Sunnudagur 1. september 2024
Síða 15

Sindragata 4: byggingin mun minnka

Sindragata 4A. Deilan snýst um aðra blokk sem reisa á á sömu lóð. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir augljóst að seinni byggingin á lóðinni Sindragötu 4A muni minnka þegar reikna þurfi svalir inn í nýtingarhlutfallið. Hún segir að næsta skref sé að framkvæmdaraðili þurfi að skila inn til byggingarfulltrúa nýjum hönnunargögnum og uppdráttum í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál sem kveðinn var upp á mánudaginn.

Nefndin felldi úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar frá 14. maí 2024 um að samþykkja byggingaráform fyrir lóðina að Sindragötu 4A. Þar er fyrir blokk og var bætt við annarri á lóðinni, sem hefur fengið nafnið Sindragata 4B.

Kærendur sögðu í málflutningi sínum fyrir úrskurðarnefndinni að byggingarfulltrúi Ísafjarðarbæjar hefði samþykkt byggingarmagn upp á 1.340,1 fm sem væri 245,5 fm eða 22% meira en samþykkja mátti. Telja kærendur að til byggingin Sindragata 4B verði í samræmi við deiliskipulag þurfi að breyta uppdráttunum og minnka byggingarmagn um að lágmarki 245,5 fm, en það byggingarmagn telur um tvær íbúðir af þeim níu sem fyrirhugað er að byggja.

Kærendur voru íbúar á Sindragötu 4A, Aðalstræti 8 og 10.

Límmiði frá Icelandair

Límmiði frá flugfélaginu Icelandair. Límmiðinn er tvískiptur. Á öðrum miðanum er teiknuð mynd af víkingi og George Washington fyrsta forseta Bandaríkjanna takast í hendur en fyrir ofan þá stendur: EUROPE – USA og fyrir neðan myndina er merki Icelandair. Á hinum límmiðanum er einungis merki Icelandair.

Límmiðinn var í eigu Jóns H. Júlíussonar flugvirkja og flugvélstjóra hjá Loftleiðum, síðar Flugleiðum / Icelandair.

Jón Hólmsteinn Júlíusson fæddist 3. janúar 1926 á Þingeyri. Hann lést 2. febrúar 2019. Jón lauk atvinnuflugmannsnámi og nam flugvirkjun hjá Flugfélagi Íslands. Hann starfaði lengst af sem flugvélstjóri hjá Loftleiðum, síðar Flugleiðum.

Jón var einn af stofnendum flugfélagsins Flugsýnar og var einn af stofnfélögum Flugvirkjafélags Íslands. Eftir að Jón lauk störfum, gekk hann í Flugklúbbinn Þyt og sinnti eftirliti og viðhaldi á flugvélum klúbbsins um margra ára skeið.

Af sarpur.is

Árið 2025 verður alþjóðaár jökla

Þekktastur horfinna jökla hér á landi er líklega Ok sem var afskráður sem jökull haustið 2014 þegar ljóst var hann væri hættur að skríða undan eigin þunga. Hér er mynd af jöklinum 2. nóvember 1990. Um 24 árum síðar var hann afskráður sem jökull. ((Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Oddur Sigurðsson)

Sameinuðu þjóðirnar hafa nýlega ákveðið að árið 2025 verði helgað jöklum á hverfanda hveli og að 21. mars ár hvert verði dagur jökla. 

Alþjóðaárið verður nýtt til að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.

Í aðdraganda jöklaársins standa ýmsar stofnanir, háskólar og alþjóðasamtök fyrir nokkrum viðburðum til þess að beina athygli að jöklabreytingum og mikilvægi þeirra.

Alþjóðajöklaárið 2025 verður notað til þess að beina athygli almennings og fjölmiðla að rýrnun jökla og efla vöktun og rannsóknir á jöklabreytingum. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eru hvött til þess að skiptast á gögnum, þekkingu og aðferðum til þess að sporna við rýrnun jökla og skipuleggja aðlögun að þeim breytingum sem hörfun þeirra veldur.

Leifar af Okjökli 21. ágúst 2014. Hann er ekki lengur kúptur heldur aðeins slitróttur ísfláki. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Oddur Sigurðsson)

Hugmyndin að baki ári jöklanna 2025 kom frá Tadsíkistan og hefur verið útfærð á vegum Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO), Alþjóðlegu jöklabreytingasamtakanna (WGMS) og fleiri alþjóðastofnana.

Efnt verður til margvíslegra viðburða á næsta ári á alþjóðavettvangi í tilefni af ári jöklanna og einnig hér á landi.

Vegagerðin fær nýjan holuviðgerðarbíl

Á bakhlið bílsins er skjár sem getur sent skilaboð til vegfarenda.

Írska fyrirtækið Archway á Írlandi átti lægsta boð í útboði um holuviðgerðarbíl. „Fyrirtækið hefur mikla reynslu af holuviðgerðum. Það hefur framleitt svona tæki í um fimmtán ár og á sama tíma hefur það sjálft verið í verktöku í holuviðgerðum og því haft gott tækifæri til að fullkomna tæknina svo hún svari þörfum notandans,“ segir Jón Helgi Helgason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni.

Tækið ber heitið Roadmaster og er byggt ofan á Volvo vörubíl.

En hvernig virkar bíllinn? „Bílstjórinn stýrir holuviðgerðartækinu innan úr bílnum. Hann byrjar á því að blása óhreinindi upp úr holunni sem hefur myndast í veginum. Síðan er bikþeytu sprautað á yfirborð holunnar og svæðið í kring svo úr verður hálfgerð límfilma. Bíllinn blandar saman bikþeytu og malarefni og fyllir holuna. Síðan er aftur límt yfir með bikþeytu og þurru steinefni dreift yfir,“ lýsir Jón Helgi og að lokum er efninu þjappað í holuna. Með bílnum er einnig hægt að gera við sprungunet í klæðingum, gera við signar vegaxlir og aðrar skemmdir.

Bílstjórinn stýrir öllu viðgerðarferlinu með stýripinna. Búnaðurinn er nokkuð fullkominn og að stóru leyti sjálfvirkur. Í lok dags hreinsar bíllinn sig til dæmis sjálfkrafa og losar sig þá við umframefni svo ekki myndist stíflur.

Jón Helgi segir í raun ekki erfitt að læra á stjórntæki bílsins en hins vegar sé vandasamt að ná góðum tökum á holuviðgerðinni þannig að hún sé sem sléttust. Því taki tíma að ná upp góðri lagni.

„Við fengum til okkar kennara frá írska fyrirtækinu sem kenndi fjórum starfsmönnum okkar á tækið í heila viku auk þess sem tveir verkstæðismenn fengu kennslu í viðhaldi á því. Nú fá þeir tíma til að vinna á tækinu og síðar í sumar fáum við kennarann aftur til að fara yfir það sem við erum búnir að gera og þá getum við fínpússað færnina.“

Sonja Lind er nýr aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ráðið Sonju Lind Estrajher Eyglóardóttur sem aðstoðarmann sinn. Hún hefur störf í vikunni.

Sonja er með meistara- og BA-próf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og fékk viðurkenningu fyrir bestan námsárangur við útskrift úr BA-námi. Áður hafði Sonja lokið námi í grafískri miðlun frá Iðnskólanum í Reykjavík.

Síðustu fjögur ár hefur Sonja starfað sem starfsmaður og verkefnastjóri þingflokks Framsóknar á Alþingi og hefur þar komið að gerð fjölda þingmannamála tengdum heilbrigðis- og lýðheilsumálum ásamt því að aðstoða þingmenn við vinnslu mála fyrir nefndum Alþingis. Áður starfaði Sonja sem verkefnastjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi.

Sonja er fædd á Ísafirði árið 1981, ólst upp í Borgarnesi og er búsett þar í dag. Maki Sonju er Pavle Estrajher umhverfis- og náttúrufræðingur og eiga þau þrjú börn.

Sonja tekur við starfi Millu Óskar Magnúsdóttur sem þegar hefur látið af störfum. Sigurjón Jónsson er einnig aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra.

Strandabyggð: endurbætur Grunnskólans 306 m.kr.

Grunnskólinn á Hólmavík. Mynd: strandir.is

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti á fundi sínum í gær að hækka framkvæmdakostnað við endurbætur Grunnskólans á Hólmavík þessa árs úr 125 m.kr. upp í 190 m.kr. og verður þá heildarframkvæmdakostnaður áranna 2023-2024 alls kr. 306.000.000.

Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir kostnaði áranna 2024 – 2027 að fjárhæð 165 m.kr. Árið 2023 voru eignfærslur kr. 116 milljónir vegna grunnskólans. Samtals eru þetta 281 milljón kr.

Í fundargerð sveitarstjórnar segir að ljóst sé að kostnaður hafi orðið meiri á styttri tíma en til stóð, „þó heildarkostnaður sé enn um eða við upphaflegan ramma. Ástæða þessa er m.a sú að nokkrum mikilvægum framkvæmdum var flýtt og nýjir verkþættir bættust við. Má þar nefna að ákveðið var að klára uppsetningu loftræstikerfis á þessu ári, sprinkler kerfi var bætt við og eins var ákveðið að fjárfesta í varmadælukerfi.“

Viðaukinn var samþykktur og verður hækkunin greidd með eigin fé og lántöku.

Nýr sveitarstjórnarmaður

Á fundinum var einnig greint frá því að Óskar Hafsteinn Halldórsson taki sæti Jóns Sigmundssonar sem aðalmaður í sveitarstjórn, en Jón hefur beðist lausnar frá störfum fyrir sveitarfélagið og hefur sveitarstjórn staðfest það. Jón er fluttur í Dalabyggð.

Jón Sigmundsson.

Beint frá býli dagurinn verður sunnudaginn 18. ágúst

Beint frá býli verður á Sævangi á sunnudaginn og er tengt hrútaþuklinu.

Beint frá býli dagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn í fyrra, á sex lögbýlum hringinn í kringum landið, einu í hverjum landshluta. Tilefnið var 15 ára afmæli félagsins, en tilgangurinn að kynna íbúum starfsemi
heimavinnsluaðila á lögbýlum og byggja upp tengsl milli þeirra.

Ábýli gestgjafanna söfnuðust saman aðrir framleiðendur af lögbýlum úr landshlutanum til að kynna og selja sínar vörur. Ýmis afþreying var í boði til viðbótar við það sem býlin sjálf höfðu upp á að bjóða og var dagurinn sérlega barnvænn.
Afar góð mæting var í öllum landshlutum og almennt mikil ánægja. Skipuleggjendur áætla að 3-4000 manns hafi lagt leið sína á bæina samanlagt. Því var ákveðið að gera daginn að árlegum viðburði.

Fleiri smáframleiðendur með í ár

Beint frá býli dagurinn verður aftur haldinn síðasta helgidag fyrir skólabyrjun sem í ár er sunnudagurinn 18. ágúst. Öllum þeim ríflega 200 framleiðendum sem eru í Samtökum smáframleiðenda matvæla sem Beint frá býli er aðildarfélag að, verður boðið að taka þátt, en ríflega helmingur þeirra er á lögbýlum.

Sjö gestgjafar – Húsavík á Ströndum

Gestgjöfunum hefur verið fjölgað úr sex í sjö, þar sem í ár verða tveir á hinu víðfeðma Suðurlandi. Á Suðurlandi eystra verður gestgjafinn Háhóll geitabú á Hornafirði. Á Suðurlandi vestra Hreppamjólk í Gunnbjarnarholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Á Vesturlandi verður gestgjafinn Grímsstaðaket á Grímsstöðum í Borgarbyggð. Á Vestfjörðum verður gestgjafinn Húsavík á Ströndum, en hátíðin verður sameinuð Hrútaþukli og verður því haldin á Sauðfjársetrinu Sævangi sem er rétt hjá.

Á Norðurlandi vestra verður gestgjafinn Brúnastaðir í Fljótum í Skagafirði og á Norðurlandi eystra Svartárkot í Bárðardal. Á Austurlandi verður gestgjafinn Sauðagull á Egilsstaðabúinu í Fljótsdal, í samstarfi við Óbyggðasetrið sem er staðsett á býlinu.

Bestu árin

Menntaskólinn á Ísafirði.

Á vordögum hélt Sveitarstjórnarráð VG ráðstefnu um menntamál, sem bar heitið Máttur menntunar. Þar kenndi ýmissa grasa og eitt dagskrárefna var samtal um framhaldsskólann. Þrír nemendur úr Menntaskólanum við Hamrahlíð, þau Valgerður Birna Magnúsdóttir, Sveinbjörn Orri Thoroddsen og Sunna Bohn, fluttu afar áhugavert og upplýsandi örerindi um líf og upplifun framhaldsskólanema enda mikilvægt að heyra raddir nemendanna sjálfra í umræðum um menntamál. Í kjölfarið voru í pallborði Ársæll Guðmundsson, skólameistari Borgarholtsskóla, Embla María Möller Atladóttir, forseti Sambands íslenskra framhaldsskólanema, Halldóra Björt Ewen, íslenskukennari við Menntaskólann í Hamrahlíð og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands. Margt var rætt um stöðu og hlutverk framhaldsskólans, til dæmis fengu þær breytingar sem gengu í garð við styttingu náms til stúdentsprófs mikla umræðu. Sérstaklega var rætt um að lífi framhaldsskólanema utan skóla hefði verið lítill gaumur gefinn við styttinguna sem og mismunandi þörfum þeirra í námi. Tilfinning nemenda er að félagslíf og störf ungmenna í þágu samfélagsins hafi ekki verið tekin með í reikninginn. Líf ungs fólks er ekki aðeins skóli og skólabækur og árin í framhaldsskóla eru gjarnan kölluð bestu ár lífsins, þegar framtíðin er óráðin, áhyggjur og basl fullorðinsáranna undirbúið og lífið er hæfileg blanda af skóla, félagslífi og þroskandi lífsreynslu. Nemendum er tíðrætt um að þau skorti tíma fyrir félagslíf sem endurspeglast í dvínandi þátttöku í félagsstarfi framhaldsskólanna. Styttri tími til að útskrifast með jafnöldrum sínum eykur mjög álagið þar sem þau telja að náminu hafi í raun verið þjappað saman á kostnað félagslífs og tómstunda.

Í menntastefnu Vinstri grænna segir að tryggja þurfi jöfn tækifæri til fjölbreyttrar menntunar óháð búsetu og þar þurfi sérstaklega að huga að aðgengi að iðn- og listnámi. Auka þurfi sveigjanleika í námi á framhaldsskólastigi og tryggja að nemendur hafi svigrúm til að sinna félagslífi, íþróttum og tómstundum samhliða námi.Brotthvarf úr námi er birtingarmynd ójafnra tækifæra í íslensku samfélagi. Nauðsynlegt er að sporna gegn því með aðgerðum innan menntakerfisins og ekki síður utan þess. Í menntastefnu VG segir enn fremur að tryggja skuli fjölbreyttan stuðning í öllum framhaldsskólum með góðu aðgengi að sérfræðiaðstoð til að sporna gegn brotthvarfi úr námi og stuðla að bættri líðan nemenda. Huga þarf sérstaklega að innflytjendum í þessu samhengi.

Í lögum um framhaldsskóla (92/2008) stendur að „hlutverk hans sé að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða hverjum nemenda nám við hæfi“. Við sem samfélag verðum að tryggja fjölbreytt val ungmenna til náms, að tekið sé tillit til jafnréttis og jöfnuðar er varðar aðgengi að námi og inngildingu nemenda. Að öll sem vilja stunda nám geti það óháð atgervi, fötlun, örorku, félagslegri stöðu, búsetu, móðurmáli eða námsgetu og að skólar geti mætt þessum þörfum fjölbreytts nemendahóps með viðeigandi stuðningi. Það eru mikilvæg mótunarár þegar ungmenni þroskast úr börnum í fullorðna.

Gott er að minna á að ráðherra málaflokksins hefur sett fram heildstæða stefnu og markmið í þágu farsældar barna, sem og frumvarp til laga um nýja Mennta- og skólaþjónustustofnun. Segir í lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna að leggja eigi ríka áhersla á heildstæða stefnumótun þegar kemur að málefnum barna, einkum er lýtur að þjónustu. Litið sé til þess að tryggja aukna samfellu þvert á þjónustukerfi og málefnasvið með heildarsýn og sameiginleg markmið að leiðarljósi og að tryggja aukna aðkomu barna og nemenda að stefnumótun í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins og tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna til íslenskra stjórnvalda þar að lútandi (ráðherra málaflokksins, 24. apríl 2023). Í frumvarpi til laga um nýja Mennta- og skólaþjónustustofnun segir að tryggja skuli og efla gæði náms, efla stuðning við nemendur og skólaþróun í framhaldsskólum. Getur verið að skort hafi á samráð við nemendur eins og þeirra tilfinning er og að þarfir þeirra hafi ekki verið í öndvegi þegar námi var breytt?

Tíðrætt er um fjármögnun eða vanfjármögnun skólakerfisins og má leiða hugann að því að stytting hafi verið dulbúin hagræðing. Fræðafólk hefur bent á rangfærslur við útfærslu og útreikninga á fjármagni, fjölbreyttan nemendafjölda framhaldsskólanna með tilheyrandi þörfum og viðleitni ráðuneytis menntamála til að spara aurinn og kasta krónunni með óraunhæfum aðhaldsaðgerðum ár hvert. Staðreyndin er sú að nemendahópurinn mun stækka, hann mun verða fjölbreyttari og þarfnast flóknari þjónustu sem ekki verður mætt nema með áherslu á aukna þjónustu og skólaþróun byggða á grunni hvers skóla. Þar kemur fjölbreytt val nemenda út frá þörfum og atgervi til með að skipta máli sem og aðkoma sérfræðinga og starfsfólks skólanna en ekki síst nemenda sjálfra sem gjarnan vita vel hvers þeir þarfnast og hvað þeir vilja. Það verður að fjármagna íslenska menntastefnu og gera ráð fyrir þeim fjölmörgu iðnnemum sem ekki komast að í námi með markvissri áætlun um eflingu verknáms um allt land. 

Rannsóknir síðustu ára á líðan barna og ungmenna, til að mynda hjá Rannsóknum & greiningu og Eurostudent, sýna fram á aukna vanlíðan meðal nemenda framhaldsskólanna, sérstaklega stúlkna. Þá flosna drengir frekar upp úr námi í framhaldsskólum um leið og brotthvarf nemenda er með því hæsta hér á landi ef borið er saman við hin Norðurlöndin. Aftur er leiðin til árangurs ekki að draga úr stoðþjónustu og vali nemenda til náms og námslengdar heldur mikilvægt að styrkja starfsemi skólanna eins og hægt er. 

Við líkt og nemendur köllum eftir faglegum vinnubrögðum frá ráðuneyti menntamála við eflingu framhaldsnáms fyrir öll ungmenni og að ávallt sé í fyrirrúmi það sem börnum og ungmennum er fyrir bestu. Lykilatriði er að ráðuneyti menntamála komi fram af virðingu við þær stofnanir, starfsfólk og nemendur, sem hlúa að og mennta ungmennin okkar. Þeirra er framtíðin og menntun þeirra má sannarlega kosta. 

Hægt er að horfa á upptöku frá ráðstefnunni á vg.is https://vg.is/vidburdir/sveitarstjornarradstefna-vg-um-menntamal/ 

Álfhildur Leifsdóttir, kerfisfræðingur og grunnskólakennari, formaður Sveitarstjórnarráðs VG og stjórnarkona í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, menntunarfræðingur, oddviti VG í Suðurkjördæmi og stjórnarkona í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði

Sigríður Gísladóttir, dýralæknir og framhaldsskólakennari, stjórnarkona í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði

Muggi byggir

Húseiningarnar komnar vestur. Myndir: Guðbjartur Ásgeirsson.

Það gengur vel að byggja á Hlíðarvegi 50 á Ísafirði. Þar er Guðmundur M. Kristjánsson fyrrv. hafnarstjóri að reisa myndarlegt einbýlishús. Húseiningarnar komu vestur í gær með flutningabíl og var strax hafist handa við uppsetningu þeirra. Lettneskir smiðir koma að utan með húseiningunum og munu setja þær upp næstu daga. Muggi sagði í samtali við Bæjarins besta að Lettarnir ætluðu sér þrjá dag til þess að setja einingarnar saman á grunninum.

Tálknafjörður: verið að ganga frá ráðningu skólastjóra

Frá Tálknafirði. Félagsheimilið Dunhagi og grunnskólinn í baksýn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Gerður Björk Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir að sveitarfélagið hafi verið að auglýsa eftir skólastjóra í Tálknafirði og verið sé að ganga frá ráðningu þessa dagana. „Það er ekki búið að klára að skrifa undir ráðningasamning og því ekki tímabært að skýra frá því.“

Gerður segir að ráðningin verði lögð fyrir fjölskylduráð þegar þar að kemur.

Nýjustu fréttir