Mánudagur 21. apríl 2025
Heim Blogg Síða 14

HVEST: skýrsla rannsóknarnefndar sjóslysa í athugun

Í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa sem birt var í síðustu viku kemur fram að á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hafi ekki verið talið hægt að taka á móti tveimur slösuðum sjómönnum af Sólborgu RE 27 þann 5. september 2024 um nóttina fyrr en kl 8 að morgni og var lagt til að lögreglan hýsti mennina til morguns. Því var hafnað og var mönnunum komið fyrir á herbergi í sjúkrahúsinu en enginn virtist vita af þeim um morguninn sbr, frétt í gær á bb.is.

Bæjarins besta innti Lúðvík Þorgeirsson, forstjóra HVEST um viðbrögð við skýrslunni.

„Við fengum þessa skýrslu nýlega og erum að fara yfir hana og alla verkferla.   Rannsóknarnefnd sjóslysa  óskar eftir útskýringum  sem við munum að sjálfsögðu útvega. En þurfum jafnframt frá þeim frekari útskýringar/upplýsingar sem við höfum þegar  óskað eftir.“

Lúðvík var ekki reiðubúinn að svo stöddu að svara því sem fram kemur í skýrslunni.

Auglýsing

Annasamur sólarhringur hjá áhöfninni á Verði II frá Patreksfirði

Áhöfnin á Verði II, björgunarskipi Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Patreksfirði, stóð í stöngu í gær.

Klukkan tvö aðfararnótt þriðjudags fór Vörður II með lóðs um borð til móts við flutningaskipið Grinna, en skipstjóri þess treysti sér ekki til að sigla skipinu inn án aðstoðar lóðs sökum veðurs.

Vera lóðs um borð varð þó ekki til hjálpar, og lónaði skipið fyrir utan Patreksfjarðarhöfn en Vörður hélt í land og var lagstur að bryggju upp úr þrjú í nótt.

Grinna komst svo að bryggju í morgun.

Rétt um hálfum sólarhring síðar var áhöfnin aftur kölluð út, núna vegna snurvoðarbáts í mynni Patreksfjarðar. Sá hafði fengið veiðarfæri í skrúfuna og komst hvergi.

Rétt fyrir klukkan fjögur síðdegis í gær var búið að koma taug á milli skipanna og stefnan sett inn til Patreksfjarðar þangað sem skipin voru væntanleg rétt upp úr klukkan fimm.

Myndir: Landsbjörg.

Auglýsing

Kvíslatunguvirkjun í Steingrímsfirði : sótt um virkjunarleyfi

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var af þessu tilefni eru, Sölvi R. Sólbergsson, framkvæmdastjóri orkusviðs, Gísli Jón Kristjánsson og Valgerður Árnadóttir, stjórnarmenn, Illugi Gunnarsson, stjórnarformaður, Unnar Hermannsson og Viktoría Rán Ólafsdóttir, stjórnarmenn, Daníel Örn Antonsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs og Elías Jónatansson, orkubússtjóri.

Á fundi stjórnar Orkubús Vestfjarða þ. 26 mars var tekin formleg ákvörðun um að sótt verði um virkjunarleyfi fyrir Kvíslatunguvirkjun í Steingrímsfirði svo hægt verði að ráðast í virkjunina.  Virkjunin hefur þegar farið í gegnum umhverfismat, en beðið er eftir endanlegri staðfestingu aðalskipulags Strandabyggðar.

Virkjunin fellur vel að þeim markmiðum stjórnar Orkubús Vestfjarða að tryggja næga orkuöflun félagsins innan Vestfjarða, auka afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum og gera félaginu kleift að taka þátt í grænum orkuskiptum á Vestfjörðum í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Kvíslatunguvirkjun hefur alla burði til að verða arðbært verkefni fyrir Orkubúið segir í tilkynningu frá Orkubúinu. Virkjunin mun hafa afgerandi áhrif á afhendingaröryggi rafmagns á Ströndum, á Reykhólum og í Inndjúpi, en reiknað er með að það aukist um allt að 90%. Virkjunin mun því draga mikið úr kostnaði við framleiðslu orku með díselvélum og minnka um leið losun gróðurhúsalofttegunda vegna keyrslu varaafls á því svæði.

Um er að ræða stærsta einstaka verkefni sem Orkubú Vestfjarða hefur ráðist í frá upphafi.  Áformað afl virkjunarinnar er 9,5 MW í byrjun og má gera ráð fyrir að hún framleiði um 60 GWst að meðaltali á ári, en mögulegt er að bæta við lítilli 0,4MW virkjun í þrepi á milli uppistöðulóna virkjunarinnar.  Virkjunin fylgir fast á hæla Mjólkárvirkjunar að stærð, en hún er stærsta virkjun Orkubúsins og samanstendur í rauninni af þremur virkjunum, Mjólká I, Mjólká II og Mjólká III, sem samtals eru 11,2 MW.

Áætlaður kostnaður við byggingu virkjunarinnar er ríflega 7 milljarðar króna.  Stefnt er að því að  hefja undirbúningsframkvæmdir í sumar, en aðal framkvæmdirnar verði á árinu 2026 og 2027.  Áætlanir gera ráð fyrir að virkjunin verði farin að framleiða raforku í árslok 2027.

Auglýsing

Fjölga á lottótölum úr 42 í 45

Bæta á þremur tölum við í Lottó þannig að leikurinn verði framvegis spilaður með 45 kúlum í staðinn fyrir 42. Breytingartillagan hefur verið lögð fram af dómsmálaráðuneytinu í Samráðsgátt stjórnvalda að beiðni Íslenskrar getspár.

Áfram verður leikurinn spilaður þannig að reynt er að giska á fimm aðaltölur og eina bónustölu.

Eftir að breytingin tekur gildi verður ólíklegra að spilarar hreppi allar fimm tölur réttar.

Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi eru líkurnar á að fá allar fimm aðaltölurnar réttar rúmlega 1 á móti 850 þúsund.

Þegar búið er að bæta við þremur kúlum verða líkurnar hins vegar rúmlega 1 á móti 1,2 milljón.

Tölunum í Lottó hefur verið fjölgað nokkrum sinnum í gegnum tíðina en fyrst var spilað með 32 tölum þegar Lottó hófst árið 1986.

Lengst af var leikurinn spilaður með 38 tölum en síðast var þeim fjölgað árið 2022 í 42.

Auglýsing

Lagafrumvarpi um hunda- og kattahald í fjölbýli

 Félags- og húsnæðismálaráðherra, mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús.

Frumvarpið felur í sér að samþykki annarra eigenda verður ekki lengur skilyrði fyrir því að einstaklingur megi halda hund eða kött í fjölbýli, jafnvel þótt íbúðir deili sameiginlegum stigagangi.

Frumvarpinu er þannig ætlað að liðka fyrir hunda- og kattahaldi fólks, óháð efnahag og búsetu, en gildandi reglur fjöleignarhúsalaganna hafa leitt til þess að íbúar fjöleignarhúsa hafa átt minni möguleika á slíku dýrahaldi en fólk sem býr í sérbýli. 

Húsfélög munu samkvæmt frumvarpinu geta sett reglur um gæludýrahald, svo lengi sem þær eru málefnalegar, eðlilegar og byggðar á jafnræði. Með þeim geta eigendur sammælst um nánara fyrirkomulag dýrahaldsins, svo sem um umgengni og afnot á einstökum hlutum sameignar. Slíkar reglur geta þó eðli máls samkvæmt ekki gengið svo langt að þær girði fyrir hunda- eða kattahald í fjölbýlishúsinu enda væri það andstætt markmiði laganna.

Áfram er gert ráð fyrir að húsfélög geti lagt bann við dýrahaldi ef dýrið veldur verulegum ama, ónæði eða truflunum og eigandi bregst ekki við áminningum húsfélagsins og ræður bót þar á. Þannig gæti til dæmis húsfélag bannað einstök tilvik dýrahalds ef ofnæmi væri á svo háu stigi að sambýli við dýrið yrði óbærilegt og ekki væri hægt að finna lausnir til að ráða bót þar á.

Auglýsing

Vörumessa Menntaskólans

Vörumessa Menntaskólans á Ísafirði verður haldin fimmtudaginn 3. apríl kl. 13:30 – 17:00 í húsnæði Vestfjarðastofu við Suðurgötu 12 Ísafirði.

Vörumessan er kynning á verkefnum nemenda sem þau hafa unnið í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun og er hún vettvangur fyrir unga frumkvöðla, fyrirtæki og samfélagið að þróa nýjar hugmyndir og lausnir á Vestfjörðum. 

Áhersla er á samstarfi við fyrirtæki/ráðgjafa á svæðinu og að nemendur vinni sjálfstætt að því að þróa nýsköpunarlausn. Verkefnið eykur færni þeirra til nýsköpunar, atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar og undirbýr nemendur þannig fyrir framtíðina. Nemendur kynna frumgerðir og verða þau með vörur til sölu.

Veittar verða viðurkenningar á vörumessunni í eftirfarandi flokkum:

  • Áhugaverðasti básinn – hönnun/útlit, uppstilling afurðar, framkoma nemenda
  • Bjartasta vonin – hvaða hugmynd er líklegust til að geta haldið áfram og þróast á svæðinu, hvatning til að halda áfram með verkefnið.
  • Grænasta hugmyndin – umhverfisáhrif, endurvinnsla og hagsýni í nýtingu efna.

Vörumessan er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða og eru allir velkomnir á sýninguna

Auglýsing

Raðhús rís á Hólmavík

Íbúðafélag Brák er að ljúka við byggingu á fjögurra íbúða raðhúsi á Hólmavík í Strandabyggð.

Byggingaraðilinn Búðingar ehf. hóf framkvæmdir við bygginguna í ágúst síðastliðinn. Húsið er byggt úr forsmíðuðum timbureiningum sem fluttar eru á verkstað og er framkvæmdartíminn því einungis tæplega 12 mánuðir.

Íbúðirnar eiga að fara í útleigu í byrjun sumars og eru þær ætlaðar fyrir tekju- og eignaminna fólk á vinnumarkaði.

Verkefnið fékk samþykkt stofnframlag í fyrstu úthlutun ársins 2023. Fjármögnun verkefnisins er unnin með stuðningi stofnframlaga ríkis og sveitarfélags ásamt leiguíbúðaláni frá HMS.

Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjuminni fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna.

Í dag eru 35 sveitarfélög um allt land sem eru aðilar að Brák og er félagið með rúmlega 300 íbúðir sem ýmist eru komnar í útleigu eða eru í undirbúningi.

Auglýsing

Ísafjarðarbær: veiðigjaldið getur ógnað stöðuleika byggðar

Frá Ísafjarðarhöfn á sjómannadaginn. Mynd: verkvest.is.

Ísafjarðarbær segir í umsögn sinni um frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda að sveitarfélagið sé ekki ósammála því að útgerðir greiði sanngjarnt afgjald fyrir notkun á auðlindum sjávar. Þá séu fyrirheit um stóraukna innviðauppbyggingu jákvæð. Bærinn setur þó stórt spurningamerki við þetta frumvarp.

Það sé óásættanlegt að engin gögn hafi verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög og umrædd breyting geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar.

„Sagan hefur sýnt að róttækar breytingar á atvinnuveginum geta haft slæm áhrif á byggðarlög á landsbyggðinni. Ísafjarðarbær telur tillöguna bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið og er Ísafjarðarbær engin undantekning þar. Sem dæmi þá er vægi sjávarútvegs í útsvarsgrunni Ísafjarðarbæjar 2024, fiskveiðar 9,1% og fiskvinnsla 11,9% byggt á gögnum Hagstofu Íslands.“

Umsögninni lýkur með þessum orðum:

„Ísafjarðarbær lítur svo á að hér sé enn annað gjald sem getur ógnað stöðugleika byggðar á landsbyggðinni, en nýlega hafa borist fréttir af því að innviðagjald á skemmtiferðaskip verði óbreytt sem hefur hlutfallslega mikil neikvæð áhrif á landsbyggðinni.“

Auglýsing

Gunnar Atli einn eigenda Landslaga

Lögmaðurinn Gunnar Atli Gunnarsson frá Ísafirði hefur gengið til liðs við eigendahóp Landslaga.

Gunnar Atli lauk meistaraprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2015. Hann öðlaðist réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi 2017 og útskrifaðist með LL.M gráðu frá University of California, Berkeley, í desember 2021. Hann hefur sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2021 og var skipaður aðjúnkt við deildina árið 2024. Gunnar Atli starfaði áður sem aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands.

Hann er jafnframt í stjórn Arctic Fish Holding AS (móðurfélag Arctic Fish). 

Auglýsing

Landsnet í Reykjavík

Frá ársfundinum, sem haldinn var í Hörpu. Mynd: Landsnet.

Tilkynnt var í gær um nýja stjórn Landsnets, fyrirtækis í eigu ríkisins sem annast flutning á raforku um landið. Allri stjórn fyrirtækisins var skipt út og nýir stjórnarmenn tóku sæti. Alls eru fimm stjórnarmenn og tveir til vara.

Athygli vekur af sjö nýjum stjórnar- og varastjórnamönnum eru sex þeirra búsettir á höfuðborgarsvæðinu, flestir í Reykjavík. Aðeins einn stjórnamanna er búsettur utan höfuðborgarsvæðisins. Það er Harpa Þ. Böðvarsdóttir sem er til heimilis í Þorlákshöfn.

Í tilkynningu Landsnets segir að stjórn Landsnets hafi verið valin „á grunni nýs verklags um val á einstaklingum til stjórnarsetu í fyrirtækjum sem eiga að tryggja að tilnefndir stjórnarmenn veljist á grundvelli hæfni, menntunar eða reynslu. Þar er líka kveðið á um að stjórnarmenn skulu vera óháðir fyrirtækinu og stjórnendum þess, séu hvorki starfsmenn fyrirtækisins né kjörnir fulltrúar á Alþingi eða í sveitarstjórnum.“

Auglýsing

Nýjustu fréttir