Föstudagur 13. september 2024
Síða 158

12 hnútar

12 hnútar eru veggspjöld sem Samgöngustofa hefur látið gerað um öryggismál á sjó.

Á árunum 2017-2021 varð ekkert banaslys á sjó og sömuleiðis hefur slysum til sjós fækkað á síðustu árum. Öflug fræðsla, aukin öryggismenning og þátttaka atvinnugreinarinnar hefur þar mikil áhrif.

Enn verða þó slys og óhöpp þar sem litlu má muna að alvarlegar afleiðingar hljótist af.

Veggspjöldin 12 hnútar miða að því að auka vitund og umræðu yfir tólf algenga þætti sem geta leitt til slysa eða atvika til sjós, með það að markmiði að því að fækka þeim og auka vitund og umræðu um öryggismál sjófarenda.

Veggspjöldin 12

Hvað er vestfirska, hvernig lýsir hún sér og hvenær „dó“ hún út?

Fyrir fáeinum árum svaraði Guðrún Kvaran prófessor þessum spurningum á eftirfarandi hátt:

Með vestfirsku er átt við þau málfarslegu atriði sem teljast einkennandi fyrir Vestfirðinga. Þau eru einkum tvö. Annars vegar er um að ræða svokallaðan vestfirskan einhljóðaframburð. Sérstaklega er átt við að sérhljóðin ae og ö eru borin fram sem einhljóð á undan -ng- og -nk- þar sem annars staðar á landinu er vaninn að bera fram tvíhljóð. Dæmi:

langur með -a- en ekki -á-

lengi með -e- en ekki -ei-

töng með –ö– en ekki –au

banki með –a– en ekki –á

skenkja með –e– en ekki –ei

hönk með –ö– en ekki –au

Hins vegar er talað um vestfirska áherslu. Hún felst í því að áherslan liggur á forsetningu en ekki á atviksorði eins og vanalegast er þegar saman fara atviksorð, forsetning og fornafn. Dæmi:

Ég sá ekki framan ‘í hann með áherslu á forsetninguna í þar sem áherslan annars staðar á landinu væri á framan, það er ‘framan í hann.

Einhljóðaframburðurinn virðist samkvæmt rannsóknum á undanhaldi. Hann heyrist þó ennþá nokkuð á Vestfjörðum og í máli fólks sem flutt er brott til annarra staða, einkum eldra fólks. Vestfirska áherslan lifir góðu lífi víðast hvar á Vestfjörðum.

Af visindavefur is

Botnsvirkjun í Dýrafirði háð mati á umhverfisáhrifum

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að Botnsvirkjun í Dýrafirði, Ísafjarðarbæ, skuli háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 111/2021.

Þann 21. nóvember 2023 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá Botnsorku ehf. um Botnsvirkjun í Dýrafirði.


Skipulagsstofnun leitaði umsagna fjölmargra aðila og hefur nú ákveðið að virkjunin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Að mati Skipulagsstofnunar felast helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar Botnsvirkjunar í áhrifum á vatnafar vegna varanlegra rennslisbreytinga í farvegum Botnsár og Drangár milli inntaka og stöðvarhúss. Þessar rennslisbreytingar geta haft umtalsverð neikvæð áhrif á smádýralíf á áhrifasvæði virkjunarinnar, sem síðan getur haft neikvæð áhrif á lífríki í Dýrafjarðarbotni og fuglalíf þar sem og á straumendur í ánum.

Mannvirki koma til með að breyta ásýnd landsins og hafa áhrif á óbyggð víðerni þ.e. Glámuhálendið sem hefur nokkurt menningar- og útivistargildi, auk þess sem vatnaflutningarnir og mannvirki munu breyta ásýnd á fossum sem njóta sérstakrar verndar.

Áhrif á gróður vegna stöðvarhúss, inntakslóns, lagningu þrýstipípu og skurða- og vegagerð verða varanleg en framkvæmdin mun m.a. raska votlendi.

Fleiri virkjanir eru innan sama víðernissvæðis s.s. Mjólkárvirkjun og kunni því að vera möguleg sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum á einhverja umhverfisþætti t.a.m. áhrif á víðerni og fuglalíf.

Vindorkuver: auknar tekjur til sveitarfélaga

Teikning af fyrirhuguðu vindorkuveri í Garpsdal.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur kynnt tvö væntanleg þingmál í samráðsgátt stjórnvalda varðandi vindorkuver. Tilgangurinn er að einfalda uppbyggingu vindorkuvera til framleiðslu á grænni orku en um leið að lágmarka umhverfisáhrif.

Fram kemur að stefnt skuli að því að sú verðmætasköpun sem hagnýting vindorku hefur í för með sér skili sér til samfélagsins alls með sanngjarnri og eðlilegri opinberri gjaldtöku sem tryggi því beina og sýnilega hlutdeild í afkomu starfseminnar.

„Vegna áhrifa virkjunar vindorku á nærumhverfið skal tryggja að nærsamfélagið njóti sérstaks ávinnings af starfseminni, umfram hefðbundnari virkjunarkosti.“

Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar þessu í umsögn sinni og leggur áherslu á að fasteignaskattar séu greiddir af öllum fasteignum.

Ekki liggi þó fyrir mótaðar tillögur um hvernig skuli skipta mögulegum tekjum sem tengjast vindorkuverum. Samband íslenskra sveitarfélaga telur það forsendu fyrir því að uppbygging vindorkuvera verði farsæl að þau sveitarfélög sem verða fyrir áhrifum af viðkomandi virkjun fái að njóta ágóðans af þeim tekjum sem verða til af viðkomandi virkjun. Sambandið telur jafnframt að líta verði til að orkumannvirki skuli bera fasteignaskatt.

Þá segir orðrétt í umsögninni: „Ef markmið stjórnvalda er að vindorkuver verði ein af undirstöðum raforkuframleiðslu á Íslandi er farsælast að sveitarfélög sem verða fyrir áhrifum af slíkri starfsemi njóti verulegs ábata af þeim verðmætum sem sköpuð eru í vindorkuverum.“

Samorka vekur athygli á því í sinni umsögn að raforkuöryggi sé í verulegri hættu og að á næstu árum verði atvinnuuppbygging mun minni en ætlað er vegna skorts á raforku.

Vindorka sé þeim kostum búin að hægt er að þróa og byggja vindorkuver mun hraðar en þekkist í nýtingu vatnsafls og jarðvarma, auk þess sem vindorkuver eru að mestu afturkræfar framkvæmdir í landslagi og náttúru.

Á Vestfjörðum er EM Orka með áform um byggingu vindorkugarðs í Garpsdal í Reykhólasveit.

Vesturbyggð: Héðinn fékk Hafnarbakka 12

Hafnarbakki 12 Patreksfirði.

Á fundi bæjarráðs Vesturbyggðar í gær var úthlutað lóðinni Hafnarbakki 12 á Patreksfirði. Fimm umsækjendur voru um lóðina sem er á hafnarsvæðinu á Vatneyri. :að voru Hlemmavideo ehf.
Oddur Þór Rúnarsson
Guðbjartur Gísli Egilsson
Eskiberg ehf.
Héðinn Hákonarson

Hafna- og atvinnumálaráð hafði áður farið yfir umsóknirnar og komist að þeirri niðurstöðu að allar umsóknirnar féllu a´skipulagi svæðisins. Í framhaldinu ákvað skipulags- og umhverfisráð að dregið yrði milli umskjenda og fól bæjarráði að annast það.

Bæjarstjóri stjórnaði útdrættinum og var Héðinn Hákonarson dreginn úr hópi umsækjenda. Bæjarráðið samþykkti þá að úthluta lóðinni til Héðins Hákonarsonar.

Bolungavík: styður hugmyndir Guðmundar Fertrams um samgöngusáttmála Vestfjarða

Bæjarráð Bolungavíkur ræddi samgöngumál á Vestfjörðum í síðustu viku og ályktaði af því tilefni að það styddi þær hugmyndir sem fram hafa komið um Samgöngusáttmála á Vestfjörðum eins og þeim var lýst í erindi Guðmundar Fertram Sigurjónssonar á Fjórðungsþingi Vestfjarða sem haldið var í Bolungarvík 7.október sl. og hvetur bæjarráðið önnur sveitarfélög á Vestfjörðum að gera slíkt hið sama.

Í erindi Guðmundar Fertram Sigurjónssonar, forstjóra Kerecis lýsti hann því að samgöngur á Vestfjörðum væru lakari en annars staðar á landinu og það háði Vestfirðingum. Guðundur Ferram sagði að það væri einnig þjóðhagslega hagkvæmt að bæta samgöngur á Vestfjörðum því það skilaði sér í auknum þjóðartekjum vegna aukins fiskeldis og framleiðslu Kerecis sem ætti svo greiðari leið á erlenda markaði vegna bættra samganga.

Vitnaði Guðmundur Fertam til þess að samgönguáætlun til næstu 25 ára væri í undirbúningi og að fjarri væri að Vestfirðingar stæðu jafnfætis að þeim tíma loknum þótt vissulega væru framfarir að finna.

Varpaði Guðmundur Fertram fram þeirri hugmynd að afla fjár hjá fjárfestum til að jafna leikinn með sérstakri samgönguáætlun fyrir Vestfirði og vinna samgöngubætur sem gerðu Vestfirði jafnsetta öðrum landshlutum. Lánin yrðu svo endurgreidd á 25 árum með tekjum af aukinni verðmætasköpun í fjórðungnum.

Óskaði hann eftir samstarfi og stuðningi frá sveitarstjórnarmönnum við þessa hugmynd.

Samþykkt bæjarráðs Bolungavíkur nú rúmum fjórum mánuðum síðar er fyrsta svarið sem berst frá sveitarfélgöunum á Vestfjörðum.

Glæra sem sýnir framkvæmdir við sérstaka Samgönguáætlun á Vestfjörðum.

Guðbjörg Ásta: fékk 1,5 m.kr. styrk frá Háskóla Íslands til að rannsaka svæðisbundnar takmarkanir á veiðum

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir.

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, fékk nýlega 1,5 m.kr. styrk til samfélagsvirkni vegna verkefnis sem snýr að svæðisbundnum takmörkunum á fiskveiðum sem viðbótarleið til að ná tölulegum markmiðum um vernd líffræðilegs fjölbreytileika.

Háskóli Íslands veitir þessa styrki til að styðja við virka þátttöku akademísks starfsfólks í samfélaginu í krafti rannsókna þess og sérþekkingar. Markmiðið er að veita þeim sem leggja sig fram við að miðla rannsóknum sínum til almennings, eða nýta þær til almannaheilla, tímabundið aukið svigrúm og stuðning.

Svæðisbundnum takmörkunum á veiðum er að jafnaði komið á með fiskveiðilöggjöf en geta engu að síður haft sjónarmið önnur en beina stjórn fiskistofna, s.s. vernd búsvæða, eða endurspeglað aðra hagsmuni eða sanngirnissjónarmið. Þannig er ekki nægjanlegt að kortleggja þessi svæði með tilliti til lífríkis þegar ákvarðanir eru teknar um þýðingu þeirra fyrir verndun líffræðilegs fjölbreytileika heldur þarf líka að kanna sögulega og samfélagslega þætti.

Sjávarútvegur hefur um langt skeið verið ein stærsta atvinnugrein landsins og færa má rök fyrir því að íslenskum hafsvæðum hafi verið stjórnað frá sjónarhóli sjávarútvegs. Svæðisbundnar takmarkanir á veiðum eiga sér því langa sögu, eitt af elstu dæmunum er bann við netaveiði í Faxaflóa árið 1885, og  hefur oftast verið komið á fót í nánu samstarfi iðnaðarins, vísindamanna og stjórnmálamanna. Svæðisbundnar takmarkanir samkvæmt fiskveiðilöggjöfinni, ná nú yfir stóran hluta efnahagslögsögu Íslands en hafsvæði vernduð samkvæmt náttúruverndarlögum (nr. 60/2013) ná yfir innan við 0,1 prósent.

Með hliðsjón af umfangi takmarkana á Íslandsmiðum og öflugri stjórnun þeirra kviknaði áhugi á að skoða þessar aðgerðir útfrá vernd líffræðilegrar fjölbreytileika. Á þessu hafa líffræðingar mismunandi skoðanir en minna hefur verið hugað að skoðunum innan sjávarútvegs á hlutverki svæðisbundinna takmarkanna á veiðum sem tækis til verndar líffræðilegs fjölbreytileika. Fjölmargar rannsóknir hafa þó sýnt að þátttaka sjávarútvegs, sveitarfélaga og annara hagsmunaaðila í hönnun verndarsvæða í sjó er mikilvæg fyrir eftirfylgni og skilvirkni þessara aðgerða. Þar að auki er hætt við að áhersla á ört vaxandi töluleg markmið feli í sér ákvarðanatökuferli sem tekur ekki fullnægjandi á þætti smærri samfélaga og hagsmunaaðila. Þetta getur grafið undan bæði skilvirkni og lögmæti þessara aðgerða. Það er líklegt að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi sterkar skoðanir á breyttu hlutverki þessara svæða til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika.

Ekki er um eiginlega vísindarannsókn að ræða, enda gefur upphæð samfélagsstyrkja HÍ almennt ekki tilefni til þess. Styrkurinn er hugsaður til að gefa styrkþega tækifæri til að minnka við sig aðra vinnu innan háskólans og eyða þannig meiri tíma í greiningar og miðlun tengda verkefninu, t.d.  greiningu á forsendum og rökstuðning fyrir einstökum svæðisbundnum aðgerðum og greiningu á viðhorfa hagsmunaaðila innan sjávarútvegs til svæðisbundinna aðgerða sem tækis til náttúruverndar.

Ísafjörður: vilja byggja nýja slökkvistöð

Slökkvistöð Ísafjarðar. Mynd: Ísafjarðarbær.

Sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar lagði fyrir bæjarráðið á mánudaginn minnisblað um þá kosti sem hann telur vera fyrir hendi til þess að bregðast við mynglu í slökkvistöðinni á Ísafirði.

Þar segir að núverandi ástand slökkvistöðvar sé ekki gott og gera þurfi töluverðar úrbætur í nokkrum rýmum t.a.m. í geymslu inn af skrifstofum á 2. hæð þar sem turn stöðvarinnar er staðsettur.
Þar innaf eru miklar rakaskemmdir og þar lekur inn þegar það rignir. Fötur sem eru til að taka við vatni fyllast ef þær eru ekki tæmdar yfir helgi. Víða um mannvirkið eru ummerki um raka og eru skemmdir vel sjáanlegar.

Að mati sviðsstjórans eru bráðaviðgerðir ekki að fara leysa vanda sem hefur verið til staðar mörg undanfarin ár, sem tengjast aðbúnaði starfsmanna stöðvarinnar, t.a.m. salernisaðstaða, sturtuaðstaða, búningsaðstaða og útsogskerfi fyrir bifreiðar.

Leggur hann fram þrjá valkosti:

Valkostur 1: Að Ísafjarðarbær byggi nýja slökkvistöð sem staðsett yrði á Suðurtanga, Ísafirði. Áætlað fermetraverð er 460.000 m/vsk. Húsgerð yrði stálgrindarhús, klætt yleiningum á steyptum undirstöðum.
800 fm. hús myndi kosta 368 m.kr./m.vsk
1000 fm. hús myndi kosta 460 m.kr./m.vsk
Valkostur 2: Að Ísafjarðarbær auglýsi eftir leiguhúsnæði undir slökkvistöð sem uppfyllir allar kröfur til slíks mannvirkis. Leigutími getur verið bundinn til langs tíma og að sveitarfélagið hefði forkaupsrétt á húsinu. Áætlað leiguverð er á bilinu 1450-1550 kr/fm. sem er vísitölubundin. Miðað við 1000 fm. þá yrði kostnaður 1450 – 1550 þ.kr. + vsk. per mánuð. Að þessu sögðu þyrfti að skoða frekar með forkaupsrétt og með að áður greidd leiga gangi upp í kaupverð við kaup.
Valkostur 3: Hefja viðgerðir á núverandi stöð í Fjarðarstræti, nokkur óvissa er með kostnað og viðgerðir á húsnæðinu. Þar sem ástand er víða slæmt eftir áralangt viðhaldsleysi jafnframt hefur mygla gert vart við sig víða. Mannvirkið uppfyllir ekki kröfur HMS sem gerðar eru til slökkvistöðvar í dag. Mögulegur kostnaður við viðgerðir eru 91.600.000 kr.-
Þakvirki og klæðning 84 m.kr.-
Neyðarviðgerðir í starfsmannaðstöðu og í turnrými áætlaður kostnaður um 7,6 m.kr.-
Eins og staðan er með þakvirkið þá þyrfti helst að skipta um hluta af því áður en farið er í neyðarviðgerðir innanhúss. Að öðrum kosti fara hlutirnir í sama horfið á skömmum tíma.

Niðurstaða bæjarráðs var að því hugnast best að flýta framkvæmdum við nýja slökkvistöð og fó það bæjarstjóra að vinna málið áfram og skoða samlegðaráhrif með öðrum stofnunum.

Sigurður VE 15 ex Sigurður ÍS 33

Sigurður VE 15 er hér að koma að sumarlagi með slatta til löndunar í Krossanesi. Hafþór Hreiðarsson

Upphaflega Sigurður ÍS 33 og síðar RE 4, smíðaður í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ísfell h/f á Flateyri.

Þegar Sigurður VE 15 varð 40 ára í september árið 2000 birtist grein um hann í Morgunblaðinu og m.a mátti lesa þetta þar:

NÓTASKIPIÐ Sigurður VE varð 40 ára gamalt 25. september síðastliðinn en skipið er eitt það aflasælasta í Íslandssögunni.

Sigurður á sér allsérstæða sögu en upphaflega var skipið byggt sem síðutogari í Bremerhaven í Þýskalandi. Það var útgerðin Ísfell á Flateyri sem lét smíða skipið en eigandi útgerðarinnar var Einar Sigurðsson.

Skipið bar í fyrstu einkennisstafina ÍS 33 en kom þó sjaldan í heimahöfn og var lengstum gert út frá Reykjavík og bar því einkennisstafina RE 4. Þá stafi bar Sigurður þar til fyrir fáum árum þegar þeim var breytt í VE 15.

Sigurður var einn af fjórum svokölluðum þúsund tonna togurum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga en hinir voru Maí GK, Freyr RE og Víkingur AK. Maí og Freyr stoppuðu hins vegar stutt við hér á landi og voru seldir erlendis, en Víkingur er enn gerður út frá Akranesi

Sigurður VE 15 fór í niðurrif til Danmerkur árið 2013.

Af skipamyndir.com

Umsóknarfrestur um hreindýraveiðileyfi rennur út á morgun

Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Umsóknafrestur um veiðileyfi á hreindýr rennur út á miðnætti á fimmtudaginn á morgun þann 29. febrúar.

Hægt er að sækja um leyfi í gegnum þjónustugátt Umhverfisstofnunar og fólki bent á að til að umsókn sé tekin gild þurfa umsækjendur að ganga úr skugga um að hafa hreindýraheimild á veiðikortinu sínu.

Til að fá hreindýraheimild á veiðikortið þarf umsækjandi að vera með B-skotvopnaréttindi. Hafi umsækjandi ekki hreindýraheimild á veiðikorti sínu þarf veiðimaður aðskila inn staðfestingu á B-skotvopnaréttindum. 

Hægt er að skila staðfestingu B-réttinda í formi ljósmyndar af skotvopnaleyfi gegnum þjónustugáttina meðan umsóknafrestur veiðileyfa er virkur. 

Nýjustu fréttir