Föstudagur 13. september 2024
Síða 148

Ísafjörður: fallið frá grenndarkynningu á Sindragötu 4a

Skuggavarp á Aðalstræti af nýbyggingu Sindragötu 4.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur fallið frá  grenndarkynningu á fyrirhugaðri nýbyggingu á lóðinni Sindragötu 4A, Ísafirði, þar sem nýjustu uppdrættir uppfylla alla skilmála núgildandi deiliskipulags fyrir lóðina.

Svæðið er með hverfisvernd.

Þann 11. janúar 2024 ákvað nefndin að hefja grenndarkynningarferli þar sem byggingaráform á Sindragötu 4a (mhl. 2) samrýmdist ekki skipulagsskilmálum en nú hefur lóðarhafi ákveðið að breyta hönnun hússins þannig að það samrýmist skipulagsskilmálum í deiliskipulagi við Sindragötu 4, sem var samþykkt af bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þann 18. janúar 2018.

Umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi hlýtur nú hefðbundna afgreiðslu byggingarfulltrúa segir í fundargerð nefndarinnar frá 29. febrúar 2024.

Bæjarins besta hafa borist teikningar sem sýna afstöðu nýbyggingarinnar á Sindragötu 4a og þriggja húsa við Aðalstræti 8 – 12. og skuggavarp sem fylgir nýbyggingunni á eldri húsin.

Afstöðumynd sem sýnir Aðalstræti 8 – 12 og Sindragötu 4a

80 ára afmæli lýðveldisins: hátíðadagskrá á Hrafnseyri

Hrafnseyri.

Forsætisráðherra hefur skipað sérstaka afmælisnefnd sem vinnur að mótun hátíðardagskrár af því tilefni að 17. júní næstkomandi verða 80 ár liðin frá lýðveldisstofnuninni á Þingvöllum. Þá gerir nefndin tillögur um hvernig minnast megi 1150 ára afmælis Íslandsbyggðar sé miðað við viðtekið ártal

Í nefndinni eru fulltrúar forsætisráðuneytis, skrifstofu forseta Íslands, menningar- og viðskiptaráðuneytis, Alþingis og Þingvallaþjóðgarðar. Formaður er Margrét Hallgrímsdóttir.

Afmælisnefndin hefur sent sveitarstjórnum landsins bréf og þar kemur fram að Þjóðgarðurinn á Þingvöllum efnir til afmælisdagskrár þar sem landsmenn eru hvattir til að heimsækja Þingvelli þar sem gestum er boðið að skoða sýninguna Hjarta lands og þjóðar og helgina 15.-16. júní verður fjölbreytt menningardagskrá á Þingvöllum, í Almannagjá og víðar um þjóðgarðinn.

Hátíðahöldin ná hámarki 17. júní, þegar 80 ár eru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi, með dagskrá og kórasöng um allt land.

Þann 16. og 17.júní verður hátíð á Hrafnseyri með dagskrá í tilefni lýðveldisafmælisins og 1150 ára afmælis Íslandsbyggðar og verður sjónum beint að landnámsminjum á Hrafnseyri.

Þá verður efnt til menningarviðburða um allt land.

Á vefsíðunni www.lydveldi.is má finna nánari upplýsingar um hátíðarhöldin.

Óskað eftir samstarfi við sveitarfélög landsins í tengslum við hátíðardagskránna með miðlun og hvatningu til þátttöku eins og hentar best á hverjum stað.

Erindið var lagt fram til kynningar á síðasta fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

Skotís: 15 verðlaun um helgina í skotfimi og bogfimi

Frá mótinu á Ísafirði.

Félagar í Skotíþróttafélagi Ísafirði gerðu það gott á tveimur mótum um helgina. Á Ísafirði var haldið landsmót í tveimur greinum skotíþrótta, þrístöðu og í 60 skotum. Unnust 7 gullverðlaun, tvenn silfurerðlaun og tvenn bronsverðlaun og samtals fengu félagar í Skotís 11 verðlaun.

Á laugardaginn var keppt í 60 skotum. Guðmundur Valdemarsson varð efstur , Valur Richter annar og Leifur Bremnes þriðji. Í kvennaflokki vann Helena Þóra Sigurbjörnsdóttur gull og í unglingaflokki fékk Karen Rós Weronika Valsdóttir gullverðlaun. Öll eru þau keppendur frá Skotís.

Í liðakeppni varð lið Skotís með 1836.2 stig og hreppti fyrsta sæti og annað sæti hlaut lið SR með 1790 stig.

Í gær var keppt í þrístöðu í skotfimi og unnust fjögur verðlaun.

Í 1. sæti varð Þórir Kristinsson, SR, með 538 stig. Í öðru sæti varð Valur Richter, Skotís með 519 stig og í 3. sæti varð Leifur Bremnes með 502 stig. Lið Skotis náði svo fyrsta sæti. Lið Skotís skipuðu þeir Leifur, Valur og Tojan Alnashi.

Íslandsmeistaramót í bogfimi u18 og u21 fór fram um helgina. Kristjana Rögn í Skotís tryggði sér gull fyrir langboga kvenna yngri en 18 ára og í sama aldursflokki og varð Íslandsmeistari í báðum flokkum. Svo var Maria Kozak Skotís  með gull  u21og unisex flokki u21 og vann þannig tvo Íslandsmeistaratitla.

Verðlaunahafar Skotís á landsmótinu á Ísafirði.

Myndir: Skotís.

Vegagerðin varar við ástandi vega í Reykhólasveit og Dölum

Vestfjarðavegur í gær í Dölunum við Erpsstaði. Mynd: Björn Davíðsson.

Á laugardaginn birti Vegagerðin fréttatilkynningu þar sem varað var við ástandi Vestfjarðavegar (60) í Reykhólasveit og Dalabyggð og segir að það sé er afar bágt. Segir að slitlag hafi farið mjög illa og hafi burðarlag gefið sig á löngum köflum. „Það veldur því að stórir kögglar í slitlagi hafa losnað og við það skapast mjög hættulegar aðstæður fyrir ökumenn.“

Langir kaflar á Vestfjarðavegi eru metnir það slæmir að ekki er hægt að halda þeim við. Því hefur verið ákveðið að fræsa slitlagið á þessum köflum saman við burðarlög vegarins, hefla út og þjappa. Veðuraðstæður koma í veg fyrir að hægt sé að leggja klæðingu á veginn og því verða þessir ákveðnu hlutar vegarins malarkaflar fram á sumar. Reynt verður að klæða þá við fyrsta tækifæri þegar hlýnar í veðri segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum Bæjarins besta er um að ræða langan vegarkafla frá Erpsstöðum og norður fyrir Búðardal.

Vegagerðin hvetur ökumenn til að sýna sérstaka aðgát þegar ekið er um svæðið. Unnið var að lagfæringum nú um helgina en ljóst er að þungatakmarkanir verða áfram í gildi á Vesturlandi og Vestfjörðum fram í næstu viku.

Þessir vegarkaflar verðar malarvegir fram á sumar. Mynd: Vegagerðin.

Aðalfundur Vinstri grænna á Vestfjörðum

Svæðisfélag Vinstri grænna á Vestfjörðum heldur aðalfund á Fisherman, Suðureyri
Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf auk kosningar á fulltrúum á kjördæmisþing Norðvesturkjördæmi.

Gestur fundarins verður Bjarni Jónsson þingmaður og formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

Auknar veiðiheimildir til strandveiða

Bjarni Jónsson, alþm.

Í liðinni viku mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um um eflingu strandveiða með auknum aflaheimildum. Í tillögunni er lagt til að stækka félagslega hluta kerfisins úr 5,3% upp í 8,3%. Einnig er lagt til að endurskoðuð verði skipting aflamagns á milli aðgerða innan kerfisins og meiri veiðiheimildum beint til strandveiða og smærri útgerða. Matvælaráðherra verði falið „að efla félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins með aukinni hlutdeild í heildarafla og með endurskoðun á skiptingu aflamagns innan kerfisins og á hlutverki hverrar aðgerðar innan þess.“

Ástæða er til að endurskoða úthlutun og meðhöndlun aðgerða innan kerfisins með tilliti til þess hvernig þær veiðiheimildir nýtast sem best smærri byggðarlögum sem þær eiga að þjóna og færa stærri hluta þeirra til smærri útgerða og inn í strandveiðikerfið. Þá þarf að koma í veg fyrir að stór hluti þeirra endi hjá stærstu útgerðarfélögum landsins sem nú þegar halda á stærstum hluta allra. Tillagan er endurflutt uppfærð frá síðasta þingi. https://www.althingi.is/altext/pdf/154/s/0126.pdf

750 sjálfstæðar útgerðir hafa afkomu sína af handfæraveiðum

Strandveiðar skipta nú sköpum fyrir fjölda fjölskyldna vítt og breytt um landið en 750 sjálfstæðar útgerðir hafa afkomu sína af handfæraveiðum, að ótöldum afleiddum störfum fiskverkenda, verkafólks og þjónustuaðila sem njóta góðs af. Tillagan er liður í því að  styrkja stöðu veiða í  sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið. Með því að leggjast skipulega yfir skiptingu aflamagns innan kerfisins tel ég að nýta megi kerfið til þess að stuðla að auknu byggðajafnrétti. Ef við fjölgum tækifærum fólks til að leggja fyrir sig vistvænar krókaveiðar á grunnslóð í atvinnuskyni, nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sjávarauðlindina, styrkjum við til muna atvinnulíf út um allt land.

Strandveiðar hafa valdið straumhvörfum fyrir byggðafestu á Íslandi. Það voru því mikilvæg og farsæl tímamót 25. júní 2009, þegar þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason undirritaði fyrstu reglugerðina um strandveiðar. Upphaf strandveiða fól í sér algjöra byltingu í möguleikum fólks til að hefja smábátaútgerð og blés lífi í hart leiknar sjávarbyggðir sem kvótakerfið og óheft framsal hafði rúið lífsbjörginni í þágu fámenns hóps aðila sem höfðu náð undir sig stórum hluta veiðiheimilda.

Réttlát uppbygging atvinnutækifæra

Strandveiðar hafa á undanförnum árum stuðlað að réttlátari uppbyggingu atvinnutækifæra hringinn í kringum landið. Það er ekki eftir neinu að bíða að ráðast í aðgerðir til að styrkja enn frekar strandveiðikerfið með aukinni hlutdeild í veiðiheimildum og skapa því sterkari heildstæða umgjörð. Tillagan er liður í því að  styrkja stöðu veiða í  sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið. Með því að leggjast skipulega yfir skiptingu aflamagns innan kerfisins tel ég að nýta megi kerfið til þess að stuðla að auknu byggðajafnrétti. Ef við fjölgum tækifærum fólks til að leggja fyrir sig vistvænar krókaveiðar á grunnslóð í atvinnuskyni, nýta sameiginlega auðlind þjóðarinnar, sjávarauðlindina, styrkjum við til muna atvinnulíf út um allt land.

Þær Sjávarbyggðir sem verst urðu úti vegna framsals aflaheimilda hafa sumar gengið í endurnýjun lífdaga fyrir tilstilli félagslegra veiða. Þar hafa strandveiðar skipt sköpum. Þær hafa glætt lífi hafnir sem áður stóðu tómar og sjávarútvegur var á undanhaldi. Félagslegar veiðar styrkja atvinnulíf hvar sem þeirra nýtur við. Þær stuðla að aukinni fjárfestingu í sjávarútvegi, ekki síst þar sem aflaheimildum er ekki lengur til að skipta. Með viðvarandi stækkun félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins, til langs tíma mun sú fjárfesting aukast enn fremur og bæta atvinnuhorfur þar sem mest er þörf!.

Úthlutun byggðakvóta verði tekin til endurskoðunar

Þegar lýtur að félagslega kerfinu er eðlilegt að staldra við og kanna hvort allar aðgerðir innan þess standi undir hlutverki sínu. Það er öllum til heilla að félagslegar veiðar skili sem farsælustum árangri. Þess vegna er lögð til endurskoðun á innbyrðis skiptingu aflamarks á milli aðgerða sem og endurskoðun hverrar aðgerðar fyrir sig.  Af öðrum mikilvægum byggðaaðgerðum auk strandveiða má nefna sérstaka byggðakvótann. Þar er rétt að árétta mikilvægi þess að árangur byggðaaðgerða sé sýnilegur og mælanlegur. Með tilliti til sérstaka byggðakvótans mætti auka gagnsæi með reglubundinni skýrslugjöf. Í samningnum komi fram markmið úthlutunar sem og mælikvarðar, fyrirkomulag, umsýsla og eftirfylgni og fleira þar sem styður gagnsæi.  Þá er þörf á að koma á samræmdum reglum um úthlutun almenna byggðakvótans, og  endurskoða dreifingu hans, ekki síst að byggðakvóta verði beint með ákveðnari hætti til smærri útgerða og skipa og nýta hann betur til að styðja við félagslegar veiðar. Þá er fyrirsjáanlegt að aukinn hluti línuívilnunar verði ónýttur næstu ár vegna tækniframfara. Hefur hún dregist saman um tvo þriðju frá árinu 2016. Vert er að kanna hvort taka mætti upp með einhverjum hætti umhverfisívilnun með sömu formerkjum. Þá mætti til að mynda horfa til veiðarfæra sem hafa lítil áhrif á umhverfið, svo sem línuveiðar, gildruveiðar og/eða útgerð sem styðst við endurnýjanlega orkugjafa.

Veiðiheimildir nýttar heima fyrir

Að lokum vil ég segja um skel- og rækjubætur, sem komið var á til að minnka það áfall sem skel- og rækjuútgerðir urðu fyrir með áföllum stofnanna, að aflaheimildir þær sem gefnar voru eftir í skiptum fyrir heimildir til veiða þessara tegunda voru hluti af almenna fiskveiðistjórnarkerfinu, ekki því félagslega, og eðlilegt að uppgjör við handhafa þeirra bóta taki mið af þeim forsendum. Þá tel ég að komi til álita að horft verði til þess hvort veiðiheimildirnar hafi verið nýttar heima fyrir til hagsbóta fyrir þau byggðarlög sem fyrir áföllunum urðu eða leigðar í burtu.

Að lokum

Í hnotskurn er með tillögunni lagt til að stækka félagslegan hluta fiskveiðistjórnunarkerfisins með það fyrir augum að hlutdeild hans verði 8,3% af heildarafla í stað 5,3% í dag. Ennfremur, að úthlutun og meðhöndlun aðgerða innan félagslega hluta fiskveiðistjórnarkerfisins verði tekin til endurskoðunar með tilliti til þess hvernig þær veiðiheimildir nýtast sem best smærri byggðarlögum sem þær eiga að þjóna og færa stærri hluta þeirra til smærri útgerða og inn í strandveiðikerfið. Þá þarf að koma í veg fyrir að stór hluti þeirra endi hjá stærstu útgerðarfélögum landsins sem nú þegar halda á stærstum hluta allra veiðiheimilda við Íslands strendur.

Bjarni Jónsson, alþm.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna í NV kjördæmi og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Act alone – sýning um Alzheimersjúkdóminn

Elfar Logi Hannessonog Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í byrjun árs við undirritun samnings um styrk við Act Alone.

Velferðanefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt erindi Act alone um samstarf við velferðarnefnd varðandi sýninguna Ég get sem fjallar um Alzheimerssjúkdóminn eða hvergi sjúkdóminn. Sýningin er á laugardagskvöldinu 10. ágúst 2024.
Eftir sýninguna verða umræður um sjúkdóminn í hálftíma og óskar Act alone eftir fagaðilum til þess að vera viðstaddir þegar umræðurnar eiga sér stað eins að fulltrúi frá velferðarnefnd verði viðstaddur.

Velferðanefndin samþykkti að senda starfsmann félagsþjónustunnar og fulltrúa velferðarnefndar og að þeir taki þátt í umræðum að sýningu lokinni. Velferðarnefnd óskar eftir að málið verði sett á dagskrá hjá öldungarráði.

Vegagerðin: lækkar ásþunga í 7 tonn í dag

Frá og með kl. 8:00 í morgun, laugardagsmorguninn 9. mars verður ásþungi lækkaður úr 10 tonn í 7 tonn á eftirfarandi vegi:

Vestfjarðavegi 60 – frá  Hringvegi að vegamótum á Snæfellsnesvegi 54.

Um er að ræða þjóðveginn vestur frá Bröttubrekku að Haukadal í Dölunum sbr meðfylgjandi mynd.

Jónfrí: plata og tónleikar á skírdag

Tónlistarmaðurinn Jón Frímannsson kemur vestur um páskana með sveit sína og verður með tónleika á skírdag á Dokkunni og mun spila þar meðal annars lög af nýrri plötu, Draumur um Bronco, sem kemur út í næstu viku, þann 14. mars. Hljómsveitin kallar sig Jónfrí. Jón á ættir sínar að rekja vestur á Ísafjörð. Móðir hans, Lára Kristín Guðmundsdóttir var Ísfirðingur og Jón eyddi sumarfríum æsku sinnar á Fjarðastræti 6, hjá ömmu sinni og afa Láru Veturliðadóttur og Guðmundi M. Ólafssyni, kokki á Fagranesinu. Móðurbróðir Jóns, Ólafur Guðmundsson var gítarleikari og söngvari í vestfirsku sveitinni B.G. og Ingibjörg.

Tónleikarnir á Dokkunni verða útgáfutónleikar fyrir plötuna þar sem hann kemur fram ásamt vestfirsku söngvaskáldunum Gosa og Kela. Sveitin spilar kærulausa tónlist um hversdagsleg málefni og hina eilífu leit að réttu stemmningunni. Aðrir í hljómsveitinni, auk Jóns eru Birgir Hansen, Sölvi Steinn Jónsson og Sveinbjörn Hafsteinsson.

Lagið Andalúsía, fyrsta smáskífan af plötunni, sat í tvær vikur á toppi vinsældalista Rásar 2 og var eitt mest spilaða lag ársins. Sveitin er tilnefnd til tveggja verðlauna á Íslensku hlustendaverðlaununum; nýliði ársins og tónlistarmyndband ársins.

Menntaskólinn á Ísafirði: Háskóladagurinn miðvikdaginn 13. mars

Frá nýliðnum háskóladegi sem haldinn var í Reykjavík.

Háskóladagurinn fer fram miðvikudaginn 13 mars á Ísafirði frá klukkan 12:30-14:00 hjá Menntaskólanum á Ísafirði þar sem allir háskólarnir 7 hér á landi kynna námsframboð sitt en hátt í 400 námsleiðir eru í boði í grunn-, og framhaldsnámi. Dagurinn hefur verið haldinn í 40 ár og vex ár frá ári. Nýnæmi er að í ár verður farið á 4 staði, Reykjavík, Egilsstaði, Akureyri og Ísafjörð.

„Það má líkja Háskóladeginum við leikvöll tækifæranna þar sem öll ættu að geta fundið nám við sitt hæfi. Námsframboð háskólanna sjö er enda gríðarlega fjölbreytt og spennandi. Það getur því verið vandi að velja en starfsfólk skólanna og nemendur verða á staðnum ásamt námsráðgjöfum til að styðja við námsvalið,“ segir Erla Hjördís Gunnarsdóttir, sem er nýr verkefnastjóri Háskóladagsins. 

Háskóladagurinn kl. 12:30-14:00:

Háskólakynningin verður í Gryfjunni kl. 12:30. Allir 7 háskólarnir á Íslandi kynna þar námsframboð sitt en háskólarnir eru; Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskólinn og Listaháskóli Íslands. Fulltrúar frá Háskólasetri Vestfjarða verða líka með kynningu. Á Háskólakynninguna eru öll velkomin sem hafa áhuga á að kynna sér námsframboð háskólanna. 

Fleira verður um að vera í Menntaskólanum þennan dag bæði opið hús fyrir grunnskólanemendur og vörumessa ungra frumkvöðla.

Opið hús í MÍ kl. 10:00-12:30:

Opið hús verður í MÍ sem er aðallega hugsað fyrir grunnskólanema. Grunnskólum Vestfjarða hefur verið boðið að koma í heimsókn í MÍ milli kl. 10:00 og 12:30. Grunnskólanemendur fá kynningu á námsframboði og skoðunarferð um húsnæði skólans. Í lok heimsóknar er boðið upp á hádegismat í mötuneytinu.

Vörumessa MÍ kl. 13.00-16:30:

Eftri hádegi verða nemendur í MÍ með Vörumessu ungra frumkvöðla í húsnæði Vestfjarðarstofu við Suðurgötu 12.  Vörumessa Mí er kynning á verkefnum nemenda sem þau vinna í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun og er vettvangur fyrir unga frumkvöðla, fyrirtæki og samfélagið að þróa nýjar hugmyndir og lausnir á Vestfjörðum. Áhersla er lögð á samstarf við fyrirtæki/ráðgjafa á svæðinu og sjálfstæða vinnu nemenda að nýsköpunarlausn. Verkefnið undirbýr nemendur fyrir framtíðina og eykur færni þeirra til nýsköpunar, atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar.  

Nýjustu fréttir