Mánudagur 24. febrúar 2025
Síða 15

Fækkum sjálfsvígum

Sjálfsvíg eru alvarlegur lýðheilsuvandi með víðtækar afleiðingar fyrir samfélagið allt. Árangursrík aðgerðaáætlun er því mikilvæg til að stuðla að bættri heilsu landsmanna.

Starfshópur skipaður af fyrrum heilbrigðisráðherra vann tillögur að nýrri aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi, fyrir árin 2025 – 2030.

Tillögurnar í aðgerðaáætluninni 2025 – 2030, styðja við aðrar núgildandi stefnur og áætlanir á sviði geðheilbrigðis, lýðheilsu og áfengis- og vímuvörnum. Stuðst er við gagnreynda þekkingu á sjálfsvígforvörnum, bæði innan– og utanlands. Horft var til leiðbeininga frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, klínískra leiðbeininga og árangursríkra áhersluatriða í sjálfsvígsforvörnum á alþjóðavísu.

Í áætluninni eru 26 aðgerðir sem snúa að öllum stigum sjálfsvígsforvarna; forvörnum, íhlutunum og stuðningi eftir sjálfsvíg. Aðgerðaáætlunin byggir á eftirfarandi sjö efnisflokkum:

1. Samhæfing og skipulag

2. Stuðningur og meðferð

3. Takmörkun á aðgengi að hættulegum efnum, hlutum og aðstæðum

4. Vitundarvakning og fræðsla

5. Forvarnir og heilsueflingarstarf

6. Gæðaeftirlit og sérfræðiþekking

7. Stuðningur við eftirlifendur

Hægt er að kynna sér áætlunina og senda inn umsögn til 4. mars.

Aflamarki í grásleppu hefur verið úthlutað

Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki í grásleppu og því geta skip með almennt veiðileyfi ásamt hlutdeild og aflamarki í grásleppu hafið veiðar.

Hægt er að sjá nánari upplýsingar um úthlutunina á vef Fiskistofu og ýmsar gagnlegar upplýsingar tengdar veiðunum má finna í grein tileinkuðum grásleppuveiðum.

Þar kemur fram að lutdeild og aflamark grásleppu er bundið við það veiðisvæði sem heimahöfn skips tilheyrir samkvæmt skipaskrá Samgöngustofu við úthlutun.

Sé skip fært um heimahöfn sem ekki er innan sama veiðisvæðis og skip var á við úthlutun, fellur aflahlutdeild skipsins í grásleppu niður.

Staðbundin veiðisvæði grásleppu eru:

  1. Suðurland – Faxaflói, frá línu réttvísandi austur frá Hvítingum 64°23,90 N 014°28,00 V að línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurtanga (-flögum) 64°45,00 N 023°55,30 V.
  2. Breiðafjörður – Vestfirðir, svæði frá línu réttvísandi vestur frá Dritvíkurtanga (-flögum) 64°45,00 N 023°55,30 V að línu réttvísandi norður frá Horni 66°27,40 N 022°24,30 V.
  3. Húnaflói, frá línu réttvísandi norður frá Horni 66°27,40 N 022°24,30 V að línu réttvísandi norður frá Skagatá 66°07,20 N 020°05,90 V.
  4. Norðurland, frá línu réttvísandi norður frá Skagatá 66°07,20 N 020°05,90 V að línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi 66°22,70 N 014°31,90 V.
  5. Austurland, frá línu réttvísandi austur frá Fonti á Langanesi 66°22,70 N 014°31,90 V að línu réttvísandi austur frá Hvítingum 64°23,90 N 014°28,00 V.

SFS gagnrýna strandveiðar

Í samantekt Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að ljóst megi vera að upphafleg markmið stjórnvalda með strandveiðum um nýliðun og aukna byggðafestu hafa ekki náðst.

Strandveiðar eru fyrst og síðast búbót fyrir aðila sem fyrir eru í kerfinu eða þá sem hafa selt sig út úr öðrum kerfum fyrir verulegar fjárhæðir.

Þá segir einnig að meðalaldur strandveiðisjómanna sé 59 ár. Þessar staðreyndir renna sannanlega ekki stoðum undir sjónarmið um nýliðun.

Þá hafa verulegar aflaheimildir verið teknar í gegnum tíðina af fyrirtækjum sem skapa örugg og vel launuð heilsársstörf fyrir sjómenn og landverkafólk um allt land.

Þar sem strandveiðar eru umfangsmestar, á Vestfjörðum og Vesturlandi, er um helmingur strandveiðisjómanna búsettur á höfuðborgarsvæðinu.

Störf hafa þannig verið tekin frá landsbyggð og færð til höfuðborgarinnar, þvert á upphafleg markmið. 

Margt annað er tíundað í samantekt SFS

Hver fær Kuðunginn

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið óskar eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnun, sem vegna verka sinna og athafna á síðasta ári eru þess verðug að hljóta umhverfisviðurkenninguna Kuðunginn fyrir árið 2024. Kuðungurinn er veittur fyrir heildarframmistöðu fyrirtækis í umhverfismálum á liðnu ári, ekki fyrir eitt stakt verkefni.

Kuðungurinn verður afhentur í tengslum við Dag umhverfisins og hefur sú breyting verið gerð á að tilnefningaflokkarnir eru nú tveir, fyrir stærri og minni fyrirtæki.

Óskað er eftir því að greinargerð fylgi með tilnefningunni, en við mat á viðurkenningarhöfum er horft til eftirfarandi þátta: Umhverfisstjórnunar, innleiðingar nýjunga í umhverfisvernd, losun gróðurhúsalofttegunda, minni efnanotkunar, lágmörkunar úrgangs, mengunarvarna, umhverfisvænni þróun á vöru eða þjónustu, framlags til umhverfismála, samstarfs í umhverfismálum og vinnuumhverfis.

Fyrirtæki og stofnanir geta bæði tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum.

Tillögur skulu berast umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu eigi síðar en 10. mars nk.

Á síðasta ári hlutu fyrirtækin Sorpa og Bambahús viðurkenningu fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á árinu 2023.

Lýsa áhyggjum af áfengissölu og neyslu á íþróttaviðburðum

Frá leik í knattspyrnu á Torfnesi í sumar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi (FÍÆT) hefur sent frá sé ályktun og lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áfengissölu á íþróttaviðburðum á Íslandi.

FÍÆT bendir á að áfengissala á íþróttaviðburðum stuðli að aukinni hættu á óviðeigandi hegðun áhorfenda, neikvæðum áhrifum á fjölskylduvænt umhverfi og grafi undan þeim gildum sem íþróttir standa fyrir, svo sem jákvæðum félagsþroska og heilbrigðum lífsstíl. Fyrirmyndir barna og ungmenna eru bæði innan vallar en líka í stúkunni og mikilvægt er að fyrirmyndir í stúkunni séu líka til fyrirmyndar.

FÍÆT leggur áherslu á að tryggja heilbrigt umhverfi fyrir öll sem taka þátt í íþróttastarfi á Íslandi. Að þessu sögðu, skorar FÍÆT á stjórnvöld, sveitarfélög, íþróttasérsambönd, íþróttafélög og skipuleggjendur íþróttaviðburða að standa vörð um gildi íþróttahreyfingarinnar og tryggja að ekki verði selt áfengi á íþróttaviðburðum.

Ályktunin var lögð fram og rædd á fundi skóla-, íþrótta- og tómstundanefnda Ísafjarðarbæjar.

Nefndin bókaði að hún taki undir áhyggjur Félags íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi varðandi áfengisneyslu og sölu á íþróttaviðburðum.

Opinn fundur um Reykjavíkurflugvöll

Flugmálafélag Íslands boðar til opins fundar í dag frá kl 17 – 19 um stöðu og framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Fundurinn verður sendur út á netinu. Fundastjóri veður Ísfirðingurinn Jóhannes Bjarni Guðmundsson, flugmaður. Hlekkur á streymið er  https://streymi.syrland.is/

Í kynningu frá Flugmálafélaginu segi að Reykjavíkurflugvöllur gegni lykilhlutverki í íslensku flugsamgöngukerfi, fyrir innanlandsflug, millilandaflug, sjúkraflug, almanna- og kennsluflug. Þróun hans og framtíð hafi verið mikið til umræðu á síðustu misserum og árum en Flugmálafélagið kalli eftir upplýstri og faglegri umræðu um málefni hans.

Á fundinum munu sérfræðingar fjalla um stöðu vallarins, helstu áskoranir í rekstri hans og horfur til framtíðar. Þá munu samgönguráðherra og borgarstjóri Reykjavíkur ávarpa fundinn og taka þátt í pallborðsumræðum þar sem tækifæri gefst til að ræða stöðu mála.

Á fundinum verða eftirtaldir með erindi og taka þátt í pallborði:
Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra
Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur
Sigrún Björk Jakobsdóttir, framkvæmdastjóri Isavia innanlands
Kári Kárason, flugstjóri og yfirflugstjóri Airbus hjá Icelandair
Tómas Dagur Helgason, flugrekstrarstjóri Norlandair
Jón Hörður Jónsson, formaður öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) og flugstjóri hjá Icelandair.

Fundarstjóri verður Matthías Sveinbjörnsson, Forseti Flugmálafélags Íslands og stjórnandi pallborðs verður Ísfirðingurinn Jóhannes Bjarni Guðmundsson, flugstjóri og stjórnandi Flugvarpsins.

🔹 Hvenær? 6.febrúar kl. 17-19
🔹 Hvar? Hótel Reykjavík Natura (Hótel Loftleiðir) – Salur 2
🔹 Bein útsending: Fundurinn verður einnig sendur út í beinni útsendingu á netinu.
🔹 Opinn öllum – velkomin til að taka þátt í mikilvægu samtali um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Tónleikar laugardaginn 8. febrúar í Ísafjarðarkirkju

Í tilefni af degi tónlistarskólanna verður Tónlistarskólinn á Ísafirði með tónleika í Ísafjarðarkirkju laugardaginn 8. febrúar kl.14:00

Efniskráin er fjölbreytt en í lok tónleikana verðu kennt og flutt lag Gylfa Ólafssonar – pönnukökulagið – sem frumflutt var í Grunnskólanum á Ísafiði í janúar sl.

Íbúafjölgun á Vestfjörðum jöfn landsfjölgun

Frá Patreksfirði.

Síðustu tvo mánuði hefu íbúum á Vestfjörðum fjölgað um 0,1% sem er það sama og landsmönnum hefur fjölgað á sama tíma. Fjölgunin á Vestfjörðum varð um 6 íbúa en 490 á landinu öllu.

Íbúum fækkaði á fjórum landssvæðum frá 1.desember 2024 til 1.febrúar 2025. Á Suðurnesjum fækkaði um 0,5% og um 0,2% á Norðurlandi vestra og einnig á Austurlandi. Á Vesturlandi var einnig um fækkun að ræða eða um 7 íbúa en það mælist innan við 0,1% fækkun.

Fjölgun varð á fjórum landssvæðum. Auk Vestfjarða, varð smávægileg fjölgun á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu eða um 0,2% á hvoru svæði og um 0,1% á Norðurlandi eystra.

Á Vestfjörðum fjölgaði mest í Vesturbyggð eða um 10 manns. Í Súðavík fjölgaði um 6 manns og um 4 í Bolungavík og einnig í Kaldananeshreppi.

Fækkun varð í Ísafjarðarbæ og Strandabyggð.

Þingeyri: flotbryggja losnaði

Björgunarsveitin Dýri á Þingeyri var kölluð út í nótt til þess að festa flotbryggju í höfninni sem hafði losnað og rak yfir á flotbryggjuna við hliðina. Ekki varð af alvarlegt tjón að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum.

Ekki voru önnur útköll í nótt á Vestfjörðum. Af öryggisástæðum var veginum milli Súðavíkur og Ísafjarðar lokað í gærkvöldi þegar snjóflóðahætta varð meiri. Tveir vegfarendur, á leið til Bolungarvíkur, urðu innlyksa í Súðavík rétt um miðnættið. Fulltrúar í sameiginlegri almannavarnanefnd Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar, skutu skjólshúsi yfir þá.

Frá aðgerðunum í nótt. Myndi: aðsendar.

Galdrafár á Ströndum í byrjun maí 

Búið er að opna fyrir sölu á miðum á menningar- og listahátíðina Galdrafár á Ströndum sem verður haldin á Hólmavík dagana 1.-4. maí. Meginþemað eru galdrar og fornnorræn menning. Dagskráin samanstendur af tónlistadagskrá, húðflúrráðstefnu, víkingaþorpi, vinnustofum, listviðburðum, fyrirlestrum og markaði. 

Það er fjölþjóðlegur hópur lista- og fræðifólks sem kemur að hátíðinni, en þátttakendur koma frá samtals 15 löndum. Sá sem kemur lengst að er húðflúrlistamaður frá Nýja-Sjálandi. Galdrafár var haldin í fyrsta sinn á Hólmavík í apríl 2024 og tókst frábærlega. Voru gestir þá í kringum 300 manns. 

Skipuleggjendur hátíðarinnar eru Hrafnhildur Inga Guðjónsdóttir húðflúrlistakona með meiru og Anna Björg Þórarinsdóttir framkvæmdastýra Galdrasýningar á Ströndum. Til að fræðast meira um hátíðina og kaupa miða er bent á heimasíðuna: https://www.sorceryfestival.is/

Frá skrúðgöngu og listagjörningi sem var á seinustu hátíð.

Nýjustu fréttir