Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 146

Ísafjarðarbær: ráðið í nýtt starf á umhverfis- og eignasviði

Eyþór Guðmundsson. Mynd: Ísafjarðarbær.

Eyþór Guðmundsson hefur verið ráðinn sem deildarstjóri á umhverfis- og eignasviði Ísafjarðarbæjar. Frá mars 2019 hefur hann starfað sem innkaupa- og tæknistjóri hjá sveitarfélaginu. Aðrir umsækjendur voru Smári Karlsson, skrifstofufulltrúi og Þórður Jóhann Guðbrandsson, húsasmiður.

Starfið var auglýst fyrir áramót og rann umsóknarfrestur út 9. janúar, en var svo framlendur til 14. febrúar. Bæjarins besta óskaði 21. febrúar eftir upplýsingum um umsækjendur og ráðningu en svör bárust ekki fyrr en í gær.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri segir að það hafi verið „að auglýsa nýtt starf deildastjóra á umhverfis- og eignasviði í ljósi aukinna umsvifa og fjölgunar verkefna á sviðinu. Það var jafnframt verið að auglýsa í starf skipulagsfulltrúa, en fyrrum skipulagsfulltrúi er kominn til annarra starfa.“

Í auglýsingu Ísafjarðarbæjar um starfið segir: „Boðið er upp á sveigjanlegan vinnutíma með ýtrustu vinnustyttingu (36 stunda vinnuviku). Önnur hlunnindi eru sérstakur stuðningur vegna fjarnáms, íþróttastyrkur og afsláttur af árskorti í sund.“

Ákvörðun um hið nýja starf var ekki lögð fyrir bæjarráð né kynnt þar.

Bolungavík: vilja Álftafjarðargöng

Frá grjóthruni á Súðavíkurhlíðinni Myndir aðsendar.

Bæjarstjórn Bolungavíkur ályktaði á fundi sínum í gær um jarðgangaáætlun sem hefur verið lögð fram á Alþingi með samgönguáætlun. Segir að mikilvægt sé að færa Álftafjarðargöng ofar í röðina en þar er lagt til.

„Bæjarstjórn Bolungarvíkur fagnar þeim tillögum um jarðgöng á Vestfjörðum sem fram koma í jarðgangnaáætlun sem lögð er fram í Samgönguáætlun 2024-2038. Forsenda öflugs atvinnu og mannlífs á Vestfjörðum eru öruggar og greiðar samgöngur. Mikilvægt er að sveitarfélög á Vestfjörðum vinni sameiginlega að því að færa Álftafjarðargöng ásamt öðrum jarðgangnakostum á Vestfjörðum ofar í forgangi en þau eru í dag.“

Hákon Hermannsson: tók sæti á Alþingi á mánudaginn

Hákon Hermannsson í ræðustól.

Á mánudaginn tók Hákon Hermannsson, Ísafirði sæti á Alþingi í forföllum Bergþórs Ólasonar, alþm Miðflokksins. Hákon skipaði 6. sæti á lista flokksins í Norðvesturkjördæmi við síðustu Alþingiskosningar.

Hákon mun sitja þessa vikuna og beið ekki boðanna og kvaddi sér hljóðs í gær á þingfundi undir liðnum störf þingsins. Ræddi hann um orkuskort á Vestfjörðum sem kæmi fram í því að Orkubú Vestfjarða áætlaði að brenna 3,4 milljónir lítra af olíu til húshitunar. Ástæðan væri að virkjunarframkvæmdir kæmust ekki af stað vegna andstöðu, ætti það við um Hvalárvirkjun og Vatnsdalsvirkjun væri líka stopp þar sem orkumálaráðherra hefði ekki svarað erindi Orkubúsins um afléttingu friðunarskilmála og meira að segja Botnsvirkjun í Dýrafirði væri gert að fara í umhverfismat að ákvörðun Skipulagsstofnunar. Vestfirðingar mættu hvorki framleiða né flytja raforku.

Hákon sagði í samtali við Bæjarins besta að veran á Alþingi væri skemmtileg og gaman væri að kynnast staðnum. Hann neitaði því ekki að hafa verið smá smeykur við að fara í ræðupúltið í fyrsta skiptið, eiginlega hefði það verið ótrúlega stressandi en þrátt fyrir það gekki jómfrúarræðan vel.

Bókasafn – Sáum og skiptumst á fræjum

Í fyrra fór fram sáning og skipti á fræjum á Bókasafninu á Ísafirði.

Og nú á að endurtaka leikinn og sá fræjum – kryddjurtum, matjurtum og blómum – á Bókasafninu Ísafirði föstudaginn 22. mars 16-18.

Fræ, ílát og mold verða á staðnum en velkomið að koma með eigin ílát ef það hentar betur.

Samhliða verður frædeilimarkaður: tilvalið að koma með hlutann úr fræpokanum sem þú þarft ekki og fá önnur fræ í staðinn.

Myglueitur í ávaxtahristing

Matvælastofnun varar við neyslu á nokkrum framleiðslulotum af Froosh jarðarberja, banana & guava hristing (smoothie) 250 ml og 150 ml sem Core heildsala flytur inn vegna þess að varan stóðst ekki gæðaeftirlit framleiðslunnar.

Myglueitrið patulin greindist of hátt í vörunni.

Fyrirtækið hefur í samráði við heilbrigðiseftirlit Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness innkallað vöruna.

Innköllunin á einungis við eftirfarandi framleiðslulotur:

  • Vörumerki: Froosh
  • Vöruheiti: Froosh Jarðarberja, Banana & Guava
  • Framleiðandi: Fazer
  • Innflytjandi: Core heildsala
  • Framleiðsluland: Svíþjóð
  • Lotunúmer/best fyrir dagsetning: 150 ml 3.8.2024, 1,9.2024, 7.9.2024. 250 ml 4.8.2024, 6.10.2024, 13. 10.2024
  • Geymsluskilyrði: Kælivara eftir opnun
  • Dreifing: Bónus, Krónan, Samkaup, Hagkaup, Melabúðin og Fjarðarkaup

Neytendum sem keypt hafa vöruna er bent á að neyta hennar ekki, farga eða skila henni til innflytjanda Core heildsölu, Víkurhvarf 1, Kópavogi.

Prjónaljómi í Grunnavík í júní

Bergrós Kjartansdóttir prjónahönnuður, bókmenntafræðingur og gullsmiður og Ingibjörg G. Guðjónsdóttir þjóðfræðingur, leiðsögumaður og matgæðingur fara í sumar í átthaga sína í Jökulfjörðum.

Þær ætla að bjóða nokkrum frábærum prjónurum að koma og ljóma með sér.

Þar verður krafturinn úr íslenskri náttúru, ásamt anda formæðra og feðra virkjaður til að magna upp sköpunarkraftinn, sagnagleðina og innri ljómann sem í okkur býr.

Þegar sköpunarkrafturinn er virkjaður kviknar forvitni og almenn virkni, sem fær endorfínið til að flæða um líkamann og með taktfastri hreyfingu prjónsins viðhelst vellíðan og okkar innri ljómi fær byr undir báða vængi segir í kynningu á þessum einstæða viðburði.

Nánari upplýsingar má fá á facebook síðu

Vegagerðin: dregið úr þungatakmörkunum í Dölunum

Þeim sérstöku 7 tonna ásþungatakmörkunum sem hafa verið í gildi á Vestfjarðarvegi í Dölum, frá Hringvegi (1) við Dalsmynni að gatnamótum Snæfellsnesvegar (54) við Haukadal, var aflétt kl. 10:00 í morgun. Áfram er þó Viðauki 1 úr gildi og ásþunginn því 10 tonn á þessum kafla, eins og á flestum vegum þarna í kring.

Reykhólar með sína fyrstu Íslandsmeistaratitla

UMF Afturelding á Reykhólum átti sannarlega frábæra helgi á Íslandsmóti U16/U18 í bogfimi sem haldið var í Bogfimisetrinu í Reykjavík. Félagið vann til tveggja Íslandsmeistaratitla, þrjú silfur og tvö brons, ásamt því að slá eitt Íslandsmet í U16 flokki.

Félagið stofnað 1924 og verður því 100 ára í ár. Eftir því sem best er vitað var þetta í fyrsta sinn sem UMF Afturelding á Reykhólum keppir á Íslandsmóti í nokkurri íþrótt í 100 ára sögu sinni. Því er hægt að áætla að félagið hafi því aldrei unnið til Íslandsmeistaratitils eða slegið Íslandsmet áður. Því er árangur félagsins á mótinu eitthvað sem fer líklega í sögubækur Reykhóla. af árangri í 100 ára sögu sinni.

Til viðbótar við það þá gerði enginn ráð fyrir því að félagið myndi standa í þriðja sæti í heildar verðlaunatölu á Íslandsmóti U16/U18 í fyrsta sinn sem félagið tekur þátt.

Keppendur Reykhóla sem unnu til verðlauna í einstaklingskeppni á Íslandsmótinu:

  • Ingólfur Birkir Eiríksson – Íslandsmeistari berboga U16 karla
  • Svanur Gilsfjörð Bjarkason – Silfur berboga U16 karla
  • Ásborg Styrmisdóttir – Silfur berboga U16 kvenna
  • Ásborg Styrmisdóttir – Silfur berboga U16 (óháð kyni)
  • Svanur Gilsfjörð Bjarkason – Brons – Berboga U16 (óháð kyni)

Keppendur Reykhóla sem unnu til verðlauna í félagsliðakeppni á Íslandsmótinu:

  • Berbogi U16 félagsliðakeppni – Íslandsmeistari félagsliða
    • Ásborg Styrmisdóttir
    • Svanur Gilsfjörð Bjarkason
  • Berbogi U16 félagsliðakeppni – brons
    • Rakel Rós Brynjólfsdóttir
    • Ingólfur Birkir Eiríksson

Það sem gerir árangur félagsins þeim mun merkilegri er að 15 mars 2023, fyrir aðeins minna en ári síðan (360 dögum), kom Bogfimisamband Íslands (BFSÍ) í sína fyrstu heimsókn í félagið með grunn búnað til þess að aðstoða áhugasama félagsmenn við að koma bogfimi æfingum og starfi af stað á svæðinu. Þar veitti Þörungaverksmiðjan á Reykhólumfélaginu stuðning í startinu, sem er fjárfesting sem hefur skilað sér vel.

Alþingi: spurt um jarðgöng á Vestfjörðum

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir, varaþingmaður Viðreisnar hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um uppbyggingu jarðganga á Vestfjörðum.

Fyrirspurnin er í tveimur liðum:

1.      Kemur til greina að mati ráðherra að flýta áætluðum framkvæmdum við Súðavíkurgöng samkvæmt jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar, í ljósi þeirra aðstæðna sem íbúar Súðavíkur og nágrennis búa við vegna snjóflóða- og aurskriðuhættu?
2.      Hefur ráðherra íhugað að flýta jarðgöngum um Mikladal og Hálfdán til að tryggja íbúum svæðisins jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu og flugsamgöngum allan ársins hring?

Von er á svari innan tíu virkra daga.

MÍ: háskóladagurinn á morgun

Háskóladagurinn verður á morgun miðvikudaginn 13. mars á Ísafirði frá klukkan 12:30-14:00 í Menntaskólanum á Ísafirði. Þar munu allir háskólarnir sjö hér á landi kynna námsframboð sitt. Hátt í 400 námsleiðir eru í boði í grunn-, og framhaldsnámi. Dagurinn hefur verið haldinn í 40 ár og vex ár frá ári. Nýnæmi er að í ár verður farið á fjóra staði, Reykjavík, Egilsstaði, Akureyri og Ísafjörð.

„Það má líkja Háskóladeginum við leikvöll tækifæranna þar sem öll ættu að geta fundið nám við sitt hæfi. Námsframboð háskólanna sjö er enda gríðarlega fjölbreytt og spennandi. Það getur því verið vandi að velja en starfsfólk skólanna og nemendur verða á staðnum ásamt námsráðgjöfum til að styðja við námsvalið,“ segir Erla Hjördís Gunnarsdóttir, sem er nýr verkefnastjóri Háskóladagsins. 

Háskóladagurinn kl. 12:30-14:00:

Háskólakynningin verður í Gryfjunni kl. 12:30. Allir 7 háskólarnir á Íslandi kynna þar námsframboð sitt en háskólarnir eru; Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskólinn og Listaháskóli Íslands. Fulltrúar frá Háskólasetri Vestfjarða verða líka með kynningu. Á Háskólakynninguna eru öll velkomin sem hafa áhuga á að kynna sér námsframboð háskólanna. 

Fleira verður um að vera í Menntaskólanum þennan dag bæði opið hús fyrir grunnskólanemendur og vörumessa ungra frumkvöðla.

Opið hús í MÍ kl. 10:00-12:30:

Opið hús verður í MÍ sem er aðallega hugsað fyrir grunnskólanema. Grunnskólum Vestfjarða hefur verið boðið að koma í heimsókn í MÍ milli kl. 10:00 og 12:30. Grunnskólanemendur fá kynningu á námsframboði og skoðunarferð um húsnæði skólans. Í lok heimsóknar er boðið upp á hádegismat í mötuneytinu.

Vörumessa MÍ kl. 13.00-16:30:

Eftri hádegi verða nemendur í MÍ með Vörumessu ungra frumkvöðla í húsnæði Vestfjarðarstofu við Suðurgötu 12.  Vörumessa Mí er kynning á verkefnum nemenda sem þau vinna í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun og er vettvangur fyrir unga frumkvöðla, fyrirtæki og samfélagið að þróa nýjar hugmyndir og lausnir á Vestfjörðum. Áhersla er lögð á samstarf við fyrirtæki/ráðgjafa á svæðinu og sjálfstæða vinnu nemenda að nýsköpunarlausn. Verkefnið undirbýr nemendur fyrir framtíðina og eykur færni þeirra til nýsköpunar, atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar.  

Nýjustu fréttir