Fimmtudagur 10. apríl 2025
Heim Blogg Síða 14

Lionsklúbbur Patreksfjarðar styrkir björgunarbátakaup um 7 m.kr.

Meðfylgjandi myndir eru frá afhendingu styrksins og undirritun samnings um framlagið. Frá vinstri Óskar Leifur Arnarsson, gjaldkeri LP, Stefán Jón Pétursson f.h. Björgunarbátasjóðsins og Gísli Már Gíslason formaður LP.

Á síðasta fundi Lionsklúbbs Patreksfjarðar var samþykkt að styrkja Björgunarbátasjóð Vestur-Barðastrandasýslu um samtals 7 millljón króna til kaupa á nýju björgunarskipi fyrir svæðið.

Mikil samstaða hefur myndast á svæðinu um að afla fjár til þess að greiða hlut heimamanna í nýju björgunarskipi Landsbjargar sem mun koma á næsta ári. Það mun kosta um 340 m.kr. og er hlutur heimamanna fjórðungur þess eða 85 m.kr. Það er Björgunarbátasjóður V- Barðastrandarsýslu sem stendur að kaupunum fyrir hönd heimamanna.

Oddi hf hefur lagt fram 30 m.kr. og bæjarsjóður mun greiða 20 m.kr. Slysavarnadeildin Unnur veitti 10 m.kr. styrk. Strandveiðisjóðmenn söfnuðu 25 m.kr. Þá hafa ýmis fyrirtæki lagt fram myndarlegar upphæðir.

Auglýsing

Hverfisráð Þingeyrar: innsiglingarviti virkar ekki

Frá framkvæmdum Ísafjarðarbæjar á Þingeyri á síðasta sumri. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hverfisráð Þingeyrar hittist fyrr í mánuðinum og fór yfir ýmis mál sem varða íbúana. Þar eru nefnd allmörg mál sem ráðið bendir á að betur megi fara og kallar á Ísafjarðarbæ að bregðast við.

Eitt er að ekkert ljós er á innsiglingarvitanum á Þingeyri.

Í fundargerð stendur: „Innsiglingarvitinn virkar ekki og hefur ekki virkað frá því framkvæmdir hófust við hreinsivirki/dælustöð s.l. haust. Trúlega hefur rafmagnsstrengur verið rofinn að vitanum en á honum hefur ekki logað eftir að framkvæmdir hófust þarna niður á Oddanum, og er það mjög bagalegt þar sem þetta er innsiglingar viti við Þingeyri. Haft hefur verið samband nokkrum sinnum yfir á Ísafjörð en ekkert bólar enn á ljósi.“

Flýtur yfir hafnarkantinn

Annað er að á stórstreymi flýtur sjórinn yfir veginn út á bryggjuna þar sem bátar Arctic Fish og Egill IS 77 liggja venjulega við.

Íbúaráðið bókaði: „Algjörlega óásættanlegt að fá ekki fjármagn til að laga svona hluti, ekki síst þar sem við búum í firði sem gefur miljarða af sér og við fáum lítið sem ekkert af þeim peningum í hlutfalli við það, í innviði samfélagsins.“

Grenndargámar of dýrir

Rætt var um grenndargáma / grenndarstöð. Íbúaráðið segir að kostnaðurinn við grenndarstöðina sé alltof hár á hvert heimili hér í bæ og spyr: „Væri ekki hægt að nota bílinn sem kemur hér 2x – 3x í viku til að tæma grenndargámana ? Þessi rusla mál þarf virkilega að endurskoða… í Vesturbyggð fer allt í sama gáminn.“

Gangstéttir á slæmu ástandi

Um úttekt á ástandi gangstétta segir íbúaráðið: „Okkur finnst þetta ansi undarleg úttekt á gangstéttum hér í bæ. Gangstéttir sem sagðar eru í lagi eru í mjög slæmu ástandi. Gott væri að fá einhvern frá Ísafjarðarbæ til að koma og fara yfir ástand gangstéttana með t.d. Karli Bjarnasyni stjórnamanni í Hverfisráðinu en hann þekkir ástand gangstéttanna hér mjög vel.“

Auglýsing

Ísafjörður: Skíðavikustjóri kallar eftir viðburðum

Ragnar Heiðar Sigtryggsson skíðavikustjóri er farinn að huga að skíðavikunni sem framundan er. Hann minnir stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga sem hafa hug á því að halda viðburði í skíðavikunni á að gera vart við sig.

„Nú styttist í þessa yndislegu viku okkar og til að gera Skíðavikuna sem allra glæsilegasta leitum við til ykkar eins og áður með að fá upplýsingar um þá viðburði sem þið hafið hug á að halda. Viðburðadagatalið verður aðgengilegt á skidavikan.is og ásamt því að við hvetjum alla til að setja upp facebook viðburði (þeir sem ekki treysta sér í það, mega hafa samband við Ragnar og fá aðstoð við það).“
Hægt er að senda inn upplýsingar á netfangið skidavikan@isafjordur.is og þarf þá að hafa nafn á viðburðinum, staðsetningu, stutta lýsingu, hlekk á facebook viðburð og mynd til að setja með viðburðinum, svo er dagsetning ekki af verri endanum.

Skíðafleyting.

Auglýsing

Skólakynningar í Menntaskólanum á Ísafirði

Frá háskóladeginum í fyrra. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Á föstudaginn 28. mars verða skólakynningar í MÍ. Menntaskólinn á Ísafirði, Háskóli Íslands, Háskólinn á Hólum, Háskólasetur Vestfjarða, Lýðskólinn á Flateyri og AFS munu þá kynna starfsemi sína í Gryfjunni. Kynningarnar standa yfir frá kl. 12:30-14:00.

Allir velkomnir.

Mikill fjöldi gesta kom í fyrra á háskóladeginum í M.Í. og höfðu skólarnir lagt metnað sinn í kynna sem best starfsemi sína og námsleiðir sem til boða standa.

Auglýsing

TF-SIF komin heim

Áhöfnin á TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, kom til landsins á dögunum eftir að hafa annast landamæragæslu á vegum Frontex við Miðjarðarhaf.

Vélin mun næstu mánuði vakta hafsvæðið umhverfis Ísland.

TF-SIF, eftirlits- og björgunarflugvél Landhelgisgæslu Íslands er af gerðinni Dash 8 Q 300 og er flugvélin sérhönnuð til eftirlits-, leitar-, björgunar- og sjúkraflugs á Norður-Atlantshafi. Vélin er smíðuð af Bombardier en Field Aviation í Kanada annaðist hönnun og ísetningu tækjabúnaðar ásamt undirverktökum. Um eitt ár tók að útbúa vélina sérstaklega fyrir þau verkefni sem henni er ætlað að leysa af hendi. Við framleiðslu vélarinnar var áhersla lögð á draga úr hávaða og titringi jafnt innan sem utan flugvélarinnar. Vélar af tegundinni Dash 8 Q300 eru þekktar fyrir að geta athafnað sig á mjög stuttum flugbrautum, ennfremur þola þær talsverðan hliðarvind eða um 36 hnúta.

Flugdrægi vélarinnar er um 2100 sjómílur auk 45 mínútna varaeldsneytis. Með flugvélinni margfaldast eftirlitsgeta Landhelgisgæslu Íslands bæði með tilliti til mengunar, fiskveiða og hafíss. Möguleikar til leitar- og björgunar munu aukast gríðarlega, sérstaklega á hafi úti en einnig á landi.Um borð eru tvær vinnustöðvar sem útbúnar eru fullkomnu MMS (Mission Management System) sem m.a. aðstoðar við framkvæmd eftirlits, úrvinnslu og samhæfingar þeirra gagna sem safnað er, þ.e. í almennu fiskveiði-, ís- og mengunareftirliti. Um borð er hugbúnaður til að greina myndir og gagnagrunnur með skipum sem býður upp á þann möguleika að mæla lengdir skipa og flatarmál mengunar úr nokkurri fjarlægð. Hægt er að færa allar upplýsingar rafrænt á milli skjáa og vinnustöðva. Allar aðgerðir og upplýsingar úr eftirlitsbúnaði eru teknar upp og hægt er að framkvæma myndvinnslu samhliða upptöku.

Auglýsing

Frístundastyrkur upp í æfingargjöld

Stjórnsýsluhúsið Ísafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á dögunum að taka upp frístundastyrk fyrir börn í 5.–10. bekk í grunnskóla, sem eru með lögheimili í Ísafjarðarbæ.

Foreldrar eiga því að geta farið inn á Abler þegar greiða á æfingargjöld og valið að ráðstafa frístundastyrk Ísafjarðarbæjar upp í gjöldin.

Markmið styrksins er að tryggja jöfnuð, auka fjölbreytni í íþrótta-, lista- og tómstundastarfi og styðja við þroska barna og unglinga. Einnig að hvetja til meiri hreyfingar, félagslegra samskipta og hjálpa til við að koma í veg fyrir að börn og unglingar hætti í tómstundum.

Auglýsing

Háskólasetrið hlýtur styrk fyrir frá NordForsk

Háskólasetur Vestfjarða (HV) hefur hlotið styrk frá NordForsk fyrir verkefnið „LostToClimate“, sem mun rannsaka óhjákvæmileg tjón, önnur en efnahagsleg, sem samfélög á Norðurslóðum verða fyrir vegna loftslagsbreytinga. Þetta samstarfsverkefni sameinar vísindamenn og samfélög í Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Íslandi, Grænlandi, Kanada og Bandaríkjunum, þar á meðal nokkur samfélög frumbyggja, til að skapa nýja þekkingu sem getur stutt við aðlögun í framtíðinni.

Matthias Kokorsch, fagstjóri meistaranámsins í Sjávarbyggðafræði, sótti um og tók við styrknum fyrir hönd HV og verður verkefnastjóri verkefnisins á Íslandi.

Ljóst er að það var mikil samkeppni en af um 200 umsóknum sem bárust NordForsk hlutu aðeins níu verkefni styrk, þar af tvö sem HV tekur þátt í. NordForsk hefur úthlutað samtals meira en 330 milljónum norskra króna til þessara 9 verkefna sem fjárfestingar í Norðurslóðum. „LostToClimate“ verkefnið mun standa yfir í 4 ár og lýkur árið 2029.

Frekari upplýsingar um LostToClimate verkefnið má finna á síðu NordForsk.

Auglýsing

Ríkisstjórnin: veiðigjald í þorski verði svipað og er á eldislaxi

Hanna Katrín Fridriksson, atvinnuvegaráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra kynntu frumvarpsdrögin.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um veiðigjöld hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Í frumvarpinu er mælt fyrir um breytingar sem munu auka tekjur ríkissjóðs verði frumvarpið að lögum. Áætlað er að þá muni tekjur af veiðigjaldi uppsjávartegunda hækka um 3–4 milljarða kr. árlega og veiðigjald í þorski og ýsu hækka um 5–6 milljarða kr. árlega miðað við óbreytt aflamagn. Samtals er áætluð hækkun 8 – 10 milljarðar króna á ári.

Samkvæmt töflu 15 í frumvarpsdrögunum er áætlað að innheimt veiðigjald verði 17 – 19 milljarðar króna á ári frá og með næsta ári 2026 fram til 2030. Er þetta nærri tvöföldun á innheimtu veiðigjaldi frá því sem verið hefur.

Veiðigjald þorsks verði 45,59 kr/kg – eldislax er 45,03 kr/kg

Birt er tafla um fjárhæð hvert veiðigjald á þorski og ýsu hefði verið á árunum 2023 til 2025 miðað við reglur frumvarpsins. Veiðigjald í þorski sem er 28,68 kr/kg í ár myndi vera 45,59 kr/kg ef frumvarpið væri orðið að lögum. Hækkunin er um 71%. Til samanburðar þá er fiskeldisgjaldið í ár af frjóum eldislaxi 45,03 kr/kg. Það var á síðasta ári 30,77 kr/kg og hækkað um 46% milli ára. Hækkun fiskeldisgjaldsins frá 2023 er enn meiri eða 146% en það var þá 18,33 kr/kg.

Auglýsing

Fyrsta leiðangri Þórunnar Þórðardóttur lokið

Þórunn Þórðardóttir var við rannsóknir út af Vestfjörðum og fyrir norðan land.

Þórunn Þórðardóttir HF 300, nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, kom til hafnar í Hafnarfirði á sunnudag eftir að það lauk sínum fyrsta leiðangri.

Þórunn var hluti af verkefninu Stofnmæling botnfiska á Íslandsmiðum. Þrjú önnur skip tóku þátt í verkefninu, togararnir Breki og Þórunn Sveinsdóttir og rannsóknaskipið Árni Friðriksson. Um borð í þessum fjórum skipum unnu 32 rannsóknamenn og um 70 áhafnarmeðlimir. Togað var á 580 stöðvum á 20-500 m dýpi umhverfis landið.

Verkefnið er mjög viðfangsmikið og eitt af stærstu verkefnum Hafrannsóknastofnunar. Gögnum sem safnað er gegna lykilhlutverki í stofnmati og veiðiráðgjöf fyrir flestar íslenskar botnfisktegundir. Gögnin eru einnig mikilvæg fyrir ýmiskonar vistfræðirannsóknir. Í verkefninu er gögnum safnað um fiska sem flokkast ekki sem nytjategundir og eru þau notuð til að skoða breytingar í tegundafjölbreytileika, m.a. með tilliti til breytinga í hitastigi sjávar.

Skoðað hefur verið í maga þorskfiska í fjöldamörg ár og metinn breytileiki í fæðu eftir svæðum og árum. Í leiðangrinum er einnig safnað sýnum vegna ýmissa annara rannsókna, t.d. á mengunarefnum í sjávarfangi og mat lagt á magn rusls á sjávarbotni.

Auk þess var botndýrum sem fást sem meðafli safnað á nokkrum stöðvum um borð í Þórunni Þórðardóttur til að fylgjast með lífmassa, fjölbreytileika og útbreiðslu botndýra við Ísland.

Auglýsing

Einar Guðnason ÍS : farinn aftur á sjó

Einar Guðnason ÍS við bryggju á Ísafirði í gær. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Eiinar Guðnason ÍS frá Suðureyri var dreginn til lands í gær vegna bilunar. Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri Íslandssögu sagði í samtali við Bæjarins besta að bilunin sem varð hafi verið alvarleg en við athugun minni háttar. Fæðuhringur fyrir glussa á stýri bátsins bilaði og erfitt að bregðast við því út á sjó. Því varð að draga bátinn til hafnar og Gísli Jóns var fenginn til þess.

Að sögn Óðins var fljótgert að gera við og er báturinn aftur farinn á sjó.

frá aðgerðum í gær. Mynd: Landsbjörg.

Auglýsing

Nýjustu fréttir