Föstudagur 18. apríl 2025
Heim Blogg Síða 15

Nýr samn­ingur um Vakt­stöð sigl­inga

Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, skrifuðu í síðustu viku undir samning í tengslum við rekstur Vaktstöðvar siglinga.

Samningurinn er til tíu ára og fjallar um miðstöð fyrir mannaða vöktun Vaktstöðvarinnar sem rekin er allan sólarhringinn alla daga ársins. Vaktstöðin verður rekin í samstarfi við mannaða stjórnstöð Landhelgisgæslunnar en tæknilegur hluti Vaktstöðvarinnar (upplýsinga- og fjarskiptakerfi) er hins vegar í höndum Neyðarlínunnar.

Vegagerðin er ábyrg fyrir starfsemi Vaktstöðvar siglinga og fer með fjárhagslegt og faglegt eftirlit með Vaktstöðinni og verkefnum hennar.

Markmið samningsins er að uppfylla ákvæði laga um vaktstöð siglinga nr. 41/2003 en markmið laganna er að tryggja öryggi og skilvirkni siglinga í íslenskri efnahagslögsögu, eftirliti með umferð skipa og upplýsingaskiptum í þágu siglingaöryggis, öryggi skipa, farþega og áhafna og siglingavernd. Auk þess að efla varnir gegn mengun sjávar frá skipum, greiða fyrir flutningum á sjó og draga úr stjórnsýslubyrði skipafélaga.

Meðal helstu verkefna sem Vaktstöð siglinga sinnir er vöktun og eftirlit sjálfvirks tilkynningakerfis skipa (STK), þ.m.t. sjálfvirks alþjóðlegs auðkenningarkerfis skipa (AIS), móttaka og miðlun tilkynninga frá skipum sem flytja hættulegan og/eða mengandi varning, móttaka og miðlun neyðarkalla til viðeigandi aðila auk tilkynninga um óhöpp eða slys á sjó.

Auglýsing

Vinsælustu nöfnin 2024

Þjóðskrá hefur birt upplýsingar um vinsælustu nöfnin árið 2024.

Emil og Jökull voru vinsælustu fyrstu eiginnöfn meðal nýfæddra drengja á síðasta ári en 31 drengjum var gefið nafnið Emil og 31 drengjum nafnið Jökull. Næst vinsælustu nöfnin meðal drengja voru Óliver og Matthías.
Aþena og Embla voru vinsælustu nöfnin meðal nýfæddra stúlkna sem fyrsta eiginnafn, en 22 stúlkum var gefið nafnið Aþena og jafnmörgum nafnið Embla. Nöfnin Emilía, Birta og Sara koma þar á eftir en 20 stúlkum var gefið hvert nafn.

Fjöldi einstaklinga sem fæddust árið 2024 og var gefið annað eiginnafn voru 3.510 einstaklingar eða 81% af heildinni.
Þór var vinsælasta nafnið meðal drengja en þar á eftir eru það nöfnin Leó og Logi. Vinsælasta nafnið meðal stúlkna var Sól og næst vinsælasta nafnið var Rós. Síðan koma nöfnin Ósk og María.

Ef horft er á samanburð á milli ára má sjá að drengjanöfnin Emil og Jökull taka fyrsta sætið af Birni. Matthías tekur stökk úr 41. sæti í fjórða og Birkir hækkar einnig verulega. Hvað stúlkurnar varðar má sjá að Aþena og Embla taka fyrsta sætið af Emilíu. Nöfnin Emilía, Birta og Sara raða sér í sætin þar á eftir. Hástökkið á topp 10 listanum er nafnið Júlía sem fer úr 33. sæti í það 7. – 10.

Algengustu fyrstu eiginnöfnin á landinu má sjá hér að neðan og er röðun nafna lítillega breytt á milli ára. Með algengustu fyrstu eiginnöfnin er átt við alla núlifandi Íslendinga búsetta hér á landi.
Fjöldatölur miðast við 27. mars 2025.

Auglýsing

Púkahátíðin hefst í dag

Í dag hefst Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða. Það er einstakt gleðiefni að geta boðið vestfirskum börnum upp á skemmtilega menningarviðburði heima í héraði og leyfa þeim að kynnast ólíkum listgreinum. Hryggjarstykki hátíðarinnar í ár eru leiklistarsmiðjur með Birgittu Birgisdóttur og var öllum grunnskólum á svæðinu boðið að þiggja slíkt fyrir nemendur á miðstigi.

Unnið verður með aðferðafræði Theatre of the oppressed sem stuðlar að valdeflingu, samkennd og lausnaleit í gegnum leik og samtal. Í smiðjunum fá nemendur að kanna eigin rödd, tjá sig í gegnum leiklist og takast á við raunveruleg viðfangsefni á kraftmikinn og skapandi hátt.

Birgitta Birgisdóttir hefur gert garðinn frægan sem leikkona og nú í seinni tíð einnig sem leikstjóri. Hennar síðasta verkefni var einmitt að leikstýra krökkunum í Menntaskólanum á Ísafirði í hreint stórkostlegri uppfærslu á söngleiknum GREASE.

Ungmennaráð Vestfjarða valdi þema fyrir Púkann í ár sem er vestfirskar þjóðsögur og er það mjög sýnilegt í flestum þeirra viðburða sem Púkinn styrkti fyrr á árinu.

Ungmennaráðið hefur einnig valið þema fyrir Púkann 2026 sem haldinn verður dagana 27.apríl-8.maí og verður þá unnið með hafið sem viðfangsefni.

Dagskrá hátíðarinnar.

Auglýsing

Útflutningsverðmæti fiskeldis 54 milljarðar árið 2024

Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar ver heildarframleiðsla fiskeldisafurða tæp 54,8 þúsund tonn á árinu 2024 sem er 10% aukning frá árinu 2023.

Langmest var framleitt af laxi eða tæplega 49,3 þúsund tonn. Magn bleikju var 4,8 þúsund tonn og dróst saman um 9% en aðrar tegundir voru undir 1000 tonn.

Útflutningsverðmæti allra fiskeldistegunda jókst um 17% á milli ára og var 53,8 milljarðar króna árið 2024, þar af voru laxaafurðir um 47,7 milljarðar.

Gögn um fiskeldisframleiðslu í Evrópu ná til ársloka 2023 og sýna að Noregur var langstærsti framleiðandi á laxi með rúm 1,5 milljón tonna, tíu sinnum meira en næsta þjóð, Skotland (Bretland). Færeyjar og Ísland komu þar á eftir. Ísland framleiðir mest af bleikju, 5.248 tonn. Eldi regnbogasilungs er orðið lítið á Íslandi en Ítalía, Frakkland, Spánn, Danmörk og Finnland hafa verið með stöðuga framleiðslu á regnbogasilungi síðustu ár.

Auglýsing

Laxeldi: boða frekari hækkun á fiskeldisgjaldi

Frá laxeldi í Patreksfirði.

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030, sem kynnt var í morgun, kemur fram að boðuð er hækkun á fiskeldisgjaldi úr 4,3% af af meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi upp í 5%. Á það við um þann eldislax sem fæst 4,8 evrur á hvert kg eða meira. Mun það eiga við um nær allan eldisfisk.

Á þessu ári er fiskeldisgjaldið 45,03 kr/kg. Á næsta ári hækkar eldisgjaldið upp í 53,53 kr/kg miðað við sömu forsendur um alþjóðamarkaðsverðið og giltu fyrir ákvörðun á gjaldinu fyrir þetta ár og verður þá fiskeldisgjaldið sem ákvarðað var 2020 komið að fullu til framkvæmda.

Hækkunin úr 4,3% af gjaldstofninum upp í 5% leiðir væntanlega til þess að fiskeldisgjaldið myndi hækka upp í 61 kr/kg að öðrum forsendum óbreyttum.

Ekki kemur fram í fjármálaáætluninni hvenær þessi hækkun á að koma til framkvæmda.

Auglýsing

Miklu stærra en Icesave-málið

Málið sem kennt er við bókun 35 við EES-samninginn er í raun miklu stærra en bæði Icesave-málið og málið varðandi þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Miklir fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi í Icesave-málinu sem snerist þó einungis um eina tiltekna lagagerð sambandsins. Tilskipun þess um innistæðutryggingar. Þriðji orkupakkinn varðar að sama skapi mikla hagsmuni í orkumálum en snýst þó að sama skapi um afmarkað regluverk.

Frumvarp Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra og formanns Viðreisnar, um bókun 35 varðar hins vegar allt regluverk frá Evrópusambandinu sem hefur verið og mun verða tekið upp hér á landi í gegnum EES-samninginn og gerir hana í reynd æðri almennum innlendum lögum. Þar á meðal er um að ræða allt regluverk sem tekið hefur verið og verður tekið upp upp frá sambandinu í framtíðinni varðandi bæði innistæðutryggingar og orkumál.

Verði frumvarp Þorgerðar að lögum verður til ný forgangsregla í íslenzkum rétti. Ólíkt þeim forgangsreglum sem þegar eru fyrir hendi hér á landi þegar almenn lagasetning er annars vegar, þar sem yngri lög ganga fyrir þeim sem eldri eru og sértækari lög fyrir almennari, mun nýja reglan miðast við það eitt og aðeins eitt að um sé að ræða innleiðingu á regluverki frá Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn og í raun fara þvert á hinar.

Versta mögulega staðan sem gæti komið upp, næði frumvarp Þorgerðar ekki fram að ganga og málið færi í kjölfarið mögulega fyrir EFTA-dómstólinn, væri sú að komizt yrði að þeirri niðurstöðu að fara bæri að kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) um forgang innleidds regluverks frá Evrópusambandinu. Með öðrum orðum það sem frumvarpið felur í sér! Um fyrirfram uppgjöf er að ræða án þess að látið sé í það minnsta reyna á málið fyrst fyrir dómi.

Dómstólaleiðin þýddi að möguleiki væri á því að dæmt yrði okkur í vil. Sá möguleiki er hins vegar að engu gerður með því að gefast upp fyrir fram eins og til stendur með frumvarpinu. Ef það uppfyllti ekki kröfur ESA myndi það eðli málsins samkvæmt kalla á frekari aðgerðir af hálfu stofnunarinnar þar til sú yrði raunin. Tal um að frumvarpið sé hugsað til þess að tryggja að íslenzk stjórnvöld hafi forræði á málinu stenzt þannig alls enga skoðun.

Hjörtur J. Guðmundsson

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur.

Auglýsing

Landsnet býður út Mjólkárlínu 2

Horft út Arnarfjörð. Mynd: Orkubú Vestfjarða.

Landsnet auglýsti á föstudaginn eftir umsóknum um þátttöku í samningskaupaferli vegna jarðvinnu og lagningar. Skilafrestur tilboða er til 16. apríl.
Verkið felst í að leggja um samtals 15 km 66 kV jarðstreng, Mjólkárlínu 2 (MJ2), frá landtöku
sæstrengs við Hrafnseyri í Arnarfirði að tengivirki Landsnet við Mjólká.

Framkvæmdin felst í lagningu nýs 66 kV jarðstrengs (ca. 2,4 km) frá Bíldudal meðfram sunnanverðum Bíldudalsvogi að landtaki á Haganesi. Nýr 66 kV sæstrengur (ca. 11,8 km) verður lagður yfir Arnarfjörð fyrir Langanes með landtak við Hrafnseyri. Að lokum verður svo lagður 66 kV jarðstrengur frá Mjólká og að landtaki sæstrengs við  Hrafnseyri að mestu samhliða tengivegi nr. 626 (Hrafnseyrarvegur milli Mjólkár og Hrafnseyrar) og sett verður upp 3,65 MVAr spóla til útjöfnunar í Mjólká. 

Í Mjólká er unnið að byggingu nýs tengivirkis. Það verður yfirbyggt með 5 stk, 66kV gaseinangruðum rofareitum og tvöföldum teini. Einnig verður útjöfnunarspóla fyrir jarðstrenginn.  

Á Bíldudal er unnið að byggingu nýs yfirbyggðs 66 kV gaseinangraðs tengivirkis með 3 rofareitum. 

Framkvæmdir hófust í lok árs 2023 og spennusetning er áætluð  í lok árs 2025. 

Auglýsing

Vestfirðir: hæstu fasteignagjöldin á Patreksfirði

Frá Patreksfirði.

Byggðastofnun hefur birt útreikninga á fasteignagjöldum sem greiða þarf á þessu ári af svonefndu viðmiðunarhúsi.

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð. Fasteignagjöld eru reiknuð út af Byggðastofnun samkvæmt álagningarreglum ársins 2025 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi, út frá fasteignamatinu sem HMS reiknar og gildir frá 31. desember 2024. Útreikningar voru gerðir fyrir 103 matssvæði í 48 sveitarfélögum.

Heildarfasteignamat (húsmat og lóðarmat) viðmiðunareignar er að meðaltali 67,1 m.kr. en fasteignamat er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu fasteignin er. Fasteignamat viðmiðunareignar í greiningunni er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 113,3 m.kr. að meðaltali.

Til fasteignagjalda teljast fasteignaskattur, lóðarleiga, fráveitugjald, vatnsgjald og sorpgjöld. Meðaltal heildarfasteignagjalda fyrir viðmiðunareign er um 502 þ.kr. árið 2025.

Patreksfjörður : 5. hæstu gjöldin á landinu

Hæstu fasteignagjöldin á landinu eru á Selfossi 721 þúsund krónur og á Egilsstöðum 718 þúsund krónur. Patreksfjörður er í fimmta sæti með heildarfasteignagjöld viðmiðunarhússins 663 þús kr. Á höfuðborgarsvæðinu eru meðaltalsfasteignagjöldin 485 þúsund krónur af viðmiðunarhúsinu.

Næst koma Tálknafjörður og Bolungavík , sem eru í 21. sæti á landslistanum yfir fasteignagjöldin með 581 þúsund krónur.

Í skýrslu Byggðastofnunar eru ekki upplýsingar um fasteignagjöldin af viðmiðunarhúsinu ef það væri á Drangsnesi eða á Reykhólum.

Auglýsing

Sjávarútvegssveitarfélög: lýsa andstöðu við hækkun veiðigjalds

Smábátahöfnin á Suðureyri í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa sent frá sér ályktun þar sem þau lýsa yfir eindreginni andstöðu við tillögu ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda enda geti ríkisstjórnin ekki sýnt fram á áhrif hækkunar á sveitarfélög.

Í ályktuninni segir að  hækkunin geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar. Þá sé óásættanlegt að engin gögn hafi verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög.

„Við teljum þessa tillögu bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið.

Samtökin skora á ríkisstjórnina að staldra við og hefja gagnsætt samtal við hagaðila um sanngjarna og rökstudda nálgun á grundvelli greininga á áhrifum á ekki eingöngu fyrirtæki heldur einnig sjávarútvegssveitarfélög. Í framhaldinu verði lögð fram endurskoðuð tillaga byggð á samtölum og greiningum.“

Í samtökum sjávarútvegssveitarfélaga eru 26 sveitarfélög á landinu, þar á meðal fimm sveitarfélög á Vestfjörðum. Gerður B. Sveinsdóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð er einn stjórnarmanna.

Auglýsing

Rauða fjöðrin : sala hefst í dag

Frá 1972 hefur Lions selt Rauðu fjöðrina til góðs málefnis. Nú rennur ágóðinn af sölunni til Píeta samtakanna og forvarnarverkefnis þeirra fyrir ungt fólk. Salan hefst mánudaginn 31. mars í verslunum Nettó um allt land, m.a. á Ísafirði, og á https://www.lions.is/is/verkefni/rauda-fjodrin, síðan munu aðilar Lions hreyfingarinnar selja fjöðrina maður á mann við verslunarkjarna um land allt 3. – 6. apríl. 

Rauða fjöðrin er aðeins seld á þriggja ára fresti.

Píeta samtökin ætla að bjóða öllum framhaldsskólanemum á landinu upp á fræðslu og til samtals um mikilvægi geðræktar og geðheilbrigðis. Áhersla er lögð á mikilvægi þess að styðja við geðheilsu ungs fólks, vekja með þeim von og kenna þeim bjargráð þegar lífið virðist erfið áskorun.
Slagorð Píeta samtakanna eru meðal annarra #Segðu það upphátt og #Það er alltaf von.
Þau sem kaupa Rauðu fjöðrina gefa von og þannig safna landsmenn fjöðrum í vængi vonarinnar ungu fólki til heilla og bættrar geðheilsu.


Auglýsing

Nýjustu fréttir