Laugardagur 14. september 2024
Síða 162

Súðavíkurhlíð lokað í kvöld

Lögreglan á Vestfjörðum hefur tilkynnt að veginum milli Ísafjarðar og Súðavíkur verði lokað í kvöld eftir að vegaþjónustu Vegagarðarinnar lýkur, eða ekki seinna en kl. 22:00 í kvöld.

Er þetta gert af öryggisástæðum, en aukin snjóflóðahætta er í hlíðinni ofan vegarins.

Ef allt fer að óskum verður vegurinn opnaður fyrir umferð kl.07:00 í fyrramálið segir í tilkynningunni.

Á vefsiðunni umferdin.is má fylgjast með veðri og færð á vegum. Og eins eru gefnar upplýsingar í símanúmerinu 1777.

Hjallurinn í Vatnsfirði

Hjallurinn í Vatnsfirði stendur smáspöl frá kirkju og íbúðarhúsi, niðri við sjó.

Hann var byggður í kringum 1880 og telst með veglegustu byggingum af þessari gerð á landinu.

Grjóthlaðnir hliðarveggirnir eru mjög háir. Hjallarnir voru geymslur fyrir veiðarfæri og fiskmeti, s.s. hertan fisk.

Þjóðminjasafnið fékk hann til vörzlu árið 1976 og hann var gerður upp sama ár.

Af vefsíðunni is.nat.is

Tína og Míló eru lukkudýr Vetrarólympíuleikanna 2026

Í byrjun febrúar voru kynnt til leiks Tína og Míló, en þau eru lukkudýr Vetrarólympíuleikanna og Paralympics sem haldin verða í febrúar árið 2026 í Mílanó og Cortina á Ítalu. Viðburðurinn fór fram á San Remo tónlistarhátíðinni á Ítalíu

Tína og Míló eru frettusystkini, af marðarætt, og verða þau lukkudýr Vetrarólympíuleikanna og Paralympics 2026. Nöfn þeirra eru dregin af nöfnum borganna tveggja sem hýsa leikana: Tina fyrir Cortina og Milo fyrir Mílanó, og þó þau séu lík í útliti, hefur hvort lukkudýr sinn eigin sérstaka persónuleika.

Tína, lukkudýr Ólympíuleikanna, er skapandi og raunsæ týpa. Hún býr í borginni og elskar sýningar og tónleika. Hún er hrifin af krafti fegurðar og getu hennar til að umbreyta. Hennar einkunnarorð eru „að dreyma stórt“.

Míló, lukkudýr Paraolympics, er draumóramaður. Hann elskar prakkarastrik, að leika í snjónum og finna uppá hljóðfærum í frítíma sínum. Ekkert getur stöðvað seiglu hans. Þó hann hafi fæðst með þrjá fætur og hafi lært að ganga með skottinu, eru hans kjörorð: „Hindranir eru eins og trampólín“.

Bæði lukkudýrin undirstrika sitt bjartsýna og jákvæða viðhorf með útliti sínu, tilfinningum og hegðun.

Áhugavert bókaspjall í Safnahúsinu

Safnahúsið á Ísafirði.

Laugardaginn 24. febrúar verður fyrsta Bókaspjallið á nýju ári.

Heiðrún Ólafsdóttir, kennari við MÍ, sem er fyrri bókaspjallarinn að þessu sinni segir frá ýmsum bókum sem henni hefur þótt áhugaverðar á sinni lestrarvegferð í tímans rás og vekja athygli á.

Seinni bókaspjallarinn er hins vegar Jóhanna Guðrún Kristjánsdóttir frá Flateyri. Hún mun segja okkur frá nýútkominni bók sinni, Nítjánhundruð fjörutíu og átta: minningabrot. Minningabrotin sem Jóhanna Guðrún skrifar um í bók sinni hverfast um þetta eina ár í lífi hennar, árið 1948, og það er árið þegar skólaganga hennar hefst í hinu almenna skólakerfi. Flateyri þess tíma kemur að sjálfsögðu við sögu og núna rúmum 75 árum síðar hefur nú margt breyst á þeim slóðum.

Gul veðurviðvörun

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra.

Spáð er norðaustan og norðan 13-20 m/s og talsverð snjókoma eða skafrenningur, mest á Ströndum.

Svona verðurspá fylgir oft lítið skyggni og versnandi færð. Viðvörun tekur gildi á hádegi í dag en á svo að ganga niður þegar líður á kvöldið. 

 Þá er við hæfi að biðja vegfarendur nú sem endranær að fara varlega. 

MÍ keppir í Gettu Betur í kvöld

Í kvöld keppir lið Menntaskólans á Ísafirði í 8 liða úrslitum Gettu Betur. Mótherjinn að þessu sinni er lið Verslunarskóla Íslands og verður viðureignin í beinni útsendingu á RÚV kl. 20:05. Er þetta í þriðja sinn í sögunni sem lið frá MÍ nær svo langt í keppninni.

Liðið í ár skipa Daði Hrafn Þorvarðarson, Mariann Raehni, Saga Líf Ágústsdóttir og Signý Stefánsdóttir. Þjálfarar eru þeir Einar Geir Jónasson og Jón Karl Ngosanthiah Karlsson.

Í morgun fór rúta frá MÍ til Reykjavíkur með rúmlega 40 nemendur sem munu styðja lið MÍ í sjónvarpssal. Er keppendunum óskað góðs gengis í kvöld.

Deiliskipulag unnið fyrir orlofsbyggðina á Flókalundi

Orlofsbyggðin á Flókalundi. Mynd: Verkvest.

Skipulags- og umhverfisráð  Vesturbyggðar hefur samþykkt tillögu að deiliskipulagi fyrir orlofsbyggðina í Flókalundi og beinir því til bæjarstjórnar að samþykkja tillöguna. Gangi það eftir hefst formleg málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum.

Ekki er í gildi formlegt deiliskipulag á svæðinu. Markmið stjórnar orlofsbyggðarinnar með deiliskipulagsgerðinni er að deiliskipuleggja núverandi byggð og gera tillögu um fjölgun um tvö orlofshús á svæðinu, ásamt því að gera ráð fyrir möguleika á stækkun núverandi þjónustu- og sundlaugarhúsa ásamt heimild fyrir byggingu fleirri þjónustuhúsa.

Innan skipulagssvæðissins eru alls fimmtán hús, þrettán þeirra eru orlofshús, eitt þjónustuhús fyrir sundlaug og loks þjónustuhús fyrir starfsemi orlofsbyggðarinnar.

Heildarstærð skipulagssvæðisins er 4.4 ha. Skipulagssvæðið er á þegar röskuðu landi og er í eigu ríkisins.

Skýrsla HHÍ um laxeldi: störfum fjölgar, íbúðaverð þrefaldast, auknar skattgreiðslur og hærri meðallaun

Í síðustu viku var birt skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, HHÍ, um áhrif laxeldis í opnum sjókvíum á byggð og efnahagslíf sem unnin var fyrir íslenska náttúruverndarsjóðinn; IWF, sem greiddi fyrir gerð hennar ásamt NASF, Laxinn lifi og Landsambandi veiðifélaga..

Fékk Hagfræðistofnunin það verkefni að taka saman hagtölur fyrir greinina frá 2015, eftir því sem gögn leyfðu, og rýna í áhrif hennar á hagkerfið. Virðisauki í opnu sjókvíaeldi á laxi undanfarin ár yrði metinn og hlutur greinarinnar í hagvexti á landinu öllu og í einstökum landshlutum.

Eins og gefur að skilja þegar allir helstu andstæðingar sjókvíaeldis við landið láta gera svona skýrslu þá er tilgangurinn að fá í hendurnar áróðurstæki gegn laxeldinu.

Skýrslan er dagsett í nóvember 2023 en það er fyrst nú, þremur mánuðum seinna sem hún er birt og það er með frekar lágstemmdum hætti miðað við fyrri framgöngu þessara aðila. Það bendir til þess að greiðendurnir telja sig ekki hafa mikið gagn af skýrslunni.

Laxeldið orðið stór atvinnuvegur

Í skýrslunni er það dregið skýrt fram að laxeldi í sjó hafi margfaldast frá 2015 til 2022 og vaxið úr um 5.000 tonna framleiðslu í 43.000 tonn og útflutningstekjurnar það ár voru 41 milljarður króna.

Eins og vænta má hjá fyrirtækjum í uppbyggingu hefur ekki verið hagnaður af rekstri laxeldisfyrirtæjanna á þessum árum en HHÍ bendir á að hlutfall eiginfjár af heildareignum er hátt, en það var 46% árið 2022 eða 39 milljarðar króna í lok þess árs. „Þau hafa aflað mikils fjár til rekstrarins á fáum árum. Það hlýtur að endurspegla von um góða afkomu.“ segir í skýrslunni.

Mikil verðmæti – 100 milljarðar króna

Fram kemur í skýrslunni að samtals hafði verið úthlutað leyfum fyrir tæplega 96 þúsund tonnum af lífmassa af laxi í sjó við Ísland í árslok 2022, samkvæmt ársreikningum eldisfyrirtækja og upplýsingum frá Matvælastofnun.

Það þýðir að vænta megi þess að framleiðslan muni ríflega tvöfaldast á næstu árum bara vegna þeirra leyfa sem þegar hafa verið gefin út. Af því leiðir líka að útflutningsverðmæti laxeldisins muni a.m.k. tvöfaldast og fara að slaga upp í 100 milljarða króna á hverju ári. Að vísu er það ekki nefnt berum orðum í skýrslunni en blasir samt við. Þessar tekjur eru fyrir þjóðarbúið á við tvær góðar loðnuvertíðir – á hverju ári!

Skýrsluhöfundar velta fyrir sér verðmæti leyfanna til eldis á laxi í sjó og segja: „Ef gert er ráð fyrir að þau séu að jafnaði jafnverðmæt og þau tæplega 26 þúsund tonn sem Ice Fish Farm metur til fjár í ársreikningi sínum má reikna með að leyfi til laxeldis í sjó við Ísland hafi verið tæplega 96 milljarða króna virði í árslok 2022.“

Með öðrum orðum, skýrslan segir eftirfarandi óbeint: laxeldi í sjó er gríðarlega arðbær atvinnuvegur og vænta má þess að árlegar útflutningstekjur verði um 100 milljarðar króna og verðmæti þegar útgefinna leyfa er einnig um 100 milljarðar króna.

Mynd úr skýrslunni sem sýnir tekjur eldisfyrirtækja á Vestfjörðum.

Eldið skýringin á fólksfjölgun

Í skýrslunni eru greind áhrif á íbúaþróun á sunnanverðum Vestfjörðum á árunum 2014 til 2023. Þar segir:

„Vinnumálastofnun telur að árið 2022 hafi að jafnaði 817 manns starfað í hreppunum tveim á sunnanverðum Vestfjörðum. Ætla má að 15-20% séu í sjókvíaeldi. Við bætast störf sem tengjast starfseminni, beint og óbeint. Eldið er meginskýring þess að frá upphafi árs 2014 og fram á haust 2023 fjölgaði íbúum í Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi um 200, eða 16%.“

Þetta er kjarni málsins. Auk þess má nefna að kvóti var seldur frá Tálknafirði 2015 og í framhaldinu lokaði frystihúsið á Tálknafirði og leiddi það til fólksfækkunar á Tálknafirði. Að teknu tilliti til þess þá var íbúafjölgunin vegna fiskeldisins meiri en þessi 200 sem nefnd. Jákvæðu áhrifin voru enn meiri en þarna er tilgreint.

Fasteignaverð þrefaldast

Annað jákvætt atriði nefna skýrsluhöfundar. Það er breytingin á fasteignaverði. „Fasteignaverð gefur hugmynd um stöðu byggðanna. Frá 2014 til tímabilsins frá ársbyrjun 2022 og fram í október 2023 nær þrefaldaðist verð sérbýlis á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal“ stendur í skýrslunni.

„Húsnæði, sem seldist á árunum 2022 og 2023, var að vísu ekki dýrt. Fermetraverð í sérbýli var að jafnaði 230-240 þúsund krónur (í 20 samningum), um 75% af verði í gamalli byggð á Ísafirði og 36-37% af því sem borgað var fyrir sérbýli í Árbænum, Ártúnsholti, Höfðum, Selási og Norðlingaholti í austanverðri Reykjavík.“

500 m.kr. í skatta og gjöld til sveitarfélaga

Um skattgreiðslur segir og er haft eftir endurskoðanda Arnarlax að hann áætli að árið 2022 hafi skattar og gjöld til sveitarfélaga á starfssvæði þess [á sunnanverðum Vestfjörðum] verið um 500 milljónir króna í formi útsvars starfsmanna, hafnargjalda eða annarra gjalda sem tengjast rekstri fyrirtækisins.

Kostnaður af greiðslu launa á starfssvæði félagsins á sunnanverðum Vestfjörðum eru líklega ríflega 1.600 milljónir og aðrar greiðslur til fólks og fyrirtækja á svæðinu nálægt 800 milljónum segir ennfremur í skýrslunni.

Laun 6% yfir landsmeðaltali

Um laun í fiskeldinu segir í skýrslunni að meðallaun á mánuði fyrir fulla vinnu í sjókvíaeldi á Vestfjörðum hafi verið um 925 þúsund krónur árið 2022, samkvæmt ársreikningum fyrirtækja í greininni. „Launin eru um 6% yfir því sem greitt var að jafnaði fyrir fullt starfi hér á landi árið 2022, samkvæmt tölum Hagstofunnar.“

Öll þessi atriði sem hér hafa verið tíunduð og koma fram í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands lýsa því að það er rétt og skynsamlegt fyrir þjóðarbúið að nýta þá auðlind í fjörðunum sem þar nýtast við fiskeldi í sjó. Fyrirsjáanlegt er að atvinnugreinin er mjög arðbær að mati fjárfesta og atvinnuleyfin verðmæt. Slíkri starfsemi fylgja óhjákvæmilega háar greiðslur til opinberra aðila í formi skatta og gjalda og þær hafa verið að hækka á hverju ári í takt við aukna framleiðslu en líka vegna hækkandi skatta á atvinnugreinina.

Vaxtarmöguleikarnir eru miklir í fiskeldinu, sérstaklega sjókvíaeldinu á laxi. Greinin verður í náinni framtíð mikilvægari en þorskstofninn ef fram fer sem horfir og mun skila miklu til bættra lífskjara í landinu. Vaxtarverkir eru líka fylgifiskur en fyrirtækin hafa alla hagsmuni af því að finna lausnir á vanda svo sem lús og sleppingum og þau munu keppast við í þeim efnum.

Þeir sem báðu um skýrsluna og borga fyrir hana munu ekki halda þessum atriðum á lofti. Þeir einblína á önnur atriði svo sem fjölgun útlendinga og halda því fram að launakjörin freisti ekki Íslendinga. Sjáum til með þann málflutning, en það er efni í annan pistil að svara því.

En skýrsla HHÍ bendir skýrt á ávinning lands og þjóðar af þessari atvinnuppbyggingu – það er kjarni málsins.

-k

Ísafjörður: Heimavöllur Vestra verður Kerecis-völlurinn

Kvennalið Vestra á æfingu.

Kerecis verður aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildar Vestra samkvæmt samningi sem tilkynnt var um á Ísafirði í dag. Kvenna-, karla- og ungmennalið Vestra munu öll leika í búningum merktum Kerecis í sumar og heimavöllur félagsins hlýtur nafnið Kerecis-völlurinn.
Samúel Samúelsson, stjórnarmaður í knattspyrnudeild Vestra, fagnar samstarfinu og segir stuðninginn gríðarlega mikilvægan. „2024 er tímamótaár hjá Vestra. Félagið mun leika í efstu deild karla í fyrsta sinn í ár og jafnframt tefla fram liði í meistaraflokki kvenna í fyrsta skipti síðan 2013. Þá er barna- og ungmennastarfið í miklum blóma og hér ríkir mikil eftirvænting fyrir sumrinu. Kostnaður vegna alls þessa er verulegur, sérstaklega vegna ferðalaga, og við erum afar þakklát fyrir veglegan stuðning Kerecis við félagið.“

Guðmundur Fertram stofnandi og forstjóri Kerecis segir að hjarta Kerecis slái á Ísafirði og það sé gaman að geta lagt knattspyrnudeild Vestra lið. Íþrótta- og æskulífsstarf sé einn af máttarstólpum samfélagsins og frábær árangur Vestra sé mikil lyftistöng fyrir Vestfirði. „Árangur Vestra er táknrænn fyrir uppganginn á Ísafirði og nágrenni undanfarin ár. Atvinnulífið blómstrar, íbúum fjölgar og mannlíf dafnar. Allt helst þetta í hendur og við viljum taka þátt í því að efla samfélagið í okkar heimabæ.”

Hann segir sérstaklega mikilvægt að styðja íþróttastarf á landsbyggðinni, enda sé hrópandi aðstöðumunur í samanburði við íþróttalið á SV-horninu. „Vestri þarf að ferðast um langan veg í alla útleiki með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir leikmenn, enda eru flugsamgöngur stopular og akleiðin löng. Hér þarf að stórbæta samgönguinnviði til hagsbóta fyrir mannlíf og atvinnulíf og ætlum við að leggja okkar af mörkum til að svo verði,“ segir Guðmundur Fertram.


Sjá nánar á https://www.youtube.com/watch?v=1c54YQJRxho

Æfing á Torfnesvelli í febrúarmánuði.

Kerecisvöllurinn og Guðmundur Fertram.

Myndir: aðsendar.

Patreksfjörður: slysavarnardeildin Unnur 90 ára í dag

Forsíðan á afmælisirtinu.

Í dag eru rétt 90 ár síðan 122 konur stofnuðu slysavarnadeildina Unni á Patreksfirði. Konur úr verkalýðsfélaginu höfðu forgöngu um stofnun félagsins og söfnuðu undirskriftum. Fyrsti formaður var kjörin Elín Bjarnadóttir. Núverandi formaður Sólrún Ólafsdóttir rifjar þessa sögu upp í 48 blaðsíðna afmælisriti sem komið er út í tilefni afmælisins. Rifjar hún upp að frá upphafi hefur það verið leiðarljósið að efla slysavarnir og öryggi heima fyrir. Sjóslys voru tíð á þessum tíma og vann slysavarnadeildin hörðum höndum að því að bæta öryggi sjófarenda. Fyrir utan öflugt slysavarnastarf hefur deildin unnið að margs konar fjáröflun til þess að fjármagna kaup á ýmsum björgunarbúnaði og hefur deildin staðið þétt við Björgunarsveitina Blakk í þeim efnum.

Fram kemur hjá Sólrúnu að í dag er 81 kona í Slysavarnadeildinni Unni. „Starf okkar er fjölbreytt og gefandi og allar konur eru velkomnar í þennan skemmtilega, nærandi og góða félagsskap.“ Félagskonur hafa í gegnum tíðina beitt sér fyrir margvíslegum framfaramálum. Eitt þeirra var frá árinu 1941, en þá samþykkti Slysavarnadeildin Unnur að beita sér fyrir sundlaugarbyggingu á Patreksfirði. Deildið aflaði fjár fyrir byggingunni og hún var vígð 1946. Einnig beitti Slysavarnadeildin Unnur sér líka fyrir því að setja upp talstöð við Hvallátra við Patreksfjörð.

Í afmælisritinu er m.a. ágrip af störfum allra 22 formanna félagsins frá stofnun þess og rifjað upp í máli og myndum ýmislegt í starfi félagsins. Er afmælisritið hið veglegasta og gefið út á prenti í 800 eintökum auk þess að vera á rafrænu formi.

Opið hús á laugardaginn

Í tilefni af afmælinu stendur deildin fyrir afmælishófi á laugardaginn í Félagsheimilinu á Patreksfirði þar sem verður fjölbreytt dagskrá.

Nýjustu fréttir