Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 147

Matvælaráðuneytið: dregst að úrskurða um sektarákvörðun Matvælastofnunar

Katrín Jakobsdóttir.

Í byrjun árs gaf Matvælaráðuneytið þau svör að stefnt væri að birtingu úrskurðar um miðjan febrúarmánuð um kæru Arnarlax. Matvælastofnun lagði 120 m.kr. sekt á fyrirtækið með ákvörðun í nóvember 2022 þar sem stofnunin taldi að það hefði ekki tilkynnt um slysaleppingu úr kví í júní 2021.

Taldi Matvælastofnun atvikið alvarlegt og lagði háa fjársekt á fyrirtækið sem er við hámarkssektarheimild laganna. Arnarlax mótmælti þessu og segir það rangt að slepping hafi orðið á þessum tíma og að Mast byggi ákvörðun sína á getgátum og kærði Arnarlax ákvörðunina til Matvælaráðuneytisins þann 22.2. 2023.

Ráðuneytið hefur haft málið til meðferðar í rúmt ár. Ekki var kveðinn upp úrskurður ráðuneytisins um miðjan febrúar eins og stefnt var að og nú fást þau svör frá ráðuneytinu að vinnsla úrskurðar sé á lokastigi og birtingar megi vænta á komandi vikum.

Réttur til sambúðar á hjúkrunarheimilum og búsetu á landsbyggðinni

„Það er eins og við séum slitin í sundur, það er ekki hægt að segja annað, og einmitt þegar kannski væri mest þörfin fyrir stuðning.“ Þetta sagði viðmælandi í Kastljóssviðtali árið 2013. Eiginkona hans þurfti að flytjast á hjúkrunarheimili og hann vildi fara með henni en fékk ekki samþykkt færni- og heilsumat. Maðurinn heimsótti konuna sína daglega í þrjú ár.

Öll viljum við fá að eldast með reisn. Við viljum njóta efri áranna í faðmi fjölskyldu okkar. Því miður er fjölskyldusameining ekki tryggð í lögum um málefni aldraðra. Réttur til dvalar á hjúkrunarheimili er bundinn því skilyrði að viðkomandi hafi undirgengist færni- og heilsumat sem sýni fram á þörf hans fyrir hjúkrunar- eða dvalarrými. Það gerist reglulega þegar einstaklingar þurfa heilsu sinnar vegna að leggjast inn á hjúkrunarheimili að þeir verða viðskila við maka sinn. Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp sem boðar breytingar á lögum sem tryggja réttinn til sambúðar í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Réttur til sambúðar, eðli málsins samkvæmt, nær ekki aðeins til dvalar á sömu stofnun, heldur veitir maka rétt til dvalar í sama rými. Mikilvægt er að staðið verði vörð um minni hjúkrunarheimili á landsbyggðinni og eldri borgarar geti dvalið með maka sínum á hjúkrunarheimili í sinni heimabyggð en þurfi ekki að flytjast hreppaflutningum.

Viðvarandi skortur á hjúkrunarheimilum, alls staðar á landinu, sem og rekstravandi hjúkrunarheimila gerir það að verkum að erfitt er að fá þingmeirihluta fyrir fyrrnefndu frumvarpi Flokks fólksins. Sjö hundruð eldri borgarar eru á biðlista eftir hjúkrunarrýmum og ríkisstjórnin virðist ekki ætla að gera mikið til þess að taka á þessari krísu. Uppbygging hjúkrunarheimila verður að taka tillit til rétts til sambúðar, mismunandi búsetu og fjölbreytileika eldri borgara.

Með núverandi vanrækslustefnu stjórnvalda er erfitt að tryggja hjónum rétt til sambúðar á hjúkrunarheimilum. Flokkur fólksins hefur lengi kallað eftir þjóðarátaki í uppbyggingu á hjúkrunarheimilum og við teljum það eðlilegt ef tillaga okkar um breytingu á lögum um málefni aldraðra verði hlutur af því átaki. Tryggja þarf öldruðum rétt til sambúðar í ellinni, en ekki viðskilnað!

Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi.

36,6 milljarðar kr. í skattafslátt – aðeins 6% á landsbyggðinni

Líneik Anna Sævarsdóttir alþm.

Á árunum 2020 til 2022 fengu fyrirtæki 36,6 milljárða króna í skattaafslátt vegna rannsóknar- og þróunarverkefna og vegna erlendra sérfræðinga. Af þeirri fjárhæð rann 94% eða 34,4 milljarðar króna til fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og aðeins 6% til fyrirtækja utan þess.

Þetta kemur fram í skriflegu svari á Alþingi við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur (B) til fjármála- og efnahagsráðherra.

Veittar eru upplýsingar um um þróun skattafsláttar síðastliðin 10 ár, frá 2013 til og með 2022. Fyrsta árið nam afslátturinn 1.264 m.kr. en síðasta árið 2022 var hann 14.116 m.kr. og hafði þá ellefufaldast á tímabilinu. Síðustu þrjú árin, 2022 til 2022, var skattaafslátturinn samtals 33,6 milljarðar króna, frá 10,5 milljarðar króna 2020 til 14,1 milljarðar króna 2022.

Í svarinu er fjárhæð skattafsláttarins greind eftir landshlutum og kemur þá í ljós að 94% fjárhæðarinnar á árunum 2020 -2022 fer til fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu en aðeins 6% til fyrirtækja utan þess.

Engin fjárhæð er færð á Vestfirði, Austurland og Suðurland á þessu tíu ára bili, en þó gætu einhver fyrirtæki hafa fengið skattaafslátt þar sem engin upphæð er tilgreind í þeim tilvikum þar sem fimm fyrirtæki eða færri fengu frádrátt í atvinnugrein eða landshluta á hverju ári. Þess í stað er viðkomandi reitur í töflum hér á eftir gráskyggður og samtala allra slíkra reita tilgreind neðst í töflunni.

Sem dæmi má nefna að árið 2022 eru 170 m.kr. færðar sem óflokkaðar og er samtala yfir fimm landssvæði, Austurland, Norðurland vestra, Suðurland, Vestfirði og Vesturland. Hvort eitther afsláttur hafi runnið til fyrirtækja á Vestfjörðum er ekki vitað.

Kerecis hlýtur Útflutningsverðlaun forseta Íslands

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, Guðmundur Fertram Sigurjónsson og Ólafur Ragnar Grímsson.

Útflutningsverðlaun forseta Íslands árið 2024 koma í hlut Kerecis. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Guðmundi Fertram Sigurjónssyni, stofnanda og forstjóra fyrirtækisins verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Fjöldi starfsmanna og annarra sem tengjast Kerecis voru viðstaddir athöfnina, m.a. Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti lýðveldisins og fyrrverandi stjórnarmaður Kerecis. Samhliða voru heiðursverðlaun Útflutningsverðlaunanna afhent, en þau hlaut Laufey Lín Jónsdóttir tónlistarkona fyrir störf sín á alþjóðavettvangi.

Í ávarpi sínu lagði forseti Íslands áherslu á mikilvægi nýsköpunar sem stuðlaði að framförum og aflaði mikilvægra útflutningstekna fyrir samfélagið. Raunar væri Ísland ótæmandi uppspretta góðra hugmynda á því sviði og útflutningsverðlaunin væru í senn viðurkenning fyrir góðan árangur og hvatning til annarra. Kerecis væri fyrirmynd annara á þessu sviði og óskaði hann fyrirtækinu til hamingju með árangurinn.

Í þakkarræðu sinni sagði Guðmundur Fertram að fyrirtæki eins og Kerecis spryttu ekki upp úr engu, heldur þyrfti réttu aðstæðurnar til – menntakerfi með áherslu á náttúruvísindi og iðnmenntun, öflugt atvinnulíf og hvetjandi stuðningskerfi hins opinbera. Þá væru sterkir innviðir forsenda þess að fyrirtæki vaxi og dafni, auk þess sem samfélagið þurfi að sýna nýjum hugmyndum og atvinnugreinum umburðarlyndi. Hann talaði um efnahagsævintýrið á Vestfjörðum, þar sem framleiðsla á lækningavörum og uppbygging fiskeldis, hefði ómæld áhrif haft á samfélagið vestra.

„Við getum tryggt að ævintýrið haldið áfram, en þá þarf að hlúa að atvinnugreinunum með aðlögun regluverks og frekari fjárfestingu í innviðum og menntakerfi. Þannig munum við styrkja og skapa nýja skattstofna sem fleyta munu Íslandi inn í framtíðina og gefa börnum okkar sömu eða betri lífskjör en við njótum í dag,“ sagði hann jafnframt.

Saga Kerecis hófst árið 2007 þegar Guðmundur Fertram stofnaði fyrirtækið til að vinna að ráðgjöf og þróun nýrra lausna á sviði sárameðhöndlunar. Vaxtarsaga Kerecis hófst árið 2016 eftir margra ára þróunarvinnu þegar sala á áraroði hófst á Bandaríkjamarkaði. Sáraroðið er notað við meðferð þrálátra sára t.d. vegna sykursýki, brunasára og annarra þrálátra sára. Hugmyndin þótti frumleg á sínum tíma og fékk góðar viðtökur heima fyrir þar sem Kerecis hlaut Nýsköpunarverðlaun Vestfjarða árið 2009. Fjármagn úr Tækniþróunarsjóði árið 2009 og Nýsköpunarsjóði árið 2010 hjálpuðu við að greiða götuna fyrstu árin.

Tekjuvöxtur Kerecis hefur verið gríðarlegur á undanförnum misserum. Árið 2016 voru tekjur fyrirtækisins um hálf milljón dollara og hafa þær tvöfaldast á hverju ári síðan þá. Árið 2023 námu tekjurnar 110 milljónum dollara, sem eru um 15 milljarðar króna, og starfsmenn fyrirtækisins voru í lok síðasta árs um 600 talsins.

Nýr kafli var skrifaður í sögu fyrirtækisins í ágúst 2023 þegar félagið var keypt af danska fyrirtækinu Coloplast A/S fyrir 1,3 milljarða dollara. Þar með varð Kerecis fyrsti „einhyrningurinn“ í íslensku viðskiptalífi – þ.e.a.s. fyrsta íslenska sprotafyrirtækið sem metið er á yfir einn milljarð dollara. 

Útflutningsverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt  á Bessastöðum árið 1989 og því var þetta í 36. skiptið sem þau voru afhent. Meðal fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Íslensk erfðagreining, Trefjar, Icelandair, Bláa lónið og Marel.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni Sif Gunnarsdóttir frá embætti forseta Íslands, Gylfi Magnússon frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Katrín Olga Jóhannesdóttir frá Viðskiptaráði, Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands og Hildur Árnadóttir frá Íslandsstofu. Íslandsstofa ber ábyrgð framkvæmd við verðlaunaveitinguna.

Frá verðlaunafhendingunni. Myndir: aðsendar.

Sextán störf á nýjum svæðisstöðvum íþróttahreyfingarinnar

Svæðastöðvarnar byggja á samhljóða tillögu ÍSÍ og UMFÍ og felur í sér að komið verði á fót átta stöðvum með tveimur stöðugildum á hverju svæði með muni þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti.

Tillagan var samþykkt á þingi ÍSÍ í fyrravor og á þingi UMFÍ í fyrrahaust. Samhliða því var gerð breyting á greiðslu fjármagns til íþróttahéraða frá ÍSÍ og UMFÍ sem felur í sér að af því fjármagni sem fer til íþróttahéraða þá sé 85% fjármagnsins greitt til þeirra miðað við opinberar tölur um íbúafjölda 0-18 ára. 15% af fjármagninu fara til reksturs sameiginlegra svæðastöðva.  

Um miðjan desember tryggði Mennta- og barnamálaráðherra einnig 400 milljónir króna til verkefnisins næstu tvö árin. Þar af setja ÍSÍ og UMFÍ 130 milljónir króna af árlegu framlagi ráðuneytisins til svæðastöðva og 70 milljónir króna til Hvatasjóðs. Á hverri svæðastöð verða tvö stöðugildi, annað fjármagnað af ráðuneytinu og hitt af íþróttahreyfingunni. 

Við undirbúning svæðastöðvanna hefur verið unnið náið með grasrótinni í íþróttahreyfingunni um allt land.

Óskað var eftir tilnefningum frá íþróttahéruðum og upp úr því varð til hópur fólks með einum fulltrúa frá hverju svæði; fulltrúa frá Austurlandi, Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu sem dæmi.

Guðný Stefanía Stefánsdóttir hefur verið fulltrúi íþróttahéraða á Vestfjörðum í undirbúningsvinnunni. 

Snædís Karen fær að snúa heim á Blönduós

Snædís Karen var sett í jólabúning árið 2013 þegar hún var til húsa á Hnjúkabyggð 33.

Húnahornið greinir frá því að Náttúrufræðistofnun Íslands hafi samþykkt beiðni byggðarráðs Húnabyggðar um að uppstoppaða bjarndýrið sem fellt var 17. júní árið 2008 við Hraun á Skaga verði til sýnis í stjórnsýsluhúsinu á Blönduósi.

Ísbirnan, fékk nafnið Sædís Karen á sínum tíma, er nokkuð stór þó hún sé lítið dýr miðað við önnur dýr úr Austur-Grænlandsstofninum.

Hæð hennar er um 1,30 metrar og lengdin um 1,75 metrar. Ísbirnan gekk á land 16. júní og hélt sig í æðarvarpinu á Hrauni. Tilraun var gerð til þess að ná henni lifandi enn það tókst ekki og var dýrið því fellt. Birnan er talin hafa verið 12-13 ára og að hún hafi komið upp þremur lifandi húnum.

Að fá Sædísi Karen til baka er mikilvægur þáttur í því að efla og setja sterkari stoðir undir ferðamannaiðnaðinn í sveitarfélaginu, að mati byggðaráðs.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær ísbirnan verður flutt aftur á Blönduós, en byggðarráð vonar að það verði sem fyrst

Mikil sala eldisfisks í byrjun árs

Framleiðsla og útflutningur á eldisafurðum hefur farið afar vel af stað í byrjun árs.

Í Radarnum, vefriti SFS, kemur fram að á fyrstu tveimur mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 13,3 milljarða og er það langhæsta upphæð á þessu tímabili frá upphafi. Útflutningsverðmæti eldisafurða í janúar og febrúar er þannig 35% hærri en í fyrra í krónum talið og rúmlega 39% á föstu gengi.

Nýliðinn febrúarmánuður er þriðji stærsti útflutningsmánuðurinn frá upphafi og janúar er sá fjórði.

Samhliða auknum útflutningi hefur hlutfall eldisafurða af verðmæti alls vöruútflutnings aukist til muna. Vægi eldisafurða í vöruútflutningi var þannig 8,4% í janúar og febrúar. Síðustu ár hefur vægi þeirra verið í kringum 6% á fyrstu tveimur mánuðum ársins og var 6,4% á síðasta ári.

Þetta má lesa úr bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruviðskipti sem birtar voru í síðustu viku. Þar eru ekki birt útflutningsverðmæti eða magn niður á einstaka tegundir, en þær tölur verða birtar í lok þessa mánaðar.

Gera má fastlega ráð fyrir að yfir 90% þessara 13,3 milljarða megi rekja til útflutnings á laxi, en hlutfall lax var um 92% í janúar.

Vegagerðin styrkir ýmsar samgönguleiðir

Vegagerðin óskar eftir umsóknum í styrk vegna samgönguleiða og er umsóknarfrestur til 22. mars. Skv. vegalögum nr. 80/2007 er heimilt að ákveða fjárveitingu í vegáætlun til að styrkja tilteknar samgönguleiðir sem ekki falla undir skilgreiningar vega skv. lögunum. Heimilt er að veita styrki til eftirfarandi samgönguleiða:

  1. vega yfir fjöll og heiðar sem ekki teljast þjóðvegir;
  2. vega að bryggjum;
  3. vega að skíðasvæðum;
  4. vega að skipbrotsmannaskýlum;
  5. vega að fjallskilaréttum;
  6. vega að leitarmannaskálum;
  7. vega að fjallaskálum;
  8. vega innan uppgræðslu- og skógræktarsvæða;
  9. vega að ferðamannastöðum;
  10. vega að flugvöllum og lendingarstöðum sem ekki eru áætlunarflugvellir, en taldir eru upp í samgönguáætlun.

Umsækjandi skal leggja fram greinargóða lýsingu á fyrirhugaðri framkvæmd sem felur m.a. í sér upplýsingar um staðsetningu og notkun vegar, áætlaðan kostnað og aðra fjármögnun verksins.

Umsækjandi hverju sinni skal vera veghaldari þeirrar samgönguleiðar sem nýtur styrks. Er honum skylt að sjá um merkingar vegar og aðra þá þætti er falla undir veghald, sbr. ákvæði vegalaga.

Athygli er vakin á því að samgönguleiðir sem njóta styrkja samkvæmt heimild í vegalögum skulu opnar allri almennri umferð.

Vegagerðin gerir tillögu um afgreiðslu styrkveitinga til ráðherra. Rétt er að vekja athygli á því að styrkir á grundvelli umsókna sem fengið hafa samþykki ráðherra skuli ekki afgreiddir fyrr en framkvæmd hefur verið tekin út án athugasemda og framkvæmdaleyfi frá viðkomandi sveitarfélagi liggur fyrir ef þess gerist þörf.

Hólmavík: fjórar umsóknir um sértækan byggðakvóta

Hólmavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórar umsóknir bárust til Byggðastofnunar um allt að 500 tonna sértækan byggðakvóta fyrir Hólmavík, sem eru bundin því að þau fari til vinnslu í sveitarfélaginu. 

Fundað hefur verið með hverjum og einum umsækjanda og kannað hvort umsækjendur gætu unnið saman til að hægt sé að vinna aflamarkið á svæðinu. Stefnt er að því að leggja fram tillögu um úthlutun til stjórnar Byggðastofnunar á fundi í mars.

Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar segir á vef sveitarfélagsins að þetta sé því mikið tækifæri fyrir Strandabyggð og mikið sé í húfi og komi til þessa sé ljóst að fjölmörg störf muni skapast og veruleg verðmæti. 

Fiskeldi: útflutningsverðmæti jan-feb 13,3 milljarðar króna

Laxeldi Arctic Fish í Arnarfirði.

Frá því er greint í Radarnum, fréttabréfi samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi að á fyrstu tveimur mánuðum ársins sé útflutningsverðmæti eldisafurða komið í 13,3 milljarða króna og er það langhæsta upphæð á þessu tímabili frá upphafi. Útflutningsverðmæti eldisafurða í janúar og febrúar er 35% hærra í krónum talið, en það það var í fyrra á sama tíma og rúmlega 39% hærra sé reiknað á föstu gengi.

Nýliðinn febrúarmánuður er þriðji stærsti útflutningsmánuðurinn frá upphafi og janúar er sá fjórði stærsti.

Nýjustu fréttir