Föstudagur 13. september 2024
Síða 154

400.000 einstaklingar skráðir með lögheimili á Íslandi

Samkvæmt skráningu í þjóðskrá eru einstaklingar með skráð lögheimili á Íslandi orðnir 400 þúsund talsins. Þetta er þó lifandi tala og líkur á því að hún verði breytileg í kringum 400 þúsund í einhverja daga því á hverjum degi eru margar skráningar í þjóðskrá sem hafa áhrif á heildarfjölda lögheimilisskráninga.

Þjóðskrá heldur utan um skráningar einstaklinga hér á landi sem hafa áhrif á réttindi og skyldur þeirra, þar með talið skráningu lögheimilis. Óheimilt er að eiga lögheimili á fleiri en einum stað í einu og ber einstaklingum að tilkynna Þjóðskrá um flutning á lögheimili og er það ábyrgð einstaklinga að upplýsa um rétta búsetu. Einstaklingar 18 ára og eldri verða að tilkynna flutning sjálfir.

Þó er einstaklingum heimilt að dvelja erlendis í allt að 6 mánuði á 12 mánaða tímabili án þess að skrá lögheimili sitt úr landi. Einnig er heimilt að vera skráður með aðsetur erlendis vegna veikinda eða náms og halda lögheimili sínu á Íslandi.

Þjóðskrá getur breytt skráningu lögheimilis einstaklinga að eigin frumkvæði eða á grundvelli beiðnar frá þinglýstum eiganda húsnæðis eða öðrum sem hagsmuna eiga að gæta.

Samkvæmt skráningu í þjóðskrá eru íslenskir ríkisborgarar orðnir 374 þúsund talsins og þar af eru um 13% með skráð lögheimili erlendis. Íslenskir ríkisborgarar með skráða búsetu á Íslandi eru því um 324 þúsund talsins.

Góðar fréttir af norsk-íslenskri síld í Barentshafi

Útlit er fyrir að þrír sterkir árgangar af norsk-íslenska síldarstofninum séu að alast upp í Barentshafi um þessar mundir.

Þetta eru niðurstöður árlegs vistkerfisleiðangurs í Barentshafi sem er samvinnuverkefni Norðmanna og Rússa, og greint er frá m.a. á vef norsku Hafrannsóknastofnunarinnar. Leiðangurinn var farinn á tímabilinu 10. ágúst til 7. október 2023 með þátttöku fjögra rannsóknaskipa.

Niðurstöður síldarmælinganna eru sérstaklega áhugaverðar og kærkomnar því síldarstofninn hefur verið á niðurleið undanfarin ár vegna slakrar nýliðunar. Veiðar umfram ráðgjöf hafa hraðað þeirri þróun.

Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins um afla á norsk-íslenskri síld fyrir árið 2024 var upp á 390 010 tonn og aflamark íslenskra skipa er 61 395 tonn af samkvæmt vef Fiskistofu.

Nýr forstjóri tekinn til starfa

Þann 1. mars tók Lúðvík Þorgeirsson við starfi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Heilbrigðisráðherra skipaði hann í embættið til fimm ára, í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu.

Lúðvík er viðskiptafræðingur með M.Sc gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík og leggur stund á nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands með áherslu á mannauðsstjórnun.

Síðastliðin fjögur ár hefur Lúðvík gegnt stöðu rekstrarstjóra hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Áður starfaði hann m.a. hjá Fjármálaeftirlitinu þar sem hann stýrði greiningasviði á einu af þremur kjarnasviðum embættisins. Hann var um tíma framkvæmdastjóri vátrygginga og staðgengill forstjóra hjá European Risk Insurance Company í Englandi. Um árabil var hann forstöðumaður vátrygginga og áhættumats hjá Actavis Group hf. og þar áður forstöðumaður fimmtán útbúa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. um allt land.

Samfylkingin með fundi á Vestfjörðum

Formaður Samfylkingarinnar Kristrún Frostadóttir og Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ, sem er formaður í stýrihópi flokksins um atvinnu og samgöngur verða á ferðinni um Vestfirði í vikunni. Halda þær eina fjóra opna fundi um atvinnu og samgöngur.

Yfirskriftin er Hvernig vilt þú sjá atvinnu og samgöngur þróast á Vestfjörðum og á Íslandi öllu? 

Í tilkynningu segir að Samfylkingin standi nú fyrir samtali um atvinnu og samgöngur um land allt. „Málefnastarf flokksins er með nýju sniði – heilbrigðismálin voru í forgrunni á síðasta ári en nú tökum við fyrir atvinnu og samgöngur fram á vor 2024. Vinnan hefst með heimsóknum í fyrirtæki og fjölda opinna funda með fólkinu í landinu. Á hverjum fundi verða fulltrúar úr stýrihópi Samfylkingar um atvinnu og samgöngur auk forystufólks flokksins, bæði á Alþingi og í sveitarstjórnum.

Kristrún Frostadóttir leggur þunga áherslu á málefnastarfið og bindur miklar vonir við vinnuna: „Útkoman á að vera verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn. Forgangsröðun og skýr pólitík. Verkefnalisti frá fyrstu 100 dögunum og upp í fyrstu tvö kjörtímabilin í ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar,“ sagði Kristrún í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi áður en haldið var af stað.“

Fyrsti fundurinn verði á miðvikudaginn 12 á Bíldudal á Vegamótum. Sama dag verða tveir aðrir fundir. Á Þingeyri  kl. 17:15 í Blábankanum og kl. 20:00 í Edinborgarhúsinu.

Á fimmtudaginn 7. mars verður svo fjórði fundurinn kl. 12:00 í Einarshúsinu í Bolungavík.

Minning: Karl Sigurbjörnsson

Sr. Karl Sigurbjörnsson (1947-2024). Mynd: Kirkjublaðið.is

Í ársbyrjun 1941 var síra Sigurbjörn Einarsson, faðir Karls, kjörinn prestur í Hallgrímsprestakalli í Reykjavík.  Hann og eiginkona hans, frú Magnea Þorkelsdóttir, settust að, ásamt fjórum börnum sínum, í húsinu nr. 17 við Freyjugötu, því er næst stendur frá róluvellinum í vestur.  Foreldrar síra Sigurbjarnar voru hjónin Einar Sigurfinnsson og Gíslrún Sigurbergsdóttir á Efri-Steinsmýri í Meðallandi.  Frú Magnea var dóttir hjónanna Rannveigar Magnúsdóttur og Þorkels Magnússonar í Reykjavík.  Í móðurætt var hún afkomandi þess góðfræga síra Jóns eldklerks Steingrímssonar á Prestsbakka á Síðu.

               Vigdís Ketilsdóttir, húsfreyja á Grettisgötu 26, unni vel prestakallinu og var eindreginn stuðningsmaður síra Sigurbjarnar.  Vigdís var dóttir Ketils hreppstjóra og dannebrogsmanns í Kotvogi í Höfnum Ketilssonar, þess er reisti Hvalsneskirkju fyrir eigin reikning. Voru vináttubönd milli heimila Vigdísar og prestshjónanna ungu.  Ásbjörn Ólafsson stórkaupmaður, sonur Vigdísar, sá er flutti inn Bernína-saumavélarnar og Prinspóló-kexið, fór á kjörstað við prestskosningarnar og heyrðist hljóða innan úr kjörklefanum:  “Hvað heitir hann aftur, þessi, sem hún mamma sagði að ég ætti að kjósa!”

               Eftir að síra Sigurbjörn varð prófessor við Guðfræðideild Háskólans fór hann fótgangandi vestur eftir.  Persóna snillingsins hafði aðdráttarafl og vakti athygli á götu.  Einhver sagði, að í hvert sinn sem prófessor Sigurbjörn gengi yfir Tjarnarbrúna hugleiddi að minnsta kosti einn skólapiltur í Reykjavík að læra til prests.

 Uppeldi barna lét frú Magneu einstaklega vel.  Hún var kvenna stilltust og þó næsta kímin bak við.  Þorkell tónskáld Sigurbjörnsson hafði snemma á sér snið listamannsins.   Kvað frú Magnea  grannana taka svo til orða um þá feðga:  “Kyndugur er karlinn og ekki er strákurinn betri.”

               Valmennið Karl Sigurbjörnsson var alla ævi trúr því heiti, sem hann vann á vígsludegi, “að prédika Guðs orð hreint og ómengað, eins og það er að finna í hinum spámannlegu og postullegu ritum og samkvæmt vitnisburði vorrar evangelísk-lúthersku kirkju í játningum hennar.”  Honum sveið, að prestar skyldu einatt prédika Krist án þess að holdtekjan, líf hans og dauði, friðþægingin á krossinum og upprisan væru talin hafa sérstaka þýðingu.  Þar væru tvær meginstefnur.  Dóketismi með höfuðáherslu á kenningu Jesú þar sem saman færi áhugaleysi á jarðnesku lífi Krists og  tröllatrú á andlegum möguleikum mannsins. Og svo ebjónítismi, þar sem athyglin beindist einkum að persónu lausnarans.  Hér væri prédikað, að guðsvitund Jesú hefði verið svo sterk, að hann frelsaði mennina með því að hafa á þá sálræn áhrif.

               Í stað þessa vildi Karl biskup boða friðþægingarkenninguna; þá latnesku, þar sem það er Guð og lögmál hans, sem er andlag verks Krists til hjálpræðis; þá subjektívu, þar sem vandinn er skortur mannsins á trú og ást á Guði,  sem síðan er vakið með því að virða fyrir sér gefandi kærleika Jesú; og þá klassísku, þar sem afrek Jesú er stríð móti djöflinum og sigur yfir valdi hans.

               Guð blessi minningu drengsins góða, Karls Sigurbjörnssonar.  Guð huggi, verndi og styrki ástvini hans alla.

                                                                          Gunnar Björnsson,

                                                                          pastor emeritus.

Gamla greinin: 2003 var aumlegt um að litast á Vestfjörðum

Guðbergur Rúnarsson.

Fyrir áratug birti Guðbergur Rúnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri landssambands fiskeldisstöðva grein í blaði samtakanna , 3.tölublaði Sjávarafls 2014 þar sem hannl lýsti ferð sinni um Vestfirði árið 2003 og svo aftur tíu árum síðar, sumarð 2013. Breytingin var mikil þar sem uppbygging í fiskeldi átti stærstan þátt.

Í fyrri ferðinni var aðkoman svona: „Heldur aumlegt var um að litast. Húsin á Patró máttu muna betri tíð. Á leiðinni út í Selárdal í Arnarfirði liggur leiðin í gegnum Bíldudal. Það var drungi yfir þorpinu og við eitt húsið var flutningabíll og fólk við að bera út búslóð í bílinn.“ og „Enga sjoppu fann ég á staðnum og bensínstöðin var lokuð.“ Í seinni ferðinni mátti sjá að mikið hafði breyst til batnaðar.

Komin eru tíu ár síðan þessi grein birtist og enn hefur mikið breyst til batnaðar á Vestfjörðum og þar leikur fiskeldið enn lykilþátt í framförunum. Breytingar hafa orðið á fyrirtækjunum, Dýrfiskur er nú Arctic Fish og Fjarðalax rann inn í Arnarlax.

Hér kemur greinin:

Náttúrlegar aðstæður til fiskeldis á Íslandi eru taldar nokkuð góðar þó hingað til hafi þeir möguleikar lítið verið nýttir á undanförnum áratugum. Við ströndina má allstaðar finna ómengaðan sjó sem er heppilegur til fiskeldis. Einnig má víða finna ferst vatn í nægilegu magni til að hægt sé að stunda fiskeldi bæði við ströndina og inn til landsins. Víða er að finna heit vatn sem nýtist til fiskeldis. Eftir áratuga stöðnun í fiskeldi hefur orðið hugarfarsbreyting. Horft er nú til fiskeldis sem atvinnugreinar sem eykur verðmæti og býr til störf í byggðarlögum landsins. Nú er eldið að aukast, fjárfestingar eru í góðum gír og umfjöllun um fiskeldi hefur snarbreyst til hins betra. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum árum að Norska stórfyrirtækið Stolt-Nielsen, myndi fjárfesta í eldi á Senigal flúru og nýta til þess vatn frá Reykjanesvirkjun eða að pólskur athafnamaður fjárfesti í eldi á regnbogafiski með framlagi upp á 25 milljónir evra sem samsvara 4 milljörðum íslenskra króna svo eitthvað sé nefnt.
Árið 2003 fór ég fyrst vestur á Vestfirði til að skoða þorskeldi á Tálknafirði. Heldur aumlegt var um að litast. Húsin á Patró máttu muna betri tíð. Á leiðinni út í Selárdal í Arnarfirði liggur leiðin í gegnum Bíldudal. Það var drungi yfir þorpinu og við eitt húsið var flutningabíll og fólk við að bera út búslóð í bílinn. Í bakaleiðinni, mörgum klukkustundum seinna var flutningabíllinn enn í þorpinu og enn var verið að bera búslóð út í bílinn. Enga sjoppu fann ég á staðnum og bensínstöðin var lokuð. Það fyrsta sem skaut upp í kollinum á mér „Hvað verður um þetta þorp – Er þetta búið?“ Yfirbragð þorpsins í Tálknafirði var mun skárra. Bleikju- og silungseldi brostu við mér við komuna í þorpið, vinnsla í frystihúsinu, þorskeldiskvíar á firðinum, dyttað var að húsum og ungmenni við hreinsunarstörf í þorpinu.
Sumarið 2013 var ég aftur fyrir vestan. Þá hafði staðan heldur betur breyst. Við komuna á Bíldudal var verið að skipa út hjá Kalkþörungaverksmiðjunni. Hjá Arnarlaxi og hitti ég framkvæmdastjórann og hann sagði mér frá áformunum um að setja út laxaseiði vorið 2014 og uppsetningu á bitaverksmiðju fyrir laxaafurðir í neytendapakkningar. Nú eru rúmlega 500.000 smálaxar í sjókvíum félagsins í Arnarfirði. Norsk fiskbitaverksmiðjan er komin í hús á Bíldudal og til stendur að byggja 3000 fermetra húsnæði yfir hana þegar fram líða stundir. Slátrun hefst síðsumars 2015 og reiknað er með að allt að 150 störf verði til á Bíldudal þegar laxeldið er komið í fullan gang. Þegar hafa nokkrar fjölskyldur flutt vestur á Bíldudal og nú eru í plássinu t.d. þrennir tvíburar sem mér finnst nokkuð merkilegt.
Umsvifin í fiskeldi aukast jafnt og þétt á Vestfjörðum. Á Tálknafirði eru starfstöðvar helstu fiskeldisfyrirtækja á Vestfjörðum. Dýrfiskur sem er að byggja 12.000 fermetra seiðastöð í þremur húsum, Arnarlax með umfangsmikið seiðaeldi á staðnum, Fjarðalax er með laxeldi í firðinum og þjónustustöð á staðnum, Tungusilungur er með eldi og vinnslu á bleikju á Tálknafirði og smærri aðilar eru með þorsk- og kræklingaeldi.
Fjarðalax er komið lengst í sjókvíaeldi. Þeir hófu uppbyggingu sjókvíaeldis árið 2010 og hafa hafið eldi á fjórðu kynslóð laxa í sjókvíum. Fjarðalax framleiða nú um 3.000 tonn á ári í þremur fjörðum; Patreksfirði, Tálknafirði og Fossfirði í Arnarfirði og eru með vinnslu á Patreksfirði. Nú þegar eru rúmlega 100 bein störf við fiskeldi á Vestfjörðum. Mesta fjölgunin er frá 2010 en segja má að þá hafi orðið viðsnúningur í atvinnulífinu á svæðinu. Öll stærri fyrirtækin fyrir vestan stefna á 10.000 tonna eldi. Þessi fyrirtæki eru: Fjarðalax, Arnarlax, Dýrfiskur og Hraðfrystihúsið Gunnvör. Ef þessi áform ganga eftir, sem ég hef fulla trú á, verður framleiðslan fyrir vestan á eldisfiski orðin 30 til 40 þúsund tonn eftir fáein ár. Á Austfjörðum er eldi á regnbogasilungi í Berufirði hjá Fiskeldi Austfjarða. Slátrun er hafin á Djúpavogi og framleiðslan mun aukast jafnt og þétt á næstu árum. Tvö helstu fyrirtækin í fiskeldi eru; Fiskeldi Austfjarða með aðstöðu í Berufirði og Fáskrúðsfirði og Laxar með leyfi í Reyðarfirði en þeir hyggjast setja út seiði í sjókvíar vorið 2015. Miklar væntingar eru gerðar til fiskeldis fyrir austan og vona menn að þróunin verði svipuð og fyrir vestan. Gefin hafa verið út rekstrarleyfi fyrir 43 þúsund tonnum í fiskeldi og fyrir liggja umsóknir um önnur 40 þúsund tonn hjá opinberum aðilum. Reikna má með afgreiðslu hluta þeirra leyfa síðsumar eða haustið 2015.

VG: vill þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum

Í stjórnmálaályktun flokksráðsfundar Vinstri grænna sem haldinn var um liðna helgi segir að sýnt hafi verið fram á að með bættri orkunýtingu og með því að styrkja flutningskerfi raforku um landið megi á næstu árum koma í veg fyrir orkuskömmtun og koma til móts við aukna orkuþörf sem ella kallaði á nýjar virkjanir. Þá kallar fundurinn eftir því að stofnaður verði þjóðgarður á miðhálendi Íslands og sunnanverðum Vestfjörðum til verndar víðernum og lífbreytileika.

Orkubú Vestfjarða hefur farið fram á það við umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að hann aflétti friðunarskilmálum um friðlandið í Vatnsfirði í Vesturbyggð, þannig að unnt verði að taka Vatnsdalsvirkjun til umfjöllunar í rammaáætlun og bera saman við aðra kosti.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri segir í aðsendri grein á bb.is sem birtist á laugardaginn að Vatnsdalsvirkjun yrði tengd með 20 km flutningsleið í landi ríkisins og Orkubúsins, beint í tengivirki Landsnets í  Mjólká og að sú náttúruvá sem að steðjar á Íslandi um þessar mundir hljóti að leiða til þess að hugað verði frekar að minni og dreifðari virkjunarkostum, utan jarðskjálfta- og eldgosasvæða, eins og Vatnsdalsvirkjun. 

Frístundasvæði verði í Dagverðardal

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að auglýsar verði breytingar á aðalskipulagi sem heimili breytta landnotun í Dagverðardal á reit I9 þannig að heimilað verði að reisa frístundahús í stað íbúðarhúsa. Jafnframt verði auglýst tillaga að nýju deilskipulagi fyrir sama svæði með allt að 45 frístundahúsum auk þjónustubygginga.

Ísafjarðarbær og Fjallaból ehf. undirrituðu þann 30.08.2022 samkomulag um lóðaúthlutun í Dagverðardal í Skutulsfirði á reit sem kallast Í9 í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar og er reitnum úthlutað í einu lagi. Í samkomulaginu er kveðið á um að allt að 45 frístundahús verði byggð á reitnum og eru þau bæði hugsuð til sölu og útleigu til ferðamanna. Verkinu verður áfangaskipt og skv. framkvæmdaáætlun verða 15 hús reist í fyrsta áfanga og vonir standa til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári.

Markmið breytingarinnar er að auka framboð á gistimöguleikum á svæðinu segir í greinargerð með tillögunni að breytingu á aðalskipulaginu.

Botnsvirkjun í Dýrafirði: halda sínu striki

Gunnar Þórisson, stjórnarformaður Botnsorku ehf segir að úrskurður Skipulagsstofnunar um að virkjunaráformin í landi Botns í Dýrafirði þurfi að fara í umhverfismat breyti ekki áformum um að ráðast í virkjunina en muni seinka framkvæmdum um a.m.k. eitt ár og kosta umtalsvert fé.

Fyrirtækið Botnsorka ehf hyggst ráðast í gerð rennslisvirkjunar í Botnsá í Dýrafirði með uppsett afl allt að 5000 kW eða 5 MW. Fyrirhugað er að virkja rennsli Botnsár úr um það bil 440 m hæð yfir sjávarmáli og verður vatnið leitt í stöðvarhús með niðurgrafinni 3,5 km langrar trefjapípu. Mannvirki og pípustæði verða sunnan Botnsár í landi Dranga.

Náttúrustofa Vestfjarða vann ítarlega skýrslu um áhrif framkvæmdanna á fugla, gróður og ferksvatn. Skipulagsstofnun sendi gögnin til umsagnir og bárust umsagnir frá 10 stofnunum. Fimm þeirra töldu ekki þörf á frekari rannsóknum, þrjár svöruðu ekki því hvort áformunum væri lýst með fullnægjandi hætti og aðeins tvær stofnanir töldu þörf á að framkvæmdin færi í umhverfismat.

Að fengnum umsögnunum ákvað Skipulagsstofnun 26. febrúar sl. að framkvæmdin kynni að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því framkvæmdin háð mati á umhverfisáhrifum.

Kæra má ákvörðunina til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærufrestur er til 28. mars 2024.

enginn heimaaðili vildi umhverfismat

Af tíu stofnunum sem veittu umsögn voru þrjár á Vestfjörðum. Það voru Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Ísafjarðarbær og Orkubú Vestfjarða og voru allar sammála um að framkvæmdinni væri nægjanlega lýst með framlögðum gögnum og þyrfti því ekki í umhverfismat.

Vegagerðin og Hafrannsannsóknarstofnun voru sama sinnis.

Veðurstofan og Orkustofnun tóku ekki afstöðu til þess hvort umhverfismat væri nauðsynlegt og Náttúrufræðistofnun segir í sinni umsögn að fram hafi komið fram góðar upplýsingar um umhverfisáhrif Botnsvirkjunar og því óvíst að umhverfismat myndi bæta miklu við varðandi t.d. mat á áhrif á lífríki. Hins vegar vantaði betra mat á áhrif á óbyggð víðerni og mögulega jarðminjar, einkum steingervinga. Þá ætti að skoða betur sammögnunaráhrif við aðra virkjunarkosti.

Það voru því aðeins Fiskistofa og Umhverfisstofnun sem svöruðu því skýrt að þörf væri á umhverfismati.

Óbyggð víðerni

Umhverfisstofnun vísar til hugtaksins óbyggð víðerni og segir í sinni umsögn: „Fyrirhugað virkjunarsvæði er staðsett innan Glámuhálendisins. Glámuhálendið er skilgreint sem óbyggt víðerni og Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt 3. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, þar sem fjallað er um verndarmarkmið fyrir jarðminjar, vatnasvæði, landslag og víðerni, segir að til að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags skal stefnt að því að standa vörð um óbyggð víðerni landsins.“ Þá bendir stofnunin á að fleiri virkjanir eru innan sama víðernissvæðis s.s Mjólkárvirkjun. „Mikilvægt er að samlegðaráhrif, fyrirhugaðra og núverandi virkjanna á sama óbyggða víðernissvæði, Glámuhálendinu séu skoðuð ítarlega, en ekki er gerð grein fyrir þeim í umhverfismatsskýrslunni.“

Ennfremur bendir Umhverfisstofnun á að fossarnir á framkvæmdasvæðinu njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd og að Dýrafjörður og leirurnar í botni fjarðarins samtals 11.9 km2 svæði hafi verið tilnefnd á B hluta náttúruminjaskrár.

hugsanlega laxveiði

Fiskistofa gerir ágreining við landeigendur en í skýrslunni, sem þeir leggja fram, segir að ekki séu veiðihagsmunir í Botnsá. Í umsögn Fiskistofu, sem Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri undirritar segir hins vegar að það kunni að vera vannýttir möguleikar þar sem fundist hafi laxaseiði á vatnasvæðinu auk bleikju. Til þess að kanna þá þurfi mat á umhverfisáhrifum að fara fram. Þá er bent á í umsögninni að framkvæmdir í veiðivatni eða á því allt að 100 metra frá bakka séu háðar leyfi frá Fiskistofu.

Skipulagsstofnun: skerða óbyggð víðerni

Að mati Skipulagsstofnunar munu fyrirhugaðar framkvæmdir hafa í för með sér skerðingu á óbyggðu víðerni sem nemur framkvæmdasvæði virkjunarinnar og tekur þar með undir sjónarmið Umhverfisstofnunar og segir í úrskurði sínum að samkvæmt náttúruverndarlögum skuli standa vörð um óbyggð víðerni. „Um Glámuhálendið liggja þjóðleiðir sem nýttar hafa verið sem gönguleiðir. Ljóst er að mannvirki virkjunarinnar, s.s. stöðvarhús, vegur, aðrennslispípur, inntakslón og aðveituskurðir muni breyta
ásýnd þessa lítt raskaða svæðis.“ Þá telur Skipulagsstofnun að umfang framkvæmdarinnar og viðkvæma staðsetningu kalla á nánari greiningu og mat með tilliti til breytinga á ásýnd og landslagi. Vísað er sérstaklega til fossa. Þá sé framkvæmdasvæðið jafnframt innan hverfisverndarsvæðis F43 Drangar í aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar.

Stolt fjölmenningarsamfélag?

Sjávarþorp á Vestfjörðum hafa lengi verið rík af íbúum af erlendum uppruna og lengst af var hlutfall þeirra verið hæst á Vestfjörðum, þó það hafi tekið nokkrum breytingum síðustu ár. Heimafólk hefur löngum lagt sig fram um að taka vel á móti nýjum íbúum og hafa mörg spennandi verkefni sprottið úr þeim auðuga jarðvegi. Má nefna fjölmenningarhátíðir sem haldnar hafa verið, stofnun Fjölmenningarseturs, Tungumálatöfra og nú síðast Gefum íslensku séns. Margir einstaklingar hafa sett sinn svip á samfélögin og má þar nefna Ruth Tryggvason sem fluttist til Ísafjarðar frá Danmörku var gerð að heiðursborgara Ísafjarðarbæjar. Okkar auðuga tónlistar- og menningarlíf getum við líka þakkað fjölda kennara af erlendum uppruna sem kenna í tónlistarskólum á Vestfjörðum. Þá er haldin Alþjóðleg Píanóhátíð Vestfjarða á sunnanverðum Vestfjörðum ár hvert að frumkvæði Andrew Yang.  

Árið 1998 voru erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi 2% af heildarfjölda íbúa. Á Íslandi búa nú samkvæmt Þjóðskrá 400.435 íbúar þar af eru 324.515 íslenskir ríkisborgarar og 75.920 erlendir ríkisborgarar sem er um 19% af heildaríbúafjölda þjóðarinnar. Í Reykjavíkurborg eru erlendir ríkisborgarar 22,7% af heildarfjölda íbúa. Á Vestfjörðum er hlutfall erlendra ríkisborgara 23% af heildarfjölda íbúa, fæstir eru í Árneshreppi eða 4% flestir í Vesturbyggð eða 32%.  Í sveitarfélögum landsins er hlutfall íbúa af erlendum uppruna alveg frá 4% upp í 63% í Mýrdalshreppi.

Hlutfall íslenskra ríkisborgara hefur því sannarlega lækkað jafnt og þétt þar sem erlendum íbúum hefur fjölgað– ekki bara þar sem sjókvíaeldi á laxi er stundað heldur víða um land. Sveitarfélögin Hornafjörður (31%), Mýrdalshreppur (63%), Skaftárhreppur (44%), Ásahreppur (30%), Bláskógabyggð (36%), Borgarbyggð (25%), Grundafjarðarbær (28%), Snæfellsbær (26%), Reykjanesbær (33%), Vesturbyggð (32%) og Reykjavíkurborg (23%) eiga það öll sameiginlegt að þar hefur íslenskum ríkisborgurum fækkað hlutfallslega sem er það sem gerist þegar erlendum ríkisborgurum fjölgar. Tölur í sviga vísa til hlutfalls íbúa af erlendum uppruna.

Við búum í landi sem reiðir sig í síauknum mæli á innflytjendur til að vinna í höfuðatvinnugreinunum, ferðaþjónustu, sjávarútvegi, iðnaði og nú fiskeldi. Hjá hinu opinbera starfa tæplega 9.000 innflytjendur sem meðal annars standa undir þjónustu við aldraða og sinna öðrum störfum á heilbrigðisstofnunum landsins.

Upp á síðkastið hafa birst greinar og ótrúlega sorglegur málflutningur þar sem lagt er út af því að hátt hlutfall íbúa af erlendum uppruna í einstökum byggðakjörnum sé slæmt og ályktað að Íslendingum fækki hlutfallslega vegna þess að þar er starfrækt fiskeldi eða ferðaþjónusta.  Hvaða skilaboð erum við með slíkum málflutningi að senda því fólki sem hér býr og starfar?

Við búum í síbreytilegum heimi og erum þjóð auðug af auðlindum. Við hins vegar erum ekki nægilega mörg til að standa undir þeim kröfur sem við Íslendingar gerum til framúrskarandi lífskjara. Við horfum á framúrskarandi árangur innflytjenda og barna þeirra sem ná þrátt fyrir andstreymi að skara framúr og ná frábærum árangri. Á samfélagsmiðlum er einmitt verið að benda á frábær dæmi svo sem Laufeyju Lín, Emilíönu Torrini og Sveindísi Jane.

Samfélagið okkar breytist í takt við þennan raunveruleika og verkefnin okkar eru að ná að stilla saman strengi gamla og nýja Íslands. Í minnstu bæjum og þorpum landsins þurfum við að ná að opna kvenfélögin og björgunarsveitirnar þannig að erlendu íbúarnir okkar finni sig velkomin og skilji mikilvægi þessara máttarstólpa byggðanna. Kórastarf, áhugaleikfélög, Lions og Oddfellow eru mikilvæg tæki inngildingar fullorðins fólks rétt eins og íþrótta- og tómstundastarf er það fyrir börn og ungmenni. Svo eru það þorrablótin, bæjarhátíðirnar, pöbbinn og allt hitt. Gefum við öllum séns?

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,

framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Nýjustu fréttir