafirði. Hlýindi væru framundan og vonandi verður hægt að merkja gervigrasvöllinn og setja upp mörkin.

Samúel sagði að honum litist bara vel á liðið, að teknu tilliti til þess að það væri á eftir öðrum liðum í undirbúningi vegna aðstæðna á Ísafirði. Liðið væri ágætlega mannað en enn ætti þó eftir að fá tvo leikmenn til þess að fylla hópinn.

Nýjustu fréttir