Föstudagur 13. september 2024
Síða 155

Botnsvirkjun í Dýrafirði: halda sínu striki

Gunnar Þórisson, stjórnarformaður Botnsorku ehf segir að úrskurður Skipulagsstofnunar um að virkjunaráformin í landi Botns í Dýrafirði þurfi að fara í umhverfismat breyti ekki áformum um að ráðast í virkjunina en muni seinka framkvæmdum um a.m.k. eitt ár og kosta umtalsvert fé.

Fyrirtækið Botnsorka ehf hyggst ráðast í gerð rennslisvirkjunar í Botnsá í Dýrafirði með uppsett afl allt að 5000 kW eða 5 MW. Fyrirhugað er að virkja rennsli Botnsár úr um það bil 440 m hæð yfir sjávarmáli og verður vatnið leitt í stöðvarhús með niðurgrafinni 3,5 km langrar trefjapípu. Mannvirki og pípustæði verða sunnan Botnsár í landi Dranga.

Náttúrustofa Vestfjarða vann ítarlega skýrslu um áhrif framkvæmdanna á fugla, gróður og ferksvatn. Skipulagsstofnun sendi gögnin til umsagnir og bárust umsagnir frá 10 stofnunum. Fimm þeirra töldu ekki þörf á frekari rannsóknum, þrjár svöruðu ekki því hvort áformunum væri lýst með fullnægjandi hætti og aðeins tvær stofnanir töldu þörf á að framkvæmdin færi í umhverfismat.

Að fengnum umsögnunum ákvað Skipulagsstofnun 26. febrúar sl. að framkvæmdin kynni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

Kæra má ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 28. mars 2024.

enginn heimaaðili vildi umhverfismat

Af tíu stofnunum sem veittu umsögn voru þrjár á Vestfjörðum. Það voru Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafjarðarbær og Orkubú Vestfjarða og voru allar sammála um að framkvæmdinni væri nægjanlega lýst með framlögðum gögnum og þyrfti því ekki í umhverfismat.

Vegagerðin og Hafrannsannsóknarstofnun voru sama sinnis.

Veðurstofan og Orkustofnun tóku ekki afstöðu til þess hvort umhverfismat væri nauðsynlegt og Náttúrufræðistofnun segir í sinni umsögn að fram hafi komið fram góðar upplýsingar um umhverfisáhrif Botnsvirkjunar og því óvíst að umhverfismat myndi bæta miklu við varðandi t.d. mat á áhrif á lífríki. Hins vegar vantaði betra mat á áhrif á óbyggð víðerni og mögulega jarðminjar, einkum steingervinga. Þá ætti að skoða betur sammögnunaráhrif við aðra virkjunarkosti.

Það voru því aðeins Fiskistofa og Umhverfisstofnun sem svöruðu því skýrt að þörf væri á umhverfismati.

Óbyggð víðerni

Umhverfisstofnun vísar til hugtaksins óbyggð víðerni og segir í sinni umsögn: „Fyrirhugað virkjunarsvæði er staðsett innan Glámuhálendisins. Glámuhálendið er skilgreint sem óbyggt víðerni og Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt 3. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, þar sem fjallað er um verndarmarkmið fyrir jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni, segir að til að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags skal stefnt að því að standa vörð um óbyggð víðerni landsins.“ Þá bendir stofnunin á að fleiri virkjanir eru innan sama víðernissvæðis s.s Mjólkárvirkjun. „Mikilvægt er að samlegðaráhrif, fyrirhugaðra og núverandi virkjanna á sama óbyggða víðernissvæði, Glámuhálendinu séu skoðuð ítarlega, en ekki er gerð grein fyrir þeim í umhverfismatsskýrslunni.“

Ennfremur bendir Umhverfisstofnun á að fossarnir á framkvæmdasvæðinu njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og að Dýrafjörður og leirurnar í botni fjarðarins samtals 11.9 km2 svæði hafi verið tilnefnd á B hluta náttúruminjaskrár.

hugsanlega laxveiði

Fiskistofa gerir ágreining við landeigendur en í skýrslunni, sem þeir leggja fram, segir að ekki séu veiðihagsmunir í Botnsá. Í umsögn Fiskistofu, sem Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri undirritar segir hins vegar að það kunni að vera vannýttir möguleikar þar sem fundist hafi laxaseiði á vatnasvæðinu auk bleikju. Til þess að kanna þá þurfi mat á umhverfisáhrifum að fara fram. Þá er bent á í umsögninni að framkvæmdir í veiðivatni eða á því allt að 100 metra frá bakka séu háðar leyfi frá Fiskistofu.

Skipulagsstofnun: skerða óbyggð víðerni

Að mati Skipulagsstofnunar munu fyrirhugaðar framkvæmdir hafa í för með sér skerðingu á óbyggðu víðerni sem nemur framkvæmdasvæði virkjunarinnar og tekur þar með undir sjónarmið Umhverfisstofnunar og segir í úrskurði sínum að samkvæmt náttúruverndarlögum skuli standa vörð um óbyggð víðerni. „Um Glámuhálendið liggja þjóðleiðir sem nýttar hafa verið sem gönguleiðir. Ljóst er að mannvirki virkjunarinnar, s.s. stöðvarhús, vegur, aðrennslispípur, inntakslón og aðveituskurðir muni breyta
ásýnd þessa lítt raskaða svæðis.“ Þá telur Skipulagsstofnun að umfang framkvæmdarinnar og viðkvæma staðsetningu kalla á nánari greiningu og mat með tilliti til breytinga á ásýnd og landslagi. Vísað er sérstaklega til fossa. Þá sé framkvæmdasvæðið jafnframt innan hverfisverndarsvæðis F43 Drangar í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar.

Stolt fjölmenningarsamfélag?

Sjávarþorp á Vestfjörðum hafa lengi verið rík af íbúum af erlendum uppruna og lengst af var hlutfall þeirra verið hæst á Vestfjörðum, þó það hafi tekið nokkrum breytingum síðustu ár. Heimafólk hefur löngum lagt sig fram um að taka vel á móti nýjum íbúum og hafa mörg spennandi verkefni sprottið úr þeim auðuga jarðvegi. Má nefna fjölmenningarhátíðir sem haldnar hafa verið, stofnun Fjölmenningarseturs, Tungumálatöfra og nú síðast Gefum íslensku séns. Margir einstaklingar hafa sett sinn svip á samfélögin og má þar nefna Ruth Tryggvason sem fluttist til Ísafjarðar frá Danmörku var gerð að heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Okkar auðuga tónlistar- og menningarlíf getum við líka þakkað fjölda kennara af erlendum uppruna sem kenna í tónlistarskólum á Vestfjörðum. Þá er haldin Alþjóðleg Píanóhátíð Vestfjarða á sunnanverðum Vestfjörðum ár hvert að frumkvæði Andrew Yang.  

Árið 1998 voru erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi 2% af heildarfjölda íbúa. Á Íslandi búa nú samkvæmt Þjóðskrá 400.435 íbúar þar af eru 324.515 íslenskir ríkisborgarar og 75.920 erlendir ríkisborgarar sem er um 19% af heildaríbúafjölda þjóðarinnar. Í Reykjavíkurborg eru erlendir ríkisborgarar 22,7% af heildarfjölda íbúa. Á Vestfjörðum er hlutfall erlendra ríkisborgara 23% af heildarfjölda íbúa, fæstir eru í Árneshreppi eða 4% flestir í Vesturbyggð eða 32%.  Í sveitarfélögum landsins er hlutfall íbúa af erlendum uppruna alveg frá 4% upp í 63% í Mýrdalshreppi.

Hlutfall íslenskra ríkisborgara hefur því sannarlega lækkað jafnt og þétt þar sem erlendum íbúum hefur fjölgað– ekki bara þar sem sjókvíaeldi á laxi er stundað heldur víða um land. Sveitarfélögin Hornafjörður (31%), Mýrdalshreppur (63%), Skaftárhreppur (44%), Ásahreppur (30%), Bláskógabyggð (36%), Borgarbyggð (25%), Grundafjarðarbær (28%), Snæfellsbær (26%), Reykjanesbær (33%), Vesturbyggð (32%) og Reykjavíkurborg (23%) eiga það öll sameiginlegt að þar hefur íslenskum ríkisborgurum fækkað hlutfallslega sem er það sem gerist þegar erlendum ríkisborgurum fjölgar. Tölur í sviga vísa til hlutfalls íbúa af erlendum uppruna.

Við búum í landi sem reiðir sig í síauknum mæli á innflytjendur til að vinna í höfuðatvinnugreinunum, ferðaþjónustu, sjávarútvegi, iðnaði og nú fiskeldi. Hjá hinu opinbera starfa tæplega 9.000 innflytjendur sem meðal annars standa undir þjónustu við aldraða og sinna öðrum störfum á heilbrigðisstofnunum landsins.

Upp á síðkastið hafa birst greinar og ótrúlega sorglegur málflutningur þar sem lagt er út af því að hátt hlutfall íbúa af erlendum uppruna í einstökum byggðakjörnum sé slæmt og ályktað að Íslendingum fækki hlutfallslega vegna þess að þar er starfrækt fiskeldi eða ferðaþjónusta.  Hvaða skilaboð erum við með slíkum málflutningi að senda því fólki sem hér býr og starfar?

Við búum í síbreytilegum heimi og erum þjóð auðug af auðlindum. Við hins vegar erum ekki nægilega mörg til að standa undir þeim kröfur sem við Íslendingar gerum til framúrskarandi lífskjara. Við horfum á framúrskarandi árangur innflytjenda og barna þeirra sem ná þrátt fyrir andstreymi að skara framúr og ná frábærum árangri. Á samfélagsmiðlum er einmitt verið að benda á frábær dæmi svo sem Laufeyju Lín, Emilíönu Torrini og Sveindísi Jane.

Samfélagið okkar breytist í takt við þennan raunveruleika og verkefnin okkar eru að ná að stilla saman strengi gamla og nýja Íslands. Í minnstu bæjum og þorpum landsins þurfum við að ná að opna kvenfélögin og björgunarsveitirnar þannig að erlendu íbúarnir okkar finni sig velkomin og skilji mikilvægi þessara máttarstólpa byggðanna. Kórastarf, áhugaleikfélög, Lions og Oddfellow eru mikilvæg tæki inngildingar fullorðins fólks rétt eins og íþrótta- og tómstundastarf er það fyrir börn og ungmenni. Svo eru það þorrablótin, bæjarhátíðirnar, pöbbinn og allt hitt. Gefum við öllum séns?

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Edinborg : ferðamálaráðherra með fund á mándaginn

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra býður til opins umræðu- og kynningarfundar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Fundurinn verður haldinn í Edinborgarhúsinu Ísafirði mánudaginn 4. mars kl. 13. Að fundi loknum verður móttaka fyrir fundargesti.

Drög að aðgerðaáætlun ferðamálastefnu 2030 voru unnin í víðtæku samráði stjórnvalda við fjölda hagaðila. Þau eru byggð á vinnu sjö starfshópa og stýrihóps og voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í nóvember á síðasta ári.

Þá má benda á að tillaga til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030 er nú aðgengileg í samráðsgátt á slóðinni:
https://island.is/samradsgatt/mal/3702



Ferðaþjónustuaðilar og áhugasöm um þróun ferðaþjónustunnar hjartanlega velkomin!

Sjá nánar á ferdamalastefna.is

Skráning: https://forms.office.com/e/rEFvhexNgk

Lilja Alferðsdóttir, ferðamálaráðherra.

Ísafjörður: Aldrei fór ég suður – 20 ára

Kristján Freyr Halldórsson er rokkstjóri hátíðarinnar og sá um kynninguna og hafði sér til halds og trausts tvö ungmenni sem eru jafngömul hátíðinni. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tónlistarhátíðin aldrei fór ég suður verður 20 ára í vor. Hátíðin var fyrst haldin um páskana 2004. Dagskrá næstu hátíðar var kynnt í dag í Turnhúsinu á Ísafirði. Hún verður haldin dagana 29. mars og 30. mars. Að venju koma fram margar hljómsveitir. Þar verður lúðrahljómsveit Tónlistarskóla Ísafjarðar og meðal fleiri heimamanna verða þarna Mugison, Helgi Björnsson og Celebs.

Af öðrum sveitum má nefna Bogomil font, Ham, of Monsters and Men, GDRN, Emmsjé Gauti og sigurvergarinn í næstu músiktilraunum.

Kynning á fyrstu Aldrei tónleikunum 2004. Listamaðurinn Ragnar Kjartansson hannaði.

Lúðrahljómsveit Tónlistarskólans á Ísafirði lék nokkur lög á kynningarathöfninni í gær.

Vatnsdalsvirkjun þarf að komast í umfjöllun í rammaáætlun

Orkubú Vestfjarða óskaði eftir því fyrir u.þ.b. ári síðan að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra breytti reglum um friðlandið í Vatnsfirði í Vesturbyggð, þannig að unnt sé að taka Vatnsdalsvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun og bera saman við aðra kosti. Orkubúið lagði síðan fram greinargerð í haust, sem unnin var af VSÓ Ráðgjöf, um möguleg umhverfisáhrif af slíkri framkvæmd. Umsagnir bárust frá 12 aðilum, fagstofnunum, samtökum og einstaklingum, auk umsagnar frá Vesturbyggð.

VSÓ hefur í samráði við OV dregið saman aðalatriði umsagnanna og viðbrögð við þeim í minnisblaði sem nú hefur verið sent ráðuneytinu. Megin viðfangsefnin snúa að birkiskógum, óbyggðum víðernum, vatnamálum, samfélagsþáttum og valkostum auk óvissu um umhverfisáhrif.

Hér verður farið yfir viðbrögð við nokkrum af helstu þáttum sem voru umsagnaraðilum ofarlega í huga og dregnar ályktanir.

Áhrif á birkiskóga innan friðlands 0,2%
Í minnisblaði VSÓ kemur fram að innan friðlandsins séu 1.977 ha af kjarrskógarvist (birki).  Fyrsta greining á raski vegna framkvæmda bendir til að 0,2% af birkiskógum friðlandsins raskist.  Í rammaáætlun og við umhverfismat munu koma fram nánari upplýsingar um mikilvægi birkis á svæðinu og á landsvísu og gerð ítarlegri grein fyrir áhrifum framkvæmda. Það er ljóst að áhrif á birkiskóg í friðlandinu eru hverfandi.
Áhrif á óbyggð víðerni á Íslandi lítil
Í umsögnum kemur fram að áhrifin verði einkum neikvæð á víðerni Glámusvæðisins. Það sem vekur hins vegar sérstaka athygli er að miðað við fyrirliggjandi gögn eru framkvæmdir sem tengjast Vatnsdalsvirkjun ekki innan óbyggðra víðerna sbr. mynd 1.  Staðsetning miðlunarlóna virkjunarinnar munu þó skerða þau óbyggðu víðerni sem eru nær lónunum en 5 km eins og sýnt er  mynd 1. Áhrifin á óbyggð víðerni eru þó einungis 0,41% af óbyggðum víðernum á Vestfjörðum. Er þar miðað við útreikninga sem unnir eru af Rannsóknasetri HÍ á Hornafirði að frumkvæði Skipulagsstofnunar.  Röskunin sem hlutfall af óbyggðum víðernum á landsvísu er algjörlega hverfandi eða 0,027% samkvæmt áðurnefndu minnisblaði.     

Samfélagslegir hagsmunir
Þau gögn sem liggja fyrir varðandi samfélagslega hagsmuni, t.d. í skýrslum sem unnar hafa verið fyrir ráðuneytið á undanförnum árum virðast ekki hafa verið skoðuð ítarlega af umsagnaraðilum. Í þeim gögnum koma fram röksemdir fyrir nauðsyn þess að auka raforkuöryggi á Vestfjörðum. Í skýrslunum er m.a. lagt til að heimila að Vatnsdalsvirkjun verði tekin til skoðunar í rammaáætlun ásamt því að bæta flutningskerfi raforku.

Samanburður valkosta
Í fyrrnefndu minnisblaði til ráðherra er lagður fram stuttur samanburður Orkubúsins við Tröllárvirkjun (13,7MW), virkjunarkost sem einnig er á Glámuhálendinu og hefur verið settur í nýtingarflokk í tillögu að rammaáætlun 4. Í þeim samanburði kemur fram að margt bendi til þess að umhverfisáhrif vegna virkjunar í Vatnsdal séu minni en umhverfisáhrif Tröllárvirkjunar auk þess sem virkjun í Vatnsdal er hagkvæmari og staðsetning ákjósanlegri varðandi tengingar.

Til frekari skýringar þá yrði Vatnsdalsvirkjun tengd með 20 km flutningsleið í landi ríkisins og Orkubúsins, beint í tengivirki Landsnets í  Mjólká.  Tengingin væri því óháð núverandi Vesturlínu sem er 45 ára gömul.  Tröllárvirkjun yrði hins vegar tengd við Vesturlínu, bæði vegna smæðar sinnar og meiri fjarlægðar frá tengivirkinu Mjólká og afhendingaröryggið yrði því minna.  Þá er ósamið um land- og vatnsréttindi Tröllárvirkjunar sem eru í einkaeigu.  Vatnsréttindi í Vatnsdal eru hins vegar í eigu ríkisins.  Allir aðrir virkjunarkostir á Vestfjörðum yfir 20MW eru í mun meiri fjarlægð frá tengivirkinu í Mjólká, eða u.þ.b. 100km.   

Aðrir þættir
Umsagnaraðilar komu inn á ýmsa fleiri þætti s.s. hugsanleg áhrif á leirur við Vatnsfjörð og á fuglalíf auk áhrifa á vatnakerfi á svæðinu, breytingar á aurframburði o.fl. Í minnisblaðinu er bent á að greinargerðin byggist á fyrirliggjandi gögnum og er í henni lýst stöðu þekkingar á svæðinu í dag. Farið verði í rannsóknir og gerð ítarlegri grein fyrir framkvæmd og áhrifum ef ákvörðun verði tekin um að fara með framkvæmdina áfram í rammaáætlun og umhverfismat, komist virkjunin í nýtingarflokk.

Ákvörðun um samanburð ekki ákvörðun um virkjun
Orkubú Vestfjarða telur það vera grundvallaratriði að bera Vatnadalsvirkjun saman við aðra kosti sem eru í Rammaáætlun til þess að taka upplýsta ákvörðun sem hentar hagsmunum Vestfjarða best. Ákvörðun um að bera saman áform um Vatnsdalsvirkjun við aðrar virkjunarkosti felur ekki í sér ákvörðun um virkjun.

Sú náttúruvá sem að steðjar á Íslandi um þessar mundir hlýtur enn fremur að leiða til þess að hugað sé frekar að minni og dreifðari virkjunarkostum, utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða, eins og Vatnsdalsvirkjun. 

Elías Jónatansson orkubústjóri

Miklar holuviðgerðir á vegum landsins

Þegar styttist í vorið, vinnur starfsfólk Vegagerðarinnar og verktakar hörðum höndum að því að gera við holur sem hafa myndast í bundnu slitlagi víða um land. Umhleypingar í veðri, vatn, frost og þíða, hafa mikil áhrif á holumyndun á vegum. 

Ein af ástæðum þess að holur myndast er þegar vatn liggur á vegum. Ekki þarf nema litla sprungu í malbiki til að vatn komist þar undir og safnist fyrir. Þegar vatn frýs eykst rúmmál þess og þegar það þiðnar aftur, er malbikið uppspennt. Ef þungur bíll ekur þar yfir og brýtur það niður getur hola myndast mjög hratt.

Gert er við holur eins fljótt og kostur er, oft í mjög erfiðum aðstæðum. Vinnuflokkar vinna þá í mikilli nálægð við oft þunga umferð sem getur verið varasamt. Því er mikilvægt að vegfarendur sýni varkárni og dragi úr hraða þegar ekið er hjá.

Lengd vega með bundnu slitlagi á Íslandi er um 5.878 km. Árlega þarf að viðhalda um 700 km af slitlagi ef vel  á að vera. Hin uppsafnaða viðhaldsskuld eftirhrunsáranna gerir það að verkum að slitlög sem þarfnast viðhalds eru um 2.250 km. Niðurstöður burðarþolsmælinga benda til þess að 1.760 km af vegum með bundnu slitlagi hafi takmarkað burðarþol. Þá vegi þarf því að endurbyggja, þar dugar ekki að skipta um slitlag.

Ný reglugerð um umferðarmerki tekur gildi í dag

Um­ferðar­skilti sem tákna lág­marks­hraða, um­ferðartaf­ir, göngu­göt­ur og hjól­arein­ar eru meðal þeirra rúm­lega fjöru­tíu skilta sem verða tek­in í notk­un, auk sér­stakra um­ferðarljósa fyr­ir hjólandi veg­far­end­ur.

Um er að ræða nýja heildarreglugerð um umferðarmerki sem unnin var af starfshópi skipuðum í september 2019. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúi Vegagerðarinnar sem leiddi hópinn og fulltrúar ráðuneytisins, Samgöngustofu, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Við vinnuna hafði starfshópurinn meðal annars hliðsjón af ákvæðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um umferðarmerki og umferðarljós frá 1968 auk þess sem litið var til regluverks á öðrum Norðurlöndum.

Reglugerðin gildir um umferðarmerki, umferðarljós, hljóðmerki og önnur merki á eða við veg til stjórnunar á eða leiðbeiningar fyrir umferð, gerð þeirra, hvað þau tákna og hvenær má víkja frá þeim. Í viðaukum við reglugerð þessa er fjallað um hvernig veghaldari skal nota umferðarmerki, þar á meðal um kröfur til tæknilegrar útfærslu og uppsetningar merkja.

Útlit, litur, lögun og táknmyndir umferðarmerkja og umferðarljósa skulu vera eins og sýnt er í reglugerðinni. Hið sama gildir um hljóðmerki og önnur merki á eða við veg. Umferðarmerki halda þó gildi sínu þrátt fyrir smávægileg frávik í útliti frá því sem í reglugerðinni greinir.

Helstu breytingar frá gildandi reglugerð:

  1. Reglugerðinni er skipt upp í tvo hluta. Annars vegar meginhluta, þar sem fjallað er um útlit og þýðingu umferðarmerkja og hins vegar fjóra viðauka þar sem fjallað er um notkun veghaldara á umferðarmerkjum. Breytingin er til þess fallin að gera reglugerðina aðgengilegri almenningi, sér í lagi ökunemum, samræma notkun umferðarmerkja og veita Samgöngustofu aukna möguleika til að rækja eftirlitshlutverk sitt með veghöldurum.
  2. Gerðar er breytingar á flokkum umferðarmerkja. Mælt er fyrir um nýja flokka forgangsmerkja og sérreglumerkja og flokkar þjónustumerkja og vegvísa hafa verið sameinaðir í einn flokk.
  3. Tekið er upp nýtt númerakerfi fyrir umferðarmerki í anda númerakerfis norskra umferðarmerkja. Í ljósi mismunandi merkja og kaflaskiptingar er íslenska númerakerfið þó ekki eins og það norska.
  4. Lýsingu á nær öllum umferðarmerkjum er breytt til að samræma orðalag, skýra betur merkingu og fjarlægja tilmæli til veghaldara um notkun merkjanna úr almennum hluta.
  5. Tekin eru upp á fimmta tug nýrra umferðarmerkja, á annan tug nýrra yfirborðsmerkinga og tvenn ný umferðarljós. Breytingar eru þá gerðar á útliti á um fimmta tug merkja og á sjöunda tug merkja felld á brott, nær alfarið þjónustumerki.

Uppbygging meginhluta reglugerðarinnar er í aðalatriðum í samræmi við gildandi reglugerð en þó með þeim breytingum að flestar vísanir til þess hvar og hvernig merkin eru notuð eru fjarlægðar. Við gerð viðaukanna var sú leið valin að lýsa með fremur almennum hætti hvernig nota skuli merkin og leggja áherslu á að samræma notkun sem nú er mismunandi milli veghaldara, auk þess að reyna að girða fyrir algeng mistök við notkun merkjanna. Að meginstefnu var stuðst við handbók Vegagerðarinnar og erlendar fyrirmyndir, helst danskar og norskar, við gerð notkunarreglanna. Rétt er þó að taka fram að æskilegt er að gerðar verði ítarlegri handbækur, leiðbeiningar eða uppfærðir viðaukar á næstu árum, þegar reynsla hefur fengist af nýjum reglum.

Helsti ávinningur af setningu reglugerðarinnar hefur verið talinn aukinn skýrleiki ásamt upptöku nýrra umferðarmerkja, svo sem um merkingu hleðsluinnviða auk þess sem aukið tillit er tekið til virkra samgöngumáta og framþróunar í samgöngumálum.

Reglugerðin er sett á grundvelli umferðarlaga nr. 77/2019 og tekur gildi 1. mars 2024.

Íþróttaverðlaun Strandabyggðar

Íþróttaverðlaun Strandabyggðar árið 2023 voru afhent í gær 29. febrúar.

Titilinn íþróttamanneskja ársins 2023 hlýtur Árný Helga Birkisdóttir. 

Á liðnu ári lagði Árný Helga gríðarlega mikið á sig við æfingar og keppnir um land allt. Hún lagði mikið á sig til að sækja þekkingu utan svæðis og æfði samviskusamlega og sjálfstætt til að ná þeim markmiðum sem hún hafði sett sér. Hún fór á fjölmörg mót, bæði hér á landi og erlendis sem og æfingaferðir. Hún er ljúf, áhugasöm, ósérhlífin og gefst ekki upp þegar á móti blæs. Hún styður aðra iðkendur með hvetjandi og vinalegri framkomu hvar sem maður hittir á hana.

Árangur Árnýjar Helgu er aðdáunarverður þar sem hún vann Bikarkeppni SKÍ sem samanstendur af alls 11 keppnum yfir veturinn 2023. Einnig var hún dugleg að taka þátt í Íslandsgöngum sem eru haldnar víðs vegar um landið. Árný Helga komst auk þess í 2 kvenna úrtökuhóp gönguskíðaungmenna fyrir Ólympíuleikana í Suður Kóreu, sem var gríðarlegur heiður. Árný Helga er einstök fyrirmynd annarra barna.
Meðfylgjandi listi yfir árangur Árnýjar Helgu er ekki tæmandi en gefur glögga mynd af mögnuðum afrekum hennar.
Skíðaganga:
• Bikarmeistari (Samanlögð stig eftir 11 keppnir)
• 1.sæti í Strandagöngunni 20 km
• Andrésandarmeistari
• 1.sæti í Fossavatnsgöngunni 25 km
Utanvegahlaup:
• Súlur Vertical 18 km
• Fjögurraskógahlaupið 17,6 km, 5 sæti


Þá voru einnig veitt Hvatningarverðlaun Strandabyggðar 2023 en þau hlýtur Benedikt Gunnar Jónsson. Benedikt stóð sig gríðarlega vel í kúluvarpi árið 2023. Benedikt á lengsta kast 14 ára drengja með 5 kg kúlu og annað lengsta kast 14 ára drengja með 4 kg kúlu. Benedikt varð Íslandsmeistari í kúluvarpi í sínum aldursflokki og auk þess keppti hann upp fyrir sig á nokkrum stórum mótum þar sem hann hlaut bronsverðlaun í flokknum 16-17 ára. Þá er hann talinn mjög líklegur til að komast inn í Afreksíþróttamannadeild ÍSÍ.

Meðfylgjandi listi yfir árangur Benedikts er alls ekki tæmandi en gefur okkur yfirsýn yfir frábæran árangur hans á síðastliðnu ári:
• Stórmót ÍR janúar 2023 – 1.sæti með 11,32 m og persónulega bætingu
• Gaflarinn 4. nóvember 2023 – 1.sæti með kast upp á 14,74 m og persónulega bætingu
• Silfurleikar ÍR – 1.sæti og kastaði 15,45 m með persónulega bætingu
Í lok desember kastaði hann svo 15,49 m á jólamóti ÍR og bætti sig því um rúmlega 4 metra í kúluvarpi á einu ári. Þessar tölur sýna okkur hvað Benedikt hefur bætt sig mikið á einu ári og hlökkum við til að fylgjast með honum á þessu ári.

Hildigunnur H. H. Thorsteinsson er nýr forstjóri Veðurstofu Íslands

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur tekið ákvörðun um að skipa Hildigunni H. H. Thorsteinsson í embætti forstjóra Veðurstofu Íslands til næstu fimm ára. Hún verður skipuð í embættið frá og með 1. júní nk.

Hildigunnur er með BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og lauk MSc gráðu í Technology and Policy frá Massachusetts Institute of Technology árið 2008.

Hildigunnur hefur starfað sem Chief Technical Officer hjá Innargi A/S í Kaupmannahöfn, frá 2022. Hún starfaði sem verkfræðingur hjá Enex Hf. í Reykjavík á árunum 2005-2006 og sem verkefnastjóri hjá Iceland America Energy Inc. í Los Angeles 2008-2009. Hildigunnur var tæknistjóri í orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna í Washington árin 2009-2011 og síðar teymisstjóri á jarðvarmasviði í sama ráðuneyti 2011-2012. Árið 2013 tók Hildigunnur við stöðu framkvæmdastýru rannsókna- og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og sinnti því starfi til ársins 2022.

Embætti forstjóra Veðurstofu Íslands var auglýst í nóvember sl.  og sóttu átta um embættið.

Vestfirðir eru orkuauðugasti landshlutinn

Vandi steðjar að Vestfirðingum í orkumálum.  Orkuöflun byggist um of á gömlum bilanahættum flutningslínum og orkuverð er háð dyntum Landsvirkjunar.   Nýrrar stefnumótunar er þörf í orkumálum landshlutans.  Hana þarf að byggja á víðsýni og staðreyndum.  Taka þarf tillit til þess m.a. að Vestfirðingar sitja betur að orkuauðlindum en aðrir landshlutar, þegar til framtíðar er litið.    

Sjávarfallaorka er lausnin

Ekki er unnt að ræða stefnumótun í orkumálum Vestfirðinga án þess að horfa til sjávarfallaorku, enda eru þar öflugustu sjávarfallarastir landsins.  Samanlagt eru þau stórfljót orkumeiri en stærstu virkjanasvæði landsins í dag, s.s. Þjórsársvæðið.  Látraröst er þeirra stærst, en virkjanlegar rastir eru við flest vestfirsk annes.  Þegar hafðar eru í huga þær stórstígu tækniframfarir sem nú eru að verða í sjávarorkunýtingu víða um heim; og jafnvel í okkar næsta nágrenni, verður að telja það gáleysi að líta framhjá sjávarorku í orkuáætlunum Vestfjarða. 

Tæknin er nánast tilbúin.

Víða um heim er unnið að þróun tækni til nýtingar sjávarfallaorku.  Má segja að öll tæknivædd lönd; önnur en Ísland, leggi kapp á nýtingu þessara umhverfisvænu orkulausna, einkum með þróun hverfla.  Flestir eru þeir skrúfuhverflar í mismunandi útfærslum.  Þeir henta ágætlega í miklum straumhraða, þar sem orkuþéttni er mest, en þurfa helst meira en 2,5 m/sek til hagkvæmnar vinnslu.  Eitt afbrigði þeirra sem nú er langt komið í þróun getur þó gagnast við aðeins lægri hraða.  Það er hverfill hins sænska Minesto, sem nú er farinn að sjá Færeyingum fyrir sjávaarfallaorku.  Hverfillinn er í svifdreka sem tjóðraður er við botn og svífur í áttulaga ferli, líkt og flugdreki í vindi.  Nýjasta gerðin „Dragon-12“ hefur 1,2 MW uppsett afl.  Með þeim hverfli eru Færeyingar komnir í forystu um sjávarorkunýtingu.  Þar eru núna áætlanir um 200 MW orkuframleiðslu úr sjávarföllum í sjö sundum, sem er um 40% af núverandi raforkuþörf eyjanna.  Hverfla Minesto eru sagðir gagnast við straumhraða yfir 1,5 m/sek, enda margfalda þeir hraðann með svifi sínu.  Þeir eru því af svonefndri „annarri kynslóð“ sjávarfallahverfla, en slíkir hverflar tvöfalda það umfang sjávarorku sem hingað til hefur verið talið nýtanlegt.  Skrúfuhverflar eru þó ekki hagkvæmir í annnesjaröstum Vestfjarða; jafnvel ekki þessi, þar sem straumhraði er allajafna mun minni en þetta.  Þar þarf hverfil af „þriðju kynslóð“ sjávarhverfla; með getu til hagkvæmrar nýtingar hægari strauma en 1,5 m/sek.  Slíkir hverflar sjöfalda þá sjávarfallaorku sem hingað til hefur þótt nýtanleg.

Íslenskur hverfill

Svo vill til að hérlendis hefur verið þróuð lausn sem hentar íslenskum aðstæðum og getur nýtt slíkan straumhraða.  Uppfinningin er undirritaðs; byggð á reynslu af sjávarfallastraumum við Vestfirði.  Fyrirtæki mitt, Valorka ehf, hefur frá árinu 2009 unnið að þróun all sérstæðra hverfla sem henta í hægum orkurýrum straumi og á tiltölulega litlu dýpi.  Vegna hinnar dreifðu orku þurfa hverflarnir að vera stórir, enda getur þessi gerð orðið nokkur hundruð metra löng.  Hverflarnir verða algerlega á kafi, á miðdýpi sjávar og hafa engin óæskileg áhrif á lífríki eða umhverfi.  Sjávarföllin eru virkjuð í báðar áttir, þó snúningsstefna hverfilsins breytist ekki.  Hverlarnir eru auðveldir í lagningu og að fullu endurheimtanlegir á stuttum tíma.  Á síðasta ári var gerð hagkvæmniathugun þar sem sett var upp dæmi um 5 hverfla, hvern 400 metra langan, sem lagt væri á 40 metra dýpi í Látraröst, undan Látrabjargi.  Uppsett afl væri alls 2,6 MW.  Raforkan yrði leidd til Patreksfjarðar með sjó- og loftlínum og nýtt þar til kyndingar vatns fyrir fjarvarmaveitu.  Ýmsar stærðir eru óljósar, en samkvæmt bestu fáanlegu gögnum myndi virkjunin vera hagkvæm og skila 10% arðsemi yfir 25 ára tímabil, miðað við núverandi orkuverð.  Hitun vatns er vafalítið hagkvæmasta nýting sjávarfallaorku, en varmarýmd vatnsins jafnar út sveiflur vegna fallaskipta, svo ekki er þörf á jöfnunarorku.  Með nýtingu sjávarfalla til vatnshitunar munu Vestfirðir breytast úr köldu svæði í heitt svæði.  Ekki verður einungis gnægð orku til húshitunar, heldur einnig til atvinnustarfsemi, s.s. landeldis á fiski. 

Stjórnvöld dragbítur

Hverflar Valorku hafa verið prófaðir í smáum líkönum og staðið undir öllum væntingum.  Stórt líkan er nánast tilbúið fyrir sjóprófanir.  En íslensk stjórnvöld hafa staðið í vegi fyrir þessari þróun.  Engin stefna er fyrir hendi um rannsóknir á sjávarorku eða þróun sjávarorkutækni.  Meðan svo er fæst ekkert fé til þróunarinnar.  Þessi afstaða stjórnvalda á rætur í stjórnkerfi raforkumála, þar sem Landsvirkjun og aðrir orkurisar halda alfarið um stjórnvölin og ráðamenn dansa eftir þeirra vilja.  Nú kemst ekkert annað að hjá stjórnvöldum en áróður fyrir auknum vatnsaflsvirkjunum og vindmyllum; allt knúið áfram af fjársterkum hagsmunaaðilum. 

Nýtum „bæjarlækinn“

Ég skora á Vestfirðinga að halda ráðamönnum við efnið varðandi rannsóknir, tækniþróun og nýtingaráætlanir sjávarorku.  Rjúfa verður þá þöggun og kyrrstöðu sem nú viðgengst um þessa orkulind, ef við eigum ekki að dragast enn frekar aftur úr alþjóðlegri þróun og valda framtíðarkynslóðum skaða.  Engin nauðsyn er til þess að sökkva náttúruperlum undir virkjanalón eða spilla hinum tígulegu Vestfjarðafjöllum með vindmyllum og vegalagningu.  Nýtum orkuna í „bæjarlæknum“; orkumestu sjávarrastir landsins eru nærtækasta framtíðarlausnin á orkumálum Vestfjarða. 

Valdimar Össurarson

Sjávarfallavirkjun Minestro í Færeyjum er 1.2 MW.

Nýjustu fréttir