Föstudagur 13. september 2024
Síða 153

Flutningi kinda yfir varnarlínur vísað til lögreglu

Fram kemur í tilkynningu frá Matvælastofnun að stofnunin hafi vísað til lögreglu rannsókn á flutningi kinda yfir varnarlínur.

„Matvælastofnun fékk ábendingu sl. haust um að tilteknir bændur á Vesturlandi hefðu flutt kindur yfir sauðfjárveikivarnarlínu sem er bannað samkvæmt dýrasjúkdómalögum.

Eftir rannsókn málsins var ákveðið að vísa því til lögreglu,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Lífeyrissjóður gerir 110 m.kr. kröfu á Ísafjarðarbæ

Lífeyrissjóðurinn Brú hefur lagt fram 110 m.kr. kröfu á hendur Ísafjarðarbær vegna A deildar lífeyrissjóðsins. Skýringin er sú að tryggingaleg staða deildarinnar er neikvæð, það er að lífeyrisskuldbundingar sjóðsins gagnvart sjóðsfélögum eru hærri en eignirnar sem standa undir skuldbindingunum.

Vegna þessa tók stjórn Brúar þá ákvörðun í október 2023 að innheimta 10% af greiddum lífeyri hjá launagreiðendum (mest sveitarfélögum) vegna hóps þeirra sem voru 60+ þann 31. maí 2017 og þeim sem voru á lífeyri á þeim degi segir í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs sem lagt var fyrir bæjarráð í gær.

Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar og eftir slaka ávöxtun sjóðsins árið 2022 lá fyrir að halli á tryggingafræðilegri stöðu Brúar lífeyrissjóðs væri umfram 10% lögbundin viðmið. Af þessum sökum hefur sjóðurinn hafið innheimtu framlaga frá sveitarfélögunum vegna þess hóps lífeyrisþega eða launamanna sem Alþingi ákvað með lögum 2016 að áunnin réttindi væru undanþegin því að taka breytingum í samræmi við stöðu sjóðsins.

Í þeim lögum var ákveðið að áunnin réttindi þeirra sem þá höfðu náð sextugsaldri við gildistöku laganna eða höfðu hafði töku lífeyris skyldu tryggð og myndi hvorki hækka né lækka upp frá því.

Um er að ræða stöðu miðað við 30.9.2023, og er von á uppfærslu miðað við 31.12.2023 fljótlega.

Gallerí úthverfa: Ekki gleyma að blómstra

Björg Bábó Sveinbjörnsdóttir: sýning Ísafirði 8.3 – 28.3 2024

Föstudaginn 8. mars kl. 16 verður opnuð sýning á verkum Bjargar Bábó Sveinbjörnsdóttur í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið Ekki gleyma að blómstra og stendur til fimmtudagsins 28. mars. Boðið verður til sérstaks viðburðar við sýningarlok á Páskaviku. Listakonan verður viðstödd opnun sýningarinnar.  

„Af moldu ertu komin og að moldu skaltu aftur verða, en í millitíðinni ertu pottaplanta og það er alltaf eitthvað að. Sýningin er etnógrafía á mannflórunni hið ytra og hið innra sem leitast við að þroskast, blómstra og hámarka sig í samfélagi þar sem bestu útgáfur sjálfsins eru ákjósanlegar og alltaf rétt handan við hornið. Ekki gleyma að slökkva á hellunni og ekki gleyma að blómstra. Fyrir alla muni, reyndu að muna eftir því að vera.“

Björg Bábó Sveinbjörnsdóttir starfar jöfnum höndum við listsköpun og kennslu. Hún er menntuð í hagnýtri menningarmiðlun, félags- og kynjafræði og er ein þeirra sem reka Hversdagssafnið á Ísafirði.

Sýningin er styrkt af Ísafjarðarbæ.

Þungatakmarkanir á vegum á Vestfjörðum

Innstrandarvegur er í Steingrímsfirði innan Hólmavíkur. mynd: Jón Halldórsson.

Vegagerðin hefur tilkynnt um takmörkun á ásþunga við 10 tonn frá og með kl 10 í dag, 5. mars 2024. Þetta er gert vegna hættu á slitlagsskemmdum.

Takmörkunin gildir á eftirtöldum vegum:

60 Vestfjarðavegi frá Dalsmynni til Ísafjarðar

62 Barðastrandarvegi

63 Bíldudalsvegi

622 Þingeyrarvegi

64 Flateyrarvegi

65 Súgandafjarðarvegi

61 Djúpvegi frá Vestfjarðavegi 60 í Króksfirði til Súðavíkur

68 Innstrandavegi

59 Laxárdalsheiði

643 Strandavegi

645 Drangsnesvegi

Umhverfisstofnun: fékk umsókn Arnarlax árið 2019 -tillaga að starfsleyfi liggur nú fyrir

Umhverfisstofnun tilkynnti í síðustu viku, þann 26.2. 2024, að stofnunin hefði móttekið umsókn um starfsleyfi frá Arnarlaxi ehf. vegna sjókvíaeldis í Ísafjarðardjúpi. Tillaga að starfsleyfi yrði auglýst opinberlega þegar hún liggur fyrir. 

Ekki kom fram hvenær umsóknin barst. Bæjarins besta innti stofnunina eftir því hvenær umsóknin hefði borist. Í svörum sem borist hafa frá stofnuninni kemur fram að umsóknin hafi komið til Umhverfisstofnunar í maí 2019 fyrir þessari framkvæmd.

Gefnar eru þær skýringar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu málsins að á þeim tíma hafi Arnarlax ekki verið búið að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, en það álit hafi legið fyrir í febrúar 2021.

Þá hafi nýjar ákvarðanir stjórnvalda tafið framvindu málsins. „Frá þeim tíma hefur ýmislegt komið upp á varðandi áhættumat erfðablöndunar, burðarþolsmat, áhættumat siglingaöryggis og mat á áhrifum á vatnshlot. Utanaðkomandi aðstæður sem hafa valdið því að ekki hefur verið hægt auglýsa tillögu fyrr en nú, fyrir utan það að fullnægjandi gögn vegna umsóknar komu ekki inn fyrr en í lok árs 2023.“ segir í svari Umhverfisstofnunar.

Tillaga Umhverfisstofnunar að nýju starfsleyfi Arnarlax ehf. í Ísafjarðardjúpi fyrir sjókvíaeldi með allt að 10.000 tonna lífmassa á hverjum tíma og ófrjóa laxfiska var svo auglýst á fimmtudaginn í síðustu viku, þann 29.2. 2024.

Í tilkynningu Umhverfisstofnunar segir að framkvæmdin rúmist innan burðarþolsmats Hafrannsóknarstofnunar fyrir Ísafjarðardjúp en ekki áhættumats sömu stofnunar og er því heimildin bundin við ófrjóa laxfiska. 

Frestur til að skila inn athugasemdum við starfsleyfið er til og með 2.apríl.

Undirbúa sameiginlega umsókn í Fiskeldissjóð

Menntaskólinn á Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarfélögin sem munu standa að byggingu nýs verkmenntahúss við Menntaskólann á Ísafirði undibúa að senda sameigilega umsókn um styrk í Fiskeldissjóð. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur að sögn Gylfa Ólafssonar, formanns bæjarráðs samþykkt að standa að slíkri umsókn og bæjarráð Bolungavíkur samþykkti í síðustu viku að standa að sameiginlegri umsókn með þeim sveitarfélögum sem óska eftir þátttöku.

Auk Ísafjarðarbæjar og Bolungavíkurkaupstaðar eru það Súðavíkurhreppur og Reykhólahreppur.

Hlutur sveitarféaganna í byggingarkostnaði er 40% á móti 60% hlut ríkisins. Hlutur sveitarfélaganna verður samkvæmt kostnaðaráætlun á bilinu 191 – 286 m.kr. Þá er gert ráð fyrir til viðbótar að sveitarfélagið, þar sem skólinn er, leggi til gjaldfrjálsa lóð.

Ísafjörður: Aðgerðaráætlun í ferðmálum til 2030 kynnt

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og ferðamálaráðherra var á Ísafirði í gær og hélt í Edinborgarhúsinu opinn fund þar sem kynnt voru drög að aðgerðaráætlun fyrir ferðaþjónustuna. Vinnan hófst í fyrra og voru skipaðir starfshópar sem hafa verið að störfum undir stjórn stýrihóps sem samræmir tillögur einstakra starfshópa. Starfið er á lokastigi og er miðað við að tillaga til þingsályktunar um ferðamálastefnu til 2030 og aðgerðaáætlun verði lögð fram á Alþingi 15. mars 2024 eða innan tveggja vikna.

Stefnt er að því að ferðaþjónusta bæti efnahag landsmanna, hafi jákvæð áhrif á nærsamfélagið, verði heilsársatvinnugrein um land allt, upplifun gesta verið góð og áhrif á umhverfi verði með minnkandi kolefnisspori og jafnvægi milli hagnýtingar og verndar náttúrunnar.

Í heildina verði um arðsama og samkeppnishæfa ferðaþjónustu að ræða í sátt við land og þjóð.

Fundurinn var ágætlega sóttur. Meðal fundarmanna mátti sjá Braga Þór Thoroddse, sveitarstjóra í Súðavík og Örnu Láru Jónsdóttur, bæjarstjóra í Ísafjarðarbær.

Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Lífshlaupinu 2024 lokið

Lífshlaupinu 2024 lauk á þriðjudag í síðustu viku, þann 27. febrúar, en verkefnið stóð yfir í tvær vikur í skólakeppninni og þrjár vikur í öðrum flokkum. 

Síðastliðinn föstudag, þann 2. mars, fór fram verðlaunaafhending í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal þar sem fulltrúar frá vinnustöðum, hreystihópum 67+ og grunn- og framhaldsskólum mættu og tóku á móti verðlaununum sínum. Alls tóku 16.475 einstaklingar þátt í ár, í 1.448 liðum sem hreyfðu sig í 16.595.425 mínútur í 210.388 daga.

Það er virkilega gaman er að sjá hversu margir vinnustaðir eru duglegir að taka þátt í verkefninu með flottum árangri og oft eru það sömu fyrirtækin sem raða sér í verðlaunasætin.

Í ár var flokknum Hreystihópar 67+ bætt við Lífshlaupið og tóku 550 manns þátt í þeim keppnisflokki og alls 15 hópar í fjórum stærðarflokkum. Með þessari viðbót geta allir á aldrinum 6 ára og eldri, tekið þátt í Lífshlaupinu á sínum forsendum.
Lífshlaupið er orðinn hluti af vinnustaða- og/eða skólamenningu víða og hafa skapast skemmtilegar hefðir og uppákomur innanhúss í kringum þátttöku í verkefninu. Í ár voru virkir vinnustaðir 502 og skráðir liðsmenn 13.390.

Þátttaka grunn- og framhaldsskóla hefur farið dvínandi á undanförnum árum og virðist skráningin vera helsta áskorunin. Í ár voru 19 grunnskólar skráðir til leiks og samtals 2.334 nemendur. Framhaldsskólarnir voru 6 og nemendur 202.

400.000 einstaklingar skráðir með lögheimili á Íslandi

Samkvæmt skráningu í þjóðskrá eru einstaklingar með skráð lögheimili á Íslandi orðnir 400 þúsund talsins. Þetta er þó lifandi tala og líkur á því að hún verði breytileg í kringum 400 þúsund í einhverja daga því á hverjum degi eru margar skráningar í þjóðskrá sem hafa áhrif á heildarfjölda lögheimilisskráninga.

Þjóðskrá heldur utan um skráningar einstaklinga hér á landi sem hafa áhrif á réttindi og skyldur þeirra, þar með talið skráningu lögheimilis. Óheimilt er að eiga lögheimili á fleiri en einum stað í einu og ber einstaklingum að tilkynna Þjóðskrá um flutning á lögheimili og er það ábyrgð einstaklinga að upplýsa um rétta búsetu. Einstaklingar 18 ára og eldri verða að tilkynna flutning sjálfir.

Þó er einstaklingum heimilt að dvelja erlendis í allt að 6 mánuði á 12 mánaða tímabili án þess að skrá lögheimili sitt úr landi. Einnig er heimilt að vera skráður með aðsetur erlendis vegna veikinda eða náms og halda lögheimili sínu á Íslandi.

Þjóðskrá getur breytt skráningu lögheimilis einstaklinga að eigin frumkvæði eða á grundvelli beiðnar frá þinglýstum eiganda húsnæðis eða öðrum sem hagsmuna eiga að gæta.

Samkvæmt skráningu í þjóðskrá eru íslenskir ríkisborgarar orðnir 374 þúsund talsins og þar af eru um 13% með skráð lögheimili erlendis. Íslenskir ríkisborgarar með skráða búsetu á Íslandi eru því um 324 þúsund talsins.

Góðar fréttir af norsk-íslenskri síld í Barentshafi

Útlit er fyrir að þrír sterkir árgangar af norsk-íslenska síldarstofninum séu að alast upp í Barentshafi um þessar mundir.

Þetta eru niðurstöður árlegs vistkerfisleiðangurs í Barentshafi sem er samvinnuverkefni Norðmanna og Rússa, og greint er frá m.a. á vef norsku Hafrannsóknastofnunarinnar. Leiðangurinn var farinn á tímabilinu 10. ágúst til 7. október 2023 með þátttöku fjögra rannsóknaskipa.

Niðurstöður síldarmælinganna eru sérstaklega áhugaverðar og kærkomnar því síldarstofninn hefur verið á niðurleið undanfarin ár vegna slakrar nýliðunar. Veiðar umfram ráðgjöf hafa hraðað þeirri þróun.

Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins um afla á norsk-íslenskri síld fyrir árið 2024 var upp á 390 010 tonn og aflamark íslenskra skipa er 61 395 tonn af samkvæmt vef Fiskistofu.

Nýjustu fréttir