Mánudagur 2. september 2024
Síða 16

Sindragata 4A: byggingaráform felld úr gildi

teikning frá Sei arkitektum sem sýnir afstöðu byggingarinnar.

Úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform fyrir lóðina að Sindragötu 4A.

Úrskurðurinn var kveðin upp á mánudaginn.

Samandregin niðurstaða nefndarinnar er að  hin kærða ákvörðun sé haldin svo verulegum annmörkum að fella verði hana úr gildi.

Tildrög málsins eru þau að á Wardstúni var gert ráð fyrir nýbyggingum í deiliskipulagi frá 1998. Með breytingu á deiliskipulaginu sem gerð var árið 2018 var lóð nr. 4 við Sindragötu skipt í tvær lóðir, þ.e. nr. 4 og 4A. Á síðarnefndu lóðinni var gert ráð fyrir tveimur íbúðarbyggingum með samtals 20–23 íbúðum og nýtingarhlutfall um leið hækkað úr 0,5 í 1,0 í samræmi við stefnu Aðalskipulags Ísafjarðarbæjar 2008–2020 um þéttingu byggðar.

Hafði með hinni kærðu ákvörðun verið samþykkt að byggt verði á lóðinni byggt þrílyft íbúðarhús með níu íbúðum og kjallara.

Kærendur voru íbúar og fasteignareigendur að Sindragötu 4A og Aðalstræti 8, 10 og 16 á Ísafirði. Úrskurðarnefndin hafnaði aðild  íbúa Aðalstrætis 16 og taldi að hagsmunir þeirra skerist ekki á nokkurn hátt hvað varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn en samþykkti aðild hinna kærendanna.

Kærendur töldi að byggingarmagn á lóðinni væri komið yfir hámarksnýtingarhlutfall samkvæmt deiliskipulagi.

Af hálfu Ísafjarðarbæjar var vísað til þess að ágreiningur málsins væri í reynd ekki um nýtingarhlutfall heldur um að sambærileg bygging og gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi verði byggð á lóðinni. Í deiliskipulagi væri gert ráð fyrir að á lóðinni verði tvær íbúðarbyggingar með samtals 20–23 íbúðum og hafi kærendur ekki getað gert ráð fyrir öðru. Ekki standi til að breyta deiliskipulagi hvað þetta varði enda eigi að þétta byggð á svæðinu. Nýtingarhlutfallið á lóðinni verði að hámarki 1,1 en að lágmarki 1,06 sem sé óverulegt umfram hlutfallið 1.

Úrskurðarnefndin segir í niðurstöðu sinni að fyrir liggi að nýtingarhlutfallið verði hærra en en gildandi deiliskipulag heimilar og auk hafi verið „upplýst um að stærð þess húss sem fyrir sé á lóðinni sé ekki rétt skráð þar sem einnig hafi láðst að reikna svalir þess húss til nýtingarhlutfalls. Verður af því áætlað að nýtingarhlutfallið sé enn hærra en bæjaryfirvöld hafa haldið fram.“

Ísafjarðarbær: fær 8 m.kr. styrk vegna ljósleiðarvæðingar

Menn frá Snerpu að plægja niður ljósleiðara á Hvilftarströnd í Önundarfirði.

Ísafjarðarbær hefur samþykkt að taka við 8 m.kr. styrk frá Fjarskiptasjóði vegna átaksins Ísland ljóstengt vegna 101 staðfanga í sveitarfélaginu.

Þau áform voru kynnt þann 2. júlí af hálfu Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla,- iðnaðar- og
nýsköpunarráðherra að stuðla að 100% aðgengi fyrir árslok 2026 með því að bjóða fastan styrk í gegnum Fjarskiptasjóð 80.000 kr. á hvert ótengt staðfang. Styrkurinn fer eingöngu til sveitarfélaga sem ráðstafa honum.

Styrkurinn er vegna jarðvinnu eingöngu, þ.e. verkþætti sem að jafnaði eru unnir af jarðvinnuverktökum, t.a.m. gerð lagnaleiða, lagningu röra, niðursetningu jarðvegsbrunna og götuskápa.

Styrkhæf staðföng eru á heimilisföngum, þar sem skráð eru eitt eða fleiri lögheimili, sem ekki eru tengd með ljósleiðara og engin áform eru um slíka tengingu á markaðslegum forsendum samkvæmt niðurstöðu áformakönnunar Fjarskiptastofu fyrr á árinu.

Sveitarfélögum og fjarskiptafyrirtækjum er það í sjálfsvald sett að innheimta tengigjöld hjá notendum og tengja önnur staðföng, s.s. atvinnuhúsnæði og veitumannvirki, þó fjarskiptasjóður meti þau ekki styrkhæf.

Í minnisblaði sviðsstjóra  umhverfis- og eignasviðs sem lagt var fyrir bæjaráð kemur fram að í sumarleyfi bæjarráðs/bæjarstjórnar samþykkti sviðsstjóri styrkveitinguna með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

Reykhóladagar um næstu helgi

Reykhóladagar verða haldnir dagana 15.-18. ágúst 2024.

Dagskráin er fjölbreytt, kassabílarallý, dráttarvélaskrúðganga, þarabolti, hlöðuball og margt, margt annað eins og sjá má á meðfylgjandi auglýsingu.

Þá fer einnig fram tilnefning á íbúa ársins í Reykhólahreppi.

Allir íbúar eru íbúar ársins og í sjálfu sér er ekki verið að hvetja til þess að gera upp á milli fólks. Mögulega er einhver sem ykkur finnst eiga skilið að vera útnefndur íbúi ársins þá er um að gera að skila tilnefningu á netfangið reykholadagar@gmail.com

Aldrei minna af makríl

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson lauk þátttöku þann 2. ágúst í árlegum alþjóðlegum uppsjávarvistkerfisleiðangri í Norðurhöfum að sumarlagi.

Rannsökuð var útbreiðsla og þéttleiki makríls, síldar og kolmunna í íslenskri landhelgi.

Bráðbirgðaniðurstöður mælinga sýna að útbreiðsla makríls í íslenskri landhelgi er sú minnsta sem hefur mælst hefur síðan leiðangurinn var fyrst farinn sumarið 2010.

Makríll mældist á 5 af 43 yfirborðstogstöðvum sem allar nema ein voru staðsettar fyrir suðaustan landið.

Á þremur af þeim fimm stöðvum veiddust einungis fáeinir fiskar en aflinn var 1.7 tonn og 10.3 tonn á hinum tveimur stöðvunum. Makríllinn var stór með meðallengd 40 cm og meðalþyngd 550 g.

Hjólreiðar – Þrír Íslandsmeistaratitlar til Vestra

Keppnislið Vestra í ungdúró. Frá vinstri: Ísar Logi Ágústsson, Esja Rut Atladóttir, Sara Matthildur Ívarsdóttir, Dagur Ingason, Þorgils Óttar Erlingsson, þjálfari, Aron Ýmir Ívarsson, Daníel Logi Ævarsson, Julian Númi Bechtloff Heiðarsson og Adrían Uni Þorgilsson.

Helgina 10.-11. ágúst, hélt Hjólreiðadeild Vestra árlegt enduro og ungdúró mót sitt á Ísafirði. Að þessu sinni var mótið bæði stigamót í bikarkeppni Hjólreiðasambands Íslands sem og Íslandsmót. Á mótinu voru því krýndir Íslandsmeistarar í öllum aldursflokkum.

Keppendur Vestra stóðu sig með mikilli prýði á mótinu en alls voru 8 Vestra krakkar skráðir til leiks í ungdúró keppninni og 2 fullorðnir í enduro.

Adrían Uni Þorgilsson varð Íslandsmeistari í U-11 flokki drengja, Dagur Ingason í U-13 flokki drengja og Sara Matthildur Ívarsdóttir í U-13 flokki stúlkna. Fleiri Vestra krakkar komust á verðlaunapall því Julian Númi Bechtloff Heiðarsson vann til bronsverðlauna í U-11 drengja.

Rannsókn á afráni þorskseiða í Seyðisfirði

Örsmátt rafeindamerki er grætt í kviðarhol fisksins.

Glöggir Vestfirðingar hafa tekið eftir nokkrum fjölda flotbelgja í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Um er að ræða hlustunardufl vegna rannsókna á vegum Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum. Vísindamenn við rannsóknasetrið hafa áður notað hlustunardufl til að rannsaka áhrif hitastigs, og fleiri þátta, á ferðir ungra þorska og ufsa um Seyðisfjörð. Anja Nickel ofl. hafa nýlega birt vísindagrein í Journal of Fish Biology um hluta þeirrar rannsóknar. Greinina má lesa hér: https://onlinelibrary.wiley.com/doi/full/10.1111/jfb.15850

Fjölmörgum spurningum er þó enn ósvarað og í þessu nýja verkefni er meginmarkmiðið að skilja afrán og lifun þorsks á öðru ári. Íslendingar eiga mikið undir nýliðun í þorskstofninum en nýliðun þorsks ræðst af fjölmörgum líffræði- og umhverfisþáttum. Margir þættir geta því haft samverkandi áhrif á þann fjölda einstaklinga sem lifir af í hverjum árgangi þorsks. Til að skilja og mæla afrán í Seyðisfirði eru seiðin merkt með örsmáu rafeindamerki sem gefur til kynna ef seiðið er étið. Afdrif þorskseiða sem eru merkt með hljóðmerkjum eru líka metin með öðrum hætti, t.d. er hægt að sjá þegar merkt seiði eru étin af selum þar sem hitastig merkisins fer yfir 30°C. Rannsóknin er á ábyrgð Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur, forstöðumanns rannsóknasetursins, hluti af doktorsverkefni Fia Finn, og unnin í samstarfi við Ingibjörgu Jónsdóttur, vísindamann hjá Hafrannsóknastofnun.

Hlustunarduflin verða fjarlægð í nóvember en starfsfólk rannsóknasetursins hvetja Vestfirðinga til að hafa augun hjá sér fyrir duflum sem kunna að losna og reka á land, duflin eru smá og svört en öll merkt með símanúmeri. Þá vilja aðstandendur rannsóknarinnar koma á framfæri kærum þökkum til landeiganda í Seyðisfirði sem hafa verið einkar liðlegir við að auðvelda aðgang að firðinum og gera þessar rannsóknir mögulegar.

DCIM\100GOPRO\GOPR1562.

Hlustunardufl.

Teigskógur: orðum aukið að slitlagið sé misheppnað

Nýi vegurinn um Teigskóg. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Borðið hefur á óánægju með slitlagið á nýja veginum um Teigskóg sem tekið var í notkun á síðasta ári. Bæjarins besta innti Vegagerðina eftir því hvort slitlagið væri illa farið og misheppnað.

Í svörum Vegagerðarinnar segir að það sé orðum aukið að segja að slitlagið á nýja veginum um Teigskóg sé misheppnað og illa farið.

Staðfest er að skemmdir eru á slitlaginu við Hallsteinsnes en samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar var þar eingöngu komið einfalt slitlag og því viðbúið að skemmdir kæmu fram. 

„Ekki náðist að leggja seinna lagið þar vegna lélegrar tíðar að hausti. Það á sem sagt eftir að leggja seinna lagið við Hallsteinsnes en það verður gert fljótlega eftir lagfæringar á fyrra lagi.“ segir í svörunum.

Ferðafélag Ísfirðinga: Arnarnúpur

Laugardaginn 17. ágúst2 skór

Skráning óþörf, bara mæta, ókeypis í ferðina.

Fararstjórn: Gunnhildur Björk Elíasdóttir.
Mæting kl. 10:00 við Bónus á Ísafirði.
Gengið frá Sveinseyrarvatni sem leið liggur upp Sveinseyrarhvilftina, upp á Arnarnúpinn, hæð 558 m. Gengið meðfram fjallsbrúnum og notið stórfenglegs útsýnis, m.a. yfir hinn undurfagra Keldudal.
Vegalengd: u.þ.b. 8 km, göngutími: 5 klst., hækkun: 550 m.

Sameinumst á Ströndum: velheppnuð hátíð um helgina

Frá messunni í Tröllatungu. Myndir: Þorgeir Pálsson o.fl.

Um helgina fór fram í fyrsta sinn á Hólmavík hátíðin sameinumst á Ströndum. Ragnheiður ingimundardóttir, var ein þeirra sem stóð að hátíðinni og var hún ánægð með hvernig til tókst. Hún var m.a. með kjötsúpuveitingar, ein af mörgum, og sagðist hafa eldað 60 – 70 lítra og allt hafi farið ofan í gesti sem gæddu sér á veitingunum. Hún sagði að boðið hefði verið upp á súpu á sjö stöðum á Hólmavík.

Ragnheiður sagði að fólk hafi verið ánægt með dagskrána og aðsókn hafi verið ágæt. Nefndi hún m.a. framlag Mugison, sem hélt tónleika í Hólmavíkurkirkju og messu í Tröllatungu sem sr. Magnús Erlingsson, prófastur og Sigríður Óladóttir sóknarprestur sáu um og höfðu sér til halds og trausts heimakonuna Elísu Mjöll Sigurðardóttur.

Ragnheiður Ingimundardóttir hefur kjötsúpuna til.

Þórður Sverrisson var einnig í kjörsúpuveitingum.

Leikir og skemmtun voru við Galdrasafnið.

Gotterí við Galdrasafnið.

Brekkusöngur og útiskemmtun í Kirkjuhvammi.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri og Ragnheiður Ingimundardóttir í Tröllatungu.

Ísafjörður: Muggi byggir

Muggi við grunninn að framtíðarheimilinu. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Guðmundur Magnús Kristjánsson fyrrv hafnarstjóri Ísafjarðahafna hafði í nógu að snúast þegar Bæjarins besta hitti hann í gær. Hann er að byggja stórt einbýlishús að Hlíðarvegi 50 með afbragðsútsýni yfir Skutulsfjörðinn þar sem 20 sjókvíar blasa við á fjölfjörnustu siglingaleið Ísafjarðardjúpsins til marks um þróttmikinn framgang í vestfirsku atvinnulífi.

Grunnur og sökklar eru tilbúnir og í gær voru á leiðinni vestur með flutningabíl húseiningarnar sem koma eiga ofan á grunninn. Það eru smiðir frá Lettlandi sem koma með einingunum og setja þær saman. Aðspurður segir Muggi að húsið verði 170 fermetrar að stærð og byrjað verði að reisa þær þegar í dag, þriðjudag. „Það mun taka þrjá daga og þá verður húsið tilbúið að utan, en nokkrar vikur þarf til þess að vinna innanhúss, innréttingar, hurðir og annað þess háttar.“

Muggi sagðist vonast til þess að vera fluttur inn fyrir jól.

Nýjustu fréttir