Laugardagur 19. apríl 2025
Heim Blogg Síða 16

Sauðfjárræktarsvæðin: námskeið um stofnun og rekstur lítillafyrirtækja

Á morgun hefst þriggja dagstunda námskeið um stofnun og rekstur lítilla fyrirtækja.

Námskeiðið er liður í byggðaáætlun stjórnvalda og er einkum miðað á sauðfjárræktarsvæði landsins á norðvestur hluta landsins þar sem samdráttur hefur verið undanfarin ár í þeirri atvinnugrein.

Námskeiðið er gjaldfrjálst og fer fram á Teams á eftirfarandi dagsetningum:

Mánudaginn 31. mars frá 17:00-18:30
Fyrirlestur um frumkvöðla og einkenni þeirra + spjall/umræður
Þriðjudaginn 1. apríl frá 17:00-18:30
Fyrirlestur um hvernig hugmynd fer á markað + spjall/umræður
Fimmtudaginn 3. apríl frá 17:00-18:30
Fyrirlestur um gerð áætlana + spjall/umræður.

Þátttakendur þurfa að skrá sig og senda póst með nafni þátttakenda, símanúmeri og nafni sveitarfélags á endurmenntun@bifrost.is. Leiðbeinandi er Jón Snorri Snorrason. Hann er prófessor við Háskólann á Bifröst. Hefur verið forstjóri stórfyrirtækja s.s. Ölgerðin Egill Skallagímsson, Bifreiðar&landbúnaðarvéla (B&L), Öryggismiðstöðvarinnar. Setið í fjölmörgum stjórnum fyrirtækja s.s. Lyfju, Vátryggingafélags Ísland (VÍS), Íslenska lífeyrissjóðsins og Verðbréfaþing Íslands. Verið viðloðandi kennslu við háskóla í 40 ár, Forstöðumaður MBA námsins við Viðskiptafræðideild HÍ og síðar lektor þar og verið deildarforseti Viðskiptadeildar á Bifröst.

Á þessu námskeiði er farið yfir grundvallaratriði og hugtök í tengslum við að þróa viðskiptahugmyndir. Farið verður yfir markaðsgreiningu tækifæra og hvernig viðskipta- og markaðsáætlanir eru byggðar upp. Lögð er áhersla á að þátttakendur geri sér grein fyrir mikilvægi þessara þátta í stofnun og rekstri fyrirtækis.

Eftir námskeiðið eiga nemendur að:
• Þekkja að greina tækifæri á markaði
• Geta sett fram einfalda rekstraráætlun

Auglýsing

Rannsóknarsetur H.Í. á Vestfjörðum fær 36,4 m.kr. styrk

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum hefur fengið 36,4 m.kr. styrk frá Innviðasjóði þar sem ætlunin er að bæta vöktun og gagnasöfnun sem tengist vistkerfi hafsins í kringum Ísland.

Verkefnið ber heitið Mælinga- og Athugunarkerfi Náttúru Í hafinu – MÁNI (e. Marine Open Observation Network – MOON).

Í kynningu Háskóla Íslands á verkefninu segir að markmiðið með MÁNI sé að byggja upp næstu kynslóð hafrannsókna með áherslu á hagkvæma, sjálfvirka söfnum gagna, aukna samvinnu rannsakenda og örugg og opin gagnakerfi sem byggð verða í samstarfi við innviðakjarna upplýsingatækni (e. Icelandic e-Research Infrastructure, IREI) sem Upplýsingatæknisvið HÍ hefur umsjón með.

bæta getu til hafrannsókna

„MÁNI mun skapa ný tækifæri til rannsókna á breytingum í hafinu og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni. Með því að nýta nýjustu tækni og samstarfsnet vísindastofnana víða um land bætum við getu til hafrannsókna, aukum möguleika til kennslu og nemendaverkefna, og eflum vitund almennings um mikilvægi hafsins,“ segir Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum sem leiðir verkefnið.

Hún bendir á að með verkefninu sé einnig verið að bregðast við auknum alþjóðlegum skuldbindingum Íslands til fjölbreyttari rannsókna, verndar og vöktunar á hafinu sem tengist samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem kveður á um að vernda 30% hafsvæða fyrir 2030.

Auglýsing

Aldarminning: Ingibjörg Gunnarsdóttir

Ingibjörg mamma mín fæddist í Reykjavík 28. mars 1925. Foreldrar hennar voru Gunnar Ólafsson, húsgagnasmíðameistri og bifreiðarstjóri næturlækna í Reykjavík í hálda öld, og Ragnheiður Bogadóttir húsfreyja og tannsmiður frá Búðardal. 

Foreldrar Gunnars voru Ólafur Ásbjarnarson frá Innri-Njarðvík, kaupmaður í Keflavík og Reykjavík, og Vigdís Ketilsdóttir frá Kotvogi í Höfnum.  Ólafur var sonur Ásbjarnar Ólafssonar í Njarðvík og Ingveldar Jafetsdóttur, Einarssonar borgara Jónssonar prests á Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Jafet Einarsson og Jón forseti voru bræðrasynir.  Þau Ásbjörn létu reisa Njarðvíkurkirkju fyrir eigin reikning.  Vigdís var dóttir Ketils Ketilssonar og Vilborgar ljósmóður Eiríksdóttur,  Ólafssonar á Litla-Landi í Ölfusi (Víkingslækjarætt).  Ketill og Vilborg létu reisa Hvalsneskirkju og greiddu sjálf kostnaðinn af byggingunni.

Ragnheiður var dóttir Boga bónda og kaupmanns Sigurðssonar, sem kallaður hefur verið faðir Búðardals og fyrri konu hans, Ragnheiðar Sigurðardóttur Johnsen frá Flatey.     Bogi var sonur Sigurðar Finnbogasonar á Sæunnarstöðum í Hallárdal og Elísabetar Björnsdóttur á Þverá í Hallárdal, Þorlákssonar.

Foreldrar Ragnheiðar Sigurðardóttur Johnsen voru Sigurður kaupmaður Johnsen í Flatey og Sigríður Brynjólfsdóttir, Bogasonar kaupmanns í Flatey, Benediktsen, og Halldóru Sigurðardóttur, en foreldrar Brynjólfs voru Bogi Benediktsson á Staðarfelli, höfundur Sýslumannaæva og eiginkona hans, Jarþrúður Jónsdóttir prests í Holti í Önundarfirði Sigurðssonar og Solveigar Ólafsdóttur lögsagnara á Eyri í Skutulsfirði Jónssonar (Staðarfellsætt).  Föðurafi og amma Boga á Staðarfelli voru Bogi Benediktsson í Hrappsey, eigandi prentsmiðjunnar þar 1774-1795, og Þrúður Bjarnadóttir “ríka” Péturssonar á Skarði og Elínar Þorsteinsdóttur (Skarðsætt).

Seinni kona Boga í Búðardal var Ingibjörg Sigurðardóttir, kennslukona frá Kjalarlandi í Vindhælishreppi, póstmeistari og símstjóri í Búðardal eftir lát manns síns, og voru þau Bogi systrabörn;  foreldrar hennar voru Sigurður  á Kjalarlandi i Vindhælishreppi Benjamínsson og Sigríður Björnsdóttir frá Þverá í Hallárdal.

Foreldrar mömmu byrjuðu búskap í húsinu nr. 4 við Vatnsstíg.   

Þegar Kristján X. og drottning hans stigu á land í Reykjavík  25. júní 1930, var mamma önnur tveggja stúlkna sem færðu hjónunum blómvönd. Hin var Sólveig Ásgeirsdóttir kaupmanns Ásgeirssonar í Reykjavík og Kristínar Matthíasdóttur.  Sólveig giftist síra Pétri Sigurgeirssyni, síðar biskupi Íslands. Þeir Páll Ísólfsson dómorganisti og Jón Halldórsson, ríkisféhirðir og stjórnandi Karlakórs KFUM, sáu um tónlistina við þetta tækifæri.  Jón var kvæntur móðursystur mömmu, Sigríði Bogadóttur frá Búðardal. Dóttir þeirra var Ragnheiður Ream, listmálari.

 Mamma minntist þess æ síðan, hve djúpt og innvirðulega hún hneigði sig fyrir kónginum á bryggjunni.  

Mamma gékk í Austurbæjaskólann. Sr. Bjarni dómkirkjuprestur fermdi hana; hún var í danstímum hjá Rigmor Hanson, lærði hárgreiðslu í Iðnskólanum og var nemi á hárgreiðslustofunni hjá Línu í Ondúla í Aðalstræti. Þar var og Magnúsína Guðmundsdóttir.  Hún kom iðulega í heimsókn, þegar við áttum heima á Lokastíg 16. Þá leigðu foreldrar mínir íbúð af sæmdarhjónunum Steingrími Arnórssyni og Oddnýju Halldórsdóttur.

Önnur vinkona mömmu hét Dídí Ingvars.  Enn átti mamma þessar vinkonur: Sigríði Kjartansdóttur konu Tryggva járnsmiðs Benediktssonar, Ástu Jónsdóttur konu Árna Gestssonar í Glóbus, Ídu Ingólfsdóttur í Steinahlíð og tengdamóður sína, Ingveldi Rósenkranz.   

 Mamma var í sveit hjá Boga afa sínum og frænku í Búðardal.     

 26. júlí 1947 giftist hún Birni Rósenkranz Einarssyni. Sr. Bjarni  gaf þau saman. Afi og amma höfðu keypt helming hússins nr. 6a við Frakkastíg þar sem við mamma vorum fyrstu æviár mín. Pabbi og mamma tóku á leigu risíbúð í húsinu nr. 48 við Miklubraut.  Eigandur þess voru Þórður Þórðarson læknir og kona hans, Lousia Maria Mörk-Fischer frá Hamborg.  Kjördóttir þeirra hjóna var Kristrún Margarethe Dagmar Þórðardóttir.

 Mamma og pabbi eignuðust 5 börn:  Gunnar, Björn, Ragnar, Ragnheiði og Odd.

    Heima lagði mamma á konum hárið. Meðal þeirra voru Louisa, kona Þórðar læknis og Pálína Kjartansdóttir frá Vestra-Geldingaholti í Gnúpverjahreppi, síðar forstöðukona Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði. 

    Foreldrar okkar keyptu íbúð í Stighlíð 6 og seinna á Bókhlöðustíg 8.  

   Undir lok 6. áratugarins, rak mamma um skeið, með Elísabeti systur sinni, sem lærði snyrtifræði í Bandaríkjunum, hárgreiðslu- og snyrtistofu á neðri hæðinni á Frakkastíg 6a, og kölluðu Snyrtingu.  

     Mamma talaði aldrei um sjálfa sig, en brá hins vegar fyrir sig málsháttum.  Í þeim birtist þunglyndisleg viska, sem kynslóðir höfðu verið lengi að heyja sér, og gerði hún þessa glaðlyndu og hláturmildu konu að alvörugefnum spekingi. 

    Hún var ekki laus við að líta ögn stórt á sig, eins og fleiri af ættum hennar. Einu sinni, þegar hún leiddi mig við hönd sér upp Skólavörðustíg, gengum við fram hjá verslun með veiðivörur.  Ég fór þá að rella um það, að ég vildi fá veiðihjól;  þóttist ætla að fara að dorga í Hólmsá, sem breiddi úr sér eins og þúsund litlir speglar fyrir neðan sumarbústað afa míns og ömmu, Gunnars og Ragnheiðar.  Við fórum inn í búðina og kaupmaðurinn, laglegheita maður, lágvaxinn og þybbinn, nauðasköllóttur, sagði að veiðihjólið væri svo dýrt.  Þá sagði mamma:  Ég skal segja yður, að ég gæti keypt af yður alla búðina! 

     Hún var 26 ára, þegar ég fór í skóla.  Ég tók eftir því að mæður strákanna voru fullorðinslegri en hún,  báru hatta, sem fest hafði verið á  svokallað slör.  Ég spurði mömmu, hvort hún myndi fáanleg til þess að kaupa sér svona hatt.  Hún skreytti söguna með því, að ég hefði átt að segja, að ég vildi síður eiga mömmu, sem liti út eins og stelpa!

    Í skólanum átti ég að skrifa ritgerð heima.  Ég sat og nagaði blýantinn, en mamma skrifaði stílinn fyrir mig.   Kennarinn las hann upphátt fyrir bekkinn. Þar sagði frá því, að Vigdís, amma mömmu, hefði spurt strætisvagnabílstjóra, hvort þetta væri Njálsgata-Gunnarsbraut, en hann svarað:  Nei, þetta er strætisvagn.    

    Ef ég spurði mömmu, hvað hún vildi fá í afmælis- eða jólagjöf, svaraði hún ófrávíkjanlega: Koss og gott skap.   

    Mamma byrjaði bænir sínar ætíð svona:  “Elsku, góði Guð og allir englarnir!  Viljið þið passa…..”(og taldi svo upp nöfn).   

     Mamma vann árum saman hjá Bjarna Konráðssyni lækni, en á árum áður höfðu þau pabbi leigt neðri hæðina í húsi hans nr 21. við Þingholtsstræti.  Þær Ragnhildur, kona Bjarna, urðu perluvinkonur.

    Hún vann og lengi við að hafa til kaffið handa kennurum Menntaskólans í Reykjavík; þau Guðni rektor voru bæði komin af Jafet Einarssyni Johnsen, gullsmið í Reykjavík, og Þorbjörgu Nikulásdóttur.  

     Mamma dó 14. nóvember 1999.   Útförin var að ósk hennar haldin í kyrrþey, að þeim einum viðstöddum, sem hún hafði ákveðið að fengju að fylgja. 

    Guð blessi minningu minnar góðu móður, Ingibjargar Gunnarsdóttur.  

Gunnar Björnsson

Auglýsing

Púkapodcast – hlaðvarpsgerð fyrir ungmenni

Námskeið í hlaðvarpsgerð fyrir skapandi ungmenni til að læra undirstöðuatriðin í útvarps- og hlaðvarpsframleiðslu. Á námskeiðinu kynnast þátttakendur ólíkum gerðum hlaðvarpa, viðtalstækni og handritsgerð, auk þess sem þeir fá hagnýta reynslu af upptökum og klippingu. Á námskeiðinu þróa þátttakendur sínar eigin hugmyndir og vinna að stuttu innslagi með aðstoð leiðbeinenda.

Námskeið í hlaðvarpsgerð fyrir elsta stig grunnskóla (8.-10. bekk) fer fram í Edinborgarhúsinu í tengslum við Púkann barnamenningarhátíð. Námskeiðið skiptist í tvennt, dagana 31. mars og 1. apríl kl. 17:00 – 19:00 og svo 15. apríl 17:00-19:00. Þar á milli vinna krakkarnir sjálfstætt að handritsgerð og efnissöfnun.

Hámarksfjöldi þátttakenda eru 12 ungmenni. Námskeiðið er ókeypis fyrir þátttakendur.

Skráningareyðublað.

Leiðbeinandi er Halla Ólafsdóttir. Hún starfaði sem fréttakona á Ísafirði fyrir fréttastofu RÚV á árunum 2015-2019. Síðan þá hefur hún verið sjálfstætt starfandi dagskrárgerðarkona og meðal annars sinnt fjölmörgum verkefnum fyrir dagskrá Rásar 1 og sjónvarps. Dæmi um útvarpsseríur sem Halla hefur gert eru Hyldýpi (2019), Ljósufjöll (2020), Leitin ( 2022) og Tungudalur (2024).

Auglýsing

Dynjandisheiði: Tetra sambandið var í lagi

Hér má sjá hvernig Tetra dekkun er á Dynjandisheið þessa dagana. Mynd frá Neyðarlínunni.

Á mánudaginn reyndist vera sambandslaust á Dynjandisheiðinni og greindi vegfarandi frá því að hann hefði lent í óhappi við gömlu sýslumörkin og þar hefði ekki verið neitt farsímasamband og náðist ekki samband fyrr en komið var ofan í Dynjandisheiði.

Í lok síðasta árs kom Neyðarlínan upp fjarskiptagámi á Dynjandisheiðinni, á SA verðri öxl Urðarfells, með tetra- og farsímasendum. Um er að ræða tilraunaverkefni og sagði framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar að vonast væri að með þessu tækist að tryggja öruggt fjarskiptasamband.

Haft var samband við Neyðarlínuna af þessu tilefni og segir í svari þeirra að Neyðarlínunni sé ekki kunnugt um annað en að Tetra samband hafi verið í fullri virkni á þeim tíma sem spurt er um. Hvað varðar virkni farsímasenda þá getur Neyðarlínan ekki svarað fyrir þau mál og vísast til rekstraraðila þeirra senda með það enda er rekstur farsímasenda ekki á höndum Neyðarlínunnar.

Vegagerðin vaktar ekki fjarskiptasamband

Einnig var haft samband við Vegagerðina í svari hennar segir að Vegagerðin sé ekki ábyrg fyrir því að tryggja fjarskipti á vegum „og við erum því ekki markvisst að vakta hvenær eitthvað er bilað hjá fjarskiptafélögunum. Við verðum samt sjálf vör við það þegar okkar búnaður sem tengdur er í gegnum fjarskipti virkar ekki og þannig vitum við oft ef eitthvað er úti. Við erum í góðum samskiptum við fjarskiptafélögin. Við erum í reglulegum samskiptum og viðræðum um hvernig best sé að standa að því að tryggja fjarskipti á leiðum og þá ekki síst á fjallvegum og leiðum þar sem langt er í aðstoð fyrir vegfarendur.

Við höfum verið í nokkur ár í samtali við Neyðarlínuna um hvernig best sé að tryggja fjarskipti á Dynjandisheiði en þar höfum við einmitt töluverðar áhyggjur vegna fjarskiptasambandsleysis.

Einnig höfum við verið í samtali við Neyðarlínuna með það fyrir augum að samnýta framkvæmdir við fjarskipti og rafmagn á heiðinni, sem nýst geta öllum aðilum (fjarskiptafélögunum, Neyðarlínunni og Vegagerðinni).“

Auglýsing

Voru fangar um borð í Eastbourn

Íslensku varðskipsmennirnir sem voru fangar breta í landhelgismálinu, eftir að þeir höfðu farið í handtökuferð um borð í breskan landhelgisbrjót.

Þeir voru fluttir sem fangar yfir í herskipið Eastbourn þar sem þeim var haldið í 10 daga. „Luxuslíf. Tveir bjórar á dag“, sagði Óli Valur Sigurðsson, skipherra, sem þá var háseti og einn hinna handteknu.

Fangarnir voru settir í árabát að næturlagi rétt undan við Keflavík og þurftu að róa í land. Eastbourn þurfti að komast til Bretlands. Þessi mynd er tekin af föngunum í Selsvörinni í Reykjavík eftir ævintýrið. 

Íslendingarnir, sem voru um borð í Eastbourn, komnir í land. Aftari röð, talið frá vinstri; Björn Baldvinsson, 19 ára, ættaður frá Siglufirði, Guðmundur Sörlason, 17 ára, frá Flateyri, Ólafur Gunnarsson , 21 árs, frá Reykjavík, Guðmundur Karlsson, stýrimaður, Hrafnkell Guðjónsson, stýrimaður, Ólafur Valur Sigurðsson, 27 ára, frá Reykjavík. Fremri röð: Jóhannes Elíasson, 17 ára, frá Reykjavík, Hörður Karlsson, 28 ára, ættaður frá Djúpavogi, Karl Einarsson, 23 ára, frá Reykjavík.

Af sarpur.is

Auglýsing

Félagsleg einangrun er mun algengari en fólk grunar

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið hefur ýtt úr vör vitundarvakningu um félagslega einangrun. Verkefnið ber heitið Tölum saman og með því vill ráðuneytið vekja athygli almennings á því hve alvarleg félagsleg einangrun er og hvernig við getum öll verið hluti af lausninni. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur skilgreint félagslega einangrun sem lýðheilsuvanda til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og fleiri stórfelldar ógnir við almenna heilsu. WHO telur að um eitt af hverjum tíu ungmennum upplifi félagslega einangrun og um fjórðungur eldra fólks.

Orsakir félagslegrar einangrunar eru fjölþættar. Andlát maka, skilnaður, veikindi, vinslit, atvinnumissir og fleiri áföll geta allt verið orsakir þess að fólk dregur sig inn í skel eða missir tengsl við nærsamfélagið.

Ýmis ráð eru til að rjúfa félagslega einangrun, hvort sem er fyrir þau sem eru félagslega einangruð eða samfélagið allt. Í tengslum við vitundarvakninguna hafa gagnlegar upplýsingar verið teknar saman á island.is/felagsleg-einangrun. Þar má til dæmis finna ráðleggingar við spurningum á borð við:

  • Hefurðu nýlega upplifað missi, skilnað eða starfslok?
  • Hefurðu nýlega lent í félagslegum áföllum eða átökum sem hafa valdið kulnun eða félagskvíða?
  • Treystirðu mikið á samfélagsmiðla til að fylgjast með kunningjum eða heiminum í heild?
  • Hefur nágranni þinn eða ættingi í auknum mæli „horfið inn í skelina“?
  • Eru vísbendingar í umhverfi sem gefa í skyn minnkandi virkni?

Einmanaleiki er huglæg, óvelkomin tilfinning sem við finnum fyrir þegar við upplifum skort á félagslegum samskipum. Fólk er í eðli sínu félagsverur og því er nauðsynlegt að eiga í félagslegum samskiptum við annað fólk. Einmanaleiki er tilfinning sem getur komið og farið.

Félagsleg einangrun er hins vegar lítil eða engin félagsleg tengsl. Félagsleg einangrun er ekki það sama og félagsleg nægjusemi. Nær allar mannverur hafa þörf fyrir tengsl og einhvers konar nánd. Það að vera „út af fyrir sig“ og að einangrast félagslega er ekki það sama.

Auglýsing

Fasteignagjöld víða hærri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu

Byggðastofnun hefur fengið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) til að reikna út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni um land allt. Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð. Fasteignagjöld eru reiknuð út af Byggðastofnun samkvæmt álagningarreglum ársins 2025 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi, út frá fasteignamatinu sem HMS reiknar og gildir frá 31. desember 2024. Útreikningar voru gerðir fyrir 103 matssvæði í 48 sveitarfélögum.

Nú er komin út skýrsla um fasteignagjöld viðmiðunareignar árið 2025.


Heildarfasteignamat (húsmat og lóðarmat) viðmiðunareignar er að meðaltali 67,1 m.kr. en fasteignamat er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu fasteignin er. Fasteignamat viðmiðunareignar í greiningunni er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 113,3 m.kr. að meðaltali. Utan höfuðborgarsvæðisins er fasteignamat hæst á Akureyri, á Akranesi, í Keflavík og í Hveragerði. Lægsta meðalfasteignamat landshluta er á Vestfjörðum 42,0 m.kr. og á Austurlandi 42,5 m.kr.

Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hækkaði heildarfasteignamat allra íbúðareigna um 3,2% milli áranna 2024 og 2025. Á höfuðborgarsvæðinu var hækkun fasteignamat íbúðarhúsnæðis 2,1% en 6,6% utan höfuðborgarsvæðis. Mesta hlutfallslega hækkun fasteignamats viðmiðunareignar var á Breiðdalsvík 34,1% en þar næst í Hnífsdal 30,8% og á Fáskrúðsfirði 27,2%.

Meðaltal fasteignagjalda viðmiðunareignar er 509 þ.kr. á landsbyggðinni en 485 þ.kr. á höfuðborgarsvæðinu og er þetta í fyrsta sinn sem fasteignagjöld viðmiðunareignar í greiningunni eru almennt hærri úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir mun lægra fasteignamat.


Þó fasteignagjöld séu ekki beintengd við fasteignamat eru línuleg tengsl milli heildarfasteignamats og heildarfasteignagjalda viðmiðunareignarinnar eins og sjá má á punktaritinu á meðfylgjandi mynd.

Línan sem dregin er í gegnum punktana 103 er aðhvarfslína og matssvæði þar sem fasteignagjöld eru frábugðin því sem ætla mætti út frá fasteignamatinu lenda þá langt fyrir ofan eða neðan línuna.

Auglýsing

Gullkistan Vestfirði

Mánudaginn 17. mars var haldin skapandi vinnustofa á Vestfjarðastofu til að undirbúa sýninguna Gullkistan Vestfirðir.

Vinnustofan var opin öllum sem eiga aðild að Sóknarhópi Vestfjarða og mættu um 40 manns.

Gullkistan Vestfirðir er Vestfjarðasýning sem verður haldin 6. september 2025 í íþróttahúsinu á Torfnesi.

Á sýningunni gefst vestfirskum fyrirtækjum og annarri starfsemi á svæðinu tækifæri til að kynna sig fyrir Vestfirðingum og gestum.

Vinnustofan hófst á sameiginlegum hádegisverði þar sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og María Rut Kristinsdóttir, þingkona Norðvesturkjördæmis heilsuðu upp á gesti.

Síðan leiddi Bragi Valdimar Skúlason vinnu þar sem þátttakendur komu fram með hugmyndir um hvernig þeir vildu helst sjá sýninguna og viðburði henni tengda.

Farið ver yfir markmið, hver ætti að vera kjarni sýningarinnar og rætt hvaða sögu við viljum segja. Niðurstaðan var í stuttu máli að kynna nýsköpun, mannauð, þekkingu, menningu og okkar samheldna samfélag.

Á sýningunni verður kynnt hið öfluga atvinnulíf sem þrífst á Vestfjörðum, en ekki síður hlutir eins og tækifæri í menntun og einstök menning. Þá á hún að fanga þann uppgang sem einkennir vestfirskt samfélag um þessar mundir og hvað það er gott að búa á Vestfjörðum. Gullkistunni Vestfirðir er ætlað að sameina Vestfirðinga og kynna það sem er að gerast á Vestfjörðum.

Auglýsing

Skemmtiferðaskip: Innviðagjaldi ekki breytt

Sigurður Jökull Ólafsson á málþinginu. Myndir: aðsendar.

Sigurður Jökull Ólafsson, formaður Cruise Iceland, samtaka hafna og fleiri hagsmunaaðila sem þjónusta skemmtiferðaskip, segir að í gær hafi borist svar frá atvinnuvegaráðherra við erindi samtakanna um endurskoðun innviðagjaldsins, sem sett var á með lögum fyrir áramót og tók gildi um áramótin. Það er 2.500 kr/farþega fyrirhvern sólarhring.

Ráðherrann segir í svarinu að gjaldið muni standa óbreytt.

Frá þessu er greint í Fiskifréttum í dag.

Þar sem gjaldtakan kemur með svo skömmum fyrirvara leggst gjaldið einvörðungu á skipafélögin en farþegarnir eru búnir að greiða ferðina og verða ekki rukkaðir um gjaldið. Eitt skipafélaganna Norwegian sem sendir stór skemmtiferðaskip til landsins mun þurfa að greiða hálfan milljarð króna í innviðagjald.

Viðbrögð skipafélaganna við innviðagjaldinu hafa verið þau að fækka komum sínum til landsins á árinu 2026 og síðar. Á Ísafirði eru bókaðar um helmingu færri komur á árin 2027 en var í fyrra fyrir árið 2026. Í upplýsingum Bæjarins besta frá Ísafjarðarbæ fyrr í þessum mánuði kom fram að á Ísafirði eru bókaðar um helmingu færri komur á árin 2027 en var í fyrra fyrir árið 2026. Í upplýsingum Bæjarins besta frá Ísafjarðarbæ fyrr í þessum mánuði kom fram að bókunum skemmtiferðaskipa fyrir árið 2027 voru þá aðeins 84 skipakomur bókaðar. Til samanburðar voru um 150 skip bókuð í fyrra á sama tíma fyrir 2026.

Auglýsing

Nýjustu fréttir