Fimmtudagur 12. september 2024
Síða 136

Byggðastofnun: fasteignamat viðmiðunarhúss lægst á Vestfjörðum

Patreksfjörður. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Byggðastofnun hefur birt útreikninga á fasteignamati viðmiðunarhúss í þéttbýsli um land allt. Það er Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem hefur unnið gögnin og útreikningana fyrir Byggðastofnun.

Matssvæðin eru alls 103 á landinu í 49 sveitarfélögum, þar af 27 á höfuðborgarsvæðinu og 76 utan þess.

Viðmiðunareignin er einbýlishús sem er 161,1 m2 að grunnfleti og 476 m3. Stærð lóðar er 808 m2.

Staðsetningar matssvæðanna má sjá hér á kortinu.

Staðsetning fasteignar hefur mikið að segja um verð hennar og þar með fasteignamat. Fasteignamat
viðmiðunareignarinnar í þessari greiningu endurspeglar því best verð hennar á matssvæðum þar sem er virkur fasteignamarkaður.

Meðaltal heildar fasteignamats viðmiðunareignar á öllum 103 matssvæðunum er 63,2 m.kr. (tafla 1). Meðaltal matssvæðanna 27 á höfuðborgarsvæðinu er 111,3 m.kr., á Suðurnesjum 61,2 m.kr. (6 svæði), á Vesturlandi 46,3 m.kr. (11 svæði), á Vestfjörðum 37,0 m.kr. (12 svæði), á Norðurlandi vestra 40,3 m.kr. (5 svæði), á Norðurlandi eystra 46,0 m.kr. (16 svæði), á Austurlandi 38,1 m.kr. (12 svæði) og á Suðurlandi 56,4 m.kr. (14 svæði).

Samkvæmt þessari töflu er fasteignamat viðmiðunarhússins lægst á Vestfjörðum, en þar er meðaltal fasteignamatsins á sex matssvæðum í fjórðungnum 37 m.kr. Hæst er matið á höfuðborgarsvæðinu 111,3 m.kr. Það má því ætla að 74 m.kr. hærra verð fáist fyrir viðmiðunarhúsið á höfuðborgarsvæðinu en á Vestfjörðum. Fasteignamatið á Vestfjörðum er 59% af landsmeðaltalinu 63,2 m.kr. en aðeins 33% af fasteignamatinu á höfuðborgarsvæðinu.

Mest hækkun á Patreksfirði

Á síðustu 10 árum, frá 2014 til 2024, hefur fasteignamatið hækkað um 87% að meðaltali á landinu. Mest hefur hækkunin verið 173% og er það á Patreksfirði. Bolungavík er í þriðja sæti yfir mesta hækkun á þessu tímabili með 126% á eftir Úlfarsárdal með 129%. Ísafjörður nýrri byggð hefur hækkað um 100% á tímabilinu. Minnst hefur hækkunin verið í Grundarfirði 12% og næst minnst 25% á Hólmavík.

Fyrirstöðugarður við Norðurtanga: samið við Grjótverk ehf

Frá framkvæmdum við Norðurtanga. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Frá framkvæmdum við Norðurtanga. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hafnarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að taka tilboði Grjótverks ehf. í verkið Fyrirstöðugarður við Norðurtanga, áfangi II., að upphæð 31.051.000 kr. Fyrirstöðugarðurinn verður lengdur um 180 metra.

Kostnaðaráætlun var 45 m.kr. og tilboðið því 31% undir áætluninni.

Önnur tilboð sem bárust voru:

Öll tilboð eru með virðisaukaskatti.

Helstu stærðir eru:
Grjót og kjarni úr námu samtals um 11300 m3
Upptekt og endurröðun um 2330 m3

Páskaeggjamót Góu og Vestra

Hið árlega páskaeggjamót Vestra og  Góu í körfubolta fer fram venju samkvæmt á skírdag. Hefst það kl. 10.30.

Yngri iðkendur hefja leik kl. 10.30 en fullorðnir kl. 12.00. Keppendur hvattir til að mæta tímanlega. 

Þátttökugjaldið það sama og mörg undanfarin ár eða 
kr. 1000 á mann í elstu flokkum
kr. 500 í yngri flokkum
kr. 0 fyrir iðkendur 16 ára og yngri hjá Kkd. Vestra

Reglur í mótinu:

Stefnt er að keppni í eftirfarandi flokkum
16 ára og eldri karla
16 ára og eldri kvenna
13-15 ára drengir
13-15 ára stúlkur
11-12 ára drengir(minnibolti, 5. og 6. bekkur)
11-12 ára stúlkur(minnibolti, 5. og 6. bekkur)
8 – 10 ára , (3. og 4. bekkur)

Ekki opið fyrir 2. bekk og yngri sökum fjöldatakmarkana.

Heimilt að vera með blönduð lið

Heimilt fyrir yngri en 16 að keppa í fullorðinsflokki

Reglur í mótinu:

Mótstjórn hefur óskorað vald til breytinga á flokkum, fer eftir skráningum hvernig endanleg skipting verður.  Skráning fer fram á mótsstað.

Í elsta flokki er óheimilt að manna lið 2 meistaraflokksmönnum, meistaraflokksmaður telst sá sem spilaði meira en 40 mínútur samtals með liði sínu í 1.deild og ofar skv. tölfræðisíðu KKÍ  í vetur.

Spilað í 5 mínútur, sóknin dæmir. Lið skiptast á að vera í sókn(ekki make it take it). Verði lið jöfn í leikslok þá ráðast úrslit í vítakeppni.  

Vítakeppni fer þannig fram að einn fultrúi úr hvoru liði tekur víti.  Ef jafnt eftir fyrstu umferð þá er komið að næsta leikmanni.  Ef lið inniheldur 3 leikmenn þá er komið að honum, svo koll af kolli þar til úrslit fást.

Framtíð rammaáætlunar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flutti ávarp við upphaf málsstofu um framtíð rammaáætlunar.

Stór og fjölbreyttur hópur tók þátt í málstofu um framtíð rammaáætlunar sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið boðaði til í Lestrarsal Þjóðmenningarhússins sl. þriðjudag og þá fylgdist fjölmennur hópur með málstofunni í gegnum streymi.

Málþingið markar upphaf vinnu starfshóps, sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði til að endurskoða verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun).

Starfshópinn skipa þau Hilmar Gunnlaugsson, hrl, sem er formaður hópsins, Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi ráðherra umhverfis- og auðlindamála, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, fyrrverandi alþingismaður. Þau Hilmar, Björt og Kolbeinn skipuðu í fyrra starfshóp um málefni vindorku, sem skilað hefur ráðherra tillögum sínum og mun vinna þess hóps nýtast við endurskoðun rammaáætlunar.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnarinnar er kveðið á um endurskoðun laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, til að tryggja megi ábyrga og skynsamlega nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi. 

Í ávarpi sínu við upphaf málstofunnar nefndi ráðherra þær áskoranir sem Íslendingar standi nú frammi fyrir vegna grænna orkuskipta og þann góða grunn sem orkuskipti fyrri kynslóða búi þjóðinni.

Stafrænt strandsvæðisskipulag

Skipulagsstofnun hefur gefið út gagnalýsingu sem lýsir tilhögun gagna og innihaldi stafræns strandsvæðisskipulags. Er henni ætlað að samræma gögnin og auðvelda notkun þeirra og túlkun.

Strandsvæðisskipulag Austfjarða og Vestfjarða var unnið á stafrænan hátt í samræmi við lög um skipulag haf- og strandsvæða.

Gögn stafræns strandsvæðisskipulags eru öllum opin og er hægt að nálgast gögnin í gegnum lýsigagnagátt LMÍ eða skoða þau í vefsjám strandsvæðisskipulags Austfjarða og Vestfjarða.

Stafrænt skipulag felur í sér að skipulagsuppdrættir eru unnir í landupplýsingakerfi þar sem stefna og skipulagsákvæði sem uppdrátturinn endurspeglar eru vistuð í töflu sem er tengd afmörkun á uppdrættinum

Sveitarstjórnarkosningar í sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar

Ráðhúsið í Vesturbyggð.

Sameining Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar í eitt sveitarfélag hefur verið staðfest af innviðaráðuneytinu og munu sveitarstjórnarkosningar fara fram í nýju sveitarfélagi 4. maí næstkomandi.

Landskjörstjórn vill vekja athygli á stuttum frestum fyrir kosningarnar:

  • Frestur fyrir umsóknir námsmanna búsetta á Norðurlöndunum til að fá að kjósa er til 25. mars nk.  Umsóknum er beint til Þjóðskrá Íslands, sjá nánar hér:  https://skra.is/folk/kjorskra-og-kosningar/kjorskra/namsmenn-a-nordurlondum/
  • Frestur til að skila inn framboðslistum til yfirkjörstjórnar sveitarfélagsins er til kl. 12 á hádegi 29. mars nk.
  • Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 5. apríl á skrifstofum sýslumannsembættanna og í sendiráðum erlendis.

Óveðrið að ganga niður – mokstur að hefjast

Óveðrið sem hefur gengið yfir Vestfirði er að ganga niður samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Enn eru vegir lokaðir en verið er að undirbúa að hefja mokstur og Djúpið og Steingrímsfjarðarheiðin gætu opnast í dag seinnipartinn. Þá er verið að huga að mokstri vestur frá Ísafirði og ef vel gengur gæti opnast að Dýrafjarðargöngum í kvöld.

Áformað er að opna Dynjandisheiði á morgun ef veður leyfir.

Heiðar á sunnaverðum vestfjörðum eru opnar, Hálfdán, Miklidalur og Kleifaheiði.

Vegfarendur eru beðnir um að fylgjast með skilaboðum um opnum vegna og mokstur.

Hóll í Firði: deiliskipulag afgreitt

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar afgreiddi í gær deiliskipulag fyrir sumarhúsabyggð í landi Hóls í Firði í Önundafirði. Deiliskipulagssvæðið er norðvestan við bæjarstæði Hóls, svo til mitt á milli Hóls og Vífilsmýrar.

Í nóvember 2022 sendi Ísafjarðarbær deiliskipulagið til Skipulagsstofnunar tl afgreiðslu. Um er að ræða 7,2 ha svæði með fimm frístundalóðum þar sem allt af 150 fermetra byggingum á hverri lóð. Skipulagsstofnun gerði athugasemdir við staðsetningu lóðanna og að gera þyrfti grein fyrir vatnstökusvæði.

Skipulags- og mannvirkjanefnd Ísafjarðarbæjar gerði í mars 2024 breytingu á uppdrættinum í framhaldi af athugasemdum Skipulagsstofnunar og sendi til bæjarstjórnar og taldi jafnframt ekki ástæðu til að auglýsa skipulagið að nýju.

Listasafn Ísafjarðar: Haminn neisti

Ragnhildur Weisshappel
29.03 – 01.06 2024

Listasafn Ísafjarðar býður gesti velkomna á opnun einkasýningar Ragnhildar Weisshappel; HAMINN NEISTI. Opnun verður á föstudaginn langa, 29. mars kl.16.00 í sal Listasafns Ísafjarðar á annarri hæð í Safnahúsinu Eyrartúni. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Ragnhildur Weisshappel sýnir ný verk unnin úr sykurmolum og gifsi. Á sýningunni teflir Ragnhildur saman að því er virðist handahófskenndum munum og hlustar á þá af titrandi þolinmæði. Hálf-mekanísk nákvæmni, tilraunakenndur ófullkomleiki, leifar á stalli og tilviljanir er meðal þess sem lýsir listsköpun Ragnhildar Weisshappel. Hún veltir vöngum um ólík sjónarmið, ólíkar leiðir og dvelur í möguleikunum. Ragnhildi tekst að virkja ímyndunarafl áhorfandans til að sjá ótæmandi möguleikana og upplifa frelsið í þeim. Titill sýningarinnarvísar í ferlið þegar listamaðurinn kemur hugmynd í einhverskonar form og þarf að halda sér við efnið.

Ragnhildur Weisshappel (f. 1989) nam myndlist á Íslandi og Frakklandi. Hún vinnur í ýmsa miðla og notar þá sem tæki til að þýða úr einu í annað. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga innanlands og utan. Sýningin Haminn neisti er þriðja einkasýning hennar. Ragnhildur býr og starfar í Svarfaðardal.

Aðgangur ókeypis
Listasafn Ísafjarðar hlýtur stuðning Ísafjarðarbæjar og sýningin er styrkt af Myndlistarsjóð.

Vesturbyggð: hafnasjóður kaupir Vatneyrarbúðina

Hafna- og atvinnumálaráð Vesturbyggðar hefur samþykkt að hafnasjóður Vesturbyggðar kaupi fasteignina Vatneyrarbúð, Aðalstræti 1 á Patreksfirði, af bæjarsjóði Vesturbyggðar.
Stofnun Vatneyrarbúðar, þekkingarseturs, liggur fyrir í húsnæðinu þar sem megináherslan verður á Þekkingasetur fiskeldis. Skrifstofuaðastaða verður fyrir allt að 18 manns í húsnæðinu og verður aðstaðan leigð út til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana. Starfsemin innan húsnæðisins hefur mikla tengingu við aðra starfsemi á hafnarsvæðinu.

Í fjárhagsáætlun Vesturbyggðar árið 2024 er gert ráð fyrir að hafnarsjóður kaupi Vatneyrarbúðina af sveitarfélaginu. 

Verðið sem miðað er við í fjárhagsáætluninni er bókfært verð eignarinnar sem er 78 milljónir samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu Vesturbyggðar.

Vatneyrarbúð, sem byggð var 1916, var friðlýst af forsætisráðherra að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands 10. nóvember 2014. Friðlýsingin nær til ytra borðs hússins.

Húsafriðunarsjóður veitti á dögunum 2,5 m.kr. styrk til Vatneyrarbúðar.

Nýjustu fréttir