Laugardagur 14. september 2024
Síða 160

Listeria í skinku

Matvælastofnun varar við neyslu á eftirfarandi framleiðslulotum af skinku af vissum vörumerkjum frá Stjörnugrís vegna grun um Listeria monocytogenes. Stjörnugrís hf. hefur ákveðið í samráði við MAST að innkalla alla skinku í varúðarskyni með best fyrir dagssetningu 18. mars 2024 og fyrir þann tíma. Þetta gerir Stjörnugrís hf. af öryggisástæðum þó svo að ekki hafi allar lotur framleiddar á tímabilinu verið greindar með Listeriu.

Þeir neytendur sem eiga vörur með best fyrir dagsetningum 18. mars 2024 og fyrir þann tíma eru beðnir um að neyta hennar ekki og farga henni eða skila í verslunum þar sem hún var keypt.

 Innköllunin á við um allar skinkur framleiddar hjá Stjörnugrís með Best fyrir dagsetningu 18. mars og fyrr.

Tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi ekki háð mati á umhverfisáhrifum

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að tímabundin notkun á eldissvæði í Seyðisfirði, Ísafjarðardjúpi, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Þann 5. janúar 2024 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Háafelli ehf. um tímabundna notkun á eldissvæði í Seyðisfirði samkvæmt 19. gr. laga um umhverfismat framkvæmda.


Skipulagsstofnun leitaði umsagna hjá Ísafjarðarbæ, Strandabyggð, Súðavíkurhreppi, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun.

Náttúrufræðistofnun tók undir með öðrum lögbundnum umsagnar- og eftirlitsaðilum það er Hafrannsóknarstofnun, Umhverfisstofnun, Fiskistofu og Matvælastofnun, að þessi breyting á fyrirkomulagi eldis Háafells í Ísafjarðardjúpi feli ekki í sér það miklar forsendubreytingar frá því sem til umfjöllunar var í umhverfismati frá 2020 að þörf sé á nýju mati.

Náttúrufræðistofnun bendir þó á að styttri vegalengd verður milli kvía sem eykur á kröfur um betri vöktun á smithættu á laxalús og smitsjúkdómum. Þá mun fjölgun sjókvíastæða á svæðinu í rekstri auka möguleg truflandi áhrif á dýralíf s.s. hvali, seli og sjófugla sem og sjónræn ásýndaráhrif.

Reykhólar: tvö tilboð í hafnarframkvæmdir

Tvö tilboð bárust í verkið „Reykhólahreppur – Karlsey, þekja og lagnir 2024“ sem Vegagerðin bauð út. Tilboðin voru opnuð í síðustu viku.

Geirnaglinn ehf., Ísafirði bauðst til að vinna verkið fyrir 96.256.600 kr sem er 18,4% yfir áætluðum verktakakostnaði.

Alm. umhverfisþjónustan ehf., Grundafirði bauð 116.600.500 kr sem er 43,5% yfir áætlun.

Helstu verkþættir og magntölur eru:

·         Steypa upp 1 stk. rafbúnaðarhús og 3 stk. stöpla undir ljósamöstur

·         Leggja ídráttarrör fyrir rafmagn og koma fyrir rafmagnskápum

·         Leggja vatnslögn og koma fyrir vatnsbrunnum

·         Grófjafna yfirborð og þjappa, fínjafna undir steypu

·         Slá upp mótum, járnbinda og steypa þekju, alls um 1.370 m²  

 Verkinu skal lokið eigi síðar en 30. nóvember 2024.

Skíðavikustjóri kallar eftir viðburðum

Framundan er skíðavikan á Ísafirði um páskana. Undirbúningur er þegar hafinn og Ragnar Heiðar Sigtryggsson er skíðavikustjóri. Hann sendi á dögunum út póst og auglýsti eftir viðburðum um skíðavikuna.

“Kæru stofnanir, fyrirtæki og einstaklingar sem hafa hug á því að halda viðburði í skíðavikunni. Nú styttist í þessa yndislegu viku okkar og til að gera Skíðavikuna sem allra glæsilegasta leitum við til ykkar eins og áður með að fá upplýsingar um þá viðburði sem þið hafið hug á að halda. Viðburðadagatalið verður aðgengilegt á skidavikan.is og á paskar.is

Að sögn Ragnars er stórafmæli í ár og því verður skíðablaðið veglegt þetta árið. „Við viljum geta komið sem flestum viðburðum á dagatalið okkar í blaðinu og því köllum við eftir viðburðum sem fyrst.“

Upplýsingar er hægt að senda á netfangið skidavikan@isafjordur.is með nafni á viðburðinum, staðsetningu, stuttri lýsingu og ljósmynd, svo er dagsetning ekki af verri endanum.

Patreksfjörður: fjölmenni á 90 ára afmæli slysavarnardeildarinnar Unnar

Afmælishátíðin var vel sótt.

Afmælishóf slysavarnardeildarinnar Unnar á Patreksfirði, sem haldið var á laugardaginn í Félagsheimili Patreksfjarðar var mjög vel sótt, en vel á annað hundrað manns mættu.

Formaðurinn Sólrún Ólafsdóttir fór yfir 90 ára sögu deildarinnar og rakti hvernig slysavarnarkonurnar hafa beitt sér fyrir margvíslegum öryggismálum allt frá sundkennslu og byggingu sundlaugar á fimmta áratug síðustu aldar til þess í dag að gefa fermingarbörnum reykskynjara, leikskólabörnum endurskinsmerki og nýburum gjafir.

Svanfríður Anna Lárusdóttir frá Landsbjörgu var heiðursgestur og kom fram í ávarpi hennar að slysavarnardeildir á Bíldudal og Patreksfirði hefðu verið meðal þeirra fyrstu sem stofnaðar voru á landinu á árinu 1934. Deildin á Patreksfirði væri orðlögð fyrir öflugt starf.

Sólrún Ólafsdóttir flytur ávarp sitt.

fjórar konur heiðraðar

Af þessu tilefni voru fjórar félagskonur í Unni heiðraðar fyrir störf sín í þágu slysavarnardeildarinnar.

Það voru Guðrún Jónsdóttir, Jenný Óladóttir, Sigríður Guðmundsdóttir og Sonja Ísfeld. Fengu þær sérstaklega útbúið skjal og blómvöld frá félaginu.

Þrjár af konunum sem voru heiðraðar með tveimur stjónarkonum. Jenný Óladóttir átti ekki heimangengt. Önnur frá vinstri en Sonja Ísfeld, þá Sigríður Guðmundsdóttir og Guðrún Jónsdóttir. Lengst til hægri er Sólrún Ólafsdóttir, formaður.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri flutti slysavarnarkonum þakkir frá bæjarstjórn og færði þeim blómvönd. Tónlistarskóli Vesturbyggðar sá um tónlistaratriði og gestum var boðið upp á veglegt kaffihlaðborð.

Þessar vösku félagskonur sáu um veitingar og tóku á móti gestum.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Pólska samfélagið: dagur fyrir börnin á laugardaginn

Pólska félagið á Vestfjörðum stóð á laugardaginn fyrir sérstökum degi fyrir börnin þar sem þau gátu leikið sér, föndrað og spilað og átt góða stund saman og fengu þau vöfflur og safa. Um fjörutíu börn voru samankomin ásamt fullorðnum í matsal Hraðfrystihússins Gunnvör í Hnífsdal.

Valur Andersen sagði í samtali við Bæjarins besta að börnin hafi verið á öllum aldri, bæði á leikskóla – og grunnskólaaldri. Hann segir að þeim sé boðið upp á kennslu í pólsku í Grunnskóla Ísafjarðar og lét hann vel af skólastarfinu fyrir tvítyngdu börnin.

Næsta er fyrirhugað að halda páskaföndur fyrir börnin og verður það 16. mars í Safnahúsinu á Ísafirði í bókasafninu þar.

Vöfflur og sulta.

Föndrað og leikið sér.

Myndir: Valur Andersen.

Vesturbyggð: spáð 30% íbúafjölgun næstu 10 ár

Grunnskólinn á Patreksskóli.

Fram kemur í húsnæðisáætlun Vesturbyggðar fyrir næstu 10 ár sem bæjarstjórn samþykkti í síðustu viku að gert er ráð fyrir í miðspá að íbúum sveitarfélagsins fjölgi um 351 eða um 29,5% á tímabilinu og verði orðnir 1.540 árið 2033.

Í áætluninni eru birtar þrjár spár um íbúaþróun, háspá, miðspá og lágspá. Í háspánni verða íbúarnir orðnir 1.630 eftir 10 ár en í lágspánni verða þeir 1.464.

Miðað við miðspána er talið að byggja þurfi 229 íbúðir á tímabilinu eða frá 15 – 36 íbúðir á ári. Er það til þess að mæta íbúafjölguninni og því að búist er við að færri búi í hverri íbúð en nú er.

Húsnæðisáætlunin er sundurliðuð eftir byggðarlögum fyrir Patreksfjörð annars vegar og Bíldudal hins vegar. Er gert ráð fyrir sömu íbúafjölgun í þeim báðum um 30% sé miðað við miðspá. Íbúum á ptreksfirði mun fjölga úr 934 í 1.163 á þessum tíu árum 2024 – 2033 og á Bíldudal úr 295 í 377.

Mynd úr húsnæðisáætluninni fyrir Vesturbyggð.

Börnum fjölgar

Börnum mun fjölga samkvæmt húsnæðisáætluninni á tímabili áætluninnar sem er frá 20134 til 2033. Í miðspánni kemur fram að leikskólabörnum muni fjölga úr 58 í 75 börn eða um 29%. Grunnskólabörnum mun fjölga samkvæmt sömu spá úr 125 í 154 eða um 23%.

Háspáin gerir ráð fyrir að leikskólabörnin verði 80 og grunnskólabörnin 172.

Sveitarfélagið er vel í stakk búið til að mæta fjölguninni hvað húsnæði varðar, þar sem nýlega er búið að stækka leikskólann á Patreksfirði og Grunnskólinn var byggður á sínum tíma fyrir mun fleiri börn ern nú eru.

Patreksfjörður: enginn lyfjafræðingur við apótekið

Apótek Lyfju á Patreksfirði.

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tók fyrir að frumkvæði Jóhanns Arnar Hreiðarssonar þá óvenjulegu stöðu að enginn lyfjafræðingur er starfandi við apótekið á Patreksfirði. Ályktaði sveitarstjórnin um það og bendir á að þjónustan við íbúa hafi versnað til muna.

„Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps lýsir alvarlegum áhyggjum yfir þeirri stöðu sem er komin upp þegar enginn lyfjafræðingur er lengur starfandi í apóteki á Patreksfirði. Með því hefur þjónusta við íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum versnað til muna. Undanfarið hefur komið upp að lyf eru ekki til á lager og þarf að panta lyfin með allt að þriggja daga fyrirvara auk þess sem afgreiðsla tekur nú mun lengri tíma en áður var. Það starfsfólk sem nú starfar hjá Lyfju á Patreksfirði gerir sitt besta og á lof skilið fyrir sín
störf, en það hefur ekki sérþekkingu lyfjafræðings og getur því ekki veitt þá þjónustu sem
slíkur sérfræðingur veitir.“

Vísindarannsóknir draga úr óvissu og efla farsæld

Háskólarektor við útskriftina í gær. Mynd: H.Í./Kristinn Ingvarsson

„Vísindarannsóknir hafa gert okkur kleift að draga úr margvíslegri óvissu og læra að lifa með henni,“ sagði Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands í ávarpi sínu í gær þegar 423 brautkráðust frá skólanum í Háskólabíói. Hann vék ítrekað að mikilvægi þekkingarleitarinnar í erindi sínu enda er Háskóli Íslands rannsóknaháskóli sem starfar í alþjóðlegu umhverfi þar sem grunnrannsóknir hafa veruleg áhrif á velferð samfélagsins. Í því sambandi nefndi Jón Atli sérstaklega rannsóknir á umbrotahrinunni sem staðið hefur með hléum á Reykjanesi frá því í marsmánuði árið 2021. Þar hefur jarðvísindafólk þjóðarinnar verið vakið og sofið við að rannsaka jarðskorpuhreyfingar og upplýsa stjórnvöld og almenning um þær áskoranir sem hugsanlegar eru hverju sinni.

Háskóli Íslands rekur rannsóknarsetur í Bolungavík þar sem eru stundaðar grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir á lífríki sjávar og strandsvæða og nýtingu sjávarafurða. Þar eru tveir starfsmenn og fjórir doktorsnemendur. Forstöðumaður er dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir.

Tilhögun fjármögnunar háskólastarfs hefur verið mjög í umræðunni að undanförnu og sagði Jón Atli í ræðunni það afar brýnt að skapa háskólum fjárhagslegt sjálfstæði og trausta lagalega umgjörð til að þeir geti áfram leikið lykilhlutverk í að tryggja farsæld. „Miklu skiptir að stefna stjórnvalda um háskólastigið, vegvísir okkar til farsællar framtíðar, sé mótuð til langs tíma í sátt við hagaðila. Grundvallarbreytingar á tilhögun háskólanáms hérlendis verða að vera vel kynntar og ræddar ítarlega áður en þeim er hrint í framkvæmd,“ sagði háskólarektor enn fremur úr ræðu sinni.

Sameining sveitarfélaga : kosið í kjörstjórn

Mynd af vefnum www.vestfirdingar.is. Teikning Rán Flyering.

Bæjarstjórn Vesturbyggðar og sveitarstjórn Tálknafjarðar hafa hvor um sig samþykkt samhljóða tillögu undirbúningsstjórnar vegna sameiningar Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps að skipa sameiginlega kjörstjórn til að undirbúa sveitarstjórnarkosningar sem verða 4. maí næstkomandi og að þeirri kjörstjórn verði einnig falið að undirbúa forsetakosningar í júní í samráði við kjörstjórnir hvors sveitarfélags þar sem forsetakosningarnar munu eiga sér stað eftir að sameiginlegt sveitarfélag hefur tekið til starfa.

Bæjarstjórn samþykkti jafnframt samhljóða að sameiginleg kjörstjórn verði þannig skipuð:

Aðalfulltrúar:
Finnbjörn Bjarnason
Hafdís Rut Rudolfsdóttir
Sigurvin Hreiðarsson

Varafulltrúar:
Edda Kristín Eiríksdóttir
María Úlfarsdóttir
Thelma Dögg Theodórsdóttir

Nýjustu fréttir