Síða 15

Sigurrós Elddís ráðin kennslustjóri Lýðskólans á Flateyri

Sigurrós Elddís Huldudóttir hefur verið ráðin sem kennslustjóri við Lýðskólann á Flateyri og mun hún hefja þar störf 16.júní næstkomandi.

Sigurrós lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2017. Hún lauk B.A. gráðu í sálfræði frá háskólanum á Akureyri árið 2021 og M.Sc. gráðu í heilsueflingu og heilsusálfræði við Háskólann í Bergen, Noregi, árið 2023.

Sigurrós starfar eins og er sem barna- og fjölskylduleiðbeinandi á heilsugæslu í sveitarfélaginu Frøya í Noregi. Hún hefur einni margra ára reynslu af félagsstarfi, meðal annars fyrir skiptinemasamtökin AFS.

Í tilkynningu frá Lýðskólanum segir að Sigurrós sé boðin velkomin og við hlökkum til samstarfsins og Erlu Margréti Gunnarsdóttur sem er að láta af störfum er þakkað kærlega fyrir allt sitt framlag til Lýðskólans á Flateyri.

Vesturbyggð: nýr bæjarfulltrúi

Tryggvi Baldur Bjarnason, bæjarfulltrúi N lista nýrrar Sýnar, sem fékk meirihluta í bæjarstjórn Vesturbyggðar í síðustu sveitarstjórnarkosningum, var veitt lausn frá störfum að eigin ósk á bæjarstjórnarfundi í fyrradag. Tryggvi skipaði fjórða sætið á listanum við kosningarnar vorið 2024. Hann er verksmiðjustjóri í Kalkþörungaverksmiðjunni á Bíldudal og hefur búið þar frá 2015.

Sæti Tryggva tekur Þórkatla Soffía Ólafsdóttir. Hún sat áður í bæjarstjórninni á síðasta kjörtímabili.

Hágæðaflug til Ísafjarðar

Ísafjarðarflugvöllur. Mynd: Ljósmyndasafnið Ísafirði.

Frá því að Icelandair tilkynnti í byrjun mars að fyrirtækið hygðist hætta flugi til Ísafjarðar hefur mikil umræða verið um framtíðarfyrirkomulag flugs til Ísafjarðar. Flugið er hraðleiðin á milli norðanverðra Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins þar sem nánast öll miðlæg þjónusta ríkisins er staðsett.

Bættar samgöngur á landi breyta ekki þeirri staðreynd að ekki er fyrirsjáanlegt að það muni taka skemmri tíma en tæpa 5 tíma að aka til Reykjavíkur. Meðal markmiða í gildandi samgönguáætlun segir „íbúar landsbyggðarinnar eigi kost á að komast til höfuðborgarsvæðisins á um 3,5 klst. samþættum ferðatíma, akandi, með ferju og/eða í flugi. Flugið er eina tegund almenningssamgangna til Ísafjarðar sem uppfyllt getur þetta markmið.

Ekki hvort heldur hvernig

Það er ekki spurning um hvort flogið verður áfram til Ísafjarðar heldur hvernig það verður gert bæði hvað varðar tíðni flugs og öryggi þjónustunnar. Núverandi staða og framtíð flugsins er háð mörgum þáttum sem hafa verður í huga þegar framtíðarfyrirkomulag flugsins er ákveðið. Vestfirðir eru í mikilli sókn og efnahagsleg umsvif hafa á síðustu árum aukist hratt. Því mun mikilvægi þess ekki minnka á næstu árum og til að viðhalda þessari sókn er gríðarlega mikilvægt að tryggt sé áætlunarflug með að minnsta kosti þeirri tíðni og öryggi sem hefur verið hluti af hjartslætti svæðisins.

Í fyrra fóru tæplega 28.000 farþegar í áætlunarflugi til og frá Ísafirði. Það sýnir þá miklu þörf sem er fyrir reglulegt flug ekki aðeins fyrir íbúa svæðisins heldur einnig fyrir ferðamenn, fólk í viðskiptaferðum og fjölmarga aðra. Til að viðhalda þessari mikilvægu samgönguæð þarf að tryggja ásættanlega tíðni fluga. Eitt af markmiðunum er að vera að flogið verði tvisvar á dag alla daga vikunnar. Þetta tryggir betri tengingar og aukið aðgengi að miðlægri þjónustu svo sem heilbrigðisþjónustu.

Einnig skiptir stærð flugvéla máli. Ekki þarf bara að tryggja sætaframboð, heldur er einnig mikilvægt að hægt sé að taka hópa. Fundir, ráðstefnur og ferðaþjónusta með hópa byggir á því, en einnig starf íþróttafélaga. Félög og fylgdarfólk þurfa auðvitað að komast á sama tíma til og frá. Þær 9 og 16 sæta vélar sem notaðar eru á nokkrum flugleggjum innanlands eru því öldungis óásættanlegar.

Undirbúningur er hafinn

Á þeim dögum sem liðnir eru frá tilkynningu Icelandair höfum við átt fjölmarga fundi um málefni flugsins til Ísafjarðar og aflað ýmissa gagna. Ljóst er af þeim samtölum að sérstaða flugvallarins hvað varðar aðflugsskilyrði og legu veldur því að ekki eru margar tegundir flugvéla sem geta lent þar. Hér þarf að skoða þær vélar sem flugfélög á Íslandi hafa yfir að ráða og hvernig hægt er að nýta þær á sem bestan hátt til að þjóna farþegum á þessari leið.

Í allmörg ár hefur verið flogið á Dash Q200 flugvélum til Ísafjarðar. Þær eru sterkbyggðar, þurfa stutta flugbraut og eru vel færar um að lenda við þær aðstæður sem Ísafjarðarflugvöllur býður upp á. Til þess að sinna áætlunarfluginu þarf að minnsta kosti tvær flugvélar til að hægt sé að sinna viðhaldi og þeim óvæntu uppákomum sem þar geta orðið. Ísafjörður er nú, eftir breytingar á aðstæðum í Grænlandi, eini áfangastaður Icelandair sem þjónað yrði með Q200 vélunum. Til Akureyrar og Egilsstaða er flogið á Dash Q400 vélum sem eru nokkuð stærri og því hagkvæmari, en geta ekki lent á Ísafirði. Önnur flugfélög á Íslandi eiga ekki vélar sem eru ásættanlegar fyrir flug á Ísafjörð en horfa þarf til þess að Icelandair á tvær slíkar vélar og átta eru í eigu Air Greenland sem líklegt er að verða til sölu fljótlega.

Nokkrar leiðir í boði

Þó það sé ekki gaman að segja það, stefnir í að ríkisvaldið þurfi að stíga inn til að tryggja áfram flug af þeirri tíðni, öryggi og gæðum sem þarf til. Þá þarf fyrirsjáanleiki að vera mikill. Það á auðvitað við fyrir farþega og ferðaþjónustuna, en einkum fyrir flugfélögin. Kaup á flugvélum og öllu því sem til þarf í flugrekstur krefst fyrirsjáanleika í tekjum. Hér má líta til að minnsta kosti tveggja kosta. Sá fyrr er að farið verði í umtalsvert lengri útboð en tíðkast hefur hingað til, til dæmis 10–15 ár. Kostur tvö er að horft sé til fordæmis í ferjusiglingum til dæmis ferjunnar Baldurs þar sem ríkið á farartækið en býður út reksturinn til 3–5 ára í svokallaðri þurrleigu þar sem rekstraraðili annast allan rekstur og viðhald. Í þessu tilviki, þar sem viðhaldsþátturinn er talsvert stór, er sennilega betra að vélarnar verði tvær svo alltaf að minnsta kosti önnur til reiðu.

Hvort heldur sem er, er eðlilegt að fleiri flugleiðir sem svipað er ástatt um verði teknar inn í myndina, og lítum við þar sérstaklega til Hafnar í Hornafirði, Húsavíkur, Bíldudals og Vestmannaeyja, en frekari greiningar þurfa að fara fram á þessu öllu saman. 

Við þökkum samgönguyfirvöldum, þingmönnum og ráðherrum fyrir hve hratt og vel unnið er að lausnum í málinu. Við í héraði munum ekki láta okkar eftir liggja til þess að tryggja að áfram verði  hágæðaflugsamgöngur til Ísafjarðar.

Gylfi Ólafsson formaður stjórnar Vestfjarðastofu

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

Hennar rödd

Hennar rödd eru sögur kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og er bókin tímamótaverk sem heiðrar framlag kvenna af erlendum uppruna til íslensks samfélags.

Bókin inniheldur sögur 33 kvenna sem hafa auðgað íslenskt samfélag á einn eða annan hátt, og endurspegla fjölbreytileika kvenna af erlendum uppruna á Íslandi.

Sögurnar fjalla um áskoranirnar sem þær hafa mætt vegna skorts á inngildingu í íslensku samfélagi, jafnt og frásagnir um fallegar lífsreynslur við að flytja til nýs lands, læra nýtt tungumál og jafnvel ala upp fjölskyldur á Íslandi.

Ritstjórar bókarinnar eru Elinóra Guðmundsdóttir, Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir.

Vinna við gerð bókarinnar hefur staðið yfir í fimm ár, frá því um sumarið 2020. Við upphaf verkefnisins var leitað til almennings um tilnefningar á konum sem hafa auðgað samfélagið með einhverjum hætti og fóru viðbrögðin fram úr björtustu vonum. 

Bókin er því fjölradda frásögn, og eiga viðmælendur rætur sínar að rekja til ótalmargra landa, þar á meðal Afganistan, Filippseyja, Íran, Ghana, Póllands, Bosníu, Taívan, Jamaíku, Suður Afríku, Sýrlands, og Kólumbíu. 

Hreindýraútdráttur 2025

Umsóknarfrestur um veiðileyfi til hreindýraveiða rann út á miðnætti föstudaginn 28. febrúar síðastliðinn. 

Dregið verður úr umsóknum um hreindýraveiðileyfi í streymi föstudaginn 21. mars klukkan 17.00 og verður hlekkur á streymi aðgengilegur á vefsíðu Náttúruverndarstofu þann dag.

Breytilegt er eftir umsóknum hvaða líkur veiðimenn hafa á að fá úthlutað veiðileyfi. Alls bárust 2.433 umsóknir. Kvótinn í ár er samtals 665 dýr, 400 tarfar og 265 kýr. Í ár eru 79 veiðimenn á fimmskiptalista. 

Fyrirkomulag útdráttarins er einfalt. Allir sem sækja um fá úthlutað handahófskenndu númeri í útdrættinum sem getur verið á bilinu 1 til 100.000. Þeir sem fá lægstu númerin ganga fyrir í útdrættinum á hverju veiðisvæði fyrir sig. Ef kvótinn hljóðar upp á 100 dýr á svæðinu eru það einfaldlega þeir sem eru með 100 lægstu númerin sem fá veiðileyfi. Röð á biðlista ræðst af sama fyrirkomulagi. 

Vakin er sérstök athygli á að greiða þarf veiðileyfið að fullu ekki síðar en þriðjudaginn 15. apríl. Tilgangurinn er að hægt sé að byrja fyrr að úthluta veiðileyfum af biðlista.  

Allir sem fá úthlutað hreindýraveiðileyfi þurfa einnig að standast skotpróf fyrir 1. júlí en heimilt er að reyna þrisvar sinnum við skotprófið. Standist menn ekki skotprófið er veiðileyfinu úthlutað til næsta manns á biðlista

Vegir okkar allra – Upplýsingar fyrir almenning

Vegir okkar allra, upplýsingasíða fyrir almenning um innleiðingu stjórnvalda á nýju kerfi sem styður fjármögnun vegakerfisins og er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Hvað er kílómetragjald og hvaða áhrif hefur það á almenning? Svör við þessum spurningum og mörgum öðrum auk almennra upplýsinga um kílómetragjald og uppfært kolefnisgjald er að finna á upplýsingasíðunni Vegir okkar allra.

Innleiðing kílómetragjalds í stað olíu- og bensíngjalda, sem falla niður, er stærsta breyting sem gerð hefur verið á fjármögnun vegakerfisins í áratugi og mun hún hafa áhrif á flesta landsmenn með einum eða öðrum hætti. Því er mikilvægt að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um þessa breytingu og svörum við helstu spurningum sem kunna að vakna.

Vegir okkar allra var opnuð árið 2023 í upphafi fyrsta skrefs innleiðingar kílómetragjalds sem tók gildi árið 2024 fyrir rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla.

Auk almennra upplýsinga um hvernig nýja kerfið virkar fyrir alla bíla og hvers vegna þarf að taka það upp er þar að finna svör við helstu spurningum sem komið hafa frá almenningi. Dæmi um spurningar sem svarað er á síðunni eru, auk margra annarra:

  • Hafa breytingarnar áhrif á dæluverð bensíns og dísilolíu
  • Hvaða áhrif hefur nýtt kerfi á landsbyggðina
  • Hvaða áhrif hefur nýtt kerfi á tekjulægri hópa?
  • Verður greitt eftir þyngd?
  • Hefur nýja kerfið áhrif á orkuskipti?

Íbúaþing á Reykhólum

Reykhólar.

Dagana 22. og 23. mars verður íbúaþing haldið í Reykhólaskóla en Reykhólahreppur er fimmtánda og jafnframt nýjasta þátttökubyggðarlagið í byggðaþróunarverkefninu Brothættar byggðir.

Íbúaþingið markar í raun upphaf verkefnisins þar sem íbúar koma saman, ræða hagsmunamál byggðarlagsins og móta áherslur í verkefninu. Á íbúaþinginu er svokölluð open space aðferðafræði notuð þar sem engin fyrir fram mótuð dagskrá er fyrir utan upphaf þings og endi.

Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá Ildi mun stýra íbúaþinginu, Embla Dögg verkefnisstjóri og fulltrúar verkefnisstjórnar verða henni innan handar við framkvæmd og undirbúning.

Vonir standa til að íbúar á öllum aldri og velunnarar Reykhólahrepps fjölmenni á íbúaþingið og taki virkan þátt strax frá upphafi. 

Íbúaþingið hefst kl. 11:00 laugardaginn 22. mars og því lýkur með veislukaffi kl. 15:30 sunnudaginn 23. mars. 

Í kjölfar þingsins verður verkefnisáætlun mótuð og gera má ráð fyrir að gangi sú vinna vel, verði opnað fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð Brothættra byggða í byggðarlaginu snemmsumars. Á íbúaþinginu gefst þannig einstakt tækifæri til að hafa áhrif á mótun verkefnisins í Reykhólahreppi.

Byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir í Reykhólahreppi byggir á öflugu samstarfi íbúa, sveitarfélags, Vestfjarðastofu og Byggðastofnunar.

Góðir hlutir geta gerst með samstilltu átaki, margt spennandi er að gerast í sveitarfélaginu um þessar mundir og með tilkomu verkefnisins mun íbúum gefast aukin tækifæri til að stuðla að eflingu samfélagsins.

Ævintýraheimur myndskreytinga

Námskeiðið Ævintýraheimur myndskreytinga fer fram dagana 5.–6. apríl í Safnahúsinu við Eyrartún, kl. 13:00–15:00. Það er ætlað börnum á miðstigi grunnskóla og byggir á vinnubrögðum Ásgríms Jónssonar, sem var fyrstur til að myndgera álfa, tröll og drauga úr íslenskum þjóðsögum. 

Hámarksfjöldi þátttakenda er 15 börn, efni er innifalið og þátttaka ókeypis.

Kennarar: 
Nína Ivanova, myndlistarkona – leiðbeinandi
Arnheiður Steinþórsdóttir, sagnfræðingur – upplesari
Rannveig Jónsdóttir, listamaður og verkefnastjóri Listasafns Ísafjarðar – aðstoð

Skráning opnar 20.03.2025. Hægt er að nálgast dagskrá námskeiðsins og skráningu hér:
🔗 https://forms.gle/PB8eRmZCXeSPKBkn9

Námskeiðið er hluti af Púkanum -barnamenningarhátíð Vestfjarða

Hrefnuveiðar hefjast í vor

Halldór Sigurðsson ÍS sem væntanlega verður gerður út á hrefnuveiðar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tjaldtangi ehf hefur fengið leyfi til fim ára til veiða á hrefnu og segir Gunnar Torfason, framkvæmdastjóri að unnið sé að undirbúningi þess að veiðarnar hefjist í vor. Gert verður út frá Ísafirði. Gunnar segir aðspurður um kröfu samtaka ferðaþjónustunnar um bann við hrefnuveiðum í Ísafjarðardjúpi að þegar séu lokuð svæði á Faxaflóa, í Eyjafirði og Skjálfanda og að mikilvægt sé fyrir hrefnuveiðar að hafa aðgang að veiðisvæðum. Einhver svæði verði að vera opin.

Hrefnuveiðar eru stundaðar yfir sumartímann, frá mái fram í september.

MÍ á framhaldsskólakynningunni Mín framtíð

MÍ tók ásamt flestum öðrum framhaldsskólum landsins þátt í Mín framtíð sem fram fór í Laugardalshöllinni í Reykjavík 13. – 15.mars. s.l. Verkiðn á veg og vanda af þessari árlegu framhaldsskólakynningu þar sem tilvonandi nemendur og aðrir gestir hafa tækifæri til að kynna sér námsframboð skólanna og hitta nemendur og starfsfólk.

Frá því er greint á vefsíðu Menntaskólans á Ísafirði að bás MÍ hafi vakið mikla athygli en níu starfsmenn og 16 nemendur tóku þátt og skiptu með sér vöktum. Námsframboð, félagslíf, heimavist og margt fleira var kynnt með fjölbreyttum hætti. Boðið var upp á MÍ-smákökur og MÍ-drykki, lukkuhjól, gestabók og fleira skemmtilegt. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir var meðal gesta og átti hún gott spjall við starfsfólk og nemendur MÍ.

Þá fór einnig fram Íslandsmót iðn- og verkgreina þar sem nemendur keppa í samtals 19 iðngreinum. Þeir fá þannig tækifæri til að takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni sem reyna á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku. Benedikt Þórhallsson húsasmíðanemi keppti fyrir hönd MÍ og var hægt að fylgjast með honum að smíða tröppu. Samnemendur Benedikts tóku þátt í undirbúningi fyrir keppnina og veittu einnig mikilvægan stuðning á meðan keppnin stóð yfir.

Nemendur og starfsfólk eru í stuttu máli mjög ánægðir með framlag skólans á Mín framtíð og er stefnt að því að taka aftur þátt að ári.

Nýjustu fréttir