Föstudagur 13. september 2024
Síða 149

Íbúum á Vestfjörðum fjölgar

Íbúum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 802 íbúa á tímabilinu frá 1. desember 2023 til 1. mars 2024 og íbúum Kópavogsbæjar fjölgaði á sama tímabili um 192 íbúa.

Íbúum Akureyrarbæjar fjölgaði á tímabilinu um 6 íbúa, í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 86 íbúa og í Sveitarfélaginu Árborg fjölgaði um 80 íbúa.

Á Vestfjörðum fjölgaði um 22 eða 0,3%. Hlutfallslega var fjölgunin mest í Bolungarvík 1% en íbúum í Ísafjarðarbæ fjölgaði um 18 eða 0,5%

Þegar horft er til hlutfallslegrar breytingar á íbúafjölda þá hefur íbúum Skorradalshrepps fjölgað hlutfallslega mest frá 1. desember 2023 um 10% en íbúum þar fjölgaði um 6 íbúa. Hlutfallslega fjölgaði íbúum næst mest í Kjósarhreppi eða 4,7% en þar fjölgaði íbúum um 13 einstaklinga frá 1. desember 2023. 

Af 64 núverandi sveitarfélögum þá fækkaði íbúum í 20 sveitarfélögum en fjölgaði eða stóð í stað í 44 sveitarfélögum.

Ísafjarðarbær – Styrkir til menningarmála

Á fundi Menningarmálanefnda Ísafjarðarbæjar þann 7. mars var úthlutað styrkjum ársins 2024.

Alls bárust 16 umsóknir en til úthlutunar voru 3.000.000 kr.

Menningarmálanefndin samþykkti að veit eftirtöldum 14 aðilum styrki.

Jóhanna Eva Gunnarsdóttir, f.h. Földu ehf., vegna skapandi fjölskyldusmiðju fyrir páska, kr. 210.000.
Fjölnir Már Baldursson, vegna kvikmyndarinnar Ótta, kr. 250.000.
Greipur Gíslason, f.h. Við Djúpsins ehf., vegna Tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið,
kr. 250.000.
Steingrímur Rúnar Guðmundsson, f.h. The Pigeon International Film Festival, vegna PIFF 2024, kr. 250.000.
Greta Lietuvninkaité-Suscické, vegna Write It Out ritlistarstúdíó, kr. 95.000.
Margeir Haraldsson Arndal, f.h. Lýðskólans á Flateyri, vegna sumarhátíðar Lýðflat, kr. 250.000.
Halla Ólafsdóttir, vegna útsýnisveggs vegglistaverks, kr. 240.000.
Elísabet Gunnarsdóttir, f.h. Kol og salt, vegna sýninga- og viðburðadagskrá í Úthverfu, kr. 250.000.
Guðrún Helga Sigurðardóttir, f.h. Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði, vegna sólrisuleikrits Menntaskólans á Ísafirði, kr. 250.000.
Gunnar Ingi Hrafnsson, f.h. Litla leikklúbbsins, vegna leiksýningar haustið 2024, kr. 250.000.
Steinunn Ása Sigurðardóttir, f.h. Leikfélags Flateyrar, vegna leiksýningar haustið 2024, kr. 250.000
Sandra Borg Bjarnadóttir, f.h. Snadra ehf., vegna skapandi vinnustofa, kr. 200.000.
Þorgils Óttarr Erlingsson, f.h. Snadra ehf., vegna námskeiðs í silkiprentun, kr. 105.000.
Maksymilian Haraldur Frach, vegna Brú – tónlist fyrir eldri borgara, kr. 150.000.

Harðverjar spila gegn ÍR í kvöld kl 19 á Torfnesi!

Í kvöld spilar lið Harðar við lið ÍR í toppbaráttuslag í Grill66 deild karla á Torfnesi. Hefst leikurinn kl 19. Hörður er sem stendur 4 stigum á eftir ÍR en getur með sigri í kvöld komið sér í góða stöðu fyrir síðustu 2 leikina. Liðið sem endar efst í deildinni fer beint upp í Olís deild karla en liðið í öðru sæti situr hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar meðan að lið 3 og 4 spila leiki þar til annað liðið hefur sigrað 2 leiki. Skiptir máli hvar Hörður endar í deildinni uppá heimaleikjarétt í úrslitakeppninni en okkar strákar ætla sér upp um deild eins og áður hefur komið fram.

Frítt er á leikinn, hann hefst kl 18 og sala á pizzu og veitingum hefst kl 18. Öll velkomin! 

Spáðu í framtíðina

Háskóladagurinn verður haldinn í Menntaskólanum á Ísafirði 13. mars frá kl. 12:30-14:00.

Fulltrúar sjö háskóla á Íslandi auk Háskólaseturs Vestfjarða verða á staðnum .


Vörumessa nemenda Menntaskólans í hönnun og nýsköpun verður í húsnæði Vestfjarðastofu að Sindragötu 12 frá kl. 13:00-16:30 þennan sama dag, þar sýna ungir frumkvöðlar hugmyndir sínar og vörur.


Opið hús verður fyrir grunnskólanema frá kl. 10-12 í Menntaskólanum á Ísafirði, allir grunnskólanemar velkomnir í kynningu og skoðunarferð um húsnæði skólans.

Púkinn – Hvers vegna búum við hér?

Púkinn, barna­menn­ing­ar­hátíð á Vest­fjörðum verður haldin í annað sinn 15. til 26. apríl. Einstak­lingar, skólar og stofn­anir eru hvött til að efna til viðburða á hátíð­inni.

Þema hátíð­ar­innar í ár er Hvers vegna búum við hér?

Að þessu sinni verður lögð áhersla á heimatilbúin atriði, gjarnan með þátttöku foreldra. Hátíðin verður haldin um allan Vestfjarðakjálkann og er ætluð börnum á grunnskólaaldri.

Frestur til að skrá viðburði er til og með 2. apríl.

Það er hægt að sækja um styrki til viðburðahalds á hátíðinni. Heildarupphæð styrkja verður 800.000 kr.

Nánari upplýsingar veitir Skúli Gautason, menningarfulltrúi Vestfjarða í síma 450 6611

Gefum íslenskunni séns!

Þegar tengdasonur, frá Kentucky, kom inn í fjölskylduna í byrjun Covid, flutti unga parið inn á heimili okkar hjóna í tvö ár. Við tókum honum fagnandi enda virkilega góður drengur. Hvað varðar tungumálið er það almennt ekki erfitt að koma frá enskumælandi landi hingað til lands, þar sem flestir tala ensku frá unga aldri. Á sama tíma er það oft hamlandi fyrir þann sem sest hér að og vill læra íslenskuna. Oft skortir tækifæri til að æfa sig að tala tungumálið okkar. En í því samhengi var hann heppnari en margur annar, það er að lenda inn á heimili með tilvonandi tengdapabba sínum sem talar bara íslensku. Þá talar hann Siggi minn bara hærra ef hann vill koma sínu til skila. Það var því ekkert val fyrir unga manninn að læra þetta einstaka mál sem okkar ylhýra er, og það gekk vel og hann er hér enn.

En svo ég snúi mér að efni greinarinnar þá vildi ég með henni vekja máls á ábyrgð samfélagsins við að hjálpa til við aðlögun innflytjenda inn í samfélagið. Við höfum verið svo lánsöm að fá hingað til landsins harðduglegt fólk sem finna má um allt land og í öllum byggðakjörnum. Fólk sem er tilbúið að leggja okkur lið við að viðhalda góðu samfélagi og hagkerfinu til framtíðar kynslóða. Það er staðreynd að stór hluti eða 87% innflytjenda eru á vinnumarkaði hér á landi og það er vel.

Vestfirskt verkefni

Háskólasetrið á Vestfjörðum hýsir verkefnið „Gefum íslensku séns“ sem er stofnað m.a. af Fræðslumiðstöð Vestfjarða og með Ólaf Guðstein Kristjánsson í fararbroddi. Síðan verkefnið var stofnað hafa sveitarfélög og fleiri aðilar komið að verkefninu. Haldin hafa verið námskeið og málþing sem vakið hafa athygli og nú er verkefnið að færast yfir á fleiri svæði.

Þetta verkefni sprettur upp af átaki sem sett var á laggirnar á Ísafirði. Markmiðið er að stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að þeir sem læra málið, sama hvar á vegi þeir eru staddir, fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Átakið snýst því mikið til um vitundarvakningu, hvað felst í því að læra málið, hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku, að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri. Þátttakendur eru íbúar á svæðinu, hvort sem þeir eru íslenskir að uppruna eða innflytjendur á svæðinu. Hér taka allir þátt og tala saman.

Íslenskan merkasti menningararfurinn

Þegar við tökum á móti ferðamönnum leggjum við áherslu að sýna menningararf okkar og áhugaverða staði um land allt, söguna og náttúruna.  Merkasti menningararfurinn er þó tungumálið okkar og við þurfum að lyfta því upp. Það hefur þróast líkt og náttúran í okkar fallega landi en fyrir okkur er tungumálið festan í þjóðinni og samnefnari. Því verðum við að vera opin fyrir því hvernig við getum opnað og boðið þeim sem flytja eða dvelja hér um lengri eða skemmri tíma til þess að starfa og lifa í okkar samfélagi.

Það er á okkar ábyrgð að tala og þjálfa íslenskuna og skipta ekki sjálfkrafa yfir í ensku í samskiptum við innflytjendur. Mikilvægt er að leyfa þeim sem það vilja að byggja undir sína kunnáttu. Þá verðum við að sjálfsögðu að bera virðingu fyrir því að okkar ylhýra er ekki auðlærð og setjast ekki í dómarasætið heldur sýna þolinmæði og vera fyrirmyndir.

Gefum íslenskunni séns!

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Samfylkingin: vel sóttur fundur á Ísafirði

Kristrún Frostadóttir, formaður í forgrunni. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Almennur stjórnmálafundur Samfylkingarinnar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á miðvikudagskvöldið var vel sóttur. Framsögumenn voru Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og Arna Lára Jónsdóttur, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ og ritari Samfylkingarinnar.

Þetta var þriðji fundur þeirra þennan dag en áður höfðu verið haldnir fundir á Þingeyri og Bíldudal. Í gærdag var svo fjórði fundurinn í Einarshúsi í Bolungavík.

Yfirskrift fundanna var atvinna og samgöngur. Fram kom í máli Örnu Láru að orkuskortur væri á Vestfjörðum og það þyrfti að virkja. Að hennar mati væri ekki líklegt að fengjust 15 – 20 milljarðar króna til þess endurnýja Vesturlínu og því væri virkjunarframkvæmdir óhjakvæmilegar. Taldi hún að alla kosti þyrfti að skoða en taldi Vatnsdalsvirkjun álitlega og sagðist styðja að aflétta friðunarskilmálum svo unnt væri að gera umhverfismat.

Fundarmenn lögðu margar spurningar fyrir forystumenn Samfylkingarinnar. Var gengið eftir afstöðu flokksins til kröfu smábátaeigenda um 48 daga strandveiðirétt og sagðist Kristrún Frostadóttir vera opin fyrir því. Töluvert var rætt um fiskveiðar og auðlindagjaldtöku almennt. Kristrún sagði að fók vildi sanngjarnt auðlindagjald í sjávarútvegi og fiskeldi. Sagðist Kristrún hallast að því að hækka veiðigjaldið og einnig væri rétt að hækka skattlagningu á miklar eignir.

Orkumál bar töluvert á góma og raforkukort á Vestfjörðum. Um samgöngumál var kallað eftir Súðavíkurgöngum. Formaður Samfylkingarinnar sagði að fyrir lægi tillaga um röðun jarðganga þar sem Súðavíkurgöng eru í 5. sæti og að ekki stæði til að breyta þeirri niðurröðun.

Vel var mætt á fundinn. Mynd: Samfylkingin.

Viðtalið : Halldór Halldórsson

Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins ehf er í viðtali vikunnar. Bæjarins besta lagði fyrir hann nokkrar spurningar um félagið og starfsemi þess og svo um Halldór sjálfan og áhugamál.

Ég er ráðinn sem forstjóri af hálfu eigenda Íslenska kalkþörungafélagsins ehf.  (Ískalk) árið 2018 í framhaldi af því að ég hætti sem borgarfulltrúi í Reykjavík. Þar áður var ég bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í 12 ár (1998-2010) og jafnlengi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga (2006-2018). Þar áður var ég lengst af í Grindavík með eigið fyrirtæki og starfaði sem verkstjóri hjá Þorbirni hf. í fiskvinnslu.

Eigendur eru og hafa verið frá upphafi írska fyrirtækið Marigot sem á 99% hlutafjár. Ískalk er stofnað af Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða til að sporna við neikvæðri þróun og hnignun á Bíldudal um síðustu aldamót. Enginn íslenskur rekstraraðili fékkst að fyrirtækinu. Það var mikil gæfa að fá Írana að málinu því það fyrirtæki var með gríðarlega reynslu af vinnslu kalkþörunga og mikla vöruþróun og markaðssetningu. Upphaflegar hugmyndir voru um 6-7 manna fyrirtæki en við erum 30 manns í dag.

Og það var Bank of Scotland sem fjármagnaði í upphafi af því að enginn íslenskur banki vildi gera það.

Við framleiðum úr kalkþörungum sem hafa myndað set á botni Arnarfjarðar. Þetta eru dauð set, lifandi kalkþörungar eru ofan á sumum þeirra en við höfum gert tilraunir með að flytja þá annað og hefur það heppnast vel.

Frá náttúrunnar hendi eru 74 mismunandi steinefni í kalkþörungum og er kalsíum þar viðamest eða um 34%. Við þurrkum efnið, mölum, pökkum, búum til fóðurkúlur og fleira. Mest fer í fóðurbæti sem seldur er til yfir 70 landa í heiminum. Þá í vatnshreinsun en fyrirtæki í Frakklandi kaupir af okkur þurrkaða kalkþörunga og framleiðir síur sem notaðar eru í tengslum við að fá steinefni aftur í vatn eftir hreinsun. Og svo þvoum við, sigtum og pökkum efni til manneldis sem er selt til matvælaframleiðenda sem nota efnið í ávaxtasafa og ýmis matvæli. Einnig til þeirra sem framleiða heilsuvörur fyrir bein og liði eins og t.d. Hafkalk á Bíldudal.

Tilkoma Ískalk sem hóf starfsemi á árunum 2005-2007 skipti miklu fyrir Bíldudal og gerir enn. Vægi þess er þó minna en í upphafi vegna þess að Arnarlax er með mikla starfsemi og vaxandi á Bíldudal og svæðinu öllu. Þess vegna hefur byggðaþróun snúist við sem er mikilvæg fyrir Vestfirði sem hafa þjáðst af undanhaldi í alltof langan tíma.

fjárfesting 4 milljarðar króna og 30 störf

Kalkþörungaverksmiðjan var í upphafi stór fjárfesting og sífellt þarf að bæta við fjárfestinguna til að standast tímans tönn. Heildarfjárfesting frá upphafi nemur um 4 milljörðum og í ár verður fjárfest fyrir 356 milljónir kr. Stærsta einstaka framkvæmdin varðar hreinsivirki fyrir eldri þurrkara þar sem skipt verður úr vothreinsibúnaði í síubúnað en slíkur búnaður hefur reynst afskaplega vel á nýrri þurrkara verksmiðjunnar.

Þó Ískalk sé í miklum átökum varðandi skattamál fyrirtækisins; en við ákváðum að fara með það fyrir dómstóla landsins þá er engan bilbug á okkur að finna. Móðurfélagið er sterkt með mikla og fjölbreytta starfsemi í allmörgum löndum. Við erum með nýtingarleyfi í Ísafjarðardjúpi og erum í samstarfi við Súðavíkurhrepp að fjármagna hluta landfyllingar og bryggju innan Langeyrar í Álftafirði þar sem við hyggjumst reisa verksmiðju til að vinna kalkþörunga úr Djúpinu. Nýtingarleyfi okkar í Arnarfirði gildir til 1. desember 2033.

Af umfangsmikilli starfsemi rennur töluvert til samfélagsins í formi styrkja til íþróttastarfs og alls konar félagsstarfs. Þá skiptir starfsemi Ískalk miklu máli fyrir þjónustuaðila á svæðinu og með tilkomu Dýrafjarðarganga þá getum við fengið þjónustu frá norðanverðum Vestfjörðum sem áður þurfti að fá frá Reykjavík. Hins vegar þarf Vegagerðin að halda veginum niður í Trostansfjörð opnum en ekki skilja þann bút eftir án þjónustu allan veturinn.

10 milljarðar kr. í laun og til verktaka

Sem dæmi um greiðslur má nefna að frá upphafi til loka ársins 2022 greiddum við til verktaka rúma 7 milljarða kr. Fyrir sama tímabil til ríkisins fyrir efnistöku í Arnarfirði 150 milljónir kr. Til Hafna Vesturbyggðar 500 milljónir kr. fyrir hafnargjöld en Ískalk skipar öllu beint út frá Bíldudal í stað þess að aka með það og renna því þau gjöld til heimahafnar. Launagreiðslur til starfsfólks er fyrir tímabilið 3 milljarðar kr. og þannig mætti telja fleira slíkt til en það er ansi langt mál. Þessar tölur sýna ótvírætt fram á að það munar um starfsemi Ískalk.

Það er fjölbreytt og skemmtilegt starf að stýra starfsemi Ískalk með afskaplega hæfum stjórnendum á Bíldudal og góðu starfsfólki. Tengslin við móðurfélagið eru áhugaverð og gefa innsýn í fjölbreytta og ólíka starfsemi þess. Samstarf milli ólíkra eininga og milli landa er að aukast og skilar það meiri reynslu og stundum einhverri hagkvæmni varðandi innkaup. Sem dæmi um aðra starfsemi má nefna tvær verksmiðjur í Skotlandi sem framleiða viskí. Verksmiðju á Írlandi sem framleiðir náttúrulega matarliti fyrir matvælaiðnaðinn og þannig má lengi telja.

Það er gott að vera á Bíldudal og Vestfjörðum almennt. Þegar ég var ráðinn í starfið var ég fluttur til Reykjavíkur og bý þar enn. Starfið var í rauninni flutt frá höfuðstöðvum á Írlandi til Íslands. Ég fer því á milli Reykjavíkur og Bíldudals og eftir atvikum til Súðavíkur en líka til Cork á Írlandi. Svo eru verksmiðjustjóri á Bíldudal með sínu fólki.

Þó sjaldan gefist tími þá kemur fyrir að við hjónin förum á jörðina sem við systkinin eigum saman en þar ólumst við upp. Það er Ögur í Ísafjarðardjúpi sem margir kannast við enda liggur þjóðleiðin nánast um hlaðið þar. Þar er rekin örlítil ferðaþjónusta á sumrin með kaffihúsi og einstöku sjókajakferðum eða gönguferðum sem við sinnum í huta af okkar sumarfríi. Það má segja að þar liggi áhugamálin jafnframt því það jafnast fátt á við það að hlaða kajakinn af vistum, tjöldum og viðlegubúnaði og fara svo í 5-8 daga ferð um Djúp og Jökulfirði. Það er svo sannarlega hleðsla sem dugir til næsta árs.

Auk þessa höfum við hjónin ánægju af því að fara um landið á mótorhjólunum okkar, taka með tjald og njóta okkar einstaka lands.

Háafell: 1,5 milljarður kr. fjárfesting í seiðaeldisstöð

Fiskeldisfyrirtækið Háafell ehf á Ísafirði hefur lagt um 1,5 milljarð króna í stækkun seiðaeldisstöðvar fyrirtækisins á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Unnið hefur verið að stækkun og aukinni tæknivæðingu seiðaeldisstöðvar Háafells á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi frá því í maí í fyrra þegar framkvæmdir hófust. Um 25 manns vinna við þennan fyrsta áfanga í stækkun sem áætlað er að verði lokið í sumar.

Seiðaeldisstöðin á Nauteyri var byggð árið 1984 af Íslaxi hf., fyrirtæki sem stofnað var af heimamönnum úr sveitinni og fyrirtækjum á norðanverðum Vestfjörðum. Síðan þá hefur verið nánast samfleytt starfsemi í stöðinni. Eftir að HG (síðar Háafell) eignaðist stöðina hefur gamla seiðastöðin verið mikið endurnýjuð.

Á síðasta ári hófst bygging þriggja nýrra húsa sem rúmlega tvöfaldar núverandi afkastagetu stöðvarinnar. Stækkunin er liður í áformum Háafells um að auka vægi landeldis í rekstri sínum með því að ala stærri seiði á landi sem styttir tíma laxins í sjó og draga þannig úr áhættu og minnkar lúsaálag í sjókvíum. Framkvæmdin á Nauteyri og næstu áfangar kalla á uppbyggingu innviða á svæðinu, til dæmis að tryggja nægjanlega og örugga raforku.

Áætlað er að þessi áfangi kosti um 1,5 milljarða króna og er næsti áfangi stækkunar jafnframt nú þegar á teikniborðinu.

Í tilkynningunni segir að um stóra framkvæmd sé að ræða fyrir Háafell sem endurspegli trú eigenda móðurfélagsins á að fjárfesta og styrkja stoðir atvinnulífs og samfélaga við Djúp.

„Öflug og traust landeldisstöð er forsenda þess að geta framleitt stærri, hraust og heilbrigð seiði. Þau eru aftur forsenda góðs árangurs í áframeldinu í sjókvíum og því lykilatriði til þess að viðhalda halda þar áfram góðum árangri.“

Frá framkvæmdum á Nauteyri.

Myndir: Háafell.

Félagsþjónusta og móttaka flóttamanna: samningur milli Ísafjarðarbæjar og Súðavíkurhrepps

Súðavík og Ísafjarðarbær hafa gert samkomulag um samstarf í félagsþjónustu.

Gerður hefur verið samningur milli Súðavíkurhrepps og Ísafjarðarbæjar um sérfræðiráðgjöf, vinnslu mála og stjórnun í almennri félagsþjónustu og móttöku flóttamanna. Samningurinn byggir á samstarfi síðustu ára en er nú formlega staðfestur, eftir gildistöku Velferðarþjónustusamnings Vestfjarða.

Ísafjarðarbær tekur að sér framkvæmd verkefna fyrir Súðavíkurhrepp, þ.e. sérfræðiráðgjöf, vinnslu mála og stjórnun í almennri félagsþjónustu og móttöku flóttamanna. Ábyrgð á ákvörðunum mun liggja hjá bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar eftir því sem við á samkæmt viðeigandi lögum. Ísafjarðarbær ræður starfsfólk nema í félags- og tómstundastarfi aldraða en þar ræður Súðavíkurhreppur starfsfólk og greiðir kostnað við það. Súðavíkurhreppur greiðir mánaðarlega fyrir veitta þjónustu en kostnaður skiptist í samræmi við íbúafjölda hvors sveitarfélags. Samningurinn þarf staðfestingu ráðuneytis sveitarstjórnarmála.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að samþykkja samninginn.

Nýjustu fréttir