Föstudagur 13. september 2024
Síða 159

Heimilt að hefja grásleppuveiðar 1. mars

Grásleppu landað í Bolungavík. Mynd: Sigurgeir S. Þórarinsson.

Katrín Jakobsdóttir forsætis- og matvælaráðherra hefur undirritað reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2024.  

Samkvæmt reglugerðinni verður heimilt að hefja grásleppuveiðar 1. mars.  Veiðileyfi verður gefið út til 25 samfelldra daga.

Á tímabilinu 1. mars til 20. mars gilda nokkrar reglur umfram það sem áður hafa sést í reglugerð um hrognkelsaveiðar þar sem hver löndun telst sem einn dagur, ekki má hafa net í sjó nema tvo daga og skulu þau ekki lögð nema útlit sé fyrir því að hægt sé að draga þau innan tveggja daga. Þá er óheimilt að hafa fleiri net í sjó en sem hægt er að draga upp í einni veiðiferð

Reykhólahreppur – Fundað um kröfur ríkisins í dag

Reykhólahreppur stendur fyrir opnum upplýsingafundi í dag þriðjudaginn 27. febrúar nk. kl. 17 í matsal Reykhólaskóla þar sem verjandi Reykhólarhepps, Stefán Ólafsson hrl. hjá Pacta lögmönnum mun útskýra ferlið í þessum málum.

Reykhólahreppur býður öllum hagsmunaaðilum innan sveitarfélagsins að koma og hlýða á Stefán og varpa fram spurningum sem á þeim kunna að brenna.

Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenskra ríkisins um þjóðlendur á svæði 12, eyjar og sker eru nú til meðferðar hjá Óbyggðanefnd, en svæðið tekur til landsvæða utan strandlengju meginlandsins.

Í samræmi við þjóðlendulög hefur Óbyggðanefnd skorað formlega á þá sem telja til eignaréttinda á svæði því sem ríkið gerir kröfur til að lýsa kröfum sínum skriflega fyrir Óbyggðanefnd í síðasta lagi 15. maí 2024.

Fyrirhugað útboð: Hvalsker – Sauðlauksdalur – Hvallátrar

Vegagerðin er með á lista yfir fyrirhugað útboð á þessu ári vegarkafla í Patreksfirði Örlygshafnarvegi 612 frá Hvalskeri að Sauðlauksdal og þaðan að Hvallátrum.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir þetta sé í raun tvö verk en hugsanlegt þau að verði boðin út saman. Annar hlutinn er frá slitlagsenda við Hvalsker og áfram en hitt er færslan á veginum framhjá Látrum.

Kostnaður er áætlaður um 700 m.kr.

Hvallátrahluti framkvæmdanna felst í að breyta núverandi Örlygshafnarvegi um Hvallátra á 1,75 km löngum kafla og færa veginn út fyrir frístundahúsabyggðina sem þar er vegna mikils ónæðis umferðar um svæðið. Fyrirhugað er að leggja nýjan veg ofan við frístundabyggðina á Hvallátrum, og beina með því umferðinni upp fyrir byggðina. Upphaflega var stefnt að útboði haustið 2020 og að framkvæmdir hæfust snemma vors 2021.

Húðvaktin veitir nýja fjarlækningaþjónustu í húðlækningum

Stofnendur Húðvaktarinnar. Frá vinstri dr. Ragna Hlín Þorleifsdóttir, Bjarni Kristinn Eysteinsson og dr. Jenna Huld Eysteinsdóttir.

Húðvaktin er fjarlækningaþjónusta sem opnaði þann 3. janúar síðastliðinn og er fyrsta þjónusta sinnar tegundar á Íslandi. Bjarni Kristinn Eysteinsson framkvæmdastjóriHúðvaktarinnar segir að fyrirtækið bjóði fólki sem þarf á aðstoð sérfræðings í húðlækningum að halda að fara inn á hudvaktin.is og skrá þar beiðni til læknis. Fyrir beiðnina þarf tvær myndir og lýsingu á þeim húðeinkennum sem eru til staðar, en því næst er beiðnin send til afgreiðslu hjá sérfræðingi í húðlækningum. Innan 48 klukkustunda svarar húðlæknir og setur upp meðferðarplan sem eftir atvikum getur m.a. falið í sér lyfjameðferð, frekari rannsóknir á stofu eða tíma á skurðstofu.

Að sögn Bjarna hafa viðtökurnar við þjónustunni verið góðar og við eru að berast um 5 – 10 beiðnir á dag. Einnig er í undirbúningi að þróa verkefnið áfram með heilsugæslunni þannig að heilsugæslulæknar geti óskað eftir aðstoð og stuðningi í gegnum veflausn Húðvaktarinnar. „Þetta hefur mælst vel fyrir og verður sérstaklega gagnlegt fyrir heilsugæsluna út á landi. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá okkar notendum og sérstaklega þeim sem búa á landsbyggðinni. Mikill sparnaður felst í því að geta sótt sér þjónustuna í gegnum netið og þurfa ekki að taka frí í vinnu eða skóla og leggja í löng, kostnaðarsöm og erfið ferðalög til að sækja sér þjónustu sérfræðilæknis.“

Hugmyndin að Húðvaktinni kviknaði hjá tveimur reyndum sérfræðingum í húðlækningum, Rögnu Hlín Þorleifsdóttur og Jennu Huld Eysteinsdóttur, en þær hafa báðar reynslu af fjarlækningum úr sérnámi sínu í Svíþjóð.  Staðan á Íslandi er sú að það er um 7 til 8 mánaða bið eftir þjónustu húðlæknis.  Þessi langi biðtími býr til mikið álag á húðlækna sem og sjúklinga.  Þær brugðu því á það ráð að fá Bjarna Kristinn Eysteinsson með sér í lið til að aðstoða sig við að koma á fót lausn sem gerði fólki kleift að sækja sér þjónustu sérfræðings í húðlækningum í gegnum netið.  Úr varð Húðvaktin, en þróunin á lausninni, sem og að afla nauðsynlegra leyfa hjá embætti landlæknis, tók rúmt ár.  „Þetta hefur gefist afar vel og eru rétt tæplega helmingur allra beiðna sem við fáum, frá aðilum utan höfuðborgarsvæðisins.  Það er afar ánægjulegt þar sem eitt af markmiðum okkar var að bæta þjónustuna við landsbyggðina og spara fólki dýrmætan tíma í ferðalögum og fjarveru frá vinnu. Því hentar þessi þjónusta fólki utan að landi sérstaklega vel. Annað markmið var að stytta bið eftir þjónustunni, en öllum beiðnum er svarað innan 48 klukkustunda sem er auðvitað mikill kostur.“

Eins og er í dag, þá er þjónusta Húðvaktarinnar utan kerfis Sjúkratrygginga Íslands.  Það stendur þó til bóta og stefnt er að því að koma þjónustunni þar inn, enda viljum við jafnt aðgengi allra að  þjónustu húðlækna. Nánari upplýsingar um þjónustuna eru á hudvaktin.is

Gott er að eiga Bakkabræður bara til að geta hlegið

Kómedíuleikhúsið hefur gert fjórar bráðfjörugar og ævintýralegar brúðumyndir um Bakkabræður fyrir netsjónvarp. Þeir bræður á Bakka eru án efa þekktustu bræður á Íslandi og víst er að margir sjá sjálfan sig í þeim. Góður hópur listamanna kemur að myndunum. Brúðumeistari er Marsibil G. Kristjánsdóttir, brúðuleikari er Elfar Logi Hannesson, Diddú eða Sigrún Hjálmtýsdóttir er hinn syngjandi sögumaður og flytur hinar kunnu Bakkabræðravísur Jóhannesar úr Kötlum. Tónlistin er samin af Birni Thoroddsyni, gítarleikara með meiru.

Hið vestfirska fyrirtæki Haraldsson Prod. sá um framleiðslu og kvikmyndatöku. Það var Byggðastofnun sem lagði leikhúsinu lið við að koma bræðrunum á Bakka á netið.

Hér að neðan er slóð á þættina þar sem hægt er að sjá hin kostulegu ævintýri Bakkabræðra Kómedíuleikhússins.

Veiðiferðin og jarðaförin https://www.youtube.com/watch?v=2NwX9HFqKLA&t=146s

Gluggalausi bærinn https://www.youtube.com/watch?v=gAcgqjPaIpw&t=304s

Fótabaðið https://www.youtube.com/watch?v=-doYVjeq9RY&t=230s Tunglið og herskipið https://www.youtube.com/watch?v=I-QmPwIJVE4&t=262s

Efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2023 vann silfur í gær á EM í bogfimi

Maria Kozak.

Maria Kozak úr Skotíþróttafélagi Ísafjarðar, búsett í Súgandafirði, vann í gær silfur í liðakeppni í bogfimi á Evrópumeistaramóti U21 innandyra sem haldið var í Varazdin Króatíu. Maria var í síðasta mánuði valin efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar á síðasta ári.

Maria var í liði Íslands í keppni með berboga kvenna U21 sem keppti við lið Bretlands um gullið. Leikar fóru svo að breska liðið vann gullið en íslenska liðið fékk silfurverðlaunin.

Í einstaklingakeppninni komst Maria í átta manna úrslit en beið þar lægri hlut fyrir breskum keppanda.

34 Íslenskir keppendur og 11 Íslensk lið voru skráð til keppni frá Íslandi í undankeppni Evrópumeistaramótsins sem var á þriðjudagin síðastliðinn. Er þetta stærsti hópur sem Íslendingar hafa sent til keppni á Evrópmeistarmótið.

Maria Kozak vann á síðasta ári m.a. Íslandsmeistaratitil U18 kvenna innandyra og utandyra ásamt því að vinna Norðurlandameistaratitilinn í U18 flokki. Alls vann hún tók 5 Íslandsmeistaratitla, setti tvö Íslandsmet og vann tvenn verðlaun á alþjóðlegum mótum í U18 berboga flokki.

Maria Kozak fyrir miðju við verðlaunafhendinguna á Ísafirði í janúar.

Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Ísafjarðarbær: sækja um í Fiskeldissjóð fyrir verkmenntahúsi M.Í.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar ræddi í gær á fundi sínum um verkefni sem vinna þarf í sveitarfélaginu og það hyggst sækja um styrk úr Fiskeldissjóði til þess að standa straum af kostnaði.

Auglýst hefur verið eftir umsóknum fyrir þetta ár og eru í sjóðnum 437,2 m.kr. til úthlutunar. Svonefnd fiskeldissveitarfélög geta ein sótt um, en í þeim er stundað fiskeldi í sjókvíum. Sjóðnum er ætlað að veita sveitarfélögum styrki til uppbyggingar innviða, þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað, og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. 

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs  Ísafjarðarbæjar kemur fram að til skoðunar eru fimm verkefni.

  1. Hafnarstræti Þingeyri „Sameining útrása og hreinsivirki neðst á Þingeyrarodda“ í fjárfestingaráætlun
    er gert ráð fyrir 60 m.kr.- í verkið á árinu 2024
  2. Vatnsveita Ísafjarðar: a. Staðan er sú að þegar tvö skemmtiferðaskip eru í höfn og að taka vatn, ásamt því að það er hefðbundin vinnudagur í vinnslum s.s. Kampa, Dokku, Ísnum og Hampiðju, þá er
    vatnsþrýstingur að falla. Jafnvel þarf að takmarka vatnstöku/sölu til skemmtiferðaskipa. Leiða
    má að því líkum að Hafnir Ísafjarðarbæjar eru ekki að geta fullnægt þörfinni. b. Það eru líkur á að það eigi eftir að bæta í iðnaðinn á svæðinu, mögulega Kerecis, Háafell og HG, eru með hugmyndir um að byggja á Suðurtanga. A.m.k. er verið að vinna það áfram í nýju deiliskipulagi fyrir Suðurtanga. Einnig er líklegt að brunnbátar í fiskeldi þurfi að sækja ferskvatn til þess að meðhöndla laxinn við laxalús, að fisknum verði dælt í gegnum ferskvatnstanka í brunnbátum, eða að vatni er dælt í kvíar.
    Tillaga a: 81,5 m.kr.-
    Tillaga b: 177 m.kr.-
    Tillaga c: 176,5 m.kr.-
  3. Stækkun Sólborgar: Línulegur vöxtur hefur verið í íbúafjölgun, í sveitarfélaginu. Núverandi staða í
    leikskólamálum er sú: Miðað við áframhaldandi íbúaþróun og langtímaspár, má leiða að því líkum að
    staðan eigi eftir að versna. Að biðlistar lengist enn frekar. Leikskólinn Hulduberg í Mosfellsbæ var
    byggður eftir sömu teikningu og Sólborg. Upp úr aldamótum var hann stækkaður um 260 fm og liggja
    þær teikningar fyrir og við lauslega athugun kemst sú stækkun fyrir á reitnum við Sólborg.
    Samskonar leikskóli var byggður í Mosfellsbæ, það var leikskólinn Hulduberg. Byggingarkostnaður er
    áætlaður 227 m.kr.- sem er viðmiðunarverð Hannars.
    Mögulega að sækja um fyrir hönnun eða verkefni í heild.
  4. Sundlaugarloft Dægradvöl: Ofan við sundlaug eru um 600 fm. af köldu rými sem mætti skipuleggja
    og hanna sem viðbót við Grunnskólann á Ísafirði og Dægradvöl. Í grófum dráttum má áætla að kostnaður sé um 350 þúsund per fm. . m.v. að koma úr fokheldi í það að vera fullfrágengið. Að
    heildarkostnaður sé um 210 m.kr.-
    Bæjarráð þyrfti að leggja mat á hvort sækja á um í Fiskeldissjóð fyrir hönnun eða verkefni í heild.
    Mögulegur kostnaður við hönnun þ.e. aðaluppdrættir og aðrir séruppdrættir 18,7 m.kr.
  5. Félagsheimili á Þingeyri: Gólfið í hluta hússins er ónýtt og sömuleiðis hluti glugga. Í elsta hluta
    hússins, sem er frá fjórða áratugnum, er gólfið á bitum sem eru farnir að gefa sig og mikið sig komið í gólfið. Undir bitunum er jarðvegur. Heppilegast væri að fjarlægja gólfið í heild sinni og steypa nýja
    plötu með gólfhita, en búið er að setja upp varmadælu við húsið. Sömuleiðis þarf að skipta út 12
    gluggum. Áætlaður kostnaður 15-20 m.kr.-

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs svarar því til aðspurður til viðbótar verði sótt um styrk til þess að mæta hlut sveitarfélaganna í kostnaði við nýtt verkmenntahús Menntaskólans á Ísafirði. Á næsta bæjarráðsfundi verði lagt fram nýtt minnisblað unnið eftir umræður á fundinum í gær með þessu verkefni inni.

Minning: sr Karl Sigurbjörnsson biskup

Sr. Karl Sigurbjörnsson (1947-2024). Mynd: Kirkjublaðið.is

Í dag verður gerð útför séra Karls Sigurbjörnssonar, biskups. Hann var fæddur í Reykjavík 5. febrúar 1947 og lést 12. febrúar sl. Hann gegndi embætti biskups Íslands árin 1998-2012.

Þjóðkirkjan sér á bak öflugum liðsmanni sem boðaði fagnaðarerindi kristinnar trúar allt til hinsta dags svo að segja.

Sr. Karl var einstaklega áheyrilegur prédikari. Þó að röddin væri eilítið hrjúf þá var hún skýr og blæbrigðarík. Segja má að hann hafi kunnað að beita rödd sinni með áhrifaríkum hætti svo að framsögn hans var eftirminnilegri fyrir vikið. Hann var aldrei eintóna frekar en það efni sem hann samdi og flutti. Prédikanir hans voru áhrifamiklar og hann hafði gott lag á því að tala inn í aðstæður þjóðarinnar og einstaklinga. Hann var óþreytandi í boðun sinni og flutti um tíma myndbandshugleiðingar á Feisbók heiman úr stofu sinni. Það voru stuttar hugleiðingar en hnitmiðaðar og náðu til mörg þúsund manna. Þær vöktu verðskulduga athygli og sýndu framsýni hans og dugnað. Þar fór kristinn maður með djúpan skilning á aðstæðum manneskjunnar og einlægan vilja til að setja sig inn í aðstæður fólks.

En hann var ekki einungis málsnjall heldur og ritfær í besta lagi. Texti hans er lipur og kjarnyrtur, auðlesinn og fallegur. Hann var mjög svo fundvís á snjöll vísdómsorð og sögur sem fóru vel í rituðu máli hans sem og mæltu. Þess vegna var ætíð ánægjulegt að hlýða á hann sem og lesa það sem hann lét frá sér fara. Lesandinn fann að þar var maður sem brann fyrir því sem honum stóð hjarta næst sem var trúin og boðskapur hennar. Þessi trúarlegi eldmóður smitaði frá sér og margir löðuðust að trúnni vegna áhrifa hans og einlægni í allri boðuninni. Sr. Karl lætur eftir sig fjölda rita sem munu varðveita nafn hans meðal kristinna safnaða um ókomin ár.

Sr. Karl var einkar ljúfmannlegur í allri framgöngu. Brosmildur og glaðvær, kíminn og velviljaður fólki.

Hann sómdi sér vel sem biskup þó að á ýmsu gengi í biskupstíð hans. Trúr allri kirkjuhefð en bryddaði þó upp á ýmsum eftirtektarverðum nýjungum enda frjór í hugsun og skapandi. Kirkjudagar sem haldnir voru í tvígang skömmu eftir aldamótin endurspegluðu vel þá kirkju sem hann fór fyrir og hina miklu bjartsýni sem einkenndi huga hans og verk.

Kirkjublaðið.is kveður sr. Karl Sigurbjörnsson með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans og ástvini alla.

Sólrisuvika, gróskudagar og Dýrin í Hálsaskógi

Að fagna komu sólarinnar með sólrisuhátíð hefur verið fastur liður í skólahaldi Menntaskólans á Ísafirði síðan árið 1974.

Sólrisunefnd nemendafélagsins skipuleggur dagskrá með fjölbreyttum viðburðum í frímínútum, hádegi og á kvöldin.

Þá verður óhefðbundin kennsla tvo daga í vikunni en slíkir gróskudagar eru orðnir órjúfanlegur hluti af sólrisuvikunni. Á gróskudögum velja nemendur sér smiðjur í stað hefðbundinna kennslustunda, má þar nefna dæmi eins og brauðtertugerð, kleinubakstur, boccia, útivist, dans, spinning, smíði og hugleiðslu en alls eru rúmlega 40 ólíkar smiðjur í boði í ár.

Sólrisuhátíðin verður sett með skrúðgöngu í hádeginu mánudaginn 26. febrúar og stendur alla vikuna.

Leikfélag MÍ mun svo frumsýna Dýrin í Hálsaskógi viku síðar eða föstudaginn 8. mars.

Frestur til að skila fram­boðum er til 29. mars

Frestur til að skila fram­boðum vegna kosn­inga til sveit­ar­stjórnar í sameinuðu sveit­ar­fé­lagi Tálkna­fjarð­ar­hrepps og Vest­ur­byggðar sem fram fara 4. maí 2024 er til kl. 12 á hádegi föstu­daginn 29. mars. 

Framboðslistum ásamt nauðsynlegum fylgigögnum skal skila til formanns kjörstjórnar samkvæmt samkomulagi. Á framboðslista skal tilgreina skýrlega nafn frambjóðanda, lögheimili, kennitölu og stöðu eða starfsheiti hans til þess að enginn vafi geti leikið á því hver séu í kjöri. 

Samhliða sveitarstjórnarkosningum verða kosnir fulltrúar í heimastjórnir sveitarfélagsins.

Heimastjórnir eru fastanefndir innan nýs sameinaðs sveitarfélags sem starfa í umboði sveitarstjórnar. Markmiðið með heimastjórnum er að heimamenn hafi aðkomu að ákvörðunum sem varða nærumhverfi sitt og geta ályktað um málefni sem snýr að viðkomandi byggðarlagi og komið málum á dagskrá bæjarstjórnar.

Í hverri heimastjórn eru þrír fulltrúar, tveir sem kosnir eru sérstaklega samhliða sveitarstjórnarkosningum og einn bæjarfulltrúi. Kjörgengir til heimastjórna eru allir íbúar á kjörskrá Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps, samkvæmt kjörskrá á sínu svæði. Hægt er að kjósa um alla íbúa hvers svæðis, en einstaklingar sem vilja gefa sérstaklega kost á sér til heimastjórnar býðst að kynna sig og sín áherslumál í gegnum heimasíður sveitarfélaganna.

Heimastjórnirnar verða fjórar:  

  • Heimastjórn Arnarfjarðar 
  • Heimastjórn Tálknafjarðar 
  • Heimastjórn Patreksfjarðar 
  • Heimastjórn Rauðasandshrepps og Barðastrandar 

Nýjustu fréttir