Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 142

Ísafjarðarbær: 12 m.kr. til fjögurra félaga í uppbyggingarsamninga

Skotíþróttafélag Ísafjarðar vinnur þessa dagana að byggingu fyrir félagið á Torfnesi. Mynd: skotís.

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að fjögur félög fái uppbyggingarsamning þetta árið og verði styrkfjárhæðin samtals 12 m.kr. Jafnfram leggur nefndin til að upphæð uppbyggingarsamninga verði hækkuð á næsta ári en hún hefur haldist óbreytt í mörg ár og segir kominn tími til að endurskoða upphæðina sem og að vísitölutengja hana.

Eftirfarandi félög fái styrk:

Klifurfélag Vestfjarða kr. 1.160.000
Golfklúbbur Ísafjarðar kr. 5.830.000
Skíðafélag Ísfirðinga kr. 2.800.000 fyrir snjógirðingum.
Knattspyrnudeild Vestra kr. 2.210.000 til að standsetja gestaklefa (klefa meistaraflokks kvenna) eins og tilgreint er í umsókn.

Alls bárust níu umsóknir. Ekki er orðið við eftifarandi umsóknum:

Körfuknattleiksdeild Vestra: Uppbygging körfuboltavallar í Holtahverfi. Upphæð 2.200.000 kr.

Skíðafélag Ísfirðinga: Vatnslögn við barnasvæði fyrir snjóframleiðslu. Upphæð 3.600.000 kr.

Golfklúbburinn Gláma Þingeyri: Tækjabúnaður. Upphæð 2.000.000 kr.

Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar: Aðstaða við áhorfendastúku, salernisaðstaða, pípulagnir, raflagnir, innréttingar, útihurðir og gluggar. Upphæð 18.468.899 kr.

Knattspyrnudeild Vestra: Svalir við vallarhús. Upphæð 2.115.000 kr.

Umsókn knattspyrnudeildar Vestra um nýjar hurðir í búningasklefa í vallarhúsi ásamt skápum í leikmanna og dómaraklefa. Upphæð 4.190.000 kr. var orðið við að hluta eða 2.210.000 kr.

Íslenskur matur

Bændur verða að tryggja að íslensk matvæli verði betur merkt því flestir neytendur vilja velja íslenskt vegna gæða og hreinleika. Við upprunamerkingar og innihaldslýsingar innfluttra matvæla eigum við ekki að hrökkva sem fullvalda þjóð, heldur setja okkur betri löggjöf í eigin landi. Það er sameiginlegt hagsmunamál framleiðenda matvæla, neytenda, stjórnvalda og ekki síður verslunarinnar og innflutningsaðila, að bæta merkingar á matvælum og tryggja þannig betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna þeirra, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif.

Að láta plata sig í búðinni

Öll þekkjum við að hafa verið blekkt, svikin eða afvegaleidd með röngum eða villandi merkingum matvæla. Þar hefur ýmsum brellum verið beitt. Íslenski fáninn, merkingar sem benda til íslensks uppruna, íslensk vörumerki sem við þekkjum og höfum treyst í gegnum árin. Jafnvel afurðastöðvar í eigu bænda sem eru orðnar stórtækar í innflutningi matvæla, oftar en ekki í samkeppni við umbjóðendur sína og eigendur. Þar bregður gjarnan við þeim ljóta sið að gefa í skyn að mætvæli séu af íslenskum uppruna af því þeim sé pakkað á Íslandi. Slælegar eða rangar merkingar matvæla eru á stundum ekki af beittum ásetningi, heldur hreinu virðingarleysi fyrir neytendum og matvælaöryggi. Ef maður hefur ekki gleraugun með sér í búðina og rannsakar umbúðir vörunnar á allar hliðar, hvort þar leynist vísbendingar um erlendan uppruna hennar, jafnvel smágerður texti um upprunaland, á maður á hættu að vera plataður í góðri trú. Ástandið er síst betra á mörgum veitingastöðum þar sem starfsfólk getur gjarnan ekki svarað til um uppruna matvæla í réttum sem þeir bera fram.

Hvers vegna eru íslensk matvæli ekki betur merkt?

Bændasamtökin og neytendasamtökin hafa verið leiðandi í umræðu um bættar merkingar matvæla sem flutt eru til landsins og kallað eftir bæði uppfærðri og hertri löggjöf til að tryggja matvælaöryggi. Fullnægjandi innihaldslýsingar og  upprunamerkingar. Reglum sem fylgt er eftir. En betur má ef duga skal. Hvers vegna hafa samtök bænda ekki fylgt því betur eftir að afurðastöðvar í þeirra eigu og margvíslegir milliliðir standi sig betur í að merkja íslensk matvæli? Til að „auðvelda neytendum að taka upplýstar ákvarðanir“ eins og Forsætisráðherra og starfandi landbúnaðarráðherra sagði við setningu Búnaðarþings, sem sagði ennfremur „að íslenskir neytendur vilji standa með innlendum landbúnaði.“ … „Og ef við treystum því að almenningur á Íslandi vilji standa með íslenskri framleiðslu þá þurfum við líka að hjálpa þeim sama almenningi að velja innlenda framleiðslu“ Þá kallaði hún eftir að merki að norrænni fyrirmynd sem Bændasamtökin útbjuggu með aðstoð stjórnvalda, einföld upprunamerking, „Ísland staðfest“ væri meira notað og að lítt sannfærandi væri að slíkt kostaði of mikið. Von er að spurt sé.

Mega neytendur ekki vita um uppruna og innihald innfluttra matvæla?

Til umræðu hefur verið hvort íslenskir neytendur búi við sömu vernd og aðrir neytendur á EES svæðinu og hefur sú spurning ekki síst leitað á þingmenn þeirra flokka sem leynt eða ljóst vinna áfram að inngöngu Íslands í ESB. Rataði sú umræða inn í þingsal Alþingis fyrir skemmstu. Í því sambandi er vert að nefna að EES samningurinn hefur einmitt verið nefndur til sögunnar sem helsta hindrun þess að við getum komið við nauðsynlegum lagabreytingum til verndar neytendum, til að styrkja matvælaöryggi. Fyrirstaða embættismanna tekur jú á sig ýmsar myndir. Að með bættum upprunamerkingum sé verið að mismuna framleiðendum matvæla í öðrum löndum þar sem matvælaeftirlit er oft á tíðum bágbornara og gæði matvæla lakari. Þetta er alsendis mikil firra sem aldrei fengist staðist ef á það reyndi fyrir dómstólum sem við höfum undirgengist um þessi efni, að okkur beri að halda upplýsingum um innihald og uppruna matvæla leyndum fyrir neytendum til að þóknast þeim sem telja sér hag í slíku, í stað þess að standa vörð um heilsu fólks, að það geti tekið upplýsta ákvörðun um val á mætvælum út frá hreinleika þeirra og uppruna.

Bjarni Jónsson

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna í NV kjördæmi og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Ekkert ferðaveður á Vestfjörðum

Allir helstu fjallvegir á Vestfjörðum eru lokaðir vegna veðurs. Á það við um Dynjandisheiði, Steingrímsfjarðarheiði, Klettháls og Þröskulda. Vindur er yfir 20 metrum á sek. Þá er einnig mjög hvasst í Ísafjarðardjúpi. Ófært er norðan Steingrímsfjarðar í Strandasýslu.

Vegagerðin ráðleggur vegfarendum að fara ekki af stað nema kanna ástand vega áður. 

Inwest.is: vefsíða sem kynnir fjárfestingamöguleika á Vestfjörðum

Vestfjarðastofa hefur hleypt af stokkunum nýrri vefsíðu inwest.is sem er hönnuð til að tengja saman innlenda og erlenda fjárfesta við fjölbreytt og eftirsóknarverð fjárfestingartækifæri á Vestfjörðum.

Nafnið Inwest er leikur að orðum og sameinar „invest“ (fjárfestingar) og „West“ (Vestfirðir), sem lýsir tilgangi vefsíðunnar: að kynna og laða að fjárfestingar á Vestfjörðum. Síðan sem er bæði á íslensku og ensku tryggir að upplýsingar sé aðgengilegar fyri bæði innlenda sem erlenda fjárfesta.

Vefsíðan er sölu og kynningarsíða og dregur fram kosti, tækifæri og gögn úr helstu áherslum verkefnisins. Síðan skiptist í þrjá áhersluflokka: ferðaþjónustu, fasteignir og innviði, og bláa hagkerfið:

  • Ferðaþjónusta: Hér er lögð áhersla á að þróa afþreyingaferðaþjónustu, veitingaþjónustu og stuðla að hóteluppbyggingu.
  • Fasteignir og innviðir: Þessi flokkur beinist að fjárfestingum í íbúðum, hótelum, og mikilvægum innviðum eins og hafnarmannvirkjum.
  • Bláa hagkerfið: Hvetur til fjárfestingar sem tengjast sjávarauðlindum, með áherslu á nýsköpun og virðisauka sjávarafurða, þjónustu við hafnarstarfsemi, matvælaframleiðslu og fleira, sem nýtir sjálfbært umhverfi Vestfjarða.

Markmið Inwest.is er samkvæmt kynningu Vestfjarðastofu ekki aðeins að auka sýnileika Vestfjarða sem ákjósanlegs fjárfestingarkosts heldur einnig að stuðla að sjálfbærri þróun svæðisins með því að laða að fjárfestingu sem nýtir gæði og náttúruauðlindir á ábyrgan hátt.

Með því að skapa brú milli fjárfesta og Vestfjarða, stefnir Inwest.is að því að efla efnahagslíf svæðisins, skapa ný störf, og stuðla að blómlegri framtíð fyrir alla sem búa og starfa á Vestfjörðum.

Þessa glæru má finna á inwest.is. Þar er bent á það hversu stórt hlutverk erlendir aðilar leika í viðsnúningi efnahagsþróunar á Vestfjörðum síðustu 20 árum. Í öllum þessum fimm fyrirtækjum eru nú erlendir eigendur að meirihluta til. Í þeim flestum er hins vegar upphafið hjá Íslendingum, sem eru margir hverjir Vestfirðingar og fóru af stað með uppbyggingu. Þeim tókst það vel til að erlendir fjársterkir aðilar öðluðust trú á verkefninu og keyptu sig inn í fyrirtækin og hafa eflt þau síðan. Þrjú þeirra Kerecis, Arnarlax og Arctic Fish eru á meðal verðmætustu fyrirtækja landsins.

Húnaþing vestra og ríkið gera samkomulag um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis

Samkomulagið undirritað á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra og Anna Guðmunda Ingvarsdóttir, aðstoðarforstjóri HMS, undirrituðu í gær samkomulag um að auka framboð á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu á tímabilinu 2024-2029 og fjármagna uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum og félagslegu húsnæði. 

Stefnt er að því að byggðar verði rúmlega 50 íbúðir á fimm árum og þar af verði 19 þeirra byggðar án hagnaðarsjónarmiða fyrir fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum, íbúðir sem falla undir skilyrði hlutdeildarlána. Árleg uppbygging verður nokkuð jöfn en stefnt er að því að byggja 8-12 íbúðir á ári.

Samkomulagið er gert á grunni rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um aðgerðir í húsnæðismálum, sem gerður var sumarið 2022. Í rammasamningnum voru sett markmið um að byggja 35 þúsund íbúðir á landsvísu á tíu árum til að mæta þörfum ólíkra hópa samfélagsins um land allt, þ.á m. með sérstökum aðgerðum fólk undir tilteknum tekju- og eignamörkum. Í rammasamningnum var kveðið á um að gera samninga við einstök sveitarfélög með aðkomu HMS um að auka framboð íbúðarhúsnæðis.

Húnaþing vestra er þriðja sveitarfélagið sem gerir slíkan samning en í fyrra var samið við Reykjavíkurborg og Mýrdalshrepp.

Strandabyggð styður samgöngusáttmála Vestfjarða

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum í vikunni ályktun til stuðnings hugmyndum Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar, forstjóra Kerecis um samgöngusáttmála Vestfjarða sem hann setti fram á síðasta fjórðungsþingi sem haldið var í Bolungavík. Lagði Guðmundur áherslu á að jafna leikinn og koma samgöngumálum á Vestfjörðum á þann stað að jafnaðist á vi aðstæður annars staðar á landinu. Í því skyni yrðu framkvæmdir , bæði vegagerð og jarðgangagerð unnin á næstu árum, fjármögnuð með lántökum og endurgreidd með veggjöldum og tekjum af aukinni verðmætasköpun í fjórðungnum sem yrðu mögleg vegna framkvæmdanna.

„Sveitarstjórn Strandabyggðar fagnar þeim hugmyndum sem settar eru fram í samgöngusáttmálanum og tekur undir með Guðmundi Fertam Sigurjónssyni að samgöngumál á Vestfjörðum séu komin í öngstræti. Nægir þar að nefna langa sögu umræðu um Álftafjarðargöng, lagfæringu á Innstrandarvegi, vegasamgöngur í Árneshreppi og umræðu um Suðurfjarðagöng um Mikladal og Hálfdán, svo nokkur brýn verkefni séu tilgreind. Sveitarstjórn Strandabyggðar lýsir sig reiðubúna til samstarfs og mun tilnefna fulltrúa sinn í þessa vinnu, þegar þess verður óskað. Þakkar sveitarstjórn Guðmundi fyrir að vekja máls á þessari stöðu en ekki síður fyrir að benda á nýjar leiðir til fjármögnunar þessara framkvæmda“.

Bæjarstjórn Bolungavíkur samþykkti í síðasta mánuði sambærilega stuðningsyfirlýsingu.

Guðmundur Fertram Sigurjónsson í viðtali á Ísafirði.

Suðurtangi: tillaga að breytingu á aðalskipulagií kynningu

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að setja í kynningu vinnslutillögu að breytingu á aðalskipulagi á Suðurtanga í Skutulsfirði.

Í greinargerð með vinnslutillögunni segir að hvati skipulagsbreytinga á Suðurtanga sé aukin eftirspurn atvinnulóða á Ísafirði síðustu misseri. Í núgildandi aðalskipulagi og gildandi deiliskipulögum á tanganum sé ekki gert ráð fyrir þeim umsvifum sem nú eru á svæðinu og eru fyrirséð, m.a. í tengslum við ferðaþjónustu, fiskeldi og annan sjávarútveg. Skapa þurfi rými fyrir þessar og aðrar atvinnugreinar og samræma við sífellt fjölbreyttari starfsemi hafnarinnar á Ísafirði. Samhliða aðalskipulagsbreytingunni er unnið að endurskoðun tveggja deiliskipulaga á tanganum.

Gildandi skipulag

Skipulagssvæðið tekur til Suðurtanga, sunnan Ásgeirsgötu, sem er neðsti hluti Eyrarinnar. Svæðið sem skipulagið tekur til er um 31 ha. Í gildandi aðalskipulagi er Sundabakki skilgreindur sem hafnarsvæði og innan við hann er iðnaðarsvæði fyrir fjölbreyttan iðnað. Einnig er gert ráð fyrir íbúðarsvæði eftir endilöngum tanganum. Næst sjó á vestanverðum tanganum er svæði fyrir þjónustustofnanir og nyrst er svæði sem tilheyrir miðsvæði. Syðst á tanganum er grænt svæði í gildandi aðalskipulagi.

Íbúðabyggð verði atvinnulóðir

Í aðalskipulagsbreytingunni er ekki gert ráð fyrri nýrri íbúðarbyggð. Þess í stað koma nýjar atvinnulóðir. Vestanverður tanginn breytist úr svæði fyrir þjónustustofnanir og íbúðarsvæði í athafnasvæði og miðsvæði. Gert er ráð fyrir gámasvæði á syðsta hluta tangans og því mun hafnarsvæðið ná til þess hluta. Gert er ráð fyrir landfyllingu á syðsta hluta tangans til að stækka byggingarland og hafnarsvæðið. Með breytingunni verður núverandi og fyrirhuguð starfsemi á skipulagssvæðinu samræmd og þeim tryggt aukið rými til vaxtar. Syðst á tanganum er gert ráð fyrir nýrri u.þ.b. 2,3 ha landfyllingu.

Niðurstaða

Í kynningunni segir að niðurstaða skipulagsbreytinganna sé m.a. fjölgun atvinnulóða, sem ætlað er að hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf með aukinni samkeppnishæfni og stuðla að nýsköpun og frekari atvinnutækifærum. Jafnframt er skipulagsbreytingunum ætlað að auka öryggi gangandi með því aðgreina ferðaþjónustu og aðra atvinnustarfsemi. Einnig er hugað að samræmi nýrrar byggðar við fyrirliggjandi byggð og ásýnd svæðisins séð frá Pollinum og íbúðarbyggð.

Seglskúta stjórnvana við Straumnes

Straumnesviti. Mynd: Wikimedia.

Á fjórða tímanum í dag hafði seglskúta samband við Landhelgisgæsluna á VHF rás 16 og kvaðst vera stjórnvana skammt undan Straumnesi á Vestfjörðum. Skútan hafði verið í togi hjá öðrum báti en dráttartaugin slitnaði vegna slæms sjólags og tókst ekki að tengja dráttartaugina á milli skipanna aftur. Áhöfn skútunnar dró þá upp segl og reyndi þannig að sigla í skjól en þá gaf stýri skútunnar sig og varð hún því stjórnvana. Skútan var þá um eina sjómílu norður af Straumnesi. Slæmar aðstæður voru á vettvangi vegna hvassviðris og sjólags og ákvað skipstjóri skútunnar að lýsa yfir neyðarástandi og óska aðstoðar Landhelgisgæslunnar. Fjórir voru um borð í skútunni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni sem var að berast.

Landhelgisgæslan kallaði þegar út á hæsta forgangi þyrlu, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Ísafirði og Bolungarvík ásamt því að hafa samband við nærstödd skip og báta og óska aðstoðar þeirra.

Á vettvangi var hvöss norðaustanátt og þar sem straumur féll á móti vindi var kröpp alda og aðstæður erfiðar. Skútuna rak þó til suðvesturs en ekki að landi.

Áhöfn skútunnar tókst að setja út neyðarstýri og gat því siglt skútunni undir seglum inn á Aðalvík í skjól. Um svipað leyti komu fiskeldisþjónustuskipið Fosnakongen og björgunarskipið Gísli Jóns á vettvang en ekki var þörf á aðstoð þeirra þegar þarna var komið. Þyrlunni var snúið við þegar ljóst var að hættuástand var yfirstaðið.

Ráðgert er að sigla skútunni undir seglum inn fyrir Rit þar sem dráttartaug verður tengd að nýju við dráttarskipið og munu skipin síðan halda til hafnar á Ísafirði.

Hvernig bregst þorskurinn við fyrir framan botnvörpu?

Þegar botnvarpa er dreginn eftir botni þá safnar hún saman fiskum fyrir framan sem síðan enda inn í vörpunni og safnast í poka vörpunnar.

En ekki allir fiskar enda inn í vörpu, sumir fiskar sleppa meðal annars undir vörpuna og þá ýmist við vænghluta eða fyrir miðju. Tegunda- og stærðarmunur er á því hvert hlutfallið er sem sleppur við vænghluta miðað við miðju.

En einnig má sjá mun á tegundum og stærðum hvort fiskur stingur sér undir vörpuna eða lendir inni í henni. Lærdómur af þessu gefur okkur mikilvægar vísbendingar um hvernig megi þróa „rockhopperinn“ og fótreipi frekar til að ná árangri í veiðum en um leið lágmarka áhrif veiða á annað líf.

Þetta verður umræðuefni í fundarsal í húsi Hafrannsókastofnunar í Hafnarfirði þann 21. mars kl. 12:30. Fundinum verður streymt á Teams.

Fyrirlesari verður Haraldur Arnar Einarsson fiskifræðingur sem  hefur starfað hjá Hafrannsóknastofnun með fáum hléum frá árinu 1992. Lengst af sem sérfræðingur í veiðarfærum.

Hann hefur tekið þátt í eða stjórnað fjölmörgum rannsóknarleiðöngrum þar sem virkni og áhrif veiðarfæra eru mæld. Síðasta áratuginn hefur Haraldur tekið að sér formennsku í vinnunefndum hjá Alþjóðlega Hafrannsóknaráðsins (ICES), fyrst í vinnunefnd veiði tækni og hegðun fiska (WGFTFB) en síðan stofnandi og formaður vinnunefndar um stærðar og tegunda kjörhæfnismælinga (WGSSSE).

Sem stendur þá starfar Haraldur samhliða Hafrannsóknastofnun hjá Matvæla og Landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) í litlum vinnuhópi sem kallar sig „Fishing Technology and Operations team“. Hefur þar komið að margvíslegum verkefnum sem snúa að fiskveiðum um heim allan, t.d. leiðum við að lækka hlutfall spendýra í veiðum, merkingu veiðarfæra, og safna upplýsingum um tap veiðarfæra sem uppsprettu plasts í hafi frá veiðum.

Framtíðarmöguleikar Breiðafjarðar – athugið breytta fundatíma!

Framtíðarmöguleikar Breiðafjarðar – leit að jafnvægi milli verndar og nýtingar

Veðurguðirnir hafa orðið til þess að breyta þarf fundatíma á tveimur fundum um framtíðarmöguleika Breiðafjarðar. Vakin er athygli á breyttum tímasetningum á upplýsinga- og umræðufundum á Birkimel og Laugum, sem verða nú sem hér segir: 

  • Fimmudaginn 21. mars, kl. 17 – 19.30 á Félagsheimilinu Birkimel á Barðaströnd.
  • Mánudaginn 25. mars, kl. 17 – 19.30 í Dalahóteli, Laugum í Sælingsdal.

Kynnt verður verkefni, sem hófst árið 2022 um forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar með tilliti til byggðaþróunar og sjálfbærrar nýtingar. Markmið fundarins er að heyra sjónarmið íbúa og hagaðila, stýrihópi verkefnisins til upplýsinga, en hann mun síðan gera tillögur til umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Dagskrá (sjá skjöl í virkum hlekkjum):

Inngangur og stöðugreining: Sigríður Finsen, formaður stýrihóps

Hagrænt virði Breiðafjarðar: Vífill Karlsson, hagfræðingur hjá SSV

Sviðsmyndagreining KPMG: Aðalsteinn Óskarsson, Fjórðungssambandi Vestfirðinga og Páll S. Brynjarsson, Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi

Drög að tillögum stýrihóps kynnt

Umræður í litlum hópum

Samantekt niðurstaðna

Boðið verður upp á kaffiveitingar.

Fundaumsjón: Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ILDI.

Sjá meira um verkefnið hér

Nýjustu fréttir