Síða 14

Björgunarbátafélag V-Barðastrandarsýslu fær 2 m.kr. í gjöf

Gunnar Sean og Páll Heiðar færa Björgunarbátasjóðnum gjafirnar. Mynd: Smári Gestsson.

Þrjú fyrirtæki á Patreksfirði,Vélaverkstæði Patreksfjarðar annars vegar og Smur og dekk ásamt strandveiðiútgerð Páls Heiðars hins vegar , hafa fært Björgunarbátasjóði V-Barðastrandasýslu sitthvora miljónina til kaupa á nýju björgunarskipi.

Áður hefur sjóðurinn fengið veglegar gjafir frá Odda hf, 30. m.kr. og frá slysavarnardeildinni Unni, 10 m.kr.

Gert er ráð fyrir að á vegum Landsbjargar og ríkisins komi nýtt björgunarskip til Patreksfjarðar á næsta ári. Kostnaður við skipið eru tæpar 400 m.kr. og þar af þarf um fjórðungur að koma úr heimabyggð skipsins.

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson á leið til Noregs

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson HF 30 Mynd: Svanhildur Egilsdóttir.

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson hefur verið selt til Holberg Shipping í Noregi og kveður því Hafrannsóknastofnun og heimahöfn í Hafnarfirði eftir ríflega 54 ára dygga þjónustu.

Smíðasamningur var undirritaður 11. mars 1969, skipinu hleypt af stokkunum 27. apríl 1970 en það kom til Reykjavíkur þann 17. desember 1970.

Vel var vandað til smíði Bjarna Sæmundssonar og í skipinu var ýmis nýr búnaður sem ekki hafði áður verið settur í íslensk skip. Í því eru dísel rafstöðvar sem knúa rafmótor sem knýr skipið áfram. Vélarrúm skipsins er sérstaklega einangrað og vélar og rafalar á sérstöku gúmmíundirlagi til þess að minnka hávaða og titring. Þessi búnaður var á sínum tíma alger nýlunda í íslensku skipi og síðan hefur hann aðeins verið settur í eitt annað íslenskt skip, þ.e. hafrannsóknaskipið Árna Friðriksson sem kom nýtt til landsins árið 2000. Innleiðing þessarar tækni á sínum tíma leiddi til töluverðs sparnaðar á olíunotkun.


Bjarni Sæmundsson lagði upp í sinn fyrsta rannsóknaleiðangur þann 6. janúar 1971. Skipið hefur gengt fjölþættum verkefnum í sambandi við íslenskar hafrannsóknir en stærstur hefur þar verið hlutur rannsókna á uppsjávar- og botnfiskum, ásamt sjó- og svifrannsóknum.

Mottumars er hafinn og sokkar í sölu

Í Mottumars, árlegu átaki Krabbameinsfélagsins, fer fram vitundarvakning um krabbamein hjá körlum og aflar félagið um leið fjár fyrir mikilvæga starfsemi Krabbameinsfélagsins.

Í ár er áhersla Mottumars á tenginguna á milli lífsstíls og krabbameina. Krabbameinsfélagið vill í Mottumars vekja athygli á að bæði óheilbrigðar og heilbrigðar lífsvenjur verða til á löngum tíma. Skilaboðin eru einföld.  Lífsstíll er ekkert til að grínast með, hann er þvert á móti dauðans alvara.

Að minnsta kosti þriðja hvert krabbameinstilvik tengist lífsstíl. Þó að enginn sé öruggur er hægt að draga úr líkum á krabbameinum með heilsusamlegum lífsstíl. Þar getum við svo sannarlega gert betur og tilfinningin er að of margir karlmenn taki lífsstíl sinn ekki nógu alvarlega. Því viljum við breyta. 

Óheilsusamlegur lífsstíll er summan af mörgum litlum, slæmum ákvörðunum sem teknar eru hversdagslega yfir langan tíma. Hver og ein ákvörðun vegur ekki þungt en samanlagt geta þær skaðað heilsuna og meðal annars aukið líkurnar á krabbameinum. 

 

Mottumarssokkarnir í ár eru hannaðir af Berglindi Häsler, ekkju Svavars Péturs og eiganda Havarí, í samstarfi við Björn Þór Björnsson (Bobby Breiðholt). Björn hefur undanfarin ár tekið að sér að viðhalda safni myndrænna sköpunarverka Svavars Péturs sem lést úr krabbameini árið 2022. Svavar Pétur var best þekktur sem tónlistarmaðurinn Prins Póló.

Hönnunin byggir á kórónunni sem var hans helsta og íkonískasta tákn. 

Allur ágóði af sölu Mottumarssokkunum rennur til starfsemi Krabbameinsfélagsins sem miðar að því að færri fái krabbamein, fleiri læknist, lifi lengi og njóti lífsins – með og eftir krabbamein. Öll starfsemi félagsins byggir á styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum og Mottumars er ein af lykilstoðunum.

172.700.000 kr til úthlutunar úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis 

Umhverfissjóður sjókvíaeldis auglýsir eftir umsóknum um styrki til rannsókna og verkefna sem styðja við markmið sjóðsins um lágmörkun umhverfisáhrifa af völdum sjókvíaeldis.

 Til úthlutunar á árinu 2025 eru kr. 172.700.000,-.

Stofnanir, fiskeldisfyrirtæki, einstaklingar og lögaðilar geta sótt um styrki til sjóðsins. 

Hlutverk sjóðsins er að greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats og vöktunar. Sjóðurinn getur jafnframt greitt kostnað við önnur verkefni sem stjórn sjóðsins ákveður eftir því sem fjármagn leyfir. Verkefnum er forgangsraðað í samræmi við framangreint hlutverk og áherslur stjórnar hverju sinni.

Stjórn sjóðsins leggur faglegt mat á allar umsóknir, forgangsraðar verkefnum og ákveður styrkfjárhæð. Við úthlutun ársins 2025 mun stjórn hafa lögbundið hlutverk sjóðsins til grundvallar úthlutunar, en auk þess líta sérstaklega til verkefna sem stuðla að aukinni þekkingu á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis á vistkerfi fjarða og verkefna sem ganga út á eflingu mótvægisaðgerða vegna umhverfisáhrifa sjókvíaeldis.

Stjórn sjóðsins skipa: Kolbeinn Óttarsson Proppé, án tilnefningar, formaður stjórnar sjóðsins, Hildur Hauksdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Þorgils Torfi Jónsson, tilnefndur af Landssambandi veiðifélaga og Valgerður Sigurðardóttir, tilnefnd af umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytinu.

Vakin er athygli á því að loka- og framvinduskýrslur verkefna sem sjóðurinn styrkir skulu almennt vera aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins, sbr. starfsreglur stjórnar. Aðrar upplýsingar í umsóknum er varða fjárhag eða viðskiptahagsmuni umsækjenda og annarra einstaklinga og lögaðila er tengjast verkefnum á vegum sjóðsins skulu meðhöndlaðar sem trúnaðarmál að því marki sem lög takmarka ekki.

Keppendur Vestra á Íslandsmóti Lyftingasambandsins

Guðrún Helga Sigurðardóttir, Hjördís Ásta Guðmundsdóttir og Aldís Höskuldsdóttir

Íslandsmeistaramót Lyftingasambands Íslands var haldið laugardaginn 8. febrúar síðastliðinn í Hafnarfirði. Alls tóku 44 keppendur þátt í mótinu, 13 karlar og 31 kona. Þrír keppendur voru frá Vestra, þær Guðrún Helga Sigurðardóttir, Hjördís Ásta Guðmundsdóttir og Aldís Höskuldsdóttir.

Aldís Huld keppti í -76 kg. flokki og lyfti 73 kg í snörun og 90 kg. Í jafnhendingu og lyfti því samanlagt 163 kg. og hlut annað sætið í sínum flokki.

Hjördís Ásta keppti í -87 kg. flokki og lenti í þriðja sæti í þeim flokki. Hún lyfti 50 kg í snörun og 70 kg í jafnhendingu samtals 120 kg.

Guðrún Helga keppti í +87 kg. flokki og varð í fjórða sæti í þeim flokki. Hún lyfti 65 kg. í snörun og 85 kg. í jafnhendingu, samtals 150 kg.

Næsta mót, Íslandsmeistaramót unglinga, fer fram 8.-9. mars nk. og verður Guðrún Helga meðal keppenda þar.

Ráðherra í hlekkjum hugarfarsins

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra skrifaði pistil í Morgunblaðið fyrir stuttu þar sem hún tilkynnti að hún muni á næstunni leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða í því skyni að auka á gagnsæi eigna- og stjórnunartengsla í sjávarútvegi, breyta reglum um hámarkshlutdeild og þrengja skilgreiningar um yfirráð og tengda aðila.  Hún byrjaði grein sína á að vitna til sjónvarpsseríunnar Verbúðarinnar og gat maður ekki skilið þann inngang öðruvísi en að þar væru komin helstu rökin fyrir að grípa þyrfti til aðgerða.  Það er afar einkennilegt ef annars gott leikið sjónvarpsefni með ágætt skemmtanagildi, er notað sem helstu rök ráðherra fyrir að taka þurfi á málum og leiðrétta meint óréttlæti stjórnkerfis fiskveiða.

Mér datt í hug ríflega 30 ára gamlir sjónvarpsþættir, “Þjóð í hlekkjum hugarfarsins” sem vissulega vorum mjög umdeildir og vöktu umtal á sínum tíma.  Þar voru myndbirtingar af heimilum fólks (bænda) birt og sköpuð hugrenningatengsl við umfjöllun um liðinn tíma og ýmsa atburði sem áttu sér stað á sömu stöðum og í engum tengslum við ábúendur jarðanna á þeim tíma.  Það virtist vera gert í þeim tilgangi einum að níða niður landbúnaðinn.  Væru þeir þættir frumsýndir í dag mætti eflaust búast við að fyrsta hugsun ráðherra væri að skoða fjölskyldutengsl í landbúnaði og þrengja að rekstri búanna með því að endurskilgreina hámarks bústofn hverrar fjölskyldu.

Að skapa ranga ímynd

Tilvísun ráðherra í Verbúðina virðist ekki hafa verið ætlað annað en að skapa kolröng hugrenningartengsl landsmanna um að að eigendur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hafi fengið allt upp í hendurnar, farið illa með og hafi ekki þurft neinu að kosta til eða taka áhættu í rekstri sem þeir hafa ákveðið að starfa innan og fjárfesta í.  Er þetta sú ímynd sem ráðherra greinarinnar vill draga upp af sjávarútvegi ?  Grein sem að við Íslendingar getum verið stoltir af og ættum að kynna á jákvæðan hátt út á við í þeirri alþjóðlegu samkeppni sem við búum við.

Vissulega erum við að tala um nýtingu þjóðarauðlindar og svona samlíkingar sem ég set fram hér að framan verða nú seint fullkomnar.  En engu að síður er atvinnufrelsi einstaklinga grunnur að bæði starfi bóndans og útgerðaraðilans, en þó um takmörkuð gæði að ræða hvort sem er ræktanlegt land eða auðlindir sjávar.  Varðandi sjávarútveg snýst þetta fyrst og fremst um að ná fram skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar til hagsbóta fyrir þjóð.  Þá ber að gæta sín á því að sjúkdómsgreina nú rétt og beita ekki svo öflugum meðölum til að vinna á litlu meini að það valdi varanlegum skaða á starfsemi greinarinnar.

Það virðist skollið á kapphlaup milli ráðherra ríkisstjórnar um að dæla nú inn frumvörpum og keyra í gegn breytingar sem fyrst.  Það er eins og það sé ekki trú á stjórnarheimilinu að það gefist mjög langur tími til að fara yfirvegað í hlutina og ná fram skynsamlegum skrefum í átt að því sem yfirvöld vilja ná fram.  Í tilfelli atvinnuvegaráðherra þyrfti það að vera gert með samtali við þá sem í greininni starfa.  Engin tími virðist fyrir yfirvegaðar og rökstuddar ákvarðanir eða að gefa tíma til aðlögunar þannig að ekki bitni harkalega á greininni og því starfsfólki sem þar starfar.

Tenging við veruleikann

Það hafa kannski flestir lent í því að lifa sig svo inn í gott sjónvarpsefni að það taki tíma að kippa sér til baka í raunveruleikann.  Af brennandi tilfinningasemi út í óréttlæti í garð góða fólksins og heift út í vonda kallinn tekur kannski tíma að átta sig á að allt var þetta leikið, kannski byggt í grunninn að einhverju leyti á  sönnum atburðum en gjarnan er nú bætt í á réttum stöðum til að búa til spennandi sjónvarpsefni.  Það eru 40 ár liðin frá upphafi aflamarkskerfisins og stærstu fyrirtækin hafa bætt sinn rekstur með uppkaupum á aflahlutdeildum og annarri hagræðingu.  Það eru sífellt minni tengsl við upphafið og vafasöm taktík af ráðherra málaflokksins að skapa svona hugrenningartengsl milli raunveruleika nútíðar og skáldskapar um fortíðina.

Íslenskur sjávarútvegur þarf á stórum og öflugum sjávarútvegsfyrirtækjum að halda.  Það er vonandi að frumvörp atvinnuvegaráðherra á sviði sjávarútvegs beri með sér að hafa verið unnin af yfirvegun og studd rökum þegar þau koma fyrir sjónir þings og þjóðar.  Ég vona jafnframt að í þeirri vegferð beri henni gæfu til að eíga gott samtal við forsvarsfólk innan greinarinnar.  Að henni takist að verða öflugur málsvari sjávarútvegs og vinna með fyrirtækjum og samtökum þeirra í þeirri viðleitni að ná viðunandi niðurstöðu og árangri.  Að minnsta kosti vona ég að hún verði ekki lengi föst í hlekkjum þess hugarfars sem birtist í upphafi pistils hennar.

Gunnlaugur Sighvatsson

sjávarútvegsfræðingur

Finnbogi: hækkanir í hrópandi ósamræmi við samninga verkalýðshreyfingarinnar

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkvest. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga segist vilja byrja á því að óska kennurum til hamingju með nýjan kjarasamning. En hvort hann kalli á viðbrögð innan ASÍ á eftir að koma í ljós eftir að innihald samninganna hafa verið rýnd ofan í kjölinn.

„Við erum að tala um að mig minnir 7 mismunandi kjarasamninga við kennara og eina sem hefur verið sagt er að hækkunin nemi 24%, ekki hefur komið fram hvort það er flöt hækkun eða ekki. Okkar fólk sem er með lökustu kjörin fengu ca. 15 – 17% hækkun í 4 ára samningi og ef við berum þá tölu flata við hækkun kennara þá er munurinn í hrópandi ósamræmi við þá línu sem verkalýðshreifingin í samráði við stjórnvöld og sveitarfélög sömdu um árið 2024.“

gæti kallað á endurskoðun okkar kjarasamninga

Finnbogi bætir því við að „Ég hef í raun meiri áhyggjur af því hvernig ríki og sveitarfélög ætla að fjármagna þessar hækkanir og hvort þessar umframhækkanir muni hafa áhrif á þá kjarasamninga meðal félaga innan ASÍ sem enn hafa ekki verið kláraðir. Slíkt gæti kallað á endurskoðun forsenduákvæða kjarasamninga okkar.“

Samgönguráðherra: gefur ekkert upp um forgangsröðun jarðganga

Eyjólfur Ármannson, samgönguráðherra og Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm.

Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra sagði það stefnu ríkisstjórnarinnar að ráðast í innviðaframkvæmdir sem leiða til aukinnar verðmætasköpunar í þjóðfélaginu strax. Nefndi hann hafnaframkvæmdir sem dæmi.

Þessi yfirlýsing vekur athygli þar sem á Ísafirði og í Bolungavík hafa verið miklar framkvæmdir eða eru áformaðar til þess að mæta auknum umsvifum í laxeldi og móttöku skemmtiferðaskipa.

Þetta kom fram á fundi ráðherra og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur,alþm. á Ísafirði á þriðjudaginn. Ráðherrann var ítrekað inntur eftir því hver yrðu næstu jarðgöng sem ráðist verður í en hann varðist allra svara af því og sagði að það yrði upplýst næsta haust þegar mælt verður fyrir samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar á Alþingi.

Þó kom fram í máli hans að Fjarðaheiðagöng, milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða, væru tilbúin og unnið væri að undirbúningi að Fljótagöngum og Súðavíkurgöngum. Þá sagðist hann vera tilbúinn til að skoða nánar hugmyndir um að göng undir Klettsháls yrði fjármögnuð að hluta með veggjöldum, en í skýrslu Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri um jarðgangakosti kemur fram það mat að veggjöld geti staðið undir verulegum hluta kostnaðar við göngin.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþm sagði um samgöngumálin að á Vestfjörðum væri kallað á sérstaka samgönguáætlun fyrir Vestfirði og vísaði m.a. til málflutnings Innviðafélags Vestfjarða fyrir síðustu alþingiskosninga.

Vísindaport: Möguleikar Vestfjarða til Þörungaræktar og mikilvægi

28.02.2025 kl. 12:10 Vísindaport

Í Vísindaporti að þessu sinni mun Magnús Bjarnason fjalla um möguleika Vestfjarða til þörungaræktar og mikilvægi hennar.

Í erindi verður farið yfir ástæðu þess að Vestfirðir eigi að skoða þörungarækt, hvaða kosti hafa Vestfirðir til ræktunar í sjó, af hverju eru þörungar að fá svona mikla athygli og að lokum hvaða áskoranir eru til að hefja þörungaræktun.

Magnús er borinn og barnsfæddur Ísfirðingur, hann er með BS gráður í viðskiptafræði frá HÍ og mastersgráðu frá Gautaborg. Hann starfar sem verkefnastjóri nýsköpunar og fjárfestinga hjá Vestfjarðastofu og er með bakgrunn frá sjávarútvegi og opinberi stjórnsýslu.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt í gegnum zoom hlekk og má finna hann hér https://eu01web.zoom.us/j/69947471079

Erindið fer fram á íslensku

Háskólasetur Vestfjarða 20 ára – upphafið og aðdragandi

Fyrsta grein af þremur

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að heil 20 ár séu liðin síðan stofnfundur Háskólaseturs Vestfjarða var haldinn 12. mars 2005. Ársfundur Háskólaseturs verður 14 mars nk. þar sem þessara tímamóta verður minnst.

Undirritaður kom að þessu verkefni og langar að rifja það aðeins upp og vekja athygli á tímamótunum. Það eru forréttindi að hafa átt þátt í því ævintýri að stofna Háskólasetrið og full ástæða til að þakka þeim fjölmörgu sem gerðu það mögulegt.

Samstarfshópur Atvinnuþróunarfélags, Ísafjarðarbæjar, Fjórðungssambands og Fræðslumiðstöðvar skilaði skýrslu til menntamálaráðherra í apríl 2003 um uppbyggingu háskólaseturs. Nefnd á vegum menntamálaráðherra vann síðan skýrslu um þekkingarsetur, stjórn Fræðslumiðstöðvar lagði haustið 2004 fram tillögur til menntamálaráðherra og loks skilaði starfshópur á vegum menntamálaráðherra skýrslu um háskólasetur í febrúar 2005.

Háskólasetur Vestfjarða var stofnað með sérstakri skipulagsskrá sem samþykkt var á stofnfundinum. Stofnaðilar voru 42 talsins, fólk og fyrirtæki sem sá mikilvægi þess fyrir Vestfirði að til yrði öflug háskólastarfsemi. Menntamálaráðuneytið kom með stærsta hluta fjármögnunar í gegnum samning við Háskólasetrið en einnig var stefnt á að taka skólagjöld þar sem það átti við.

Einn mikilvægasti þátturinn í byggðaþróun er sá að til séu fjölbreytt atvinnu- og menntunartækifæri sem víðast. Það er lykill að því að ráða fólk til ýmissa starfa að makinn geti fengið vinnu eða komist í nám á viðkomandi stað. Þessi staðreynd var alltaf leiðarljósið til að efla byggð á Vestfjörðum í huga þeirra sem unnu að stofnun Háskólaseturs, Þróunarseturs og annarra álíka verkefna. Þá var einnig litið svo á að það væri eðlilegt að íslenska ríkið væri með starfsemi sem víðast um landið en einblíndi ekki bara á höfuðborgarsvæðið. Markmið Háskólaseturs frá stofnun var að hækka menntunar- og þekkingarstig, auka staðnám á Vestfjörðum og um leið auka samkeppnishæfni Vestfjarða.

Mikilvæg skref höfðu verið stigin fram að stofnun Háskólaseturs til eflingar náms á Vestfjörðum. Risastórt skref var stigið með stofnun Menntaskólans á Ísafirði, Kennaraháskólinn bauð upp á öflugt fjarnám fyrir kennara. Hjúkrunarfræði byrjaði í fjarnámi haustið 1998 frá Háskólanum á Akureyri og Fræðslumiðstöð Vestfjarða hóf starfsemi sína. Stofnun Háskólaseturs var eðlileg þróun á þessu sviði mennta og rannsókna.

Ýmsar skýrslur um þessi mál höfðu litið dagsins ljós. Auðvitað tókst fólki að þrátta eitthvað um hvernig, hvar og hvenær svona eins og gengur. En að lokum hafðist í gegn að koma starfseminni af stað. Þar lögðu margir heimamenn hönd á plóg og afstaða Háskólans á Akureyri var lykilatriði til að þetta gengi allt upp. Samstarfið við HA hefur verið til mikillar fyrirmyndar alveg frá upphafi.

Frá upphafi var tilgangur Háskólaseturs Vestfjarða að stuðla að fjölbreyttri uppbyggingu háskólamenntunar, rannsókna og þekkingarstarfs á Vestfjörðum, og vera samstarfsvettvangur fyrir aðila er vinna að verkefnum á sviði rannsókna, háskóla- og símenntunar, fjölþjóðlegra samstarfsverkefna, nýsköpunar og byggða- og atvinnuþróunar.

Fyrsta stjórn Háskólaseturs Vestfjarða var skipuð eftirtöldum: Halldór Halldórsson, bæjarstjóri sem var valinn formaður og var í því hlutverki fyrstu 10 árin, Hjálmar H. Ragnarsson rektor Listaháskóla Íslands, Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknarstofnunar, Kristján G. Jóakimsson vinnslu- og markaðsstjóri HG og Soffía Vagnsdóttir bæjarfulltrúi sem valin var ritari stjórnar. Auk þess sat Þorsteinn Jóhannesson formaður fulltrúaráðsins stjórnarfundi þegar hann kom því við.

Þetta var góð samsetning stjórnar sem breyttist af og til í gegnum árin. Háskólasetrið hefur búið að því að hafa gott stjórnarfólk sem aldrei hefur þegið laun fyrir sín störf. Samsetning stjórnar hefur líka verið þannig að mennta- og rannsóknastofnanir auk heimamanna hafa átt sína fulltrúa í stjórn. Það hefur reynst gæfuspor.

Í fyrstu varastjórn sátu: Lárus Valdimarsson bæjarfulltrúi, Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri, Magnús Jónsson veðurstofustjóri, Laufey Jónsdóttir framkvæmdastjóri og Guðrún Stella Gissurardóttir forstöðumaður.

Eitt af fyrstu verkum stjórnar var að vinna að húsnæðismálum fyrir Háskólasetrið, samningum vegna fjármögnunar og auglýsa eftir forstöðumanni Háskólaseturs Vestfjarða og þannig undirbúa starfsemina sem hófst haustið 2005.

Halldór Halldórsson

formaður Háskólaseturs fyrstu 10 árin.

Næsta grein er um ráðningu forstöðumanns, húsnæðismálin og starfsemina fyrstu árin.

Nýjustu fréttir