Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 16

Vinsælustu nöfnin 2023

Birnir var vinsælasta fyrsta eiginnafn meðal nýfæddra drengja á síðasta ári en 30 drengjum var gefið nafnið Birnir, næst vinsælustu nöfnin voru Emil, Elmar og Jón.
Emilía var vinsælasta nafnið meðal nýfæddra stúlkna sem fyrsta eiginnafn, en 23 stúlkum var gefið nafnið Emilía, þar á eftir voru nöfnin Sara, Sóley, Embla og Aþena.

Ef horft er á samanburð á milli ára má sjá að drengjanafnið Birnir tekur fyrsta sætið af Emil.

Elmar tekur stökk úr 27. sæti í þriðja og Jón hækkar úr 13. sæti í það 4.

Hvað stúlkurnar varðar má sjá að Emilía tekur stökk úr 21. sæti í fyrsta. Sara og Sóley hækka líka verulega frá fyrra ári. Hástökkið á topp 10 listanum er nafnið Una, fer úr 58. sæti í það níunda.

Hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu, hélt sína árlegu viðurkenningarhátíð síðastliðinn fimmtudag.

Viðurkenningar voru veittar 93 fyrirtækjum, 15 sveitarfélögum og 22 opinberum stofnunum, úr hópi þeirra 247 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu.

Meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu voru sveitarfélagið Vesturbyggð, Verkís og Vegagerðn.

Fjórðungsþing: tillaga um útboð framkvæmda

Nýi vegurinn endar við Dynjandisá. Þaðan eru um 6,5 km að nýja veginum í Dynjandisvoginum. Ekkert er minnst á þennan lokaáfanga í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2025.

Fyrir komandi fjórðungsþingi liggur tillaga frá Innviðanefnd Fjórðungsambandsins um frestun útboða í vegaframkvæmdum á árinu 2024.

Lýst er miklum vonbrigðum með frestun útboða á árinu 2024 á verkefnum sem eru á framkvæmdaáætlun samgönguáætlunar og ítrekuð loforð innviðaráðherra um samhangandi framkvæmdir á Dynjandisheiði og Gufudalssveit.

Í tillögunni segir að Fjórðungsþing Vestfirðinga skori á innviðaráðherra og Alþingi setja í forgang eftirfarandi verkefni:

  • Tryggt verði fjármagn til nýframkvæmda til að ljúka við síðasta áfanga í vegagerð um Dynjandisheiði og verkefninu verði lokið á árinu 2025.
  • Tryggt verði fjármagn til nýframkvæmda til að hefja útboð á þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar á árinu 2025 og miðað við að verkefninu sé lokið 2026.
  • Tryggt verði fjármagn til endurbóta og nýframkvæmda á Strandavegi norður í Árneshrepp, minnt er hér á fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í sveitarfélaginu.

Fjórðungsþing Vestfirðinga verður haldið um næstu helgi að Laugarhóli í Bjarnarfirði í Strandasýslu.

Martha Lilja Olsen skipuð framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags og vinnumarkaðsráðherra hefur ákveðið að skipa Ísfirðinginn Mörthu Lilju Olsen framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu.

Umsækjendur um embættið voru sex talsins.

Að loknu heildarmati var það niðurstaða ráðherra að Martha Lilja Olsen félli best að þeirri lýsingu sem kæmi fram í auglýsingu og væri hæfust umsækjenda til að gegna embætti framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu.

Martha Lilja Olsen lauk B.A.-prófi í sagnfræði með íslensku sem aukagrein árið 2003 og M.A.-prófi í hagnýtum hagvísindum árið 2006. Martha Lilja lauk diplómu á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands árið 2009 og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu árið 2019 við sama skóla.

Martha Lilja hefur starfað sem skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskólans á Akureyri frá árinu 2015. Þar áður starfaði hún sem deildarstjóri rekstrardeildar Skattstofu Vestfjarðaumdæmis árin 1999–2005, kennslustjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða 2006–2011 og þýðandi hjá Þýðingamiðstöð utanríkis­ráðuneytisins árin 2011–2015.

Bíldudalur: þrjú tilboð í nýjan skóla

Frá Bíldudal. Íþróttamiðstöðin Bylta blasir við. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Þrjú tilboð bárust í smíði á nýju skólahúsnæði á Bíldudal. Um er að ræða bæði leikskóla og grunnskóla.

Tilboðin sem bárust voru eftirfarandi:

Land og verk : 494.219.637 kr.
Hrífunesskógar : 479.287.089 kr.

Arctic north : 466.500.420 kr.

Kostnaðaráætlun var 375.897.217 kr.

Bæjarráð Vesturbyggðar leggur til við bæjarstjórn að gengið verði til samninga við lægstbjóðanda á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs. Bæjarstjórnin kemur saman á morgun.

Tilboð Arctic north, sem er verktakafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu er 24% yfir kostnaðaráætlun.

Gamla skólahúsnæðið varð ónothæft vegna myglu og er kennt í bráðabirgðahúsnæði. Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að gert væri ráð fyrir að byggingin verði tilbúin við upphaf næsta skólaárs 2025/26.

Bæjarsjóður ber kostnaðinn af byggingunni, en samið var við Ofanflóðasjóð um 137 m.kr. greiðslu gegn því að ekki verði lagt út í varnir við gamla skólahúsnæðið og svo fékk Vesturbyggð 46,5 m.kr. styrk frá Fiskeldissjóði fyrr á árinu til byggingarframkvæmdanna.

Ísafjarðarbær: Eyrarskjól kostnaður hækkar um 12 m.kr.

Leikskólinn Eyrarskjól. Mynd: Isafjordur.is

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt viðauka við fjárhagsáætlun ársins þar sem einingarverð vegna Eyrarskjóls sem Hjallastefnan rekur hækka frá og með síðustu áramótum. Hækkunin nemur 22 m.kr. fyrstu 9 mánuði ársins en vegna lægri dvalargilda, eins og það heitir í viðaukanum, verður kostnaður október til áramóta lægri svo heildarhækkunin yfir árið er 12 m.kr. og kostnaðurinn við þjónustukaupin verður 280 m.kr.

Þá er fjárveiting til Grunnskóla Ísafjarðar hækkuð um 8,2 m.kr. Skýringin er að til stóð að skoða möguleikann á að kaupa þjónustu fyrir Grunnskólann á Ísafirði en þegar leið á árið var talið heppilegra að ráða starfsfólk í verkið. Ekki kemur fram hvaða þjónustu er um að ræða.

Heildarútgjaldahækkunin í viðaukanum er 20,2 m.kr. sem er mætt með lækkun á rekstrarafgangi.

Viðaukinn verður tekinn til endanlegrar afgreiðslu á næsta bæjarstjórnarfundi.

Varði ekki viðsnúninginn

Fróðlegur fundur var haldinn í húsakynnum okkar sjálfstæðismanna í Kópavogi á laugardaginn þar sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, flutti erindi og sat síðan fyrir svörum. Meðal þeirra mála sem voru helzt til umræðu var frumvarp Þórdísar um bókun 35 við EES-samninginn sem mun þýða, nái það fram að ganga, að fest verði í lög að regluverk frá Evrópusambandinu sem innleitt hefur verið í gegnum samninginn gangi framar innlendri lagasetningu.

Farið var víða um völl í ræðu Þórdísar en hvergi hins vegar minnzt á bókun 35 sem þó er eina frumvarpið sem hún er skráð fyrir í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar vegna yfirstandandi þings. Þegar Þórdís hafði lokið ræðunni og opnað var á fyrirspurnir spurði ég hana hversu skynsamlegt það væri að leggja fram frumvarpið um bókun 35 við núverandi aðstæður burtséð frá innihaldi þess á kosningavetri þegar ljóst væri að mikil andstaða væri við málið bæði á meðal almennra stuðningsmanna flokksins og innan þingflokks hans.

Ég spurði Þórdísi enn fremur út í óútskýrðan viðsnúning í málinu eftir áratugs varnir sem virtist einungis skýrast af komu hennar í utanríkisráðuneytið. Sömuleiðis gat ég þess að ástæða hefði verið fyrir því að staðið hefði verið að málinu varðandi bókun 35 í upphafi eins og það hefði verið gert. Að öðrum kosti hefði málið að öllum líkindum ekki verið samþykkt af þingflokki Sjálfstæðisflokksins auk þess sem það hefði farið gegn stjórnarskránni eins og Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, hefði til dæmis bent á.

Möguleiki á hagstæðri niðurstöðu

Frá því er skemmst að segja að svör Þórdísar voru afskaplega rýr og gengu aðallega út á það að hættulegt væri að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn á þeim forsendum að við hefðum þá ekki forræði á málinu. Staðreyndin er hins vegar sú að versta mögulega staða sem gæti komið upp kæmi til þess væri að dómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að verða yrði við kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), það er í raun Evrópusambandsins, um forgang innleidds regluverks sambandsins. Það sama og frumvarp hennar felur í sér!

Með öðrum orðum felur frumvarp Þórdísar í sér fyrir fram uppgjöf. Tal um forræði á málinu stenzt enga skoðun. Ef frumvarpið uppfyllti ekki kröfur ESA myndi stofnunin fara aftur af á ný og hóta að lokum aftur að fara með málið fyrir EFTA-dómstólinn sem aftur yrði væntanlega gefizt upp gagnvart. Ekki sízt þar sem erfiðara yrði að fara með málið fyrir dómstólinn þegar einu sinni hefði verið gefizt upp í þeim efnum. Með dómstólaleiðinni væri allavega einhver möguleiki á hagfelldri niðurstöðu sem frumvarpið gerði að engu.

Hvað varðar fyrirvarann í frumvarpinu, þess efnis að Alþingi gæti ákveðið að forgangur innleidds regluverk frá Evrópusambandinu ætti ekki við um tiltekna innlenda lagasetningu, er hann í raun gagnslaus. Tilgangurinn með fyrirvaranum er einungis sá að reyna að tryggja stuðning við frumvarpið. Alþingi getur vitanlega alltaf sett slík lög. Kæmi hins vegar til þess myndi það kalla á sömu viðbrögð frá ESA og nú stendur að gefast upp fyrir. Hvaða líkur geta fyrir vikið talizt á því að það yrði gert og að þá yrði staðið í lappirnar?

Frumvarpið verði dregið til baka

Með fyrirspurninni um viðsnúninginn fólst tækifæri fyrir Þórdísi til þess að útskýra hann. Nokkuð sem hún hafði ekki gert fram að því þrátt fyrir að ítrekað hefði verið kallað eftir því. Ekki sízt af fjölmiðlum. Eins taldi ég rétt að hún fengi tækifæri til þess að tjá sig um það hvernig frumvarp hennar færi saman við stjórnarskrána. Frá því er hins vegar skemmst að segja að hún svaraði hvorki fyrir viðsnúninginn né stjórnarskrána. Gerði raunar ekki einu sinni tilraun til þess. Minntist ekki á málið. Sem aftur kom ekki beint á óvart.

Ég nefndi enn fremur að uppgjöf gagnvart kröfum ESA í tengslum við EES-samninginn, til að mynda af hálfu vinstristjórnarinnar í Icesave-málinu, hefði iðulega verið réttlætt með meintu gríðarlegu efnahagslegu mikilvægi samningsins sem þó lægi ekki nákvæmlega fyrir hvert væri og það samkvæmt gögnum frá stjórnvöldum sjálfum. Þá gat ég þess sömuleiðis að viðskiptahagsmunir Íslands hefðu verið tryggðir með fríverzlunarsamningnum við Bretland sem kom í stað EES-samningsins að mati sjálfs ráðuneytis Þórdísar.

Framundan eru þingkosningar og fyrir vikið enn ríkari ástæða en áður til þess að draga til baka frumvarp Þórdísar um bókun 35. Verði það ekki gert felur það eðli málsins samkvæmt í sér yfirlýsingu um að áfram verði reynt að keyra það í gegnum Alþingi komist Sjálfstæðisflokkurinn í ríkisstjórn eftir kosningarnar og takist það ekki muni hann styðja málið í stjórnarandstöðu. Mikilvægt er enn fremur að gefnar verði afdráttarlausar yfirlýsingar af hálfu forystumanna flokksins um að til þess komi ekki aftur.

Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).

Bolungavík: bæjarstjórn vill tvöföldun Vestfjarðaganga sem fyrst

Vestfjarðagöng. Munninn í Breiðadal.

Í síðustu viku tók bæjarstjórn Bolungavíkur undir samþykkt bæjarráðs um knýjandi þörf fyrir breikkun Vestfjarðaganga.

Í bókun bæjarstjórnar , sem samþykkt var í einu hljóði, segir að staðan í jarðgangamálum á Vestfjörðum sé óboðleg og að hraða þurfi uppbyggingu jarðganga í fjórðungnum.

Athygli vekur að ályktað er um breikkun gangannna allra, þar með talið göngin til Súgandafjarðar, en ekki bara breikkun Breiðadalsleggs þeirra.

„Bæjarstjórn Bolungarvíkur lýsir miklum áhyggjum yfir stöðu öryggis í samgöngumálum á Vestfjörðum í kjölfar hættuástands sem átti sér stað vegna bruna í langferðabíl rétt utan við gangnamuna Vestfjarðaganga. Staðan í jarðgangnamálum á Vestfjörðum er óboðleg og lýsir bæjarstjórn Bolungarvíkur yfir þeirri afstöðu sinni að hraða þurfi uppbyggingu jarðganga á Vestfjörðum, þ.m.t. tvöföldum
Vestfjarðagangna sem allra fyrst.“

Hvatningarverðlaun UMFÍ


Ungmennafélag Grindavíkur, útivist fyrir karla á Ísafirði og skíðafélag Strandamanna hlutu Hvatningarverðlaun UMFÍ 2024. Verðlaunin voru afhent á sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór um liðna helgi.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, afhenti fulltrúum sambandsaðila UMFÍ verðlaunin. 

Ungmennafélagið Grindavík
Íþróttabandalag Suðurnesja (ÍS) hlýtur Hvatningarverðlaun UMFÍ 2024 fyrir óeigingjarnt starf Ungmennafélags Grindavíkur í þágu samfélagsins í tengslum við eldsumbrot og starfsemi félagsins. Félagið hefur frá því eldsumbrot hófust í bænum staðið í ströngu við að halda starfsemi félagsins gangandi. Félagið vinnur enn að því að koma iðkendum í önnur félög og ýmis önnur verkefni sem seint geta talist hefðbundin kjarnastarfsemi félags. 

Karlahreysti 
Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) hlýtur Hvatningarverðlaunin fyrir verkefni félagsmanna Íþróttafélagsins Vestra um karlahreysti,  eftirtektarvert og óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Frá árinu 2018 hafa Júlíus Ólafsson og Óðinn Gestsson verið í forsvari fyrir og leitt hóp karla sem stundar reglulega útvist og hreyfingu undir heitinu Karlahreysti. Snemma fengu þeir til liðs við sig Árna Heiðar Ívarsson íþróttafræðing sem skipuleggur æfingar hópsins sem hittist þrisvar í viku yfir veturinn. Karlahreystin á Ísafirði þjónar sama tilgangi en þar er áherslan á líkamlega hreyfingu.

Skíðadeild Strandamanna
Héraðssamband Strandamanna hlýtur Hvatningarverðlaun UMFÍ fyrir eftirtektarvert og óeigingjarnt starf Skíðafélags Strandamanna og uppbyggingu aðstöðu þess. Skíðafélagið Strandamanna var stofnað í lok árs 1999 og hefur verið í sérstaklega örum vexti undanfarin ár. Eftir byggingu nýs skíðaskála árið 2015 hefur félagið unnið ötullega að því að vera með eitt fremsta skíðagöngusvæði landsins. Stjórn félagsins og skíðaþjálfarar, iðkendur á öllum aldri, foreldrar og aðrir sjálfboðaliðar eiga heiður skilið fyrir óeigingjarnt og metnaðarfullt starf. Öll þjálfun á vegum félagsins er unnin í sjálfboðavinnu. 

Tómstundafulltrúi í Strandabyggð

Gengið hefur verið frá ráðningu Andra Freys Arnarssonar sem Tómstundafulltrúi Strandabyggðar til eins árs. Hann mun einnig sjá um húsvörslu Félagsheimilisins og mun bjóða upp á tónlistarnámskeið. Hann mun hefja störf nú þegar. 

Andri Freyr hefur mikla reynslu af því að vinna með börnum og unglingum, sem leiðbeinandi í leikskóla og á frístundaheimilum, hann hefur hlotið réttindi frá Knattspyrnuþjálfaraskóla KSÍ og þjálfað börn, unglinga og ungmenna í knattspyrnu.

Einnig hefur hann unnið ýmis fjölbreytt verkefni á sviði tónlistar, kvikmynda og viðburðahalds. 

Nýjustu fréttir