Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 145

Ísafjörður: Lions skemmtun á Hlíf á morgun

Frá Lions skemmtun á Hlíf. Mynd: Bjarni Jóhannsson.

Lionsklúbbur Ísafjarðar heldur skemmtun á Hlíf fyrir eldri borgara á morgun , föstudag 15. mars, og á dagskránni er kaffi hlaðborð, tónlist, söngur og bingó. Skemmtunin hefst kl 19:30.

Boðið verður upp á á kaffiveitingar, tónlist og bingó.

Klúbburinn hefur boðið upp á  skemmtikvöld á Hlíf í áratugi og var eitt fyrsta félagið til að halda þessi kvöld eftir byggingu Hlífar en  samsæti kvenfélagsins Hlífar var eldra. Lionsklúbburinn hefur frá upphafi hlúð að verkefnum í bænum og var einn ötulasti stuðningsaðili  vegna Bræðratungu heimilisins, og fylgdi þvi eftir með stuðningi við eldri borgara á  Elliheimilinu síðan  á Hlíf, Sjúkrahúsinu, Eyri, stuðningi við leikskólana  og fleira sem hefur verið Lionsfólki kært. Klúbburinn er ekki stór en hann hefur verðið öflugur I gegnum tíðina.

En eins og allir vita þá hefur skötu og harðfiskverkun verið aðal fjáröflun klúbbsins, sem hefur tekist  vel með dyggum stuðningi bæjarbúa. Og okkur félögum í Lions er  ljúft og skylt að launa til baka.

Ítreka að það eru allir eldri borgarar hjartanlega velkomnir.

Lionsklúbbur Ísafjarðar.

Hver eru áhrif aukinnar umferðar skemmtiferðaskipa?

Fimmtudaginn 21. mars mun Umhverfisstofnun standa fyrir ársfundi náttúruverndarnefnda í samstarfi við Náttúrustofu Vestfjarða og Samband íslenskra sveitarfélaga í Edinborgarsal á Ísafirði.

Umfjöllunarefni fundarins eru áhrif aukinnar umferðar skemmtiferðaskipa.

  • Hvaða áhrif hafa skemmtiferðaskipin á náttúru og samfélag?
  • Hvaða verkefni er verið að vinna um landið til að auka á sjálfbærni ferðamennsku á skemmtiferðaskipum?

Sveitarfélög og stofnanir hafa unnið að fjölmörgum verkefnum í samvinnu við skipafélög og markaðsstofur. Auk þess hafa fyrirtæki leitað leiða til að bæta upplifun gesta sinna og um leið samfélags og náttúru. Fundurinn er hugsaður sem vettvangur til að skiptast á hugmyndum, læra af reynslu annarra og ná árangri til aukinnar sjálfbærni.

Ársfundir náttúruverndarnefnda eru  samráðs- og upplýsingavettvangur fyrir fulltrúa í náttúruverndarnefndum sveitarfélaga. 

Fundurinn verður blanda af stað- og fjarfundi og verður öllum opinn sem áhuga hafa á málefninu. Dagskrá og skráning er opin á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Þeim sem sækja fundinn er bent á að skrásetningargjald er innheimt en boðið verður upp á kaffiveitingar og hádegismat.

Nánari upplýsingar um viðburðinn má finna á facebook og á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Davíð Örvar Hansson,

sérfræðingur á sviði náttúruverndarsvæða

Umhverfisstofnun

Bolungavík: skipulagshugmyndir Nostalglia á Bjarnabúðarreit

Fyrirtækið Nostalglía ehf á Suðureyri hefur skilað inn hugmyndum um skipulag og byggingaráform á áður úthlutuðum lóðum á Bjarnabúðarreit í Bolungavík. Gert er ráð fyrir að byggð verði átta hús með fimmtán 70 fermetra íbúðum og einu þvottahúsi. Auk þess er gert ráð fyrir móttökuhúsi og bílastæðum.

Elías Guðmundsson eigandi Nostalgíu ehf segir að þessar byggingar séu hannaðar sem íbúðarhúsnæði en fyrirhugað er að koma þeim í ferðaþjónustu tengt sjóstangveiði. Nostalgía hefur verið þróunaraðili að þessu verkefni en mun ekki koma að byggingu húsanna. Fyrirtækið Fisk Club ehf sem er í eigu Nostalgíu gerir út báta fyrir sjóstangveiði á Flateyri og Suðureyri stefnir á að bæta við sig einum áfangastað í viðbót. Hönnun og samþykktarferli á svona verkefni mun taka nokkra mánuði í viðbót en björtustu vorir eru að hægt verði að hefja jarðvegsvinnu á svæðinu í haust. Ef allt gengur upp í þessu ferli þá mun það taka 2-3 ár að koma fyrstu gestum í hús.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri segir að þetta séu spennandi hugmyndir og lýsi bjartsýni og uppbyggingarhug sem sé einkennandi fyrir Bolungavík um þessar mundir. Mikil uppbygging hafi átt sér stað með tilkomu fiskeldisins og íbúafjölgun fylgi í kjölfarið. Mikil þörf sé á nýju íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu.

Umhverfisnefnd Bolungavíkurkaupstaðar tók vel í þær hugmyndir er fram komu í kynningarskjali og þau byggingaráform sem fyrirhuguð eru og hvetur lóðahafa til að skila inn endanlegum aðaluppdráttum ásamt formlegri byggingarleyfisumsókn.

Afstöðu mynd sem Batteríið arkitektar hafa teiknað.

Háskóladagurinn: fiskeldisdeild Hóla sprungin

Haskólasetur Vestfjarða kynnti nám við setrið á háskóladeginum. Astrid Fehling, kennslustjóri stóð vaktina. Hún er frá Hamborg í Þýskalandi en hefur búið hér á landi í 14 ár og talar lýtalausa íslensku. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Háskóladagurinn var í Menntaskólanum á Ísafirði í gær. Allir sjö háskólarnir á Íslandi kynntu þar námsframboð sitt en háskólarnir eru; Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskólinn og Listaháskóli Íslands. Auk þess voru fulltrúar frá Háskólasetri Vestfjarða með kynningu.

Aðsókn var gríðarlega góð og fullt út úr dyrum. Greinilegt er að Vestfirðingar höfðu mikinn áhuga á að kynna sér nám sem í boði er í skólunum.

Háskólinn á Hólum kynnti meðal annars nám í fiskeldis- og fiskalíffræðideild. Þar er boðið upp á 90 eininga grunnnám og sagði fulltrúi Háskólans að aðsóknin í fiskeldisdeildina hefði margfaldast á síðustu tveimur árum. Nú væru 45 nemendur og segja mætti að deildin væri sprungin. Hins vegar væri engum neitað um nám og einfaldlega fundin lausn svo allir sem vilja gætu stundað námið.

Hún var brosmild stúlkan sem kynnti Háskólann á Hólum enda rífandi aðsókn í fiskeldisnámið.

Háskólinn í Reykjavík sendi þrjá starfsmenn til þess að kynna fjölbreytt námsframboð skólans og voru þeir með ítarlega kynningu á margvíslegum námsbrautum.

Starfsmenn Háskólans í Reykjavík komu fljúgandi vestur og mátti heyra á þeim að flugið hefði verið óvenjulegt.

Stærsti háskóli landsins Háskóli Íslands var einnig með góða kynningu á því námi sem í boði er í skólanum.

Samstarf Náttúruminjasafns Íslands og Hafrannsóknastofnunar

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, undirrita rammasamkomulagið.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Þorsteinn Sigurðsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, rannsókna- og ráðgjafarstofnunar hafs og vatna, innsigluðu rammasamkomulag um samstarf stofnananna 24. janúar síðastliðinn. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi fræðimanna og nemenda á vegum stofnananna um rannsóknir og miðlun á fræðasviðum sínum.

Undirritun samkomulagsins er mikilvægur liður í að styrkja tengsl stofnananna sem er einkar mikilvægt fyrir Náttúruminjasafnið í því ljósi að nú er unnið hörðum höndum að gerð grunnsýningar í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsinu í Nesi, sem til stendur að opna um mitt ár 2025. Þema sýningar verður hafið, eðli þess og gerð, með áherslu á líffræðilega fjölbreytni og vistfræði og þær ógnir sem steðja að sjávarlífríkinu. Hin nýja aðstaða mun veita einstakt tækifæri varðandi miðlun og fræðslu á mikilvægi hafsins fyrir land og þjóð.

Samstarf stofnananna býður upp á mikil samlegðaráhrif á sviði vísinda, menntunar og menningar. Það er mikil tilhlökkun innan veggja Náttúruminjasafnsins á samstarfinu við Hafrannsóknastofnun sem býr að úrvalsþekkingu á málefnum hafsins og sjávarlífríkisins.

Erlendum ríkisborgurum fjölgar

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár voru 76.001 erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi þann 1. mars sl. og fjölgaði þeim um 1.578 einstaklinga frá 1. desember 2023 eða um 2,1%.

Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 317 einstaklinga eða um 0,1%.

Ríkisborgurum frá Úkraínu og Palestínu heldur áfram að fjölga. Úkraínskum ríkisborgurum fjölgaði um 279 eða 7,1% og ríkisborgurum frá Palestínu fjölgaði um 51 eða 9,5%.

Pólskum ríkisborgurum fjölgaði um 85 og eru nú 25.697 pólskir ríkisborgarar með lögheimili á Íslandi.

Á sama tímabili fjölgaði íslenskum ríkisborgurum um 317 einstaklinga eða um 0,1%.

Miðnæturtónleikar Bríetar á Vagninum

Fyrir ári síðan mætti Bríet á Vagninn og hélt miðnæturtónleika við gríðarlega góðar undirtektir og stappfullt hús.

Nú að ári liðnu ætlar hún að endurtaka leikinn. Bríet byrjar að spila um miðnætti og ætlar að dansa og syngja með fólkinu inn í nóttina.

Hún mætir með stórvalaliði íslenska tónlistarbransans, þeim Magnúsi Jóhanni hljómborðsleikara og Bergi Einari trommara.

Ísafjarðarbær: ákvæði gjaldtöku um meðhöndlun úrgangs óskýr og ruglingsleg

Lagt hefur verið fyrir bæjarráð tilllaga að breytingu á samþykkt um meðhöndlun úrgangs, en breytingin felur í sér breytingu á gjalddtökuákvæði 16. gr. samþykktarinnar. Í minnisblaði sviðsstjóra stjórnsýslu- og
fjármálasviðs segir að gjaldskráin hafi verið birt í Stjórnartíðindum á síðasta ári og hafi verið sú fyrsta á landinu eftir umfangsmiklar breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs.

Komið hafi hins vegar í ljós að ákvæði 16. gr. samþykktarinnar, um gjaldtöku, eru óskýr og ruglingsleg og jafnframt hamlandi ef breyta þarf gjaldskránni að einhverju leyti.
Færi því best á því að einfalda ákvæðið, hafa það almennara og skýrara, með hliðsjón af lögunum, og er jafnframt horft til 2. mgr. 7. gr. samþykktar Skagabyggðar í þeim efnum, segir í minnisblaðinu.

Í tillögunni eru þrjár málsgreinar 16. greinarinnar felldar brott, 2. til 4. mgr.og ný málsgrein kemur í stað þeirra svohljóðandi:

Bæjarráðið vísaði breytingunum til afgreiðslu í umhverfis- og framkvæmdanefnd.

Ísafjarðarbær: sótti um 267,2 m.kr. styrk úr Fiskeldissjóði til sex verkefna

Sundhöllin á Ísafirði.

Ísafjarðarbær lagði inn umsókn um styrk úr Fiskeldissjóði fyrir sex verkefnum. Auk þess er sveitarfélagið aðili að 50 m.kr. sameiginlegri umsókn vegna byggingar verkmenntahúss við Menntaskólann á Ísafirði.

Hæsta styrkbeiðnin 101,5 m.kr. er vegna aðveituæðar á Suðurtanga.

Leggja á nýja vatnslögn frá munna jarðganganna að Suðurtanga. Annars vegar verður lögnin grafin í frá gangamunna að Sigurðarbúð í botni Skutulsfjarðar. Þaðan verður lögnin lögð í sjó yfir Pollinn og kæmi upp syðst á Suðurtanga. Tvö fiskeldisfyrirtæki hafa fengið úthlutað lóðum við Sundabakka á Ísafirði, fyrirtækin Hábrún og Háafell og segir í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs að fyrirséð sé að vatnsveitan verði komin að þolmörkum þegar byrjað verður að slátra fiski á Ísafirði.

Sótt er um 93,3 m.kr. styrk vegna fráveitu á Þingeyri.

Ætlunin er að leggja nýja fráveitulögn í Hafnarstrætið og setja upp hreinsivirki neðst á Oddann. Við þær aðgerðir munu öll iðnaðarhús við Hafnarstræti vera tengd við hreinsivirki og um 7-8 eldri útrásir vera aflagðar.

Þá er sótt um 53,1 m.kr. styrk til byggingar á svonefndu skógarhúsi við leikskólann Tanga. Húsið verður tengt Jónsgarði og er hugmyndin að þar verði starfrækt leikskóladeild innan leikskólans Tanga þar sem
10-12 börn yrðu í senn og tækju þátt í virku útinámi tengt Jónsgarði og skógræktinni í hlíðum Eyrarfjalls.

Stækkun á leikskólanum Sólborg er fyrirhuguð og er sótt um 15,3 m.kr. styrk vegna þess.

Endurbætur á félagsheimilinu Þingeyri eru fyrirhugaðar og er sótt um 17,6 m.kr. styrk til viðgerða á gólfi.

Loks er sótt um 16,5 m.kr. styrk til breytinga á Sundhallarlofti á Ísafirði sem gæti nýst fyrir dægradvöl grunnskólabarna.

Dynjandisheiði: útboð lokaáfanga líklegt á árinu

Unnið að vegagerð á Dynjandisheði í lok febrúar 2024. Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.

Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir að það sé líklegt að lokaáfangi á Dynjandisheiðinni verði boðinn út á árinu þótt ekki sé hægt að lofa neinu. Þegar hefur verið gefið út að lokaáfangi í Gufudalssveit verði boðinn út á þessu ári.

Í umsögn Vesturbyggðar um samgönguáætlun sem liggur fyrir Alþingi segir “Ef forgangsraða þarf framlögum þá leggur Vesturbyggð til að framlög verði nýtt til að Ijúka framkvæmdum á Vestfjarðavegi um Gufúdalssveit og framkvæmdum á Dynjandisheiði verði hliðrað til með tilliti til þeirrar forgagnsröðunar.“

Vegagerðin var innt eftir því hvort verið væri að taka mið af þessari umsögn við ákvörðun á útboði. Því var svarað þannig til, að svo væri ekki , heldur hafi Gufudalssveitin verið þannig séð lengra komin.

Nýjustu fréttir