Fimmtudagur 31. október 2024
Síða 14

Neyðarlínan brást

Púttbrautin er við Sjúkrahúsið á Ísafirði.

Það atvik varð á Ísafirði á loka Púttmóti Kubba 24. september að það leið yfir einn keppanda. Þeir sem voru með honum á vellinum hringdu strax í Neyðarlínuna eftir sjúkrabíl og síðan aftur korteri seinna en aldrei kom bíll.

Keppandinn rankaði við sér og var að lokum keyrður í hjólastól frá Hlíf yfir á sjúkrahús þar sem hann var lagður inn yfir nótt.

Haft var samband við sjúkraflutningana á Ísafirði og þá kom í ljós að það kom aldrei boð vestur frá Neyðarlínunni, í hvorugt skiptið.

Bæjarin besta hafði samband við Sigurð A. Jónsson, slökkviliðsstjóra vegna þessa máls og í svörum hans kemur fram að atvikið hafi verið rannsakað hjá Neyðarlínunni, „niðurstaðn er að um mannleg mistök er að ræða. Mjög mikið var að gera hjá Neyðarlínu á þessu tíma og fór þetta símtal aldrei í þann ferli sem það átti að gera.“ segir í svarinu.

Beðið er svara frá Neyðarlínunni þar sem óskað er eftir skýringum.

Sjö milljónir söfnuðust í átaki Nettó og Ljóssins

Sam­starfs­verk­efni Nettó og Ljóss­ins hef­ur skilað sjö millj­ón­um króna, sem renna nú óskipt til end­ur­hæf­ing­ar fólks með krabba­mein. Þetta kem­ur fram í frétta­til­kynn­ingu frá Nettó um átak í sam­starfi við Ljósið.

Þetta er annað árið í röð sem Nettó og Ljósið efna til sam­starfs í júlí­mánuði, und­ir heit­inu „Kveikj­um Ljósið í júlí“ en í fyrra söfnuðust fimm millj­ón­ir kr.

Í ár var það mynd­list­ar­kon­an Unn­ur Stella Ní­els­dótt­ir, eig­andi Start Studio, sem hannaði lista­verk fyr­ir átakið. Verk Unn­ar Stellu er af kaffi­hlaðborði og ber heitið Skína. Prýddi það sund­tösku sem seld var í versl­un­um Nettó auk þess sem selt var sér­hannað Jenga-spil. 

Auk þess seldi Nettó kló­sett­papp­ír og safa þar sem ágóði söl­unn­ar rann til átaks­ins. Átakið gekk sem fyrr seg­ir von­um fram­ar og söfnuðust sjö millj­ón­ir króna. Þá mun sá varn­ing­ur sem enn er óseld­ur vera til sölu hjá Ljós­inu í vet­ur og all­ur ágóði áfram renna til stuðnings við Ljósið.

Sameining bóka­safn­anna í Vesturbyggð

Öll þrjú bóka­söfnin í Vesturbyggð hafa nú form­lega verið sameinuð í eitt bóka­safn.

Það heitir Bókasafn Vesturbyggðar og er hvert og eitt útibú með sitt bæjarheiti fyrir aftan; Bókasafn Vesturbyggðar Bíldudal, Bókasafn Vesturbyggðar Patreksfirði og Bókasafn Vesturbyggðar Tálknafirði.

Breytingin fyrir lánþega er sú að nú er hægt að fá lánað í einu útibúi og skila í öðru, allt eftir hentugleika og allt með einu skírteini.

Teitur Björn: vill leiða listann

Teitur Björn Einarson, alþm. hefur ákveðið að bjóða sig fram í fyrsta sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Í tilkynningu frá honum egir:

„Ég býð mig fram til að leiða lista Sjálfstæðiflokksins í Norðvesturkjördæmi Ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að leggja til að þing verði rofið og þar með boðað til alþingiskosninga var hárrétt. Kyrrstaða í málum sem eru jafn mikilvæg framtíð þjóðarinnar og raun ber vitni er óásættanleg.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð verulegum árangri síðustu ár þrátt fyrir krefjandi ríkisstjórnarsamstarf og sögulegar áskoranir og getur því stoltur lagt verk sín í dóm kjósenda. Hins vegar horfum við nú fram á breyttar áskoranir sem snúast fyrst og fremst um framtíðina og hvernig við gerum fólki best kleift að nýta tækifærin til að skapa sér og sínum gott líf um land allt.

Frá því ég tók sæti á Alþingi fyrir einu og hálfu ári síðan hef ég barist fyrir hagsmunum íbúa Norðvesturkjördæmis. Áskoranirnar eru fjölmargar og ólíkar, en ég tel einsýnt að áframhaldandi sókn í atvinnuuppbyggingu sé forsenda aukinnar velferðar og bættra lífskjara fólksins á svæðinu. Það er leiðin fram á við.

Ég hef fullan hug á að halda áfram að berjast fyrir bættum hag fólksins í Norðvesturkjördæmi og óska því eftir stuðningi Sjálfstæðismanna í 1. sæti á lista flokksins á kjördæmaráðsþingi næsta sunnudag.“

Stefna kennurum fyrir fé­lags­dóm

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur stefnt Kennarasambandi Íslands fyrir félagsdóm. Sambandið telur boðun verkfalls í fjölda skóla ólögmæta þar sem engin kröfugerð liggi fyrir í kjaradeilunni.

Þetta staðfestir Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sam­bands ís­lenskra sveit­ar­fé­laga, í samtali við Vísi.

Kennarar hafa boðað verkfall í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla á Ísafirði, sem hefst að óbreyttu þann 29. október.

Raðhús byggð á Reykhólum

Í gær afhenti Tekta ehf. Reykhólahrepp nýreist raðhús, með fjórum 55míbúðum. Húsið er frágengið að utan og verður hafist handa við að innrétta í beinu framhaldi.

Annað raðhús er leigufélagið Bríet að reisa örskammt frá. Þar er einnig um að ræða 4 íbúðir, um 90m2 hver.

Loks er svo Brák íbúðafélag að hefja byggingu raðhúss. Þar er unnið að uppstillingu „legokubba“, plasteininga sem sökklar hússins eru steyptir í , eins og undir fyrri húsin.

Piff: myndin Gone fékk grasrótarverðlaunin

Nemendamyndin Horfin eða Gone vann 200.000 króna grasrótarverðlaun á PIFF kvikmyndahátíðinni sem lauk með verðlaunafhendingu á Dokkunni á Ísafirði á sunnudaginn. Egill Nielsen leikstýrði henni en Tómas Vilhelm Hafliðason vann einnig verðlaun fyrir kvikmyndatöku í sömu mynd. Adrian Apanel vann verðlaun fyrir bestu kvikmynd í fullri lengd fyrir Horror Story sem fjallar um nýútskrifaðan mann í starfsleit sem leigir íbúð með afar kostulegum herbergisfélögum.


Þá vann Megas – Afsakið meðanað ég æli verðlaun bæði sem besta heimildamyndin og besta íslenska myndin.

Fullt hús var á verðlaunaafhendingunni og mikil ánægja var með fjórðu Pigeon International Film Festival sem stóð yfir í fjóra daga. „Hátíðin er einstakt tækifæri til að heiðra þá sem hafa helgað sig kvikmyndalistinni og sýna hvernig þetta listform sameinar okkur, fer yfir landamæri og tungumál,“ sagði Thelma Hjaltadóttir, kynnir kvöldsins í ræðu sinni. „Við erum stolt af því að hafa skapað vettvang þar sem kvikmyndagerðarmenn alls staðar að úr heiminum koma saman til að deila verkum sínum og innblæstri.“

Vinningshafar PIFF 2024 

Barnakvikmyndir

Besta myndin: The Strange Case Of The Human Cannonball

Heimildarmyndir

Besta kvikmyndataka: Filip Drożdż – Pianoforte

Besta leikstjórn: Jakub Piatek – Pianoforte

Besta heimildarmyndin: Megas / Afsakið mig á meðan ég æli

Besta leikstjórn: Jay Marks – A Walk in the Park

Besta teiknaða stuttmyndin: Dog – Apartment

Stuttmyndir

Besta handrit: Atefeh Salehi – Mirage

Besti aukaleikur: Tatia Tatarashvili – Vasomotor Rhinitis

Besti aðalleikur: Justyna Wasilewska – Newborn

Besta kvikmyndataka: Hamed Baghaeiyan – Mirage

Besta leikstjórn: Mohammad Dehbashi – Sweet Nightmare

Besta stuttmyndin: Sweet Nightmare

Íslenskar kvikmyndir

Besti leikur: Þórunn Erna Clausen 

Besta kvikmyndataka: Tómas Vilhelm Hafliðason – Horfin

Besta leikstjórn: Andri Freyr Gilbertsson – New Life

Besta nemendamyndin: Horfin

Besta myndin: Megas / Afsakið mig á meðan ég æli

Besta handritið: Reese Eveneshen & Avi Federgreen – Home Free

Besti aukaleikur: Jói G. Jóhannsson – Aftergames

Besti leikur í aðalhlutverki: Vivian Ólafsdóttir – Aftergames

Besta kvikmyndataka: Marek Warszewski – Doppelgänger

Besta leikstjórn: Adrian Apanel – Horror Story

Besti myndin: Horror Story

Heiðursverðlaun

Sérstök tungumálaverndarverðlaun: An Taibhse

Sérstök verðlaun fyrir metnað nemenda: Huldufólk – Huldufólk – A Hidden World

Gervigreind í ferðaþjónustu styður ferðaþjónustuaðila á Vestfjörðum með nýjungum

Þingeyri, Ísland – Blábankinn hélt nýlega árlega Startup Westfjords viðburð sinn frá 10. til 13. október 2024, þar sem þemað í ár var „Áhugaverð tæki: Gervigreind í ferðaþjónustu.“ Þessi fjögurra daga vinnustofa safnaði saman ferðaþjónustuaðilum á svæðinu, samfélagsleiðtogum og sérfræðingum úr greininni til að kanna hvernig gervigreind getur umbreytt ferðaþjónustufyrirtækjum og stuðlað að sjálfbærum aðferðum á Vestfjörðum.

Með þessu frumkvæði heldur Blábankinn áfram að efla nýsköpun og sjálfbæran vöxt á Vestfjörðum með því að skapa vettvang til að kynna nýjustu tækninýjungar og hagnýtar lausnir sem styrkja heimamarkaðinn. Þemað í ár var sérsniðið að því að veita þátttakendum hagnýta reynslu af stafrænum tækjum sem geta bætt rekstur, þjónustu við viðskiptavini og markaðsaðferðir.

Hápunktar viðburðarins

1.     Nýsköpun með gervigreind í dreifðri ferðaþjónustu

Vinnustofan hófst með því að Magdalena Falter, sérfræðingur í sjálfbærri ferðaþjónustu, flutti erindi um krafta stafrænnar nýsköpunar í dreifðum byggðum. Hún fjallaði um algengar áhyggjur af gervigreind og tæknivæðingu, þar á meðal ótta við sjálfvirkni, og sýndi fram á hvernig gervigreind getur virkað í bakgrunni til að efla persónuleg tengsl og straumlínulaga rekstur hjá ferðaþjónustufyrirtækjum.

2.     Handavinna með gervigreindar tólum

Þátttakendur fengu kynningu á gervigreindartólum eins og ChatGPT og lærðu hvernig þessi tækni getur nýst til að sjálfvirknivæða fyrirspurnir, búa til persónulegar markaðsherferðir og greina viðbrögð viðskiptavina. Brynjólfur Ægir Sævarsson, sérfræðingur í gervigreind og stafrænum umbreytingum, leiddi þátttakendur í gegnum hagnýtar lausnir fyrir gagnagreiningu, samskipti við viðskiptavini og aukna rekstrarhagkvæmni.

3.     Sjálfbær ferðaþjónusta með gervigreind

Á þriðja degi hélt Magdalena Falter fyrirlestur um sjálfbæra ferðaþjónustu og stafrænar lausnir, þar sem hún ræddi hvernig gervigreind getur stýrt ferðamannastraumi til að koma í veg fyrir ofgnótt og stuðlað að náttúruvernd á Vestfjörðum. Hún hvatti ferðaþjónustuaðila til að tileinka sér gervigreindarlausnir sem styðja við ábyrga ferðaþjónustu og varðveita einstaka upplifun gesta.

4.     Netsamskipti og samvinna

Startup Westfjords bauð þátttakendum fjölmörg tækifæri til að tengjast og vinna saman með öðrum aðilum í ferðaþjónustunni. Þátttakendur ræddu aðferðir til að nýta gervigreind til að efla rekstur sinn og könnuðu möguleika á samstarfi sem gæti stuðlað að langtíma vexti á svæðinu.

Horft fram á veginn

Þátttakendur yfirgáfu vinnustofuna með dýpri skilning á því hvernig gervigreind getur stutt við vöxt fyrirtækja þeirra á sjálfbæran hátt, með áherslu á samfélagsleg gildi. Helstu lærdómar voru meðal annars þróun persónulegra markaðsáætlana, bætt þjónusta við viðskiptavini með gervigreind og uppsetning á kerfum til að bæta stöðugt þjónustu.

Startup Westfjords heldur áfram að vera mikilvægt framtak hjá Blábankanum, sem veitir heimamarkaðnum aðgang að nýjustu tækni og aðferðum til að dafna í sífellt stafrænum heimi.

Viðburðurinn var styrktur af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og var haldinn í samstarfi við Vestfjarðarstofu.

Um Blábankann

Blábankinn á Þingeyri er nýsköpunar- og samfélagsmiðstöð sem styður frumkvöðla og eflir sjálfbæra þróun á Vestfjörðum. Með verkefnum eins og Startup Westfjords miðar Blábankinn að því að styðja við heimamarkaðinn og stuðla að vexti á svæðinu.

Lög frá Ísafirði: ný bók með 37 lögum

„Lög frá Ísafirði“ er bók sem kemur út á næstu dögum. Í bókinni eru laglínur, textar og hljómar að 37 lögum frá Ísafirði, eftir Ísfirðinga eða tengd Ísafirði eða nærsveitum nánum böndum. Öllum lögum fylgir stuttur inngangur auk þess sem bókina prýða ljósmyndir Hauks Sigurðssonar úr þessum mikla tónlistarbæ. Ritstjóri og útgefandi er Gylfi Ólafsson, sem einnig tölvusetti stærstan hluta nótnanna.

Lögin eru misgömul og misþekkt, eftir höfunda á öllum aldri frá ýmsum tímum, þau nýjustu frá því í ár. Fæst laganna hafa birst á prenti áður og sum ekki einu sinni verið hljóðrituð. Fjögur laganna heita til dæmis „Ísafjörður“.  

Á útgáfuhófinu 27. október kl. 16:00 í Edinborgarhúsinu geta áhugasamir keypt eintak, bæði fyrir sig og í jólapakkann. Nokkrir höfundar munu einnig stíga á stokk og flytja lög sín, og mun það koma í ljós betur þegar nær dregur.

Viðburðurinn er hluti af Veturnóttum. Útgáfan var styrkt af nótnasjóði STEFs og samfélagssjóði Orkubús Vestfjarða.

Efnisyfirlit

1.12.87 (Rúnar Þór)
Aftur heim (Skúli mennski)
Á Seljalandsdal (Haraldur Ólafsson)
Ég er feimið fjall (Villi Valli, Egill Ólafsson)
Fljótavík (BG, Ásthildur C. Þórðardóttir)
Gamlar glæður (Salóme Katrín)
Gott að sjá þig (Halldór Smárason, Stígur Berg Sophusson)
Gúanóstelpan (Mugison, Rúna Esradóttir, Ragnar Kjartansson)
Gömul stef (Sammi rakari, Þorsteinn Eggertsson)
Hafið eða fjöllin (Óli popp)
Heima (Sammi rakari)
Hringrás lífsins (Rúnar Þór, Ómar Ragnarsson)
Húsið og ég (Grafík)
Ibizafjörður (Hermigervill)
Í faðmi fjallanna (Helgi Björns)
Í vöggu lista (Halldór Smárason, Steinþór Bjarni Kristjánsson)
Ísafjörður (Ég man þig fjörðinn fríða) (Sammi rakari, Ólína Þorsteinsdóttir)
Ísafjörður (Í faðmi fjalla blárra) (Jónas Tómasson eldri, Guðmundur skólaskáld)
Ísafjörður (BG, Guðmundur skólaskáld)
Ísafjörður (Mitt í fjallanna fangi) (Bragi Valdimar Skúlason)
Jólakvöld (Svanhildur Garðarsdóttir)
Kvöld (Villi Valli, Pétur Bjarnason)
Lóan (Jón Hallfreð Engilbertsson)
Minnisvísa um fjarðanöfn í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum (Ingvar og Gylfi)
Páskalagið (Ingvar og Gylfi)
Sólarpönnukökur (Gylfi Ólafsson)
Stingum af (Mugison)
Strollan (Höfundar óþekktir)
Sætt og sykurlaust, smáverk fyrir píanó (Hjálmar H. Ragnarsson)
Tíska í fatnaði (Guðrún María Johansson, Birkir Friðbertsson)
Um vor (Svanhildur Garðarsdóttir)
Vestfirsku Alparnir (BG, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir)
Vestfjarðaóður (Herbert Guðmundsson)
Vorkoman (BG, Jón Hallfreð Engilbertsson)
Vögguvísur (Sædís Ylfa Þorvarðardóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir)
Þegar fuglarnir eru sofnaðir (Villi Valli, Sara Vilbergsdóttir)
Þú gerir ekki rassgat einn (Bragi Valdimar Skúlason)

Ísafjörður: slökkviliðið með nýjan körfubíl

Slökkvilið Ísafjarðarbæjar var að fá til afnota körfubíl/stigabíl.  Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins lánar slökkviliðinu bíl í nokkra mánuði.

Bíll þessi er árgerð 1999 og fer í 32m hæð yfir jörð en sá gamli komst í 21m hæð.

Sigurður A. Jónsson, slökkviliðsstjóri segir að bíllinn sé í prófunum þessa viku og allt líti vel út.

Körfubíll slökkviliðs Ísafjarðarbæjar verður auglýstur til sölu innan skamms og verður óskað eftir verðtilboðum.

Nýjustu fréttir