Laugardagur 14. september 2024
Síða 164

Vesturverk: Skúfnavötn fari í nýtingarflokk

Afstöðumynd af Skúfnavötnum.

Vesturverk ehf sem vinnur að Hvalárvirkjun er auk þess að rannsaka tvo aðra virkjunarkosti á Vestfjörðum. Eru það Skúfnavatnavirkjun ofan Þverár í Ísafirði og Hvanneyrardalsvirkjun upp af Ísafjarðarbotni. Báðir kostirnir voru á borði verkefnisstjórnar að rammaáætlun 4. áfanga og lagði verkefnisstjórnin til að Skúfnavötn færi í biðflokk en Hvanneyrardalsvirkjun í nýtingarflokk. Verkefnisstjórnin lauk ekki tillögugerð og voru skýrslur hennar ekki afgreiddar.

Við er tekin verkefnisstjórn rammaáætlunar 5. áfanga og vinnur hún að tillögugerð og er áformað ljúka störfum á næsta ári 2025.

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku og stjórnarformaður Vesturverks ehf segir að unnið sé að rannsóknum á Skúfnavatnavirkjun. Rannsóknarleyfi var framlengt til loka árs 2025. „Við höfum verið að mæla vatnafar, snjóalög og rennsli í tveimur ferðum á hverju ári á heiðina. Erum komin með góða mynd af rennsli til virkjunar. Jafnframt höfum við verið að meta valkosti sem við reiknum með að lýsa nánar í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar þegar þar að kemur. Virkjunarkosturinn er í rammaáætlun sem er í vinnslu og höfum við upplýst verkefnisstjórn um stöðu verkefnisins og hugsanlegar útfærslur.“ segir Ásbjörn.

Skúfnavatnavirkjun er 16 MW virkjun með orkuvinnslugetu upp á 86 GWh á ári og Hvanneyrardalsvirkjun er með 13,5 MW afl og 80 GWh á ári. Í skýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar 4 segir um þessa virkjunarkosti að megin tækifæri sem felast í þessum virkjunum fyrir samfélagið tengist raforkuöryggi og framboði á raforku á Vestfjörðum og tækifærum fyrir íbúa og atvinnulíf. Á Vestfjörðum sé mikil þörf á að
bæta raforkuöryggi og framboð á raforku.

Að sögn Ásbjörns hefur ákvörðun Landsnets um að hafa tengivirki í Miðdal á Steingrísmfjarðarheiði gert það að verkum að næst er að gera umhverfismat fyrir línulögn frá væntanlegri Hvalávirkjun í tengivirki í Miðdal. Það hefur einnig áhrif á Skúfnavatnavirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun en báðar myndu tengjast inn á sama tengipunkt.

Ásbjörn segir að hægt verði að auka afl og hagkvæmni beggja þessara virkjunarkosta með því að stækka miðlunarsvæðið á hálendinu. Sérstaklega mæli það með Skúfnavatnavirkjuninni að hún er á svæði sem þegar verður raskað vegna vegalagnar sem gera þarf vegna línulagnar frá Hvalárvirkjun í Miðdal. Veskurverk hafi lagt til við núverandi verkefnisstjórn að Skúfnavatnavirkjunin verði í nýtingarflokki og ef fallist verður á það verða fjórar virkjanir á þessu svæði í nýtingarflokki að Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun meðtöldum, sem þegar hafa verið samþykktar í rammaáætlun.

Áhrif Skúfnavatnavirkjunar, Hvanneyrardalsvirkjunar og Austurgilsvirkjunar í Skjaldfannardal, sem hefur verið samþykkt í rammaáætlun, á ferðamennsku, útivist, beit og veiðihlunnindi eru lítil og eru þessar virkjanir með þeim lægstu í lista þeirra virkjunarkosta sem verkefnisstjórn um rammaáætlun 4 skoðaði.

Uppfært kl 12:16. Bætt var við Austurgilsvirkjun í upptalningu á virkjunarhugmyndum á þessu svæði og verða þær fjórar í stað þrjár eins og áður var sagt.

Verkmenntahús M.Í. : Tekið vel í erindi Reykhólahrepps

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði fagnar erindi Reykhólahrepps um þjónustuáætlun skólans við samfélagið í sveitarfélaginu.

„Við fögnum mjög bókun Reykhólahrepps og erum einmitt að senda þeim formlegt erindi í dag um samtal um þjónustuáætlun. Við sjáum mikla möguleika í slíkri áætlun og vonumst til að geta fjölgað nemendum frá Reykhólum í framtíðinni.“

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti í síðustu viku að taka þátt í kostnaði sveitarfélaga við nýtt verkmenntahús við Menntaskólann á Ísafirði. Telur sveitarstjórnin það vera mikilvægt en óskaði jafnfram eftir samtali við Menntaskólann um þjónustu skólans.

Þá óskaði sveitarstjórn eftir annarri kostnaðarskiptingu þar sem tekið væri tillit til fjarlægðar sveitarfélagsins frá skólanum og segir Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu að hún gerði ráð fyrir því að tekið verði mjög vel í erindið af hálfu þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið jákvætt í erindið. 

Bryggjuhátíð á Drangsnesi 20 júlí

Hin árlega Bryggjuhátíð á Drangsnesi verður haldin í tuttugasta skipti í sumar og þar má búast við fjölmenni til að fagna þeim merka áfanga.

Hér er myndband sem sýnir stemminguna árið 2017

https://www.youtube.com/watch?v=GIOmTFeaPFM

Dagskrá hátíðarinnar verður með hefðbundnu sniði en þó munu nýjir liðir einnig líta dagsins ljós.

Frekari upplýsingar verða birtar síðar.

Takmörkum kyrrsetu – öll hreyfing skiptir máli.

þátttakendum Lífshlaupsins frá Lyfjastofnun sem kalla sig Labbakúta

Heilsu- og hvatningarátakið Lífshlaupið er nú hálfnað en það hófst 7. febrúar síðastliðinn og gengur vel.

 Nú þegar þetta frábæra heilsu- og hvatningarátak er rúmlega hálfnað má geta þess að skráðir eru 14.916 þátttakendur og 1.425 lið.  Skráðir eru 104.707 dagar í hreyfingu og 8.092.379 mínútur og breytast þessar tölur í sífellu. 

Ennþá er hægt að skrá sig til leiks en skemmtileg keppni er í gangi á mörgum vinnustöðum og skólum.  

Skráningarleikurinn er líka í fullum gangi. Í grunn- og framhaldsskólakeppninni fá heppnir þátttakendur glæsilega vinninga frá Mjólkursamsölunni.

Auðvelt er að taka þátt og skrá hreyfingu sína í Lífshlaupinu á heimasíðu ÍSÍ.

Tækifæri til nýsköpunar á landsbyggðinni

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki úr Lóu.

Styrkirnir eru nýsköpunarstyrkir fyrir landsbyggðina sem hafa það hlutverk að styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum.

Styrkjunum er aðeins úthlutað til verkefna utan höfuðborgarsvæðisins í þeim tilgangi að styðja við atvinnulíf og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni. 

Lóu styrkir eru veittir verkefnum sem komin eru af byrjunarstigi samkvæmt skilgreiningu OECD þar sem nýsköpun er skilgreind sem innleiðing nýrrar eða mjög endurbættrar vöru, þjónustu eða ferils, nýttar aðferðar til markaðssetningar eða nýttar skipulagsaðferðar í viðskiptaháttum, skipulagi á vinnustað eða ytri samskiptum.

Styrkjum er úthlutað til eins árs í senn og getur hvert verkefni fengið styrk sem nemur allt að 20% af heildarúthlutun hvers árs. Heildarfjárhæð Lóu árið 2024 er 150 m.kr. sem er hækkun frá fyrri árum þegar upphæðin var 100 m.kr. Að hámarki geta 50 m.kr. farið til verkefna sem tengjast stuðningsumhverfi nýsköpunar, þar sem a.m.k. 100 m.kr. af heildarúthlutun verður úthlutað beint til verkefna á vegum einkaaðila.

Krafa er gerð um að lágmarki 30% mótframlag frá umsækjanda og samstarfsaðilum

Landssamband smábátaeigenda á móti kvótasetningu á grásleppu

Landssambandið hefur sent atvinnuveganefnd Alþingis umsögn við frumvarp um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu).

Í umsögninni eru ítrekaðar samþykktir aðalfunda félagsins um andstöðu við kvótasetningu á grásleppu.

Að óbreyttu mun frumvarpið afnema öll stærðarmörk báta sem stunda mega grásleppuveiðar og jafnframt reglur sem takmarka fjölda neta 

Í umsögninni gagnrýnir LS að hvorki atvinnuveganefnd Alþingis né Matvælaráðuneytið hafi kallað til sérfræðinga til að leggja mat á áhrif fyrirhugaðra breytinga á hinar dreifðu byggðir, mannlíf, menningu og annarra verðmæta sem þær búa yfir.  

Hvaða áhrif það hefur að útgerð hefðbundinna grásleppubáta muni fjara út á næstu árum?  Í þeirra stað kæmu stærri bátar þar sem handhafi aflahlutdeildarinnar væri í fæstum tilvikum um borð og áhöfnin ekki með heimilisfesti í plássinu.  Samþjöppun og fækkun útgerða.  Allt sjálfstæði afnumið.

Einnig segir í umsögn sambandsins að verði frumvarpið að lögum standa margir grásleppusjómenn frammi fyrir því að aflaverðmæti veiðiheimilda nægja ekki fyrir þeim kostnaði sem þeir hafa lagt í.  

Út frá gögnum Fiskistofu og frumvarpinu eins og það liggur fyrir ákvað LS að reikna út væntanlegar aflaheimildir allra þeirra 440 báta sem virkjað hafa leyfi sín á árunum 2014-2019 og 2021-2022.  Útreikningarnir (birt án ábyrgðar) eru byggðir á frumvarpi meirihluta atvinnuveganefndar og miðað er við heildarafla grásleppubáta á síðustu vertíð, 3.797 tonn.   Taflan sýnir afladreifingu.

1 Bátur > 30 tonn
24 Bátar > 20 tonn
71 Bátar > 15 tonn
369 Bátar < 15 tonn
272 Bátar < 10 tonn
150 Bátar < 5 tonn

Á vertíðinni 2023 voru 98 bátar (58%) með meira en 15 tonna afla.  Samkvæmt útreikningnum verður úthlutun samkvæmt frumvarpinu og áðurgefnum forsendum um 37% af meðaltali þriggja bestu viðmiðunaráranna.

Patreksfjörður: fimm umsækjendur um lóð við höfnina

Hafnarbakki 12 Patreksfirði.

Fimm umsóknir bárust um lóðina Hafnarbakka 12 á Patreksfirði. Um er að ræða 600m2 iðnaðar- og athafnalóð á hafnarsvæði Patrekshafnar, nýtingarhlutfall lóðar er 1. Lóðin er ætluð undir hafnsækna starfsemi. Á hafnarsvæðinu er gert ráð fyrir hefðbundnum iðnaði, fiskverkun, fullvinnslu fiskafurða og annarri matvælaframleiðslu ásamt annarri þjónustu sem tengd er útgerð, fiskvinnslu, sölu og þjónustu og rekstri hafnar.

Umsóknirnar eru frá eftirtöldum aðilum:

Hlemmavideo ehf.
Oddur Þór Rúnarsson
Guðbjartur Gísli Egilsson
Eskiberg ehf.
Héðinn Hákonarson.

Hafna- og atvinnumálaráð hefur farið yfir umsóknirnar og metur þær sem svo að þær og áform allra umsækjenda um lóðina samræmist þeim skipulagsskilmálum sem tilgreindir eru í gildandi deiliskipulagi svæðisins.

Hafna- og atvinnumálaráð tekur undir tillögu skipulags- og umhverfisráðs og leggur til að dregið verði um það á næsta reglulega fundi bæjarráðs Vesturbyggðar hvaða umsækjandi fái lóðina úthlutaða.

Tveir nefndarmenn í hafna- og atvinnumálaráði, Einar Helgason og Jónína Helga Sigurðardóttir Berg, viku af fundi vegna vanhæfis.

Landsbjörg: húfa ný fjáröflun

Í fréttatilkynningu frá Landsbjörgu og 66 gráðum norður segir að í nærri heila öld hafi 66°Norður og Slysavarnarfélagið Landsbjörg lifað með þjóðinni og átt í mjög farsælu samstarfi stóran hluta þess tíma. Samstarf þessara aðila megi rekja allt til ársins 1928, en 66°Norður hóf að framleiða hlífðarfatnað fyrir íslenska sjómenn árið 1926 sem björgunarsveitir tóku fljótt ástfóstri við. Þá þróaði 66°Norður um árabil fatnað fyrir björgunarsveitir landsins sem skýldi björgunarsveitarfólki fyrir óblíðri veðráttu landsins. 

66°Norður og Slysavarnafélagið Landsbjörg kynna nú til sögunnar Landsbjargarhúfuna, hannaða af 66°Norður í samstarfi við Landsbjörg. „Markmiðið var að hanna sterka, hlýja og endingargóða húfu með þarfir björgunarsveitarfólks í huga. Húfan er ekki síður hugsuð fyrir almenning til að nota allan ársins hring í útivist. Húfan er úr merino ullarblöndu og því sérstaklega hlý og mjúk.“

Innblástur fyrir mynstur Landsbjargarhúfunnar er hálendi Íslands og fjallagarðar landsins. Mynstrið er unnið út frá loftmynd af fjallaskaga á norðanverðu Íslandi. Loftmyndin var tekin árið 1999, sama ár og Slysavarnarfélag Íslands og Landsbjörg sameinuðust og til varð Slysavarnarfélagið Landsbjörg. 

Húfan fer í sölu í verslunum 66°Norður og vefverslun Landsbjargar og 66°Norður þann 20 febrúar nk og kemur í takmörkuðu upplagi. Verðið á húfunni er 7.900 kr. og rennur ágóðinn  af sölu húfunnar til styrktar Landsbjörg. 

Þá segir í tilkynningunni: „Íslendingar skilja vel mikilvægi öflugra björgunarsveita og standa við bakið á þeim sem klettur. Í þeim náttúruhamförum sem riðið hafa yfir þjóðina undanfarin ár hefur mikilvægi Slysavarnafélagsins Landsbjargar aldrei verið mikilvægara. Mikið hefur mætt á björgunarsveitum síðustu ár og því aldrei verið brýnna en nú að landsmenn taki höndum saman og styðji þetta mikilvæga starf.“

 

  

Ísafjörður: byggingarleyfisgjöld felld niður á Fífutungu 4

Fífutunga. Mynd: Ísafjarðarbær.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að fella niður gatnagerðargjöld vegna lóðar við Fífutungu 4 á Ísafirði, samtals að fjárhæð kr. 6.777.391.

Fram kemur í minnisblaði að niðurfellingin er í samræmi við reglur um tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda sem ná til lóðarúthlutana fyrir lok síðasta árs. Hins vegar segir einnig í reglunum að miðað sé við að framkvæmdir séu hafnir fyrir lok ársins og þykir það vera óframkvæmanlegt í ljósi þess að lóðaúthlutunin fór fram skömmu fyrir áramótin að hægt væri að hafa allar teikningar tilbúnar og fá byggingarleyfi fyrir sama tíma. Bent er á að í lóðarúthlutunarreglum var fallið frá 6 mánaða tímafresti frá lóðarúthlutun til að skila inn teikningum þar sem tímaramminn þótti óraunhæfur.

Verknámshús M.Í. : Reykhólahreppur vill vera með

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps.

Sveitarstjórn Reykhólahrepps tók fyrir í síðustu viku erindi vegna byggingar á nýju verknámshúsi við Menntaskólann á Ísafirði.

Bókað var að sveitarstjórn Reykhólahrepps telur verkefnið afar mikilvægt og lýsir hún yfir áhuga á því að taka þátt, en óskaði eftir annarri skiptingu á fjármagni þar sem skólinn þjónustar nærsamfélagið betur en samfélög sem eru lengra í burtu t.d. nemendafjölda.

Var það niðurstaða sveitarstjórnar að óska eftir samtali við Menntaskólann á Ísafirði um þjónustuáætlun skólans við samfélagið og sveitarstjóra var veitt umboð til að semja um málefnið fyrir hönd sveitarfélagsins.

Strandabyggð hafnaði

Sveitarstjórn Strandabyggðar tók einnig fyrir á fundi sínum í síðustu viku sama erindi. Þorgeir Pálsson oddviti sagði að samgöngutakmarkanir hamli verulega aðgengi nemenda að Menntaskólanum á Ísafirði og lagði til að erindinu yrði hafnað sem sveitarstjórn samþykkti samhljóða.

Nýjustu fréttir