Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 140

Stækkaðu framtíðina – Fólk utan höfuðborgarsvæðisins hvatt til að taka þátt

Verkefnið „Stækkaðu framtíðina“ tengir fólk af vinnumarkaði við skólastofur landsins til að segja nemendum frá starfi sínu og menntun. Þannig víkkar sjóndeildarhringur nemenda og öll ungmenni á Íslandi fá tækifæri til að eiga fyrirmynd.

Það er einfalt að taka þátt. Þú skráir þig sem sjálfboðaliða og þá getur kennari boðið þér í heimsókn. Kennarinn hjálpar þér svo að undirbúa heimsóknina þannig að þú vitir hvernig er best að haga henni og spjalla við nemendur, á hvaða aldri sem þeir eru.

Þú ræður hversu margar heimsóknir þú tekur að þér – allt eftir tíma þínum og áhuga. Heimsóknirnar geta farið fram á staðnum eða í gegnum netið.

Stækkaðu framtíðina er íslensk útgáfa af breska verkefninu Inspiring the Future. Verkefnið hóf göngu sína í Bretlandi árið 2012 og hafa um 75.000 sjálfboðaliðar tekið þátt í því. Verkefnið er rannsóknamiðað og er einnig haldið úti í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Sviss auk þess að teygja anga sína víðar.

NýMennt (Nýsköpun og Menntasamfélag á Menntavísindasviði HÍ) heldur utan um verkefnið hér á landi en það var sett á laggirnar af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Þarf allt að 1.000 íbúðir á Vestfjörðum

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Á hinum nýja vef Vestfjarðastofu Inwest.is kemur fram að vöxtur í atvinnulífi Vestfjarða í tengslum við ferðaþjónustu og fiskeldi  kalli á aukningu í íbúðabyggingu á svæðinu. Miðað við ráðgerðan vöxt í grunnatvinnuvegum og tengdum þjónustugreinum næstu árin, þá staðreynd að íbúðahúsnæðir skorti fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig og mikla þörf fyrir hentugt leiguhúsnæði fyrir fólk sem vill flytja á vaxtasvæðið Vestfirði þá sé þörf fyrir allt að þúsund íbúðir á Vestfjörðum á næstu 5 árum.

Bent er á þessa þörf sem tækifæri til fjárfestingar í íbúðarhúsnæði. Fasteignaverð á Vestfjörðum hefur farið hækkandi á Vestfjörðum síðustu ár og muni það verða jafnt byggingarkostnaði.

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segist vilja leggja áherslu á að „við erum að stíga fyrstu skrefin við að kynna fjárfestingamöguleika á Vestfjörðum og vefurinn er hluti af stærra verkefni við að laða að fjárfestingar og stuðla að uppbyggingu á svæðinu.  Vefurinn er í stöðugri þróun og hægt að bæta við upplýsingum inn á hann hvenær sem er.  Vefurinn er unninn í góðu samstarfi við fyrirtæki og sveitarfélögin á svæðinu.  Við þiggjum allar ábendingar um vefinn og efni inn á hann. „

Vatnsdalsvirkjun: óveruleg skerðing á víðernum landsins

Fram kom í erindi Elíasar Jónatanssonar, Orkubússtjóra á ráðstefnu samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum, sem haldin var í Reykjavík á föstudaginn, að fyrirhuguð Vatnsdalsvirkjun hefði óverueg áhrif til skerðingar á víðernum landsins.

Sagði Elías að skerðing víðerna yrði aðeins 0,027% af víðernum á landsvísu og byggir tölur sínar á útreikningum Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði.

Þá yrði einnig óveruleg skerðing á birki innan friðlandsins eða aðeins 0,2%.

Vatnsdalsvirkjun yrði 20 – 30 MW að afli og yrði tengd beint í tengivirki í Mjólká með 20 km langri línu. Með virkjuninni næðist að auka afhendingaröryggi um 90% á norðanverðum Vestfjörðum og um 88% á sunnanverðum Vestfjörðum auk þess sem tengivirkið í Mjólká væri þá orðið N 1 tengt.

Í dag er afhendingaröryggið tryggt með olíuknúnu varaafli samtals um 29 MW. Á þessu ári er áætlað að Orkubú Vestfjarða þurfi brenna þurfi 3,3 milljónum lítra af olíu og kostnaður er um 520 m.kr.

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Vesturbyggð: lækka gjaldskrár

Ráðhús Vesturbyggðar.

Bæjarráð Vesturbyggðar lýsir yfir ánægju sinni með sérstakri bókun að kjarasamningar hafi náðst til lengri tíma, með það að markmiði að ná niður vöxtum og verðbólgu og skapa þar með skilyrði fyrri stöðuleika og aukinn fyrirsjáanlega. Bæjarráð samþykkti að leggja sitt af mörkum til að auka sátt á vinnumarkaði, m.a. með endurskoðun gjaldskráa ársins 2024 og að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024.

Við afgreiðslu fjárhagsáætlun fyrir 2024 hækkaði bæjarstjórn Vesturbyggðar gjaldskrár um 7,5% frá gjaldskrám sem giltu fyrir 2023. Í forsendum kjarasamninganna er miðað við að hækkun á gjaldskrám sveitarfélaga verði ekki umfram 3,5%. Bæjarstjóra var falið að koma með tillögur að gjaldskrárbreytingum, en ljóst er að lækka verður nýsamþykktar gjaldskrár um 4% til þess að falla að forsendum kjarasamninganna. Vegna sameiningar Vesturbyggðar við Tálknafjarðarhrepp sem tekur gildi í vor verður haft samráð við sveitarstjóra Tálknafjarðar.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og samtaka sveitarfélaga segir að áætluð bein kostnaðarþátttaka forráðamanna vegna skólamáltíða grunnskólabarna nemi um fimm milljörðum króna á ári og muni ríkið greiða 75% þess kostnaðar eða allt að 4 milljarða króna.

Ríki og sveitarfélög munu útfæra þetta í sameiningu fyrir lok maí 2024. Til að meta árangur tilraunaverkefnisins verður óháðum aðila falið að leggja mat á framgang þess vorið 2026.

Sjóferðir fá stærri bát

Nýi báturinn var fyrst sjóbjörgunarbátur og svo notaður í farþegaflutninga í Noregi. Mynd: Magnús Jónsson.

Sjóferðir á Ísafirði hafa fest kaup á bát frá Noregi og er hann kominn til landsins. Stígur Berg Zophusson sagði í samtali við Bæjarins besta að verið væri að afla tilskylinna leyfa til farþegaflutninga og sagðist hann gera ráð fyrir að báturinn kæmi vestur fyrir vorið.

Báturinn sem mun fá nafnið Anna kemur í stað Ingólfs og sagðist Stígur vera að auka sætaframboðið og þægindi farþeganna. Nýi báturinn tekur 48 farþegar eða 18 farþegum fleira en Ingólfur. Nafnið á nýja bátnum er fengið frá ömmu eiginkonu Stígs. Hinir bátarnir heita Guðrún Kristjáns og Sjöfn svvo allir bera þeir kvenmannsnafn.

Helstu verkefni Sjóferða er halda upp ferðum til Aðalvíkur og Hesteyrar auk þess að þjónusta farþega skemmtiferðaskipanna.

farþegabáturinn Anna.

Mynd: aðsend.

Vestri fær 4,8 m.kr. styrk til kaupa á hitalögnum

Gervigrasvöllurinn á Torfnesi. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær að veita knattspyrnudeild Vestra 4,8 m.kr. styrk til kaupa á hitalögnum í nýja gervigrasvöllinn á Torfnesi. Talið er að það þurfi 30.000 m af hitalögnum fyrir völlinn og setur bæjarráðið það skilyrði að Vestri sjái um innkaupin, flutningskostnað, niðurlögn og annan kostnað sem af þessu hlýst.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignarsviðs, sem lagt var fyrir bæjarráð, kemur fram að kostnaður við niðurlögn á 30 km, með söndun og samsetningu. er áætlaður um 18.6 m.kr. og flutningskostnaður á efninu til landsins um 1 m.kr. Samtals er kostnaðurinn við kaupin og niðurlagningu lagnanna áætlaður 24,6 m.kr.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs seagði í samtali við Bæjarins besta að umrædd samþykkt væri gerð vegna eindreginnar óskar knattspyrnudeildar Vestra og að félagið hyggist sjá um að koma lögninni niður í púðann á gervigrasinu.

Bæjarráðið tekur fram að í styrkveitingunni nú felist ekkert loforð um fjárveitingu á uppsetningu á varmadælu eða til rekstrar kerfisins. Samkvæmt áðurnefndu minnisblaði er heildarkostnaður með stýringum, tengikistum, varmadælum og eða frostlegi á kerfið talinn geta verið um 50-55 m.kr.

Rökstuðningurinn fyrir þessu skrefi er sá að með því að leggja hitalagnirnar nú sé síðar hægt að ljúka verkinu, en ef það verði látið ógert nú verði ekki hægt síðar að leggja lagnirnar.

Gylfi segir að hitalagnirnar muni gera það að verkum púðinn sem gervigrasið hvílir á muni ekki frjósa en eftir sem áður þurfi að moka snjó af vellinum.

Í minnisblaði frá Bláma segir að áhugavert sé að skoða notkun á varmadælum og vannýttri varma- og fallorku sem nýtist við að lágmarka kostnað við hitun á gervigrasvellinum á Torfnesi. Mögulega
megi sækja stuðning við verkefnið í Orkusjóð, Fiskeldissjóð eða aðra sjóði sem styðja við varmaorkulausnir á köldum svæðum. Forsenda þess að hægt sé að nýta jarðhita, varmadælur eða aðrar lausnir sé að hitakerfi sé lagt undir gervigrasvöllinn.

U.M.F. Afturelding í Reykhólasveit 100 ára

Þann 14. mars voru 100 ár frá stofnun Ungmennafélagsins Aftureldingar í Reykhólasveit.

Félagið er eitt af aðildarfélögum í Ungmennasambandi Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga (UDN).

Í fyrri tíð voru starfandi ungmennafélög í öllum hreppunum fimm í sýslunni, sem frá 1987 mynda saman Reykhólahrepp, þau voru:

  • Ungmennafélagið í Flatey, stofnað 1909 (ekki er vitað hvenær það varð óvirkt).
  • Ungmennafélagið Vísir í Múlasveit, stofnað 1928 (síðasti skráði fundur 1957).
  • Ungmennafélagið Hvöt í Gufudalssveit, stofnað 1927 (starfsemin lagðist af um 1956).
  • Ungmennafélagið Unglingur í Geiradal, stofnað 1909 (síðasti skráði fundur 1980, sameinað Aftureldingu 1989).
  • Ungmennafélagið Elding í Reykhólasveit, líklega 1906 – 1910, en litlar heimildir eru til um félagið.
  • Ungmennafélagið Afturelding í Reykhólasveit, stofnað 1924, starfar enn og er jafnframt eina starfandi ungmennafélagið í Austur-Barðastrandarsýslu /Reykhólahreppi.

Í dag eru 82 félagar í Aftureldingu og af þeim eru 30 iðkendur á aldrinum 10 – 45 ára.

Í samvinnu við tómstundafulltrúa Reykhólahrepps eru æfingar í fótbolta, bogfimi, líkamsrækt og hestaíþróttum. Á sumrin heldur samstarfið áfram þar sem tómstundafulltrúi er með leikjanámskeið og ungmennafélagið sér um íþróttaæfingar.

Ungmennafélagið er með líkamsræktaraðstöðu í kjallara Grettislaugar og stendur til að gera endurbætur á henni á þessu ári. Þar er sami opnunartími og hjá Grettislaug.

Stjórnina skipa í dag Styrmir Sæmundsson formaður, Katla Ingibjörg Tryggvadóttir ritari og Sandra Rún Björnsdóttir gjaldkeri.

Stjórn Aftureldingar stefnir að því að vera með afmælisfagnað í lok júnímánaðar í tilefni 100 ára afmælisins.

Ingimundur SH 335

Ingimundur SH 335 ex Heiðrún GK 505. Ljósmynd Hafþór Hreiðarsson

Ingimundur SH 335 frá Grundafirði kemur hér til hafnar í Reykjavík um árið en togarinn bar þetta nafn á árunum 2000 til 2004

Upphaflega hét togarinn Heiðrún ÍS-4 og var smíðuð árið 1978 í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar h/f á Ísafirði fyrir Völustein h/f í Bolungarvík.

Njörður h/f í Sandgerði keypti Heiðrúnu ÍS 4 haustið 1997 og fékk hún í framhaldinu einkennisstafina GK og númerið 505.

Í desember 1999 var Heiðrún GK 505 , ásamt Þór Péturssyni GK 504, seld Guðmundi Runólfssyni hf. í Grundarfirði og ársbyrjun 2000 fékk hún nafnið Ingimundur SH 335.

Árið 2004 fékk togarinn nafnið Skúmur HF 177 með heimahöfn í Hafnarfirði. Skúmur var seldur til Rússlands vorið 2006.

Af vefsíðunni skipamyndir.com

Skíðaveisla á Ísafirði – 90 ára afmælismót SFÍ

Skíðafélagið fagnar um þessar mundir 90 ára afmæli.

Nú er komið að fyrstu hátíðarhöldunum í tilefni þess en félagið heldur 90 ára Afmælismót á Ísafirði næstkomandi helgi, dagana 21.-24. mars.

Haldið verður Skíðamót Íslands í skíðagöngu á Seljalandsdal og Bikarmót í alpagreinum í Tungudal. Sannkölluð skíðaveisla framundan en gert er ráð fyrir í kringum 160 keppendur samanlagt og má með sanni segja að páskarnir komi snemma á Ísafirði í ár.

Undirbúningur mótanna hefur staðið yfir í allann vetur. Mótahaldi fylgir mikil vinna duglegra félagsmanna. Foreldrar núverandi, fyrrverandi og verðandi iðkenda sem og aðrir velunnarar félagsins hafa svo sannarlega lagt sitt á vogarskálarnar. Það má segja að nú fari fram ákveðin kynslóðarskipti innan félagsins þar sem „gamlir“ SFÍ foreldrar kenna þeim nýju að halda mót og að gera það vel.

Seinnipart laugardags að lokinni keppni í báðum greinum verður sameiginleg verðlaunarafhending. Þar verður einnig boðið uppá kökur og kruðerí af tilefni stórafmælisins.

Úthlutað úr Lýðheilsusjóði 

Frá úthlutun styrkja úr Lýðheilsusjóði í mars 2024

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra hefur tilkynnti um úthlutun styrkjanna, sem samtals nema rúmlega 92 milljónum króna og renna til 158 verkefna og rannsókna.

Fjölbreytt verkefni um land allt sem snúa að öllum aldurshópum hljóta styrkina í ár. Við mat á umsóknum fyrir árið 2024 var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.

„Það er alltaf ánægjuleg stund þegar kemur að úthlutun styrkja úr Lýðheilsusjóði. Aðgerðirnar eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og er ætlað að stuðla að betri vellíðan og seiglu í samfélaginu. Framlög til sjóðsins voru aukin um 20 milljónir á þessu ári og ég óska styrkþegum innilega til hamingju“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Ráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins.

Þeir aðilar sem hlutu hæsta styrki voru: Foreldrahús VERA heildstætt langtímaúrræði fyrir unglinga í fikti og neyslu 4.000.000 kr. SÁÁ Sálfræðiþjónusta barna 3.000.000 kr. Krabbameinsfélag Íslands Verkferlar og aðferð fyrir heilbrigðisstarfsfólk varðandi meðferð gegn nikótínfíkn. 2.500.000 kr.

Af öðrum styrhöfum má nefna : Grunnskólinn Í Bolungavík Heilbrigði og velferð nemenda 300.000 kr. Menntaskólinn á Ísafirði Forvarnir eins og hentar 300.000 kr. Ísafjarðarbær Heilsuefling eldri borgara í Ísafjarðarbæ 300.000 kr

Nýjustu fréttir