Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 144

Viðtalið: Þorsteinn Másson

Þorsteinn Masson, framkvæmdastjóri Bláma er í viðtalinu að þessu sinni. Bæjarins besta fékk hann til þess að segja frá Bláma og sjálfum sér.

Hvað er Blámi

Markmið Bláma er að er að ýta á eftir orkuskiptaverkefnum, auka orkutengda nýsköpun og styðja við verðmætasköpun á grunni vistvænna orkunýtingar Vestfjörðum.

Við hjá Bláma höfum lagt mikla áherslu á að vinna náið með fyrirtækjum og sveitarfélögum á svæðinu við fjármögnun og skipulagningu orkuskiptaverkefna og verkefna sem auka verðmætasköpun á svæðinu. Við erum afar stolt a samstarfi okkar við fiskeldisfyrirtækin, Menntaskólann á Ísafirði og sveitarfélögin á svæðinu en saman höfum við dregið vel yfir 200 milljónir inn á svæðið í gegnum Orkusjóð og aðra sjóði sem sýnir að vestfirskt samfélag ætlar sér stóra hluti þegar kemur að orkuskiptum.

hverjir standa að því og hvað gerir það.

Blámi var stofnaður 2021 og er í eigu Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Vestfjarðastofu og Umhverfis -, Orku og Loftlagsráðuneytisins. Eigendur og bakjarlar Bláma hafa lagt áherslu á að raungera verkefni, koma hlutum á hreyfingu og tengja saman misunandi aðila með sameiginleg markmið.

Dæmi um verkefni sem við höfum komið að eru uppsetning hleðslustöðva, landtengingar brunnbáta og fóðurpramma ásamt innleiðingu á rafhlöðukerfum.

Við höfum unnið náið með Orkubú Vestfjarða og Landsvirkjun við að skoða miðlægar varmadælur sem geta dregið úr olíunotkun við húshitun þegar skerðanleg orka er ekki tiltæk. Svo erum við að vinna að spennandi nýsköpunarverkefni með Súðavíkurhreppi sem snýst um að nota nýja tækni til að hita vatn á köldum svæðum. 

Jafnframt erum í metnaðarfullu verkefni með Orkubúi Vestfjarða og Menntaskólanum á Ísafirði við að koma upp sólarrafhlöðum sem nýttar verða til kennslu og til orkuframleiðslu fyrir verkmenntahúsið.

Hver er Þorsteinn, hvað hefur hann haft fyrir stafni og hver eru t.d. helstu áhugamál hans?

Ég er rúmlega fertugur Vestfirðingur, búsettur í Bolungarvík, uppalinn á Ísafirði og á dásamlega tvíbura, Má Óskar og Valdísi Rós.

Ég veit fátt eins skemmtilegt og að leika mér í vestfirskri náttúru á hjóli, skíðum eða á veiðum, sérstaklega í góðra vina hóp. Ég á  tvær systur, fósturbróðir og yndislega foreldra sem eru mér miklar fyrirmyndir og vinir.

Ég er heppinn með samstarfsfólk og í gegnum vinnuna hjá Bláma fæ ég að vinna með mikið af flinku og skemmtilegu fólki.  Það er sérstaklega ánægjulegt að gera unnið að verkefnum sem styrkja og efla samfélagið hér í villta vestrinu enda er frábært að búa hérna og mikil tækifæri til frekari verðmætasköpunar með því að nýta staðbundnar auðlindir og vera sjálfum okkur nóg þegar kemur að raforku. 

Bolungavíkurhöfn: eldislax 32% meiri en veiddur fiskur í janúar – febrúar

Novatrans kemur með eldislax til slátrunar í Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Landaður eldislax til vinnslu í laxasláturhúsið Drimlu í Bolungavík frá áramótum til loka febrúar var samtals 2.513 tonn. Á sama tíma var landað 1.901 tonni af veiddum fiski í Bolungavíkurhöfn. Magnið af eldislaxi var því 32% meira en veiddum bolfiski.

Í janúar var landað 985 tonnum af bolfiski og í febrúar 916 tonnum.

Aðeins þrjú skip og bátar voru á veiðum í febrúar.

Togarinn Sirrý ÍS fór átta veiðiferðir og landaði 493 tonnum.

Tveir línubátar lönduðu afla í mánuðinum. Fríða dagmar ÍS kom með 217 tonn eftir 16 veiðiferðir og Jónína Brynja ÍS landaði 205 tonnum eftir 15 veiðiferðir.

Ísafjarðarbær: afturkalla úthlutaðar lóðir

Tunguhverfi Ísafirði.

Fyrirtækið Landsbyggðarhús ehf fékk úthlutað lóðunum Bræðratungu 2-10 á Ísafirði í febrúar 2023. Meðal skilmála var að lóðarumsókn falli úr gildi hafi framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá úthlutun.

Í byrjun febrúar sendi fyrirtækið erindi og óskaði eftir að fá að flytja lóðina yfir á nýtt félag og um leið frest til að klára byggingu þar til næsta veturs. „Við áætlum að vera búin að byggja raðhúsið í september á þessu ári en gott að hafa smá svigrúm eða til desember til að klára verkið“ segir í erindi þeirra.

Segir ennfremur að fyrirtækið sé komið í samstarf við öfluga aðila varðandi byggingu á 5 íbúða raðhús á lóðinni í sumar. Byrjað verði á þeirri vinnu næsta vor eða um leið og snjóa leysir.

Í fundargerð skipulags- og mannvirkjanefndar segir að „félagið hyggst ekki fara í framkvæmdir við Bræðratungu“ og bókað er að „Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að afturkalla lóðarúthlutun Landsbyggðarhúsa ehf. við Bræðratungu 2-12 (áður 2-10) í Tunguhverfi á Ísafirði.“

Upplestrarkvöld í Skriðu á Patreksfirði

Fimmtudaginn 28. mars (Skírdag) kl. 20 verður upplestrarkvöld á prentverkstæði Skriðu á Patreksfirði.

Upplesarar kvöldsins verða Ólafur Sveinn Jóhannesson og Sigríður Soffía Níelsdóttir, sem bæði tengjast hingað vestur.

Ólafur Sveinn gaf í fyrra út bókina Tálknfirðingur BA, þar sem hann yrkir um heimabyggð sína af einlægni og dregur upp áhrifamiklar myndir af mannlífi og tilveru fyrir vestan. Þá hefur hann einnig gefið út ljóðabókina Klettur – ljóð úr sprungum, sem var m.a. tilnefnd til ljóðabókaverðlaunanna, Maístjörnunnar.

Sigríður Soffía gaf út sína fyrstu bók í fyrra, Til hamingju með að vera mannleg, en ljóðin voru ort á meðan hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri.

Vorið 2023 var einnig frumsýnt dansleikverk með sama nafni á stóra sviði Þjóðleikhússins, byggt á textum hennar.

Menningar- og ferðamálaráð Vesturbyggðar styrkir viðburðinn

Úr ársskýrslu Listasafns Ísafjarðar

Í ársskýslu Listasafns Ísafjarðar fyrir árið 2023 kemur fram að farið var í það verkefni að staðsetja, ástandsskoða og skrá safnkost Listasafns Ísafjarðar.

Safnið býr yfir ágætum safnkosti sem telur um 200 verk og prýðir hluti þeirra húsakynni opinberra stofnana víða í bænum en annað er í geymslu.

Hafin var undirbúningsvinna að nýrri skráningu á safneigninni og stefnt að því að nýja skráin verði aðgengileg almenningi.
Ástandsskoðun leiddi í ljós að því miður er nokkuð um skemmdir á verkum safnsins. Má þar fyrst og fremst kenna um langvarandi skorti á viðunandi geymsluaðstöðu þar sem verkin hafa oftar en ekki verið geymd í þrengslum og aðgengi að þeim erfitt. Að sama skapi hefur umgengni við verk í láni ekki alltaf verið sem skyldi og vantað upp á að borin væri nægjanleg virðing fyrir þeim menningarverðmætum menn taka ábyrgð á meðan á láni stendur. Viðgerðir eru óumflýjanlegar og ljóst að mikill kostnaður mun fylgja því verkefni. Hvernig staðið verður að fjármögnun er óljóst á þessari stundu en líklegast að leitað verði aðstoðar einstaklinga og fyrirtækja.

Þá greinir skýrslan frá því að árið 2023 voru haldin þrjú námskeið fyrir börn og unglinga á vegum safnsins. Þátttakendur voru 54 talsins. Haustið 2023 var lögð sérstök áhersla á fræðslu til barna og unglinga til að efla áhuga á myndlist. Farið var af stað með verkefnið SAMANSAFN, safnfræðsla Listasafns Ísafjarðar.

Starfsmaður safnsins fékk til liðs við sig Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen, ungan grafískan hönnuð, til að hanna fræðslulógó fyrir safnfræðsluna. Í framhaldi hélt safnið utan um listasmiðjur fyrir börn og unglinga samhliða haustsýningu safnsins DREGIN LÍNA.


Þátttakendur fengu þar tækifæri til að vinna á skapandi og sjálfbæran hátt undir leiðsögn listamanna sýningarinnar auk annarra menntaðra listamanna. Áhersla var lögð á að þau sæktu innblástur í sýninguna, umhverfi og safneign listasafnsins og túlkuðu á sinn hátt. Að lokum var sýning á afrakstri verkefnisins sett upp á göngum Safnahússins.

Á árinu 2023 var einn starfsmaður við Listasafn Ísafjarðar, Rannveig Jónsdóttir, í 35% stöðugildi sérfræðings. Guðfinna M. Hreiðarsdóttir, forstöðumaður Skjalasafnsins og Ljósmyndasafnsins, er jafnframt forstöðumaður Listasafns Ísafjarðar og sinnir þeim verkefnum listasafnsins sem undir hana falla.

Viltu efla íþróttastarf á Vestfjörðum

ÍSÍ og UMFÍ leitar að sextán hæfileikaríkum og metnaðarfullum einstaklingum með brennandi áhuga á íþróttastarfi á Íslandi til að taka þátt í að byggja upp öflugt starf íþróttahéraða á öllu landinu. Tveir þeirra munu starfa á Vestfjörðum

Starfsmennirnir verða staðsettir á átta svæðisskrifstofum um allt land en tveir starfsmenn verða á hverri stöð. Horft er til þess að starfsmennirnir sextán muni vinna saman sem einn þar sem styrkleikar og hæfileikar hvers og eins verða nýttir. 

Starfsfólk svæðisskrifstofanna tekur þátt í að skapa tækifæri og þróa árangursríkt íþróttaumhverfi fyrir börn – og ungmenni, fá tækifæri til að vinna að fjölbreyttum verkefnum sem miða að því að hámarka tækifæri barna og ungmenna til íþróttaiðkunar. 

Starfsemi svæðisskrifstofanna byggir á teymishugsun þar sem samvinna, fagmennska og framsækni í sterkri liðsheild er grundvallaratriði.  

Vestfirðir:
Héraðssambandið Hrafna-Flóki (HHF)
Héraðssamband Bolungarvíkur (HSB)
Héraðssamband Strandamanna (HSS)
Héraðssamband Vestfirðinga (HSV)
Sækja um starfið á Vestfjörðum

Feðgar með tónleika í Eistlandi

Ljósmyndir Haide Rannakivi

Klarínettuleikarinn og skólastjóri Tónlistarskóla Bolungarvíkur Selvadore Rähni og sonur hans píanóleikarinn Oliver Rähni sem er fyrrverandi nemandi og kennari skólans komu fram á tvennum tónleikum með Pärnu borgarhljómsveitinni í Eistlandi undir stjórn Mikk Murdvee.

Tónleikarnir voru partur af tónleikaröð vegna 30. ára afmælis hljómsveitarinnar og fóru fram í nýja Tubin Tónleikasalnum í Tartu og í Tónleikahúsinu í Pärnu.

Á efnisskránni voru tveir einleikskonsertar.

Selvadore flutti Klarínettukonsertinn fræga eftir W. A. Mozart sem er jafnframt uppáhaldskonsertinn hans. Hann spilaði verkið fyrst einungis 15 ára gamall og þá bæði í Eistland og í Moskvu.

Oliver flutti Píanókonsert nr. 1 eftir C. M. von Weber og var þetta opinber frumflutningur verksins í Eistlandi.

Oliver stundar nú píanónám við Listaháskóla Íslands hjá Peter Maté og Eddu Erlendsdóttur.

Tónleikarnir voru ákaflega vel heppnaðir og hlutu flytjendur mikið lof fyrir hjá tónleikagestum.

Hrafna Flóki: tveir fengu heiðursmerki ÍSÍ

Á myndinni má sjá Andra og Björgu við afhendinguna. Mynd: ÍSÍ.

Laugardaginn 9. mars fór fram Héraðsþing Héraðssambandsins Hrafna-Flóka (HHF) í Vestur Barðarstrandarsýslu. Við það tilefni voru tvö heiðursmerki ÍSÍ afhent en það var Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, sem ávarpaði þingið fyrir hönd ÍSÍ og afhenti heiðursmerkin fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ.

Margrét Brynjólfsdóttir var sæmd Gullmerki ÍSÍ en hún hefur starfað í stjórn Íþróttafélagsins Harðar í 16 ár og haldið starfinu gangandi með miklum sóma.

Björg Sæmundsdóttir var sæmd Silfurmerki ÍSÍ en hún hefur setið í stjórn HHF og starfað til margra ára fyrir Íþróttafélagið Hörð og fyrir Golfklúbb Patreksfjarðar. Hún er starfandi formaður GP í dag og hefur setið í stjórn síðan 2007.

Fiskeldissjóður: Vesturbyggð með 8 umsóknir og sækir um 248 m.kr. styrk

Grunnskólinn á Bíldudal. Mynd: RUV.

Vesturbyggð hefur lagt fram umsóknir um átta verkefni í Fiskeldissjóð og sækir samtals um 248 m.kr. styrk úr sjóðnum.

Langhæsta umsóknin er vegna nýbyggingar á leik- og grunnskóla á Bíldudal en til þessa verkefnis er sótt um 150 m.kr. styrk.

Til endurnýjunar skólalóðar á Patreksfirði er sótt um 41 m.kr. Til þess að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn er sótt um 19.750.000 kr.

Til kaupa og uppsetningar á varmadælu við sundlaugina á Patreksfirði er sótt um 13 m.kr. styrk.

Til rannsóknarrýmis í verbúðinni á Patreksfirði er sótt u 7.175.000 kr styrk.

Til söfnunarsvæðis fyrir úrgang í dreifbýli er sótt um 6 m.kr. styrk. Til þekkingarseturs í Vatneyrarbúð er sótt um 5.828.000 kr. styrk og loks til kaup á rafmagnsvinnubíl 5.390.000 kr.

Vegagerðin: þungatakmörkunum aflétt

Frá Steingrímsfjarðarheiði.

Á þessum vegköflum á Vestfjörðum verður þungatakmörkum aflétt frá kl 12:00  í dag 14. mars:

Djúpvegur 61 frá gatnamótum Þröskulda við Vestfjarðaveg til Bolungarvíkur.

Innstrandavegur 68.

Vestfjarðavegur 60 frá Ísafirði að Flókalundi.

Súgandafjarðarvegur 65.

Flateyrarvegur 64.

Þingeyrarvegur 622

Drangsnesvegur 645

Uppfærtt kl 12:13. Bætt var við Drangsnesvegi og Þingeyrarvegi eftir nýja tilkynningu frá Vegagerðinni.

Nýjustu fréttir