Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 139

Leikhúspáskar í Haukadal

Frá sýningu á lifið er lotterí. Frá vinstri: Elfar Logi, Dagný og Guðmundur. Mynd: aðsend.

Páskahátíðin er sannkölluð listahátíð í Ísafjarðarbæ. Rokk og ról á Ísafirði og í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal í Dýrafirði verða haldnir sérstakir leikhúspáskar. Sýndar verða tvær vinsælar sýningar. Hefst leikhúsgleðin á skírdag fimmtudaginn 28. apríl kl. 17.00 með sýningu á hinni vinsælu leik- og söngskemmtun Lífið er lotterí. Hér er á ferðinni skemmtun þar sem listaskáldinu Jónasi Árnasyni eru gerð skil í tónum, söng og tali. Það eru þau Dagný Hermannsdóttir og Guðmundur Hjaltason er flytja söngtexta Jónasar mörg hver við lög hans bróður Jóns Múla. Elfar Logi stígur einnig á stokk og segir frá skáldinu Jónasi, sko Árnasyni. Lífið er lotterí var frumsýnt síðasta haust í Kómedíuleikhúsinu og hefur fengið afar góðar viðtökur enda er hér á ferðinni ósvikin skemmtan þar sem allir geta tekið undir og þá ekki bara í viðlaginu. Lífið er sannarlega lotterí í Haukadal í Dýrafirði á páskum.

Á hinum langa föstudegi 29. apríl verður svo á fjölum Kómedíuleikhússins í Haukadal vinsælasta ævintýri allra tíma Dimmalimm eftir Bílddælinginn Mugg. Dimmalimm er einstaklega falleg og ævintýraleg brúðusýning sem hefur notið fádæma vinsælda og verið sýnd um land allt í mörg, mörg ár.

Miðasala á báðar sýningarnar er í síma 891 7025. Einnig er hægt að kaupa miða á midix.is

Tónlistarhátíðin Við Djúpið: Vetrarferð Franz Schuberts

Þýska kammersveitin Orchester im Treppenhaus.

Dagskrá tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið á Ísafirði er tilbúin. Hátíðin hefst mánudaginn 17. júní með opnunartónleikum í Hömrum og lýkur föstudagskvöldið 21. júní með tónleikum bæði á Dokkunni og í Hömrum.

Líklega má telja hápunktinn verða fimmtudaginn 20. júní með flutningi á Vetrarferð Franz Schuberts.

Í kynningu segir að verkið sé án efa hornsteinn í tónbókmenntunum og sjálfsagt frægasti söngvasveigur allra tíma. Inntak verksins – ljóðanna og tónlistarinnar –, flakk, löngun, missir og hið óþekkta varð Thomas Posth og Fynn Großmann innblástur til að skrifa nýa hljómsveitarútsetningu á verkinu fyrir þýsku kammersveitina Orchester im Treppenhaus.

Á tónleikunum frumflytur þýska kammersveitin Orchester im Treppenhaus undir stjórn Thomas Posth Vetrarferðina í þessari nýju útsetningu á Íslandi. Það kemur í hlut Ísfirðingsins Herdísar Önnu Jónasdóttur, sópran, að tjá hlutverk förumannsins en þó er brugðið á það ráð að þeim hluta er lýsa hinum ást förusveinsins með beinum hætti til konu er skipt út fyrir hljómsveitarparta eða þýðingu á önnur tungumál eins og arabísku og japönsku sem breyta sjónarhorni verksins lítið eitt. Útsetningin er fyrir 11 manna hljómsveit; strengi, bassaklarínett, rafmagnsgítar, harmoniku, sög og slagverk svo eitthvað sé nefnt.

Bíldudalur: auglýsa nýja deiliskipulagstillögu fyrir skóla og íþróttir

Frá Bíldudal. Íþróttamiðstöðin Bylta blasir við. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Skipulags- og umhverfisráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi fyrir skóla, íþrótta- og þjónustusvæði á Bíldudal. Meginmarkmið deiliskipulagsins er að skilgreina lóð fyrir nýjan grunn- og leikskóla á Bíldudal ásamt því að búa til heildstætt skóla-, íþrótta- og þjónustusvæði.

Vegna íbúafjögunar síðustu 10 ára á Bíldudal er aukin þörf fyrir leikskóla- og grunskólaplássi í byggðarlaginu. Íbúar voru 177 árið 2013 en voru 278 í fyrra 2023. Fjölgunin nemur 57% á aðeins áratug.

Í skipulagstillögunni er gert ráð fyrir nýrri byggingu fyrir leikskóla og grunnskóla við Hafnargötu og að tjaldsvæðið verði fært.

Á reitnum B er fyrirhuguð skólabygging. Reiturinn er 4376 fermetrar að stærð og er byggingin 800 fermetrar á einni hæð. Á reitnum A er núverandi íþróttamiðstöð.

Í greinargerð segir að umhverfisáhrif tillögunnar séu jákvæð að því leiti að sameina eigi leikskólann og grunnskólann. Verið sé að bregðast við aukna þörf sem leiði af íbúafjölgun.

Strandasýsla: binda vonir við virkjanir og strandveiðar

Út er komin skýrsla sem unnin var á vegum þriggja landshlutasamtaka, þar á meðal Fjórðungssambands Vestfjarða, um leiðir til að styrkja byggð í sex fámennum sveitarfélögum. Þar á meðal eru fjögur sveitarfélög á Vestfjörðum, Reykhólahreppur, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur og Strandabyggð.

Skýrsluhöfundar benda á tækifæri sem þeir sjá í sveitarfélögunum og geti hindrað að þjónustustig lækki. Í Strandasýslu er bent á Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði sem er að komast á framkvæmdastig og Kvíslartunguvirkjun í Steingrímsfirði sem er á athugunarstigi. Í desember 2023 fannst heitt vatn á Drangsnesi í Kaldrananeshreppi sem gæti þrefaldað getu hitaveitunnar þar. Í desember 2023 hóf Orkubú Vestfjarða borun eftir heitu vatni á Gálmaströnd við Steingrímsfjörð.

Um áhrif strandveiðar segir í skýrslunni:

„Strandveiðar skipta miklu fyrir minnstu hreppana, Árneshrepp (47 íbúar) og Kaldrananeshrepp (116 íbúar). Sátt um hlutdeild strandveiða í heildarafla yrði lyftistöng fyrir byggðarlögin. Árið 2023 nam afli strandveiðibáta 4,8% af heildarafla þorsks. Þótt veiðarnar standi aðeins skamman tíma ár hvert hindra þær að þjónustustig lækki svo í byggðarlögum að fólk kjósi að flytja alfarið þaðan.“

Kræklingarækt

Þá leggja skýrsluhöfundar til að unnið verði að ræktun á kræklingalirfum sem festar verði á reipi í Króksfirði í Reykhólahreppi og Steingrímsfirði eftir að lirfurnar hafa dafnað og þroskast í þrjá mánuði í
ræktunarstöð á landi við bestu skilyrði. Í sjónum stækkar skelin og verður að endanlegri vöru rúmu ári síðar.

Vísað er til þess að kræklingarækt er sjálfbært, vistvænt sjávareldi og að FAO spáir því að spurn eftir kræklingi vaxi áfram og eldi á honum verði æ mikilvægara til að bregðast við aukinni neyslu um heim allan.

Þörungarækt

Loks er lagt til að búa í haginn fyrir þörungavinnslu á þeim stöðum þar sem hún er talin hagkvæmust. Í því skyni verði gott orðspor þörungavinnslunnar á Reykhólum nýtt til að laða að vísindamenn og fjárfesta.

Nýjustu tölur um verðmæti þörungavinnslu í heiminum í Global Algae Market Report 2023- 2027 gera ráð fyrir að árið 2027 verði verðmæti heimsmarkaðs þörunga um 6,8 milljarðar dollara.

Ísafjarðarbær setur sér málstefnu

Fyrir fund bæjrstjórnar á morgun, fimmtudaginn 21. mars liggur tillaga að málstefnu fyrir sveitarfélagið sem bæjarráðið hefur samþykkt fyrir sitt leyti

Innviðaráðuneytið lagði til í september síðastliðunum að sveitarstjórnir mótuðu sér mástefnu og drög voru lögð fyrir bæjarráð í janúar á þessu ári sem voru svo sent  til umsagnar til menningarmálanefndar, fræðslunefndar, íþrótta- og tómstundanefndar, og velferðarnefndar. Að fengnum umsögnunum tók bæjarráðið fyrir málið að nýju og gekk frá því til bæjarstjórnar.

Í upphafsorðum málstefnunnar segir að vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, sé lykilatriði í allri þjónustu og stjórnsýslu Ísafjarðarbæjar. Þá segir:

„Allar almennar upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins skulu, auk íslensku, einnig vera til á ensku og öðrum tungumálum eftir því sem kostur er. Tryggja skal réttindi fólks af erlendum uppruna í þjónustu og samskiptum við yfirvöld sveitarfélagsins, með því að bjóða þeim sem ekki geta skilið eða tjáð sig á íslensku, endurgjaldslausa túlkaþjónustu, í samræmi við verkferla um túlkaþjónustu.“

Starfsfólk Ísafjarðarbæjar skuli leitast við að nota íslensku í störfum sínum og stjórnsýslu nema í sérstökum aðstæðum sem krefjist þess að starfsfólk noti önnur tungumál t.d. í upplýsingamiðlun til erlendra ferðamanna, í boðuðum viðtölum í skólum og félagsþjónustu við fólk með annað móðurmál en íslensku. Auk þess skuli starfsfólk kalla eftir aðkomu túlka þegar nauðsynlega er talin þörf á í samráði við næsta yfirmann.

Allar upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins, útgefið efni, fundargerðir og önnur gögn skuli vera á vandaðri, skýrri og auðskiljanlegri íslensku, auk erlendra tungumála ef þess er talin þörf.

Íslenska skuli vera meginsamskiptamál í þjónustu og vinnuumhverfi starfsstaða Ísafjarðarbæjar.

Þau sem koma fram fyrir hönd Ísafjarðarbæjar skuli tala og rita vandað mál og sýna vinsemd og virðingu í öllum samskiptum og þjónustu. „Eigi það við um öll tungumál, íslensku sem önnur. Vandað mál er markvisst og í samræmi við málvenjur, í viðeigandi málsniði og ritað í samræmi við gildandi reglur og réttritun.“

Reglurnar munu taka gildi frá og með 21. mars að fengnu samþykki bæjarstjórnar.

Helsingi

Helsinginn er önnur tveggja ,,svartra“ gæsa sem fara um landið, er á stærð við heiðagæs og blesgæs.

Hann verður best greindur á áberandi skörpum skilum dökka litarins að ofan og hvíta litarins að neðan, svo og hvítu andliti, kverkum og vanga. Hann hefur svarta augnrák, er svartur á kolli, hnakka, hálsi og bringu, og bak og yfirvængir eru blágrá með hvítjöðruðum svörtum þverrákum. Vængir virðast gráir að ofan á flugi, dökkir að neðanverðu. Fuglinn er ljósgrár að neðan, með hvítar stélþökur og svart stél. Fullorðinn helsingi og ungfugl eru mjög líkir. Kynin eru eins, en gassinn er sjónarmun stærri en gæsin.

Helsingi flýgur sjaldnar í oddaflugi en aðrar gæsir sem hér fara um en er oft í óskipulegum, þéttum hópum eða löngum röðum. Er stærri en margæs og með hægari vængjatök.

Helsingi er grasbítur sem sækir talsvert í tún á vorin, en einnig í úthaga og votlendi. Varpfuglar ala unga sína við ár og jökullón. Fæða þeirra er væntanlega kornsúra, starir og sef. Ber eru mikilvæg fæða á haustin ásamt kornsúrurótum og stararfræjum.

Af fuglavefur.is

Biskupskjör – Kynningarfundur á Ísafirði

Niðurstöða tilnefninga til kjörs biskups liggja fyrir. 160 djáknar og prestar tilnefndu og mátti tilnefna einn til þrjá úr hópi vígðra og guðfræðinga.

Sr. Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogssókn í Reykjavík fékk 65 tilnefningar. Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson sóknarprestur í Lindakirkju í Kópavogi fékk 60 atkvæði. Sr. Elínborg Sturludóttir prestur við Dómkirkjuna í Reykjavík fékk 52 atkvæði.

Kosið verður á milli þessara þriggja í aprílmánuði.

Sérstakur kynningarfundur með þessum þremur prestum verður í Fræðslumiðstöð Vestfjarða mánudagskvöldið 8. apríl kl. 20:00.

Ungmennaþing Vestfjarða

Ungmennaþing Vestfjarða fer fram á Ísafirði dagana 11.-12. apríl 2024.

Þingið er opið ungmennum fæddum á árunum 2006-2011 með lögheimili á Vestfjörðum.

Þingstjóri er Sævar Helgi Bragason, betur þekktur sem Stjörnu-Sævar.

Markmið þingsins er að gefa ungmennum frá Vestfjörðum tækifæri til að kynnast hvort öðru, fræðast um samfélagið og valdefla þau til að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif. Þinginu lýkur með kjöri í Ungmennaráð Vestfjarða, sem starfar sem ráðgefandi nefnd fyrir stjórn Fjórðungssamband Vestfirðinga.

Á þinginu munu þátttakendur hljóta fræðslu, fá tækifæri til að tjá sig og læra hvert af öðru, ásamt því að fara í sund og skemmta sér saman á kvöldvöku.

Þátttaka á þinginu er gjaldfrjáls en skrá þarf þátttöku.

Stækkaðu framtíðina – Fólk utan höfuðborgarsvæðisins hvatt til að taka þátt

Verkefnið „Stækkaðu framtíðina“ tengir fólk af vinnumarkaði við skólastofur landsins til að segja nemendum frá starfi sínu og menntun. Þannig víkkar sjóndeildarhringur nemenda og öll ungmenni á Íslandi fá tækifæri til að eiga fyrirmynd.

Það er einfalt að taka þátt. Þú skráir þig sem sjálfboðaliða og þá getur kennari boðið þér í heimsókn. Kennarinn hjálpar þér svo að undirbúa heimsóknina þannig að þú vitir hvernig er best að haga henni og spjalla við nemendur, á hvaða aldri sem þeir eru.

Þú ræður hversu margar heimsóknir þú tekur að þér – allt eftir tíma þínum og áhuga. Heimsóknirnar geta farið fram á staðnum eða í gegnum netið.

Stækkaðu framtíðina er íslensk útgáfa af breska verkefninu Inspiring the Future. Verkefnið hóf göngu sína í Bretlandi árið 2012 og hafa um 75.000 sjálfboðaliðar tekið þátt í því. Verkefnið er rannsóknamiðað og er einnig haldið úti í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Sviss auk þess að teygja anga sína víðar.

NýMennt (Nýsköpun og Menntasamfélag á Menntavísindasviði HÍ) heldur utan um verkefnið hér á landi en það var sett á laggirnar af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Þarf allt að 1.000 íbúðir á Vestfjörðum

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu.

Á hinum nýja vef Vestfjarðastofu Inwest.is kemur fram að vöxtur í atvinnulífi Vestfjarða í tengslum við ferðaþjónustu og fiskeldi  kalli á aukningu í íbúðabyggingu á svæðinu. Miðað við ráðgerðan vöxt í grunnatvinnuvegum og tengdum þjónustugreinum næstu árin, þá staðreynd að íbúðahúsnæðir skorti fyrir eldra fólk sem vill minnka við sig og mikla þörf fyrir hentugt leiguhúsnæði fyrir fólk sem vill flytja á vaxtasvæðið Vestfirði þá sé þörf fyrir allt að þúsund íbúðir á Vestfjörðum á næstu 5 árum.

Bent er á þessa þörf sem tækifæri til fjárfestingar í íbúðarhúsnæði. Fasteignaverð á Vestfjörðum hefur farið hækkandi á Vestfjörðum síðustu ár og muni það verða jafnt byggingarkostnaði.

Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu segist vilja leggja áherslu á að „við erum að stíga fyrstu skrefin við að kynna fjárfestingamöguleika á Vestfjörðum og vefurinn er hluti af stærra verkefni við að laða að fjárfestingar og stuðla að uppbyggingu á svæðinu.  Vefurinn er í stöðugri þróun og hægt að bæta við upplýsingum inn á hann hvenær sem er.  Vefurinn er unninn í góðu samstarfi við fyrirtæki og sveitarfélögin á svæðinu.  Við þiggjum allar ábendingar um vefinn og efni inn á hann. „

Nýjustu fréttir