Síða 16

Umferðaróhöpp og önnur verkefni lögreglu í síðustu viku

Tvö umferðaróhöpp urðu í liðinni viku. Annað var á Súgandafjarðarvegi, skammt frá gangamunnanum. Ökumaður misti þar stjórn á bifreið sinni og hafnaði hún utan vegar eftir veltu. Hann var einsamall í bifreiðinni og var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði.

Hitt umferðaróhappið varð í jarðgöngunum undir Breiðadals og Botnsheiði. Þar ók ökumaður utan í vegg ganganna með þeim afleiðingum að ökutækið var óökuhæft. Engin slys urðu á ökumanni eða farþegum.

Þá voru kráningarmerki fjarlægð af 4 bifreiðum í liðinni viku þar sem þær höfðu ekki verið færðar til reglulegrar skoðunar.

Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur á Djúpvegi. Mældur hraði var 113 km þar sem hámarkshraði er 90 km.

Einn ökumaður var kærður fyrir að ekki vera með gild ökuréttindi.

Tilkynnt var um hvalshræ á reki rétt utan Bolungarvík. Tilkynningar voru sendar til viðeigandi stjórnvalda.

Kjarasamningar kennara undirritaðir

Kjarasamningur Kennarasambands Íslands við Samband íslenskra sveitarfélaga og ríkið var undirritaður í húsakynnum ríkissáttasemjara laust fyrir miðnættið í gærkvöld. Samningurinn er mjög svipaður þeim sem sveitarfélögin höfnuðu síðastliðinn föstudag.

Ríkissáttasemjari hafði boðað samningsaðila til fundar klukkan 15 í gær, eftir vonbrigði síðasta föstudag. Þá samþykktu kennarar innanhússtillögu sáttasemjara en sveitarfélögin höfnuðu.

Kjara­samn­ing­ur­inn er til fjög­urra ára og gild­ir út mars 2028.

Samningurinn fel­ur í sér 24 pró­sent launa­hækk­an­ir yfir tíma­bilið.

Gert verður bráðabirgðamat á störf­um kenn­ara, sem skil­ar þeim 8 pró­sent inn­á­borg­un strax inn á virðismatið sem á eft­ir að fara fram.

For­sendu­ákvæði samningsins verðurí fyrsta lagi hægt að virkja 1. mars 2027 en for­sendu­nefnd ger­ir kenn­ur­um erfiðara um vik að segja upp samn­ingn­um og þarf ákveðið ferli að eiga sér stað áður en það er mögu­legt.

Dansari framleiðir drykk úr vestfirsku hráefni

Sigríður Soffía Níelsdóttir.

Sigríður Soffía Níelsdóttir er dansari og listamaður og bý að hluta til í Örlygshöfn við vestanverðan Patreksfirði.  Verkefnið Eldblóma Elexír er líkjör sem gerður er úr vestfirskum rabbabara og blóðbergi í bland við ætiblóm sem ræktað er hér á landi.  Hráefnið er tínt í Örlygshöfn.

Uppbyggingarsjóður Vestfjarða veitti í desember sl. 1,3 m.kr. styrk til þess að þróa verkferla á Vestfjörðum vegna Eldblóma Elexir.

Sigríður Soffía segir að unnið sé að því að flytja vestur framleiðsluna á sýrópinu sem fer í líkjörinn.

Hún er dansari og semur dansa og notar gjarnan blóm við sýningar. Í fyrra var Sigríður Soffía á Barnamenningarhátíð Vestfjarða með danskennslu og unglingadeildin fékk fyrirlestur um það hvernig dansinn skóp Eldblóm.

Hún hefur fengið styrk frá safnasjóði til þess að setja upp sýningu á Hnjóti um danssýninguna sem varð að vöru.

Fyrir þá sem vilja vita meira um verkefnið 

Hlekkir : www.eldblom.com

instagram: @eldblom.studios og @icelandicspritz

Sterkari Strandir: 73 m.kr. í styrki

Fimmtudaginn 20. febrúar var haldinn lokaíbúafundur verkefnisins Sterkar Strandir. Verkefnið hófst í júní 2020 eftir nokkrar tafir vegna heimsfaraldurs og hefur staðið í á fimmta ár.

Á fundinum fór fráfarandi verkefnisstjórinn, Sigurður Líndal, yfir nokkur atriði og skýrði framtíðarsýn verkefnisins og framgang í vinnu að markmiðum verkefnisins. Þar er vinna mislangt komin en ýmis mál hafa þokast vel áfram eða markmiðum náð. Einnig ræddi hann um frumkvöðlaverkefni sem hafa hlotið styrki úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda á árunum 2020-2024. Veittir voru 73 styrkir til frumkvæðisverkefna og heildarupphæðin er 73.020.000 krónur. Vinnu við þessi verkefni er að mestu lokið.

Niðurstöður íbúakönnunar

Gerð var meðal íbúa í Strandabyggð um mánaðamótin janúar – febrúar 2025. Í könnuninni var markmiðið að kanna viðhorf íbúa til atvinnu- og búsetumála í sveitarfélaginu, auk upplifunar af verkefninu Sterkar Strandir. Í svörunum kom meðal annars fram að íbúum líður almennt vel í Strandabyggð og mikill meirihluti telur líklegast að viðkomandi muni búa þar áfram. Segja má að viðhorf til verkefnisins Sterkra Stranda séu sumpart blendin. Niðurstöður könnunarinnar má sjá hér í kynningu Byggðastofnunar.

Hringt var í alla íbúa Strandabyggðar með skráð símanúmer og þeir beðnir um netföng til að fá könnunina senda. Könnunin var send á 94 einstaklinga (sem gáfu upp netföng) og 83 svöruðu henni.

Strandabyggð hefur nú tekið við verkefninu og annast eftirfylgni og mun leiða verkefnið áfram.

Myndir: Byggðastofnun.

Fjórföldun á stuðningi við Guðrúnu

Fjöldi þeirra sem vilja sjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins í röðum landsmanna hefur fjórfaldast undanfarinn mánuð miðað við niðurstöður skoðanakannana Gallups. Farið úr 12% í janúar í 48% samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar fyrirtækisins sem birtar voru í gær. Á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem vilja sjá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur taka við flokknum farið úr 24% í 42% sem nær þannig ekki tvöföldun.Meðal þess sem vakið hefur athygli varðandi niðurstöður könnunar Gallups í febrúar er að Guðrún mælist með meiri stuðning í Reykjavík en Áslaug sem þó er þingmaður Reykvíkinga. Þannig segjast 52% þeirra styðja Guðrúnu, sem er þingmaður Suðurkjördæmis, en 40% Áslaugu. Mögulega þarf þetta ekki að koma á óvart í ljósi þess að Áslaug fór frá því að vera fyrsti þingmaður Reykjavíkur kjördæmis suður niður í þriðja sæti í kosningunum í lok nóvember.

Fleiri styðja Guðrúnu en Áslaugu bæði á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni samkvæmt könnuninni í febrúar. Mögulega kemur það ekki heldur á óvart enda er Guðrún í raun ákveðin tenging þar á milli og sameiningarafl í þeim efnum eins og víðar. Þannig er hún af landsbyggðinni, frá Hveragerði, en er á sama tíma ekki langt frá höfuðborgarsvæðinu og verið með annan fótinn þar í gegnum tíðina vegna starfa sinna. Hún þekkir fyrir vikið vel til í báðum tilfellum.

Miðað við könnunina hefur Guðrún meiri stuðnings á meðal kjósenda í fjórum af sex aldurshópum. Talsvert hefur verið gert úr því að Áslaug njóti meiri stuðnings á meðal yngri kjósenda en hins vegar dugir það vitanlega skammt ef það þýðir á móti minni stuðning á meðal flestra annarra aldurshópa. Eigi að auka fylgi Sjálfstæðisflokksins þarf fleiri kjósendur en einungis þá sem yngri eru. Þvert á móti þarf að ná til sem flestra aldurshópa. Það gerir Guðrún Hafsteinsdóttir.

Hjörtur J. Guðmundsson

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) og heldur úti vefnum Stjórnmálin.is.

Flokkur fólksins: frv um strandveiðar væntanlegt

Eyjólfur Ármannson, samgönguráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm.

Flokkur fólksins stóð fyrir almennum fundi á Dokkunni á Ísafirði í gærkvöldi. Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm. höfðu framsögu á fundinum sem var fjölsóttur.

Í máli Lilju Rafneyjar kom fram að frumvarp til breytinga á lögum um strandveiðar væri væntanlegt í samráðsgátt stjórnvalda til þess að tryggja ákvæði stjórnarsáttmálans um 48 daga strandveiðar í ár. Sagði hún að stefnt væri að því að afgreiða það í vor en ítarlegra frumvarp væri svo væntanlegt í haust.

Þá kom framhjá Lilju Rafney að unnið væri að breytingum á löggjöf um kvótasetningu á grásleppuveiðum og það myndi koma í ljós á næstu dögum hver niðurstaðan yrði í því máli.

Beitir sér fyrir nýrri flugstöð

Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra sagði að Reykjavíkurborg hefði í fyrri samningum við ríkið skuldbundið sig til þess að tryggja flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli og hann myndi ganga eftir því að við það yrði staðið. Hann sagði að svo virtist að Reykjavíkurborg hafi á undanförnum árum grafið undan flugvellinum , svo sem með því að leyfa nýjar byggingar, draga að lækka tré í Öskjuhlíð og kröfu um að færa girðingar um flugvöllinn og áforma nýja byggð í Skerjafirðinum. Eyjólfur sagði vinnubrögð Reykjavíkurborgar óásættanleg. Þá kom fram hjá samgönguráðherra að hann myndi beita sér fyrir nýrri flugstöð á Reykjavíkurflugvelli. Icelandair eigi þá flugstöð sem þar er en fyrirtækið sé tilbúið að selja hana ríkinu fyrir 300 m.kr. Til væri lóð fyrir nýja flugstöð.

Frá fundinum í gærkvöldi. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Á morgun verða þrír þingmenn Samfylkingarinnar á ferð á Ísafirði og hægt verður að hitta þá á Logni , veitingastað kl 8 í morgunkaffi.

Aðalvandamálið við máltileinkun innflytjenda!

Aðalvandamálið við máltileinkun innflytjenda er ekki að þeir nenni ekki að læra málið, þjóðargersemina, stolt vort og arfleifð. NEI! Aðalvandamálið er samfélag sem EKKI býður fólk velkomið í (mál)samfélagið með þeim kröfum og hvata sem þar þurfa, verða og eiga að fylgja. Það allt nefnilega í lagi að gera kröfu um íslensku á öllum sviðum íslensks samfélags og fólk á ekki að vera feimið við það. Það er engin, alls enginn, dónaskapur fólginn í því að vilja tala íslensku á Íslandi. En það er samt engin þörf á að sýna dónaskap þegar maður fer fram á það og ber og að hafa í huga að máske þurfi að einfalda mál sitt til að allt komist til skila. En alltént! Séu fáir sem kunna skil á íslensku er það vegna leti samfélagsins, yfirvaldsins, málhafa íslensku, móðurmálshafa og þeirra sem kunna góð skil á málinu við að miðla málinu, við að gera kröfur um íslensku, við að segja: „Hey, ég nenni ekki að tala við þig ensku, en ég skal mjög gjarnan tala við þig íslensku og gera allt sem ég get til að þú skiljir og ég skilji þig. Finnum leið saman.“ Eins og staðan er núna er viðhorfið: Farðu í skóla, lærðu þar en tölum svo bara ensku (meira að segja þeir sem eiga erlendan maka nenna ekki að leggja á sig að miðla málinu) þangað til þú masterar málið, því ég nenni ekki að leggja neitt á mig, ég vil bara geta kvartað undan fólki sem nennir ekki að læra málið og búa til aðgreiningu. Það er svo gaman að geta sagt: Þessir xxxxxxx útlendingar nenna ekki að læra þá víkingadásemd sem íslenskan er. Eitthvað sem er algjört bull. Við höfum málið í okkar höndum og það er okkar að miðla því, það er okkar að fara fram á að málið sé notað og hjálpa til við máltileinkun. En hey, kannski vilja Íslendingar bara hreinlega ekki að innflytjendur verði hluti samfélagsins. Það skyldi þó aldrei vera raunin að allur fagurgalinn um fjölmenningu nái bara til þess að borða fokking kebab og framandi mat borin fram af enskumælandi, oft varla það, láglaunafólki! Já, og svo má tala um það hjá Gísla Marteini löðrandi í skinhelgi og þvælu þess sem veit ekkert um málið en er góður að búa til grípandi frasa. Við búum í andlega lötu samfélagi með uppgerðargóðmennsku og hananú!

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, kennari íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands

Eigendaskipti að Massa þrifum ehf Ísafirði

Viðskiptin innsigluð við húsakynni fyrirtækisins. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Eftir rúmlega 30 ár í rekstri á bílaþrifum, gólfbónun og teppaþrifum hafa hjónin Mimmo Ilvonen og Árni Þór Árnason selt fyrirtækið. Kaupandinn er Radislaw Gabriel Komarewicz, sem var áður starfsmaður þeirra um 14 ára skeið í Massa þrifum. Hann gerþekkir því til starfseminnar sem er til húsa í Suðurtanga 2.

Heimasíða fyrirtækisins er eftir sem áður massi.is en símanúmer er 846-6386 og netfang rado@massi.is.

Íslendingar búsettir erlendis 2024

Alls voru 50.923 íslenskir ríkisborgarar með skráð lögheimili erlendis þann 1. desember sl. samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár.

Flestir voru skráðir í Danmörku eða alls 12.449 einstaklingar. Næst flestir eða 9.357 einstaklingar voru skráðir í Noregi og í þriðja sæti var Svíþjóð þar sem 9.111 íslenskir ríkisborgarar voru skráðir með lögheimili. Í Bandaríkjunum voru 6.640 íslenskir ríkisborgarar og þeir voru 2.526 á Bretlandi.

Íslenskir ríkisborgarar voru með skráð lögheimili í alls 110 löndum af 193 aðildarríkjum Sameinuðu Þjóðanna þann 1. desember 2024.

Til gamans má geta að í 13 löndum er aðeins einn íslenskur ríkisborgari með skráð lögheimili samkvæmt gögnum Þjóðskrár. Þetta eru löndin Angóla, Belarús, Belís, Gana, Georgía, Gínea, Indland, Makedónía, Máritíus, Pakistan, Panama, Púertó Ríkó og Sómalía.

Einstakt hugrekki til sjós

Alþjóðasiglingamálstofnunin (IMO) óskar eftir tilnefningum til verðlauna fyrir einstakt hugrekki til sjós. Samgöngustofa tekur við tilnefningum frá aðilum sem telja sig hafa upplýsingar um einstakling eða hóp sem hafi sýnt slíkt hugrekki.

Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 2007. Þjóðir eða samtök geta tilnefnt einstakling eða hópa sem hafa sýnt óvenjulegt hugrekki við björgun eða aðstoð á sjó.

Samgöngustofa tekur við tilnefningum frá aðilum sem telja sig hafa upplýsingar um einstakling eða hóp sem hafi sýnt slíkt hugrekki. Atvikið sem tilnefningin varðar skal hafa átt sér stað á tímabilinu 1. mars 2024 – 28. febrúar 2025.

Tilnefningar skulu sendar til Samgöngustofu eigi síðar en mánudaginn 7. apríl 2025. 

Nýjustu fréttir