Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 15

Gervigreind í ferðaþjónustu styður ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum með nýjungum

Þingeyri, Ísland – Blábankinn hélt nýlega árlega Startup Westfjords viðburð sinn frá 10. til 13. október 2024, þar sem þemað í ár var „Áhugaverð tæki: Gervigreind í ferðaþjónustu.“ Þessi fjögurra daga vinnustofa safnaði saman ferðaþjónustuaðilum á svæðinu, samfélagsleiðtogum og sérfræðingum úr greininni til að kanna hvernig gervigreind getur umbreytt ferðaþjónustufyrirtækjum og stuðlað að sjálfbærum aðferðum á Vestfjörðum.

Með þessu frumkvæði heldur Blábankinn áfram að efla nýsköpun og sjálfbæran vöxt á Vestfjörðum með því að skapa vettvang til að kynna nýjustu tækninýjungar og hagnýtar lausnir sem styrkja heimamarkaðinn. Þemað í ár var sérsniðið að því að veita þátttakendum hagnýta reynslu af stafrænum tækjum sem geta bætt rekstur, þjónustu við viðskiptavini og markaðsaðferðir.

Hápunktar viðburðarins

1.     Nýsköpun með gervigreind í dreifðri ferðaþjónustu

Vinnustofan hófst með því að Magdalena Falter, sérfræðingur í sjálfbærri ferðaþjónustu, flutti erindi um krafta stafrænnar nýsköpunar í dreifðum byggðum. Hún fjallaði um algengar áhyggjur af gervigreind og tæknivæðingu, þar á meðal ótta við sjálfvirkni, og sýndi fram á hvernig gervigreind getur virkað í bakgrunni til að efla persónuleg tengsl og straumlínulaga rekstur hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.

2.     Handavinna með gervigreindar tólum

Þátttakendur fengu kynningu á gervigreindartólum eins og ChatGPT og lærðu hvernig þessi tækni getur nýst til að sjálfvirknivæða fyrirspurnir, búa til persónulegar markaðsherferðir og greina viðbrögð viðskiptavina. Brynjólfur Ægir Sævarsson, sérfræðingur í gervigreind og stafrænum umbreytingum, leiddi þátttakendur í gegnum hagnýtar lausnir fyrir gagnagreiningu, samskipti við viðskiptavini og aukna rekstrarhagkvæmni.

3.     Sjálfbær ferðaþjónusta með gervigreind

Á þriðja degi hélt Magdalena Falter fyrirlestur um sjálfbæra ferðaþjónustu og stafrænar lausnir, þar sem hún ræddi hvernig gervigreind getur stýrt ferðamannastraumi til að koma í veg fyrir ofgnótt og stuðlað að náttúruvernd á Vestfjörðum. Hún hvatti ferðaþjónustuaðila til að tileinka sér gervigreindarlausnir sem styðja við ábyrga ferðaþjónustu og varðveita einstaka upplifun gesta.

4.     Netsamskipti og samvinna

Startup Westfjords bauð þátttakendum fjölmörg tækifæri til að tengjast og vinna saman með öðrum aðilum í ferðaþjónustunni. Þátttakendur ræddu aðferðir til að nýta gervigreind til að efla rekstur sinn og könnuðu möguleika á samstarfi sem gæti stuðlað að langtíma vexti á svæðinu.

Horft fram á veginn

Þátttakendur yfirgáfu vinnustofuna með dýpri skilning á því hvernig gervigreind getur stutt við vöxt fyrirtækja þeirra á sjálfbæran hátt, með áherslu á samfélagsleg gildi. Helstu lærdómar voru meðal annars þróun persónulegra markaðsáætlana, bætt þjónusta við viðskiptavini með gervigreind og uppsetning á kerfum til að bæta stöðugt þjónustu.

Startup Westfjords heldur áfram að vera mikilvægt framtak hjá Blábankanum, sem veitir heimamarkaðnum aðgang að nýjustu tækni og aðferðum til að dafna í sífellt stafrænum heimi.

Viðburðurinn var styrktur af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og var haldinn í samstarfi við Vestfjarðarstofu.

Um Blábankann

Blábankinn á Þingeyri er nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð sem styður frumkvöðla og eflir sjálfbæra þróun á Vestfjörðum. Með verkefnum eins og Startup Westfjords miðar Blábankinn að því að styðja við heimamarkaðinn og stuðla að vexti á svæðinu.

Lög frá Ísafirði: ný bók með 37 lögum

„Lög frá Ísafirði“ er bók sem kemur út á næstu dögum. Í bókinni eru laglínur, textar og hljómar að 37 lögum frá Ísafirði, eftir Ísfirðinga eða tengd Ísafirði eða nærsveitum nánum böndum. Öllum lögum fylgir stuttur inngangur auk þess sem bókina prýða ljósmyndir Hauks Sigurðssonar úr þessum mikla tónlistarbæ. Ritstjóri og útgefandi er Gylfi Ólafsson, sem einnig tölvusetti stærstan hluta nótnanna.

Lögin eru misgömul og misþekkt, eftir höfunda á öllum aldri frá ýmsum tímum, þau nýjustu frá því í ár. Fæst laganna hafa birst á prenti áður og sum ekki einu sinni verið hljóðrituð. Fjögur laganna heita til dæmis „Ísafjörður“.  

Á útgáfuhófinu 27. október kl. 16:00 í Edinborgarhúsinu geta áhugasamir keypt eintak, bæði fyrir sig og í jólapakkann. Nokkrir höfundar munu einnig stíga á stokk og flytja lög sín, og mun það koma í ljós betur þegar nær dregur.

Viðburðurinn er hluti af Veturnóttum. Útgáfan var styrkt af nótnasjóði STEFs og samfélagssjóði Orkubús Vestfjarða.

Efnisyfirlit

1.12.87 (Rúnar Þór)
Aftur heim (Skúli mennski)
Á Seljalandsdal (Haraldur Ólafsson)
Ég er feimið fjall (Villi Valli, Egill Ólafsson)
Fljótavík (BG, Ásthildur C. Þórðardóttir)
Gamlar glæður (Salóme Katrín)
Gott að sjá þig (Halldór Smárason, Stígur Berg Sophusson)
Gúanóstelpan (Mugison, Rúna Esradóttir, Ragnar Kjartansson)
Gömul stef (Sammi rakari, Þorsteinn Eggertsson)
Hafið eða fjöllin (Óli popp)
Heima (Sammi rakari)
Hringrás lífsins (Rúnar Þór, Ómar Ragnarsson)
Húsið og ég (Grafík)
Ibizafjörður (Hermigervill)
Í faðmi fjallanna (Helgi Björns)
Í vöggu lista (Halldór Smárason, Steinþór Bjarni Kristjánsson)
Ísafjörður (Ég man þig fjörðinn fríða) (Sammi rakari, Ólína Þorsteinsdóttir)
Ísafjörður (Í faðmi fjalla blárra) (Jónas Tómasson eldri, Guðmundur skólaskáld)
Ísafjörður (BG, Guðmundur skólaskáld)
Ísafjörður (Mitt í fjallanna fangi) (Bragi Valdimar Skúlason)
Jólakvöld (Svanhildur Garðarsdóttir)
Kvöld (Villi Valli, Pétur Bjarnason)
Lóan (Jón Hallfreð Engilbertsson)
Minnisvísa um fjarðanöfn í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum (Ingvar og Gylfi)
Páskalagið (Ingvar og Gylfi)
Sólarpönnukökur (Gylfi Ólafsson)
Stingum af (Mugison)
Strollan (Höfundar óþekktir)
Sætt og sykurlaust, smáverk fyrir píanó (Hjálmar H. Ragnarsson)
Tíska í fatnaði (Guðrún María Johansson, Birkir Friðbertsson)
Um vor (Svanhildur Garðarsdóttir)
Vestfirsku Alparnir (BG, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir)
Vestfjarðaóður (Herbert Guðmundsson)
Vorkoman (BG, Jón Hallfreð Engilbertsson)
Vögguvísur (Sædís Ylfa Þorvarðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir)
Þegar fuglarnir eru sofnaðir (Villi Valli, Sara Vilbergsdóttir)
Þú gerir ekki rassgat einn (Bragi Valdimar Skúlason)

Ísafjörður: slökkviliðið með nýjan körfubíl

Slökkvilið Ísafjarðarbæjar var að fá til afnota körfubíl/stigabíl.  Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins lánar slökkviliðinu bíl í nokkra mánuði.

Bíll þessi er árgerð 1999 og fer í 32m hæð yfir jörð en sá gamli komst í 21m hæð.

Sigurður A. Jónsson, slökkviliðsstjóri segir að bíllinn sé í prófunum þessa viku og allt líti vel út.

Körfubíll slökkviliðs Ísafjarðarbæjar verður auglýstur til sölu innan skamms og verður óskað eftir verðtilboðum.

Fjórðungsþing: tvær tillögur um Álftafjarðargöng

Tvær tillögur um Álftafjarðargöng liggja fyrir komandi Fjórðungsþing Vestfirðinga sem verður haldið um næstu helgi.

Sveitarstjórn Súðavíkurhrepps leggur fram aðra tillöguna og þar segir að brýnt sé hraða framkvæmdum vegna Álftafjarðarganga milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar með vísan til umferðaröryggis og lagt er til að hafist verði handa við undirbúning strax vorið 2025. 

Hina tillöguna flytur Strandabyggð. Þar er kveðið ákveðið að orði og lagt til að Fjórðungsþingið álykti að Álftafjarðargöng skuli vera næsta framkvæmd í gangamálum á Vestfjörðum. „Það liggur fyrir að Álftafjarðargöng eru fyrsti kostur í jarðgangagerð á Vestfjörðum samkvæmt drögum að samgönguáætlun og því mikilvægt að halda því til streitu gagnvart stjórnvöldum að farið verði í þetta mikilvæga verkefni, óháð öðrum samgönguverkefnum á Vestfjörðum.“

Í greinargerð sem fylgir með tillögu Strandabyggðar segir eftirfarandi:

„Göng úr Skutulsfirði í Álftafjörð, leysa af hólmi stórhættulegan veg um Súðavíkurhlíð, sem verið hefur farartálmi undanfarin ár og áratugi. Göngin hafa verið á áætlun í áratugi og ítrekað verði rædd í tengslum við þá augljósu slysahættu sem skapast þarna reglulega. Vegurinn um Súðavíkurhlíð er mikilvæg lífæð atvinnulífsins á norðanverðum Vestfjörðum og hefur mikilvægi vegarins stóraukist á undanförnum árum í kjölfar uppbyggingar fiskeldis á svæðinu.
Greiðar samgöngur á norðanverðum Vestfjörðum hafa einnig veruleg áhrif á atvinnulíf og mannlíf á Ströndum, þar sem vegur um Steingrímsfjarðarheiði og jafnvel Þröskulda lokast gjarnan, ef Súðavíkurhlíð er lokuð.
Fjórðungsþing þarf að skera í geng með forgangsröðun ganga á Vestfjörðum, til að koma í veg fyrir enn frekari tafir á framkvæmdum í fjórðungnum. Það gengur ekki lengur að Fjórðungsþing álykti ekki með skýrum hætti um þessa forgangsröðun.“

Atvinnurógur Kristófers um skemmtiferðaskipageirann

Í ár hefur íslensk ferðaþjónusta glímt við áskoranir vegna eldsumbrota, harðnandi samkeppni og verðlags en við þær aðstæður hefur geirinn venjulega þétt raðirnar og staðið vörð um orðspor Íslands sem áhugaverðs áfangastaðar. Við þessar óákjósanlegu aðstæður hafa komur skemmtiferðaskipa haft mjög jákvæð áhrif á ferðaþjónustuna enda eru farþegar skipanna léttari á innviði en aðrir ferðamenn og skila að auki miklum tekjum, meðal annars á landsbyggðinni og oft á stöðum sem njóta ekki hins hefðbundna ferðamannastraums – ekki síst frá minni skemmtiferðaskipum í hringsiglingum, en þau njóta tollfrelsis reglna sem gilda út þetta ár. Tollfrelsi þetta fer hins vegar allverulega fyrir brjóstið á formanni Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG), Kristófer Oliverssyni, sem í viðtali við RÚV í vikunni lét frá sér fjölda rangra staðhæfinga.

Sumarið hefur þrátt fyrir áskoranir ferðaþjónustunnar verið einstaklega vel heppnað hvað skemmtiferðaskip varðar, enda er íslensk ferðaþjónusta fljót að tileinka sér þekkingu sem nýtist við að þjónusta skipin. Á meðal fyrirtækja í þjónustu við skemmtiferðaskip eru einnig aðilar í samtökum Kristófers, FHG.

Í umfjöllun RÚV þar sem einnig var rætt við formann Cruise Iceland, Sigurð Jökul Ólafsson, gekk Kristófer svo langt að ýja að því að aðstæður starfsfólks um borð í skipunum væru hugsanlega athugaverðar, að skipin greiddu ekki skatta né hefðu skyldur á Íslandi og að þau 15% ferðamanna sem kæmu með skipunum væru meira fyrir en 85% sem koma með öðrum hætti til landsins. Þessar aðdróttanir eru atvinnurógur og ekki sæmandi formanni FHG, né eru þær lýsandi fyrir viðhorf félaga FHG hverra hagsmuna hann á að gæta.

Hóteleigandi í Reykjavík leggur til landsbyggðarskatt á ferðaþjónustu
Afnám tollfrelsis er fyrirhugað um áramótin eftir breytingar á lögum í fjármálaráðuneytinu árið 2022. Þó hefur ekki enn verið lagt mat á afleiðingar afnámsins eins og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis mælti fyrir um í fyrra. Þá á að afnema tollfrelsið án þess að sú aðgerð njóti nokkurs stuðnings, nema frá Kristófer sjálfum. Það er mjög miður formaður FHG hafi verið manna duglegastur að berjast fyrir gjaldtöku á aðra geira ferðaþjónustunnar.

Bæði hótel og flugfélög njóta mikilla tekna af skiptifarþegum skemmtiferðaskipanna en þessir tveir geirar ferðaþjónustunnar eru einmitt þeir sem eru mest háðir samvirkni við aðra geira ferðaþjónustunnar. Ástæðan er sú að ferðamenn koma ekki beinlínis til Íslands til þess að gista á hóteli eða til að sitja í flugvél. Þvert á móti þá er andlag ferðarinnar landið sjálft, náttúra þess og menning. Þessi tveir geirar þurfa því að eiga í sérstaklega góðu samstarfi við aðra geira ferðaþjónustunnar. Vegna þess hefur Cruise Iceland boðið Kristófer á viðburði á sínum vegum og deilt með honum upplýsingum. Það er því mjög miður að hann skuli þrátt fyrir það halda á lofti ítrekuðum rangfærslum um skemmtiferðaskipin sem félagar innan Cruise Iceland eiga í viðskiptum við. Skemmtiferðaskip greiða til dæmis gistináttaskatt, eins og hótelin hans Kristófers, þótt þau taki ekki lóðapláss í landi né valdi álagi á innviði eins og lagnakerfi, sorphirðu sveitarfélaga eða slíkt. Skipin greiða stórar upphæðir í hafnargjöld, kaupa sorphirðuþjónustu, endurvinnsluþjónustu og fleira slíkt þótt þau flytji mest með sér aftur til upphafsstaðar ferðarinnar til endurvinnslu. Skipin kaupa íslenskan fisk, lambakjöt og bjór svo eitthvað sé nefnt og ferðamennirnir af þeim eru dýrmætir og kaupa allt frá leigubílaþjónustu til þyrluflugs í landi, auk auðvitað gistingar og flugs þegar um skiptifarþega er að ræða.

Afnám tollfrelsisins sem Kristófer vill ná fram myndi breyta verði ferðar með skemmtiferðaskipi í hringsiglingu svo umtalsvert að skipafélögin geta ekki borið breytinguna ein og því er afbókun eini kosturinn í flestum tilfellum. Það eitt og sér er í raun nóg en það er samt sem áður öllu verra að skrifræðið verður svo mikið að ferðirnar verða ómögulegar í núverandi formi. Í öllum vestrænum löndum eru svo viðamiklar gjaldabreytingar hins opinbera ákvarðaðar og hannaðar með nokkurra ára fyrirvara. Á Íslandi hins vegar, þremur mánuðum fyrir afnám tollfrelsis, veit enn enginn hvernig hið opinbera hyggst framkvæma afnámið. Þetta er ekki gott til afspurnar fyrir íslenska stjórnsýslu og í raun er það sérstakt vandamál fyrir íslensk stjórnvöld sem segjast styðja við íslenskt atvinnulíf ef einn maður hefur slík ítök innan stjórnsýslunnar að geta knúið fram mál eins og afnám tollfrelsisins, eins og virðist vera raunin. Cruise Iceland og fleiri hafa þrýst á um að afnáminu verði frestað um tvö ár á meðan lagt verði mat á efnahagslegar afleiðingar aðgerðarinnar.

Og hvað gerist ef afnám tollfrelsisins verður að veruleika? Afleiðingin verður sú að ferðaþjónusta á landsbyggðinni auk sumra í samtökum Kristófers munu verða af miklum viðskiptum vegna atvinnurógs hans í garð skemmtiferðaskipa. Sum skipafélögin hafa þegar afbókað ferðir sínar til Íslands vegna þessa.

Hvernig verður ferð með skemmtiferðaskipi til?
Ferð á skemmtiferðaskipi sem farin verður næsta vor um Ísland var að öllum líkindum skipulögð árið 2022 og seld 2023. Það þýðir að skipafélagið var búið að athuga forsendur hjá höfnum, þjónustuveitendum, birgjum, hótelum, flugfélögum og hjá seljendum afþreyingar. Að afnema tollfrelsi með fyrirvara um framkvæmd upp á örfáar vikur mun þýða meiriháttar skriffinsku og forsendubrest sem snertir alla þessa aðila. Það mun þó hafa mest áhrif á margar brothættar byggðir á landsbyggðinni og skipafélögin sjálf. Munum að skipafélögin reka tugi skipa hvert, sem heimasækja áfangastaði um allan heim – áfangastaði sem geta verið í samkeppni við Ísland.

Þar sem ferðir með skemmtiferðaskipum eru seldar allt að þrjú ár fram í tímann verða skipafélögin því að taka á sig allan kostnað af aukinni gjaldttöku, enda meinar evrópsk neytendalöggjöf innheimtu hjá viðskiptavin vegna aukinnar gjaldtöku eftir á.

Þetta eru viðskiptahættirnir sem Kristófer vill að íslensk stjórnvöld bjóði upp á. Nógu slæmt var að skipafélögin þyrftu sjálf að greiða gistnáttaskattinn eftir að hafa selt t.d. ferðir fyrir núverandi ár fyrir 2-3 árum síðan. Þetta er ekki gott til afspurnar fyrir erlend fyrirtæki sem stunda viðskipti við Ísland.

Tollfrelsi skilar félögum FHG á öðrum milljarði króna
Kristófer hefur statt og stöðugt haldið fram að skemmtiferðaskip séu í samkeppni við hótel og gististaði þegar staðreyndin er sú að skemmtiferðaskipin eru mikilvægir viðskiptavinir hótela. Þau skip sem stunda hringsiglingar í skjóli tollfrelsis kaupa hótelgistingu á höfuðborgarsvæðinu fyrir á annan milljarð króna á ári fyrir farþega sem koma eða fara með flugi. Erlendis eru meira að segja hótelkeðjur í alþjóðasamtökum skemmtiferðaskipa (CLIA). Og það er líka nöturlegt að þetta séu kveðjurnar til áhafna skemmtiferðaskiptanna sem einnig gista á Center Hotels, sem er í eigu hans Kristófers.

Félagar Cruise Iceland vita eftir samtöl að margir félagar í FHG eru mjög óánægðir með atvinnuróg Kristófers, enda munar um á annan milljarð í hótelbókanir frá skipum í hringsiglingum. Þetta eru sömu skip og munu taka Ísland af dagskrá með afnámi tollfrelsisins vegna þess að afnámið, hvernig sem það er innleitt ef af því verður, mun alltaf þýða svo mikið skrifræði fyrir skipafélögin að það verður óframkvæmanlegt.

Kristófer ætti að ræða við félaga sína í FHG í stað þess að starfa sem einvaldur. Til dæmis mætti hann ræða við þann félaga FHG sem hefur um 350 milljónir í beinar tekjur vegna hótelbókana frá einum meðlim Cruise Iceland. Þá eru tekjurnar frá hinum félögum Cruise Iceland ótaldar (sem eru á annan milljarð í hótelbókunum eins og áður segir, bara fyrir skip í hringsiglingum). Þessar tekjur segir Kristófer að séu ekki til enda vill hann enn meina að skipin séu í samkeppni við hótelin.

Þau orð sem Kristófer lét að auki falla í viðtali við RÚV um að starfsfólk skipanna væru utan við skatta og skyldur á Íslandi eru í besta falli vandræðaleg. Kristófer veit sem er að hliðstætt starfsfólk erlendra flugfélaga sem hingað fljúga greiða ekki heldur skatta og skyldur á Íslandi, eðlilega. Auðvitað starfar fólkið um borð í skipunum innan ramma International Maritime Organization (IMO) og lítur starfsemin því alþjóðlegu regluverki. Hann veit líka að þetta eru eftirsóknarverð störf eftir að hafa heimsótt skip í hringsiglingum í boði Cruise Iceland í sumar.

Hann er að rústa heilli atvinnugrein
Staðreyndin er sú að farþegar af skemmtiferðaskipum eru mjög mikilvægir fyrir íslenska ferðaþjónustu, og ómetanlegir á landsbyggðinni. Þar sem snertingar um landið við farþega eru um 1310 þúsund (e. throughputs) þá þýðir það að hver farþegi kemur við í nokkrum höfnum (farþegarnir sjálfir eru í kringum 310 þúsund). Skip í hringsiglingum, þau sem verða fyrir afnámi tollfrelsis, stoppa víða um landið í 31 höfn. Þau munu hverfa frá með ómældum skaða fyrir brothættar byggðir. Einn ferðaþjónustuaðilinn á landsbyggðinni á fjarfundi Cruise Iceland í vikunni sagði einfaldlega ”hann er að rústa heilli atvinnugrein” og átti þar við baráttu Kristófers gegn skemmtiferðaskipunum. Sem hagsmunagæslumaður spyr maður sig hverra erinda Kristófer gengur fyrst félög hans í FHG hafa einna mestu hagsmunina af 156.454 farþegum í farþegaskiptum skemmtiferðaskipanna í ár, ferðamönnunum sem þurfa gistingu og flug til að komast til skipanna og frá þeim, einmitt á suðvesturhorninu þar sem Kristófer og félagar reka sín hótel.

Ingvar Örn Ingvarsson,
Talsmaður Cruise Iceland

Alþingiskosningar: uppstilling á lista

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri.

Ljóst er nú að alþingiskoningar verða 30. nóvember n.k. og skila þarf inn framboðlistum eigi síðar en 31. október. Stjórnmálaflokkarnir hafa því lítinn tíma til stefnu og snúið að koma við prófkjörum. Sjálfstæðisflokkurinn mun halda kjördæmisþing í Norðvesturkjördæmi um næstu helgi og þar er áformað að ganga frá skipan efstu sæta. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, utanríkisráðherra og oddviti listans íhugar að færa sig úr kjördæminu og bjóða sig fram í Suðvesturkjördæmi. Teitur Björn Einarsson alþm. hyggst bjóða sig fram að nýju, en hefur ekki brugðist við áformum oddvita listans.

Framsóknarmenn halda kjördæmisþing um næstu helgi að Laugum í Sælingsdal. Það hafði verið sett á áður en slitnaði upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu og ekki gert ráð fyrir því að þar yrði stillt upp á framboðslista. Halla Signý Kristjánsdóttir alþm. sagði að halda þurfti tvöfalt kjördæmisþing til þess og bjóst hún við því að það yrði haldið viku seinna eða um helgina 26.-27. október.

Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi er þegar byrjuð að undirbúa kosningarnar. Steindór Haraldsson, formaður kjördæmisráðs segir að á morgun, fimmtudag verði gengið frá ákvörðun um uppstillingu og skipan uppstillingarnefndar. Hann átti frekar von á því að unnið yrði hratt og að mynd yrði komin á skipan framboðslistans í næstu viku. Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ er ritari Samfylkingarinnar og hefur verið orðuð við framboð og þá til þess að leiða listann, en hún hefur ekkert látið hafa eftir sér um það.

Betuhús í Æðey

Betuhús er einlyft, portbyggt timburhús með risþaki, 7,60 m að lengd og 3,99 m á breidd.

Skúr er við suðurhlið hússins, 7,60 m að lengd og 3,96 m á breidd, og inngönguskúr við vesturgafl, 4,88 m að lengd og 1,40 m á breidd, báðir með skúrþaki.

Húsið stendur á steinhlöðnum sökkli, veggir eru klæddir slagþili, þök bárujárni og reykháfur er á þakinu sunnanverðu. Á suðurstafni hússins eru tveir sex rúðu póstagluggar, tveir á norðurhlið auk þriggja rúðu glugga og á gaflhlaði vestan megin eru tveir tveggja rúðu gluggar og hurð fyrir miðju. Á suðurhlið skúrs eru tveir níu rúðu póstagluggar og einn sex rúðu á suðurgafli.

Útidyr eru á vesturhlið inngönguskúrs og fjögurra rúðu póstagluggi.Inn af inngönguskúr er forstofa og í henni stigi upp á loft og dyr að búri og kamesi en inn af því er stofa í austurhluta hússins. Í skúrnum er herbergi í hvorum helmingi og dyr að búri úr því fremra en að stofu úr því innra. Í risi er herbergi í hvorum helmingi.

Veggir í eldri hluta hússins eru flestir klæddir standþili eða standþiljum en strikuðum panelborðum inn á milli. Skúr er klæddur strikuðum panelborðum. Í forstofu, búri og kamesi er loft á bitum, málningarpappír á milli bita í stofu og yfirfelld skarsúð á sperrum í risi. Skúrloft er klætt strikuðum panelborðum en inngönguskúr er ófrágenginn að innan. Forstofa, búr, kames og ris eru ómáluð.

Friðlýst hús

Byggingarár: 1774

Byggingarár: Smíðað á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á tímabilinu 1773–1786.

Breytingar: Flutt út í Æðey 1878 og endurreist þar. Síðar reist viðbygging við húsið sunnanvert og skúr við vesturhlið.

Hönnuðir: Ókunnir.

Friðað 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Af vefsíðunni minjastofnun.is

Afli í september var 98 þúsund tonn

Landaður afli í september 2024 var 98 þúsund tonn sem er 18% minna en í september á síðasta ári. Veiði jókst í öllum helstu tegundum botnfiska. Þorskafli var tæplega 21 þúsund tonn og jókst um 19% miðað við september 2023, ýsuafli jókst um 11% og ufsaafli um 9%. Flatfiskafli jókst einnig um 57%.

Samdráttur var aðallega í uppsjávarfiskum þar sem engin loðna var veidd og lítið af kolmunna og makríl. Uppsjávaraflinn var aðallega tæp 58 þúsund tonn af síld sem er 28% minni afli en í september í fyrra.

Afli á 12 mánaða tímabilinu frá október 2023 til september 2024 var rétt rúmlega milljón tonn sem er 27% samdráttur frá sama tímabili ári fyrr. Það skýrist að mestu af því að engin loðna hefur verið veidd síðasta árið. Botnfiskafli jókst um 5% á milli þessara tímabila.

Vinsælustu nöfnin 2023

Birnir var vinsælasta fyrsta eiginnafn meðal nýfæddra drengja á síðasta ári en 30 drengjum var gefið nafnið Birnir, næst vinsælustu nöfnin voru Emil, Elmar og Jón.
Emilía var vinsælasta nafnið meðal nýfæddra stúlkna sem fyrsta eiginnafn, en 23 stúlkum var gefið nafnið Emilía, þar á eftir voru nöfnin Sara, Sóley, Embla og Aþena.

Ef horft er á samanburð á milli ára má sjá að drengjanafnið Birnir tekur fyrsta sætið af Emil.

Elmar tekur stökk úr 27. sæti í þriðja og Jón hækkar úr 13. sæti í það 4.

Hvað stúlkurnar varðar má sjá að Emilía tekur stökk úr 21. sæti í fyrsta. Sara og Sóley hækka líka verulega frá fyrra ári. Hástökkið á topp 10 listanum er nafnið Una, fer úr 58. sæti í það níunda.

Hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu, hélt sína árlegu viðurkenningarhátíð síðastliðinn fimmtudag.

Viðurkenningar voru veittar 93 fyrirtækjum, 15 sveitarfélögum og 22 opinberum stofnunum, úr hópi þeirra 247 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu.

Meðal þeirra sem hlutu viðurkenningu voru sveitarfélagið Vesturbyggð, Verkís og Vegagerðn.

Nýjustu fréttir