Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 138

Edinborgarhúsið: Mikael Máni með tónleika

Gítarleikarinn Mikael Mánu heldur tónleika í Edinborgarhúsinu á Ísafirði laugardaginn 23. mars næstkomandi. Hann hlaut nýverið Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir bestu plötu ársins í flokki Jazztónlistar. Húsið opnar kl 20:00 og miðar verða seldir við hurð.

Miðaverð: 3.000 kr.

Staðsetning og tími: Bryggjusalur 23. mars.

Ekkert ferðaveður á Vestfjörðum

Appelsínugul viðvörun vegna veðurs er í gildi á Vestfjörðum í dag og þar er ekkert ferðaveður segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Lokað er á Steingrímsfjarðarheiði, Þröskuldum og Dynjandisheiði. Ennfremur er ófær vegur um Gemlufallsheiði, Súgandafjörð, Súðavíkurhlíð og Kettháls.

Kleifaheiði, Hálfdán og Miklidalur eru skráðir með óvissustig og gæti vegurinn lokast með stuttum fyrirvara. Óvissusti er á Flateyrarvegi vegna snjóflóðahættu. Vegurinn er ófær og beðið er með mokstur vegna veðurs.

Snjóþekja er á milli Bolungarvíkur og Súðavíkur ásamt éljagangi eða skafrenningi.

Alþingi: lagt til að lögfesta eldisgjald

Patrekshöfn.

Innviðaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á hafnalögum. Meðal tillagna í frumvarpinu er að fjölgað verði hafnagjöldum og bætt við svonefndu eldisgjaldi. Ákvæðið verði svohljóðandi: Eldisgjald af eldisfiski, þ.m.t. eldisseiðum, sem alinn hefur verið í sjókvíum eða ætlaður er til slíks eldis, sem umskipað er, lestaður er eða losaður í höfnum.

Fyrir eru skipagjöld, vörugjöld, hafnsögugjöld, leigugjald, leyfisgjald, lóðargjald, festargjald, sorpgjöld, vigtar- og skráningargjald, umsýslugjald og  gjöld fyrir endursölu á vatni og rafmagni og kostnaði er því fylgir.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að fiskeldisfyrirtæki eigi í viðskiptum við hafnir víðs vegar um landið. Ýmiss konar skip í slíkum rekstri nýta hafnirnar í störfum sínum og geta sum fyrrnefndra gjalda átt við eftir þeirri þjónustu sem veitt er hverju sinni. Einn þátturinn í starfsemi fiskeldisfyrirtækja varðar flutning eldisfisks um hafnir, þ.e. umskipun, lestun og losun.

Hafnir hafa byggt á ákvæði um laganna aflagjald. Þá segir í greinargerðinni: „Sum fiskeldisfyrirtæki hafa mótmælt lögmæti slíkrar gjaldtöku með þeim rökum að heimildin nái samkvæmt orðanna hljóðan til afla sjávarútvegsfyrirtækja en ekki til eldisfisks frá fiskeldisfyrirtækjum. Notkun á höfnum hefur í för með sér slit á hafnarmannvirkjum og kröfur um endurbætur og uppbyggingu hafnarmannvirkja í samræmi við þarfir atvinnulífsins. Með frumvarpi þessu er farin sú leið að í stað aflagjalds sem hingað til verið grundvöllur gjaldtöku hafna af eldisfiski, m.a. með samningum á grundvelli 4. mgr. 17. gr. laganna, komi sérstakt gjald, eldisgjald sem sérstaklega taki til eldisfisks.“

Arctic Fish hefur gert samning við Bolungavíkurhöfn um greiðslu aflagjalds af lönduðum eldisfiski til slátrunar. Arnarlax hefur greitt Vesturbyggð aflagjald samkvæmt tiltekinni gjaldskrá, en mótmælti hækkun gjaldsins og hefur ekki greitt hækkunina. Höfðaði Vesturbyggð mál á hendur fyrirtækinu vegna þess sem ekki var greitt, en Hérðasdómur Vestfjarða sýknaði Arnarlax af kröfunni, þar sem fiskeldisfyrirtæki væru ekki sjávarútvegsfyrirtæki og eldisfiskur væri ekki sjávarafli og því væri ekki heimilt að innheimta aflagjald af afurðinni. Vesturbyggð hefur áfrýjað dómnum til Landsréttar.

Í gildandi ákvæði laganna segir að miða skuli við að gjaldtaka standi undir rekstri hafnarinnar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, afskriftum, kostnaði við endurnýjun hafnarinnar og stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun hafnarinnar. Í frumvarpinu segir um hið nýja gjald að ekki sé kveðið á um með hvaða móti hafnir skuli meta veitta þjónustu, þ.e. hvaða einingar skuli miðað við í gjaldskrá og er það sett í hendur hverrar hafnar fyrir sig að ákveða á hvaða grunni gjald er ákveðið.

„Frábært að vera kominn aftur“ – Friðrik Þórir ráðinn þjónustustjóri VÍS á Ísafirði

Friðrik Þórir Hjaltason hefur verið ráðinn þjónustustjóri VÍS á Ísafirði. Friðrik er fæddur og uppalinn á Ísafirði og hefur leikið knattspyrnu með Vestra undanfarin ár.

„Það er gaman að vera kominn aftur á heimaslóðir og ég er fullur tilhlökkunar að kynnast viðskiptavinum okkar enn betur á Vestfjörðum og Vesturlandi. Við hjá VÍS leggjum mikið upp úr því að veita afbragðsþjónustu og ég er spenntur að takast á við þær áskoranir sem því fylgja. Ég er að taka við mjög góðu búi af Guðna sem hætti á dögunum en ég fékk að læra af honum í nokkurn tíma, auk þess sem hann kemur reglulega í kaffi til okkar að taka stöðuna á okkur.“ Segir Friðrik léttur í skapi.

Fluttur til baka

Friðrik Þórir er fæddur og uppalinn á Ísafirði og er að flytja til baka eftir nám fyrir sunnan. „Fólk kannast mögulega betur við foreldra mína, þau Hjalta Karls og Siggu Láru. Ég hef líka verið í fótboltanum alla mína tíð og mun spila með Vestra í sumar. Ég fór í nám suður að læra stjórnmálafræði árið 2018 en byrjaði hjá VÍS árið 2022. Ég kom þó alltaf á sumrin til að spila fótbolta en það er frábært að vera alveg fluttur til baka og vera hér yfir veturinn líka.“

Efla þjónustuna

„Í dag erum við þrjú á skrifstofu VÍS á Ísafirði en við erum að leita að öflugum aðila í teymið til að þjónusta viðskiptavini okkar á Vestfjörðum og Vesturlandi. Það er góð stemning hjá okkur og við vinnum þétt með öðru starfsfólki VÍS um allt land. Það er gaman að tilheyra fyrirtæki sem er að efla sig á landsbyggðinni“ segir Friðrik en í byrjun sumars mun ný þjónustuskrifstofa opna í Reykjanesbæ.

Alltaf heitt á könnunni

„Tryggingar eru kannski ekki alltaf skemmtilegar en þess vegna erum við hér, til þess að aðstoða við allt sem viðkemur tryggingum. Svo má líka alltaf spjalla um boltann við mig. Endilega heyrið í okkur eða kíkið til okkar í kaffi!“

Hægt er að ná af Friðriki í síma 5605132 eða fridrikh@vis.is

Skrifstofa VÍS er í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði, Hafnarstræti 1.

Sautján styrkir til Vestfjarða úr Húsafriðunarsjóði samtals 30,9 m.kr.

Prestbústaðurinn í Aðalvík fékk 2 m.kr. styrk. Myndin er tekin í júní 2010 að lokinni messu. Mynd: Áthagafélag Sléttuhrepps.

Minjastofnun Íslands hefur lokið úthlutun úr Húsafriðunarsjóði þetta árið. Húsafriðunarsjóði bárust alls 241 umsókn um styrk samtals að upphæð 1.283.649.610 kr. Styrkir voru veittir til 176 verkefna, samtals að upphæð 297.600.000 kr. 

Í flokknu friðlýstar kirkjur voru veittir 35 styrkir samtals 68 m.kr. Þar af voru tveir styrkir til Vestfjarða. Árneskirkja eldri, Trékyllisvík fékk 3 m.kr. styrk og Þingeyrarkirkja, Dýrafirði 4 m.kr.

Friðlýst hús og mannvirki, þar voru veittir alls 26 styrkir alls 55,2 m.kr. Einn styrkur var til vestfjarða. Það var Vatneyrarbúð, Aðalstræti 1, Patreksfirði sem fékk 2,5 m.kr. styrk.

Friðuð hús og mannvirki var viðamikill flokkur. þar voru veittir 87 styrkir samtals 139,7 m.kr. Til verkefna á Vestfjörðum voru nokkrir styrkir.

Eyri, íbúðarhús, Ingólfsfirði fékk 700 þús kr.

Gramsverslun, Vallargötu 1, Þingeyri 700 þús kr.

Guðnabúð, Fjarðargata 13, Þingeyri 900 þús kr.

Herkastalinn, Mánagötu 4, Ísafjarðarkaupstað 800 þús kr.

Hesteyri, skólahús, Jökulfjörðum 4.500 þús kr.

Hólar, gamli bær, Dýrafirði 2.300 þús kr.

Merkisteinn, Aðalstræti 72, Patreksfirði 700 þús kr.

Prestbústaðurinn, Stað, Aðalvík 2.000 þús kr.

Sundstræti 35b, Ísafjarðarkaupstað 400 þús kr.

Sveinseyri, gamli bærinn, Tálknafirði 2.500 þús kr.

Sveinseyri ytri, Steinhús, Tálknafirði 900 þús kr.

Tangagata 4, Ísafjarðarkaupstað 2.000 þús kr.

Þvergata 3, Ísafjarðarkaupstað 2.000 þús kr.

Í flokknum önnur hús og mannvirki voru veittir 18 styrkir að fjárhæð 19,2 m.kr.

Einn styrkur var til Vestfjarða Eyri, síldarverksmiðjan, Ingólfsfirði 1 m.kr.

EYJASURTLA

Eyjasurtla er stuttvaxinn og smávaxinn fiskur. Hrygnur eru með veiðistöng sem er 30,5-36 mm löng, ljósfæri án þráða út frá endanum, en tveir þræðir, án hliðargreina, eru á efri hluta „perunnar“,- engir þræðir aftan við „perugatið“.

Skeggþráður um helmingur af lengd að sporði, ógreindur hluti stofns 25-35% af lengd að sporði; skiptist síðan upp í fjórar aðalgreinar, tvær þær fyrstu einfaldar með fá Ijósfæri á hvítleitum enda, hinar tvær enda í 2-4 mjóum hvítleitum þráðum sem hver er með röð af Ijósfærum. Eyjasurtla getur orðið a.m.k. 20 cm löng.

Heimkynni. Til skamms tíma var eyjasurtla einungis þekkt undan ströndum Madeira í sunnanverðu Norður-Atlantshafi, en þar hafa þrjár hrygnur veiðst. Í maí 2006 veiddist 9,3 cm löng eyjasurtla í flotvörpu djúpt suðvestur af Reykjanesi (u.þ.b. 62°30′ N, 27°30′ V) og í júlí 2007 veiddist 20 cm hrygna á 350-950 m togdýpi í Grænlandshafi (62°44,5’N, 35°31,5’V). Þessi seinni fundur er utan Íslenskrar lögsögu, en sú hrygna var með áfastan hæng, 3,7 cm langan, og er þetta í fyrsta sinn sem eyjasurtluhrygna finnst með áfastan hæng. Einnig er þetta stærsta hrygna sem vitað er um.

Lífshættir. Eyjasurtla er miðsævis- og djúpfiskur, en lífshættir eru að öðru leyti óþekktir. Hængar eru dvergvaxnir og lifa áfastir hrygnunum.

Af vefsíðunni hafogvatn

Út er komin skýrslan Leiðir að Byggðafestu

Dreifing nýrra smita á jóladag á Vestfjörðum.

Út er komin skýrslan Leiðir að Byggðafestu eftir Hlédísi Sveinsdóttur og Björn Bjarnason. Skýrslan er unnin á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga (FV), Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV) og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV).

Aðdraganda skýrslunnar má rekja til fundar landshlutasamtakanna þriggja og þingmanna kjördæmisins um stöðu sauðfjárræktar í landinu. Byggðastofnun hafði þá í skýrslu um málefnið dregið upp afar dökka mynd af stöðu og framtíðarhorfum sauðfjárræktar á Íslandi. Þar var það jafnframt metið svo að verst kæmi þetta niður á Dalabyggð, Reykhólahreppi, Húnaþingi vestra og Ströndum.

Landshlutasamtökin þrjú fengu styrk úr C1 lið Byggðaáætlunar til að hvetja til verðmæta- og nýsköpunar á þessum landsvæðum sem mest hafa átt undir sauðfjárrækt. Fyrsta skrefið við framkvæmd verkefnisins var tækifæragreining, annað skrefið er stefnumótun og þriðja skrefið fræðsla og tengslamyndun til framkvæmdar fyrrgreindra tækifæra. Leiðir að byggðafestu felur í raun í sér í senn stöðu- og tækifæragreiningu sem undirbýr jarðveginn fyrir þriðja skrefið.

Þar sem höfuðvígi sauðfjárræktar er strjálbýlið er áhersla lögð á að mæta því í þeirri vinnu sem fram hefur farið og tilgangurinn að efla frumkvöðlastarf á lögbýlum. Ætlunin er að veita frumkvöðlum stuðning og hvatningu og fara í fræðslu og tengslamyndun með þeim.

Fiskveiðar og arkitektúr í Vísindaporti

Í Vísindaporti föstudaginn 22. mars mun André Tavares,arkitekt,halda erindi sem nefnist „Fiskveiðar og arkitektúr.Samfellan í vistfræðilegu þróunarferli bygginga og fisktegunda. Að hve miklu leyti getur fiskur mótað byggingarlist?“

Í erindi sínu mun André Tavares rekja félagsvistfræðilega sögu byggingarlistar í Norður -Atlandshafi í tengslum við fiskveiðar. Skoðuð verða tengsl milli sjávarumhverfis og landslags, og einnig verður lagt mat á vistfræðileg áhrif sjávarútvegsmannvirkja og náttúruauðlinda sem þau reiða sig á.

Seinna þennan sama dag kl. 16:00 verður kynning og almennar umræður um vinnustofuna Cod, Construction and Communities, Tracing Ísafjörður´s Ecologies þar sem þessi fræði verða skoðuð út frá sjónarhóli arkitektúrs annarsvegar og fiskveiða hinsvegar. Verkefnið er unnið í samvinnu við Háskólasetur Vestfjarða og styrkt af Evrópusambandinu.

André Tavares er arkitekt og starfar sem fræðimaður við arkitektúrdeild háskólans í Porto þar sem hann leiðir verkefnið “Fiskveiðar og arkitektúr”. Hann stjórnaði 2016 Lisbon Architecture Triennale, Form of Form, og hefur skrifað fræðibækur um arkitektúr eins og The Anatomy of the Architectural Book og Vitruvius Without Text ásamt óútkominni bók Architecture Follows Fish.

.

Erindið er á ensku og fer fram í kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða frá kl. 12.10 til 13.00

Erindinu er streymt í gegnum zoom hlekk og má finna slóðina hér:

https://eu01web.zoom.us/j/6994747

Norðaustan stórhríð á morgun

Versnandi færð og varasamt ferðaveður seinni partinn í dag. Norðaustan 13-20 m/s og snjókoma og skafrenningur með slæmu skyggni.

Á morgun er appelsínugul viðvörun frá kl. 6:00 í fyrramálið og fram á föstudag og gert ráð fyrir norðaustan stormi, 18-25 m/s og talsverðri snjókomu og skafrenningi með mjög lélegu skyggni.

Ekkert ferðaveður.

Fiskeldissjóður: sótt um styrki að fjárhæð 1.540 m.kr.

Menntaskólinn á Ísafirði.

Alls bárust umsóknir frá átta sveitarfélögum um styrk úr Fiskeldissjóði samtals að fjárhæð 1.540 m.kr.

Tvö sveitarfélaganna eru á Austfjörðum. Fjarðabyggð er með 5 umsóknir samtals að fjárhæð 543,3 m.kr. og Múlaþing lagði inn tvær umsóknir um styrk samtals að fjárhæð 165,5 m.kr.

Hæsta fjárhæðin er frá Fjarðabyggð , en sótt er um 245,2 m.kr. styrk vegna lengingar ´bryggju á Fáskrúðsfirði. Múlaþing sækir um 151 m.kr. styrk til þjónustumiðstöðvar , hafnahúss og slökkvistöðvar á Djúpavogi.

Sjóðurinn hefur 437,2 m.kr. til úthlutunar sem nemur 28% af umsóttri fjárhæð. Tekjur Fiskeldissjóðs koma frá fiskeldisgjaldi sem lagt er á eldisfyrirtæki. Tveir þriðju gjaldsins rennur í ríkissjóð en þriðjungur gjaldsins fer til Fiskeldissjóðs.

Sex sveitarfélög á Vestfjörðum sóttu um styrki fyrir 832 m.kr. Þar af er hæst fjárhæðin frá Ísafjarðarbæ 298 m.kr. auk 50 m.kr. umsóknar vegna verkmenntahúss við Menntaskólann á Ísafirði sem þrjú sveitarfélög sækja um sameigilega, Ísafjarðarbær, Bolungavík og Súðavíkurhreppur.

Nýjustu fréttir