Laugardagur 14. september 2024
Síða 161

Ísafjarðarhöfn stofnar sumarviðburðasjóð

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að setja 5 m.kr. í sumarviðburðasjóð.

Markmiðið með sjóðnum er að styrkja og bæta bæjarbraginn í tengslum við skemmtiferðaskipakomur, þar sem áhersla er lögð á að efla menningu og mannlíf.
Styrkjum er úthlutað til einstakra viðburða, eða raða viðburða. Ekki eru veittir styrkir til rekstrar‐, stofnkostnaðar‐ eða endurbóta eigna eða fyrirtækja.
Úthlutað er til lögráða einstaklinga, listhópa, félagasamtaka, stofnana eða fyrirtækja sem koma að menningarviðburðum í Ísafjarðarbæ.
Helstu skilyrði fyrir styrkveitingu;

  • Viðburðir skulu haldnir á tímabilinu maí til september
  • Viðburðir skulu vera þátttakendum/áhorfendum að kostnaðarlausu
  • Viðburðir sem haldnir eru á milli klukkan 10:00 og 15:00 njóta forgangs
  • Hægt er að sækja um styrk að hámarki 1.000.000 kr.

Ísafjarðabær mun tilnefna tvo aðila og Vestfjarðastofa tilnefnir einn í úthlutunarnefnd ásamt
einum starfsmanni Vestfjarðastofu sem heldur utan um vinnu sjóðsins. Hafnarstjóra Hilmari Lyngmó var falið að útnefna fulltrúa í úthlutunarnefndina.

Fjórar vikur fjögur ráð

Út er komin bókin Fjórar vikur fjögur ráð sem getur breytt lífi þínu á fjórum vikum.

Þjáist þú af sykurfíkn og síþreytu og hefur mikla þörf fyrir snarl milli mála?
Vaknar þú upp um miðjar nætur með dynjandi hjartslátt?
Finnst þér þú stundum vera með heilaþoku?

Meirihluti fólks glímir við miklar blóðsykurssveiflur sem hafa veruleg áhrif á heilsu og daglega líðan. Flest okkar hafa ekki hugmynd um hvað veldur þessum óþægindum.

Þessi bók leysir þig úr vítahring blóðsykrusrússíbananas.

Jessue Inchauspé, Glúkósagyðjan eina sanna sem er með þrjár milljónir fylgjenda á Instagram (@glucosegoddess), er lífefnafræðingur og höfundur metsölubókarinnar Blóðsykursbyltingin. Þar fjallaði hún um mikilvægi blóðsykursins fyrir heilsuna og kynnti hollráð til að halda sveiflum hans í skefjum.

Þessi bók breytir lífi þínu á aðeins fjórum vikum. Hún sýnir skref fyrir skref hvernig má hafa áhrif á blóðsykurinn til hins betra og bæta bæði líkamlega og andlega heilsu til muna. Meira en hundrað auðveldar og girnilegar uppskriftir eru í bókinni og ótal dæmi um hvernig best er að beita hollráðum Glúkósagyðjunnar svo þau verði ómissandi hluti af nýjum lífsstíl.

Heildarendurskoðun á útgáfu námsgagna

Mennta- og barnamálaráðuneytið stóð ásamt Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fleiri samstarfsaðilum fyrir málþingi um framtíðarfyrirkomulag útgáfu námsgagna á föstudag í síðustu viku.

Meginumfjöllunarefnið var hvaða leiðir eru færar til að auka aðgengi nemenda að vönduðum námsgögnum.

Fjölbreyttur hópur fjölmennti á málþingið og kom sínum sjónarmiðum á framfæri í pallborðsumræðum og málstofum. Málþingið er liður í heildarendurskoðun mennta- og barnamálaráðuneytisins á fyrirkomulagi námsgagnaútgáfu í samræmi við aðgerð 9 í menntastefnu stórnvalda til ársins 2030 um vönduð náms- og kennslugögn fyrir allt menntakerfið.

Niðurstöðurnar verða nýttar við endurskoðun á lögum um námsgögn og aðkomu ríkisins.

Vilja byrja grásleppuveiðar 1. mars

Landsamband smábátaeigenda hefur sent Matvælaráðuneytinu erindi þar sem óskað er eftir að upphafsdagur grásleppuvertíðar 2024 verði 1. mars.

Í bréfinu segir meðal annars:

Megin ástæða beiðninnar er að á undanförnum árum hefur markaður fyrir fersk grásleppuhrogn í Danmörku farið vaxandi. 
Samfara hefur útflutningur héðan aukist jafnt og þétt og skilað góðu verði til sjómanna og útflytjenda.

Markaðurinn er þó enn takmarkaður við tímann frá áramótum og fram að páskum.  Þar sem páskar eru mjög snemma í ár, páskadagur 31. mars,  er hætt við að íslenskir sjómenn geti ekki nýtt sér eða annað markað fyrir fersk grásleppuhrogn hefjist vertíðin 20. mars. 
Auk hrogna frá Íslandi selja danskir og sænskir sjómenn hrogn sín inn á þennan markað.

Góður fundur á Reykhólum um atvinnuþróun og nýsköpun

Síðasta þriðjudag var boðað til undirbúningsfundar að stofnun atvinnu- og uppbyggingarklasa í Reykhólahreppi.

Markmiðið með fundinum var að skapa umræðu- og samstarfsvettvang fyrir alla sem áhuga hafa á atvinnuþróun, nýsköpun og annarri uppbyggingu í Reykhólahreppi.

Hrafnkell Guðnason, verkefnastjóri framkvæmda og uppbyggingar á vegum Reykhólahrepps, var með framsögu og fór yfir hvað klasastarfsemi gengur út á. Líflegar umræður voru á fundinum og margt athyglisvert kom fram.

Mikið var rætt um ferðaþjónustu, ónýtta möguleika og hvað þyrfti að gera til að geta sinnt ferðafólki sómasamlega. Þar fer saman að flest sem vantar til að taka vel á móti ferðafólki, er jafnframt tækifæri til uppbyggingar og að skapa störf. 

Margt fleira var rætt, sem spannst af því sem nefnt hefur verið, svo sem gistiþjónusta, afþreying, heilsuhótel, sjávarböð, Þörungamiðstöð, hliðið að Vestfjörðum, markaðssetning, sögutengd upplýsingaskilti, minnisvarðar, endurgerð virkisins á Reykhólum, opnunartími þjónustustaða o.fl.

Í lok fundar var nefnd skipuð til að halda áfram með þetta verkefni.

Snerpa: tvær nýjar vefmyndavélar

Frá vefmyndavélinni í Óshólavita sest vel yfir Bolungavíkina.

Teknar hafa verið í notkun tvær nýjar vefmyndavélar á vegum Snerpu á Ísafirði og má finna þær

á vefmyndavélasíðu Snerpu.

Önnur er í Varmadal í Önundarfirði og hin á Óshólavita í Bolungarvík.

Varmidalur – Myndavélin er í boði Græðis og M11 arkitekta og sýnir Önundarfjörðinn í öllu sínu veldi.

https://www.snerpa.is/allt_hitt/vefmyndavelar/Onundarfjordur_-_Varmidalur/

Óshólaviti – Myndavélin sýnir frá Bolungarvík og snýr sér síðan inn Ísafjarðardjúpið.

https://www.snerpa.is/allt_hitt/vefmyndavelar/Osholaviti/

Alls eru nú 13 vefmyndavélar á vefmyndavélasíðu Snerpu og von er á þeirri fjórtándu á næstunni, en hún verður á mastri við Símstöðina á Flateyri. Vefmyndavélarnar eru samfélagsverkefni Snerpu og margra einstakra aðila sem hefur staðið í á þriðja áratug. Í flestum tilfellum eru einstaklingar eða fyrirtæki að leggja til myndavélar og aðstöðu á eigin kostnað á meðan Snerpa leggur til streymisþjóninn sem streymir frá vélunum frítt.

Tvær vefmyndavélar eru við Sundahöfn á Ísafirði, fjórar í Dýrafirði við Alviðru, Höfða og við smábátahöfnina á Þingeyri, tvær á Suðureyri við Klofning, við Dynjanda og á Hrafnseyri í Arnarfirði, við Varmadal í Önundarfirði, í Súðavík og við Óshólavita í Bolungavík.

Mynd frá vefmyndavélinni við Varmadal í Önundarfirði.

Gefum íslensku séns á sunnanverðum Vestfjörðum á helginni

Vert er að benda á að Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag verður með þrjár kynningar á helginni á sunnanverðum Vestfjörðum. Til stendur að kynna átakið almennt og fyrir hvað það stendur. En augnamiðið er jafnframt að það megi skjóta þar rótum þannig að standa megi að viðburðum með það að leiðarljósi að auka tækifæri fólks til að æfa íslensku, að stuðla að íslenskuvænu samfélagi.

Áhugasamir geta kynnt sér málið á FB-síðu átaksins.

Við ætlum s.s. að koma við á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði á morgun, laugardag.

Klukkan 12:00 verðum við í Muggsstofu á Bíldudal
Klukkan 14:00 verðum við í Tálknafjarðarskóla á Tálknafirði
Klukkan 16:00 verðum við í Patreksskóla á Patreksfirði

Auk þess stendur til að vinna hugmyndavinnu enda eru allar hugmyndir vel þegnar, allar hugmyndir sem hafa það að augnamiði að auka veg íslenskunar og auka tækifæri fólks til að æfa sig í notkun málsins þar sem móðurmálshafar, hugsanlegir almannakennarar, gegna lykilhlutverki.

Fræðslumiðstöð Vestfjarða, sem er einn af stofnaðilum átaksins og virkur þátttakandi, verður með í för og mun einnig kynna starfsemi sína.

Þess fyrir utan er ýmislegt í farvatninu. T.d. hraðíslenska á Kaffi Galdri á Hólmavík 1. mars, í Blábankanum á Þingeyri 12. mars svo og á Bryggjukaffi á Flateyri 13. mars. Svo er auðvitað Þriðja rýmið á sínum stað í Bókasafninu á Ísafirði 11. mars.

Látum okkur endilega málið varða, þetta er mál okkar allra.

Íslenskunámskeið / Icelandic Courses

Háskólasetur Vestfjarða / University Centre of the Westfjords

Viðtalið: Linda Björk Gunnlaugsdóttir

Linda Björk Gunnlaugsdóttir.

Nýlega hóf Linda Björk Gunnlaugsdóttir störf sem framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Arnarlax. Hún hafði áður starfað erlendis í flutningsgeiranum og er í frístundum sínum hestamanneskja. Bæjarins besta lagði fyrir Lindu nokkrar spurningar.

Seljum 18.000 tonn af laxi

Ég hóf störf hjá Arnarlaxi í byrjun janúar sem framkvæmdastjóri sölusviðs.  Sölusviðið sér um sölu á laxinum sem við framleiðum og annast einnig allan flutning.  Eðlilega eru mikil umsvif í deildinni en samtals erum við 7 manns sem sinna þessum verkefnum.  Við seldum og fluttum við um 18.000 tonn af laxi árið 2023. Magnið verður aðeins minna í ár en svo er stefnan að magnið aukist á komandi árum.

Viðskiptavinir Arnarlax eru út um allan heim og því mikill undirbúning sem felst í hverri sölu í gegnum allt fyrirtækið frá því að laxinn er sóttur í kví, fer í gegnum vinnsluna, pakkað og settur í viðeigendi flutninga einingu og komið á endastöð ferskur og flottur. 

Við seljum lax t.d. til  USA, Asíu, um alla Evrópu og er hann fluttur annað hvort með skipum eða flugi. 

Lax er ein vinsælasta fiskitegund í heimi og markaðurinn fer ört stækkandi.  Það er því mjög gaman að fá tækifæri til að taka þátt í því að vinna í fyrirtæki sem er í framleiðslu á góðu og hollu próteini.   Metnaðurinn, agi og fagleg vinnubrögð eru rauði þráðurinn í gegnum allt fyrirtækið enda brennum við fyrir því að framleiða flotta og góða vöru í sátt og samlyndi við umhverfið.

Viðskiptavinir Arnarlax eru eins og áður sagði út um allan heim og við finnum fyrir mikilli eftirspurn eftir okkar laxi vegna gæða og stefnu fyrirtækisins. 

Við notum allar helstu flutningaleiðir frá landinu bæði á sjó og flugi.  Höfum t.d. notað skipaflutninga til austurstrandar USA, fljúgum fiski til Kína og vesturstrandar USA og svo skip að mestu til Evrópu, Skandinaviu og Bretlands.

Starfaði í Hollandi og Færeyjum

Minn bakgrunnur er fjölbreyttur þar sem ég hef verið stjórnandi í nokkrum atvinnugeirum á Íslandi t.d flutningum, olíu og heildsölu.  Ég starfaði erlendis fyrir Eimskip í nokkur ár og fékk þá tækfæri á að búa í Hollandi og svo í Færeyjum þar sem ég var framkvæmdastjóri Eimskip í Færeyjum.  Flest árin hafa verið í flutningageiranum og  m.a. kom ég að opnun Smyril Line á Íslandi og tók þátt í ævintýrinu að hefja siglingar á Þorlákshöfn sem nú blómstar og dafnar.  

Hef einnig fengið tækifæri til að vera í nokkrum stjórnum og m.a. hef ég verið í stjórn SFS sem var mjög áhugavert. 

Mestum tíma fyrir utan allra gæðastundanna með fjölskyldunni minni og barnabörnunum fimm eyði ég svo í hestana mína.  Er auðvitað á kafi í að smita barnabörnin af hestabakteríunni og gengur það nú bara mjög vel.

Takk fyrir að tala íslensku – Gefum íslensku séns

Ég heiti Kristina Matijević og ég bý á Íslandi. Ég læri og æfi íslensku en vil samt auðvitað verða betri í íslensku. Samt læri ég núna ekki íslensku í skóla og ég hef bara tekið eitt byrjendanámskeið. Það er langt síðan. Þá bjó ég ekki á Íslandi. Ég flutti til Íslands árið 2021. Í júlí. Ég á heima á Ísafirði og vinn á leikskólanum Sólborg. Þar tala ég íslensku á hverjum degi. Þar tala kollegar mínir við mig íslensku á hverjum degi. Alltaf.

Stundum er erfitt að tala. Stundum er erfitt að skilja. Það er ekki alltaf auðvelt að læra tungumál. Ég er fædd í Júgóslavíu en móðurmál mitt er króatíska. Það er slavneskt mál. Margt er ólíkt með íslensku og króatísku. Til dæmis orðaforðinn og stundum framburðurinn. Samt er vel mögulegt að læra málið, að læra íslensku.  Það er stundum erfitt, stundum auðvelt og allt þar á milli. En það er mjög mikilvægt að læra málið. Þá skiptir ekki máli ef planið er að búa hér lengi eða bara í stuttan tíma. Tungumálið er lykillinn að öllu.

Auðvitað hugsa ég stundum:

-Af hverju er ég að gera þetta? Af hverju tala ég ekki bara ensku. Vilja ekki allir tala ensku hér öllum stundum. Er fólki ekki líka alveg sama?

En það er bara stutt. Ég veit að ég verð ekki betri í íslensku ef ég nota hana ekki, ef ég heyri hana ekki. Ef ég nota ensku, ef fólk talar við mig ensku verð ég betri í ensku og fjarlægist íslenskt (mál)samfélag. Það er ekki gott. Íslenska er opinbert mál hér, mál stjórnkerfisins, mál leikskólanna, mál skólanna. Ég vil skilja það, ég vil skilja þegar börnin mín tala íslensku, ég vil geta hjálpað þeim með heimanámið. Ég vil vera hluti samfélagsins en ekki til hliðar í samfélaginu.

Á Ísafirði er gott að læra og æfa íslensku. Fólk hér talar oftast við mig íslensku. Eiginlega alltaf. Þess vegna þarf ég ekki endilega að fara á námskeið (námskeið eru samt fín). Hingað til hef ég bara lært með því að tala, með því að skrifa og hlusta, með því að nota málið aftur og aftur og aftur. Það var best fyrir mig.

Ég þarf sem sagt fólk sem talar við mig á íslensku, stundum rólega, stundum með því að endurtaka eða endurorða og einfalda, stundum þarf að nota hendur og fætur eða svipbrigði svo ég megi skilja.  Það er nefnilega öruggt að ég læri enga íslensku sé töluð við mig enska.

Svo mín skilaboð eru: Talið íslensku, gefum íslensku séns, því ef þið móðurmálshafar gerið það ekki hverjir gera það þá? Þetta hefur ekki verið vandamál fyrir mig og ég þakka ykkur fyrir að tala við mig íslensku.

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

Sjókvíaeldi: Bandaríski ráðherrann fór með fleipur um eigin málefni

Skjáskot af visir.is um viðtalið við Hilary Franz.

Fyrir nokkrum dögum var hér á landi Hilary Franz, sem Stöð 2 og visir.is segja að gegni embætti umhverfisráðherra Washington fylkis í Bandaríkjunum. Henni var boðið hingað til lands til þess að vera viðstödd frumsýningu á heimildarmynd um fiskeldi á Íslandi. Að myndinni stendur  bandaríska útivistarvöruframleiðandinn Patagonia, sem mun einnig selja matvöru framleidda úr Kyrrahafslaxi, og voru þar samankomnir ýmsir andstæðingar laxeldis í sjókvíum á Íslandi.

Hilary Franz gegnir frá 2017 starfi sem heitir Washington commissioner of public lands og er kosið á fjögurra ára fresti í almennum kosningum. Ekki er um ráðherraembætti að ræða heldur væri nær að tala um umboðsmann eða fulltrúa.

Franz hvatti íslensk stjórnvöld til þess að banna sjókvíaeldið áður en það yrði of seint og sagði í viðtali við Stöð 2, sem var svo endurbirt á visir.is, að hún hefði bannað laxeldi í sjókvíum með Atlantshafslax í fylkinu í kjölfar slysasleppingar, en fylkið liggur að Kyrrahafinu.

Haft er orðrétt eftir henni í viðtalinu um laxana sem sluppu:

„Þeir blönduðust innlenda laxastofninum sem á satt best að segja á brattann að sækja.“ og hún bætir svo við: „Við getum stundað fiskeldi án þess að það hafi áhrif á innlenda stofna með því að hafa það uppi á landi.“

engin hætta af Atlantshafslaxinum

Í stjórnardeild þeirri sem Hilary Franz veitir forstöðu og heitir Washington Department of Fish and Wildlife er að finna ágætar upplýsingar um verkefni stofnunarinnar.

Þar segir um Atlantshafslaxinn að stjórnardeildin líti á Atlantshafslaxinn sem framandi tegund, en að engin gögn um hann sýni að hann ógni stofnum sem fyrir eru vegna blöndunar eða sjúkdóma.

Á ensku er þetta : „The Washington Department of Fish and Wildlife (WDFW) considers Atlantic salmon an aquatic invasive species, but there is no evidence to date that Atlantic salmon pose a threat to native fish stocks in Washington through crossbreeding or disease.“

Vísað er í rannsóknir sem fram fóru og skýrslu frá 1999 um áhrif af Atlantshafslaxinum þar sem niðurstaðan er mjög ákveðið að eldi með Atlantshafslaxi sé hættulítið Kyrrahafslaxinum sem þarna er fyrir og reyndar líka öðrum fisktegundum af öðrum uppruna.

„the evidence strongly indicates that Atlantic salmon aquaculture poses little risk to native salmon and non-salmon species.“

Þetta stendur á vefsíðu þessarar merki stjórnarstofnunar um Atlantshafslaxinn. Svo gott sem hættulaus fyrir Kyrrahafslaxinn sem er fyrir.

Og það er meira á vefsíðunni. Á árunum 2003-2008 var leitað að Atlantshafslaxi í 174 ám í fylkinu og fundust 194 eldislaxar. Það voru engin merki um að Atlantshafslaxinn hefði hryngt í ánum og engin blendingsseiði.

En samt segir kjörni yfirmaðurinn Hilary Franz í viðtalinu á Stöð 2 að sleppilaxar hafi blandast innlenda laxastofninum, fullyrðing sem er í andstöðu við uplýsingar eigin stofnunar.

Atlantshafslaxinn blandast ekki Kyrrahafslaxinum

Á þessu vekur athygli dr. Ólafur Sigurgeirsson, lektor við  fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum og bætir við :

„Hún veit ekki að Atlantshafslax æxlast ekki með Kyrrahafslaxi og heldur ekki að þrátt fyrir að seiðasleppingar á Atlantshafslaxaseiðum á vesturströndinni, í fiskræktarskyni, allt frá 1905 (og síðast í hennar sveit 1981 -eins og fram kemur í viðhenginu), hefur Atlantshafslax ekki náð „fótfestu“ í vistkerfum.“

Hér er slóðin á vefsíðu þessarar ágætu stofnunar: https://wdfw.wa.gov/species-habitats/invasive/salmo-salar?fbclid=IwAR16dZBGmk4rE38NvXcTRhijmPy7oofgyuebCNTqXTqg9uDgra223gh_bAw svo lesendur geti með eigin augum séð hvað þar stendur.

Stöð 2 leiðréttir ekki

Það er stórfurðulegt að bandaríski umboðsmaðurinn eða ráðherrann skuli fara með algerar fleipur um málefni sem heyra undir hana. Það er ekki til þess að auka traust á málflutningi andstæðinga sjókvíaeldis við Ísland að byggja mál sitt á staðleysum. En það er líka áhyggjuefni að Stöð 2 og visir.is skuli ekki hafa flutt fréttir af þeim áreiðanlegu upplýsingum sem fyrir liggja á opinberum vettvangi og segja allt annað en haldið hefur verið fram í fjölmiðlinum. Það er ábyrgðarhlutur af þeirra hálfu að þegja yfir mikilvægum upplýsingum í máli sem ber einna hæst í þjóðmálaumræðu síðustu árin. Þegar það er gert er dregin upp röng mynd, hlustendur fá ekki réttar upplýsingar og það hefur áhrif á skoðanamyndun.

Það getur ekki verið ætlun Stöðvar 2 og visir.is.

-k

Nýjustu fréttir