Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 143

Seglskúta stjórnvana við Straumnes

Straumnesviti. Mynd: Wikimedia.

Á fjórða tímanum í dag hafði seglskúta samband við Landhelgisgæsluna á VHF rás 16 og kvaðst vera stjórnvana skammt undan Straumnesi á Vestfjörðum. Skútan hafði verið í togi hjá öðrum báti en dráttartaugin slitnaði vegna slæms sjólags og tókst ekki að tengja dráttartaugina á milli skipanna aftur. Áhöfn skútunnar dró þá upp segl og reyndi þannig að sigla í skjól en þá gaf stýri skútunnar sig og varð hún því stjórnvana. Skútan var þá um eina sjómílu norður af Straumnesi. Slæmar aðstæður voru á vettvangi vegna hvassviðris og sjólags og ákvað skipstjóri skútunnar að lýsa yfir neyðarástandi og óska aðstoðar Landhelgisgæslunnar. Fjórir voru um borð í skútunni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni sem var að berast.

Landhelgisgæslan kallaði þegar út á hæsta forgangi þyrlu, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Ísafirði og Bolungarvík ásamt því að hafa samband við nærstödd skip og báta og óska aðstoðar þeirra.

Á vettvangi var hvöss norðaustanátt og þar sem straumur féll á móti vindi var kröpp alda og aðstæður erfiðar. Skútuna rak þó til suðvesturs en ekki að landi.

Áhöfn skútunnar tókst að setja út neyðarstýri og gat því siglt skútunni undir seglum inn á Aðalvík í skjól. Um svipað leyti komu fiskeldisþjónustuskipið Fosnakongen og björgunarskipið Gísli Jóns á vettvang en ekki var þörf á aðstoð þeirra þegar þarna var komið. Þyrlunni var snúið við þegar ljóst var að hættuástand var yfirstaðið.

Ráðgert er að sigla skútunni undir seglum inn fyrir Rit þar sem dráttartaug verður tengd að nýju við dráttarskipið og munu skipin síðan halda til hafnar á Ísafirði.

Hvernig bregst þorskurinn við fyrir framan botnvörpu?

Þegar botnvarpa er dreginn eftir botni þá safnar hún saman fiskum fyrir framan sem síðan enda inn í vörpunni og safnast í poka vörpunnar.

En ekki allir fiskar enda inn í vörpu, sumir fiskar sleppa meðal annars undir vörpuna og þá ýmist við vænghluta eða fyrir miðju. Tegunda- og stærðarmunur er á því hvert hlutfallið er sem sleppur við vænghluta miðað við miðju.

En einnig má sjá mun á tegundum og stærðum hvort fiskur stingur sér undir vörpuna eða lendir inni í henni. Lærdómur af þessu gefur okkur mikilvægar vísbendingar um hvernig megi þróa „rockhopperinn“ og fótreipi frekar til að ná árangri í veiðum en um leið lágmarka áhrif veiða á annað líf.

Þetta verður umræðuefni í fundarsal í húsi Hafrannsókastofnunar í Hafnarfirði þann 21. mars kl. 12:30. Fundinum verður streymt á Teams.

Fyrirlesari verður Haraldur Arnar Einarsson fiskifræðingur sem  hefur starfað hjá Hafrannsóknastofnun með fáum hléum frá árinu 1992. Lengst af sem sérfræðingur í veiðarfærum.

Hann hefur tekið þátt í eða stjórnað fjölmörgum rannsóknarleiðöngrum þar sem virkni og áhrif veiðarfæra eru mæld. Síðasta áratuginn hefur Haraldur tekið að sér formennsku í vinnunefndum hjá Alþjóðlega Hafrannsóknaráðsins (ICES), fyrst í vinnunefnd veiði tækni og hegðun fiska (WGFTFB) en síðan stofnandi og formaður vinnunefndar um stærðar og tegunda kjörhæfnismælinga (WGSSSE).

Sem stendur þá starfar Haraldur samhliða Hafrannsóknastofnun hjá Matvæla og Landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) í litlum vinnuhópi sem kallar sig „Fishing Technology and Operations team“. Hefur þar komið að margvíslegum verkefnum sem snúa að fiskveiðum um heim allan, t.d. leiðum við að lækka hlutfall spendýra í veiðum, merkingu veiðarfæra, og safna upplýsingum um tap veiðarfæra sem uppsprettu plasts í hafi frá veiðum.

Framtíðarmöguleikar Breiðafjarðar – athugið breytta fundatíma!

Framtíðarmöguleikar Breiðafjarðar – leit að jafnvægi milli verndar og nýtingar

Veðurguðirnir hafa orðið til þess að breyta þarf fundatíma á tveimur fundum um framtíðarmöguleika Breiðafjarðar. Vakin er athygli á breyttum tímasetningum á upplýsinga- og umræðufundum á Birkimel og Laugum, sem verða nú sem hér segir: 

  • Fimmudaginn 21. mars, kl. 17 – 19.30 á Félagsheimilinu Birkimel á Barðaströnd.
  • Mánudaginn 25. mars, kl. 17 – 19.30 í Dalahóteli, Laugum í Sælingsdal.

Kynnt verður verkefni, sem hófst árið 2022 um forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar með tilliti til byggðaþróunar og sjálfbærrar nýtingar. Markmið fundarins er að heyra sjónarmið íbúa og hagaðila, stýrihópi verkefnisins til upplýsinga, en hann mun síðan gera tillögur til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Dagskrá (sjá skjöl í virkum hlekkjum):

Inngangur og stöðugreining: Sigríður Finsen, formaður stýrihóps

Hagrænt virði Breiðafjarðar: Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá SSV

Sviðsmyndagreining KPMG: Aðalsteinn Óskarsson, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Páll S. Brynjarsson, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi

Drög að tillögum stýrihóps kynnt

Umræður í litlum hópum

Samantekt niðurstaðna

Boðið verður upp á kaffiveitingar.

Fundaumsjón: Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ILDI.

Sjá meira um verkefnið hér

Þyrlan TF-LIF í lögð af stað í sína síðustu ferð

Björgunarþyrlan TF-LIF yfirgaf Reykjavíkurflugvöll í síðasta sinn í gær.

Þyrlunni var ekið norður á Akureyri og verður til sýnis á Flugsafninu þegar fram líða stundir.

Þyrlan var seld í fyrra en kaupandinn eftirlét öldungaráði Landhelgisgæslunnar og Flugsafninu skrokk þyrlunnar svo hægt væri að varðveita þessa sögufrægu björgunarþyrlu.

Koma Lífar til Landsins árið 1995 olli straumhvörfum í þyrlurekstri Landhelgisgæslunnar. Þyrlan var mun stærri og öflugri en þær sem fyrir voru. Ekki leið á löngu þar til kaupin voru búin að sanna gildi sig því á tæpri viku í mars árið 1997 var 39 skipbrotsmönnum bjargað um borð í þyrluna þegar Víkartindur, Þorsteinn GK og Dísarfell fórust.

Fjölmenni fagnaði þyrlunni þegar hún kom til landsins 23. júní 1995. Flugstjórarnir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson flugu þyrlunni til Íslands frá Frakklandi og við heimkomuna sagði Páll að þyrlan hefði reynst vel á heimleiðinni. ,, Þessi þyrla uppfyllir allar okkar óskir og er bylting“.

Benóný, Páll og fleiri úr öldungaráðinu voru viðstaddir þegar þyrlan var hífð á pall flutningabílsins í gær og hélt í sína lokaferð.

Öldungaráðinu hefur, með mikilli elju og dugnaði, tekist að tryggja veru þyrlunnar á Flugsafninu á Akureyri.

Ráðið hefur m.a fengið notaða varahluti svo hægt verður að sýna þyrluna í sinni réttu mynd á Flugsafninu. Þar verður saga vélarinnar varðveitt fyrir komandi kynslóðir.

Yfir 7 þúsund íbúðir í byggingu á landinu – 32 á Vestfjörðum

Alls eru 7.174 íbúðir í byggingu um allt land, samkvæmt mælaborði íbúða í byggingu á vefsíðu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Meirihluti íbúða í byggingu er á höfuðborgarsvæðinu eða 4284 íbúðir á Suðurlandi eru íbúðir í byggingu 1.320 og eru þær flestar í sveitarfélögunum Ölfusi og Árborg. Á Suðurnesjum eru svo 684 íbúðir í byggingu og eru þær flestar í Reykjanesbæ.

Mannvirkjaskrá nýtir m.a. gögn úr fasteignaskrá ásamt gögnum frá sveitarfélögum.

Íbúðir í byggingu utan höfuðborgarsvæðisins, Suðurlands og Suðurnesja eru hins vegar 886, en þar af eru 223 á Akureyri.

Fæstar eru íbúðir í byggingu á Vestfjörðum, en þar eru þær einungis 32 talsins en ættu að vera um 130 ef horft er til þess mannfjölda sem þar býr.

Fiskeldissjóður: sækja um 740 m.kr. styrk

Vatnsveitan í Bolungavík verður í Hlíðardal. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sex vestfirsk sveitarfélög sækja um styrki úr Fiskeldissjóði samtals að upphæð 740 m.kr.

Ísafjarðarbær sækir um 267 m.kr. styrk til sex verkefna og Vesturbyggð sækir um 248 m.kr. til átta verkefna.

Bolungavíkurkaupstaður er með tvær umsóknir og sækir um 50 m.kr. Sótt er um 25 m.kr. styrk til þess að bæta aðgengi almennings að hafnasvæðinu og sömu fjárhæð til að bora neysluvatnsholur fyrir nýja vatnsveitu.

Súðavíkurhreppur er með þrjár umsóknir. Sótt er um 45 m.kr. styrk til líkamsræktaraðstöðu, til þess að koma upp heitum pottum 15.850.000 kr. og 1.5 m.kr. í mengunarvarnarbúnað fyrir Súðavíkurhöfn.

Tálknafjarðhreppur sækir um 80 m.kr. styrk í fráveitu frá þéttbýlinu.

Loks er Strandabyggð með eina umsókn. Sótt er um 43,5 m.kr. styrk til uppbyggingar hreinsistöðva.

Strandabyggð: skorar á ráðherra að draga til baka þjóðlendukröfur

Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum í fyrradag að skora á fjármála-og efnahagsráðherra að draga til baka kröfur um Þjóðlendur á svæði 12 sem bárust Óbyggðanefnd 2. febrúar síðastliðinn.

í ályktuninni segir: „Kröfulýsing fjármála og efnahagsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins er illa unnin og óskýr. Ástæða er til að ætla að málarekstur fyrir óbyggðanefnd verði mjög kostnaðarsamur og tímafrekur, þar sem um er að ræða mörg lögfræði- og landfræðileg álitamál og afar margir eigendur að þeim eyjum og skerjum sem gerð er krafa í.
Sveitarstjórn Strandabyggðar tekur undir með fjármála- og efnahagsráðherra um nauðsyn þess að fara vel með almannafé og að í ljósi aðstæðna í samfélaginu þurfi að forgangsraða verkefnum. Sveitarstjórn telur að þetta verkefni eigi ekki heima í forgangsröðinni og því sé hægt að fresta.“

Nýtt starf samkvæmt heimild í fjárhagsáætlun 2023

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að ekki hafi þurft að leggja fyrir bæjarráð að stofna á þessu ári nýtt stöðugildi deildarstjóra á umhverfis- og eignasviði þar sem heimild hafi verið fyrir því í fjárhagsáætlun fyrir 2023 sem samþykkt var í lok árs 2022. „Þetta er gert til að bæta þjónustu og koma til móts við fjölgun verkefna á sviðinu.“ segir skriflegu svari hennar.

Í greinargerð með fjárhagsáætlun 2023 segir að á tæknideild sé gert ráð fyrir „að bæta við einu stöðugildi vegna almennra skrifstofustarfa, um er að ræða 87% starfshlutfall fyrir árið 2023, stöðugildi færist af velferðarsviði yfir á tæknideild.“

Viðtalið: Þorsteinn Másson

Þorsteinn Masson, framkvæmdastjóri Bláma er í viðtalinu að þessu sinni. Bæjarins besta fékk hann til þess að segja frá Bláma og sjálfum sér.

Hvað er Blámi

Markmið Bláma er að er að ýta á eftir orkuskiptaverkefnum, auka orkutengda nýsköpun og styðja við verðmætasköpun á grunni vistvænna orkunýtingar Vestfjörðum.

Við hjá Bláma höfum lagt mikla áherslu á að vinna náið með fyrirtækjum og sveitarfélögum á svæðinu við fjármögnun og skipulagningu orkuskiptaverkefna og verkefna sem auka verðmætasköpun á svæðinu. Við erum afar stolt a samstarfi okkar við fiskeldisfyrirtækin, Menntaskólann á Ísafirði og sveitarfélögin á svæðinu en saman höfum við dregið vel yfir 200 milljónir inn á svæðið í gegnum Orkusjóð og aðra sjóði sem sýnir að vestfirskt samfélag ætlar sér stóra hluti þegar kemur að orkuskiptum.

hverjir standa að því og hvað gerir það.

Blámi var stofnaður 2021 og er í eigu Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Vestfjarðastofu og Umhverfis -, Orku og Loftlagsráðuneytisins. Eigendur og bakjarlar Bláma hafa lagt áherslu á að raungera verkefni, koma hlutum á hreyfingu og tengja saman misunandi aðila með sameiginleg markmið.

Dæmi um verkefni sem við höfum komið að eru uppsetning hleðslustöðva, landtengingar brunnbáta og fóðurpramma ásamt innleiðingu á rafhlöðukerfum.

Við höfum unnið náið með Orkubú Vestfjarða og Landsvirkjun við að skoða miðlægar varmadælur sem geta dregið úr olíunotkun við húshitun þegar skerðanleg orka er ekki tiltæk. Svo erum við að vinna að spennandi nýsköpunarverkefni með Súðavíkurhreppi sem snýst um að nota nýja tækni til að hita vatn á köldum svæðum. 

Jafnframt erum í metnaðarfullu verkefni með Orkubúi Vestfjarða og Menntaskólanum á Ísafirði við að koma upp sólarrafhlöðum sem nýttar verða til kennslu og til orkuframleiðslu fyrir verkmenntahúsið.

Hver er Þorsteinn, hvað hefur hann haft fyrir stafni og hver eru t.d. helstu áhugamál hans?

Ég er rúmlega fertugur Vestfirðingur, búsettur í Bolungarvík, uppalinn á Ísafirði og á dásamlega tvíbura, Má Óskar og Valdísi Rós.

Ég veit fátt eins skemmtilegt og að leika mér í vestfirskri náttúru á hjóli, skíðum eða á veiðum, sérstaklega í góðra vina hóp. Ég á  tvær systur, fósturbróðir og yndislega foreldra sem eru mér miklar fyrirmyndir og vinir.

Ég er heppinn með samstarfsfólk og í gegnum vinnuna hjá Bláma fæ ég að vinna með mikið af flinku og skemmtilegu fólki.  Það er sérstaklega ánægjulegt að gera unnið að verkefnum sem styrkja og efla samfélagið hér í villta vestrinu enda er frábært að búa hérna og mikil tækifæri til frekari verðmætasköpunar með því að nýta staðbundnar auðlindir og vera sjálfum okkur nóg þegar kemur að raforku. 

Bolungavíkurhöfn: eldislax 32% meiri en veiddur fiskur í janúar – febrúar

Novatrans kemur með eldislax til slátrunar í Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Landaður eldislax til vinnslu í laxasláturhúsið Drimlu í Bolungavík frá áramótum til loka febrúar var samtals 2.513 tonn. Á sama tíma var landað 1.901 tonni af veiddum fiski í Bolungavíkurhöfn. Magnið af eldislaxi var því 32% meira en veiddum bolfiski.

Í janúar var landað 985 tonnum af bolfiski og í febrúar 916 tonnum.

Aðeins þrjú skip og bátar voru á veiðum í febrúar.

Togarinn Sirrý ÍS fór átta veiðiferðir og landaði 493 tonnum.

Tveir línubátar lönduðu afla í mánuðinum. Fríða dagmar ÍS kom með 217 tonn eftir 16 veiðiferðir og Jónína Brynja ÍS landaði 205 tonnum eftir 15 veiðiferðir.

Nýjustu fréttir