Laugardagur 19. apríl 2025
Heim Blogg Síða 14

Lagafrumvarpi um hunda- og kattahald í fjölbýli

 Félags- og húsnæðismálaráðherra, mælti í gær fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjöleignarhús.

Frumvarpið felur í sér að samþykki annarra eigenda verður ekki lengur skilyrði fyrir því að einstaklingur megi halda hund eða kött í fjölbýli, jafnvel þótt íbúðir deili sameiginlegum stigagangi.

Frumvarpinu er þannig ætlað að liðka fyrir hunda- og kattahaldi fólks, óháð efnahag og búsetu, en gildandi reglur fjöleignarhúsalaganna hafa leitt til þess að íbúar fjöleignarhúsa hafa átt minni möguleika á slíku dýrahaldi en fólk sem býr í sérbýli. 

Húsfélög munu samkvæmt frumvarpinu geta sett reglur um gæludýrahald, svo lengi sem þær eru málefnalegar, eðlilegar og byggðar á jafnræði. Með þeim geta eigendur sammælst um nánara fyrirkomulag dýrahaldsins, svo sem um umgengni og afnot á einstökum hlutum sameignar. Slíkar reglur geta þó eðli máls samkvæmt ekki gengið svo langt að þær girði fyrir hunda- eða kattahald í fjölbýlishúsinu enda væri það andstætt markmiði laganna.

Áfram er gert ráð fyrir að húsfélög geti lagt bann við dýrahaldi ef dýrið veldur verulegum ama, ónæði eða truflunum og eigandi bregst ekki við áminningum húsfélagsins og ræður bót þar á. Þannig gæti til dæmis húsfélag bannað einstök tilvik dýrahalds ef ofnæmi væri á svo háu stigi að sambýli við dýrið yrði óbærilegt og ekki væri hægt að finna lausnir til að ráða bót þar á.

Auglýsing

Vörumessa Menntaskólans

Vörumessa Menntaskólans á Ísafirði verður haldin fimmtudaginn 3. apríl kl. 13:30 – 17:00 í húsnæði Vestfjarðastofu við Suðurgötu 12 Ísafirði.

Vörumessan er kynning á verkefnum nemenda sem þau hafa unnið í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun og er hún vettvangur fyrir unga frumkvöðla, fyrirtæki og samfélagið að þróa nýjar hugmyndir og lausnir á Vestfjörðum. 

Áhersla er á samstarfi við fyrirtæki/ráðgjafa á svæðinu og að nemendur vinni sjálfstætt að því að þróa nýsköpunarlausn. Verkefnið eykur færni þeirra til nýsköpunar, atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar og undirbýr nemendur þannig fyrir framtíðina. Nemendur kynna frumgerðir og verða þau með vörur til sölu.

Veittar verða viðurkenningar á vörumessunni í eftirfarandi flokkum:

  • Áhugaverðasti básinn – hönnun/útlit, uppstilling afurðar, framkoma nemenda
  • Bjartasta vonin – hvaða hugmynd er líklegust til að geta haldið áfram og þróast á svæðinu, hvatning til að halda áfram með verkefnið.
  • Grænasta hugmyndin – umhverfisáhrif, endurvinnsla og hagsýni í nýtingu efna.

Vörumessan er styrkt af Uppbyggingasjóði Vestfjarða og eru allir velkomnir á sýninguna

Auglýsing

Raðhús rís á Hólmavík

Íbúðafélag Brák er að ljúka við byggingu á fjögurra íbúða raðhúsi á Hólmavík í Strandabyggð.

Byggingaraðilinn Búðingar ehf. hóf framkvæmdir við bygginguna í ágúst síðastliðinn. Húsið er byggt úr forsmíðuðum timbureiningum sem fluttar eru á verkstað og er framkvæmdartíminn því einungis tæplega 12 mánuðir.

Íbúðirnar eiga að fara í útleigu í byrjun sumars og eru þær ætlaðar fyrir tekju- og eignaminna fólk á vinnumarkaði.

Verkefnið fékk samþykkt stofnframlag í fyrstu úthlutun ársins 2023. Fjármögnun verkefnisins er unnin með stuðningi stofnframlaga ríkis og sveitarfélags ásamt leiguíbúðaláni frá HMS.

Brák er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjuminni fjölskyldum aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna.

Í dag eru 35 sveitarfélög um allt land sem eru aðilar að Brák og er félagið með rúmlega 300 íbúðir sem ýmist eru komnar í útleigu eða eru í undirbúningi.

Auglýsing

Ísafjarðarbær: veiðigjaldið getur ógnað stöðuleika byggðar

Frá Ísafjarðarhöfn á sjómannadaginn. Mynd: verkvest.is.

Ísafjarðarbær segir í umsögn sinni um frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda að sveitarfélagið sé ekki ósammála því að útgerðir greiði sanngjarnt afgjald fyrir notkun á auðlindum sjávar. Þá séu fyrirheit um stóraukna innviðauppbyggingu jákvæð. Bærinn setur þó stórt spurningamerki við þetta frumvarp.

Það sé óásættanlegt að engin gögn hafi verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög og umrædd breyting geti haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar.

„Sagan hefur sýnt að róttækar breytingar á atvinnuveginum geta haft slæm áhrif á byggðarlög á landsbyggðinni. Ísafjarðarbær telur tillöguna bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið og er Ísafjarðarbær engin undantekning þar. Sem dæmi þá er vægi sjávarútvegs í útsvarsgrunni Ísafjarðarbæjar 2024, fiskveiðar 9,1% og fiskvinnsla 11,9% byggt á gögnum Hagstofu Íslands.“

Umsögninni lýkur með þessum orðum:

„Ísafjarðarbær lítur svo á að hér sé enn annað gjald sem getur ógnað stöðugleika byggðar á landsbyggðinni, en nýlega hafa borist fréttir af því að innviðagjald á skemmtiferðaskip verði óbreytt sem hefur hlutfallslega mikil neikvæð áhrif á landsbyggðinni.“

Auglýsing

Gunnar Atli einn eigenda Landslaga

Lögmaðurinn Gunnar Atli Gunnarsson frá Ísafirði hefur gengið til liðs við eigendahóp Landslaga.

Gunnar Atli lauk meistaraprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2015. Hann öðlaðist réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómi 2017 og útskrifaðist með LL.M gráðu frá University of California, Berkeley, í desember 2021. Hann hefur sinnt kennslu við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2021 og var skipaður aðjúnkt við deildina árið 2024. Gunnar Atli starfaði áður sem aðstoðarmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt Íslands.

Hann er jafnframt í stjórn Arctic Fish Holding AS (móðurfélag Arctic Fish). 

Auglýsing

Landsnet í Reykjavík

Frá ársfundinum, sem haldinn var í Hörpu. Mynd: Landsnet.

Tilkynnt var í gær um nýja stjórn Landsnets, fyrirtækis í eigu ríkisins sem annast flutning á raforku um landið. Allri stjórn fyrirtækisins var skipt út og nýir stjórnarmenn tóku sæti. Alls eru fimm stjórnarmenn og tveir til vara.

Athygli vekur af sjö nýjum stjórnar- og varastjórnamönnum eru sex þeirra búsettir á höfuðborgarsvæðinu, flestir í Reykjavík. Aðeins einn stjórnamanna er búsettur utan höfuðborgarsvæðisins. Það er Harpa Þ. Böðvarsdóttir sem er til heimilis í Þorlákshöfn.

Í tilkynningu Landsnets segir að stjórn Landsnets hafi verið valin „á grunni nýs verklags um val á einstaklingum til stjórnarsetu í fyrirtækjum sem eiga að tryggja að tilnefndir stjórnarmenn veljist á grundvelli hæfni, menntunar eða reynslu. Þar er líka kveðið á um að stjórnarmenn skulu vera óháðir fyrirtækinu og stjórnendum þess, séu hvorki starfsmenn fyrirtækisins né kjörnir fulltrúar á Alþingi eða í sveitarstjórnum.“

Auglýsing

Sjúkrahúsið á Ísafirði: ekki hægt að taka á móti slösuðum sjómönnum fyrir kl 8 að morgni

Fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa að þau svör fengust á sjúkrahúsinu á Ísafirði að ekki væri hægt að taka á móti slösuðum sjómönnum fyrr en kl 8 að morgni. Tveir slasaðir sjómenn af Sólborgu RE 27 voru þó fluttir þangað þann 5. september 2024. Mbl.is vekur athygli á þessu í morgun.

„Hinn meira slasaði var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði með sjúkrabílnum en sá sem var minna slasaður var keyrður af lögreglu á sjúkrahúsið. Þegar þangað kom taldi sá er var á vakt á sjúkrahúsinu sig ekki geta skráð þá inn og lagði til að lögreglan hýsti mennina til morguns sem lögreglan hafnaði. Mönnunum var því komið fyrir í herbergi á sjúkrahúsinu með tveimur rúmum og fengu þeir að vera þar til morguns. Um morguninn kom enginn að vitja þeirra og að lokum fór sá sem var minna slasaður fram og kom þá í ljós að það vissi enginn af þeim.“

Í skýrslunni er í lokin sú tillaga að

„Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir því til Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða að komið sé á verklagi sem tryggir að sjómenn sem þangað þurfa að leita á öllum tímum sólarhrings fái tilskylda umönnun.“

Auglýsing

Fjármálaáætlun: ekkert fé í jarðgöng

Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra kynnir fjármálaáætlunina.

Ekki er gert ráð fyrir neinu fé úr ríkissjóði til þess að gera jarðgöng í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026 – 2030 sem kynnt var í gær. Í sérstakri umfjöllun um nýjar leiðir til fjármögnunar til að flýta samgönguframkvæmdum segir að vegna þröngrar stöðu ríkisfjármála liggi fyrir að afar takmarkað svigrúm verði til að ráðast í slíkar stórframkvæmdir á næstu árum á grundvelli beinna framlaga úr ríkissjóði samkvæmt samgönguáætlun.
Þá segir :“Ef rjúfa á þá kyrrstöðu sem ríkt hefur í jarðgangagerð hér á landi, eins og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, er því mikilvægt að leita nýrra leiða til að fjármögnunar sem einnig gætu nýst til að flýta öðrum mikilvægum samgönguverkefnum.“

Til greina komi að fylgja fyrirmynd nágrannalandanna sem sum hafa stofnað sérstakt innviðafélag eða ríkisaðila sem sér um fjármögnun stærri samgönguframkvæmda, s.s. vegna jarðganga og sambærilegra flýtiframkvæmda.

Innviðafélag um samgönguframkvæmdir

Þessi hugmynd er skýrð frekar á þennan hátt:

„Slíkum aðila mætti leggja til eigið fé frá ríkinu, t.a.m. í formi fyrirliggjandi samgönguinnviða til að búa til tekjustreymi sem nýtt yrði til að ráðast í arðsamar nýframkvæmdir og uppfærslu á eldri innviðum. Mögulegt væri að veita slíkum aðila heimildir til lántöku, þar sem framtíðartekjustreymi af samgönguinnviðum yrði veðsett til að fjármagna arðbærar fjárfestingar í nýjum samgönguinnviðum en þó þannig að það valdi ekki óásættanlegri áhættu fyrir ríkissjóð. Þannig mætti t.a.m. hvetja til aukinnar aðkomu lífeyris sjóða og annarra fjárfestingarsjóða að innviðafjárfestingum.“

Boðuð er skoðun á lögum um samvinnuverkefni eða samstarfi milli ríkis, lífeyrissjóða og einkaaðila við innviðauppbyggingu. Meginmarkmiðið með samvinnuverkefnum væri að flýta fjárhagslega sjálfbærum framkvæmdum með aðkomu einkaaðila ásamt því að yfirfæra áhættu af byggingu og rekstri slíkra fjárfestinga frá ríkinu.

Ýmist myndi umferðin greiða allan kostnað við framkvæmdina eða viðhafa blandaða fjármögnunarleið með „skuggagjöldum“ frá ríkinu sem miðast við tiltekna lágmarksumferð eða fastar reiðugreiðslur til að einkaaðili sé reiðubúinn að taka þá áhættu sem felst í því að byggja og reka mannvirkið yfir tiltekinn tíma.
Væri ráðist í stofnun félags um stærri samgönguframkvæmdir væri um að ræða mikla breytingu á utanumhaldi um slíkar framkvæmdir.

Í lok umfjöllunar um samgönguframkvæmdir í fjármálaáætluninni segir að mikilvægt sé að víðtæk umræða eigi sér stað um þessar hugmyndir með samráði á vettvangi stjórnmálanna. Fram kom í máli ráðherra að vonast væri til þess að niðurstaða liggi fyrir um þessa leið fyrir lok yfirstandandi árs.

Auglýsing

Vesturbyggð: óska eftir tilnefningum til bæjarlistamanns 2025

Birta Ósmann Þórhallsdóttir og Valgerður María Þorsteinsdóttir við afhendingu verðlaunanna í fyrra. Mynd: Vesturbyggð.

Vesturbyggð hefur óskað eftir tilnefn­ingum til bæjarlista­manns Vest­ur­byggðar árið 2025. Frestur til að senda inn tillögu er til mánu­dagsins 5. maí næst­kom­andi.

Viðurkenningin verður afhent þann 17. júní næstkomandi. Henni er ætlað að koma verkum bæjarlistamannsins á framfæri og upphefja hans góðu störf í þágu listarinnar í bæjarfélaginu. Hún var fyrst veitt Rannveigu Haraldsdóttur árið 2021, síðan Signýju Sverrisdóttur árið 2022, Guðnýju Gígju Skjaldardóttur árið 2023, og síðast Birtu Ósmann Þórhallsdóttur árið 2024 en það var í fyrsta skipti sem verðlaunin voru veitt í sameinuðu sveitarfélagi.

Allir geta sent inn tilnefningar og tilnefna má listamenn úr öllum listgreinum, til dæmis hannyrðum, myndlist, útskurði, ritlist, leiklist, tónlist eða öðru. Tilnefningum má gjarnan fylgja rökstuðningur og upplýsingar um störf listamannsins en ekki er gerð krafa um slíkt.

Sérstök valnefnd mun velja hver hlýtur viðurkenninguna. Hún mun hafa innsendar tillögur til hliðsjónar við valið en er heimilt að veita viðurkenninguna listamanni sem var ekki tilnefndur.

Tilnefningar og ábendingar berist í tölvupósti til Valgerðar Maríu Þorsteinsdóttur, menningarfulltrúa, á netfangið muggsstofa@vesturbyggd.is.

Auglýsing

Strandveiði: endurvigtun verði hætt

Frá löndun úr strandveiðibát í Patrekshöfn. Mynd: Patrekshöfn.

Í gær voru kynnt í samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerðarbreytingu um vigtun og skráningu á sjávarafla. Lagt er til að aflaskráningu strandveiðibáta verði lokið á hafnarvog.

Í kynningu atvinnuvegaráðuneytisins segir að með þeirri breytingu muni endurvigtunum fækka um þúsundir árlega með minni líkum á mistökum við innslátt upplýsingum. Þá muni breytingin einnig draga verulega úr möguleikum á rangri skráningu á ís í afla.

Breytingin er eftirfarandi: Á eftir 3. mgr. 11. gr kemur ný málsgrein svohljóðandi:

„Allan strandveiðiafla skal vigta á hafnarvog. Vigtarmaður skal draga 3% frá vegnum afla vegna áætlaðs íss í afla eftir að hafa gengið úr skugga um að aflinn sé ísaður“.

Rúmlega helmingur allra landana dagróðrabáta kemur frá strandveiðiflotanum og segir ráðuneytið að í framhaldi af reynslu af breytingunni verði skoðað hvort ástæða sé til að ljúka allri vigtun dagróðrabáta á hafnarvog við löndun.

„Breytingin er mikilvægt skref til að auka traust, trúverðugleika og öryggi í fiskveiðistjórnun og muni stuðla að hagkvæmari ferlum við skráningu sjávarafla“ segir í greinargerð ráðuneytisins með breytingartillögunni.

Auglýsing

Nýjustu fréttir