Síða 15

Ríkisábyrgð á 1.490 milljarða króna?

Tryggð innlán í fjármálastofnunum á Íslandi námu 1.490 milljörðum króna um síðustu áramót samkvæmt upplýsingum frá Tryggingasjóði vegna fjármálafyrirtækja (TVF) sem nemur um þriðjungi vergrar landsframleiðslu á síðasta ári. Tryggð innlán jukust um 131 milljarð króna frá því að staðan var tekin í upphafi síðasta árs. Í byrjun árs 2021 voru tryggð innlán á Íslandi um 1.000 milljarðar króna og hafa þau þannig aukizt um tæplega 50% á einungis síðustu fjórum árum.

Til þess að mæta þessum ábyrgðum er aðeins að finna um 20 milljarðar króna í tryggingasjóðnum samkvæmt upplýsingum frá honum. Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verði innleidd hér á landi vegna aðildarinnar að EES-samningnum mun það þýða ríkisábyrgð á þessum 1.490 milljörðum eins og staðan er í dag. Tilskipunin hefur enn ekki verið tekin upp í samninginn en gerð hefur verið krafa um það og er málið í ferli í þeim efnum.

Hérlend stjórnvöld hafa lagt áherzlu á mikilvægi þess að Ísland fái undanþágu frá ákvæðum tilskipunarinnar um ríkisábyrgð en um leið viðurkennt að ólíklegt sé að hún verði veitt. Fram kom í af­stöðu meiri­hluta ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar Alþing­is til málsins árið 2014 að liggja yrði ljóst fyr­ir að til­skip­un­in fæli ekki í sér rík­is­ábyrgð áður en hún yrði innleidd samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu en Evrópusambandið hefur sagt að hún slík ábyrgð sé til staðar í henni.

Með hliðsjón af efni umræddrar tilskipunar Evrópusambandsins, sem er í raun svar sambandsins við sigri Íslands í Icesave-deilunni, er ljóst að hún kveður á um ríkisábyrgð. Þannig segir til dæmis í 10. grein hennar að ríki skuli sjá til þess að tryggingasjóðir séu í stakk búnir til þess að standa við skuldbindingar sínar og tryggja auk þess aðgengi þeirra að fjármögnun til skamms tíma til þess að mæta kröfum. Sem fyrr segir á sjóðurinn aðeins 20 milljarða til þess.

Málið er annars afar lýsandi fyrir þann veruleika að Evrópusambandið er í raun alls staðar við stjórnvölinn þegar EES-samningurinn er annars vegar. Þannig er til að mynda undir sambandinu komið hvaða regluverk þess fellur undir innri markað þess og þar með samninginn og enn fremur hvort einhverjar undanþágur verði veittar í þeim efnum. Þá getur einungis Evrópusambandið breytt því regluverki sem það setur og tekið er upp í EES-samninginn.

Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara í dag þegar þau semja um milliríkjaviðskipti. Víðtækur fríverzlunarsamningur eins og við sömdum um við Breta í stað EES-samningsins. Leið sem, ólíkt EES-samningnum og í enn ríkari mæli inngöngu í Evrópusambandið, felur ekki í sér vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum í gegnum íþyngjandi regluverk sem er ekki okkar, tekur ekki mið af okkar hagsmunum og við getum ekki breytt.

Hjörtur J. Guðmundsson

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

Gufudalssveit klárast hugsanlega 2027

Vegagerðin stóð fyrir fjölsóttum opnum íbúafundi á Patreksfirði í gær. Farið var yfir nýframkvæmdir á Vestfjörðum, bæði yfirstandandi framkvæmdir og hvað er fram undan. Einkum var þar fjallað um Dynjandisheiði og Gufudalssveit. Framkvæmdum lýkur haustið 2026 á Dynjandisheiði og verður þá eftir kafli í Vatnsfirði við Flókalund svo og vegurinn af Dynjandisheiði niður í Arnarfjörð til Bíldudals.

Í Gufudalssveit var á dögunum auglýst útboð á tveimur brúm en eftir er þá 240 metra brú yfir Djúpafjörð. Vegagerðin sagði á fundinum að útboð á henni yrði í haust eða í lok árs og að því verki yrði lokið í besta falli á árinu 2026, en hugsanlega 2027.

Þá var farið yfir jarðgangakosti á Vestfjörðum og forgangsröðun þá sem Vegagerðin lagði frá haustið 2023. Þar kom fram að Vegagerðin hygðist endurskoða þá forgangsröðun meðal annars vegna nýrra upplýsinga um umferðaþróun. Sérstaklega var bent á aukna umferð yfir Klettsháls og minnkandi umferð um Ísafjarðardjúp.

Einnig voru flutt erindi um stöðu vegakerfisins og vetrarþjónustu.

Fundarmenn báru fram margar fyrirspurnir se, frummælendur svöruðu eftir bestu getu.

Strandveiðar: sjómenn verði með lögheimili fyrir vestan

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Í bókun bæjarráð frá því á mánudaginn um strandveiðar segir að Ísafjarðarbær sé fylgjandi því að breyta strandveiðum í þá átt að meira af afleiddum áhrifum verði eftir í sjávarbyggðunum.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs var inntur eftir því hvaða breytingar hann sæi fyrir sér til þess að ná þessu fram.

Í svari hans segir:

„meðal skilyrða sem auka ábata heimabyggða af strandveiðum eru að sjómenn eigi bátana sína, að þeir séu með heimilisfesti í þeim bæjarfélögum sem um ræðir og félögin skráð þar einnig. Þannig þarf einnig að líta til þess að útsvar er megintekjustofn sveitarfélaga, og skilyrði og takmarkanir sem tryggja að útsvar verði eftir í heimabyggð ná þessum markmiðum.“

Knattspyrna: fyrirliði Vestra í tveggja mánaða leikbann

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur dæmt Elmar Atla Garðarsson í bann frá allri þátttöku í knattspyrnu á tímabilinu 18. mars 2025 til og með 18. maí 2025.

Heimilt er að áfrýja málinu til áfrýjunardómstóls KSÍ.

Málið er tilkomið í kjölfar almennrar vöktunar veðmála hjá KSÍ vegna tilkynninga um veðmál. Fram kemur í dómnum að KSÍ hafi í október 2024 valið tíu leikmenn Bestu deildar karla af handahófi í því skyni að kanna veðmálasögu þeirra á árinu 2024.
Listi leikmanna var sendur UEFA sem aflaði í kjölfarið gagna frá Malta Gaming Authority (MGA) um veðmálasögu þessara tíu leikmanna hjá veðmálafyrirtækjum sem sæta eftirliti MGA.
Í greinargerð framkvæmdastjóra KSÍ kemur fram að gögnin sýni fram á tugi veðmála leikmannsins á leiki í mótum á vegum KSÍ á tímabilinu 17. janúar 2024 til 27. október s.á. Samkvæmt greinargerð er um að ræða 31 leik í Bestu deild karla, fjóra leiki í Mjólkurbikar og tvo leiki í Lengjubikar, og var Vestri þátttakandi í öllum þessum mótum.

Leikmaðurinn gekkst við brotum á lögum og reglugerðum KSÍ og baðst afsökunar á þeirri rýrð sem háttsemi hans hefur varpað á knattspyrnuhreyfinguna. Kærði benti á að hann hafi aldrei veðjað á eigin leiki, fjárhæðir hafi verið óverulegar og veðmálin verið gerð til skemmtunar án þess að leikmaðurinn hafi áttað sig á alvarleika þeirra.

Aga- og úrskurðarnefndin tók tillit til þess tillit til þess sem og þess að ekkert liggur fyrir um að kærði hafi með brotum sínum reynt að hagræða úrslitum leikja.

Bolungavík: ógnin aldrei til staðar

Lögreglan á Vestfjörðum hefur sent frá sér tilkynningu um aðgerðirnar í Bolungavík í dag.

Fram kemur að sá sem ógn var talin stafa af er ekki staddur á landinu. Aðgerðin var því tilefnislaus.

„Á níunda tímanum í morgun barst lögreglunni á Vestfjörðum tilkynning frá einstaklingi sem taldi sér og börnum sínum ógnað. Fjölskyldan býr í Bolungarvík.

Tilkynnandinn taldi að ákveðinn aðili, búsettur erlendis, væri kominn til Bolungavíkur og vildi vinna fjölskyldunni mein.

Fjórir lögreglumenn fóru þá þegar frá Ísafirði á vettvang og voru viðbúnir því að þurfa að grípa til vopna. Til öryggis var sérsveit ríkislögreglustjóra kölluð til aðstoðar, en hún var flutt með þyrlu Landhelgisgæslunnar vestur.

Öryggi fjölskyldunnar og íbúa í Bolungarvík var tryggt meðan leitað var þess aðila sem tilkynnt var um.

Eftir mikla upplýsingaöflun lögreglunnar í dag er niðurstaðan sú að tilkynnandinn hafi ekki metið aðstæður rétt og sá aðili sem ógnin var talin stafa af ekki á landinu.

Aðgerðum er lokið.“

Ísborg ÍS 250

Ísborg ÍS 250 ex Vatneyri BA 238. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson 2010.

Ísborg ÍS 250 kemur hér til hafnar á Húsavík í ágústmánuði árið 2010 en hún landaði oft hér úthafsrækju.

Ísborg hét upphaflega Hafþór NK 76 og var einn af tólf austur þýskum, svokölluðum tappatogurum, sem voru smíðuð í Stralsund fyrir Íslendinga.

Hafþór var smíðaður árið 1959 og var gerður út frá Neskaupsstað til ársins 1968 en þá keypti Ríkissjóður Íslands skipið og var hann notaður til hafrannsókna við Ísland.

Árið 1978 var Hafþór seldur til Grundarfjarðar þar sem hann fékk nafnið Haffari SH 275.

Fiskverkun Garðars Magnússonar hf. í Njarðvík keypti bátinn frá Grundarfirði sumarið 1983 hélt hann nafni sínu en varð GK 240.

Haffari GK 240 var seldur Álftfirðingi hf. á Súðavík árið 1986 og varð þá Haffari ÍS 430.

Frá miðju ári 1997 og fram til aldamóta bar báturinn nöfnin Haffari SF 430, Erlingur GK 212 og Vatneyrin BA 238.

Það var svo haustið 2000 sem báturinn fékk nafnið Ísborg ÍS 250 sem hann bar all til loka en hann fór í brotajárn sumarið 2019.

Af skipamyndir.com

Bolungavík: Aldrei hættuástand

Bolungavík.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri í Bolungavík segist hafa orðið var við aðgerðir sérsveitarinnar og aðspurður sagðist hann vilja hrósa lögreglunni fyrir viðbrögð hennar og nærgætni gagnvart bæjarbúum.

Viðbrögð lögreglunnar beindust að heimili í bænum auk leikskóla og grunnskóla bæjarins og skólayfirvöld sendu út pósta á forseldra barna til upplýsingar.

Jón Páll segir að ekki hafi verið hætta á ferðum og að lögreglan hefði fulla stjórn á aðstæðum.

Vestfjarðarmót í skólaskák – 21. mars

Föstudaginn 21. mars frá 15:30-18:30 er stefnt að því að halda Vestfjarðamót í skólaskák í Grunnskólanum á Ísafirði.

Nemendur úr öllum vestfirskum grunnskólum hafa þátttökurétt. Keppt verður í eftirfarandi flokkum:

1.-4. bekkur

5.-7. bekkur

8.-10. bekkur

Sigurvegarar í hverjum flokki vinna sér inn keppnisrétt á Landsmótinu í skólaskák, sem verður að þessu sinni haldið á Ísafirði helgina 3.-4. maí.

Áhugasamir skólar/keppendur/forráðamenn vinsamlegast skráið þátttakendur með því að senda tölvupóst á Halldór Pálma Bjarkason, 822-7307,  halldorpb@gmail.com

Sérsveitaraðgerð í Bolungavík

Bolungavík í fallegu vetrarveðri í janúar. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Lögreglan var með sérsveitaraðgerð í Bolungavík fyrr í dag. Haft var samband við lögregluembættið á Vestfjörðum en þaðan fengust aðeins þau svör að ekkert yrði sagt um málið að svo stöddu.

Eftir því sem næst verður komist er aðgerðinni lokið og ekkert hættuástand.

Blús og píanóhátíð í Vesturbyggð í sumar

Vesturbyggð hefur gert samstarfs­samn­inga við tvær tónlist­ar­há­tíðir, annars vegar við Alþjóð­legu píanó­hátíð Vest­fjarða og hins vegar við blús­há­tíðina Blús milli fjalls og fjöru um tónlistarhátíðir í ágúst á komandi sumri.

Alþjóðlega píanóhátíð Vestfjarða, eða International Westfjords Piano Festival, var stofnuð af píanóleikaranum Andrew J. Yang árið 2022 og býður bæjarbúum upp á klassíska píanótónleika á heimsklassa ár hvert, auk þess sem mikil áhersla er lögð á námskeiðahald og kennslu. Hún verður haldin í fjórða skipti dagana 6.-13. ágúst næstkomandi. Hún hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar árið 2023 en hún er „veitt verkefnum sem eru 3 ára eða yngri sem hafa listrænan og samfélagslegan slagkraft og hafa alla burði til að festa sig varanlega í sessi.“ Samstarfssamningurinn felur í sér árlegan styrk fyrir framkvæmd píanóhátíðarinnar og ákvæði um framboð á kennslustundum fyrir íbúa með að minnsta kosti grunnþekkingu í píanóleik.

Tónlistarhátíðin Blús milli fjalls og fjöru hefur fyrir löngu fest sig í sessi í menningarlandslagi Vestfjarða. Þar koma fram fremstu listamenn landsins á sviði blústónlistar en einnig á öðrum sviðum, svo sem rokktónlistar. Sigurjón Páll Hauksson hefur staðið að hátíðinni með glæsibrag árum saman og hún hefur verið vel sótt bæði af heimafólki jafnt sem öðrum gestum. Samstarfssamningurinn tekur til niðurfellingar á leigu félagsheimilis Patreksfjarðar yfir hátíðarhelgina og tryggir forgang hátíðarinnar að félagsheimilinu þá helgi ár hvert. Hátíðin verður haldin í 14. skipti síðustu helgina í ágúst næstkomandi, nánari upplýsingar um dagskrá og miðasölu verða birtar þegar nær dregur.

Nýjustu fréttir