Föstudagur 13. september 2024
Síða 150

MÍ fær styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála

Styrkþegar ásamt ráðherra og formanni Innflytjendaráðs.

Menntaskólinn á Ísafirði fékk í gær styrk að fjárhæð 2,2 m.kr. úr þróunarsjóði innflytjendamála.

Verkefnið heitir Við öll! Menntaskólinn á Ísafirði sem fjölmenningarlegt samfélag. Í lýsingu segir að það felist í því að halda vinnustofur fyrir nemendur og skólasamfélagið í heild með það að markmiði að dýpka skilning og auka meðvitund skólasamfélagsins á því hvað felst í því að vera hluti af inngildandi og fjölmenningarlegu samfélagi.  Er þetta annað árið í röð sem skólinn hlýtur styrk úr sjóðnum.


Heiðrun Tryggvadóttir, skólameistari segir að skólinn fagni þessari styrkveitingu mjög og við „hlökkum til við að hefjast handa og halda áfram að skapa inngildandi og fjölmenningarlegt samfélag í skólanum.“

Alls hlutu 17 verkefni og rannsóknir styrk samtals 50 milljónir króna. 

Í fréttatilkynningu frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins er haft eftir Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra:

„ Ég óska öllum styrkþegum til hamingju og hlakka til að fylgjast með framhaldinu. Málefni innflytjenda eru afar þýðingarmikil og hafa kannski aldrei verið mikilvægari en nú. Við höfum stóraukið framlög til þróunarsjóðs innflytjendamála og það gleður mig mjög að sjá þá miklu grósku sem er hér á landi í margvíslegum verkefnum og rannsóknum sem tengjast málaflokknum.“

Frístundasvæði í Dagverðardal

Yfirlit yfir skipulagssvæðið unnið af M11 arkitektum. Myndin gefur til kynna hugmyndir að útfærslum á byggingum en ekki er um endanlega hönnun að ræða.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur vísað til kynningar vinnslutillögu að nýju deiliskipulagi frístundasvæðis F14 í Dagverðardal í Skutulsfirði.

Skipulagið gerir ráð fyrir frístundabyggð með þjónustusvæði í Dagverðardal.

Áætlað er að byggja 39 frístundahús á svæðinu þar sem vistvænar áherslur verða hafðar að leiðarljósi, bæði hvað varðar hönnun, efni, endingu og upphitun húsa og rask á náttúrunni.

Breytingarnar eru í samræmi við vinnslu breytinga á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 þar sem svæðið verður tekið úr landnotkun ætlað undir íbúðarbyggð.

Rannveig með erindi um starfsemi Listasafns Ísafjarðar

Rannveig Jónsdóttir

Í Vísindaporti á morgun föstudag flytur Rannveig Jónsdóttir erindi um starfsemi Listasafns Ísafjarðar sem var stofnað 12. febrúar 1963 og er elsta Listasafn á Íslandi utan höfuðborgarsvæðisins.

Safnið á sér áhugaverða sögu sem Rannveig ætlar að fjalla um ásamt framtíðarsýn hennar fyrir safnið eftir að hún tók til starfa haustið 2022.

Rannveig Jónsdóttir (f. 1992) er myndlistarmaður sem býr og starfar á Ísafirði þar sem hún ólst einnig upp. Hún lauk BA námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2017 og MFA námi frá Listaháskólanum í Malmö árið 2019.

Rannveig vinnur sem sérfræðingur hjá Listasafni Ísafjarðar þar sem hún sinnir fjölbreyttum verkefnum hvað varðar uppbyggingu safnsins. Einnig kennir hún við Lista- og nýsköpunarbraut Menntaskólans á Ísafirði og ásamt því að sinna myndlist sinni þar sem hún leggur áherslu á hljóð og skúlptúr.

Erindið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá kl. 12.10 til 13.00

Tæplega fjögur sumarhús á hverja 100 íbúa

Rúmlega 15 þúsund sumarhús eru skráð á landinu, sem jafngildir tæplega fjórum sumarhúsum á hverja 100 íbúa. Sumarhúsum á hvern íbúa hefur fækkað frá árinu 2017, þar sem sumarhúsauppbygging hefur ekki haldið í við íbúafjölgun.

Á vef Fasteignaskrár má sjá fjöldatölur um sumarhús á Íslandi. Samkvæmt vefnum eru skráð sumarhús nú 15.091 talsins, en þeim hefur fjölgað um 43 frá síðustu áramótum. Frá árinu 2015 hefur skráðum sumarhúsum fjölgað um 100 til 200 á hverju ári.

Flest sumarhús á landinu eru staðsett í Grímsnes- og Grafningshreppi eða 3.301 sumarhús og í Bláskógarbyggð eru nú skráð 2.190 sumarhús. Í þessum tveimur sveitarfélögum eru nú 36% allra sumarhúsa á landinu. Finna má rúmlega helming allra sumarhúsa á Suðurlandinu, en þau eru alls 7.913 í landshlutanum. Á Vesturlandi eru þau 3.098 og á Norðurlandi eystra eru þau 1.230.

Sjálfbær fiskveiði í heilbrigðu hafi

Sjálfbær fiskveiði í heilbrigðu hafi er samstarfsverkefni Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Færeyja, Íslands, Litháen og Noregs.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að sjálfbærum fiskveiðum með hliðsjón af loftslagsbreytingum og grænum áherslum. Áhersla er lögð á rannsóknir á áhrifum fiskveiða á umhverfi sjávar og möguleikum til draga úr áhrifum veiðanna.

Norræna rannsóknaráðið (NordForsk), sem er rekið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, leggur fram fjármagn til verkefnisins. Heildarráðstöfunarfé nemur 40 milljónum norskra króna eða um 518 milljónum íslenskra króna.

Verkefnið samræmist í senn sameiginlegri yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlanda frá 2022. 

Umsóknarfrestur er til 28. maí n.k.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Norræna rannsóknaráðsins.

Þingeyri: sundlaugin opnaði aftur í dag

Sundlaugin á Þingeyri er glæsilegt mannvirki. Mynd: Sigmundur Þórðarson.

Sundlaugin á Þingeyri opnaði aftur í morgun og verður opið í allan dag og ókeypis í laugina í tilefni af deginum. Lauginni var lokað 16. október í fyrra vegna leka og hafa viðgerðir staðið yfir og er þeim nú lokið.

Góð aðsókn var strax í morgun og mikil ánægja meðal gesta.

Íþróttamiðstöðin var opin þrátt fyrir viðgerðirnar og var hægt að fara í pottana, ræktina og íþróttasalinn.

Forstöðumaður er Þorbjörg Gunnarsdóttir.

Alþingi: biðja um skýrslu um gjaldtöku af fiskeldi

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Halla Signý Kristjánóttir, alþm og níu aðrir alþingismenn hafa lagt fram á Alþingi beiðni um skýrslu frá matvælaráðherra um gjaldtöku af sjókvíaeldi.

Í skýrslunni komi fram:
     a.      yfirlit yfir heildargjaldtöku af sjókvíaeldi frá árinu 2018 og undir hverju tekjunum var ætlað að standa, sem og hvernig þeim tekjum hefur verið skipt á milli ríkis og sveitarfélaga,
     b.      hvernig tekjur af gjaldtöku hafi skilað sér til uppbyggingar á nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga og hvort og þá hvernig tryggt sé að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga í samræmi við kröfur um sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.

Í greinargerð sem fygir með skýrslubeiðninni til skýringar á henni segir að sjókvíaeldi sé „nýleg atvinnugrein hér á landi sem hefur byggst hratt upp undanfarinn áratug. Fari framleiðsla í hámarksmagn samkvæmt burðarþolsmati svæða sem fiskeldinu eru afmörkuð er talið að útflutningsverðmætið verði nær 65 milljörðum kr. Í dag er útflutningsverðmæti um 40 milljarðar kr. árlega og starfa um 600 manns í atvinnugreininni. Fjárfesting upp á tugi milljarða króna er bundin í greininni og frekari fjárfesting bíður þess að fá leyfi til rekstrar. Útflutningur á eldislaxi skilar næstmestum verðmætum allra fisktegunda. Innviðir þurfa að vera fyrir hendi til að styðja við uppbyggingu greinarinnar sem og viðhald á þeim. Þannig má tryggja vöxt greinarinnar og sem mestan ávinning af henni.“

Íbúafjölgun og uppbygging

Þá segir í greinargerð flutningsmanna að eldið sé stundað á Vestfjörðum og Austfjörðum og sveitarfélög þar sem hýsa þessa starfsemi hafi unnið af miklu kappi við að byggja upp og tryggja innviði sem þurfa að vera til staðar svo að starfsemin geti blómstrað.Um er að ræða uppbyggingu við hafnarsvæði og einnig uppbyggingu vegna fjölgunar íbúa og styrkingar grunnþjónustukjarna, svo sem grunn- og leikskóla. Sveitarfélögin njóti þess mikla drifkrafts sem fiskeldið hefur í för með sér. Íbúum fjölgar, atvinnutækifærin verða fjölbreyttari og aldurspíramídinn breytist með hlutfallslegri fjölgun yngra fólks. Þessu fylgja aukin verkefni og áskoranir fyrir sveitarfélög svo um munar. Sum samfélög þar sem íbúum hafði fækkað takast nú á við vaxtarverki í umfangsmikilli og kostnaðarsamri innviðauppbyggingu. Því er mikilvægt að hugað sé að gjaldtöku af greininni með það að markmiði að styrkja nærsamfélögin.

Ríkið krefst þess að Ögurhólmar verði þjóðlenda

Ögurhólmar. Bolungavík í baksýn. Mynd: Kristján Aðalsteinsson.

Í kröfugerð Þórdísar Kolbrúnar Gylfadóttur fjármálaráðherra um þjóðlendumörk á svæði 12, eyjar og sker og annarra landfræðilegra eininga sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru segir að krafa ríkisins taki jafnframt til allra annarra ónafngreindra og ótilgreindra eyja, skerja og annarra landfræðilegra eininga sem eru ofansjávar á stórstraumsfjöru á svæði sem afmarkast annars vegar af stórstraumsfjöruborði meginlandsins og hins vegar af ytri mörkum landhelginnar á þeim hluta svæðis 12 sem fellur innan hluta E, Vestfirðir.

Áskilinn er réttur til að bæta eyjum, skerjum og öðrum landfræðilegum einingum inn í kafla 5.2 kröfulýsingar þessarar um nafngreind og að öðru leyti tilgreind svæði, eftir því sem heimildaöflun og rannsóknarvinnu vindur fram undir rekstri málsins.

Talinn eru sérstaklega upp 132 nöfn sem falli undir kröfu ríkisins. Þar á meðal eru Ögurhólmar í Ísafjarðardjúpi.

Ögurhólmar eru hins vegar ekki hólmar, né eyjar eða sker, heldur landfast nes sem gengur út í Djúpið.

Niðurlag kröfugerðar fjármálaráðherra fyrir Óbyggðanefnd.

Þungatakmarkanir Súðavík – Ísafjörður

Súðavík. Mynd: Þorsteinn Haukur.

Vegna hættu á slitlagsskemmdum verður viðauki 1 felldur úr gildi og ásþungi bifreiða takmarkaður við 10 tonn frá kl. 08:00 í dag fimmtudaginn 7.mars 2024 á Djúpvegi 61 Frá Súðavík að Flugvallarvegi 631 í Skutulsfirði.

Gufudalssveit: stefnt að útboði í haust

Unnið að vegagerð á Dynjandisheði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrui Vegagerðarinnar segir að stefnt sé að því að bjóða út síðasta áfanga Gufudalssveitar í haust. Er það um byggingu tveggja brúa að ræða. Á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins sem nýlega var haldið er verkið áætlað kosta 3.500 m.kr.

Í lok nóvember samdi Vegagerðin við Borgarverk vegna verksins Vestfjarðavegur (60) um Gufudalssveit, Hallsteinsnes – Skálanes, fyllingar. Verkið snýst um nýbyggingu Vestfjarðavegar á um 3,6 km kafla. Innifalið í verkinu er bygging um 119 m langrar bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð sem verktakar munu nota meðan á framkvæmdum stendur. Borgarverk sá einnig um veglagningu í Teigsskógi.

Í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar kemur fram að framkvæmdir hófust í lok janúar og er verið að vinna að vegagerð frá Vestfjarðavegi við Skálanes og niður að sjó við Melanes. Í framhaldi verður farið í sjávarfyllingar í Gufufirði og svo byggingu bráðabirgðabrúar yfir Gufufjörð. Verklok þessa áfanga eru áætluð í lok september 2025. Framkvæmdin er fyrsti áfangi í þverun Djúpafjarðar og Gufufjarðar.

Óvíst um Dynjandisheiði

Ekki fást skýr svör um útboð á lokaáfanga Dynjandisheiðar. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að ekki sé enn búið að taka ákvörðun um hvenær Dynjandisheiðin verður boðin út. Verkið er talið kosta 2.800 m.kr.

Vegagerðin fékk í janúar framkvæmdaleyfi hjá Ísafjarðarbæ fyrir 3. áfanga  uppbyggingar Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði frá Þverá við Rjúpnabeygju að Búðavík í Arnarfirði. Vegarkaflinn er um 7 km langur og allur í Ísafjarðarbæ.

Suðurverk vinnur nú að 2. áfanga sem er 12,6 km kafli. Framkvæmdin nær frá Norðdalsá, norðan Bíldudalsgatnamóta, og liggur um hæstu hluta Dynjandisheiðar og norður fyrir sýslumörk. Vegurinn er að mestu leyti byggður í nýju vegstæði en að hluta til í núverandi vegstæði. Framkvæmdir við annan áfanga hófust í október 2022. Tveir kaflar í öðrum áfanga hafa þegar verið opnaðir fyrir umferð. Í október 2023 var vegur frá Norðdalsá að Vatnahvilft opnaður almennri umferð en þá var búið að leggja klæðingu og setja upp víravegrið. Í desember var opnað fyrir umferð um veginn undir Botnshesti. 

Stefnt er að því að verkinu við annan áfanga Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði verði lokið um miðjan júlí 2024.

Frá vinnu verktaka efst á Dynjandisheiði í desember sl.

Nýjustu fréttir