Sunnudagur 1. september 2024
Síða 14

Hjólaskíðamót á Ísafirði á morgun, laugardag

Ísafjarðarhöfn. Þangað hjólar skíðafólkið.

Á morgun, laugardag á að halda fyrsta hjólaskíðamótið í seinni tíð á Ísafirði. Allir bestu skíðamenn landsins eru í bænum vegna samæfingar og munu taka þátt. Allir þátttakendur velkomnir óháð getu.

Snorri Einarsson er skíðagönguþjálfari og hann fékk tíu manna landsliðshóp til æfinga í gær og verður hópurinn hér næstu daga við æfingar.

Markmiðið með hjólaskíðamótinu er að prófa eitt skipti með það í huga að hafa það árlegan viðburð. Keppnisbrautin er 11 km og einungis er keppt í þessari einu vegalengd.

Brautarvalið miðast við að vera sem allra minnst á götum, að brekkur og beygjur séu ekki krappar, að ástand malbiks sé gott. Það verður hópstart. Keppt er með hefðbundinni aðferð, til að auðvelda framúrtökur og mætingar á stígum.

Ekki eru gerðar kröfur um ákveðna gerð af hjólaskíðum eða dekkjum.

Ekki verða flögur heldur verður tímataka með skeiðklukkum. Engin drykkjarstöð. Skemmtiferðaskip með 3000 farþega verður í höfn og mögulega verða gangandi á stígunum.

Reynt verður að manna brautarvörslu á tveimur stöðum; í Krók og við snúning, auk starts/marks.

Þátttaka er ókeypis og skráning á Facebook-viðburðinum eða á staðnum.

Matvælastofnun sektar sex aðila

Samkvæmt gildandi upplýsingastefnu Matvælastofnunar ber stofnuninni að birta reglulega upplýsingar um íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum sem stofnunin hefur eftirlit með.

Hér fer á eftir yfirlit yfir ákvarðanir af þessu tagi sem teknar voru í júní- og júlímánuði.

1. Dagsektir ákvarðaðar til að knýja fram afhendingu á rafólum

    Samkv. reglugerð um velferð gæludýra er óheimilt að nota svonefndar rafólar á hunda. Lagðar voru dagsektir að upphæð 10.000 kr. á dag á hundaeiganda á Suðurlandi sem neitaði að afhenda MAST rafólar sem hann notaði á hunda sína. Hann bar því við að hann þyrfti tíma til að kaupa nýjar ólar. Hann skilaði þó rafólunum áður en til innheimtu dagsektanna kom og MAST lagði í framhaldinu hald á ólarnar. Í kjölfarið var lögð stjórnvaldssekt að upphæð 82.500 kr. á eigandann vegna notkunar á rafólum.

    2.Dagsektir ákvarðaðar til að þvinga fram úrbætur í minkabúi

    Lagðar voru dagsektir að upphæð 10.000 kr. á dag á minkabú á Suðvesturlandi til að knýja fram úrbætur á velferð minkanna.

    3. Matvælaframleiðsla stöðvuð

    Stöðvuð var öll framleiðsla matvælafyrirtækis á Norðurlandi vegna verulegra frávika og sóðaskapar. Stöðvuninni var aflétt eftir úrbætur. Fyrirtækið var jafnframt fært úr frammistöðuflokki B niður í frammistöðuflokk C sem felur í sér tíðara eftirlit.

    4. Stjórnvaldssekt lögð á kúabú

    Lögð var stjórnvaldssekt að upphæð 175.000 kr. á kúabú á Vesturlandi. Umfangsmikil rafmagnsbilun leiddi til þess að mjaltabúnaður var ónothæfur og fyrirliggjandi varaafl réð ekki við verkefnið. Mjaltir drógust því mjög. Öllum kúabúum er skylt að tryggja sér varaafl sem ræður við mjaltir í rafmagnsleysi.

    5. Stjórnvaldssekt lögð á svínabú vegna brota á dýravelferð

    Stjórnvaldssekt að upphæð 195.000 kr. var lögð á svínabú á Suðvesturlandi vegna þess að starfsmönnum búsins tókst ekki að svipta gyltu meðvitund fyrir aflífun eins og skylt er.

    6. Dagsektir ákvarðaðar til að þvinga fram úrbætur í hrossahaldi

    Lagðar voru dagsektir að upphæð 10.000 kr. á umráðamann hrossa á Suðurlandi til að knýja hann til að bæta úr slysahættu og sinna hófhirðu.

    Hefur grásleppuveiðibann á grunnsævi áhrif á veiðarnar ?

    Teistur sem veiddust í grásleppunet

    Meðafli sjófugla í grásleppunetum er þekkt vandamál í þeim löndum sem grásleppa er veidd, og fáar ef einhverjar lausnir eru til á vandanum.

    Þannig er metið að um 3000-8000 fuglar drukkni í grásleppunetum á ári hverju við Ísland.

    Á síðasta ári birtist grein í tímariti Konunglega Breska Vísindafélagsins eftir vísindamenn frá Fuglavernd, þau Yann Rouxel, Hólmfríði Arnardóttur, og Stefan Oppel. 

    Í þeirri rannsókn var fælibúnaður fyrir fugla prófaður á grásleppunetum með litlum árangri, en á sama tíma settu þau fram þá tilgátu byggða á rannsóknum sínum í Húnaflóa að hægt væri að minnka fuglameðafla mikið með því að banna veiðar á minna en 50 metra dýpi. Eins fullyrtu þau að slíkt bann hefði lítil áhrif á veiðarnar.

    Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar, þeir James Kennedy og Guðjón Már Sigurðsson, birtu nýlega svargrein í sama tímariti við tilgátum þeirra.

    Þeir benda á að tilgátan sé byggð á fremur takmörkuðum gögnum, eða frá sjö grásleppubátum sem allir stunda veiðar í Húnaflóa. Þar af voru aðeins þrír sem veiddu á meira en 50 m dýpi að einhverju leyti. Eins er bent á að þó að meðafli sumra tegunda fugla minnki með auknu dýpi, þá eigi það ekki við um allar tegundir, og t.d. aukist meðafli langvíu með dýpi og nær hámarki á milli 50 og 60 m.

    Í svargreininni er sýnt fram á að á flestum veiðisvæðum hefði slíkt bann mikil áhrif á grásleppuveiðina, og jafnvel bann við veiðum á 30 m og grynnra.

    Þá mætti gera ráð fyrir að veiðar í t.d Faxaflóa og Breiðafirði myndu að mestu leggjast af eða þyrftu að taka mjög miklum breytingum ef að slíku banni yrði. Þess vegna draga þeir þá ályktun að fullyrðingin um að bannið hefði lítil áhrif á veiðarnar standist ekki skoðun, þó mögulega væri hægt að skoða takmarkanir á afmörkuðum svæðum þar sem meðafli er mikill.

    Gullverðlaunahafi í grænmetisdeild Nettó á Ísafirði

    Auk þess að æfa badminton og vinna gullverðlaun á Ólympíuleikunum vinnur hann Ómar í grænmetisdeildinni í Nettó á Ísafirði segir í frétt á heimasíðu Samkaupa.

    Þar segir einnig að Ómar hafi gert sér lítið fyrir um daginn og unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikum fatlaðra sem fram fóru í Danmörku í maí síðastliðnum.

    Ómar hefur æft badminton frá 8 ára aldri og hefur farið á 5 stórmót erlendis. Hann byrjaði að vinna í Nettó á Ísafirði fyrir 5 árum og hélt áfram að æfa með vinnunni sem hann segir oft vera erfitt en badminton sé bara svo skemmtilegt, að það sé allt í lagi.

    Að sögn Ómars var öðruvísi að spila badminton í Danmörku en heima á Ísafirði. Það hafi verið heitara loft þar og miklu fleiri áhorfendur sem gerði hann svolítið stressaðan, en á sama tíma sneggri, svo að hann átti stórgóða leiki á móti andstæðingum sínum sem komu alls staðar að úr heiminum.

    Sigmar, verslunarstjóri Nettó á Ísafirði, lýsir Ómari sem ofsalega duglegum starfsmanni sem geri allt sem hann tekur sér fyrir hendur vel og þess vegna hafi það í raun ekki komið á óvart að hann kæmi heim af Ólympíuleikunum með gull um hálsinn.

    Kjörbúðin lækkar verð

    Samkaup, sem rekur m.a. verslanir undir merkinu Kjörbúðin, hefur sent frá sér fréttatilkynningu um að á síðustu vikum hafi verð á 640 vörum lækkað í verslunum Kjörbúðanna.

    Fram kemur að fyrirtækið hafi ákveðið að fjölga vörum sem merktar eru sérstaklega með grænum punkti, en það eru vöru sem seldar eru á verði sambærilegum við það sem býðst í lágvöruverðsverslunum.

    Kjörbúðir eru staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins og er eins slík í Bolungarvík

    Í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASí gerði í júlí kom fram að verðlag á matvöru hafi hækkað hratt, um 0,65% milli mánaða eða 9,2% á ársgrundvelli.

    Þar kom einnig fram að hækkanir hafi verið mestar í verslunum Samkaupa; Kjörbúðinni, Nettó og Krambúðinni.

    Hvalá: Hæstiréttur skoðar kröfu um áfrýjun

    Hvalárfoss. Mynd úr matsskýrslu Vesturverks um Hvalárvirkjun.

    Á mánudaginn rann út frestur sem Hæstiréttur hafði gefið málsaðilum til þess að skila greinargerð um afstöðu sína til kröfu nokkurra landeiganda jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi um að fá að áfrýja dómi Landsréttar í júní um landakröfur þeirra á hendur aðliggjandi jörðum, Engjanesi og Ófeigsfirði.

    Hæstiréttur tekur nú kröfuna til meðferðar og hefur fjórar vikur lið lengsta til þess að heimila áfrýjunina eða hafna henni. Eigi síðar en 9. september liggur fyrir afstaða Hæstaréttar.

    Verði kröfunni hafnað er málaferlunum lokið en verði hún samþykkt tekur við málsmeðferð fyrir Hæstarétti.

    Kærendur í málinu höfðuðu mál fyrir dómstólum og kröfðust þess að til Drangavíkur væri dæmt allstórt landsvæði sem tilheyrir Ófeigsfirði og Engjanesi. Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur hafa báðir hafnað kröfunum með öllu og dæmt kærendur til þess að greiða allháar fjárhæðir í málskostnað.

    Í erindi sínu til Hæstaréttar í sumar vekja kærendurnir athygli á tengingu landakröfunnar við virkjunaráform Hvalár sem þeir segjast vera andvígir: „Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til að undirrót máls þessa er fyrirhuguð Hvalárvirkjun. Eru áfrýjendur andstæðingar þeirra virkjunaráforma en aðrir meðeigendur þeirra hlynntir þeim.“

    Vinnist málið fellur land þá undir andstæðinga virkjunarinnar og þar með virkjunarréttindi vatnsaflsins og þá yrðu ógildir samningar milli Vesturverks ehf og eigeda Engjaness og Ófeigsfjarðar um heimild til virkjunar.

    Ráðherra: norskur eldislax mesta ógnin við líffræðilega fjölbreytni

    Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

    Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir í Morgunblaðinu í dag að hann hafi áhyggjur af sjókvíaeldi. „Okkar mesta ógn við líffræðilega fjölbreytni, samkvæmt úttektum, er norskur eldislax“ er haft eftir ráðherranum.

    Ráðherrann fagnar áformum um landeldi. Þar muni fara fram matvælaframleiðsla uppi á landi sem skapar ekki neina slíka hættu, sem fylgi sjókvíaeldi.

    Ísafjarðarbær: rekstur sveitarfélagsins 143 m.kr. betri en áætlun á fyrri hluta ársins

    Einn laugardaginn í júlí voru þrjú erlend skemmtiferðaskip á Ísafirði, þar af tvö við Sundabakka og svo laxaþjónustuskip við Mánabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

    Lagt hefur verið fram yfirlit yfir tekjur og gjöld Ísafjarðarbæjar á fyrri hluta ársins. Niðurstaðan fyrir bæjarsjóð og stofnanir er að afgangur frá rekstri er 796 m.kr sem er 143 m.kr. betri afkoma en fjárhagsáætlunin fyrir 2024 gerði ráð fyrir.

    Það eru einkum þjónustutekjur sem eru umfram áætlun. Það eru tekjur hafnanna sem hífa upp tekjurnar og eru þær 112 m.kr. hærri en ráð var fyrir gert. Næsta víst er að þetta eru tekjur af skemmtiferðaskipum þótt það komi ekki fram í yfirlitinu.

    Útsvarstekjur eru 51 m.kr. hærri en áætlun ársins og aðrar tekjur 34 m.kr. Samtals eru tekjurnar 239 m.kr. umfram fjárhagsáætlun eða 5,7% á fyrri hluta ársins.

    Útgjaldamegin eru þau 47 m.kr. umfram áætlun og fjármagnsgjöldin eru 50 m.kr. hærri en ráð var fyrir gert.

    Heildarrekstrarniðurstaðan fyrir sveitarfélagið er að tekjurnar eru 143 m.kr. eins og fyrr kemur fram. Afgangurinn varð 796 m.kr. en áætlunin var upp á 653 m.kr. Niðurstaðan er því að afgangurinn er hærri en áætlunin hljóðaði upp á.

    Samandregið þá virðist einkum tvennt skýra betri afkomu. Annars vegar tekjur af skemmtiferðaskipum og hins vegar íbúafjölgun sem skilar fleiri útsvarsgreiðendum umfram áætlun.

    -k

    Brjóstaskimun á Ísafirði í september

    Brjóstamiðstöð Landspítala verður í samstarfi við Heilsugæsluna á ferð um landið haustið 2024 með brjóstaskimun. Lögð er rík áhersla á að konur nýti sér þessa þjónustu, sjá leiðbeiningar um bókun hér að neðan.

    • Með brjóstaskimun er hægt að greina brjóstakrabbamein á byrjunarstigi og draga þannig verulega úr dánartíðni vegna sjúkdómsins.
    • Áhersla er lögð á að konur nýti sér þjónustuna sem er að jafnaði í boði á hverjum stað árlega eða á tveggja ára fresti.
    • Bókun á krabbameinsskimun@heilsugaeslan.is eða í síma 513 6700 kl. 8:30–12:00 virka daga.

    Norðureyri ehf: launakostnaður 32 m.kr. pr ársverk

    Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri.

    Laun og tengd gjöld útgerðarfyrirtækisins Norðureyri ehf á Suðureyri voru á síðasta ári 270 m.kr. og stöðugildin 8,5. Meðallaunakostnaður á hvert ársverk var því 31,7 m.kr. eða 2,6 m.kr. á mánuði.

    Norðureyri ehf gerir út línubátinn Einar Guðna ÍS. Helsta eign fyrirtækisins eru fiskveiðiheimildir og voru þær færðar á 1.779 m.kr. í lok síðasta árs. Heimildirnar voru 1.106 þorskígildistonn.

    Tekjur síðasta árs voru 764 m.kr. og 30 m.kr. komu frá dóttufyrirtækinu Fiskvinnslunni Íslandssögu ehf. Hagnaður fyrir tekjuskatt voru 119 m.kr. eða um 16% af tekjum.

    Norðureyri ehf á 73% hlutafjár í Fiskvinnslunni Íslandssögu ehf. og er eignin bókfærð á 196 m.kr. í efnahagsreikningi Norðureyrar ehf.

    Stjórnin segir í skýrslu sinni að rekstur félagsins hafi verið góður á síðasta ári en rekstrarhagnaður var sambærilegur milli ára. En fjármagnsliðir voru mjög óhagstæðir, hækkun vaxta um 77,7% en þróun krónunnar var hagstæð í ár og gengishagnaður var 15 mkr. Stjórnendur telja afkomuna viðunandi og að framtíðarhorfur séu góðar.

    Hluthafar í Norðureyri ehf eru 8. Klofningur ehf er stærstur með 32,1%, þá kemur Hraðfrystihúsið Gunnvör hf með 23,2%, Þórður Emil Sigurvinsson á 13,4%, Elvar Einarsson, Óðinn Gestsson og Guðni A. Einarsson eiga 9,4% hver, eignarhaldsfélagið Hvetjandi á 2% og Flugalda ehf á 0,9%.

    Enginn arður verður greiddur á árinu 2024 og hagnaður ársins 2023 verður yfirfærður til næsta árs.

    Í stjórn félagsins eru Guðni Albert Einarsson, formaður, Elvar Einarsson, Jón Þór Gunnarsson, Einar Valur Kristjánsson og Þórður Emil Sigurvinsson.

    Framkvæmdastjóri er Óðinn Gestsson.

    Nýjustu fréttir