Föstudagur 13. september 2024
Síða 151

Áforma uppbyggingu fjarskiptasenda á Vestfjörðum

Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.

Nova, Síminn, Vodafone og Neyðarlínan fyrir hönd Öryggisfjarskipta ehf vinna saman að uppbyggingu fjarskiptasenda á Vestfjörðum. Jón Svanberg Hjartarson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir að gert sé ráð fyrir uppbyggingu fjarskiptastaða á liðlega 20 stöðum til að uppfylla kvaðir um farsímaútbreiðslu á stofnvegum. Í nýlega endurnýjuðum tíðnileyfum kemur fram að uppbyggingunni eigi að vera lokið fyrir lok árs 2026.

Verkefnið fer af stað í tengslum við tíðniúthlutanir til fjarskiptafélaganna. Víða er lítið sem ekkert farsímasamband á þjóðvegum á Vestfjörðum svo sem í Ísafjarðardjúpi og í Barðastrandarsýslu.

Jón Svanberg segir að endanlegt staðarval einstakra senda liggi ekki fyrir, en búið sé að skilgreina þau svæði þar sem farið verður í úrbætur á fjarskiptaþjónustunni.

Kostnaður við verkefnið hefur verið áætlaður, og munu fjarskiptafélögin greiða þann kostnað, aðild Neyðarlínu að verkefninu er bundin við að fyrir liggi stefnumörkun stjórnvalda um neyðar og öryggisfjarskiptaþjónustu  og að sögn Jóns Svanbergs liggur niðurstaða úr því samtali ekki fyrir.

Neyðarlínan tekur þátt í undirbúningi þessa verkefnis og þá ekki hvað síst varðandi hvort og með hvaða hætti mætti nýta þá innviði sem byggðir verða upp til að auka TETRA þjónustu á umræddum svæðum.

Áðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Fjórðungssambandinu varðist frekari fregna á þessu stigi en sagði að Fjórðungssamband Vestfirðinga væri á lokastigi með gerð skýrslu um stöðu fjarnets, fastlínunets og útvarps.

Uppfært kl 12:35. Vodafone var bætt við þau fyrirtæki sem standa að uppbyggingunni, en nafn þess féll niður í upphaflegri frétt.

SKOLLAKOPPUR

Skollakoppurinn er hnöttótt ígulker. Fullvaxin dýr eru 6–7 cm í þvermál. Oftast er skollakoppurinn dökkur á lit, purpurarauður, grænleitur eða brúnleitur. Hann hefur um sig harða skel sem er alsett broddum sem eru um 1–1,5 cm á lengd. Hann getur hreyft broddana og notar þá sem eru á neðra borði til að ganga á.

Skel skollakopps er gerð úr litlum sexhyrndum plötum sem eru límdar saman á köntunum. Út um örsmá göt á plötunum eru raðir af sogfótum sem teygja sig út á milli broddanna. Hann notar sogfæturnar til þess að festa sig við botninn og einnig getur hann fært sig úr stað með þeim.

Í munni skollakopps, sem er neðan á dýrinu, er sterklegur tannakrans sem vegna lögunar sinnar hefur verið kallaður „ljósker Aristótelesar“. Kransinn hefur fimm harðar tennur sem skollakoppurinn notar til að kroppa bita af fæðunni og einnig getur hann brotið litlar skeljar með þeim.

Skollakoppur lifir allt í kringum Ísland, frá fjöruborði niður á 1500 m dýpi en er algengastur á 5 til 30 m dýpi. Hann heldur sig aðallega á hörðum botni.

Aðalfæða skollakopps eru botnþörungar. Skollakoppurinn getur þó einnig nýtt sér dýr eins og hrúðurkarla og skeljar.

Hjá skollakoppi eru kynin aðskilin, þ.e. dýrin eru annaðhvort karl- eða kvendýr. Hrygning er á vorin. Kvendýrin losa eggin út í sjóinn og um leið sprauta nærstödd karldýr sæðisfrumum sem frjóvga eggin. Eftir frjóvgun verða eggin sviflæg og þroskast í lirfur. Lirfurnar eru í svifinu í tvo til fimm mánuði áður en þær setjast á botninn. Þær verða þá hnöttóttar og mynda brodda og líkjast fullorðnum skollakoppi.

Ígulker eins og skollakoppur eru notuð til matar víða um heim. Á árunum 1993 til 1996 var skollakoppur veiddur hér við land og voru hrognin úr þeim notuð til matar.

Venjulega lifir skollakoppur í jafnvægi innan um fæðu sína, botnþörunga. Það hefur hins vegar gerst víða að ígulkerum hefur fjölgað það mikið að beit þeirra raskar jafnvæginu og þörungarnir eru étnir upp að mestu. Á síðustu árum hefur beit skollakopps t.d. valdið eyðingu þaraskóga af víðáttumiklum svæðum í Eyjafirði. Þar sem áður var gróskumikill þaraskógur er nú auðn.

Af vefsíðunni hafogvatn.is

Bauhaus oftast með lægsta verðið

Verð í Bauhaus var oftast lægst í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ  í Bauhaus, Byko og Húsasmiðjunni þann 26. febrúar. Í samanburðinum var verð skoðað á 203 vörum en aðeins sex vörur voru fáanlegar í öllum þremur verslununum.

Bauhaus var með lægsta verðið á 140 vörum, Byko á 48 og Húsasmiðjan á 20.  

Mismargar vörur voru frá hverri verslun í samanburðinum, flestar í Bauhaus, 182, 164 í Byko og 66 í Húsasmiðjunni og er því hjálplegt að skoða þessar tölur sem hlutfall af fjölda vara úr hverri búð í samanburðinum. 

Húsasmiðjan var að meðaltali nokkru dýrari en bæði Byko og Bauhaus. Verð þar var að meðaltali 14% frá lægsta verði í samanburði við Bauhaus og að meðaltali 9% frá lægsta verði í samanburði við Byko. 

Tuttugu og sjö vörur mátti finna í bæði Byko og Húsasmiðjunni. Að jafnaði var verð í Byko 2% frá lægsta verði en 9% frá lægsta verði í Húsasmiðjunni.  

Nánar má lesa um þessa verðkönnun á heimasíðu ASÍ

Dýrin í Hálsaskógi á Ísafirði

Í ár mun leikfélag Menntaskólans á Ísafirði setja upp barnaleikritið Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner.

Nemendur skólans hafa unnið hörðum höndum við uppsetningu leikritsins síðustu vikur og eru mjög spennt að sýna bæjarbúum afraksturinn.

Uppsetning leikfélagsins er ávallt stór viðburður í skólastarfinu en hátt í 30 nemendur koma að sýningunni í ár.

Sýnt er í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og leikstjóri er Birgitta Birgisdóttir. 

Frumsýning – 8.mars kl. 20:00
sýning 2 – 9.mars kl. 15:00
sýning 3 – 10.mars kl. 12:00
sýning 4 – 10.mars kl. 16:00
sýning 5 – 13.mars kl. 19:00
sýning 6 – 15.mars kl. 19:00
sýning 7 – 16.mars kl. 15:00
sýning 8 – 17.mars kl. 12:00
sýning 9 – 17.mars kl. 16:00 

Ný nafnskírteini

Útgáfa á nýjum nafnskírteinum er hafin hjá Þjóðskrá Íslands. Ný útgáfa nafnskírteina hefur verið lengi í undirbúningi, allt frá því að fyrsta verkáætlun var samþykkt árið 2007 og fram til ársins 2023 þegar ný lög um nafnskírteini tóku gildi. Þjóðskrá ber ábyrgð á útgáfu og afhendingu skírteinanna.

Nýju nafnskírteinin eru fullgild persónuskilríki og geta allir íslenskir ríkisborgarar óháð aldri sótt um nafnskírteinin og notað þau til auðkenningar.

Eldri nafnskírteini sem voru gefin út fyrir 1. janúar 2013 féllu úr gildi þann 1. desember 2023 með gildissetningu nýrra laga. Eldri nafnskírteini sem gefin hafa verið út eftir þann tíma og fram til 1.mars 2024 falla úr gildi 31. desember 2025.

Íslenskum ríkisborgurum stendur nú til boða að sækja um nafnskírteini sem ferðaskilríki.

Nafnskírteini sem eru ferðskilríki er hægt að framvísa innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) í stað þess að framvísa vegabréfi. Nafnskírteinin staðfesta handahafa kortsins og ríkisfang. Skírteinin eru með örgjörva líkt og vegabréf og fylgja alþjóðlegum stöðlum og ESB-reglugerð.

Munurinn á nafnskírteinum sem ferðaskilríkjum og vegabréfum, er að vegabréf gilda sem ferðaskilríki til allra landa í heiminum en nafnskírteinin gilda innan landa Evrópska efnahagssvæðisins (EES).

Auknar kröfur eru gerðar í samfélaginu um að einstaklingar auðkenni sig með gildum persónuskilríkjum og því nauðsynlegt að koma til móts við þá hópa sem ekki geta framvísað t.d. ökuskírteini.

Með nýju nafnskírteinunum geta ungmenni og aðrir hópar sannað á sér deili með framvísun þeirra og þá sérstaklega innanlands.   

Vetrarmyndir af Vestfjörðum

Kálfatindur, Miðfell, Hornbjarg og Hornvík skartar sínu fegursta í vetrarbúningi.

Stórfengleg fjallasý‎‎‎n heillaði áhöfn frystitogarans Snæfells EA 310 á heimsiglingu skipsins í lok síðustu viku. Stefán Viðar Þórisson skipstjóri sendi heimasíðunni meðfylgjandi myndir sem birtar voru á heimasíðu Samherja.

Myndirnar eru birtar með góðfúslegu leyfi.

Straumnesfjall og Rytur í fjarska.

Hornbjarg.

Frá vinstri: Kögur, Fljótavík, Hvesta og Rekavík bak Látur lengst til hægri.

Framsókn: vill að sveitarstjórnir greiði fyrir kjarasamningum

Frá Fjórðungsþingi Vestfirðinga á Ísafirði 2021. Skorað er á sveitarstjórnarfólk. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórnarráð Framsóknarflokksins hefur sent frá sér tilkynningu um ályktun sem var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnarráðs Framsóknar í gærkvöldi. Þar eru sveitarstjórnir hvattar til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði og tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum.

„Sveitarstjórnarráð Framsóknar hvetur sveitarstjórnarfólk um land allt til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði, sem hafa það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu. Lækkun vaxta eykur kaupmátt allra heimila. Sveitarstjórnarráð Framsóknar styður að ríki og sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum eins og ríkisstjórn hefur samþykkt enda setur Framsókn barnafjölskyldur í forgang. Jafnframt styður ráðið að dregið verði úr gjaldskrárhækkunum sem snúa að barnafjölskyldum.“

Bæði fjármálaráðherra og formaður Starfsgreinasambandsins hafa sagt að samkomulag milli Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambandsins sé í nánd og að aðgerðapakki stjórnvalda sé stór þáttur í því að ljúka samningagerð með kjarasamningi til fjögurra ára.

Hnjótur: stærsti einstaki eigandinn gerir ekki kröfu um greiðslu fyrir vatn

Ingi Bogi Hrafnsson landeigandi að Hnjóti.

Greint hefur verið frá því á bb.is að Kristinn Þór Egilsson, landeigandi að Hnjóti í Örlygshöfn krefjist þess að sveitarfélögin Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur gangi til samninga við hann um nýtingu á vatnsréttindum á jörðinni fyrir byggðasafnið að Hnjóti, sem sveitarfélögin eiga.

Jafnframt er þess krafist að látið verði af nýtingu réttindanna í framtíðinni og virtur eignarréttur hans að eignarlandi umhverfis húsnæði Minjasafnsins. Verði ekki orðið við þessu er hótað aðgerðum svo sem lögbanns.

Tildrögin eru þau að um mitt ár 2013 stóð Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti fyrir borun eftir vatni að Hnjóti og segir í kröfubréfinu að það hafi verið að eigandanum forspurðum. Segir að borholan sé staðsett utan lóðarmarka safnsins.

Ingi Bogi Hrafnsson vill koma þeirri leiðréttingu á framfæri að Kristinn Þór sé ekki eini landeigandinn að Hnjóti. Vísar hann í lögbýlaskrá og þar komi fram eftirfarandi um eigendur:

Ingi Bogi segist ekki vita til þess að aðrir eigendur að Hnjóti en Kristinn Þór hafi staðið fyrir kröfugerðinni en hann sé skráður fyrir eign sirka 20% í heildar Hnjóts jörðinni. Ingi Bogi segist vera stærsti einstaki landeigandinn og hann standi ekki að kröfum Kristins Þórs á hendur byggðasafninu og sveitarfélögunum

„Ég var í sveit hjá Agli og Rögnu foreldrum Kristins að Hnjóti 1 og keypti Hnjót 2 af Guðnýju bróðurdóttur Kristins sem fékk þá jörð í arf úr dánarbúi Guðmundar Jóns Hákonarsonar kaupfélagsstjóra.“ segir Ingi Bogi og bætir við: „Ég vill safninu hans Egils allt hið besta og hef því lagt mig fram við að lenda málum að Hnjóti þar sem Kristinn hefur staðið í vegi fyrir framþróun um langa hríð.“

Patreksfjörður: Lyfja leitar að lyfjafræðingi

Apótek Lyfju á Patreksfirði.

Enginn lyfjafræðingur er starfandi við útibú Lyfju á Patreksfirði og ályktaði sveitarstjórn Tálknafjarðar að þjónusta við íbúa svæðisins hefði versnað til muna og lýsti yfir áhyggjum vegna þessa. “ Undanfarið hefur komið upp að lyf eru ekki til á lager og þarf að panta lyfin með allt að þriggja daga fyrirvara auk þess sem afgreiðsla tekur nú mun lengri tíma en áður var.“ segir í ályktuninni.

Lyfja hefur nú brugðist við ályktun sveitarstjórnar. Segir í bréfi Lyfju að þar til á síðasta ári hafi fyrirtækið haft lyfjafræðing í vinnu í útibúinu á Patreksfirði frá árinu 2013 og það hafi verið rekið sem útibú í flokki A frá Lyfju Ísafirði.

„Við reyndum að ráða lyfjafræðing í hans stað þegar hann sagði starfi sínu lausu, en því miður hefur ekki fengist lyfjafræðingur til starfa á Patreksfirði. Útibúið er nú rekið í flokki B samkvæmt sömu reglugerð. Þá er haldið úti lyfjalager á staðnum en öll afgreiðsla lyfjaávísana er samþykkt af lyfjafræðingum í Lyfju Ísafirði.
Lyfja mun halda áfram leit að lyfjafræðingi til starfa á Patreksfirði og halda úti rekstri lyfjaútibús í flokki B þangað til og tryggja þannig sem best dreifingu lyfja á svæðinu.“

Alþingi: Vilja ógilda þjóðlendukröfu fjármálaráðherra

Teitur Björn Einarsson alþm í Norðvesturkjördæmi.

Teitur Björn Einarsson alþm og fjórir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram á Alþingi frumvarp til laga þar sem lagt er til að breyta þjóðlendulögum þannig að lögin taki ekki til landsvæða utan strandlengju meginlandsins. Meðflutningsmenn eru Jón Gunnarsson, Vilhjálmur Árnason, Birgir Þórarinsson og Óli Björn Kárason.

Í greinargerð segir að breytingin hafi í för með sér að öll yfirstandandi mál sem taka til landsvæða utan meginlandsins falla niður.

Nýlega setti Þórdís Kolbrún Gylfadóttir fjármálaráðherra fram fyrir Óbyggðanefnd kröfur ríkisins um þjóðlendur á svæði 12 sem nefnist „eyjar og sker“ og tekur til landsvæða innan landhelginnar en utan meginlandsins. Um er að ræða sautjánda og síðasta svæðið sem óbyggðanefnd tekur til meðferðar.

Í meginatriðum er beitt útilokunaraðferð, þ.e. lýst kröfum sem taka til allra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga utan meginlandsins en innan landhelginnar sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru, að undanskildum tilteknum eyjum eða hlutum þeirra, sbr. eftirfarandi yfirlit. Þá eru gerðar þjóðlendukröfur til afmarkaðra hluta tveggja eyja.

Á Vestfjörðum gerir ríkið kröfu til þess að allar eyjar og sker verði skilgreind sem þjóðlenda nema Æðey, Vigur og 26 eyjar á Breiðafirði.

 Samkvæmt frumvarpinu er það tilgangur þess að fella niður kröfur fjármálaráðherra, sem jafnframt er varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Bæði Teitur Björn og Þórdís Kolbrún eru þingmenn Norðvesturkjördæmis.

Nýjustu fréttir