Föstudagur 13. september 2024
Síða 157

Mest traust borið til Landhelgisgæslunnar

Landhelgisgæslan nýtur mests trausts almennings samkvæmt niðurstöðum Þjóðarpúls Gallup sem birtust í gær.

Ríflega níu af hverjum tíu bera mikið traust til Landhelgisgæslu Íslands. Þetta er fjórtánda árið í röð sem Landhelgisgæslan mælist með mest traust íslenskra stofnana.

Niðurstöður í Þjóðarpúlsi Gallup.

Hamfarir í Himalajafjöllum í Vísindaporti

Í Vísindaporti föstudaginn 1. mars mun Nishtha Tewari flytja erindi sem kallast „Heilsa í sjóndeildarhringnum: Hamfarir í Himalajafjöllum”.

Í háu fjalla þorpunum í Indversku Himalajafjöllunum er skortur á aðgengi að heilbrigðis innviðum og auðlindum sem leiðir til þess að daglega verða neyðartilvik þar sem ferðast þarf til borga eða milli þeirra. Í erindinu mun Nishtha fjalla um flutninga í dreifbýli og notkun opinberra innviða hjá tekjulágum heimilum sem leita sér heilbrigðisþjónustu. Erindið byggir á eins árs vettvangsvinnu sem fór fram í þorpum við landamæri Indlands og Tíbet og mun fara fram á ensku.

Nishtha Tewari er doktorsnemi við Háskólann í Melbourne í Ástralíu og stundar þvegfaglegar rannsóknir á heilsu kvenna í þorpum Himalajafjalla.

Nishtha Tewari er sem stendur í fræðadvöl í Grímshúsi en þeim sem koma til fræðadvalar í Grímshúsi stendur til boða vinnuaðstaða í Háskólasetrinu líka og er gert ráð fyrir að þau haldi fyrirlestur eða annað slíkt í Háskólasetrinu meðan á dvölinni stendur og auðgi þar með það þekkingarstarf sem fyrir er unnið í Háskólasetri Vestfjarða. Þá gefur slík dvöl tækifæri til frekari tengslamyndunar og mögulegra verkefna fyrir nemendur og kennara Háskólaseturs.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá kl. 12.10 til 13.00

Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna slóðina hér:

https://eu01web.zoom.us/j/6994747

Arctic Sea Farm fær rekstrarleyfi vegna 8.000 tonna fiskeldis í Ísafjarðardjúpi

Kvíasvæði Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi.

Matvælastofnun hefur veitt Arctic Sea Farm ehf. rekstrarleyfi til fiskeldis í Ísafjarðardjúpi í samræmi við lög um fiskeldi. Matvælastofnun auglýsti tillögu að rekstrarleyfi á vef stofnunarinnar þann 5. júní og var frestur til að skila inn athugasemdum til 5. júlí 2023.

Arctic Sea Farm sótti um nýtt rekstrarleyfi fyrir 8.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi. Fyrirtækið er fyrir með 5.300 tonna hámarkslífmassa í rekstrarleyfi (FE-1127) fyrir sjókvíeldi á regnbogasilung í Ísafjarðardjúpi. Umsókn um nýtt rekstrarleyfi var móttekin 20. maí 2019 og mun rekstrarleyfi FE-1127 falla niður við gildistöku nýs leyfis.

Um er að ræða nýtt rekstrarleyfi sem heimilar eldi í Ísafjarðardjúpi fyrir allt að 8.000 tonna hámarkslífmassa á regnbogasilungi og laxi, þar af má hámarkslífmassi af frjóum laxi að hámarki vera 5.200 tonn. Matvælaráðuneytið hefur birt burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar fyrir fiskeldi á Íslandi. Burðarþolsmat Ísafjarðardjúps er metið 30.000 tonn og heimilar áhættumat erfðablöndunar 12.000 tonna hámarkslífmassa af frjóum laxi í Djúpinu. Starfsemin er einnig háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Leyfið nær til eldis á þremu svæðum Arnarnesi, Kirkjusundi og Sandeyri. Útsetning seiða á Arnarnesi og Kirkjusundi er háð því að samstarfssamningur liggi fyrir við Hábrún ehf og Háafell ehf. sem tryggi samræmdar forvarnir og viðbrögð við snýkjudýrum og sjúkdómum. Við Arnarnes skal jaðar kvía ekki vera nær hvítum ljósgeisla en 100 metra og miðað er við 50 metra á Kirkjusundi.

Framkvæmd fyrirtækisins fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum.

Heimilt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu rekstrarleyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður frá birtingu auglýsingar Mast í dag.

Mast: auglýsir tillögu að rekstrarleyfi fyrir Arnarlax í Ísafjarðardjúpi

Eldiskvíar Háafells í Ísafjarðardjúpi.

Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi fyrir Arnarlax ehf. til sjókvíaeldis á 10.000 tonna hámarkslífmassa af ófrjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Tillagan er byggð á matsskýrslu framkvæmdaraðila frá 2020 fyrir 10.000 tonna sjókvíaeldi á laxi.

Um er að ræða nýtt rekstrarleyfi sem heimilar allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa á ófrjóum laxi á hverjum tíma. Burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar gerir ráð fyrir 30.000 tonna hámarkslífmassa og áhættumat stofnunarinnar gerir ráð fyrir 12.000 tonnum af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi. Arnarlax sótti um 10.000 tonna hámarkslífmassa af bæði frjóum og ófrjóum laxi en þar sem Matvælastofnun hefur þegar ráðstafað hámarkslífmassa upp á 12.000 tonnum af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi þá mun stofnunin einungis heimila eldi á ófrjóum laxi í umræddu rekstrarleyfi segir í tilkynningu á vefsíðu Matvælastofnunar.

Leyfið nær til eldis á þremur svæðum, Óshlíð, Drangsvík og Eyjahlíð og er háð því að fyrirliggjandi sé samstarfssamningur milli Arnarlax hf og annars vegar Hábrúnar ehf. og hins vegar Arctic Sea Farm
ehf. sem tryggir samræmdar forvarnir og viðbrögð við sníkjudýrum og sjúkdómum.

Jaðar sjókvíaeldisstöðvanna Drangsvíkur og Eyjahlíðar skulu ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 50 m. En jaðar sjókvíaeldisstöðvarinnar Óshlíðar skal ekki vera nær mörkum hvíts ljósgeira vitaljósa en 200 m.

Framkvæmd fyrirtækisins fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum í samræmi við lög um mat á umhverfisáhrifum. Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á mast@mast.is . Frestur til að skila inn athugasemdum er til 2. apríl 2024.

Vesturbyggð: 2.043 tonnum landað í janúar

Traffík út úr höfninni, Fosnafjord og Falksea bakka! Mynd:Patrekshöfn.

Alls var landað 2.043 tonnum af bolfiski í höfnum Vesturbyggðar í janúar. Í Patrekshöfn komu 655 tonn af veiddum fiski og í Bíldudalshöfn var landað 1.389 tonnum af eldislaxi. Eldislaxinn var því 68% af aflanum sem kom að landi.

Togarinn Vestri BA landaði 258 tonnum eftir sjö veiðiferðir í janúar.

Þrír línubátar voru á veiðum í mánuðinum. Núpur BA var með 371 tonn í sjö veiðiferðum, Agnar BA kom með 25 tonn einnig eftir sjö veiðiferðir og loks landaði Sindri BA tvisvar sinnum um hálfu öðru tonni.

Íslenskum ríkisborgurum fækkar í Reykjavík

Morgunblaðið í dag.

í Morgunblaðinu í dag birtist athyglisverð frétt um fólksfjölgun í Reykjavík. Fram kemur að frá 1. október 2014 til sama tíma 2023 hefur íslenskum ríkisborgurum fækkað í Reykjavík um 10, en erlendum ríkisborgurum fjölgað um 21.030. Alls voru þá 142.740 íbúar í borginni. Íbúafjölgunin er 17% á tímabilinu en öll fjölgunin er vegna erlendra ríkisborgara. Þá er líka athyglisvert að kynjaskiptingin er í lok tímabilsins ójöfn um 4220 manns sem karlar eru fleiri.

Á Seltjarnarnesi er ástandið svipað. Þar fjölgar um 7% á þessu tímabili og nær öll fjölgunin er vegna erlendra ríkisborgara eða 91% af fjölguninni. Í Hafnarfirði er 13% fólksfjölgun á tímabilinu og þar af eru 78% útlendingar. Í Kópavogi, Mosfellsbæ og Garðabæ er innan við helmingur af fólksfjölguninni erlendir ríkisborgarar.

Það sem einkennir þróunina á þessu árum er almennt mikil fólksfjölgun og að hún er borin uppi að miklu leyti af erlendum ríkisborgurum, sem hingað hafa komið og fengið vinnu. Með öðrum orðum mikill hagvöxtur í efnahagslífinu byggir að verulegu leyti á aðfluttu vinnuafli enda er það orðið nærri fjórðungur af vinnumarkaðnum. Lífskjarabatinn sem almenningur hefur notið á þessum árum hvílir á hagvextinum.

er fækkunin í Reykjavík fiskeldinu að kenna?

Í dag birtist aðsend grein á visir.is eftir Jón Kaldal, áróðursmeistara íslenska náttúruverndarsjóðsins, Icelandic Wildlife Fund sem berst hatrammlega með öllum tiltækum ráðum gegn sjókvíaeldi við Vestfirði. Svo vill til að hann tekur fyrir sama efni og fyrirsögn greinarinnar er: íslenskum ríkisborgurum hefur fækkað jafnt og þétt þar sem sjókvíaeldi er mest við Ísland, á sunnanverðum Vestfjörðum.

Þar segir Jón að tölur Hagstofu Íslands, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur tekið saman, fyrir íbúaþróunina frá byrjun árs 2014 fram á haust 2023 á sunnanverðum Vestfjörðum sýni að íslenskum ríkisborgurum hafi fækkað um 90 en erlendum ríkisborgurum hafi fjölgað um 290. Fjölgunin sé þar að auki mest í hópi karla.

Til skýringar skal þess getið að íbúum í Vesturbyggð hefur fjölgað um 23% frá 2011 og er það sambærilegt við íbúafjölgunina í Reykjavík.

Niðurstaða Jóns Kaldal er þau kjör sem bjóðast við störf við sjókvíaeldi á laxi freisti Íslendinga ekki nóg til þess að þeir flytji þangað sem það er stundað.

Þá vaknar spurningin, fyrst íbúaþróunin í Reykjavík er nánast sú sama og á sunnanverðum Vestfjörðum hvað varðar fjölgun erlendra ríkisborgara hvernig getur fiskeldið verið skýringin á Vestfjörðum? Ekkert fiskeldi er í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu.

krafist þess að hrun verði á Vestfjörðum

Svarið er auðvitað að fiskeldinu er ekki um að kenna. Það sem hefur gerst á báðum landssvæðunum er að uppgangur í atvinnulífi er borinn mikið til uppi af erlendum starfsmönnum. Á höfuðborgarsvæðinu eru það væntanlega ferðaþjónusta og byggningariðnaður sem eru fyrirferðamikil í sköpun starfa en á sunnanverðum Vestfjörðum er það fiskeldið. Ef fiskeldið verður stöðvað og jafnvel það bannað eins og islenski náttúruverndarsjóðurinn krefst, þá mun verða hrun í íbúatölu á Vestfjörðum þar sem störfin hverfa á einu augabragði og ekkert kemur í staðinn.

Þá verður þjóðhagslegt tap upp á um 40 – 50 milljarða króna á ári sem er útflutningsverðmæti laxeldisins og fyrirsjáanleg tvöföldun þeirrar fjárhæðar á næstu árum, þar sem þegar hafa verið gefin út leyfi fyrir fiskeldi upp á nærri 100 þúsund tonn á ári.

Þetta er krafan sem þessi samtök og fleiri félög stangveiðimanna hafa sett fram og bergmálar á nokkrum þægum landsfjölmiðlum við hvert tækifæri.

En hvert yrði hljóðið ef krafan yrði að fækka störfum á höfuðborgarsvæðinu að sama skapi, sem væntanlega á að gera þar sem þau hafa leitt til mikillar fjölgunar útlendinga?

Ætli yrði ekki á það bent að störf útlendinganna skapi tekjur fyrir land og þjóð og leggi umtalsvert af mörkum til þess að bæta almennt lífskjör í landinu. Það á auðvitað jafnvel við á Vestfjörðum eins og í Reykjavík.

Það eru íslenski náttúruverndarsjóðurinn ásamt NASF, Laxinn lifi og Landssambandi veiðifélaga sem greiddu fyrir þessa skýrslu og sameiginlega leggja fram þessa túlkun á niðurstöðunum.

Útlendingaandúðin og lítilsvirðingin á störfum þeirra fyrir íslenskt þjóðfélag lekur niður með báðum síðum. Þessi samtök hafa leiðst til þess í heiftugri andstöðu sinni við laxeldi í sjó að taka upp málflutning sem er bara einu skrefi frá því að tala um aría og alla hina. Það er mál að linni.

-k

Förgun Orra ÍS: gjaldskrá Ísafjarðarbæjar 5,1 – 6,4 m.kr.

Orri ÍS í Flateyrarhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Kostnaður við förgun Orra ÍS, sem sökk í Flateyrarhöfn í janúar 2020 varð 16.3 m.kr. eða liðlega þrefalt hærri en þær 5 m.kr. sem áætlað hafði verið. Þetta kemur fram í minnisblaði hafnarstjóra Ísafjarðarhafna.

Skýrist munurinn einkum af því að gert var ráð fyrir að báturinn væri 35 tonn að þyngd en reyndist vera nærri 170 tonn þegar upp var staðið.

Um þriðjungur kostnaðarins fór til greiðslu á móttöku og urðunargjaldi samkvæmt verðskrá sem Ísafjarðarbær setur. Greitt er 40 kr/kg fyrir blandaðan og grófan úrgang og 50 kr/kg fyrir timbur. Ekki er greitt fyrir förgun járns samkvæmt svörum upplýsingafulltrúa Ísafjarðarbæjar.

Samkvæmt tölum frá Hilmari Lyngmó, hafnarstjóra var grófur úrgangur og timbur samtals 128.360 kg. og járn var 41.230 kg.

Verktakinn Keyrt og mokað ehf þurfti því að greiða verktaka Ísafjarðarbæjar, Kubbi ehf fyrir förgun á 128 tonnum af timbri og grófum úrgangi. Ekki fékkst staðfest hve mikið greitt var fyrir förgunina.

Ekki kemur fram skipting í timbur annars vegar og grófan úrgang hins vegar en ef allt hefur verið grófur úrgangur þá hefur kostnaðurinn verið 5,1 m.kr. og ef allt hefur verið timbur er gjaldið 6,4 m.kr.

Í svörum frá Ísafjarðarbæ segir að gjaldið er innheimt af verktaka og er sem nemur kostnaði við móttöku og flutning í Fíflholt, auk urðunargjalds og umsýslukostnaðar.

Ísafjörður: vantar meira vatn á Suðurtanga

Sviðstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar óskaði eftir tillögum frá Verkís að lausn til að koma til móts við mikla aukningu á vatnsnotkun á Suðurtanga og væntanlegrar aukningar á næstu árum.

Skoðaðar voru þrjár leiðir, tillaga, A, B og C, sjá teikningu að ofan.

Í lýsingu Verkís segir eftirfarandi: Fyrir liggur að Hraðfrystihúsið Gunnvör hefur fengið úthlutað lóð á Suðurtanga fyrir fiskvinnslu og líklega sláturhús fyrir eldisfisk. Vélsmiðjan Þrymur hefur fengið lóð fyrir þjónustustarfsemi þá hefur Kerecis áform um byggingu verksmiðju á svæðinu. Auk þess er Hampiðjan og önnur iðnaðarstarfemi þegar á svæðinu. Innan fárra ára má gera ráð fyrir að slökkvistöð verði reist á svæðinu. Ekki er þó líklegt að þessi fyrirtæki þurfi mikið vatn.
Til viðbótar þessari starfsemi hefur verið aukning á sölu vatns í skemmtiferðaskip. Það er því ljóst að notkun á svæðinu mun aukast verulega á næstu árum og munar þar mestu um nýtt frystihús og sölu vatns í skemmtiferðaskip.

Það er niðurstaða Verkís eftir skoðun á þessum valkostum að líklega er heppilegast að fara leið A.
Huga þurfi því að notkun svæðisins áður en endanleg ákvörðun er tekin á sverleika lagnar.

Tillaga A gerir ráð fyrir að leggja Ø225 mm lögn frá Suðurtanga og tengja við Ø280 mm lögn ofan Grænagarðs sem er nýtt fyrir efri byggðina á Ísafirði og Hnífsdal. Auk þess er gert ráð fyrir að tengja lögnina við Ø225 mm lögn sem er á gatnamótum Sindragötu og Ásgeirsgötu. Vatnsmagn á Eyrinni eykst verulega og þrýstingur einnig. Vatnsþrýstingur í nýju lögninni er of mikill fyrir veitukerfið og því þarf að koma fyrir brunni / húsi fyrir þrýstijafnara, álíka húsi og við Skógarbraut. Staðsetning lokahúss mætti hugsa sér nálægt áhaldahúsi bæjarins.
Tillaga B gerir ráð fyrir að þvera Pollinn á sama stað og tillaga A en lögnin yrði lögð meðfram Skutulsfjarðarbraut og upp í vatnsveituhús í Tungudal. Þarna er um nýja aðveitulögn að ræða.
Tillaga C gerir ráð fyrir að þvera Pollinn og koma upp við Sigurðarbúð, þaðan í vegrás við Þjóðveg 60
upp að vatnsveituhúsi.

Torfnes: Vestri kvartar yfir snjómokstri

Torfnesvöllur á fögrum sumardegi.

Knattspyrnudeild Vestra hefur sent erindi til Ísafjarðarbæjar og er kvartað yfir snjómokstri á Torfnessvæðinu. Þar segir að lengi hafi Ísafjarðarbær haft það verklag að ryðja öllum snjó sem hreinsaður er af Seljalandsvegi, Miðtúni og Sætúni, niður á íþróttasvæðið Torfnesi.

„Mörg hundruðum ef ekki þúsundum rúmmetrum af snjó er safnað saman í brekkum ofan við íþróttavæðið Torfnesi. Með þessum snjó fylgja óhreinindi, sandur og jafnvel rusl. Þegar vorar og sól hækkar á lofti lekur allt vatn úr þessari hvimleiðu og óskiljanlegu snjósöfnun niður á íþróttasvæðið Torfnesi. Vegna þessa lekur mikið vatn og safnast fyrir á ákveðnum stöðum við knattspyrnusvæðið.“

Afleiðingin er sú að svæðið næst Vallarhúsi undir gatnamótum Seljalandsvegar og Miðtúns er mjög blautt og hálfgert drullusvað langt fram í júnímánuð segir í erindinu og svo er þessu bætt við: „Svæði sem er þekkt fyrir að drena mjög illa. Hver er tilgangurinn að ryðja inn á það meira vatni en safnast fyrir í úrkomu?“

Erindinu lýkur með þessum orðum: „Knattspyrnudeild Vestra fer þess á leit við Ísafjarðarbæ, að hann láti af þessari óþörfu snjósöfnun fyrir ofan íþróttasvæðið Torfnesi.“

Í minnisblaði nýráðins íþrótta- og æskulýðsfulltrúa til umhverfis- og framkvæmdanefndar segir að þegar vorar og fer að hlýna bráðni snjórinn niður og lekur allt vatn niður að íþróttasvæðinu. Versta svæðið er fyrir ofan Vallarhúsið, drullusvað myndast, mikil bleyta er í brekkunni og á milli Vallarhúss og Kerecisvallar langt fram eftir sumri.

Þá segir í minnisblaðinu að forstöðumaður íþróttamannvirkja telur líklegt að dren við vallarhús taki ekki við þessum snjó og að drulla stífli lagnirnar. Drulla og bleyta er fram eftir sumri í kringum svæðið.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd fól starfsmanni nefndarinnar að ræða við forstöðumann áhaldahúss um mögulegar lausnir og losunarstaði.

Háskóladagurinn á laugardag

Háskóli Íslands býður öllum áhugasömum að heimsækja háskólasvæðið á Háskóladaginn 2024 sem fram fer 2. mars milli klukkan 12 og 15. Þar verður hægt að kynna sér yfir 400 námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi sem í boði eru innan háskólans. Auk námskynninga verða kynningar á fjölbreyttri starfsemi og þjónustu sem stúdentum í námi við Háskóla Íslands stendur til boða. 

Háskóladagurinn er samstarfsverkefni allra háskóla á landinu og er ómissandi fyrir mörg sem hyggja á háskólanám enda frábært tækifæri til að spjalla við vísindamenn, kennara og nemendur um allt sem viðkemur mögulegu námi í framtíðinni. Öll áhugasöm eru hvött til að mæta og kynna sér námsframboð og þjónustu háskólanna.

Háskóladagurinn er samstarfsverkefni allra háskólanna á landinu og Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri verða með námskynningar á 1. hæð á Háskólatorgi. Háskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík og Listaháskóli Íslands verða einnig á 1. hæð á Háskólatorgi. Auk þess verður HR með námskynningu í eigin húsakynnum við Öskjuhlíð og LHÍ í eigin húsakynnum á Laugarnesvegi.

Á Ísafirði verður sérstök kynning í Menntaskólanum á Torfnesi 13. mars kl. 12:30-14:00

Nýjustu fréttir