Laugardagur 14. september 2024
Síða 163

Förgun Orra ÍS: kostnaður varð þrefalt hærri

Orri ÍS í Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hafnarstjóri Ísafjarðarhafna hefur lagt fram minnisblað um kostnað við förgun Orra ÍS sem sökk í Flateyrarhöfn í snjóflóðinu árið 2020.

Fenginn var verktaki til þess að ná bátnum upp og farrga honum. Samið var við Keyrt og mokað ehf um verkið fyrir 5 m.kr. með virðisaukaskatti og var þá miðað við 30 tonn af timbri og 5 tonn af járni. Greiða skyldi 40 kr. fyrir hvert kg af járni sem væri umfram og 100 kr. fyrir umframkg af timbri blönduðu efni.

Í ljós kom mikið vanmat á þyngd bátsins og samkvæmt minnisblaðinu varð heildarþyngdin um 170 tonn, þar af 128 tonn af tré og grófum úrgangi og 41 tonn af járni og varð heildarkostnaðurinn 16.285.200 kr. eða liðlega þrefalt hærri en upphaflega var gert ráð fyrir.

Tveir bláir rækjubátar

2150. Árni á Eyri ÞH 205. – 923. Orri ÍS 180. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2013

Hér gefur að líta tvo bláa rækjubáta en myndin var tekin á Húsavík haustið 2013.

Orri ÍS 180 liggur við Norðurgarðinn og Árni á Eyri ÞH 205 kemur til hafnar.

Byrjað var að farga þessum bátum á dögunum, Árna á Eyri á Akureyri og Orra á Flateyri.

Af skipamyndir.com

Kórinn Graduale Nobili heimsækir Ísafjörð

Graduale Nobili var stofnaður um aldamótin af Jóni Stefánssyni organista og tónlistarfrömuði í Langholtskirkju og hefur skipað sér sess meðal farsælustu kóra Íslands.

Kórinn skipa 26 meðlimir á aldrinum 18-26 ára. Kórstjóri Graduale Nobili er Ísfirðingurinn Sunna Karen Einarsdóttir.

Á efnisskránni er úrval kórverka sem öll með sínum hætti heiðra Maríu Guðsmóðir, eftir tónskáld á borð við Atla Heimi Sveinsson, Báru Grímsdóttur, Jón Nordal, Hildigunni Rúnarsdóttur, Edvard Grieg og Michael McGlynn.

Tónleikarnir fara fram í Hömrum, sal Tónlistarskóla Ísafjarðar 2. mars kl. 16:00.

Aðgangur ókeypis

Hjólandi ferðaþjónusta

Í Vísindaporti næsta föstudag mun Halldóra Björk Norðdahl halda erindi um reiðhjólaferðamenn og þá þjónustu sem Cycling Westfjords hefur byggt upp í kringum þá.

Af hverju velja þeir að ferðast á reiðhjóli, af hverju Vestfirði, hvaðan kemur Cycling Westfjords og hvert er það að fara?

Halldóra Björk Norðdahl er Ísfirðingur í húð og hár. Hún hefur meira og minna starfað sjálfstætt alla tíð. Fyrst sem dagmóðir í fjölda ára, svo með saumastofuna Dórukot og nú verslunina Klæðakot í miðbæ Ísafjarðar.

Hún nam Ferðamálafræði við Háskólann á Hólum 2015-2020 þar sem hún útskrifaðist með BA í ferðamálum. Lokaverkefnið hennar var rannsókn á upplifun reiðhjólaferðamanna af Vestfjörðum.

Að loknu námi stofnaði hún ásamt vel völdum félögum ferðaþjónustuna Cycling Westfjords.

Tyler Wacker mun vera henni til stuðnings, en hann er einn þeirra sem stofnaði Cycling Westfjords með henni. Hann kom til Ísafjarðar frá Texas til að stunda nám hér við Háskólasetur Vestfjarða þar sem hann útskrifaðist með meistaragráðu í Sjávarbyggðafræðum. Hann fékk styrk frá Rannís til að hjóla Vestfjarðarleiðina og skrifa skýrslu um upplifun sína af því og stöðu innviða fyrir reiðhjólaferðamenn á leiðinni.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá kl. 12.10 til 13.00

Bolvíkingar fá fjölmiðlaverðlaun KSÍ

Á myndinni eru Snævar Sölvason og Kristján Jónsson ásamt Ómari Smárasyni frá KSÍ

Bolvíkingarnir Snævar Sölvason og Kristján Jónsson ásamt Hannes Þór Halldórsson hljóta fjölmiðlaviðurkenningu KSÍ fyrir árið 2023 fyrir sjónvarpsþættina „Skaginn“.

Þættirnir eru heimildarþættir um lið ÍA sem vann einstakt afrek í íslenskri knattspyrnusögu þegar það varð Íslandsmeistari karla fimm ár í röð á árunum 1992-1996.

Snævar Sölvason var leikstjóri þáttanna og handritið skrifaði Kristján Jónsson. Hannes Þór Halldórsson var framleiðandi þáttanna.

Í þáttunum, sem voru fimm talsins, einn fyrir hvert ár, var rætt við þjálfara, leikmenn, andstæðinga, stjórnarmenn, stuðningsfólk og fjölmiðlafólk um liðið og þennan tíma og þar er varpað nýju og áður óþekktu ljósi á þetta ótrúlega afrek.

Ísafjarðarhöfn: samið við hollendinga um dýpkun

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt samning við hollenska fyrirtækið Van Der Kamp um dýpkun við Sundabakka í vor. Áætlað er að byrja á dýpkun í byrjun apríl og að hún taki 10 daga.

Hilmar Lyngmó hafnarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að samið væri um daggjald en ekki magn. Sandurinn verður settur við Norðurtangann innaf fyrirstöðugarðinum og upp með Fjarðarstrætinu.

Það eru Vegagerðin og Ísafjarðarhöfn sem standa að samningnum sem kominn er til vegna þess að Álfsnesið hefur verið ítrekað tekið úr verki á Ísafirði til þess að dýpka Landeyjarhöfn.

Hilmar segir að kostnaðurinn við þennan samning fyrir Ísafjarðarhöfn sé um 20 m.kr. meiri en ætla mætti samkvæmt samningi við Björgun ehf en á móti þeim kostnaði kæmi að ekki verður af fyrirsjáanlegu tekjutapi hafnarinnar um 150 m.kr. eins og á síðasta ári vegna þess að viðlegukanturinn var ekki tilbúinn.

Varúð: sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit í Hvalfjarðargöngum

Hvalfjarðargöng. Mynd: verkis.is

Meðalhraðaeftirlit í Hvalfjarðargöngum verður tekið í notkun á morgun þann 22. febrúar 2024.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að sjálfvirkt meðalhraðaeftirlit byggi á því að meðalhraði ökutækis sem fer tiltekna vegalengd er reiknaður út með því að deila í vegalengdina með tíma.  Þá vinna tvær myndavélar saman fyrir hvora akstursstefnu, þar sem önnur er staðsett í byrjun kaflans en hin í enda kaflans. Teknar eru myndir af öllum ökutækjum og búnaðurinn greinir hversu lengi ökumaður var að aka á milli myndavélanna og reiknar þannig út meðalhraða ökutækisins á kaflanum. Ef útreiknaður hraði er meiri en leyfilegt er telst viðkomandi ökumaður brotlegur og eftir það sér embætti lögreglustjórans á Vesturlandi um frekari úrvinnslu og sektarboð. Öll gögn eru dulkóðuð og myndir af þeim sem ekki eru brotlegir eyðast sjálfkrafa í myndavélunum. Skilti sem gefa eftirlitið til kynna hafa verið sett upp beggja vegna ganganna.

Vegagerðin ber ábyrgð á tæknilegri framkvæmd eftirlitsins, en Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á úrvinnslu og innheimtu sekta.

Vegagerðin segir sjálfvirkt hraðaeftirlit vera eitt af megin áherslum í umferðaröryggisáætlun stjórnvalda. Hraðamyndavélar séu fyrst og fremst settar upp á köflum þar sem slys eru mörg, en einnig er lögð áhersla á að setja slíkan búnað upp í jarðgöngum til að draga úr líkum á að slys verði.

Ísafjörður: dagur tónlistarskólanna á laugardaginn

Á Ísafirði er öflugur tónlistarskóli. Mynd: Tónís.

Dagur tónlistarskólanna 2024 verður haldinn hátíðlegur með tónlistarveislu í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 24. febrúar kl. 14. Fjölbreytt dagskrá og aðgangur ókeypis.

Að loknum tónleikunum verður kaffisala Skólakórs skólans í safnaðarheimilinu til styrktar Danmerkurferð skólakórs Tónlistarskólans sem er á leið á stórt norrænt kóramót í Danmörku í byrjun maí í vor.
Fjölbreytt kaffihlaðborð. Posi á staðnum.

Dagur Tónlistarskólanna

Um 90 tónlistarskólar eru á Íslandi og standa þeir fyrir fjölbreyttu og öflugu skólastarfi. Dagur tónlistarskólanna er haldinn í febrúar ár hvert til heiðurs Gylfa Þ. Gíslasonar sem var menntamálaráðherra á árunum 1956–1971. Gylfi hefur gjarnan verið kallaður „faðir íslenskra tónlistarskóla“ en hann kom því í gegn í ráðherratíð sinni að sveitarfélög sem hefðu hug á því að stofna tónlistarskóla fengju til þess styrk úr ríkissjóði sem næmi ákveðnum hluta launakostnaðar. Síðar var þessum lögum breytt á þann veg að launastyrkur ríkisins var aukinn, sem varð sveitarfélögum enn meiri hvatning til að koma tónlistarskólum á fót og þá fjölgaði þeim umtalsvert. Íslenskt tónlistarlíf og -menntun mun alla tíð búa að framsýni Gylfa Þ. Gíslasonar og áhuga hans á aukinni og markvissri tónlistarmenntun þjóðarinnar.

Vesturverk: Skúfnavötn fari í nýtingarflokk

Afstöðumynd af Skúfnavötnum.

Vesturverk ehf sem vinnur að Hvalárvirkjun er auk þess að rannsaka tvo aðra virkjunarkosti á Vestfjörðum. Eru það Skúfnavatnavirkjun ofan Þverár í Ísafirði og Hvanneyrardalsvirkjun upp af Ísafjarðarbotni. Báðir kostirnir voru á borði verkefnisstjórnar að rammaáætlun 4. áfanga og lagði verkefnisstjórnin til að Skúfnavötn færi í biðflokk en Hvanneyrardalsvirkjun í nýtingarflokk. Verkefnisstjórnin lauk ekki tillögugerð og voru skýrslur hennar ekki afgreiddar.

Við er tekin verkefnisstjórn rammaáætlunar 5. áfanga og vinnur hún að tillögugerð og er áformað ljúka störfum á næsta ári 2025.

Ásbjörn Blöndal, framkvæmdastjóri þróunar- og auðlindasviðs HS Orku og stjórnarformaður Vesturverks ehf segir að unnið sé að rannsóknum á Skúfnavatnavirkjun. Rannsóknarleyfi var framlengt til loka árs 2025. „Við höfum verið að mæla vatnafar, snjóalög og rennsli í tveimur ferðum á hverju ári á heiðina. Erum komin með góða mynd af rennsli til virkjunar. Jafnframt höfum við verið að meta valkosti sem við reiknum með að lýsa nánar í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar þegar þar að kemur. Virkjunarkosturinn er í rammaáætlun sem er í vinnslu og höfum við upplýst verkefnisstjórn um stöðu verkefnisins og hugsanlegar útfærslur.“ segir Ásbjörn.

Skúfnavatnavirkjun er 16 MW virkjun með orkuvinnslugetu upp á 86 GWh á ári og Hvanneyrardalsvirkjun er með 13,5 MW afl og 80 GWh á ári. Í skýrslu verkefnisstjórnar rammaáætlunar 4 segir um þessa virkjunarkosti að megin tækifæri sem felast í þessum virkjunum fyrir samfélagið tengist raforkuöryggi og framboði á raforku á Vestfjörðum og tækifærum fyrir íbúa og atvinnulíf. Á Vestfjörðum sé mikil þörf á að
bæta raforkuöryggi og framboð á raforku.

Að sögn Ásbjörns hefur ákvörðun Landsnets um að hafa tengivirki í Miðdal á Steingrísmfjarðarheiði gert það að verkum að næst er að gera umhverfismat fyrir línulögn frá væntanlegri Hvalávirkjun í tengivirki í Miðdal. Það hefur einnig áhrif á Skúfnavatnavirkjun og Hvanneyrardalsvirkjun en báðar myndu tengjast inn á sama tengipunkt.

Ásbjörn segir að hægt verði að auka afl og hagkvæmni beggja þessara virkjunarkosta með því að stækka miðlunarsvæðið á hálendinu. Sérstaklega mæli það með Skúfnavatnavirkjuninni að hún er á svæði sem þegar verður raskað vegna vegalagnar sem gera þarf vegna línulagnar frá Hvalárvirkjun í Miðdal. Veskurverk hafi lagt til við núverandi verkefnisstjórn að Skúfnavatnavirkjunin verði í nýtingarflokki og ef fallist verður á það verða fjórar virkjanir á þessu svæði í nýtingarflokki að Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun meðtöldum, sem þegar hafa verið samþykktar í rammaáætlun.

Áhrif Skúfnavatnavirkjunar, Hvanneyrardalsvirkjunar og Austurgilsvirkjunar í Skjaldfannardal, sem hefur verið samþykkt í rammaáætlun, á ferðamennsku, útivist, beit og veiðihlunnindi eru lítil og eru þessar virkjanir með þeim lægstu í lista þeirra virkjunarkosta sem verkefnisstjórn um rammaáætlun 4 skoðaði.

Uppfært kl 12:16. Bætt var við Austurgilsvirkjun í upptalningu á virkjunarhugmyndum á þessu svæði og verða þær fjórar í stað þrjár eins og áður var sagt.

Verkmenntahús M.Í. : Tekið vel í erindi Reykhólahrepps

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði.

Heiðrún Tryggvadóttir, skólameistari Menntaskólans á Ísafirði fagnar erindi Reykhólahrepps um þjónustuáætlun skólans við samfélagið í sveitarfélaginu.

„Við fögnum mjög bókun Reykhólahrepps og erum einmitt að senda þeim formlegt erindi í dag um samtal um þjónustuáætlun. Við sjáum mikla möguleika í slíkri áætlun og vonumst til að geta fjölgað nemendum frá Reykhólum í framtíðinni.“

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti í síðustu viku að taka þátt í kostnaði sveitarfélaga við nýtt verkmenntahús við Menntaskólann á Ísafirði. Telur sveitarstjórnin það vera mikilvægt en óskaði jafnfram eftir samtali við Menntaskólann um þjónustu skólans.

Þá óskaði sveitarstjórn eftir annarri kostnaðarskiptingu þar sem tekið væri tillit til fjarlægðar sveitarfélagsins frá skólanum og segir Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu að hún gerði ráð fyrir því að tekið verði mjög vel í erindið af hálfu þeirra sveitarfélaga sem hafa tekið jákvætt í erindið. 

Nýjustu fréttir