Föstudagur 13. september 2024
Síða 152

Patreksfjörður: Lyfja leitar að lyfjafræðingi

Apótek Lyfju á Patreksfirði.

Enginn lyfjafræðingur er starfandi við útibú Lyfju á Patreksfirði og ályktaði sveitarstjórn Tálknafjarðar að þjónusta við íbúa svæðisins hefði versnað til muna og lýsti yfir áhyggjum vegna þessa. “ Undanfarið hefur komið upp að lyf eru ekki til á lager og þarf að panta lyfin með allt að þriggja daga fyrirvara auk þess sem afgreiðsla tekur nú mun lengri tíma en áður var.“ segir í ályktuninni.

Lyfja hefur nú brugðist við ályktun sveitarstjórnar. Segir í bréfi Lyfju að þar til á síðasta ári hafi fyrirtækið haft lyfjafræðing í vinnu í útibúinu á Patreksfirði frá árinu 2013 og það hafi verið rekið sem útibú í flokki A frá Lyfju Ísafirði.

„Við reyndum að ráða lyfjafræðing í hans stað þegar hann sagði starfi sínu lausu, en því miður hefur ekki fengist lyfjafræðingur til starfa á Patreksfirði. Útibúið er nú rekið í flokki B samkvæmt sömu reglugerð. Þá er haldið úti lyfjalager á staðnum en öll afgreiðsla lyfjaávísana er samþykkt af lyfjafræðingum í Lyfju Ísafirði.
Lyfja mun halda áfram leit að lyfjafræðingi til starfa á Patreksfirði og halda úti rekstri lyfjaútibús í flokki B þangað til og tryggja þannig sem best dreifingu lyfja á svæðinu.“

Alþingi: Vilja ógilda þjóðlendukröfu fjármálaráðherra

Teitur Björn Einarsson alþm í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson alþm og fjórir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga þar sem lagt er til að breyta þjóðlendulögum þannig að lögin taki ekki til landsvæða utan strandlengju meginlandsins. Meðflutningsmenn eru Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Birgir Þórarinsson og Óli Björn Kárason.

Í greinargerð segir að breytingin hafi í för með sér að öll yfirstandandi mál sem taka til landsvæða utan meginlandsins falla niður.

Nýlega setti Þórdís Kolbrún Gylfadóttir fjármálaráðherra fram fyrir Óbyggðanefnd kröfur ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar.

Í meginatriðum er beitt útilokunaraðferð, þ.e. lýst kröfum sem taka til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga utan meginlandsins en innan landhelginnar sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru, að undanskildum tilteknum eyjum eða hlutum þeirra, sbr. eftirfarandi yfirlit. Þá eru gerðar þjóðlendukröfur til afmarkaðra hluta tveggja eyja.

Á Vestfjörðum gerir ríkið kröfu til þess að allar eyjar og sker verði skilgreind sem þjóðlenda nema Æðey, Vigur og 26 eyjar á Breiðafirði.

 Samkvæmt frumvarpinu er það tilgangur þess að fella niður kröfur fjármálaráðherra, sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Bæði Teitur Björn og Þórdís Kolbrún eru þingmenn Norðvesturkjördæmis.

Bolungavík: fagna nýju leyfi Arctic Sea Farm í Djúpinu

Opnun Drimlu í Bolungarvík. Mynd: Haukur Sigurðsson.

Bæjarráð Bolungavíkur bókaði á fundi sínum í gær að það fagnaði útgáfu rekstrarleyfis til Arctic Sea Farm vegna fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. „Áform um aukið fiskeldi í Ísafjarðardjúpi er mikið framfaraspor fyrir samfélagið á norðanverðum Vestfjörðum og landið allt.“ segir í bókuninni.

Arctic Sea Farm hefur fengið rekstrarleyfi hjá Matvælastofnun fyrir 8.000 tonna fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og þar af er leyfi fyrir 5.800 tonnum af frjóum eldislaxi. Umhverfisstofnun hefur einnig gefið út starfsleyfi fyrir sama eldi.

Með þessum leyfisveitingum hefur verið heimilað eldi á 12.000 tonnum af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi og auk þess rúmlega 12.000 tonnum af öðrum eldisfiski. Burðarþol er fyrir 30.000 tonna eldi í Ísafjarðardjúpi.

Vesturbyggð: Þórdís hættir sem bæjarstjóri

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Þórdí Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð hefur verið ráðin sem bæjarritari og sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs hjá Sveitarfélaginu Árborg. Frá þessu er greint á vefsíðu Árborgar og þar kemur fram að hún hefur störf hjá Árborg í júní. 

Þórdís greindi frá því í gær að hún hefði tilkynnt samstarfsfólki sínu hjá Vesturbyggð í dag að hún muni ekki gefa kost á sér í starf bæjarstjóra sameinaðs sveitarfélags Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar eftir kosningarnar í sumar.

Þórdís segist vilja vera nær börnum sínum sem nú búa bæði í góðu yfirlæti hjá föður sínum í Reykjavík. Hún segist hlakka til að geta verið meira með þeim og gefið þeim meiri tíma á meðan þau þurfa á henni að halda.

Góð heilsa alla ævi án öfga

Út er komin bókin Góð heilsa alla ævi án öfga hjá bókaútgáfunni Sögur – útgáfa.

Á hverjum degi höfum við val um hvort og hvernig við hlúum að eigin heilsu. Það veit næringarfræðingurinn Geir Gunnar Markússon manna best af starfi sínu sem heilsuráðgjafi á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.
Í þessum vegvísi að betra lífi sýnir hann okkur skynsamlegar leiðir til að styrkja grunn¬stoðir heilsunnar, næringu, hreyfingu, svefn og sálarlíf.

Í neyslu- og streitusamfélagi nútímans eru lífsstílssjúkdómar sú ógn sem skerðir lífsgæði okkar mest.

Þessi bók er svar við ranghugmyndum, öfgum og fölskum skilaboðum á sviði heilsu sem dynja á okkur. Hún er einnig hvatning fyrir okkur til að taka ábyrgð á eigin heilbrigði til frambúðar.

Geir Gunnar deilir hér jafnframt ljúffengum og hollum uppskriftum frá eldhúsi Heilsustofnunar NLFÍ í Hveragerði.

Gera ekki kröfu um Æðey og Vigur

Eyjan Vigur og fjallið Hestur. Mynd : Mats Wibe Lund.

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd kröfur um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins.

Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar en það gerir kröfu í allar eyjar og sker, sem eru 132 talsins á því svæði sem nefnist Vestfirðir utan Barðastrandarsýslna.

Þjóðlendukrafa íslenska ríkisins tekur ekki til eyjanna Æðey og Vigur. Er í þessu sambandi meðal annars litið til þess að um er að ræða eyjur sem voru í byggð í meira en 20 ár frá gildistöku laga nr. 46/1905 um hefð.
Tekið er fram að hér er aðeins átt við meginland ofangreindra eyja. Þjóðlendukrafa ríkisins nær hins vegar til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga ofansjávar á stórstraumsfjöru umhverfis eyjurnar, þrátt fyrir að slíkar landfræðilegar einingar kunni í einhverjum heimildum að teljast tilheyra eyjunni eða vera hluti hennar.

Málsmeðferð á hverju svæði hefst á því að óbyggðanefnd tilkynnir fjármála- og efnahagsráðherra að nefndin hafi ákveðið að taka svæðið til meðferðar og veitir honum frest til að lýsa fyrir hönd íslenska ríkisins kröfum um þjóðlendur þar. Þegar kröfur ríkisins liggja fyrir kynnir óbyggðanefnd þær og skorar á þá sem telja til eignarréttinda eða annarra réttinda á svæði sem ríkið gerir kröfu til að lýsa kröfum sínum innan tiltekins frests. Að liðnum þeim fresti eru heildarkröfur kynntar.

Óbyggðanefnd rannsakar síðan málin, sem felur m.a. í sér umfangsmikla og kerfisbundna gagnaöflun í samvinnu við sérfræðinga á Þjóðskjalasafni Íslands. Leiði rannsókn nefndarinnar í ljós að einhver kunni að telja til eignarréttinda án þess að hafa lýst kröfu er viðkomandi gefinn kostur á að gerast aðili máls, sbr. 3. mgr. 13. gr. þjóðlendulaga.

Þegar framkomin gögn hafa verið rannsökuð til hlítar úrskurðar óbyggðanefnd um kröfur málsaðila. Ef svæði sem ríkið hefur gert þjóðlendukröfur til reynast samkvæmt rannsókn óbyggðanefndar vera eignarlönd er kröfum ríkisins þar hafnað. Svæði sem reynast utan eignarlanda eru hins vegar úrskurðuð þjóðlendur. 

Knattspyrna – Vestri fær sænskan markvörð

Vestri hefur samið við markvörðinn William Eskelinen sem hefur leikið tvo leiki fyrir yngri landslið Svía .

William er stór og reynslumikill markvörður og hefur hann meðal annars leikið í efstu deildum Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur.

Á síðasta tímabili var William aðalmarkvörður Örebro í Superettan í Svíþjóð.

Vestri hafði áður í vetur samið við danska markvörðinn Andreas Söndergaard en hann samdi svo við Hobro í Danmörku.

Marvin Darri Steinarsson hefur varið mark Vestra á undirbúningstímabilinu, líkt og hann gerði síðasta sumar þegar liðið vann sér sæti í Bestu deildinni í gegnum umspil Lengjudeildarinnar.

William er væntanlegur til landsins í vikunni og er spenntur að hefja undirbúning fyrir komandi tímabil.

 

Arctic Fish: Met árangur í Arnarfirði – 94% í fyrsta flokk

Laxeldi Arctic Fish í Arnarfirði.

Arctic Fish greinir frá því í dag að metárangur hafi náðst í eldinu í Hvestu í Arnarfirði. Í fyrsta gæðaflokk hafi farið 94% af fiskinum, nýting fóðurs hafi verið með besta móti og verð fyrir eldisfiskinn sé í hæstu hæðum.

Fyrsta október síðast liðinn hófst slátrun á laxi úr eldisstöðinni Hvestu í Arnarfirði. Slátrun stendur enn yfir en gert er ráð fyrir að henni ljúki fyrir páska.

Fiskurinn í Hvestu fór í sjó vorið 2022 þá um 150 grömm að þyngd. Nú við slátrun er hann um 5 kg. Um 94% af fiskinum hefur farið í fyrsta gæðaflokk en það sem fer í annan gæðaflokk er flakað hjá Odda á Patreksfirði. Þar verða svo um 95% af annars flokks fiskinum að flökum sem fara í hæsta gæða flokk og því má segja að um 99% af fiskinum okkar fari í hæsta gæðaflokk.

600 m.kr. úr einni kví

Nýting fóðurs hefur einnig verið frábær segir í frétt Arctic Fish. Sem dæmi er kví nr. 3 í Hvestu. „Þar framleiddum við stærsta fisk sem farið hefur í gegn um sláturhúsið okkar Drimlu í Bolungarvík en hann var að 6,1 kg slægður. Hlutfall fóðurs á móti fiski var 1,18 sem er frábær árangur með svona stóran fisk.“

Verð eru einnig í hæstu hæðum þessa dagana eða frá 1200-1800 kr/kg eftir stærð. Í meðal kví eru um 450 tonn og því getur aflaverðmæti úr einni kví þegar laxinn er kominn til kaupenda í Evrópu eða Ameríkuk verið um 600 milljónir króna. Verð á laxi sveiflast mikið en að öllu jöfnu eru hæstu verð á þessum árstíma.

Á meðfylgjandi myndum sem Haukur Sigurðsson tók má sjá þegar lax var afhentur um borð í brunnbátinn Novatrans í síðustu viku. Hann sækir að jafnaði um 70-90 tonn á dag, fjóra daga vikunnar til vinnslu í Drimlu laxavinnslu í Bolungarvik.

Arctic Fish’s salmon farm in Arnarfjörður, Iceland.

Flutningi kinda yfir varnarlínur vísað til lögreglu

Fram kemur í tilkynningu frá Matvælastofnun að stofnunin hafi vísað til lögreglu rannsókn á flutningi kinda yfir varnarlínur.

„Matvælastofnun fékk ábendingu sl. haust um að tilteknir bændur á Vesturlandi hefðu flutt kindur yfir sauðfjárveikivarnarlínu sem er bannað samkvæmt dýrasjúkdómalögum.

Eftir rannsókn málsins var ákveðið að vísa því til lögreglu,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Lífeyrissjóður gerir 110 m.kr. kröfu á Ísafjarðarbæ

Lífeyrissjóðurinn Brú hefur lagt fram 110 m.kr. kröfu á hendur Ísafjarðarbær vegna A deildar lífeyrissjóðsins. Skýringin er sú að tryggingaleg staða deildarinnar er neikvæð, það er að lífeyrisskuldbundingar sjóðsins gagnvart sjóðsfélögum eru hærri en eignirnar sem standa undir skuldbindingunum.

Vegna þessa tók stjórn Brúar þá ákvörðun í október 2023 að innheimta 10% af greiddum lífeyri hjá launagreiðendum (mest sveitarfélögum) vegna hóps þeirra sem voru 60+ þann 31. maí 2017 og þeim sem voru á lífeyri á þeim degi segir í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs sem lagt var fyrir bæjarráð í gær.

Með hækkandi lífaldri þjóðarinnar og eftir slaka ávöxtun sjóðsins árið 2022 lá fyrir að halli á tryggingafræðilegri stöðu Brúar lífeyrissjóðs væri umfram 10% lögbundin viðmið. Af þessum sökum hefur sjóðurinn hafið innheimtu framlaga frá sveitarfélögunum vegna þess hóps lífeyrisþega eða launamanna sem Alþingi ákvað með lögum 2016 að áunnin réttindi væru undanþegin því að taka breytingum í samræmi við stöðu sjóðsins.

Í þeim lögum var ákveðið að áunnin réttindi þeirra sem þá höfðu náð sextugsaldri við gildistöku laganna eða höfðu hafði töku lífeyris skyldu tryggð og myndi hvorki hækka né lækka upp frá því.

Um er að ræða stöðu miðað við 30.9.2023, og er von á uppfærslu miðað við 31.12.2023 fljótlega.

Nýjustu fréttir