Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 137

Viðtalið: Daníel Jakobsson

Daníel Jakobsson framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish.

Þennan föstudag tókum við tali Daníel Jakobsson fyrrverandi bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Okkur langaði að vita hvað hann er að bralla í dag og fá að vita aðeins meira um hann og hans áhugamál.

Í dag er ég að vinna á skrifstofunni hjá Arctic Fish. Við í Arctic erum að ala lax og rekum seiðaeldisstöð í Tálknafirði og erum með eldisstöðvar í sjó í Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði, Dýrafirði og Ísafjarðardjúpi. Til viðbótar erum við með vinnslu í Bolungarvík og skrifstofu á Ísafirði. Nú eru um 120 starfsmenn hjá félaginu og við erum að framleiða um 11.000 tonn af slægðum laxi á ári. Félagið er með sterkt bakland, stærsta eldisfyrirtæki í heimi, Mowi á ríflega helming og Síldarvinnslan á um þriðjung. Afgangurinn er í dreifðri eigu. Þannig að bakland félagsins eru með mikla kunnáttu og fjárhagslega öflugt.

Mitt starf hjá Arctic er í viðskiptaþróun. Í því felast m.a. öll leyfismál og sala og svona hitt og þetta sem fellur til hverju sinni í ungu fyrirtæki. Það er gefandi að taka þátt í uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum. Þetta er gríðarlega mikil innspýting sem hefur algjörlega snúið við efnahagslífi Vestfjarða. Það er í raun magnað að hugsa til þess að nú vinna um 350 manns hjá fyrirtækjum í fiskeldi á Vestfjörðum sem voru nánast ekki til fyrir tíu árum. Á þessu ári eru þessi fyrirtæki að flytja út vörur fyrir hátt í 40 milljarða sem duga í um 100 milljónir máltíða. Til viðbótar hafa svo fyrirtæki eins og Kerecis, Arna og fleiri skapað mörg störf og fyrir var hérna mjög sterkur sjávarútvegur og þjónusta og mörg opinber störf. Það er alls ekki sjálfgefið en gríðarlega jákvætt.

Þessi viðsnúningur á atvinnulífinu er svo forsenda fyrir lífsgæðum okkar sem hér búa og við finnum það öll sem búum á Vestfjörðum að þessi uppbygging í atvinnulífinu skiptir okkur öll máli. Þegar að fólksfækkun hætti, hækkaði fasteignaverð og fólk gat aftur farið að kaupa og selja eignir. Þeir sem vilja færa sig út af svæðinu geta losað eignir og aðrir koma í staðinn og geta jafnvel fengið nýjar íbúðir. Það að fólk upplifi sig ekki í vistarböndum skiptir máli.

Og, af því að spurt er um áhugamál þá má segja að eitt af mínum áhugamálum sé einmitt, samfélagsmál. Ég var lengi í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar og það var ákaflega gefandi að taka þátt í því og gera bæinn aðeins betri á hverju ári. Ég held einmitt í þeim efnum að nú þegar að atvinnulífið hefur eflst og fjárhagur sveitarfélaganna er að braggast þurfum við sem samfélag að horfa meira til þess hvað fólk gerir utan vinnutíma. Við eigum náttúrulega æðislega náttúru og hér er hægt að fá fjölbreytta afþreyingu utan vinnutíma. En við getum gert mun betur og þurfum að gera betur til að standast samkeppni við önnur svæði þegar kemur að lífsgæðum. Að mínu mati höfum við setið aðeins eftir þegar kemur að íþróttamannvirkjum sem dæmi. Önnur sveitarfélög hafa verið að koma sér upp knattspyrnuhúsum, sundlaugum, fimleikahöllum og líkamsræktarstöðum. Við höfum ekki náð að fylgja þessari þróun eftir. Þetta skiptir fólk máli þegar kemur að lífsgæðum. Það væri t.d. æðislegt að hafa á Torfnesi, alvöru íþróttamiðstöð með sundlaug, líkamsrækt og knattspyrnuhúsi. Við þurfum að finna leiðir til að koma þessu upp, jafnvel þó að það taki tíma. Sama á við um skíðasvæðið, það er geimsteinn sem þarf að þróa. T.d. mætti hugsa sér að færa gönguskíðin nær fólki og troða brautir í bænum. Það mundi einfalda aðgengi að íþróttinni og gangandi gætu nýtt brautirnar líka til útivistar. Nýta stígana sem búið er að koma upp og troða þá á veturna. Sama á við um skólamál. Við þurfum að tryggja fé í uppbyggingu skólanna þannig að húsnæðið sé nútímalegt og búnaður sé í takt við kröfur samtímans. Svona hlutir skipta okkur máli sem búum hérna og þá sem eru að skoða  að flytja hingað og við þurfum öll sem hér búum að stuðla að því að samfélagið verði aðeins betra á hverju ári.

Annars er ég bara brattur, sól fer hækkandi á lofti. Það er hvergi betra að vera en á Vestfjörðum þegar sólin sest ekki. Það eru forréttindin að fá að búa á svona stað.

Bíldudalur: sex skólastjórar á einni mynd

Skólastjórarnir sex. Myndina tók Vèdís Eva Elfarsdóttir, dótturdóttir Nönnu Sjafnar, nemandi í 9. bekk Bíldudalsskóla.

Sex skólastjórar Bíldudalsskóla fyrrverandi og núverandi í tímaröð voru samankomin á árshátíð skólans sem var haldin í gær. Þau búa öll enn à Bíldudal og þrír síðustu skólastjórarnir voru nemendur í Bíldudalsskóla.

Þess má geta að Lilja Rut Rúnarsdóttir, núverandi skólastjóri er dóttir Nönnu Sjafnar Pétursdóttur.

Skólastjórarnir eru talið frá vinstri: Jörundur Garðarsson, Jón Ingimarsson, Nanna Sjöfn Pètursdóttir, Àsdís Snót Guðmundsdóttir, Signý Sverrisdóttir og Lilja Rut Rúnarsdóttir.

Alþingi: vilja skýrslu um skeldýrarækt

Halla Signý Kristjánsdóttir (B) alþm og átta aðrir þingmenn Framsóknarflokksins hafalagt fram á Alþingi beiðni um skýrslu frá matvælaráðherra um skeldýrarækt.

Fara þeir fram á að matvælaráðherra flytji Alþingi skýrslu um skeldýrarækt. Í skýrslunni komi fram:
     a.      umfang skeldýraræktar frá árinu 2011,
     b.      áhrif laga um skeldýrarækt, nr. 90/2011, á greinina,
     c.      munur á regluverki, gjaldskrám og leyfum eftir stærð skeldýraræktar,
     d.      samanburður á starfsumhverfi og samkeppnishæfni við önnur Evrópulönd,
     e.      kröfur sem gerðar eru um sýnatöku og með hvaða hætti stjórnvöld geti einfaldað það ferli,
     f.      framtíðarsýn ráðherra að því er varðar skeldýrarækt.

Í greinargerð sem fylgir með skýrslubeiðninni segir að í skeldýrarækt felist ræktun skeldýra með skipulegri umhirðu og vöktun á afmörkuðu svæði þar sem engin fóðrun á sér stað. Hluti af ræktun er einnig skipuleg söfnun og veiði á skeldýrum til áframhaldandi ræktunar. Sú skeldýrarækt sem helst hefur verið stunduð á Íslandi er línurækt.

Þá segir að ræktun skelfisks hafi átt erfitt uppdráttar hérlendis sökum mikils eftirlitskostnaðar, „en nefna má að í Danmörku er fastur kostnaður vegna eftirlits tengdur umfangi framleiðslu. Skeldýrarækt er mjög umhverfisvæn og til hennar þarf hvorki áburð né fóður heldur einungis sjó. Aðstæður hér við land eru fullkomnar til skeldýraræktar, sem er ein sjálfbærasta matvælaframleiðsla sem völ er á. Mikilvægt er að auka framleiðslu á matvælum sem hægt er að rækta á sjálfbæran hátt. Þótt gríðarleg tækifæri felist í aukinni skeldýrarækt er ekkert fjallað um framtíðarmöguleika hennar í nýlegri skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi. Þess vegna er brýnt að safna saman fjölbreyttum upplýsingum um greinina á einn stað.“

Í nýútkominni skýrslu, sem Fjórðungssamband Vestfirðinga stendur að, leiðin að byggðafestu, er vikið að kræklingarækt og þar segir að „á fyrsta áratug aldarinnar gætti víða mikils áhuga á að stunda kræklingarækt hér á landi og reyndu margir fyrir sér. Í upphafi annars áratugs aldarinnar samþykkti Alþingi lög sem drápu alla kræklingarækt í landinu.“

Haft er eftir Oddnýju Önnu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka smáframleiðenda matvæla og Beint frá býli að árið 2011 hefðu verið sett lög um skeldýrarækt sem þáverandi formaður Samtaka atvinnulífsins hefði sagt að ætti frekar að kalla „lög um bann við skeldýrarækt“. Leyfisveitinga- og eftirlitskerfið í kringum greinina hefði kæft greinina í fæðingu.

Fjarskiptastofa vill vita af áformum um lagningu ljósleiðara.

Ljósleiðari plægður í jörð á Ströndum. Mynd: strandir.is

Fjarskiptastofa kallar eftir áformum fjarskiptafyrirtækja og opinberra aðila um uppbyggingu ljósleiðara-aðgangsneta á þéttbýlisstöðum og í byggðakjörnum fyrir árslok 2026.

Fjarskiptastofa, sem er undirstofnun háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins.

Skorað er á öll þau sem hafa áform um uppbyggingu ljósleiðara-aðgangsnets fyrir árslok 2026 að senda Fjarskiptastofu upplýsingar um áformin.

Skilafrestur rennur út á hádegi föstudagsins 13. apríl næstkomandi.

Áformakönnun Fjarskiptastofu er að beiðni fjarskiptasjóðs í þeim tilgangi að leiða í ljós hvar slík aðgangsnet verða byggð upp á markaðsforsendum fyrir árslok 2026 og hvar ekki.

Ný bók um morðin á Sjöundá og Illugastöðum

©Kristinn Ingvarsson Már Jónsson og Jón Torfason

Út er komin bókin Þessi frægu glæpamál: Morðin á Sjöundá og Illugastöðum. Það eru Már Jónsson, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði HÍ og Jón Torfason, fyrrverandi skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands sem rita ítarlegan inngang og tóku saman heimildir sem eru gefnar út í heild sinni í fyrsta sinn í þessari bók. Útgefendur eru Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar og Háskólaútgáfan. 

Í bókinni birtast yfirheyrslur og héraðsdómar í tveimur frægustu morðmálum Íslandssögunnar, sem áttu sér stað á Sjöundá á Rauðasandi í Barðastrandarsýslu árið 1802 og Illugastöðum á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu árið 1828. Þrátt fyrir mikla og tíða umfjöllun eru málin ekki vel þekkt af þeirri einföldu ástæðu að frumheimildir hafa ekki verið aðgengilegar á prenti. Umræða hefur þar af leiðandi ýmist tekið mið af skáldsögum eða sagnaþáttum sem fremur byggja á sögusögnum en frumgögnum, þótt vitaskuld séu á því undantekningar. Morðin á Jóni Þorgrímssyni, Guðrúnu Egilsdóttur, Natan Ketilssyni og Pétri Jónssyni og aftökur Bjarna Bjarnasonar, Friðriks Sigurðssonar og Agnesar Magnúsdóttur, að ógleymdum skyndilegum dauðdaga Steinunnar Sveinsdóttur, vöktu athygli á sínum tíma og áhugi á þessum atburðum hefur viðhaldist til þessa dags. Morðin og aftökurnar hafa eðlilega blandast saman í huga almennings, sagnfræðinga og skálda en í þessari bók er skilið á milli með þeim hætti að birt eru gögn um rannsókn málanna tveggja í héraði eftir skjölum í Þjóðskjalasafni Íslands, en ekki um aftökurnar. Mestum tíðindum sætir að sú gerð dómsins í Sjöundámáli sem einkum hefur verið stuðst við í umfjöllun reynist vera fölsun.

Í inngangi er atburðarás lýst í meginatriðum og meðferð málanna reifuð, en jafnframt vikið að síðari umfjöllun, skáldlegri sem fræðilegri; síðast en ekki síst verður varðveittum gögnum lýst nokkuð rækilega. Lesendur geta nú metið málsatvik og greint á milli þess sem satt er og logið í öðrum ritum eða öllu heldur á milli þess, sem rannsókn leiddi í ljós á sínum tíma, og þess sem aðrir hafa aukið við, hvort sem það nú er byggt á heiðvirðum sögusögnum eða uppspuna.

Mast endurnýjar leyfi Arctic Sea Farm í Patreks- og Tálknafirði

Eldiskvíar í Tálknafirði. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Matvælastofnun hefur endurnýjað rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. til fiskeldis í Patreks- og Tálknafirði í samræmi við lög um fiskeldi. Matvælastofnun auglýsti tillögu að rekstrarleyfi á vef stofnunarinnar þann 3. nóvember 2023 og var frestur til að skila inn athugasemdum til 1. desember 2023.

Nýja leyfið gildir til 21.3. 2040 eða í 16 ár og veitir leyfi fyrir kvíastæði í Kvígindisdal í Patreksfirði og Hvannadal í Tálknafirði.

Arctic Sea Farm sótti um endurnýjun á rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis í Patreks- og Tálknafirði á 7.800 tonna hámarkslífmassa af laxi. Umsókn um endurnýjun á núverandi rekstrarleyfi var móttekin þann 27. desember 2022. Starfsemin er einnig háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Heimilt er að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um útgáfu rekstrarleyfisins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur einn mánuður.

Mislitir sokkar til að fagna fjölbreytileikanum

Í dag er alþjóðlegur dagur Downs-heilkennis en 21. mars ár hvert er tileinkaður heilkenninu og honum fagnað víða um heim. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti árið 2011 að 21. mars ár hvert skuli vera Alþjóðlegur dagur Downs-heilkennis en eitt barn af hverjum sjö hundruð sem fæðast í heiminum er með Downs-heilkenni.

Það er engin tilviljun að þessi dagur og dagsetning skyldi hafa þetta hlutverk því Downs-heilkenni orsakast af auka litning í litningi 21, þ.e. 3 eintök af litning 21 – 21.03.

Tilgangur dagsins er því að vekja almenning til vitundar um fólk sem fæðist með þetta heilkenni, þarfir þeirra, óskir, drauma og vanda sem það þarf að glíma við og hægt er að lesa nánar um það á vefsíðunni downs.is.

Samanburður fasteignagjalda heimila árið 2024

Byggðastofnun hefur fengið Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) til að reikna út fasteignamat á sömu viðmiðunarfasteigninni um land allt. 

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m² að grunnfleti og 476 m³ á 808 m² lóð. Fasteignagjöld eru reiknuð út af Byggðastofnun samkvæmt álagningarreglum ársins 2024 eins og þær eru í hverju sveitarfélagi, út frá fasteignamatinu sem HMS reiknar og gildir frá 31. desember 2023. Útreikningar voru gerðir fyrir 103 matssvæði í 49 sveitarfélögum.

Heildarfasteignamat (húsmat og lóðarmat) viðmiðunareignar er að meðaltali 63,2 m.kr. en fasteignamat er mjög mismunandi eftir því hvar á landinu fasteignin er. Fasteignamat viðmiðunareignar í greiningunni er hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 111,3 m.kr. að meðaltali. Utan höfuðborgarsvæðisins er fasteignamat hæst á Akureyri, á Akranesi, í Keflavík og í Hveragerði.

Lægsta meðalfasteignamat landshluta er á Vestfjörðum 37,0 m.kr. og á Austurlandi 38,1 m.kr.

Samkvæmt Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hækkaði heildarfasteignamat íbúðareigna um 13,7% milli áranna 2023 og 2024. 

Mesta hlutfallslega hækkun fasteignamats viðmiðunareignar frá 2023 til 2024 var á Seyðisfirði 46,4% en þar næst á Þingeyri 39,5%, í Höfnum 38,7% og á Patreksfirði 38,0%.

Þó fasteignagjöld séu ekki í fullkomlega beinu flútti við fasteignamat eru nokkuð sterk línuleg tengsl milli heildarfasteignamats og heildarfasteignagjalda viðmiðunareignarinnar eins og sjá má á punktaritinu hér að ofan. Línan sem dregin er í gegnum punktana 103 er aðhvarfslína og matssvæði þar sem fasteignagjöld eru frábugðin öðrum stöðum með sambærilegt fasteignamat lenda þá langt fyrir ofan eða neðan línuna.

Hagstofan: fækkar landsmönnum um 17 þúsund

Hagstofan birtir í dag nýjar tölur um mannfjöldi á Íslandi og segir hann vera 383.726 þann 1. janúar 2024. Það eru nokkuð aðrar tölur en finna má á vef Þjóðskrár. Þar kemur fram að mannsfjöldinn sé í dag 400.905. Þarna munar liðlega 17 þúsund manns tölum tveggja ríkisstofnana.

Það er einkum munur á fjölda útlendinga. Þjóðskrá segir þá vera 76.335 en Hagstofan segir að þann 1. janúar sl. hafi útlendingar verið 63.528. Munurinn er nærri 13 þúsund manns.

Íslenskir ríkisborgarar eru taldir vera 320.198 í tölum Hagstofunnar en 324.570 hjá Þjóðskrá Íslands. Munurinn er liðlega 4.000 manns.

Hagstofa Íslands hefur endurbætt aðferð sína við útreikninga á mannfjölda. Hingað til hefur íbúafjöldi eingöngu byggt á skráningu lögheimilis í þjóðskrá. Ný aðferð byggir á breiðari grunni opinberra gagna; skattagögnum og nemendagögnum auk þjóðskrár segir í frétt Hagstofunnar. Niðurstaðan er sú að 1. janúar 2024 hafi íbúar verið um 15.245 færri en eldri aðferð gaf til kynna.

Pólverjar þriðjungur útlendinga

Eins og síðustu ár voru Pólverjar langfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara hér á landi þann 1. janúar 2024 samkvæmt þessum nýju tölum Hagstofunnar. Alls voru 22.693 einstaklingar með pólskt ríkisfang eða 35,7% allra erlendra ríkisborgara. Pólskir karlar voru 36,7% allra karla með erlendra ríkisborgarétt þann 1. janúar 2024, eða 13.187 af 35.929. Pólskar konur voru 34,5% af erlendum kvenkyns ríkisborgurum. Næstfjölmennasti hópur erlendra ríkisborgara var frá Litháen, 7,2% en 5,6% erlendra ríkisborgara koma frá Úkraínu.

Hlutfall útlendinga er langhæst á Suðurnesjum 26,8%. Næst koma Vestfirðir með 20,1%, Suurland 17,1% og höfuðborgarsvæðið 16,2%

Uppfært kl 14:58. Bætt var við málsgrein sem skýrir breytinguna hjá Hagstofunni.

Reykhólahöfn: samið við Geirnaglann ehf

Mynd af höfinni frá 2013.

Reykhólahreppur hefur ákveðið að taka tilboði Geirnaglans ehf í nýja þekju og lagnir á höfninni á Reykhólum. Tvö tilboð bárust og var tilboð Geirnaglans ehf lægra eða 96,3 m.kr. en þó 18,4% yfir áætluðum verktakakostnaði.

Verkinu á að vera lokið í lok nóvember næstkomandi og lýkur þar með endurbótum á höfninni í Karlsey sem munu kosta liðega 300 m.kr. þegar upp verður staðið.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahreppss agði í samtali við Bæjarins besta að mikil breyting verði frá því sem áður var. Höfnin verði stærri og aðstaða mun betri. Hún hefur verið endurgerð auk þess sem horft hefur verið til framtíðar með lagnakerfi að annan aðbúnað. Sérstaklega er litið til möguleika á orkuskiptum.

Ríkissjóður greiðir 90% kostnaðar og sveitarfélagið 10%.

Sumarið 2022 urðu verulegar skemmdir á höfninni þegar þáverandi bryggja hrundi í sjóinn. Var í framhaldinu hafist handa við endurbæturnar.

Mynd: aðsend.

Nýjustu fréttir