Föstudagur 13. september 2024
Síða 156

Íþróttaverðlaun Strandabyggðar

Íþróttaverðlaun Strandabyggðar árið 2023 voru afhent í gær 29. febrúar.

Titilinn íþróttamanneskja ársins 2023 hlýtur Árný Helga Birkisdóttir. 

Á liðnu ári lagði Árný Helga gríðarlega mikið á sig við æfingar og keppnir um land allt. Hún lagði mikið á sig til að sækja þekkingu utan svæðis og æfði samviskusamlega og sjálfstætt til að ná þeim markmiðum sem hún hafði sett sér. Hún fór á fjölmörg mót, bæði hér á landi og erlendis sem og æfingaferðir. Hún er ljúf, áhugasöm, ósérhlífin og gefst ekki upp þegar á móti blæs. Hún styður aðra iðkendur með hvetjandi og vinalegri framkomu hvar sem maður hittir á hana.

Árangur Árnýjar Helgu er aðdáunarverður þar sem hún vann Bikarkeppni SKÍ sem samanstendur af alls 11 keppnum yfir veturinn 2023. Einnig var hún dugleg að taka þátt í Íslandsgöngum sem eru haldnar víðs vegar um landið. Árný Helga komst auk þess í 2 kvenna úrtökuhóp gönguskíðaungmenna fyrir Ólympíuleikana í Suður Kóreu, sem var gríðarlegur heiður. Árný Helga er einstök fyrirmynd annarra barna.
Meðfylgjandi listi yfir árangur Árnýjar Helgu er ekki tæmandi en gefur glögga mynd af mögnuðum afrekum hennar.
Skíðaganga:
• Bikarmeistari (Samanlögð stig eftir 11 keppnir)
• 1.sæti í Strandagöngunni 20 km
• Andrésandarmeistari
• 1.sæti í Fossavatnsgöngunni 25 km
Utanvegahlaup:
• Súlur Vertical 18 km
• Fjögurraskógahlaupið 17,6 km, 5 sæti


Þá voru einnig veitt Hvatningarverðlaun Strandabyggðar 2023 en þau hlýtur Benedikt Gunnar Jónsson. Benedikt stóð sig gríðarlega vel í kúluvarpi árið 2023. Benedikt á lengsta kast 14 ára drengja með 5 kg kúlu og annað lengsta kast 14 ára drengja með 4 kg kúlu. Benedikt varð Íslandsmeistari í kúluvarpi í sínum aldursflokki og auk þess keppti hann upp fyrir sig á nokkrum stórum mótum þar sem hann hlaut bronsverðlaun í flokknum 16-17 ára. Þá er hann talinn mjög líklegur til að komast inn í Afreksíþróttamannadeild ÍSÍ.

Meðfylgjandi listi yfir árangur Benedikts er alls ekki tæmandi en gefur okkur yfirsýn yfir frábæran árangur hans á síðastliðnu ári:
• Stórmót ÍR janúar 2023 – 1.sæti með 11,32 m og persónulega bætingu
• Gaflarinn 4. nóvember 2023 – 1.sæti með kast upp á 14,74 m og persónulega bætingu
• Silfurleikar ÍR – 1.sæti og kastaði 15,45 m með persónulega bætingu
Í lok desember kastaði hann svo 15,49 m á jólamóti ÍR og bætti sig því um rúmlega 4 metra í kúluvarpi á einu ári. Þessar tölur sýna okkur hvað Benedikt hefur bætt sig mikið á einu ári og hlökkum við til að fylgjast með honum á þessu ári.

Hildigunnur H. H. Thorsteinsson er nýr forstjóri Veðurstofu Íslands

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur tekið ákvörðun um að skipa Hildigunni H. H. Thorsteinsson í embætti forstjóra Veðurstofu Íslands til næstu fimm ára. Hún verður skipuð í embættið frá og með 1. júní nk.

Hildigunnur er með BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og lauk MSc gráðu í Technology and Policy frá Massachusetts Institute of Technology árið 2008.

Hildigunnur hefur starfað sem Chief Technical Officer hjá Innargi A/S í Kaupmannahöfn, frá 2022. Hún starfaði sem verkfræðingur hjá Enex Hf. í Reykjavík á árunum 2005-2006 og sem verkefnastjóri hjá Iceland America Energy Inc. í Los Angeles 2008-2009. Hildigunnur var tæknistjóri í orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna í Washington árin 2009-2011 og síðar teymisstjóri á jarðvarmasviði í sama ráðuneyti 2011-2012. Árið 2013 tók Hildigunnur við stöðu framkvæmdastýru rannsókna- og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og sinnti því starfi til ársins 2022.

Embætti forstjóra Veðurstofu Íslands var auglýst í nóvember sl.  og sóttu átta um embættið.

Vestfirðir eru orkuauðugasti landshlutinn

Vandi steðjar að Vestfirðingum í orkumálum.  Orkuöflun byggist um of á gömlum bilanahættum flutningslínum og orkuverð er háð dyntum Landsvirkjunar.   Nýrrar stefnumótunar er þörf í orkumálum landshlutans.  Hana þarf að byggja á víðsýni og staðreyndum.  Taka þarf tillit til þess m.a. að Vestfirðingar sitja betur að orkuauðlindum en aðrir landshlutar, þegar til framtíðar er litið.    

Sjávarfallaorka er lausnin

Ekki er unnt að ræða stefnumótun í orkumálum Vestfirðinga án þess að horfa til sjávarfallaorku, enda eru þar öflugustu sjávarfallarastir landsins.  Samanlagt eru þau stórfljót orkumeiri en stærstu virkjanasvæði landsins í dag, s.s. Þjórsársvæðið.  Látraröst er þeirra stærst, en virkjanlegar rastir eru við flest vestfirsk annes.  Þegar hafðar eru í huga þær stórstígu tækniframfarir sem nú eru að verða í sjávarorkunýtingu víða um heim; og jafnvel í okkar næsta nágrenni, verður að telja það gáleysi að líta framhjá sjávarorku í orkuáætlunum Vestfjarða. 

Tæknin er nánast tilbúin.

Víða um heim er unnið að þróun tækni til nýtingar sjávarfallaorku.  Má segja að öll tæknivædd lönd; önnur en Ísland, leggi kapp á nýtingu þessara umhverfisvænu orkulausna, einkum með þróun hverfla.  Flestir eru þeir skrúfuhverflar í mismunandi útfærslum.  Þeir henta ágætlega í miklum straumhraða, þar sem orkuþéttni er mest, en þurfa helst meira en 2,5 m/sek til hagkvæmnar vinnslu.  Eitt afbrigði þeirra sem nú er langt komið í þróun getur þó gagnast við aðeins lægri hraða.  Það er hverfill hins sænska Minesto, sem nú er farinn að sjá Færeyingum fyrir sjávaarfallaorku.  Hverfillinn er í svifdreka sem tjóðraður er við botn og svífur í áttulaga ferli, líkt og flugdreki í vindi.  Nýjasta gerðin „Dragon-12“ hefur 1,2 MW uppsett afl.  Með þeim hverfli eru Færeyingar komnir í forystu um sjávarorkunýtingu.  Þar eru núna áætlanir um 200 MW orkuframleiðslu úr sjávarföllum í sjö sundum, sem er um 40% af núverandi raforkuþörf eyjanna.  Hverfla Minesto eru sagðir gagnast við straumhraða yfir 1,5 m/sek, enda margfalda þeir hraðann með svifi sínu.  Þeir eru því af svonefndri „annarri kynslóð“ sjávarfallahverfla, en slíkir hverflar tvöfalda það umfang sjávarorku sem hingað til hefur verið talið nýtanlegt.  Skrúfuhverflar eru þó ekki hagkvæmir í annnesjaröstum Vestfjarða; jafnvel ekki þessi, þar sem straumhraði er allajafna mun minni en þetta.  Þar þarf hverfil af „þriðju kynslóð“ sjávarhverfla; með getu til hagkvæmrar nýtingar hægari strauma en 1,5 m/sek.  Slíkir hverflar sjöfalda þá sjávarfallaorku sem hingað til hefur þótt nýtanleg.

Íslenskur hverfill

Svo vill til að hérlendis hefur verið þróuð lausn sem hentar íslenskum aðstæðum og getur nýtt slíkan straumhraða.  Uppfinningin er undirritaðs; byggð á reynslu af sjávarfallastraumum við Vestfirði.  Fyrirtæki mitt, Valorka ehf, hefur frá árinu 2009 unnið að þróun all sérstæðra hverfla sem henta í hægum orkurýrum straumi og á tiltölulega litlu dýpi.  Vegna hinnar dreifðu orku þurfa hverflarnir að vera stórir, enda getur þessi gerð orðið nokkur hundruð metra löng.  Hverflarnir verða algerlega á kafi, á miðdýpi sjávar og hafa engin óæskileg áhrif á lífríki eða umhverfi.  Sjávarföllin eru virkjuð í báðar áttir, þó snúningsstefna hverfilsins breytist ekki.  Hverlarnir eru auðveldir í lagningu og að fullu endurheimtanlegir á stuttum tíma.  Á síðasta ári var gerð hagkvæmniathugun þar sem sett var upp dæmi um 5 hverfla, hvern 400 metra langan, sem lagt væri á 40 metra dýpi í Látraröst, undan Látrabjargi.  Uppsett afl væri alls 2,6 MW.  Raforkan yrði leidd til Patreksfjarðar með sjó- og loftlínum og nýtt þar til kyndingar vatns fyrir fjarvarmaveitu.  Ýmsar stærðir eru óljósar, en samkvæmt bestu fáanlegu gögnum myndi virkjunin vera hagkvæm og skila 10% arðsemi yfir 25 ára tímabil, miðað við núverandi orkuverð.  Hitun vatns er vafalítið hagkvæmasta nýting sjávarfallaorku, en varmarýmd vatnsins jafnar út sveiflur vegna fallaskipta, svo ekki er þörf á jöfnunarorku.  Með nýtingu sjávarfalla til vatnshitunar munu Vestfirðir breytast úr köldu svæði í heitt svæði.  Ekki verður einungis gnægð orku til húshitunar, heldur einnig til atvinnustarfsemi, s.s. landeldis á fiski. 

Stjórnvöld dragbítur

Hverflar Valorku hafa verið prófaðir í smáum líkönum og staðið undir öllum væntingum.  Stórt líkan er nánast tilbúið fyrir sjóprófanir.  En íslensk stjórnvöld hafa staðið í vegi fyrir þessari þróun.  Engin stefna er fyrir hendi um rannsóknir á sjávarorku eða þróun sjávarorkutækni.  Meðan svo er fæst ekkert fé til þróunarinnar.  Þessi afstaða stjórnvalda á rætur í stjórnkerfi raforkumála, þar sem Landsvirkjun og aðrir orkurisar halda alfarið um stjórnvölin og ráðamenn dansa eftir þeirra vilja.  Nú kemst ekkert annað að hjá stjórnvöldum en áróður fyrir auknum vatnsaflsvirkjunum og vindmyllum; allt knúið áfram af fjársterkum hagsmunaaðilum. 

Nýtum „bæjarlækinn“

Ég skora á Vestfirðinga að halda ráðamönnum við efnið varðandi rannsóknir, tækniþróun og nýtingaráætlanir sjávarorku.  Rjúfa verður þá þöggun og kyrrstöðu sem nú viðgengst um þessa orkulind, ef við eigum ekki að dragast enn frekar aftur úr alþjóðlegri þróun og valda framtíðarkynslóðum skaða.  Engin nauðsyn er til þess að sökkva náttúruperlum undir virkjanalón eða spilla hinum tígulegu Vestfjarðafjöllum með vindmyllum og vegalagningu.  Nýtum orkuna í „bæjarlæknum“; orkumestu sjávarrastir landsins eru nærtækasta framtíðarlausnin á orkumálum Vestfjarða. 

Valdimar Össurarson

Sjávarfallavirkjun Minestro í Færeyjum er 1.2 MW.

Stækkun Mjólkár: telja ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum

frá Mjólká.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar telur umfang framkvæmdanna vegna stækkunar Mjólkárvirkjunar ekki þess eðlis að þær falli undir mat á umhverfisáhrifum þar sem umhverfið er nú þegar raskað vegna fyrri framkvæmda.

Skipulagsstofnun hefur fengið tilkynningu frá Orkubúi Vestfjarða um fyrirhugaðar framkvæmdar, sem eiga að auka raforkuframleiðslu virkjunarinnar um 0,5 MW og er að afla umsagna frá stofnunum og öðrum aðilum. Skipulagsstofnun mun kveða upp úr um það hvort sérstakt umhverfismat þurfi að fara fram innan sjö vikna.

Orkubú Vestfjarða hyggst hækka stíflu við Tangavatn um 3 metra og virkja fall vatnsins þaðan að Hólmavatni og fá við það 0,5 MW afl. Gert er ráð fyrir 700 metra langri þrýstipípu sem verði 0,7 metra víð. Virkjunin í dag gefur 11,2 MW afl og 64-75 GWh á ári en gildandi skipulag heimilar 12,05 MW virkjun og er ekki gert ráð fyrir að auka það.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur þegar samþykkt að  auglýsa breytingar á bæði aðalskipulagi og deiliskipulagi við Mjólká í Arnarfirði til þess að heimila framkvæmdaáformin.

Gefum öllum séns

Undirritaður er áhugamaður um tungumál. Sem stúdent af málabraut er í farteski undirritaðs gutl í ensku, dönsku, frönsku og þýsku auk einhverrar innsýnar í okkar ylhýra. En í framhaldsnámi kom að því að latína varð einnig áhugamál þó ekki hafi farið fyrir námi í þeim fræðum ennþá. Latína gagnast mörgum og ekki síst starfsstéttum þar sem unnið er yfir landamæri og þvert á tungumál – hugtök í læknisfræði, lögfræði, náttúrufræðum, samskiptum viðskiptalífs og fleiri greinum samnýta þar alþjóðlegt tungumál sem þó enginn talar nema til skrauts. Fyrirgefið, jú, kirkjunnar menn í hinum ýmsu kimum jarðar.

Eins og svo margir aðrir, líkt og alnetið ber vott um og ekki síst samfélagsmiðlar, hefur undirritaður líka áhuga á fólki og samfélagi. Eftir útskrift úr lagadeild hefur undirritaður notið þeirrar gæfu að starfa meira og minna með fólk og samfélag. Samfélag bæði innlendra og erlendra ríkisborgara. Lykillinn að slíkum samskiptum felst, eins og orðið felur í sér, í tungu sem báðir eða allir skilja. Ef vel á að takast.

Íslenskt samfélag er lifandi og í sífelldri þróun. Það er tungumálið okkar líka – íslenskan. En vegna smæðar okkar samfélags á Íslandi er ekki sjálfgefið að íslenska verði um aldur og ævi það tungumál sem hún er fyrir okkur. Við erum örþjóð í stórum heimi, sem þó er ekki stærri en svo að samskipti margra á daglegum grunni eru beint á fundum og gegnum miðla á alls konar tungumálum. Heimurinn minnkaði og stækkaði um leið og alnetið haslaði sér völl. Heimur okkar í dag er annar en hann var á 8. og 9. áratug síðustu aldar þar sem erlend tunga heyrðist helst í sjónvarpi, í kvikmyndasýningum, af afspilun á spólum hinna ýmsu myndbandaleiga landsins. Og þá sjaldan að fólk brá sér af bæ út fyrir landsteinana. Við sem erum eilítið yfir þrítugu ólumst upp við takmarkað aðgengi að erlendu efni fyrstu æviárin, þó auðvitað hafi það verið misjafnt. Þá á ég við okkur, snar-íslensk, með innlendan bakgrunn og uppruna.

Samfélag okkar hefur breyst mikið á stuttum tíma. Hlutfall fólks af erlendum uppruna er orðið hærra en það var fyrir þrjátíu árum og fer hækkandi. Tölfræði. Erlendir ríkisborgarar eiga greiðari aðgang að landinu í leit að tækifærum og atvinnu gegnum hluta fjórfrelsis Evrópusambandsins sem leiðir af samningi okkar um óbeina aðild frá samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Auðlegð landsins og sú staðreynd að við njótum auglýsingar fyrir náttúrufegurð og frjálslyndi laðar að sér fólk, sem er vel. Og fantar heimsins framleiða flóttafólk og jarðveg sem beinir til okkar fólki í leit að skjóli og ákjósanlegum stað til að búa fyrir sig og sína. Og miklu fleira til, þið þekkið þetta allt, hér hefur undanfarna áratugi orðið gjörbreyting á samsetningu íslenskrar þjóðar sem hefur sitt eigið tungumál þó fámenn sé.

Birtingarmyndin frá nafla undirritaðs er sláandi. Staðreyndin er sú að í sveitarfélaginu sem undirritaður veitir framkvæmdarstjórn eru um 33% íbúa af erlendum uppruna. Fjölmenningarsamfélag sem sveitarfélagið Súðavíkurhreppur er stolt af og reynir sífellt eftir mætti að gera betra. En virkni í samfélaginu og endurspeglun í stjórn og aðkomu að sveitarfélaginu er ekki í takt við fjölda þeirra íbúa sem teljast til nýbúa eða erlendra. Í þeirri viðleytni að efla þann hluta íbúa höfum við tekið fegins hendi átaki sem ber yfirskriftina Gefum íslensku séns. Áhugi og árangur af átakinu er eftirtektarverður og ávinningur, ef til tekst, er langtum verðmætari en tilkostnaður og fyrirhöfn. Það er mikill mannauður í fólki sem til okkar flytur og ættum við að þiggja þann mannauð með þökkum, samfélaginu og okkur öllum til heilla. Og um leið, vonandi fylgir lífsfylling og hagsæld fyrir þá sem læra íslensku, þurfum við að gefa íslensku séns, í stað þess að grípa til enskunnar, hvers tungumáls kannski hvorugur kann góð skil á. Það afhjúpar okkur sem vonda samfélagskennara og hjálpar lítið við skilning á íslensku sé enska sífellt notuð.  

Bragi Þór Thoroddsen – sveitarstjóri Súðavíkurhrepps.

Grein þessi er liður í greinaröð á vegum Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag rituðum af fólki sem lætur sig íslenskuna varða og vill bjóða fólk sem hingað flyst velkomið í íslenskt (mál)samfélag með íslenskuna og brosið að vopni.

Viðtalið: Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir

Mynd með þremur af doktorsnemum Guðbjargar og sonum hennar tveimur sem hafa oft aðstoðað við vettvangsvinnu. síðustu ár.

Dr. Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir forstöðumaður rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Vestfjörðum, sem er í Bolungavík, fékk í vikunni góðan styrk frá Háskólanum til þess að sinna rannsóknum á svæðisbundnum takmörkunum á veiðum. Bæjarins besta lék forvitni á að vita meira um Guðbjörgu og störf hennar.

Ég ólst upp í Borgarfirði, Skotlandi og á höfuðborgarsvæðinu og hafði satt að segja áhuga á flestu sem barn. Ég ætlaði að verða ljónatemjari, rithöfundur, heimspekingur og lögfræðingur.  Þegar koma að því að hefja háskólanám hneigðist ég þó frekar til raungreinanna og ég hóf fyrst nám í jarðfræði, stoppaði stutt í jarðeðlisfræði og landfræði en skipti svo að fullu yfir í líffræði þaðan sem ég útskrifaðist vorið 2000. Sumarið 1998 bauðst mér nefnilega að vinna að sjálfstæðu rannsóknaverkefni, styrktu af Nýsköpunarsjóði námsmanna, norður á Hólum. Verkefnið fjallaði um tegundamyndun hornsíla, þ.e. hvernig valkraftar umhverfisins geta orðið til þess að ólíkar tegundir verða til. Þarna kynntist ég fyrst rannsóknum og þessi sumardvöl átti eftir að hafa mikil áhrif á mína framtíð. Mér fannst þetta nefnilega svo skemmtilegt að verkefnið varð grunnur að doktorsverkefni mínu í líffræði.

Haustið 2000 flutti ég til Skotlands til náms. Verkefnið fól í sér fjölbreytta aðferðafræði, mælingar á hegðun, hefðbundna vistfræði og stofnerfðafræði. Það hefur alla tíð fylgt mér að mér finnst gaman að skoða sama viðfangefnið frá ólíkum hliðum til að fá betri heildarmynd.

Þremur árum eftir að ég kem heim þá býðst mér starf forstöðumanns rannsóknaseturs HÍ á Vestfjörðum en setrið var þá nýstofnað.  Eftir að ég kom hingað vestur fóru rannsóknirnar mínar að snúast meira um sjávarfiska. Mér fannst áhugaverðara að vinna við sjóinn, það er flóknara, bæði náttúrufarslega en líka þar sem nýting og stjórnkerfið sem við höfum byggt í kringum nýtinguna hefur óneitanlega áhrif á fiskana. Þetta þarf allt að skoða í stóru samhengi. Í dag eru flestar mínar rannsóknir tengdar þorski á einhvern hátt.

Hugmyndafræðin á bak við rannsóknasetur HÍ er að skapa vettvang fyrir rannsóknir á landsbyggðinni og annan snertiflöt fyrir landsbyggðina við Háskóla Íslands. HÍ stendur auðvitað fyrir fjölmörgum verkefnum og tækifærum til menntunar á landsbyggðinni sem tengjast rannsóknasetrunum lítið eða ekkert. Rannsóknasetrin eru öðruvísi að því leiti að starfsfólkið er búsett á svæðinu.

Ég hef ansi oft verið beðin um að svara því hver eiginleg gagnsemi setranna er og hef því eytt töluverðum tíma í að velta því fyrir mér. Fyrir það fyrsta erum við auðvitað viðbót við það sem fyrir er og sem slík afskaplega hagstæð í rekstri! Í upphafi þá fylgdi grunnfjárveiting af fjárlögum sem dugði fyrir launum forstöðumanns og húsnæði. Þessi fjárveiting hefur hinsvegar lækkað mjög og dugir í dag ekki fyrir hálfum launum. Háskóli Íslands leggur að sjálfsögðu til rekstursins en stór hluti okkar starfsemi er fjármagnaður af sértekjum. Þannig rekstur er eðli málsins samkvæmt sveiflukenndur en við höfum síðustu ár að jafnaði verið tveir fastir akademískir sérfræðingar, 2-4 doktorsnemar og síðan tímabundið starfsfólk. Síðan gerist það alltaf öðru hvoru að nemar starfa hjá okkur á öðrum forsendum, með eigin fjármögnun eða sem gestir.

Einhverntíman var ég spurð að því hvort þetta kostaði nokkuð, þ.e. doktorsnemarnir. Á mínu fræðasviði er doktorsnám alls ekki ókeypis! Ég geri ráð fyrir að kostnaður setursins við hvern nema sé 40-60 milljónir. Það er þó til mikils að vinna því með doktorsnámi erum við að mennta mjög hæfa sérfræðinga sem geta lagt mikið til bæði innan rannsóknaumhverfisins en líka á öðrum sviðum samfélagsins.

Þetta væri auðvitað ekki hægt nema í gegnum styrkjakerfið og munar þar langmestu um að við höfum fengið níu styrki frá rannsóknasjóði Rannís þessi 15 ár sem við höfum starfað. Þessir styrkir eru forsenda menntunar og þjálfunar ungra vísindamanna og auðvitað afskaplega skemmtilegt að geta boðið það hér á Vestfjörðum.

Frá persónulegum sjónarhóli tel ég þó helsta ávinninginn af rannsóknasetrum HÍ vera aukna víðsýni og nýsköpun í rannsóknum. Þá á ég aðallega við fyrir okkur sem störfum hjá setrunum og fyrir rannsóknaumhverfið. Rannsóknasetrin hafa orðið vettvangur fjölmargra nýrra verkefna sem annars hefðu aldrei orðið til. Þá gerir smæðin og fjarlægðin það að verkum að við erum alltaf vakandi fyrir því að rækta samstarf og tengingar. Á sama tíma þá felur búseta og störf í litlu samfélagi það í sér að það verður afar erfitt að festast í sínum fílabeinsturni eða bergmálshelli. Það sama gildir auðvitað í hina áttina, nálægðin gefur færi á að kynnast vel rannsóknastarfseminni ef áhugi er fyrir hendi. Setrið er alltaf opið og við tökum á móti mörgum einstaklingum, hópum og nemum á hverju ári.

Ég hef búið hér með hléum síðan 2008 og líkar það vel enda kem ég alltaf aftur. Ég á stóra samsetta fjölskyldu og hef stundum velt því fyrir mér hvort ég hefði getað stundað rannsóknir á sama hátt annarsstaðar. Þegar ég var í námi var það enn algengt að konur á mínum aldri hættu í doktorsnámi eða fóru ekki lengra innan háskólanna ef þær urðu óléttar. Ég átti elsta son minn á meðan ég var í doktorsnámi og í minningunni skrifaði ég ritgerðina með hann í fanginu. Mínar fjölskylduaðstæður áttu því þátt í þessu vali og barnlaus hefði ég kannski kosið að búa áfram í Bretlandi.

Börnin eru það í Bolungarvík sem ég er þakklátust fyrir. Ég hef aldrei þurft að hafa neinar áhyggjur af börnunum mínum hér, hvort sem þau eru í leikskóla, skóla, úti að leika eða hjá vinum. Bolungarvík heldur afskaplega vel utan um börn á öllum aldri. Það hefur alltaf verið mín reynsla.

En mér líður ekki bara vel hér vegna barnanna. Á Vestfjörðum finnur maður fyrir náttúrunni á áþreifanlegri hátt en víða annars staðar. Fólk borgar háar upphæðir fyrir að komast úr borgarumhverfinu og endurskapa svona náttúruupplifun en hér er hún allt um kring. Mér finnst betra að búa í náttúrunni og sækja borgarumhverfi þegar ég vil. Sem kemur reyndar oft fyrir líka.

Annars er ég frekar leiðinleg þegar kemur að áhugamálum. Rannsóknirnar mínar eru mitt áhugamál og ég er alltaf að læra eitthvað nýtt þar, núna er ég t.d. í námi í opinberri stjórnsýslu sem mér finnst gagnast vel í mínum rannsóknum tengt náttúruvernd og verndarsvæðum.

Frítíma mínum eyði ég að öðru leiti oftast með fjölskyldu eða í útivist af einhverju tagi. Mér finnst t.d. skemmtilegt bæði að skíða og hlaupa. Þegar ég get sæki ég sýningar og söfn og les bækur en ég hef áhuga á bæði myndlist og bókmenntum. Það er kannski hin hliðin á mér sú sem er minna sýnileg.

Stefnt að seiðaútsetningu við Sandeyri í vor

Kvíasvæði Arctic Sea Farm í Ísafjarðardjúpi.

Arctic Fish stefnir að því að setja út 1 – 1,5 milljón seiða af frjóum eldislaxi í maí næstkomandi í kvíastæði við Sandeyri í Ísafjarðardjúpi, en fyrirtækið fékk í gær rekstrarleyfi frá Matvælastofnun fyrir 8.000 tonna lífmassa af eldislaxi, þar af 5.200 af frjóum laxi. Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar staðfestir það.

Fyrirtækið fékk einnig leyfi fyrir kvíastæðum við Arnarnes og Kirkjusund, en áður en unnt verður að setja út seiði þar verða að liggja fyrir samstarfssamningar við Hábrún ehf og Háafell ehf sem tryggja á samræmdar forvarnir og viðbrögð við sníkjudýrum og sjúkdómum.

svæðið er ekki í áhrifasvði geiravita

Fyrir liggur áhættumat fyrir siglingaöryggi fyrir Sandeyri og niðurstaða þess er að svæðið liggur ekki hjá ás siglingaleiðar og er ekki í áhrifasvæði geiravita. Fjarlægð í hvítan geira vita er minnst 1.000 metrar fyrir allt svæðið SN36 og er um 1.100 metrar fyrir fiskeldissvæðið sem skilgreint er undir Sandeyri.
„Niðurstöður áhættumats sýna fram á að leyfi til fiskeldis á svæði við Sandeyri mun ekki hafa teljandi neikvæð áhrif á siglingaöryggi inn djúpið núna og í náinni framtíð. Mjög takmörkuð umferð er um svæðið og eru það aðallega litlir bátar sem sigla þar framhjá.“

Lokaorð áhættumatsins eru að mikilvægt sé „að kvíasvæðin séu merkt eins og reglugerð um fiskeldi nr. 540/20006 kveður á um og uppitími merkinga sé ekki undir 97%, mælt yfir þriggja ára tímabil að lágmarki. Varúðarsvæði upp á 50 m, eins og það er skilgreint í reglugerð um fiskeldi, er talið nægjanlegt.“

Ísafjarðabær: sótt um styrki að fjárhæð 42 m.kr. til uppbyggingar

Frá framkvæmdum Skotíþróttafélags Ísafjarðar á Torfnesi.

Sótt var um samtals 42.363.899 kr styrk til uppbyggingar íþróttamannvirkja í ár frá níu íþróttafélögum. Heildarupphæð til úthlutunar er 12.000.000 kr.

Umsóknirnar voru lagðar fram á fundi skóla-, íþrótta- og tómstundanefndar. Nefndin frestaði úthlutun og fól starfsmönnum nefndarinnar að útbúa matskvarða til að forgangsraða umsóknum um uppbyggingarsamninga.

Umsóknirnar sem bárust voru eftirfarandi:

Körfuknattleiksdeild Vestra: Uppbygging körfuboltavallar í Holtahverfi.
Upphæð 2.200.000 kr.-
Skíðafélag Ísfirðinga: Endurbætur á snjógirðingum á Seljalandsdal.
Upphæð 2.800.000kr.-
Skíðafélag Ísfirðinga: Vatnslögn við barnasvæði fyrir snjóframleiðslu.
Upphæð 3.600.000 kr.-
Golfklúbbur Ísafjarðar: Vökvunarbúnaður fyrir flatir á golfvellinum í Tungadal.
Upphæð 5.830.000 kr.-
Golfklúbburinn Gláma: Tækjabúnaður.
Upphæð 2.000.000 kr.-
Klifurfélag Vestfjarða: Klifurveggur (Moon kerfisveggur).
Upphæð 1.160.000 kr.-
Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar: Aðstaða við áhorfendastúku, salernisaðstaða, pípulagnir, raflagnir, innréttingar, útihurðir og gluggar.
Upphæð 18.468.899 kr.-
Knattspyrnudeild Vestra: Svalir við vallarhús.
Upphæð 2.115.000 kr.-
Knattspyrnudeild Vestra: Nýjar hurðir í búningasklefa í vallarhúsi ásamt skápum í leikmanna og dómaraklefa.
Upphæð 4.190.000 kr.-

NÁLÆGÐ VIÐ NÁTTÚRU MIKILVÆG FYRIR VESTFIRÐINGA Í COVID-FARALDRI

Liðin eru rétt um fjögur ár síðan kórónuveiran skall á íslensku samfélagi af fullum þunga.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og fjölmargir kimar þessarar óværu verið rannsakaðir.

Ein þeirra sem lagt hefur lóð á vogarskálarnar í þeim efnum er Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði, sem fór fyrir rannsókn á samfélagslegum áhrifum og lýðheilsuaðgerðum vegna COVID-19 á Vestfjörðum. Hún segir nánar frá rannsókninni og niðurstöðum hennar á vef HÍ.

Hvenær er hlaupár

Hlaupár er alltaf þegar 4 ganga upp í ártalinu, að undanskildum aldamótaárum þegar 4 ganga ekki upp í öldinni. Þannig eru árin 1700, 1800 og 1900 ekki hlaupár en árið 2000 er hlaupár. Árin 2100, 2200 og 2300 verða ekki hlaupár en árið 2400 verður það aftur á móti.

Með þessu móti verður meðalár 365,2425 sólarhringar að lengd. Það er mjög nálægt svokölluðu hvarfári sem ræður árstíðaskiptum en það er 365,2422 sólarhringar. Frávikið nemur innan við einum degi á hverjum 3000 árum.

Það tímatal sem við búum við nefnist gregoríanskt tímatal og megineinkenni þess er einmitt hlaupársreglan sem lýst var hér á undan en það var innleitt hér á Íslandi árið 1700.

Nýjustu fréttir