Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 141

Skíðaveisla á Ísafirði – 90 ára afmælismót SFÍ

Skíðafélagið fagnar um þessar mundir 90 ára afmæli.

Nú er komið að fyrstu hátíðarhöldunum í tilefni þess en félagið heldur 90 ára Afmælismót á Ísafirði næstkomandi helgi, dagana 21.-24. mars.

Haldið verður Skíðamót Íslands í skíðagöngu á Seljalandsdal og Bikarmót í alpagreinum í Tungudal. Sannkölluð skíðaveisla framundan en gert er ráð fyrir í kringum 160 keppendur samanlagt og má með sanni segja að páskarnir komi snemma á Ísafirði í ár.

Undirbúningur mótanna hefur staðið yfir í allann vetur. Mótahaldi fylgir mikil vinna duglegra félagsmanna. Foreldrar núverandi, fyrrverandi og verðandi iðkenda sem og aðrir velunnarar félagsins hafa svo sannarlega lagt sitt á vogarskálarnar. Það má segja að nú fari fram ákveðin kynslóðarskipti innan félagsins þar sem „gamlir“ SFÍ foreldrar kenna þeim nýju að halda mót og að gera það vel.

Seinnipart laugardags að lokinni keppni í báðum greinum verður sameiginleg verðlaunarafhending. Þar verður einnig boðið uppá kökur og kruðerí af tilefni stórafmælisins.

Úthlutað úr Lýðheilsusjóði 

Frá úthlutun styrkja úr Lýðheilsusjóði í mars 2024

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hefur tilkynnti um úthlutun styrkjanna, sem samtals nema rúmlega 92 milljónum króna og renna til 158 verkefna og rannsókna.

Fjölbreytt verkefni um land allt sem snúa að öllum aldurshópum hljóta styrkina í ár. Við mat á umsóknum fyrir árið 2024 var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.

„Það er alltaf ánægjuleg stund þegar kemur að úthlutun styrkja úr Lýðheilsusjóði. Aðgerðirnar eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og er ætlað að stuðla að betri vellíðan og seiglu í samfélaginu. Framlög til sjóðsins voru aukin um 20 milljónir á þessu ári og ég óska styrkþegum innilega til hamingju“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Ráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins.

Þeir aðilar sem hlutu hæsta styrki voru: Foreldrahús VERA heildstætt langtímaúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu 4.000.000 kr. SÁÁ Sálfræðiþjónusta barna 3.000.000 kr. Krabbameinsfélag Íslands Verkferlar og aðferð fyrir heilbrigðisstarfsfólk varðandi meðferð gegn nikótínfíkn. 2.500.000 kr.

Af öðrum styrhöfum má nefna : Grunnskólinn Í Bolungavík Heilbrigði og velferð nemenda 300.000 kr. Menntaskólinn á Ísafirði Forvarnir eins og hentar 300.000 kr. Ísafjarðarbær Heilsuefling eldri borgara í Ísafjarðarbæ 300.000 kr

Ísafjarðarbær: fella niður gatnagerðargjöld fyrir 15,5 m.kr.

Tunguhverfi Ísafirði.

Bæjarráð hefur samþykkt að fella niður gatnagerðargjöld af tveimur lóðum á Ísafirði. Annars vegar eru það gatnagerðargjöld að fjárhæð 6,1 m.kr. vegna Daltungu 4 og hins vegar 9,4 m.kr. vegna Hrauntungu 1 – 3.

Lóðinni Daltungu 4 var úthlutað til Tanga ehf. þann 16. júní 2022. Í nóvember sama ár barst ósk frá lóðarhafa um niðurfellingu gatnagerðargjalda í samræmi við samþykktir bæjarstjórna, en lóðin fellur undir ákvæði samþykktarinnar. Formleg afgreiðsla erindis Tanga fór ekki fram þar sem um tíma leit út fyrir fyrirtækið ætlaði að skila lóðinni og hætta við byggingaráform. Nú er staðan sú að fyrirtækið ætlar að halda áfram með byggingu íbúðarhúss á lóðinni og hefur óskað eftir niðurfellingu gatnagerðargjalda í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar þann 6. október 2022.

Bæjarstjórn úthlutaði lóðunum Hrauntungu 1-3 til Skeiðs ehf. þann 4. mars 2021. Bæjarstjórn ákvað þá að framlengja þágildandi heimild um niðurfellingu gatnagerðargjalda til til 31. desember 2021. Búið að er steypa sökkla húsanna.

Málið fer nú til bæjarstjórnar til staðfestingar.

Strandagangan: 200 keppendur

Keppendur ræstir af stað í fögru veðri.

Strandagangan var haldin dagana 9. og 10. mars í Selárdal í Steingrímsfirði. Þetta var í þrítugasta sinn sem keppnin var haldin er fyrsta Strandaganga var 1995.

Keppt var í þremur göngugreinum, 20 km, 10 km og 4 km göngu.

Mest var aðsóknin í 20 km göngunni en þar luku 117 manns göngunni.Í karlaflokki varð Dagur Benediktsson fyrstur í mark og Snorri Einarsson annar, báðir frá Ísafirði. Alls voru 64 karlar í göngunni.

Konurnar voru 53 og þar varð fyrst Jónína Kristjánsdóttir frá Ólafsfirði.

Í 10 km göngunni var 41 keppandi. Karlarnir voru 15 og þar varð fyrstur í mark heimamaðurinn Jökull Ingimundur Hlynsson, sem er aðeins 13 ára gamall. Konurnar voru mun fleiri eða 26 og þar sigraði Birna Dröfn Vignisdóttir frá Skíðafélagi Strandamanna, sem einnig er 13 ára.

Loks var keppt í 4 km göngu. Þar voru 45 keppendur. Fyrstur 15 karla var hinn 12 ára gamli Friðgeir Logi Halldórsson frá Skíðafélagi Strandamanna og konurnar voru 30 og þar varð fyrst Íris Jökulrós Ágústsdóttir, Skíðafélagi Strandamanna, en hún er einnig aðeins 12 ára gömul.

Skíðaskotfimi

Seinni keppnisdaginn var keppt í skíðaskotfimi. Þátttaka var allgóð alls 33 keppendur. Í ungmennaflokki kepptu 11. Jökull Ingimundur Hlynsson var efstur drengja og Birna Dröfn Vignisdóttir sigraði í kvennaflokki, en voru 8 keppendur.

Í fullorðisflokki kepptu 22. Þar varð Snorri Einarsson, Ísafirði efstur karla og Sunna Kristín Jónsdóttir efst kvenna, en hún er frá Skíðagöngufélaginu Ulli.

Frá verðlaunaafhendingu.

Kampakátur verðlaunahafar.

Keppnin fór fram í Selárdal í Steingrímsfirði norðanverðum.

Kaffihlaðborðið er ekki amalegt í Strandagöngunni.

Myndir: Sveinn Ingimundur Pálsson.

Vonskuveður á Vestfjörðum

Flestir fjallvegir og margir lálendisvegir eru lokaðir eða ófærir vegna veðurs samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni og er ekki líklegt að þeir verði opnaðir í dag. Þæfingsfærð, snjóþekja eða hálka er á nokkrum leiðum. Unnið er að mokstri á Kleifaheiði en lokað um Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði og Dynjandisheiði. Þá er Klettháls ófær. Í morgun var lokað um Súgandafjörð og Hvilftarströndina til Flateyrar. lokað er norðan Hólmavíkur í Árneshrepp.

Ísafjörður: Páskabasar í Guðmundarbúð

Guðmundarbúð. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Slysavarnadeildin Iðunn á Ísafirði varð 90 ára þann 25. febrúar s.l. Í því tilefni ætlar deildin að halda páskabasar laugardaginn 23. mars n.k. kl. 14 – 16.

Í boði verða tertur, tertubotnar, brauðréttir og margt fleira gómsætt til sölu ásamt flottu handgerðu páskaskrauti.

Einnig verður hægt að gæða sér á ilmandi vöfflum með sultu og rjóma á 1.000 kr. með kaffi en aðeins 500 kr. fyrir börnin.

Tilvalið að næla sér í eitthvað gott og fallegt fyrir páskana.

Dagsetning: laugardaginn 23. mars

Tími: 14:00 – 16:00

Staðsetning: Guðmundarbúð

Ísafjörður: páskaföndur pólska félagsins í bókasafninu

Pólska félagið á Vestfjörðum heldur uppi öflungu félagsstarfi og það stóð fyrir samkomu fyrir yngri kynslóðina í Bókasafninu á Ísafirði á laugardaginn 16. mars. Bókasafnið bauð félaginu að koma saman og hafa páskaföndur fyrir krakkana.

Sælgætisgerðin Góa  bauð uppá súkkulaði og nammi og bókasafnið bauð uppá allt föndurdótið.

Um 40 krakkar komu auk fullorðinna og áttu góða stund saman. „Miklir lista menn hér á ferð“ sagði Valur Andersen, sem sendi myndirnar sem teknar voru. Sjálfur var hann staddur í Elbląg í Póllandi. 

Unga kynslóðin var áhugasöm við föndrið.

Hluti af afrakstrinum.

Uppfært kl 10:21. upphaflega var sagt að páskaföndrið hefði verið í safnaðarheimilinu en það var í bókasafninu á Ísafirði.

Vegagerðin: þungatakmörkunum aflétt

Kortið sýnir takmarkanir frá Bröttubrekki eins og þær voru í síðustu viku.

Í gær,sunnudaginn 17. mars kl. 10:00 var þeim þungatakmörkunum sem hafa verið í gildi aflétt frá Bröttubrekku að Klettshálsi.

Settar voru 7 tonna þungatakmarkanir fyrir nokkru en 12. mars var ásþunginn leyfður í 10 tonn, en nú er þeim takmörkunu aflétt frá Bröttubrekku að Klettshálsi.

Ísafjarðarbær: 12 m.kr. til fjögurra félaga í uppbyggingarsamninga

Skotíþróttafélag Ísafjarðar vinnur þessa dagana að byggingu fyrir félagið á Torfnesi. Mynd: skotís.

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að fjögur félög fái uppbyggingarsamning þetta árið og verði styrkfjárhæðin samtals 12 m.kr. Jafnfram leggur nefndin til að upphæð uppbyggingarsamninga verði hækkuð á næsta ári en hún hefur haldist óbreytt í mörg ár og segir kominn tími til að endurskoða upphæðina sem og að vísitölutengja hana.

Eftirfarandi félög fái styrk:

Klifurfélag Vestfjarða kr. 1.160.000
Golfklúbbur Ísafjarðar kr. 5.830.000
Skíðafélag Ísfirðinga kr. 2.800.000 fyrir snjógirðingum.
Knattspyrnudeild Vestra kr. 2.210.000 til að standsetja gestaklefa (klefa meistaraflokks kvenna) eins og tilgreint er í umsókn.

Alls bárust níu umsóknir. Ekki er orðið við eftifarandi umsóknum:

Körfuknattleiksdeild Vestra: Uppbygging körfuboltavallar í Holtahverfi. Upphæð 2.200.000 kr.

Skíðafélag Ísfirðinga: Vatnslögn við barnasvæði fyrir snjóframleiðslu. Upphæð 3.600.000 kr.

Golfklúbburinn Gláma Þingeyri: Tækjabúnaður. Upphæð 2.000.000 kr.

Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar: Aðstaða við áhorfendastúku, salernisaðstaða, pípulagnir, raflagnir, innréttingar, útihurðir og gluggar. Upphæð 18.468.899 kr.

Knattspyrnudeild Vestra: Svalir við vallarhús. Upphæð 2.115.000 kr.

Umsókn knattspyrnudeildar Vestra um nýjar hurðir í búningasklefa í vallarhúsi ásamt skápum í leikmanna og dómaraklefa. Upphæð 4.190.000 kr. var orðið við að hluta eða 2.210.000 kr.

Íslenskur matur

Bændur verða að tryggja að íslensk matvæli verði betur merkt því flestir neytendur vilja velja íslenskt vegna gæða og hreinleika. Við upprunamerkingar og innihaldslýsingar innfluttra matvæla eigum við ekki að hrökkva sem fullvalda þjóð, heldur setja okkur betri löggjöf í eigin landi. Það er sameiginlegt hagsmunamál framleiðenda matvæla, neytenda, stjórnvalda og ekki síður verslunarinnar og innflutningsaðila, að bæta merkingar á matvælum og tryggja þannig betur rétt neytenda til upplýsinga um uppruna þeirra, framleiðsluhætti, lyfjanotkun og umhverfisáhrif.

Að láta plata sig í búðinni

Öll þekkjum við að hafa verið blekkt, svikin eða afvegaleidd með röngum eða villandi merkingum matvæla. Þar hefur ýmsum brellum verið beitt. Íslenski fáninn, merkingar sem benda til íslensks uppruna, íslensk vörumerki sem við þekkjum og höfum treyst í gegnum árin. Jafnvel afurðastöðvar í eigu bænda sem eru orðnar stórtækar í innflutningi matvæla, oftar en ekki í samkeppni við umbjóðendur sína og eigendur. Þar bregður gjarnan við þeim ljóta sið að gefa í skyn að mætvæli séu af íslenskum uppruna af því þeim sé pakkað á Íslandi. Slælegar eða rangar merkingar matvæla eru á stundum ekki af beittum ásetningi, heldur hreinu virðingarleysi fyrir neytendum og matvælaöryggi. Ef maður hefur ekki gleraugun með sér í búðina og rannsakar umbúðir vörunnar á allar hliðar, hvort þar leynist vísbendingar um erlendan uppruna hennar, jafnvel smágerður texti um upprunaland, á maður á hættu að vera plataður í góðri trú. Ástandið er síst betra á mörgum veitingastöðum þar sem starfsfólk getur gjarnan ekki svarað til um uppruna matvæla í réttum sem þeir bera fram.

Hvers vegna eru íslensk matvæli ekki betur merkt?

Bændasamtökin og neytendasamtökin hafa verið leiðandi í umræðu um bættar merkingar matvæla sem flutt eru til landsins og kallað eftir bæði uppfærðri og hertri löggjöf til að tryggja matvælaöryggi. Fullnægjandi innihaldslýsingar og  upprunamerkingar. Reglum sem fylgt er eftir. En betur má ef duga skal. Hvers vegna hafa samtök bænda ekki fylgt því betur eftir að afurðastöðvar í þeirra eigu og margvíslegir milliliðir standi sig betur í að merkja íslensk matvæli? Til að „auðvelda neytendum að taka upplýstar ákvarðanir“ eins og Forsætisráðherra og starfandi landbúnaðarráðherra sagði við setningu Búnaðarþings, sem sagði ennfremur „að íslenskir neytendur vilji standa með innlendum landbúnaði.“ … „Og ef við treystum því að almenningur á Íslandi vilji standa með íslenskri framleiðslu þá þurfum við líka að hjálpa þeim sama almenningi að velja innlenda framleiðslu“ Þá kallaði hún eftir að merki að norrænni fyrirmynd sem Bændasamtökin útbjuggu með aðstoð stjórnvalda, einföld upprunamerking, „Ísland staðfest“ væri meira notað og að lítt sannfærandi væri að slíkt kostaði of mikið. Von er að spurt sé.

Mega neytendur ekki vita um uppruna og innihald innfluttra matvæla?

Til umræðu hefur verið hvort íslenskir neytendur búi við sömu vernd og aðrir neytendur á EES svæðinu og hefur sú spurning ekki síst leitað á þingmenn þeirra flokka sem leynt eða ljóst vinna áfram að inngöngu Íslands í ESB. Rataði sú umræða inn í þingsal Alþingis fyrir skemmstu. Í því sambandi er vert að nefna að EES samningurinn hefur einmitt verið nefndur til sögunnar sem helsta hindrun þess að við getum komið við nauðsynlegum lagabreytingum til verndar neytendum, til að styrkja matvælaöryggi. Fyrirstaða embættismanna tekur jú á sig ýmsar myndir. Að með bættum upprunamerkingum sé verið að mismuna framleiðendum matvæla í öðrum löndum þar sem matvælaeftirlit er oft á tíðum bágbornara og gæði matvæla lakari. Þetta er alsendis mikil firra sem aldrei fengist staðist ef á það reyndi fyrir dómstólum sem við höfum undirgengist um þessi efni, að okkur beri að halda upplýsingum um innihald og uppruna matvæla leyndum fyrir neytendum til að þóknast þeim sem telja sér hag í slíku, í stað þess að standa vörð um heilsu fólks, að það geti tekið upplýsta ákvörðun um val á mætvælum út frá hreinleika þeirra og uppruna.

Bjarni Jónsson

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna í NV kjördæmi og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Nýjustu fréttir